Fjör og frábært hár

Hópur með umsjónarmanniAnnar hópur sumarsins kom í hús í gær. Fyrstu börnin fóru að koma strax um tíuleytið en klukkutíma seinna renndi sumarbúðarútan í hlað.

Umsjónarmennirnir tóku á móti börnunum og aðstoðuðu þau með farangurinn og sýndu þeim herbergin sín. Þegar búið var að koma öllu inn settust börnin niður, hver hópur með umsjónarmanni sínum, og síðan var sýningarrúnturinn farinn, úti sem inni.

Kynning í íþróttahúsinuSvo var farið í skemmtilega útileiki fram að mat. Í matinn var pastaréttur og nýbakaðar, volgar hvítlauksbollur.Namminamminammmmmmm.

Þegar umsjónarmenn voru rétt ókomnir inn í matsalinn til að sækja börn sín bjó sumarbúðastjórinn til örlítið prakkarastrik með börnunum, fékk þau til að æfa sig svolítið vegna kynningarinnar sem átti að hefjast í íþróttahúsinu kl. 13. Skríkjandi og hlæjandi gengu börnin út og umsjónarmennirnir vissu ekkert hvað kætti þau svona óvenjumikið. Leyndardómsfullur svipur barnanna ruglaði þá heilmikið í ríminu.

GrímugerðSvo hófst kynningin. Sumarbúðastjórinn bauð börnin innilega velkomin og sagði síðan: „Ég heiti ...“ „SVANHILDUR,“ öskraði salurinn og það leið næstum yfir einn umsjónarmanninn. Sumarbúðastjórinn þóttist vera steinhissa á þessu en hélt áfram: „Og ég er ....“ „... SUMARBÚÐASTJÓRINN!“ æptu börnin og skellihlógu að undrun umsjónarmannanna sem ekki grunaði neitt. En prakkarastrikið féll í góðan jarðveg og mikið var hlegið, ekki síst að undrun umsjónarmannanna. Verst að það var ekki hægt að endurtaka leikinn, sum börnin sögðu: „AFTUR!“

Hluti kvikmyndagerðarhópsinsNú var komið að starfsfólkinu að kynna sig og síðan voru námskeiðin kynnt. Kvikmyndagerð var vinsælust, þá íþróttir, grímugerð og listaverkagerð. Leiklistin var sameinuð kvikmyndagerðinni enda, og Hafdís, leiklistarkennari með meiru, heldur utan um námskeiðið með Davíð kvikmyndasnillingi. Svo þurfa vissulega leikararnir að læra sitt af hverju í leiklist áður en tökur hefjast, ekki satt?

Námskeiðin fóru á fullt
- það var hamast í íþróttahúsinu, börnin bjuggu til grímur og önnur listaverk og handrit kvikmyndagerðar var samið. Námskeiðin eru í tvo tíma á dag og á lokakvöldvökunni er afraksturinn sýndur. Látbragðsleikrit grímugerðar, íþróttasýning íþróttahópsins, stuttmynd kvikmyndagerðarhópsins og svo framvegis.

ÍþróttirÞá var bara komið að kaffitímanum en ekkert var þó kaffið - bara dásamleg heimabökuð skúffukaka og melónur eins og hver gat í sig látið.

Í þessum sumarbúðum er sko hugsað fram í tímann. Næstsíðasta kvöldið verður karókókeppni, eða sérstök hæfileikakeppni sem heitir Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabakinn. Eftir kaffi hófst skráning og lagaval og fyrsta æfingin strax næsta morgun. Það lítur allt út fyrir að atriðið verði níu talsins, ef ekki tíu.

Útisvæðið var vinsælt og einnig spilaborgin, mikið flakkað á milli. Gott að geta hoppað aðeins í trampólíni og farið svo inn og púslað, leikið, lesið og annað slíkt. Körfuboltavöllurinn var vinsæll og svo var hægt að sippa, hoppa, vega, róla og hvaðeina sem börnunum datt í hug. 

Frá hárgreiðslukeppninniSvo var líka haldin stórkostleg hárgreiðslukeppni. „Frábært hár!“ heyrðist hrópað um allar sumarbúðir.

Í kvöldmat var boðið upp á grjónagraut sem vakti sko lukku og einnig sporðrenndu börnin miklu magni af ávöxtum.

Síðan var farið út í íþróttahús þar sem haldin var ofboðslega spennandi brennókeppni milli hópa. Úrslitin urðu þau að Krossfiskar unnu.

BrennóEftir brennókeppnina var farið í sund og það var sannarlega gott að geta látið líða úr sér í heita pottinum og gaman að synda, hoppa út í og leika sér í þessari frábæru sundlaug.

Í kvöldkaffinu var boðið upp á brauð og safa og síðan var haldið til koju. Fyrsti lestur á framhaldssögu var lesinn, en hver hópur velur sér bók og umsjónarmaður les fyrir þau kvöldsöguna. Það er svo gaman að láta lesa fyrir sig og svo sofnar maður svo vært á eftir. 

 

Frábær fyrsti dagur. Cool

Hér er hlekkur á myndir dags 1: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T2D1.html#grid

 


Mögnuð lokakvöldvaka

Skemmtilegur morgunnEnn og aftur var frábært veður í morgun. Börnin drifu sig í morgunmat og síðan voru námskeiðin. Kvikmyndagerðarhópurinn lauk við tökur á spennumyndinni, það var sprellað svolítið í íþróttahúsinu, danshópurinn æfði dansinn og grímugerðarhópurinn látbragðsleikritið. Mikið fjör og mikið gaman.

 

Kassabílarnir prófaðirFínasti pastaréttur var á boðstólum í hádeginu og síðan tóku hádegisfundirnir við hjá hópunum. Umræðuefnið á þeim var hvað það skiptir miklu máli að koma vel fram við aðra og láta ekki hafa of mikil áhrif á sig. Börnin drógu miða með jákvæðum staðhæfingum og það vakti mikla lukku. Umræður voru uppbyggilegar og alveg rosalega skemmtilegar.

 -------------        ---------------          ---------------

 

Flott ruslatínsluverðlauninÞótt námskeiðin hafi verið í morgun voru þau haldin aftur eftir hádegið - jú, lokakvöldvakan í kvöld og mikið þurfti að æfa til að allt gengu eins og áætlað var. Svo var bara komið að kaffitímanum og þar bauð kokkasumarbúðalandsliðið upp á dásamlega skúffuköku og einnig stórgott tekex með heimalöguðu marmelaði og mjólk var drukkin með.

Síðan hófst vikulegur liður sem kallast ruslatínsla. Sjálfboðaliðar úr hópi barnanna gengu um svæðið og tíndu allt það rusl sem þau sáu og sópuðu svo allar stéttar af mikilli vandvirkni. Á eftir völdu þau sér verðlaun úr sérstökum verðlaunakassa. Aðrir léku sér úti í góða veðrinu eða fóru út í íþróttahús.

 

 Sigurvegarar í kassabílarallíinuOg svo var komið að kassabílarallíinu. Þátttakendur voru margir og liðin alls 6 talsins. Í fyrsta sæti urðu Rakel Sandra og tvíburasysturnar Birna og Nadía. Þegar verðlaunaafhendingin fór fram var veitt óvænt viðurkenning og verðlaun tveimur systrum sem hafa verið einstaklega góðar hvor við aðra og áttu þetta meira en skilið.

 

 

 

HátíðarkvöldverðurinnLokakvöldvakan færðist sífellt nær en fyrst var það hátíðarkvöldverðurinn, síðasti kvöldmaturinn í Ævintýralandi. Eldhúsið töfraði fram gómsæta hamborgara með öllu, franskar og gos og það ríkti mikil hátíð í höllinni. Sannarlega góð byrjun á mögnuðu kvöldi. 

 

Og loks rann stóra stundin upp - lokakvöldvakan!!! Nú skyldi afrakstur námskeiðanna sýndur! Og hvílíkur afrakstur.

 

 

Látbragðsleikritið skemmtilegaGrímugerðar- og myndlistarhópurinn sýndi látbragðsleikrit um blóm, Jón spæjó, Spiderman og aðstoðina hans, fjólubláa karlinn úr Star Wars og uppvakning. Það var barist og bjargað til skiptis og svo enduðu allir sem vinir og dönsuðu saman. Afskaplega flott látbragðsleikrit eftir börnin sem unnu mjög vel úr hugmyndum sínum. Sjá mynd hér til hægri. >

 

 

 

DanssýninginKvikmyndagerðarhópurinn sýndi mjög flottan dans sem vakti mikla lukku.

Sjá mynd hér til vinstri.

 

 

            -------------- ooOoo------------

 

 

Rauðhetta starfsmannaleikritSíðan kom að leikriti starfsfólksins ... sem dró sér miða úr hatti sem innihélt hlutverkið í leikriti sem það vissi ekki hvert var, allir þurftu að leika af fingrum fram og það var svo fyndið. Leikritið var Rauðhetta! Hún átti ömmu sem var á gelgjunni eins og Rauðhetta, tveir veiðimenn komu við sögu og þeir rifust í sífellu. Úlfurinn var rosalega vondur. Hluti starfsfólk lenti í að leika skæri, grjót, nál og tvinna og það vakti mikla lukku.

 

Gera þurfti stutt hlé á dagskránni til að fá sér ávexti og síðan var glaðningur á eftir, frostpinni sem féll heldur betur í kramið hjá börnunum.

 

Í bíóSíðasta atriði kvöldsins var bíómyndin, stuttmyndin sjálf. Hún heitir Afi og amma segja sögu. Í stuttu máli fjallaði hún um fjölda barna sem sátu á gólfinu fyrir framan ömmu og afa og báðu þau um að segja sér sögu ... um mótorhjólagengi, ninjur, löggur, kúreka, prinsessur, einhyrninga og kokk. Afi og amma urðu við þessu og það var ýmislegt sem gerðist ... bankarán, bardagi og handtaka í eldhúsinu þar sem kokkurinn (brúða) stóð við pottana og var að elda. Algjörlega frábær mynd sem allir skemmtu sér konunglega yfir.

Bíómyndin var spennandiÞegar börnin voru komin upp í rúm fengu þau viðurkenningu frá umsjónarmanni sínum og einnig kom í ljós hver sigraði í plúsakeppninni.

Börnin voru fljót að sofna en áður höfðu þau mörg á orði hvað vikan hefði liðið hratt og ótrúlegt að þau færu heim á morgun! Það var samt gaman og mikil tilhlökkun í gangi.

Á morgun hefst dagurinn eins og venjulega á morgunverðarhlaðborðinu stórkostlega. Síðan verður farið í að pakka niður með góðri hjálp umsjónarmannanna. Börnin fá að horfa á bíómyndina aftur og síðan verður farið út í íþróttahús í leiki. Í hádegismat verður kakósúpa og auðvitað tvíbökur með. Síðan er það bara rútan sem leggur af stað kl. 13.00 frá Kleppjárnsreykjum og áætlaður komutími í Perluna í Reykjavík er kl. 14.45.

Við þökkum þessum frábæra hópi innilega fyrir skemmtilega viku!

Hlekkur á myndir frá deginum er hér

http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T1D5.html#grid


Ævintýrabarkar kvöldsins

GamanEnn einn frábæri sólardagurinn, veðrið hefur verið yndislegt í dag.

Þegar börnin vöknuðu drifu þau sig (klædd og með burstaðar tennur og greitt hár) í matsalinn þar sem morgunverðarhlaðborðið beið eftir þeim. Hafragrautur, súrmjólk, seríos, kornflögur, ristað brauð með osti og heimalöguðu marmelaði ... svo fátt eitt sé talið. Gott að geta valið sér það sem manni finnst best.

SundÞá var bara haldið út í sumarbúðalífið ljúfa og sitt af hverju var í boði að vanda. Einhverjir völdu að fara í sund, aðrir fóru á kertagerðarnámskeið og útisvæðið skemmtilega var opið líka. Þau börn sem skráðu sig í karókíkeppnina æfðu, enda var keppnin nú í kvöld.

Við höfum dáðst mikið að henni Nadíu sem varð fyrir því óhappi að handleggsbrotna skömmu áður en hún kom í sumarbúðirnar en hún lætur ekkert stoppa sig þrátt fyrir það. Í gærkvöldi, rétt áður en hún fór að sofa, var gifsið klippt af henni samkvæmt beiðni foreldra og afans sem er læknir. Mikið fannst Nadíu gott að losna við það, hún fór í sund í morgun en ætlar samt að fara varlega næstu dagana. Flest börnin fóru í sund með henni en karókíbörnin kusu þó að æfa og æfa og æfa ...

Kertagerð að  hefjastKertagerðin var stórskemmtileg en hún fer þannig fram að börnin velja sér bláskel sem umsjónarmaður hellir vaxi varlega í og auðvitað er kveikur settur í miðjuna. Eftir að vaxið hefur storknað er það skreytt eftir því sem ímyndunaraflið býður. Mjög flott kertin í morgun. Útisvæðið var vinsælt líka og mörg kusu að fara í smástund inn á herbergin fyrir matinn.

Á reiðnámskeiðiGrjónagrauturinn var borðaður af mikilli lyst og einnig ávextirnir sem voru í eftirrétt. 

Námskeiðin voru síðan haldin eftir hádegisfundinn og í kaffinu var boðið upp á ævintýraköku (sandköku) og vöffluafganga með súkkulaði, einnig brauð með kæfu og mjólk með. Allt borðað upp til agna.

Er þetta dansspennumyndÍþróttahúsið varð fyrir valinu hjá flestum eftir kaffi en nokkur börn úr kvikmyndagerð æfðu dans sem verður í myndinni. Hvernig mynd verður þetta eiginlega? Dans- og söngvamynd með spennuívafi? Eða spennumynd um dansskóla? Svo voru einhverjir í Spilaborg þar sem Ellen kenndi þeim skemmtilegt spil. Nokkrir fóru að herða skrúfur og undirbúa kassabílana fyrir rallíið á morgun. 

Rétt fyrir kvöldmat skiptu börnin um föt ... aðallega keppendur kvöldsins. Kvöldmaturinn var einstaklega gómsætur! Glænýr fiskur, steiktur, með hrísgrjónum og karrísósu, tómatsósu fyrir þá voguðu ...

Gaman á ÆvintýrabarkanumSvo var haldið út í íþróttahús þar sem Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn 2012-01 fór fram ...
Systurnar Adela og Birgitta sungu lagið Blár ópal, systurnar Askja Ísabel og Ynja Mörk dönsuðu við lagið Turn me on. Eva Huld og Ólavía Guðrún sungu Moves like Jagger. Ólavía Guðrún söng lagið Bíóstjarnan mín. Og svo var hópatriði með Karen Örnu, Hrafntinnu Máneyju, Öldu Ósk og Sigríði Berglind, ásamt fyrrtöldum listakonum.

Sigurvegarar kvöldsinsEkki var auðvelt fyrir dómnefnd að gera upp á milli, svo flott var þetta allt saman, en þegar búið var að telja stigin kom í ljós að Eva Huld og Ólavía Guðrún urðu í efsta sæti með lagið Moves like Jagger. Í öðru sæti voru dansararnir Askja og Ynja og í því þriðja Adela og Birgitta sem sungu Blár ópal, jöfn að stigum við þær var Ólavía Guðrún sem söng Bíóstjarnan mín. Allir fengu viðurkenningarskjöl og efstu sætin smáverðlaun.

Þetta var sérlega flott kvöld - og atriðin hvert öðru betra. Góður endir á góðum degi. Svo var það bara kvöldkaffið, kvöldsagan og draumalandið.

Myndir frá deginum eru á heimasíðunni, www.sumarbudir.is, myndir - dagur 4.


Vöffludagurinn græni ...

Þemað var græntDagur 3 var aðeins öðruvísi en hinir. Námskeiðin voru fyrir hádegi og eftir matinn, núðlusúpu, núðlur, brauð með eggi og kæfu, ásamt vatni í miklu magni, hófst húllumhædagurinn.

Fyrst var hádegisfundur með umsjónarmönnunum en svo var farið í fánaleikinn. Skipt var í tvö lið, Martröð og Draum og sigraði það fyrrnefnda, alls ekkert léttilega þó. 

Margvísleg andlitsmálun í gangiFram að kaffi var margt um að vera; sápukúlusprengikeppni, sólbað, krítað á stéttina, boltaleikir og önnur dásamlegheit. 

Í kaffinu var boðið upp á vöfflur með súkkulaði ... og rjóma sem var litaður grænn í stíl við daginn. Þemaliturinn var nefnilega grænn og allir voru í einhverju grænu. Í miðju vöfflusmjatti kom algjört steypiregn en dagskráin var bara inni þar til stytti upp eftir um tvo tíma. Gott fyrir gróðurinn.

Eftirmiðdagsskemmtunin var heldur betur fjölbreytt. Það var skartgripagerð, andlitsmálun, tattú, bandfléttur, keila og zumba (í Wii) ... og svo mætti heil spákona á svæðið, ég legg ekki meira á ykkur. Sú heitir Jósefína Potter og þykir nokkuð sérstök. Börnin settust hjá henni og fengu að heyra sitt lítið af hverju skemmtilegt. Spenningurinn var mikill að vita HVER þessi spákona væri og voru ýmsir starfsmenn nefndir til sögunnar en það mál er enn ekki upplýst ...

Hver er þessi JósefínaSvo var allt í einu komið að kvöldmatnum - pylsupartíi, takk fyrir. Það hefði mátt halda að engar rjómavöfflur hefðu verið á boðstólum í kaffinu eða að börnin hefðu bara rétt nartað í þær ... svo vel tóku þau til matar síns, þessar elskur. Það var líka gott að fá að skola því niður með gosi.

Jósefína PotterDraugaleikur var eftir matinn, keppni milli hópa, og margar hetjurnar sem létu sig hafa það að hlaupa í gegnum íþróttahúsið í nánast myrkri, í gegnum allskyns þrautaleiðir, sækja glóstikk og fljúga síðan út á ljóshraða. Þau sem vildu vernd töluðu bara við sumarbúðastjórann sem fór með þeim. 

Gott var að skreppa í sund til að kæla sig niður, aðrir fóru í heita pottinn til að róa sig niður ... en svo kom fljótlega í ljós að draugarnir ógurlegu voru bara Gummi, Apríl og Árni Páll. Þá var nú hlegið.

Í stað þess að fara beint í matsalinn og síðan að sofa var það fyrst bíósalurinn þar sem börnin fengu að sjá tvær eldri stuttmyndir eftir sumarbúðabörn og popp og safi gerði bíósýninguna enn skemmtilegri. 

Svo var sofnað vært og rótt.

Nammm, vöfflurVinningshafar dagsins:

Sápukúlusprengikeppnin: Steinar Dúi

Keila: Rakel Sandra

Draugaleikurinn: Krossfiskar

 

P.s. Myndir frá deginum eru á

www.sumarbudir.is - myndir - dagur 3.

 


Forvarnaleikrit, diskó og dásamlegur kvöldmatur

Kassabílar prófaðirNýr dagur rann upp, bjartur og fagur. Sólin skein eins og hún fengi borgað fyrir það. „Fyrsti í rumski“ var þó ekki fyrr en klukkan 8.15, enda vel sofið eftir skemmtilegheit gærdagsins. Sigrún næturvörður getur ekki hætt að hrósa börnunum sem öll fengu broskarl í „kladdann“ í morgun ...

Eftir leiki og fjör, sund og sólbað, fóru börnin út í íþróttahús en þar lék starfsfólkið leikrit fyrir þau, forvarnaleikrit í léttum og skemmtilegum dúr en með alvarlegan undirtón. Ping og Pong fóru á kostum og einnig Sing (góð ráð) og Song (slæm ráð).

Flottir strákar í myndlistBörnin tóku virkan þátt úr salnum og ekkert þeirra taldi rétt að Apríl færi upp í bíl hjá ókunnuga manninum þótt hann bæði hana að hjálpa sér með litla hvolpa. Sing spurði hreinlega hvar fjölskylda mannsins væri og hvers vegna hún hjálpaði honum ekki ... Sing og Song eru sko raddirnar í höfði Apríl, önnur leiðbeindi henni og peppaði hana upp en hin sagði henni að hún gæti ekkert, eins og t.d. í stærðfræðiprófi. Svo þegar Apríl fór í tölvuna og fékk vinarbeiðni á Facebook frá sætum en alveg ókunnugum strák sagði Sing henni að adda honum ekki, Song hélt nú að það væri óhætt en sem betur fer hlustaði Apríl á Sing.

Eftir leiksýninguna fóru börnin inn á herbergin til að ganga frá sunddótinu, sum völdu að slaka á þar fram að mat en önnur hlupu aftur út í sólina og krítuðu og léku, hoppuðu og skoppuðu.
 
Sumarbúðalandslið kokka bauð upp á skyr og síðan safaríka ávexti sem voru nú heldur betur góðir í hitanum. 
 
KvikmyndagerðÞá var komið að hádegisfundinum, hver hópur með sínum umsjónarmanni, og rætt var um leiksýninguna. Það gladdi umsjónarmennina mikið að heyra hvað börnin höfðu verið vel frædd um hætturnar af því að fara upp í bíl hjá ókunnugum. Einnig tók umsjónarmaður púlsinn á líðan barnanna, vildi vita hvort þau hefðu sofið vel, hvort þeim liði vel, svo var farið í uppbyggjandi og sjálfsstyrkjandi leiki sem eru ofboðslega skemmtilegir. 

Í miðjum tökum á spennumyndinniNámskeiðin byrjuðu svo klukkan 14, sum héldu áfram með listaverkin frá gærdeginum á meðan önnur máluðu grímurnar sínar í grímugerð og svo ætla þau að semja látbragðsleikrit. Kvikmyndagerðarhópurinn risastóri hóf tökur á myndinni sinni í dag, mikil leynd ríkir og spennan er gríðarleg. Við urðum að senda paparazzi-ljósmyndara á staðinn og honum tókst að taka örfáar myndir áður en börnin fleygðu honum út. Atriðið sem honum tókst að mynda áður var þar sem nokkur börn sváfu í rúmum hlið við hlið ... ja, myndin hér til hægri segir það sem segja þarf! Þetta verður rosalega spennandi mynd, ekki spurning.

Eftir kaffi voru stöðvarnar opnaðar: Íþróttahús, föndurstofa, spilaborg og útisvæði þar sem kassabílarnir léku stórt hlutverk, æfingar fyrir föstudagsrallíið eru á fullu.

Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt klukkan 15 og voru klyfjuð nesti og nýjum skóm ... og brostu hringinn þegar Siggi rútubílstjóri kom að sækja þau. Þeim fannst mjög gaman og verða send með myndavél á fimmtudaginn og það kvöld koma svo hesta-og barnamyndir á heimasíðuna.

Fjör á diskótekinuÓmótstæðilegur matarilmur barst um Kleppjárnsreyki, nánast allan Borgarfjörðinn hreinlega, upp úr hálfsjö en þá byrjuðu kokkarnir að baka pítsur í tonnatali ... og þvílík tilhlökkun hjá börnunum sem fóru fyrst inn á herbergi til að skipta um föt fyrir diskóið eftir matinn. Pítsur og diskó, hvað getur það verið betra?
 
Þau sporðrenndu sögulega miklu magni af pítsum, bara eins og hver gat í sig látið og svo var það bara diskófjör og ekki bara það, heldur var boðið upp á bandfléttur í hár og tattú þegar þau komu fram til að kæla sig. Einnig var gott að fara út og leika sér svolítið, bara eins og hver og einn vildi.
 
Tattúið er svoooo vinsæltGómsætir ávextir í kvöldkaffi - og mikið, mikið borðað af þeim. Svo var það bólið eftir hátt og burst og umsjónarmaðurinn las kvöldsöguna fyrir hópinn sinn. Þau fáu börn sem enn voru vakandi voru ýmist að reyna að sofna eða vildu fá að lesa aðeins lengur.

Á morgun verður algjör dúndurdagur (eins og þessi og gærdagurinn hafi ekki verið það ...). Sjálfur húllumhædagurinn - en þá ríkir sannnkölluð 17. júní-stemning. Litur dagsins verður grænn! Meira að segja rjóminn á vöfflunum í kaffinu verður litaður með grænum lit (góðum matarlit frá mömmur.is) en Ævintýralandsvöfflurnar eru löngu orðnar landsfrægar, með súkkulaðiglassúr og rjóma ... auðvitað sultu fyrir þá sem vilja ... en flestir velja súkkulaðið undir rjómann. Meira um þessa dýrð á morgun!

Myndir frá degi 2 (og týndu myndirnar frá degi 1) eru á heimasíðunni, sumarbudir.is, en hér er beinn hlekkur á dag 2, gjörið þið svo vel:  http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T1D2.html


Gjörsamlega frábær fyrsti dagur!

SundÞá er starfsemi sumarsins hafin, jibbí! Hópur 1 á tímabili 1 mætti í morgun.

Strax um tíuleytið byrjuðu fyrstu börnin að tínast á staðinn og þegar rútan kom um ellefuleytið varð heldur betur fjör. Glampandi sólskin, logn og blíða tók á móti fyrsta hóp sumarsins, ásamt starfsfólkinu auðvitað.

Umsjónarmenn hvers hóps (aldursskiptir) aðstoðuðu börnin með farangurinn og sýndu herbergin og aðstöðuna. Sýningarrúntur um svæðið var næstur á dagskrá, hóparnir skoðuðu vel umhverfið og húsakynnin öll. Íþróttahúsið féll vel í kramið, helst hefðu börnin viljað snæða hádegisverðinn þar en mötuneytið var ekki svo slæmt, eiginlega bara mjög gott. Kokkurinn káti hafði galdrað fram dýrindismáltíð, pastarétt og heimabakaðar hvítlauksbollur sem börnin borðuðu með góðri lyst. Fyrir mat höfðu þau komið sér vel fyrir, gerðu kósí hjá sér, reyndar á ljóshraða því mikið lá á að leika sér - bæði úti og inni, aðallega úti þó.

Skömmu áður en umsjónarmennirnir komu til að sækja börnin fyrir kynninguna sem átti að fara fram klukkan eitt í íþróttahúsinu náði sumarbúðastjórinn að spjalla svolítið við þau ... og fá þau til að hjálpa sér við pínulítið prakkarastrik. Þau máttu alls ekki segja umsjónarmönnunum neitt og svo hófst kynningin:

Sumarbúðastjórinn byrjaði að vanda á því að bjóða börnin innilega, hjartanlega, frábærlega velkomin og svo þegar hún sagði: „Ég heiti ...“ þá sögðu öll börnin hátt í kór: „Svanhildur!“ og sumarbúðastjóranum brá ofboðslega (eða þannig) en hélt áfram: „Og ég er ...“ „SUMARBÚÐASTJÓRINN,“ æptu börnin. Það nánast leið yfir umsjónarmennina, svo hissa urðu þeir, voru eins og eitt stórt spurningamerki í framan. Hvernig vissu börnin??? Þetta sló í gegn og mikið var hlegið.

Síðan kynntu starfsmenn sig og þar á eftir var sagt frá námskeiðunum frábæru - en börnin velja á milli nokkurra námskeiða sem þau eru á í tvo tíma á dag allt tímabilið. Flest börnin völdu sér kvikmyndagerð og næstvinsælasta námskeiðið var listaverkagerð. Öll verða börnin mikið í íþróttum og sundi - og það verður svo margt fleira í boði ...

Eftir kynninguna var haldið á námskeiðin og mikill spenningur í gangi. Það verða gerð ýmis listaverk þessa vikuna, meðal annars heil bíómynd, ja, allavega stuttmynd. Börnin semja handrit sjálf, skipa í hlutverk, velja búninga og leika af hjartans lyst. Á lokakvöldvöku er afraksturinn sýndur og kemur í ljós hvað verður þegar nær dregur; leikur, dans, íþróttir, bíómynd, myndlist og hvaðeina. Algjör stórhátíð.

Ekki varð dagurinn lakari þegar kom að kaffinu ... þar var heimabökuð skúffukaka á boðstólum og í eftirkaffi melónubitar eins og hver og einn gat í sig látið. Þetta er bara rétt upphafið.

Sæla í sundiSíðan var skráning og lagaval fyrir karókókeppnina. Útisvæðið var opið og einnig Spilaborg inni. Mikið flakkað á milli, enda ógurlega gaman að gera sem flest fram að mat. Spilaborg er snilldarafþreyingarkósíogfjörstaður Ævintýralands. Leikföng, bækur, púsl, spil, borðtennis og sitthvað fleira. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi, auðvitað. Gott var að hamast svolítið útí í smástund og hvíla sig svo á milli úti eða inni.

Kassabílarnir slógu í gegn og allir vildu prófa. Nokkur kappaksturslið voru stofnuð, enda verður rallí á föstudaginn. Það verður án efa miklu meira spennandi en Formúlan ...

Hárgreiðslukeppnin er alltaf sívinsæl. Hér koma úrslitin:

1. sæti: Rakel Sandra greiddi og Sigríður Berglind var módel

2. sæti: Ynja Mörk greiddi og Adela og Birgitta var módel

3. sæti: Karen Ósk greiddi og Alda Ósk var módel

3. sæti: Ólavía Guðrún greiddi og Eva Huld var módel

Krúttlegasta greiðslan
: Linda og Karen Arna greiddu og Birna var módel

Sniðugasta greiðslan: Askja Ísabel greiddi og Hrafntinna Máney var módel

Í kvöldmatnum var boðið upp á grjónagraut sem börnin elska og með honum sporðrenndu börnin ábyggilega hátt í tonni af ávöxtum.

Kósí í heita pottinumKvölddagskráin reyndi vel á börnin en hún byrjaði með brennókeppni í íþróttahúsinu, hópar gegn hópum, allir mjög jafnir og allir unnu alla.

Síðan var boðið upp á sund fyrir þá sem það vildu og á eftir var í boði enn ein máltíðin, eða kvöldkaffið, enda þarf maður eldsneyti til að halda sér gangandi. Yfirleitt eru ávextir í kvöldkaffinu en líka stundum brauð og safi eins og var nú í kvöld.

Þreytt, uppgefin, útkeyrð en alsæl börn yfirgáfu matsalinn og héldu til koju. Á meðan augnlokin þyngdust hlustuðu þau á sögu sem umsjónarmaðurinn þeirra las fyrir þau. 

Þetta var bráðskemmtilegur dagur og börnin eru alveg frábær, mjög skemmtilegur og góður hópur, ljúf og kurteis börn.

Á morgun kemur nýr dagur, fullur af ævintýrum og leikjum og að sjálfsögðu verður allt um það hér - og fleiri myndir. Hérna fyrir neðan er slóð að nokkrum myndum sem voru teknar við sundlaugina í kvöld, myndunum fjölgar ... um leið og týnda myndavélin finnst:  

http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T1D1.html#8


Leynigestur, sykurpúðar og hátíðarkvöldverður á lokadegi

Lokadagurinn, eða síðasti heili dagurinn, dagur númer 6, var viðburðaríkur, eins og við mátti búast, enda lokakvöldvakan um kvöldið og heilmargt um að vera fram að henni.

Heiti potturinn alltaf góðurDagurinn hófst eins og venjulega á morgunverðarhlaðborðinu og síðan voru ýmsar æfingar í gangi og fjölbreytt afþreying að vanda.

Í hádeginu bauð Sigurjóna upp á skyr og með því voru bollur og einnig pítsusneiðar, sem féll vel í kramið. 

Síðan var farið í að pakka niður því allra helsta og það gekk ljómandi vel, röskir krakkar voru ekki lengi að drífa þetta af. Vissulega var fínu fötunum ekki pakkað niður, eða ferðafötum næsta dags, en öllu hinu.

Þá var farið í sund og í skemmtilega leiki. Kvikmyndagerðarhópurinn horfði á gamlar myndir sem hópar fyrr í sumar höfðu gert og skemmtu sér vel yfir þeim. Myndin Adda padda, sem unglingahópurinn í fyrra gerði, en það þótti nú ekki leiðinlegt þar sem fjölmargir hjá okkur núna voru einnig í fyrra og léku í þeirri mynd.

Hópmynd með leynigestiÓvænt voru börnin beðin um að koma inn í matsal. En leynigesturinn var mættur á svæðið. Enginn annar en Ólafur Darri leikari sem allir þekkja úr Fangavaktinni (Þröstur Hjörtur) og Roklandi. Ólafur Darri spjallaði við krakkana og svaraði spurningum þeirra um hlutverkin og einnig annað á borð við hvort hann ætti börn, ætti bíl, ætti konu, hvað hann væri gamall og annað í þeim dúr. Hann svaraði öllu skýrt og skilmerkilega og þegar hann var spurður um hlutverk sitt í Fangavaktinni var hann alvarlegur og sagði að fangelsi væru sorglegir staðir og maður ætti að gera allt sem hægt væri til að forðast slíka staði, eða halda sig réttum megin við lögin. Margar myndir voru teknar, allir vildu eiga mynd af sér með Þresti Hirti ... og svo tókum við þessa hópmynd.

Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og melónur.

Ellen útbjó handdekurhorn og bjó til maska úr hunangi, matarolíu, kaffikorgi og hrásykri og vildu bæði stelpur og strákar fá mjúkar hendur. Stelpurnar voru kannski öllu áhugasamari þegar kom að því að lakka neglurnar ...

Dugnaðarforkar í ruslatínsluÁ síðasta deginum óskum við alltaf eftir dugnaðarforkum í ruslatínslu og stéttasópun. Meira en helmingur barnanna bauð sig fram og er það mál manna að umhverfi sumarbúðanna hafi sjaldan verið hreinna og fínna. Farið var með poka og rusl tínt upp í þá. Þau fengu að sjálfsögðu smá viðurkenningu fyrir dugnaðinn. 

Skömmu fyrir mat fóru þau inn á herbergin til að skipta um föt og svo var haldið í matsalinn, í hátíðarkvöldverð að hætti ævintýraeldhússins. Það voru hamborgarar, franskar, sósa og gos og þvílík veisla! 

Tilþrif á íþróttasýninguÍþróttahópurinn sýndi miklar körfuboltalistir í íþróttahúsinu og gerðu einnig mjög stóran mennskan pýramída, ekkert smá flott hjá þeim.

Síðan var haldið út í góða veðrið þar sem starfsfólkið beið við grillin, og sykurpúðar og stjörnuljós biðu. Þetta var mjög skemmtilegt og mikil stemmning.

Ávextir voru síðan snæddir í kvöldkaffinu og á þessu síðasta kvöldi var eftirmatur, eða frostpinni!

Grillaðir sykurpúðar og stemningEkki var hægt að sýna bíómynd kvöldsins þar sem upp kom bilun í klippiforritinu ... en Davíð vann fram á nótt við að klippa bíómyndina um Sigmund Árnason skólastjóra og fjölskyldu.  Eftir heilmiklar ógnir og skólahúsið í rúst var skólinn endurbyggður en alltaf var draugagangur þar. Áttundi bekkur fékk að gista í nýbyggða skólanum og þá varð nú allt vitlaust!

Myndin var sýnd að morgni brottfarardags, eftir morgunverðinn, og vakti mikla lukku, enda ógurlega spennandi. Svo kom rútan og sótti megnið af börnunum, hin voru sótt.

Við þökkum þessum frábæra og hugmyndaríka hópi kærlega fyrir samveruna, sem og öllum gestunum sem hafa komið til okkar í sumar. Megi veturinn verða frábær, sjáumst næsta sumar!

Myndir frá lokadeginum eru hérhttp://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d6_2011.html


Góð námskeið og frábær söngvakeppni

StenslagerðinDagur fimm var fjörugur og viðburðaríkur, eins og hinir fyrri. Boðið var m.a. upp á stenslagerð, námskeið í umhirðu húðar, það var tískusýning og söngvarakeppni ... bara dýrlegt alveg.

Eftir morgunverðinn var haldið út í sundlaug þar sem krakkarnir fóru í sund eða bara sturtu, fór eftir því hvað var fram undan, karaókiæfing og svona ...

Fyndinn bolurStenslagerð var í boði og þar var nú aldeilis gaman, mikið hugmyndaflug í gangi eins og sjá má betur á öllum myndunum á heimasíðunni (sumarbudir.is).  Börnin stensluðu myndir eða settu á boli og þetta sló algjörlega í gegn.

Pasta með risastórum heimabökuðum hvítlauksbollum var í matinn í hádeginu. Alveg svakalega gott.

Eftir mat fannst krökkunum nú sérdeilis þægilegt að slaka aðeins á inni í herbergjum en innan skamms hófust hádegisfundirnar. Að þessu sinni var fjallað um það að standa með sjálfum sér, heiðarleika í eigin garð og annarra, vináttu, það að þora að segja nei og fleira. Þau drógu miða með jákvæðum staðhæfingum til að hafa með sér inn í framtíðina ...

Námskeið í umhirðu húðar ofl.Námskeiðin gengu eins og í sögu ... en kvikmyndagerðarhópurinn fór um víðan völl í tökum á stuttmyndunni sinni og rak m.a. sumarbúðastjórann út af skrifstofu sinni þar sem þurfti að taka nokkur skot þar. Þá vitum við a.m.k. um eitt atriði með vissu, eða skrifstofuatriði. Líklega verðum við að bíða eftir að vita allt um innihald hennar þegar myndin verður frumsýnd. Bæði krakkarnir á námskeiðinu, umsjónarmennirnir og sumarbúðastjórinn sem fékk að lesa handritið, neita að tjá sig um innihaldið. Dæs. Álíka dularfull eru börnin í íþróttahópnum, við teljum víst að sýningin þeirra verði algjört æði, þegar við höfum njósnað (með myndavél) virðist ríkja mikið fjör og miklir hæfileikar í gangi. Jamm, þetta kemur allt í ljós á lokakvöldvökunni.

Gjöfin í árÍ kaffinu var nýbökuð sandkaka, ávextir og einnig vöffluafgangar frá fyrra degi. Allir saddir og sælir.

Eftir kaffi var hið árvissa unglingatímabilsnámskeið í umhirðu húðar og um almennt hreinlæti og fleira. Þarna var mikilvæg fræðsla um gott mataræði, að mála sig ekki of mikið og annað í þeim dúr. Kynntar voru sniðugar vörur, eins og sótthreinsandi bóluhyljari og létt sólarpúður sem er meira en nóg fyrir unga og fallega húð eins og unglingar eru með. Þátttakendur voru leystir út með gjöf (sjá mynd til hægri). Einnig var fjallað um skaðsemi áfengis og tóbaks á húðina, sem og heilann og líkamann, og hvernig gott væri að svara ef einhver vill endilega bjóða manni eitthvað sem maður vill ekki.

Þau sem vildu máttu prófa hreinsivörur (andlitsmjólk og -vatn, og sótthreinsistifti fyrir bólur). Nokkrar stelpur vildu fá að mála sig þar sem þær ætluðu að taka þátt í tískusýningu um kvöldið. Útkoman varð skemmtilega skrautleg, enda margir sniðugir augnskuggar og varalitir í boði. Skömmu fyrir kvöldmat fóru krakkarnir inn á herbergi til að gera sig enn fínni fyrir kvöldið.

Eldhúsið bauð upp á fisk með hrísgrjónum og karrísósu í kvöldmat, einnig voru tómatsósa og smjör í boði ... tómatsósan fyrir sanna sælkera, eins og einn strákurinn orðaði það.

Frá tískusýningunni ...Síðan hófst Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin ... og tískusýning, takk fyrir.

Þátttakendur voru:

Frá Ævintýrabarkanum1) Eva María, Írena Líf, María Sif og Stefanía Veiga sungu lagið Komdu til baka  (Kristmundur Axel og Júlí Heiðar)
2) Alexandra Diljá söng lagið Baby (Justin Bieber)
3) Stefanía Veiga sem var líka í atriði 1, söng lagið Ást (Ragnheiður Gröndal)
4) Sigurveig söng lagið Ég ætla að verða kóngur klár úr Lion King, og naut aðstoðar Alexöndru Bjargar
5) Alexandra Björg söng lagið Ástin opnar augun skær (Elton John, úr Lion King)

Allir þátttakendur stóðu sig frábærlega vel. Á meðan dómnefnd fór yfir stigin var haldin stórskemmtileg tískusýning. 

Þær Alexandra Björg og Stefanía reyndust vera með flest stigin og nákvæmlega jafnmörg. Þær skiptu því fyrsta sætinu með sér og fengu báðar verðlaun. Allir sem tóku þátt fengu viðurkenningarskjal.

 

Góðir vinirÍ kvöldkaffinu var boðið upp á smurt brauð og safa. 

Frábær dagur að baki og heilmikil tilhlökkun í gangi fyrir næsta degi ... lokakvöldvakan um kvöldið!!! Allt um það í næsta bloggi.

Myndir frá degi 5:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d5_2011.html

 


Hasar og fjör á húllumhæ

Upptökur í kvikmyndagerðFjórði dagur rann upp nokkuð bjartur en mjög fagur, enda fallegt hér í Borgarfirðinum í öllum tegundum veðus. Við áttum alveg eftir að sjá bæði rigningu og sól - og sólin birtist sannarlega á réttum tíma ...

Eftir hinn staðgóða og fjölbreytta morgunverð var haldið á námskeiðin sem eru þó vanalega haldin eftir hádegið. Ástæðan: Húllumhædagurinn sem hófst á hádegi og stóð samfleytt langt fram á kvöld, þetta orð samfleytt olli breytingunni. 

Sjoppuferð eftir hádegiNámskeiðin gengu glimrandi vel - tökur eru farnar á fullt í kvikmyndagerðinni og sýndist okkur að eitthvað atriði eigi að gerast í skóla. En allt kemur í ljós þegar bíómyndin verður frumsýnd á lokakvöldvökunni.

 

Börnin fengu grjónagraut og melónur í hádeginu og í kjölfarið var haldið út í sjoppu þar sem keypt var snakk og sælgæti fyrir kvöldið en hátíðin, húllumhæið, endar á bíókvöldi. Í sjoppunni hittum við hana Kötlu sem var hjá okkur á síðasta tímabili en hún var þarna á ferð með mömmu sinni, einum cavalier-hundi og tveimur stórum St. Bernharðshundum sem fengu mikla athygli enda ótrúlega stórir og flottir.

 

FánaleikurinnÞegar búið var að birgja sig upp fyrir kvöldið var farið í fánaleikinn skemmtilega. Úti var grenjandi rigning en þessar hetjur létu það nú ekkert á sig fá. Viti menn, eftir smátíma kom sól og blíða sem nægði til að þurrka blautu fötin og gefa aukakraft í leikinn sem gengur út á að ná klemmu af andstæðingnum.

En það sem mestu máli skiptir er að ná fána andstæðingsins og koma honum yfir á sinn vallarhelming. Tvö lið kepptu, Draumur og Martröð og sigraði fyrrnefnda liðið. Þetta var mikill hasar og alveg ótrúlega gaman!

 

KókosbolluboðhlaupSíðan héldu börnin inn í matsal þar sem fram fór kókosbolluboðhlaup.

Það var mjög spennandi, enda þarf að hesthúsa heilli kókosbollu hratt og vel ... með hendur fyrir aftan bak!

 

Í kaffinu voru heitar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma, eða sultu og rjóma, og sló það alveg í gegn, enda dásamlega gott.

 

Flottir skartgripirEftir kaffi var sitt af hverju í boði, eins og skartgripagerð þar sem leir var notaður, hitaður og límdur á festingar eftir að búið var að móta eitthvað flott úr honum. Gripirnir urðu ógurlega flottir. Hægt var að gera einn hring og sett af eyrnalokkum og þetta urðu ekkert smáflott skartgripasett. 

Þeir sem áttu eftir að gera brjóstsykur komust á námskeið í því og nú hafa öll sumarbúðabörnin gert stóran poka af alls kyns brjóstsykri. Það var hægt að gera hinar og þessar ávaxtategundir og líka sterka mola.

SkartgripagerðÍ diskóherberginu (nema þegar þarf að flytja diskóið út í íþróttahús) var Wii-tenniskeppni (tölvuleikur og skellt á sýningartjald). Svo var einnig hægt að fá bandfléttur í hár, gera vinabönd og fá tattú.

Nokkrir kusu að fara til spákonunnar dularfullu, Stefaníu Potter, systur hinnar enn dularfyllri Jósefínu Potter sem hefur komið alla húllumhædaga í sumar. Frú Stefanía leyfði börnunum að draga eitt spil og sagði þeim svo eitthvað fallegt um framtíðina. Að vanda voru heilmiklar pælingar í gangi HVER af starfsfólkinu þessi spákerling gæti verið, margir voru vissir um að þetta væri Sæbjörg í eldhúsinu en svo sást hún á vappinu svo leyndarmálið upplýstist ekki.

BíókvöldÍþróttahúsið og útisvæðið buðu líka upp á skemmtilegheit og meira en nóg var við að vera þennan skemmtilega dag.

Eldhús dásemdanna bauð upp á enn einn frábæra kvöldverðinn en að þessu sinni voru grillaðar pylsur með öllu. Það vakti nú aldeilis lukku.

Eftir kvöldmat var síðan bíókvöld og þar sem börnin voru birg af snakki lágu þau eins og sætar skötur og möluðu værðarlega.

 

Kósí bíókvöldÞannig endaði nú góður húllumhædagur hér að Kleppjárnsreykjum - að vísu háttuðu þau, burstuðu og fóru að sofa eftir bíókvöldið, og næturvörðurinn var svo sem ekkert mikið á þönum, enda frekar rólegt hjá henni.

Myndir, myndir og aftur myndir eru á heimasíðunni okkar, sumarbúðir.is. En hér er hlekkur á beinustu leið á dag 4: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d4_2011.html

 


Fjör á dansleik, meiri brjóstsykur, ísbíll og allt!

Brjóstsykursgerð með Ingu LáruDagur þrjú ...þvílíkur dásemdardagur - afmælisveisla, dansleikur, meiri brjóstsykursgerð, ísbíllinn kom í heimsókn, það fór fram hárgreiðslukeppni - það var synt og hoppað og skoppað um allar grundir ... er hægt að biðja um skemmtilegri dag?

Kósí í heita pottinumEftir hið fjölbreytta og bragðgóða, samt valkvíðaaukandi en saðsama morgunverðarhlaðborð var sitt af hverju í gangi. Eins og íþróttahúsið sem býður upp á svo ótrúlega skemmtilega leiki, stórar og þykkar dýnur, stökktrampólín og fleira og fleira, sundið og heiti potturinn, Spilaborgin góða og svo var brjóstsykursgerð ... en það er löngu sannað að brjóstsykur sem maður býr til sjálfur smakkast betur en annar brjóstsykur. Svo var karaókíæfing fyrir Ævintýrabarkann.

 

Morgunninn leið hratt og áður en nokkur vissi af var kominn hádegisverður - kakósúpa og tvíbökur og fullt af ávöxtum. 

Á reiðnámskeiðiHádegisfundirnir gengu vel, svo og námskeiðin en undirbúningurinn fyrir lokakvöldvökuna er einmitt fólginn í þeim ... Íþróttaatriði eru búin til fyrir sýninguna - handrit kvikmyndagerðar komið á hreint, búningar valdir og æfingar hafnar, jafnvel einhverjar tökur! Alltaf hvílir mikil leynd yfir námskeiðunum þar sem allt á að opinberast síðasta kvöldið. Við reynum að skilja það ...

Alexandra Björg afmælisbarnHeilt afmælispartí var haldið í kaffitímanum. Hún Alexandra Björg átti afmæli og blásið var til veislu af því tilefni. Súkkulaðikaka á línuna - skreytt sneið fyrir afmælisbarnið sem er hér fjórða árið sitt í röð, annan afmælisdaginn sinn í röð líka. Hún fékk eðallegghlífar frá sumarbúðunum, bláar og rosaflottar, einnig afmæliskort. Lívey Erika og Alexandra Diljá bjuggu að auki til afmæliskort handa henni sem allir krakkarnir skrifuðu nöfnin sín í ... og svo keypti Lívey handa henni ís þegar Ísbíllinn mætti á svæðið. 

Já, við fáum sjálfan Ísbílinn alltaf í heimsókn á unglingatímabilinu og þegar bjölluhljóðið í honum heyrðist var sko hlaupið af stað. Hrattttt!

Haldin var hárgreiðslukeppni eftir kaffi og sú var skemmtileg. Bæði stelpur og strákar tóku þátt og mátti meðal annars sjá módel á gólfinu, hármeistara í sófanum að greiða því og ofan á sófabakinu sat annar hármeistari sem greiddi fyrri hármeistara. (Sjá mynd) Já, og tvær hárgreiðslur skiptu með sér fyrsta sætinu en hér koma úrslitin:

HárgreiðslukeppniÚrslit:

1. sæti: María Sif sem greiddi Stefaníu Veigu.

1. sæti: Stefanía Veiga og María Sif greiddu Írenu.

2. sæti: Alexandra Björg greiddi Alexöndru Diljá.

3. sæti: Bryndís Ósk sem greiddi Alex Þór.

Frumlegasta: Árný Birna greiddi Pétri William.

Speisaðasta: Daníela Rán greiddi Árnýju Birnu.

Flippaðasta: Lívey Erika og Birta Lind greiddu Ísak Árna.

Mest töff: Stefanía Veiga greiddi Hreiðari Henning.

 

Ísbíllinn kom í heimsóknAllir þátttakendur fengu viðurkenningu og sigurvegararnir smáverðlaun sem tengjast hári, eins og spennur, greiður, teygjur og þess háttar.

Einhverjir sprikluðu úti í íþróttahúsi eftir ísátið mikla og aðrir spiluðu í Spilaborg.

Svo kom kvöldmaturinn ... og vakti þvílíka lukku. Heimabakaðar pítsur í tugatali og gos með. Börnin borðuðu ekki vel - þau borðuðu MIKIÐ! Sem er allt annað. Brosið fór ekki af Sigurjónu matráðskonu sem hefur svo gaman af því að gefa lystugum börnum að borða!

Dansleikurinn ... eða diskóiðEftir mat var haldinn dansleikur ... ja, eða diskó, eins og allir kölluðu það. Til að krakkarnir hefðu nægt pláss var ballið haldið í íþróttahúsinu. Það var sko reykvél, diskóljós og allt, krakkarnir í sínu fínasta pússi og það var sko dansað og dansað. Einnig var hægt að fá tattú og bandfléttu í hárið.

Hann Unnar kenndi krökkunum að búa til ímyndaða samloku en þá voru allar hreyfingarnar með brjáluðu dans-"múvi", hver hefur ekki smurt sér samloku á þennan hátt ... Já, og kveikja á ímyndaðri sláttuvél og margt fleira sem sló heldur betur í gegn.

Reykvél og allt ...Eftir að hafa dansað um langa hríð var komið að kvöldkaffi, ávöxtum og svo var það bara bólið og spjall og síðan svefninn. Flestir voru dauðþreyttir eftir allan dansinn og sofnuðu eflaust fyrr en ella.

Hér eru fleiri myndir frá deginum:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d3_2011.html

Við kveðjum í bili úr fjörinu á Kleppjárnsreykjum. Wizard

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 90769

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband