Kassabílar, kvikmyndagerð, sund og sæla

Nýkomin með rútunniDagur 1 byrjaði strax um tíuleytið þegar fyrstu börnin mættu á staðinn. Það var sól og það var logn og allir voru kátir. Rútan kom klukkan ellefu en þá féllu nokkrir dropar úr lofti. Við settum hraðamet í því að koma töskunum inn ... þurrum.

Umsjónarmennirnir tóku vel á móti hópunum sínum og eftir að hafa aðstoðað börnin við að koma sér fyrir í herbergjunum var sest niður og spjallað saman. Farið var í sýningarferð um svæðið, nokkur voru að sjá það í fyrsta sinn, önnur voru heimavanari, höfðu komið áður, samt alltaf gott að rifja upp. Svo þurfti að kynnast betur en það tekur aldrei neitt langan tíma.Á öðrum degi eru börnin eins og heima hjá sér, búin að kynnast hvert öðru og þá verður enn skemmtilegra. :)

Útisvæðið var vinsælt fram að mat en þá bauð eldhús dýrðarinnar upp á pasta og glóðvolgar nýbakaðar hvítlauksbollur.

Í matsalnum eftir kaffiÞá var kynning í íþróttahúsinu, starfsfólkið kynnti sig allt og síðan var sagt frá námskeiðunum.

Á síðasta tímabili var grímugerðin vinsælust en núna var hún í öðru sæti á eftir kvikmyndagerðinni, þá listaverkagerð og leiklist.

Ekki var eftir neinu að bíða, námskeiðin hófust og voru í tvo tíma, eða fram að kaffi þar sem búið var að töfra fram skúffuköku - og melónur á eftir. 

Síðan voru stöðvarnar opnar en börnin gátu valið um að fara í íþróttahúsið, Spilaborg og vera á útisvæðinu og mikið var farið á milli - enda ótrúlega gaman alls staðar.

Kassabílarnir prófaðirÍþróttahúsið er stórt og alveg einstaklega gaman að leika sér þar, mikið af tækjum og tólum og mikið og margt í boði þar.

Spilaborg er skemmtilegur staður þar sem bæði er hægt að spila pool, borðtennis, lesa, púsla, spila og leika með dót.

Á útisvæðinu eru tvö trampólín, rólur, vegasalt, stéttar til að kríta á, sippa og hoppa, körfuboltavöllur og ... kassabílar. Bílarnir voru í stöðugri notkun en á föstudaginn kemur verður haldið veglegt kassabílarallí. 

 

Hárgreiðslukeppni Ekki nóg með þetta allt, heldur var haldin hárgreiðslukeppni. Mikil þátttaka var, allir fengu viðurkenningu en í efstu sætum voru: 


1. sæti: Ásta Sigríður sem greiddi Lilju Kolbrúnu
2. sæti: Ragnheiður Sunna sem greiddi Elísabetu Láru
3. sæti: Lísa Katrín sem greiddi Heiðu Rós
Krúttlegasta greiðslan: Inga Birna sem greiddi Jóhönnu Leu
Frumlegasta greiðslan: Sema sem greiddi Öldu Maríu

Kvöldmaturinn sló í gegn - grjónagrauturinn sívinsæli, saðsami og góði. Og svo voru borðaðir ávextir í miklu magni.

SundHaldið var út í íþróttahús eftir matinn en þar var haldin mikil brennókeppni milli hópanna. Úrslitin? Jú, jafntefli, keppnisskapið á sínum stað hjá þeim öllum og árangurinn eftir því.

Þá var komið að langþráðu sundinu og gott að enda daginn í sundlauginni þar sem hægt var að hamast og síðan slaka á í heita pottinum. Útilaugin hér að Kleppjárnsreykjum er ekkert annað en dásamleg!

 

Kósí í heita pottinumEkki var alveg allt búið enn, því að nú var komið að kvöldkaffinu, smurðu brauði og safa. Sæl börn yfirgáfu matsalinn, alveg dauðþreytt líka eftir daginn, og háttuðu og burstuðu. Síðan var valin framhaldssaga hjá hverjum hópi og umsjónarmennirnir hófu fyrsta lesturinn.

Þegar ró var komin á tók næturvarslan við. Á morgun bíða fleiri spennandi ævintýri! Veðurspá er ágæt. Mjög hlýtt seinnipartinn og kannski einhverjir regndropar, hlýir þá.

Hér er beinn hlekkur á myndir dagsins: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D1.html#grid

 


Dansmeyjarnar sem hurfu, og fleiri ævintýri

Stelpur í stuðiMikið var þetta indæll dagur, veðrið var frábært, sólin skein og stundum fór hún á bak við ský sem var bara fínt.

Dagurinn hjá börnunum hófst með morgunverðinum góða og síðan voru námskeiðin, ekki veitti af, lokakvöldvakan fram undan.

 

Íþróttahópur í gönguferðSíðustu tökur kvikmyndagerðar-hópsins fóru fram og íþróttahópurinn knái sem sýndi svo ótrúlega flottar listir í gær skellti sér í sund. Grímugerð-listaverkagerð stillti upp listaverkunum og ákvað hvernig sýningin ætti að verða um kvöldið. Svo var kíkt út í góða veðrið.

Slakað var á í smástund á herbergjunum rétt fyrir matinn til að hvíla sig á sólinni, ekki veitti af ... og svo kom þessi fíni hádegisverður, eða fínasti pastaréttur. Börnin tóku vel til matar síns.

Einbeittir í kassabílarallíinuÁ hádegisfundunum var talað um hvað það skiptir miklu máli að koma vel fram við aðra og að láta ekki hafa of mikil áhrif á sig. Börnin drógu miða með jákvæðum staðhæfingum og mikið var rætt á uppbyggilegan hátt.

Þá var komið að námskeiðunum aftur og lögð var síðasta hönd á sýningar kvöldsins. Íþróttahópurinn duglegi fór í skemmtilega gönguferð og strákunum fannst ekki leiðinlegt að vaða!

Boðið var upp á skúffuköku og mjólk í kaffitímanum og einnig melónur á eftir.

Þá var nú bara komið að sjálfu kassabílarallíinu. Keppnin var æsispennandi og sigurvegararnir voru þeir Teddó, Hafsteinn Óli og Elías.

GrímugerðarsýninginEins og venjulega á næstsíðasta deginum, eða daginn fyrir brottför, var óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslatínslu, við að tína saman rusl í kringum sumarbúðirnar og sópa stéttina. Að vanda buðu sig heilmargir fram og ekki leið á löngu þar til allt var orðið mjög fínt. Sérstakur verðlaunakassi tilheyrir þessum atburði og fengu börnin að velja sér verðlaun úr honum - og fannst það hreint ekki leiðinlegt. 

Hátíðarkvöldverðurinn var ekki amalegur. Eldhús gæskunnar bauð upp á hamborgara með öllu ... franskar og gos. Börnin voru búin að skipta um föt og það ríkti algjör hátíðarstemning.

Stóra stundin rann upp - sjálf lokakvöldvakan. Nú átti að sýna afrakstur þrotlausrar vinnu dagana á undan, eða í a.m.k. tvo tíma á dag ... og þessi vinna var svo skemmtileg.

LeiksýninginListaverka- og grímugerðarhópurinn var með glæsilega listaverkasýningu og börnin stóðu eins og myndastyttur með flottu grímurnar sínar á andlitinu. Hin börnin voru stórhrifin af þessum flottu verkum, og það nánast leið yfir starfsfólkið af hrifningu. 

Á eftir tók starfsfólkið Óla í skógi - og það fannst börnunum alveg stórskemmtilegt, enda fyndið lag og fyndið starfsfólk. Síðan var íþróttahópurinn kallaður fram til að hægt væri að klappa almennilega og lengi fyrir honum, þessum frábæru strákum sem voru með sýningu sína kvöldinu áður.

Ávextir í kvöldkaffinuLeiklistarhópurinn var með mjög skemmtilegt leikrit sem fjallaði um konungsveislu þar sem átti að sýna Svanavatnið og ballerínurnar æfðu og æfðu. Einni hertogaynjunni var ekki boðið svo hún setti álög á dansmeyjarnar sem ... hurfu! Með aðstoð vísindanna fundust dansmeyjarnar og álögunum var aflétt. Og jú, hertogaynjunni var boðið í veisluna, mikið var dansað og sungið og allir glaðir. Frábært leikrit hjá hópnum, frumsamið að sjálfsögðu.

Starfsfólkið sýndi síðan Mjallhvíti og dvergana sjö - algjörlega óundirbúið, og það var mjög, mjög fyndið, mikið hlegið.

Þá var það kvöldkaffið og þar voru ávextir í boði og síðan sérstakur glaðningur, eða frostpinnar á línuna ... sem fór vel í mannskapinn.

Auglýsing fyrir stuttmyndinaSíðan var komið að kvikmynd kvöldsins sem var alveg frábær. Hún heitir Heimavistarskólinn og fjallar bæði um nemendur og starfsfólk skólans. Handritið skrifað af hópnum. Ef börnin mættu of seint í skólann voru þau send til skólastjórans. Tvær stelpur skiluðu sér ekki til baka. Hin börnin leituðu að þeim og þau grunaði jafnvel að næturvörðurinn skrítni stæði á bak við þetta. Hann reyndist ekki valdur að hvarfinu en sagði börnunum að skólastjórinn gæti breytt sér í djöful. Vísindamaðurinn á svæðinu bjó til mótefni gegn djöflum og ruddist ásamt börnunum inn til skólastjórans og hellti mótefninu yfir hann. Stelpurnar reyndust vera undir borði skólastjórans og urðu frelsinu fegnar. Skemmtileg mynd og mjög svo vel leikin.

Háttatími var næstur á dagskránni og þegar börnin voru komin upp í rúm fengu þau handskrifaða viðurkenningu frá umsjónarmanni sínum og hversu mörgum plúsum þau hefðu safnað þessa daga - og þeir voru sko margir. 

Bíógestir skemmtu sér konunglegaÞau sofnuðu fljótt og vel, annir fram undan, eða að borða morgunverð, pakka niður í töskur, horfa aftur á bíómyndina Heimavistarskólinn, leika sér úti og inni, borða kakósúpu með tvíbökum í hádegismat, fara út í rútu (eða vera sótt á einkabíl) sem leggur af stað klukkan 13 og vera komin í Perluna um klukkan 14.45 og hitta elsku fólkið sitt. Heilmikil tilhlökkun var hjá þeim þótt þau hefðu skemmt sér konunglega. Við þökkum kærlega fyrir mjög skemmtilegar stundir þessa frábæru daga sem liðu allt of hratt

Hér er slóð á myndir dagsins: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T3D5.html#grid


Hott hott á hesti og allt hitt

Kertagerð Enn skín sólin eins og mest hún má og verður víst ekkert lát á fyrr en um helgina.

Börnin vöknuðu hress og kát í morgun og drifu sig í morgunmat. Margir kíktu í sund á eftir, kertagerð var í föndurstofunni, útisvæðið opið og svo var haldin karókíæfing en keppnin fór fram nú í kvöld.

Yfir 40 kerti voru búin til, stórframleiðsla í gangi en börnin voru mjög spennt fyrir því að búa til kerti til að taka með heim. Kertin voru mjög skemmtilega skreytt og fjölbreytt.

Kvikmyndagerð í tökumKeppendur kvöldsins í Ævintýrabarkanum ákváðu að taka frekar æfingu en að skemmta sér í sundi en skutluðust svo í snögga sturtu og þaðan í kertagerð.

Gómsætur grjónagrautur var í hádeginu og var mikið borðað af honum, einnig ávöxtunum sem voru líka í boði.

Þá voru það hádegisfundirnir með umsjónarmönnunum og síðan var haldið á námskeiðin. Tíminn líður ótrúlega hratt í sumarbúðunum, á morgun verður lokakvöldvakan þar sem öll atriðin verða sýnd, afrakstur námskeiðanna svo börnin brettu aldeilis upp ermar í dag.

Hundur reiðkennarans sló í gegnÍ kaffinu borðuðu þau ævintýraköku og tekex með marmelaði.

 

Flestir skemmtu sér síðan við leik úti í íþróttahúsi eða á útisvæðinu og nokkur börn héldu á reiðnámskeið og var myndavélin með í för þangað eins og sjá má hér og á heimasíðunni.

 

Góðir hestarnirMikil spenna ríkti með kvöldið ... En fyrst var borðaður glænýr steiktur fiskur með hrísgrjónum og karrísósu, eða tómatsósu, og svo var grjónagrautur í eftirmat. Kokkurinn hafði eldað meira en nóg í hádeginu og börnunum þótti ekki amalegt að fá grautinn í eftirrétt, svo góður var hann.

Svo hófst Söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands; Ævintýrabarkinn!

Atriðin voru  einstaklega flott og miklir hæfileikar í gangi. Dómnefndin gaf hverjum og einum stig jafnóðum og síðan voru þau talin saman. Svo jafnt var þetta að tvö atriði fengu jafnmörg stig í þriðja sæti. Á meðan dómnefndin reytti hár sitt og reiknaði sáu ofurhugar um að hoppa af trampólíni yfir á dýnu, íþróttahópurinn var með sýninguna sína.

En hér eru úrslitin í Ævintýrabarkanum:
Frábæru Ævintýrabarkarnir1. sæti    Gyða Ragnarsdóttir > Happy ending

2. sæti    Þórdís Ásta, Thea Lív og Áslaug > Lífið er yndislegt

3. sæti    Kolbrún Matthíasdóttir > Jar of hearts

3. sæti    Linda Björk > Mundu eftir mér (sló saman íslensku og ensku útgáfunni)



Íþróttasýningin var æðislegHugsanlega mun íþróttahópurinn sýna eitthvað meira á morgun en það kemur í ljós. Þetta var stórsýning hópsins og fór fram í kvöld þar sem íþróttahúsið verður undirbúið annað kvöld fyrir forsetakosningarnar á laugardaginn. Þeir voru stórkostlegir, strákarnir. Hoppuðu hver á fætur öðrum af trampólíni yfir hástökksslá á dýnu og sá sem stökk hæst (Teddi) stökk 240 cm. Næsta hæð var ekki til á stöngunum þannig að sláin var sett ofan á þær, líklega um 250 cm, en höfuðið og gusturinn frá kraftmiklu stökkinu urðu til þess að hún féll. Glæsileg sýning og börnin voru mjög spennt, hvöttu strákana áfram og klöppuðu við hvert einasta stökk, sama hvernig það fór.

Börnin fengu síðan ávexti í kvöldkaffi og eftir að þau voru komin í bólið var framhaldssagan lesin í hverju herbergi. Síðan sofnuðu allir hratt og vel, stór dagur að koma, lokakvöldvakan um kvöldið og við hlökkum svo til.

Hér er slóð á myndir dagsins: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T3D4.html#grid

 


Húllumhæ, gleði og gómsætar vöfflur

Brosstrákur á trampólíniGærdagurinn var ógurlega skemmtilegur á allan hátt. Veðrið var gott að vanda og skapið líka. Þetta var sjálfur húllumhædagurinn og litur dagsins var appelsínugulur. Börnin klæddu sig í eitthvað appelsínugult og fleira var appelsínugult þennan dag, í kaffitímanum ...

Kassabílarnir eru svo skemmtilegirNámskeiðin voru, að þessu sinni, á dagskrá eftir morgunmatinn og allt gengur mjög vel, undirbúningur í fullum gangi fyrir sýningar föstudagskvöldsins og heilmikil leynd hvílir yfir. 

 

Í hádeginu voru núðlur og núðlusúpa í boði, og brauð með eggjum og brauð með kæfu. Nammmmm.

 

Hádegisfundir fóru vel fram að vanda og svo var komið að því ...

 

Húllumhædagurinn settur... sjálfur húllumhædagurinn var settur með pompi og prakt!

 

Byrjað var á því að fara í fánaleikinn skemmtilega, og var börnunum skipt í tvo hópa, Martröð og Draum. Börnin fengu andlitsmálningu, annar hópurinn rauða og hinn bláa. Að þessu sinni sigraði Draumur og náði að safna flestum klemmum. 

 

Draumur sigraðiStrax á eftir fór fram sápukúlusprengikeppni en sá sem sprengir flestar sápukúlur á einni mínútu sigrar. Hún Kamilla Rán bar sigur úr býtum og sú gat klappað/sprengt!!!

 

 

Síðan fóru börnin í sundföt en leiðin lá sannarlega ekki út í sundlaug, heldur út á grasbala þar sem við breiddum byggingaplast á grasið, sprautuðum vatni á það og hviss, bang, vatnsrennibraut komin! Rosalega gaman að renna sér.

 

Vá, vá, váBökunarilmur tók á móti börnunum í matsalnum um kaffileytið en hið stórkostlega eldhús hafði hrært í vöfflur og bakað heilan helling af þeim. Einnig var búinn til súkkulaðiglassúr (einu sinni prófað, þú getur ekki hætt) ... og haldið ykkur, rjóminn var appelsínugulur í tilefni dagsins. Skrítinn rjómi en mjög góður, enginn bragðmunur.

 

Appelsínugulur rjómi á vöfflunumNóg var við að vera eftir kaffi. Hin svakalega Jósefína Potter frá Borgarnesi kom og sat í spákonutjaldinu í smástund. Sum börnin fóru til hennar og fannst það ógurlega spennandi. Að vanda fóru þau aðeins að efast og voru alveg viss að þetta væri einhver starfsmaðurinn í gervi spákerlingar en starfsfólkið setti upp undrunarsvip og var jafndularfullt í svörum og börnin þegar þau eru spurð um bíómyndina, íþróttasýninguna, myndlistargjörninginn og það allt sem frumsýna á á föstudaginn ... 

Skartgripagerðin var algjört æði, líka zumba wii-leikurinn, andlitsmálun, keila (líka wii) og tattú. Bandfléttur í hár voru einnig í boði, allir sem vilja bandfléttur fá þessa vikuna.

SápukúlusprengikeppninPylsur voru í matinn, pylsur með öllu og gos með sló í gegn og mikið var borðið. „Æðislega er alltaf góður matur hérna,“ varð einni snúllunni að orði.  Við heyrum þetta mikið, enda er matseðillinn miðaður við smekk barnanna.

 

Og svo kom að draugaleiknum. Hann var haldinn í diskóherberginu. Nokkrar hetjur lögðu í (fyrir hópinn sinn) að sækja glóprik í hinn enda herbergisins og sleppa svo í burtu undan ýmsum forynjum á ljóshraða. Krossfiskarnir voru fljótastir að þessu sinni. Þau Gummi, Apríl og Sindri Steinn hneigðu sig fyrir börnunum eftir að hafa tekið niður grímurnar, en þau léku draugana fyndnu. Mikið var hlegið og skrækt á meðan á leiknum stóð.

Náttfatapartí með popp og safa og bíómyndSíðan var farið í sund og heita pottinn og það var nú gott eftir annasaman dag.

Grunlaus um frekari skemmtun gengu börnin frá sundfötunum sínum, háttuðu sig og fóru á náttfötunum í kvöldkaffið. En það var ekkert venjulegt kvöldkaffi, heldur bíósýning, takk fyrir. Myndin sem kvikmyndagerðarhópurinn á tímabili 1 gerði var sýnd við mikinn fögnuð og börnin mauluðu popp og drukku safa með. Æðislegur endir á góðum húllumhædegi.

Þau voru fljót að sofna, þessu duglegu börn, alveg uppgefin. :)

Myndir frá deginum eru hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T3D3.html  

 


Pítsudiskótattúdagur með meiru

Sundí sundAnnar dagur tímabilsins rann upp og var veðrið sérlega gott, sólríkt að mestu og hlýtt. Börnin voru vel sofin, enda sofnuðu þau langflest mjög snemma eftir virkilega annasaman dag. Ragna næturvörður var alsæl með þessi góðu börn og gaf þeim öllum broskarl.

Morgunverðarhlaðborðið beið barnanna og þar gátu þau valið um hafragraut, kornfleks, súrmjólk, ristað brauð með áleggi, seríos ... Börnin tóku vel til matar síns og svo var haldið út í góða veðrið, nóg við að vera. Sund og önnur skemmtilegheit.

Og meira sundUpp úr klukkan 11 voru börnin boðuð í íþróttahúsið en þar fór fram forvarnaleikrit með starfsfólki í hlutverkum. Leikritið var fyndið og spennandi þrátt fyrir alvarlegan undirtón og tekið mjög vel á eineltismálum, hættum þess að fara upp í bíl hjá ókunnugum, adda hverjum sem er á Facebook og fleira, eins og skort á sjálfstrausti. Leikritið féll í mjög góðan jarðveg hjá börnunum sem höfðu heilmiklar skoðanir á þessum málum. Þeim fannst gott hjá söguhetjunni að fara ekki upp í bíl hjá eiganda sætra hvolpa þótt hann vantaði hjálp með litlu skinnin. Af hverju bað hann ókunnugt barn um að hjálpa sér, var hann kannski að plata? 

Síðan var haldið út í sólina, kassabílarnir svo spennnnnandi og sumir slökuðu á inni í herberginu sínu fram að mat.

Flottur íþróttahópurEldhúsið bauð upp á gómsætt skyr og ávexti að vanda ... og svo var haldið á hádegisfundi en hver hópur fundar daglega með umsjónarmanninum sínum. Tekinn er púlsinn, hvernig líður börnunum, hvernig sváfu þau, farið er í uppbyggjandi og skemmtilega leiki eða spjallað um það sem liggur börnunum á hjarta. Forvarnaleikritið var mikið í umræðunni og allt það sem þarf kom upp. Börnin voru mjög meðvituð um að maður fer ekki upp í bíl hjá ókunnugum. Bara aldrei! Flott hjá þeim.

Námskeiðin hófust klukkan 14. Haldið var áfram með flottu listaverkin síðan í gær, grímurnar voru málaðar og tökur fóru fram hjá kvikmyndagerð. Mikil leynd hvílir yfir myndinni en samkvæmt auglýsingamiðum sem hafa verið hengdir upp um allt heitir myndir Heimavistarskólinn. Þau fengu meira að segja lánaðan bíl (án lykla) fyrir eina tökuna. Leiklistar- og danshópurinn er ekki minna dularfullur og þar er líka æft stíft fyrir lokakvöldvökuna en inn á milli æfinga eru skemmtilegir leikir. Íþróttahópurinn íþróttast út í eitt og upp um allt og er íþróttaþjálfarinn þeirra mjög ánægður með krakkana sína og segir þá mjög duglega. Þetta er allt eins og það á að vera, dásamlega skemmtilegt.

Kvikmyndatökur ... í bílÍ kaffinu var boðið upp á kryddköku ... og, haldið ykkur ... ávexti! Ja, melónur.

Valið sem börnin hafa fellur heldur betur í kramið hjá þeim, það er aldrei sagt: „Jæja, krakkar, nú förum við öll í gönguferð.“ Gönguferðir eru þó í boði fyrir þá sem vilja fara. En eftir kaffi var föndurstofan opin, Spilaborgin líka og á útisvæðinu voru kassabílarnir mjög vinsælir. Skotboltinn réð ríkjum í íþróttahúsinu. Ógurlega fallegar myndir urðu til í föndurstofunni en hitinn úti var svolítið þreytandi svo gott var að kíkja aðeins inn, teikna eins og eina mynd og hlaupa svo út aftur. Góð gæsla er á hverri stöð og börnin aldrei eftirlitslaus.

Tvö tampólínSkömmu fyrir kaffi voru reiðnámskeiðsbörnin sótt en þau fóru með nesti og nýja skó, og brostu svo fallega þegar Siggi rútubílstjóri og Guðrún reiðkennari komu og sóttu þau. Við sendum þau með myndavélina á fimmtudaginn. Þær myndir fara með hinum á heimasíðuna um kvöldið.

Eins og þessi dagur hafi ekki verið fullkominn ... nei, það þurfti að bæta um betur og þegar dásamlegur ilmur barst um allt fóru garnirnar að gaula hjá ýmsum. Eldhús snilldarinnar hafði bakað ótrúlega girnilegar pítsur í kvöldmatinn. Hægt var að fá margarítu, pítsu með skinku og pítsu með pepperoni. Til að spara tíma skiptu börnin um föt rétt fyrir mat, fóru í dansgallann því strax eftir mat fór fram diskótek.

Svo flott tattúMikið var dansað og hoppað og þegar börnin fóru fram til að kæla sig biðu bandfléttu- og tattúmeistarar úr hópi starfsmanna eftir þeim. Það var eiginlega ekki hægt að fara á útisvæðið til að kæla sig því það var glampandi sól úti og jafnmikill hiti og inni á diskóinu Ef maður labbaði mjög hægt eða lagðist í sólbað var þetta bærilegt.

 

Þreytt og sæl börn fengu ávexti í kvöldkaffinu og svo var kvöldsagan góða lesin. Þau sem ekki voru þegar steinsofnuð eftir lesturinn lásu sjálf í smástund en svo sigu augnlokin ...zzzz

 

GrímugerðÁ morgun verður húllumhædagurinn, nokkurs konar 17. júní-dagur sumarbúðanna en þá ríkir hátíðarstemning frá hádegi þegar dagurinn er settur. Appelsínugulur litur verður ríkjandi og við höfum grun um að rjóminn á vöfflunum í kaffitímanum verði appelsínugulur, hvað annað!

 

Hér er beinn hlekkur á myndir dagsins:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T3D2.html#grid

 


Grímugerðin langvinsælust!

Kynning að hefjast í íþróttahúsinuUndir kl. 10 í morgun mættu fyrstu börnin á tímabil 3. Ekki var jafnhlýtt og verið hefur, en logn ríkti og svo hækkaði hitastigið eftir því sem leið á daginn.

Umsjónarmenn tóku á móti hópunum sínum, aðstoðuðu börnin með farangurinn og sýndu þeim herbergin. Síðan settust hóparnir niður, hver með sínum umsjónarmanni, og mikið var spjallað og kynnst og síðan var farinn sýningarhringur um svæðið, bæði úti og inni.

Krossfiskar eru elstu börnin (fjólubláir), blandaður hópur, og umsjónarmaðurinn þeirra er hann Gummi. Gullfiskar (gulir) er stelpuhópur, 7-9 ára, og María er umsjónarmaður þeirra. Hafdís heldur utan um Hafmeyjarnar (bleikar) en það eru 9-11 ára stelpur. Atli er með Sæljónin (blá) sem eru 7-9 ára strákar. Börnin geta vissulega leitað til allra starfsmanna en þau EIGA þennan umsjónarmann alla vikuna. Hann vekur þau, borðar með þeim morgunverð, heldur hádegisfund hópsins, les fyrir þau kvöldsöguna og er til taks fyrir þau. Það er sko ekki amalegt. :) Þetta er frábær hópur, hress og skemmtilegur.

Grímugerð vinsælasta námskeiðiðÞegar þau voru búin að koma sér fyrir var ekki amalegt að fara út að leika, útisvæðið er mjög skemmtilegt með trampólínum, rólum, vegasalti, risastéttum til að kríta á, hægt að sippa, fara í teygjó og margt fleira og nokkur léku sér inni og komu sér enn betur fyrir í herberginu sínu. Svo var bara komið að hádegismat. Pasta og volgar, nýbakaðar hvítlauksbollur.

Eftir mat var farið út í íþróttahús þar sem starfsfólkið kynnti sig. Síðan voru námskeiðin kynnt. Vinsælasta námskeiðið þessa vikuna er grímugerð. Þar á eftir er það listaverkagerð, þá íþróttir og svo kvikmyndagerð. Börnin sem völdu sér leiklist og dans ætla að semja leikrit með dansatriði. Afrakstur námskeiðanna verður síðan sýndur á lokakvöldvökunni, síðasta kvöldið.

Spilaborg Þá var komið að námskeiðunum sjálfum. Tíminn leið hratt fram að kaffi og börnin voru mjög skapandi, fannst þetta ógurlega gaman allt saman.

Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku ... og í eftirrétt voru melónur í miklu magni. Mikið er borðað af ávöxtum í sumarbúðunum - og þeir renna líka vel og hratt niður.

Eftir kaffi var skráning í karókíkeppnina og einnig völdu þátttakendur sér lag til að æfa en þetta er bara vinnuheiti hjá okkur á Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum. Heil níu atriði hafa þegar verið skráð og gæti bæst við á morgun.

Börnin léku sér á útisvæðinu og líka í Spilaborg, dásamlegu leiksvæði sem er yfirfullt af púsluspilum, bókum, spilum, dóti, blöðum og öðrum skemmtilegheitum.

Kassabílarnir eru æðiKassabílarnir nutu mikilla vinsælda og urðu nokkur lið til en það verður haldið æsilegt kassabílarallí á föstudaginn. Svo fór að rigna en þá var bara farið í íþróttahúsið og kassabílarnir fluttir í hús.

Á sama tíma á öðrum stað: Glæsileg hárgreiðslukeppni fór fram og hér eru úrslitin:

1. sæti: Þórdís Ásta greiddi og Sædís Lind var módel
2. sæti: Gyða María greiddi og Kamilla Rún var módel
3. sæti: Auður Anna greiddi og Linda Björk var módel
Krúttlegasta greiðslan: Auður Anna greiddi og Lilja Sól var módel
Frá hárgreiðslukeppninniMest „kúl“ greiðslan: Ísalind Örk greiddi og Thelma var módel
Sætasta greiðslan: Gyða greiddi og Sóley Hrönn var módel
Frumlegasta greiðslan: Þórdís Ásta greiddi og Vicky var módel

Keppendur og módel fengu verðlaun og viðurkenningarskjöl.

Það rignir aldrei lengi á Kleppjárnsreykjum, þeim dásemdarstað, svo ekki svo löngu eftir að fór að rigna hætti að rigna og þá var hoppað út í góða veðrið aftur. Ekki hefðu börnin orðið verri þótt þau hefðu vöknað ... en það er t.d. ekki nógu þægilegt að renna sér á blautri rennibraut þannig að íþróttahúsið var betri kostur, enda stórt og afar skemmtilegt. Einnig smá kósítími inn á herbergjum og í Spilaborg. Byrjað var á að gera bandfléttur í hár svo að allir sem vildu fengju núna næstu dagana.

Í kvöldmatinn var gómsætur grjónagrautur sem féll heldur betur í kramið hjá börnunum ... og svo var auðvitað boðið upp á ávexti og aftur ávexti. Þetta eru sko sumarbúðir hinna miklu ávaxta.

Kvölddagskráin hófst með brennókeppni milli hópanna. Hún var svo jöfn að allir unnu alla!

Gaman í sundiSvo var nú gott að fara í sund á eftir og mikið svamlað, synt og hoppað, heiti potturinn var alveg frábær líka.

Eftir kvöldkaffið, brauð og safa, fóru börn í ból og fengu fyrsta lesturinn á framhaldssögunni en umsjónarmennirnir lásu fyrir sinn hóp bók sem hópurinn kom sér saman um. 

Fínasta veður verður á Kleppjárnsreykjum á morgun, seinnipartinn fer hitinn í 17°C ef marka má hirðveðursíðuna okkar, yr.no. Sól og blíða mestallan daginn. Svona eins og verið hefur í sumar. Ekki sjáum við betur en að hitinn fari upp í 18 gráður á miðvikudaginn.

Myndir frá deginum koma inn á morgun (þri), bæði hingað á bloggið og á heimasíðuna sumarbudir.is.

Beinn hlekkur á myndir dagsins: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T3D1.html

 


Dagur hinnar miklu lokakvöldvöku ...

Draugur í förðunTónlistarval fyrir myndlistargjörninginnVið verðum eiginlega að biðjast afsökunar á sérlega einhæfum veðurlýsingum en veðrið var stórkostlegt enn einu sinni á degi 5, næstsíðasta deginum - degi hinnar miklu lokakvöldvöku.

 

 

 

Börnin snæddu morgunverð að eigin vali, en eins og áður hefur komið fram er heilt hlaðborð í boði af súrmjólk, púðursykri, seríosi, mjólk, ristuðu brauði, áleggi, hafragraut og kornfleksi. Það fer enginn svangur og „bensínlaus“ út í daginn með svona dásemd að morgni til. Þau settust við borðin sín, spjölluðu við umsjónarmanninn sem borðar alltaf með þeim morgunmatinn og línur voru lagðar fyrir daginn.

 

Íþróttahópur undirbýr sigAllra síðustu tökur fóru fram á vegum kvikmyndagerðar. Það þurfti líka að búa til auglýsingar til að setja upp fyrir frumsýninguna. Íþróttahópurinn æfði grimmt fyrir kvöldið, enda von á flottu atriði frá honum. Mikil spenna ríkti hjá grímugerð & myndlist enda átti að setja upp gjörning - glæsilega sýningu á listaverkum sem þau höfðu skapað síðustu dagana.

 

Hálftíma fyrir mat var síðan slökun inni á herbergjum og svo var haldið í matsalinn þar sem pastaréttur a la Ævintýraland var snæddur.

Á hádegisfundunum var talað um mikilvægi þess að koma vel fram við aðra og vera ekki áhrifagjarn. Börnin drógu miða með jákvæðum staðhæfingum sem komu miklum umræðum af stað. Elstu hóparnir fengu blað og hver og einn skrifaði nafn sitt á það, síðan voru blöðin látin ganga á milli og skrifuðu börnin eitthvað fallegt um viðkomandi. Það var ekki leiðinlegt að lesa um sig að maður væri skemmtilegur, sætur, fyndinn og góður og margt fleira uppbyggjandi og jákvætt. :)

Þá voru það námskeiðin AFTUR, á þessum degi veitir ekkert af að hafa þau bæði fyrir og eftir hádegi, mikið að gera við undirbúning og börnin ætluðu að hafa þetta stórkostlegt. Það var svo mikið stuð og gleði.

Duglegir sjálfboðaliðarSkúffukaka með glassúr og tekex með heimalöguðu marmelaði í kaffinu fyrir börnin sem renndu þessu niður með mjólk.

 

RuslatínsluverðlaunÞessi dagur leið hratt en samt ekki nógu hratt að margra mati, tilhlökkunin var allt að trylla og sem betur fer þurfti enginn að sitja og bíða.

 

 

Eins og alltaf á næstsíðasta degi var óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslatínslu en þá er farið um svæðið með poka og allt rusl, visin laufblöð, bréfadrasl sem hefur fokið á svæði Ævintýralands, enginn þar hendir drasli, og margt fleira. Einhverjir tóku sér sóp í hönd og sópuðu stéttarnar sem var kannski eins gott því stutt var í Ævintýrarallí á kassabílum. Þessir duglegu sjálfboðaliðar, strákar sem stelpur, krútt sem dúllur, fengu að velja sér verðlaun úr sérstökum verðlaunakassa sem geymdi ýmis gull, eins og flottar reglustikur, áttavita og flott smádót sem gaman er að fá. Sum börnin skoppuðu úti í íþróttahúsi, önnur sippuðu og húlluðu á útisvæðinu, nóg var að gera hjá öllum.

 

Heil sjö lið tóku þátt í kassabílarallíkeppninni. Eitt barn sat undir stýri og þrjú ýttu bílnum og síðan var ekið eftir fyrirfram ákveðinni leið á nýsópuðum stéttunum ... Tímaverðir og dómarar fylgdust vel með þessari stórskemmtilegu keppni.

 

 

KassabílarallíSigurliðið: Halldóra, Andri Páll, Cristovao og Viktor Örn.

Sigurvegari í húllakeppni: Nína Mijnen

Sigurvegari í sippukeppni: Elín Efemía

 

Smám saman færðist hátíðlegur bragur yfir mannskapinn enda styttist óðum í hátíðarkvöldverðinn, þann síðasta í Ævintýralandi. Ef ekki hefði verið svona bjart hefði verið hægt að tala um jólastemningu ... eða þannig. Þau skiptu um föt rétt fyrir matinn, eins og aðalsfólk fyrri alda sem hafði fátt annað að gera en skipta um föt, og svo var haldið til kvöldverðar.

 

Eldhús dásemdanna hafði undirbúið glæsilega hamborgaraveislu með frönskum, sósu og salati og svo fengu allir gos með. Mikil sæla ríkti með þessa frábæru veislu.

Æðisleg sýningLoks rann stóra stundin upp - lokakvöldvakan. Wizard

 

Hópurinn byrjaði á því að skoða gjörning listabarnanna úr myndlistar- og grímugerðarhópnum en í stað látbragðsleikrits ákváðu þau að vera frekar með gjörning. Gjörningur myndlistar og grímugerðarÞau gengu um salinn með grímur sínar fyrir andlitinu og sýndu þau verk sem þau höfðu skapað að auki. Þetta var margfalt listamannaspjall og sýningarstjórinn var líka á svæðinu. Það eru varla til orð til að lýsa því hversu glæsilegt og skemmtilegt þetta var og varla að myndirnar nái að sýna það nema að litlu leyti.

 

 

Næst var haldið út í íþróttahús þar sem íþróttahópurinn sýndi listir sínar, meðal annars með því að fá starfsfólkið til að spreyta sig með. Skalla-grípa leikur sem var þannig að þegar börnin fleygðu boltanum og sögu grípa þá átti starfsmaðurinn að skalla boltann, og svo öfugt, mjög ruglingslegt og hrikalega fyndið.

Íþróttahópurinn á lokakvöldvökuÞá kom að leikriti starfsfólksins sem er þannig að hver og einn starfsmaður (og eldri starfsmannabörnin) dregur miða úr hatti, hlutverk sitt, sem getur verið nál eða tvinni, skófla eða húfa ... og að þessu sinni var leikritið Öskubuska! Stórmerkilegt hvað gjörsamlega óundirbúið starfsfólkið gat þó leikið en börnin höfðu voða gaman að þessu.

Ávextir voru í boði í kvöldkaffinu og glaðningur á eftir, frostpinni, sem vakti mikla lukku.

 

Bíómynd um sjóræningja, drauga og tímaflakkBíómyndin Undir Ævintýralandi var síðan frumsýnd. Handritið að sjálfsögðu eftir börnin sem líka skipuðu í hlutverk, völdu búninga, æfðu og léku. En myndin fjallar um sjóræningja sem grafa gull og fara síðan fram í tímann til að sækja það. Þeim til mikillar gremju er búið að byggja heilar sumarbúðir yfir fjársjóðinn. Þeir neyðast því til að þykjast vera sumarbúðabörn og reyna að finna gullið með öllum ráðum. Dúkka er við stjórn á tímavélinni og sú  hleypti óvart draugum með fram í tímann og þeir sveima um sumarbúðirnar. Leiðin að gullinu fannst loks inni á strákaklósetti ... en áður en gullið fannst voru allir sendir aftur í tímann á rétta staðinn sinn og sumarbúðirnar fengu að vera í friði.

 

Þegar börnin voru komin í bólið fengu þau skriflega viðurkenningu frá umsjónarmanninum sínum. Einnig kom í ljós hver fékk flesta plúsana í plúsakeppninni. Þau voru ótrúlega fljót að sofna, enda búin á því, og voru full tilhlökkunar yfir heimferðinni.

 

Plakatagerð var í miklum blómaDagskrá brottfarardagsins, dags 6 er:

Pakka niður eftir morgunmat

Horfa aftur á stuttmyndina um sjóræningja á tímaflakki

Leika sér í íþróttahúsinu

Borða kakósúpu með tvíbökum í hádeginu

Rútubörnin fara í rútuna sem leggur af stað kl. 13 og er áætlaður komutími í Perluna kl. 14.45.

 

Takk fyrir frábæra og stórskemmtilega viku!!! Heart

Myndir frá degi 5 eru hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T2D5.html#grid

 


Heimsins bestu hestar og Ævintýrabarkinn

Veðrið var dásamlegt í gær á degi 4 og hefur í raun leikið við okkur frá byrjun. Rigning/skúrir annað slagið en það er líka gaman. Svo margt og mikið að gerast bæði úti og inni.

Eftir morgunverðarhlaðborðið fóru börnin í sund, léku sér á útisvæðinu eða fóru í kertagerð, jafnvel allt þetta, bara eftir vali hvers og eins, og einnig æfðu þátttakendur í Ævintýrabarkanum sig fyrir kvöldið.

Hressir strákar í kertagerðSundið var sérdeilis skemmtilegt að vanda og mikið var hoppað, synt og buslað.

Í kertagerðinni fengu börnin sína bláskelina hvert og eftir að búið var að hella í þær vaxi og setja kveik þurftu börnin bara að bíða í smástund eftir að vaxið storknaði og þá var hægt að skreyta. Glimmer, gular baunir (ósoðnar) og hrísgrjón (ósoðin) nýttust mjög vel til að gera ótrúlega flott kerti. Gaman var líka á útisvæðinu og margt við að vera þar, trampólínin til að hoppa í, stéttin til að kríta á, kassabílar til að lagfæra ... og svo var gott að hvíla sig aðeins frá sólinni og skreppa inn á herbergin sín.

Í hádeginu bauð gúrmei-eldhúsið upp á grjónagraut og svo voru að vanda alls kns ávextir sem börnin röðuðu í sig af mikilli gleði og góðri lyst.

Áfram héldu tökur á stuttmyndinniNámskeiðin fóru í gang eftir hádegisfundina og þessi skapandi börn héldu áfram að gera listaverkin sín, hvort sem um var að ræða myndlist, grímugerð, semja látbragðsleikrit, gera flottar íþróttaæfingar eða fínpússa kvikmyndina en tökur héldu áfram á stuttmyndinni dularfullu.

Í kaffinu var boðið upp á ævintýraköku (heimabakaða sandköku) og tekex með appelsínumarmelaði.

Leikið var úti og inni (í íþróttahúsi) og hluti barnanna fór á reiðnámskeið.

 

á reiðnámskeiðiGuðrún Fjeldsted reiðkennari er engum lík og hestarnir hennar eru mögulega bestu hestar í heimi, að mati barnanna. Fyrst lærðu þau að setja reiðtygin á hestana, síðan voru farnir nokkrir hringir á hestunum inni og síðan var farið út ... og riðið um fallegar slóðir. Nestið úr ævintýraeldhúsinu var borðað úti en eins og allir vita (sem hafa lesið Enid Blyton) bragðast matur betur utandyra.

Keppendur gerðu sig afar fína og sparilega skömmu fyrir kvöldmat því strax eftir matinn átti Ævintýrabarkinn að hefjast.

Eldhúsið bauð upp á glænýjan og góðan steiktan fisk með hrísgrjónum og karrísósu - eða tómatsósu fyrir þá sem það vildu. 

Allir þátttakendur í ÆvintýrabakanumSíðan hófst Ævintýrabarkinn - söngvara- og hæfileikakeppnin sjálf. Keppendur voru frábærir og strax ljóst að mjótt yrði á munum. Þessi börn tóku þátt:

Vinkonurnar Berghildur, Lýdía og Nína sýndu dans við lagið Euphoria.

Halldóra söng Maístjörnuna við undirleik Gumma á gítar.

Ólavía Guðrún sem var líka á tímabili 1 hjá okkur söng Rolling in the Deep en með textanum úr áramótaskaupinu 2011.

Rakel Sandra söng lagið Moves like Jagger.

Tvíburarnir Viktor Örn og Rebekka Rut ásamt stóru systur, Margréti Fríðu, sömdu texta um Sumarbúðirnar Ævintýraland við lagið We are young, og fluttu það.

Júlía Agar og Margrét Fríða sungu Price Tag

Ilido (frá Portúgal) og Örlygur sungu portúgalska lagið Nosa nosa.

Á meðan dómnefnd reytti hár sitt, eins og tilheyrir bara þegar jöfn og skemmtileg keppni fer fram, sýndi Andri Snær skemmtiatrið, hann var með spilagaldur og svona líka skemmtilegan.

Eftir að búið var að leggja saman atkvæðin kom í ljós að eftirtaldir keppendur voru í efstu þremur sætunum:

Ólavía Guðrún Ævintýrabarkinn1. sæti: Ólavía Guðrún

2. sæti: Halldóra

3. sæti: Júlía Agar og Margrét Fríða

Veitt voru verðlaun fyrir efstu sætin en öll fengu börnin viðurkenningarskjöl. Þetta var einstaklega flott og skemmtilegt kvöld.

 

 

Eftir kvöldkaffið var háttað, burstað og skriðið undir sæng og svo lásu umsjónarmennirnir framhaldssöguna, næstsíðasta lestur ... enda næsti dagur síðasti heili dagurinn og lokakvöldvakan um kvöldið. Meira um það í næstu færslu. :)

Hér er slóðin á myndir dags 4: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T2D4.html

 


Óvænt húllumhæ-náttfatabíópartí

Tökur í kvikmyndagerðMyndlist grímugerðVeðrið á þriðja degi var dásamlegt, sérstaklega fyrir hádegi, sól, hiti og blíða. Öðruvísi dagur rann upp, sjálfur húllumhædagurinn sem að auki átti sér sérstakan lit, gulan. Margt var við að vera, eiginlega óvenjumargt og meðal annars fengu börnin andlitsmálun - þess vegna eru svona margir með „glóðarauga“, bara svo það sé á hreinu. :)

 

Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi að þessu sinni og allt gekk að óskum. Tökur eru hafnar í kvikmyndagerðinni, það fór ekkert á milli mála þegar börn í alls kyns búningum með sitt af hverju á höfðinu eða risanef ... þrömmuðu um sumarbúðirnar með tökuvélina á eftir sér og undan. Yfir öðrum námskeiðum hvílir meiri leynd, eins og kvikmyndin sé ekki nógu leyndardómsfull ...

 

Húllumhædagurinn hefstFánaleikurinn að byrjaÍ hádeginu borðuðu börnin núðlur og núðlusúpu og einnig brauð með eggi og kæfu. 

Strax eftir hádegisfundina hófst fánaleikurinn sem var æsispennandi. Börnunum var skipt í tvö lið, Martröð og Draum. Martraðarhópurinn fékk rauða andlitsmálningu og Draumshópurinn bláa. Eftir harða baráttu um klemmur og fána tókst Martröð að knýja fram sigur.

Eftir fánaleikinn átti að fara fram sápukúlusprengikeppni en þá fór að rigna svo börnin fóru í föndurstofuna og spilaborg og einnig var boðið upp á tattú og bandfléttur fram að kaffi.

Góður bökunarilmur var allt og alla að æra en í kaffinu voru vöfflur á boðstólum, vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma. Þar sem dagurinn var GULUR var rjóminn litaður gulur í stíl við allt hitt.

Kósí í í spilaborgVöffluveislaÁ meðan börnin úðuðu í sig nýbökuðum vöfflunum laumaðist gestur á staðinn ... spákonan Jósefína Potter frá Borgarnesi. Hún var bráðfyndin og skemmtileg en til öryggis fengu sum börnin fullorðinsfylgd til hennar. Börnin voru öllu spenntari fyrir því að vita HVER af starfsmönnunum þóttist vera spákona ... en leyndardómurinn upplýstist þó ekki. Það tókst þó að ná mynd af kerlu þegar hún laumaðist á brott.

 

Heilmargt var við að vera, skartgripagerð, bandfléttur, keila og zumba wii, andlitsmálun (glóðaraugun góðu meðal annars) og sápukúlukeppnin en sólin var byrjuð að skína glatt. Eldari Mána tókst að sprengja flestar sápukúlurnar á tilsettum tíma, hátt í milljón ábyggilega ...

 

SápukúlusprengikeppninFrábær sundlaugÍ kvöldmat voru pylsur með öllu, meira að segja gos með, og svo mikið var borðað að ekki var að sjá að þau hefðu nýlega raðað í sig öllum þessum vöfflum ... Mikið voru kokkarnir glaðir.

Draugaleikurinn ógurlegi fór fram í diskóherberginu og það voru sko margar hetjur til í að sækja sér glóstikk inn í dimmt og reykfyllt (jú, við erum með reykvél) herbergið og fljúga síðan út á ljóshraða undan tveimur skrítnum draugum ... 

Mikið var svo gott að fara í sund á eftir - en búið var að tilkynna að draugarnir svakalegu voru bara Gummi og Árni Páll. Þeir voru frábærir og fengu börnin aldeilis til að skríkja og hlæja.

Eftir sundið gengu börnin frá sundfötunum og háttuðu og fóru á náttfötunum inn í matsal. Þar var sko ekkert kvöldkaffi, heldur óvænt náttfatabíópartí. Stuttmyndin sem gerð var á tímabili 1 var sýnd, ásamt annarri og með þeim mauluðu börnin poppkorn og drukku safa.

Þau sofnuðu sæl og glöð eftir frábæran húllumhædag ... og kvöldsöguna.

Óvænt náttfatabíópartíÚrslitin í hárgreiðslukeppninni fyrsta daginn: 

1. sæti: Eva Lind, greiddi Elínu Efemíu

2. sæti: Lilja Hildur, greiddi Ronju Rut

3. sæti: Berghildur, greiddi Lýdíu Hrönn

Frumlegasta hárgreiðslan: Viktor Örn, greiddi tvíburasystur sinni, Rebekku Rut

Sigurvegari keilukeppninnar: Rakel

Sigurvegarar brennókeppninnar fyrsta kvöldið: Krossfiskar

 

Hér er svo hlekkur á myndir af ævintýrum dagsins:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T2D3.html#grid

 


Dýrlegar pítsur og dásamlegt diskó

SundAnnar dagurinn þetta tímabilið var hlýr og góður, engin sól og nokkrir rigningardropar sem sakaði ekki nema síður væri. Þetta er jákvæður og skemmtilegur hópur og svo lystugur að kokkarnir eru í sjöunda himni. Alltaf gaman að gefa lystugum börnum að borða.

Dagurinn hófst með morgunverðarhlaðborðinu dásamlega frábæra. Hægt að velja um hafragraut, súrmjólk, kornfleks, seríos eða ristað brauð með osti og heimagerðu appelsínumarmelaði. Aldeilis hægt að borða aldrei það sama á morgnana - eða alltaf það sama - eða bara prófa allt.

ÚtisvæðiEftir skemmtilegheit af ýmsum toga, sundferð, kósí heitapottssetu, athugun á kassabílunum, enda rallí fram undan og annað slíkt var kallað til fundar/leikrits úti í iþróttahúsi. Starfsmenn léku þar ótrúlega skemmtilegt leikrit með alvarlegum tóni þó, enda forvarnaleikrit.

 

Góðuráðavélin Ping og Pong gaf unglingsstúlkunni Apríl frábær ráð - og Sing (góði) og Song (vondi) vöktu mikla lukku, en þeir voru nokkurs konar samviska Apríl. Song taldi t.d. allt í lagi þótt Apríl færi upp í bíl hjá ókunnuga manninum sem var ráðalaus með móðurlausu hvolpana en Sing fékk hana til að Ping og Ponghugsa ... hvers vegna bað maðurinn ekki eigin fjölskyldu um aðstoð í stað unglingsstelpu sem hann hafði aldrei séð. Börnin voru öll sem eitt innilega sammála Sing og sögðu að Apríl ætti alls ekki að fara upp í bíl með ókunnugri manneskju. Aldrei!!! Song dró úr Apríl varðandi sjálfstraustið og hvíslaði að henni að hún gæti ekkert í stærðfræðiprófinu en Sing peppaði hana upp. Sem betur fer fór Apríl eftir því sem Sing og krakkarnir í salnum sögðu. Frábært leikrit sem tók á hættunum þarna úti og ekki síst á Facebook-samskiptasíðunni.

Eftir leiksýningu var smátími til að gera eitthvað skemmtilegt á útisvæðinu og svo kom hádegismaturinn.

FöndurstofaSumarbúðakokkalandsliðið bauð upp á skyr og safaríka ávexti og síðan var haldið á hádegisfund þar sem hóparnir funduðu hver með sínum umsjónarmanni. Á fundunum var talað um leikritið og kom í ljós að börnin vita fullvel að maður þiggur ekki far með ókunnugum en þeim fannst samt mjög áhugavert að sjá þetta í leikritinu af því að maðurinn með hvolpana var svo greinilega að plata þótt Apríl hefði næstum því trúað honum. Það voru engir hvolpar í bílnum, bara allt í plati. Á þessum hádegisfundum tekur umsjónarmaðurinn púlsinn á hópnum sínum, spyr hvernig börnin sváfu, hvernig þeim líði, það er farið í skemmtilega og uppbyggjandi leiki og málin rædd fram og til baka ef þarf. Meðal annars um einelti og nauðsyn þess að láta sem maður sjái það ekki, frekar að reyna að taka þann sem ráðist er á inn í hópinn sinn. Það var sýnt vel í leikritinu hvað slíkt getur hreinlega breytt lífi viðkomandi til hins betra. :)

Námskeiðin hófust kl. 14. Haldið var áfram með listaverkin þaðan sem frá var horfið í gær, grímurnar voru málaðar hjá grímugerðarhópnum og nú verður látbragðsleikritið æft. Kvikmyndagerðarhópurinn er langstærstur og þar sem handrit var samið í gær var hægt að byrja tökur í dag. Mikil leynd hvílir þó alltaf yfir myndinni og verðum við bara að bíða þar til á lokakvöldvökunni þegar hún verður sýnd. Sama má segja um látbragðsleikritið og íþróttasýninguna ... svakaleg leyndarmál í gangi alltaf ... en kannski getum við njósnað eitthvað og laumað upplýsingum hingað á sumarbúðabloggið.

Börnin voru náttúrlega orðin sársvöng eftir alla sköpunarvinnuna og voru heldur betur sátt við að fá ljúffenga kryddköku með súkkulaðikremi og síðan ávexti í kaffitímanum.

Ýmsar stövar voru opnar eftir kaffi; íþróttahúsið, föndurstofan, spilaborg og útisvæðið en æfingar fyrir rallíið á föstudaginn eru hafnar á fullu.

Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt klukkan 15 og fóru með nesti og brostu hringinn þegar Siggi rútubílstjóri kom að sækja þau. Þau eru afar sátt á námskeiðinu og verða send með myndavél á fimmtudaginn og það kvöld koma svo myndir á heimasíðuna.

Herbergi KrossfiskannaUpp úr klukkan hálfsjö barst guðdómlegur ilmur um öll húsakynni og í ljós kom að kokkarnir voru byrjaðir að baka pítsur!!! Börnin fóru inn á herbergi og skiptu um föt fyrir matinn, enda átti að fara beint á ball á eftir pítsurnar ... legg ekki meira á ykkur.

Heilmikið fjör ríkti á diskótekinu, mikið dansað og svo var limbókeppni, ótrúlega spennandi. Þegar farið var fram til að slaka aðeins á var hægt að fá bandfléttur og tattú. Til að kæla sig enn betur var útisvæðið afar vinsælt.

DiskóSíðan var það kvöldkaffið - ávextir í tonnatali og mannskapurinn var greinilega nokkuð lúinn eftir annasaman og ofboðslega annasaman dag. Mikið var gott að skríða í bólið og hlusta á framhaldssöguna hjá umsjónarmanninum. zzzzZZZZZZZZZ 

Bein slóð á myndir dags 2 er hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T2D2.html#grid


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 90700

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband