Frábær fyrsti dagur

GlæsilegtSvo kom rútanÍ gær fagnaði sól og steikjandi hiti börnunum. Þau fyrstu byrjuðu að koma um kl. 10.30 en rútan ók í hlað um það bil klukkutíma seinna.

Umsjónarmennirnir tóku á móti börnunum, aðstoðuðu þau með farangurinn og sýndu þeim herbergin sín.

Síðan settust hóparnir niður, hver með sínum umsjónarmanni, og farið var í að kynnast svolítið, sýningarrúntur var tekinn um svæðið, bæði úti og inni. Þessa vikuna eru börnin á aldrinum 10-13 ára.

 

Í hádeginu var boðið upp á pastarétt og með honum voru nýbakaðar hvítlauksbollur, glóðvolgar. Eldhúsið bara rétt að byrja ... ó, hvað þau eiga eftir að fyllast mikilli matarást á sumum ... :)

 

Haldið var út í íþróttahús eftir matinn þar sem starfsfólkið kynnti sig og síðan voru námskeiðin kynnt. Flest börnin völdu íþróttirnar og þar á eftir kvikmyndagerð. Listaverka- og grímugerð kom þar á eftir en það fá völdu leiklist/dans að þau fóru alsæl í annað val sitt, kvikmyndagerð.

 

Kvikmyndahópur í búningamátunNámskeiðin fóru á fullt og voru í gangi fram að kaffi. Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku (heimabakaða að sjálfsögðu) og síðan voru melónur í miklu magni.

 

Á fimmtudagskvöldið verður karaókíkeppni, eða söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn. Það var því ekki eftir neinu að bíða með að skrá sig og eru komin átta atriði á blað - og fyrsta æfingin fór fram.

 

Spilaborg var opin en þar eru leikföng, bækur, spil, púsl og sitthvað fleira skemmtilegt, einnig fóru börnin út í íþróttahús eða voru á útisvæðinu. Þau völdu sér bara hvar þau vildu vera. Gott að leika sér úti í smástund og flýja síðan hitamolluna og fara í rólegheitin í Spilaborg, eða ærslast í íþróttahúsinu og skreppa síðan í sólbað.

 

Hárgreiðslukeppni fór fram eftir kaffi og hér koma úrslitin:

Hárgreiðslukeppnin 1. sæti: Inga Bjarney greiddi og Dagbjört var módel
2. sæti: Ásta Margrét greiddi og Katla Kristín var módel
2. sæti: Halldóra Vera greiddi og Eygló var módel
3. sæti: Anita Ögn greiddi og Guðmunda Sjöfn var módel
3. sæti: Erla Svanlaug greiddi og Andrea Dísa var módel
Ævintýralegasta greiðslan: Ólöf Rún greiddi og Bergþóra var módel
Sniðugasta greiðslan: Bára Sif greiddi og Margrét Hildur var módel
Frumlegasta greiðslan: Perla Sól greiddi og Jóhanna Nína var módel

Allar fengu viðurkenningarskjöl og smáverðlaun.

Rétt fyrir matinn var kíkt inn á herbergin og einnig var útisvæðið vinsælt.

Eldhúsið bauð upp á grjónagraut í kvöldverð, ótrúlega góðan sem hvarf hratt ofan í börnin, og einnig voru ávextir eins og hver gat í sig látið.

Kvölddagskráin hófst með brennókeppni á milli hópanna. Keppnin var mjög jöfn og svo fór að allir unnu alla - algjört jafntefli.

PottormarSíðan var farið í sund, mikið synt og leikið og einnig slakað á í heita pottinum. Kvöldsólin skein eins og hún fengi borgað fyrir það. Þau sem vildu ekki fara í sund voru á útisvæðinu að leika sér og svo var boðið upp á kertagerð í föndurstofunni.

 

Kertagerð í glampandi kvöldsólEin máltíð var eftir, eða kvöldhressingin, og snæddu börnin með bestu lyst smurt brauð og drukku safa með, enda svöng eftir annasamt kvöld. Ekki gott að fara svangur í háttinn.

Þau voru orðin nokkuð lúin eftir annasaman dag og farið var beint í að bursta tennur og hátta. Síðan las umsjónarmaður hvers hóps kvöldsögu fyrir þau sem vildu og einhverjir lásu síðan aðeins lengur en bókasafn Ævintýralands er fjölbreytt og skemmtilegt. 

Svo var það bara draumalandið. Sleeping

Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T6D1.html

 


Stóra stundin ... lokakvöldvakan!

Myndlistarsýningin undirbúinVeðrið var mjög gott í gær, hlýtt en ekki jafnmikil sól og verið hefur síðustu daga.
 
 
Eftir morgunverð voru námskeiðin á dagskrá, síðustu tökur kvikmyndagerðarhópsins og hinir hóparnir æfðu sig og myndlist/grímugerð byrjaði að setja upp sýningu og velja sér búninga.
 

Í hádeginu var boðið upp á pastarétt.
 
 
 

Tökur kvikmyndagerðar á skrifstofunniHádegisfundir voru á sínum stað og stelpurnar fengu blað til að skrifa nöfnin sín á og svo var blaðið látið ganga á milli og allir skrifuðu eitthvað fallegt um hvern og einn í hópnum.
 

Námskeiðin aftur eftir hádegið, já, já, ... lokakvöldvakan fram undan og mikið sem þurfti að æfa.
 

Elva Sól afmælisbarnÍ kaffinu var skúffukaka og tekex með heimalöguðu marmelaði sem hvarf hratt ofan í stelpurnar sem drukku mjólk með.
 
Afmælisbarnið, Elva Sól, 11 ára, fékk sérskreytta afmælisköku og svo var afmælissöngurinn sunginn. Gummi spilaði á gítarinn og allir tóku undir. Hún fékk kort og pakka frá sumarbúðunum.

Eftir kaffi var  ruslatínsla. Stelpurnar sem tóku þátt voru duglegar að tína rusl og steina, og sópa. Verðlaun fengu svo stelpurnar að velja sér í lokin.

Dekur fyrir hendurEllen bauð upp á handdekur þar sem þær settu maska á hendurnar sem Ellen bjó til úr kaffikorgi, hunangi, matarolíu og hrásykri. Þegar maskinn var þveginn af urðu hendurnar dásamlega mjúkar og flestar vildu naglakk líka og þær fengu semilíustein á eina nögl.
 

Sprell í íþróttahúsinu var rétt fyrir kvöldmat og þar var sipp- og húllakeppni. Síðan skiptu þær um föt fyrir kvöldið.
 

Þá var komið að kvöldmat, sem var hamborgari með öllu, franskar og gos ... þvílík sæla.
 

Loksins rann stóra stundin upp ... það var komið að lokakvöldvökunni.
 

GrímugerðargjörningurÁ meðan grímugerðar- og listaverkahópurinn gerði klárt fyrir sýninguna skemmtu stelpurnar sér inni í Framtíðinni (setustofa). Gummi með gítarinn, mjög gaman.
 
 

ListaverkSýningin tókst afar vel, listaverkin voru sérlega flott.
 
 
Grímurnar voru ekki notaðar í látbragðsleikrit eins og svo oft, heldur voru stelpurnar með grímurnar á sér og í búningum og stilltu sér upp eins og alvöru myndastyttur. Glæsilegur gjörningur hjá þeim.
 
 
 

Leikrit íþróttahópsinsÞá var skundað í íþróttahúsið og þar byrjaði íþróttahópurinn dagskrána. Í stað þess að sýna listir sínar í íþróttum ákváðu stelpurnar að vera með leiksýningu. Hún fjallaði um strák sem situr alla daga við tölvuna og nennir ekki að hreyfa sig. Hann heitir Letimann. Íþróttakrakkarnir reyna að fá hann til að vera með sér og þegar það loks tekst finnst honum þetta svo gaman. Nafn hans breytist úr Letimann í Súpermann og hann slæst í hópinn til að breiða út boðskapinn um mikilvægi hreyfingar. 
 
 

Leiklist og dansLeiklist og dansi var skellt saman þessa vikuna og kom mjög vel út. Það var að sjálfsögðu samið dansleikrit. Hádramatískt dansleikrit.
 
Leikritið fjallaði um fimm systur á munaðarleysingjaheimili í Úkraínu árið 1920. Eina huggun þeirra var dansinn. Á heimilinu ríktu tveir harðstjórar sem var meinilla við börn og leyfðu systrunum ekki að dansa, heldur urðu þær að vinna baki brotnu, fengu lítið að borða og aðeins að sofa í fimm klukkutíma að nóttu. Þær gerðu uppreisn, handsömuðu harðstjórana, breyttu munaðarleysingjaheimilinu í danshótel, allir urðu vinir, líka harðstjórarnir og lifðu hamingjusömu danslífi til æviloka. Þess má geta að stelpurnar sömdu handritið sjálfar og það á við um íþróttaleikritið og stuttmyndina líka. Ekkert skorti upp á hugmyndaflugið hjá þessum frábæru stelpum.

Gréta og HansStarfsfólkið var næst í röðinni og sýndi leikritið um Hans og Grétu og til að sporna við fordómum um stjúpmæður sem alltaf eru svo vondar í ævintýrum, þá fékk stjúpan í leikritinu samviskubit og sá eftir öllu saman og leitaði og leitaði að börnunum með pabbanum og tók svo vel á móti þeim þegar þau komu aftur. Hans og Gréta voru bæði á gelgjunni, nornin þolir ekki börn og ofninn var með stæla.
Búrið var illkvittið og þrengdi alltaf að Hans sem alltaf tókst þó að plata nornina með prikinu,
 
 
 
Ávextir voru í boði í kvöldkaffinu og FROSTPINNI rétt fyrir sýningu stuttmyndarinnar.

KvikmyndasýninginStuttmynd kvikmyndagerðarhópsins, Önnur vídd, fjallaði um börn sem fóru í sumarbúðir. Sumarbúðastjórinn var rosalega vond kona sem þolir ekki börn ... Hún sendi börnin í aðra vídd en eitt barn slapp og gat látið spæjarana vita. Hún var handtekin og þurfti að hringja í hina víddina og láta skila börnunum.
Stelpurnar hlógu mikið í tökunum og myndin sló algjörlega í gegn.

Það voru þreyttar stelpur sem fóru yfir i svefnálmuna en ekki var allt búið enn því um leið og þær voru komnar upp í rúm fengu þær viðurkenningu frá umsjónarmönnunum sínum og þar kom fram hvað þær væru búnar að fá marga plúsa í vikunni ... en það finnst þeim mjög mikilvægt að vita. Í einum hópnum fengu allar stelpurnar 35 plúsa sem er hæsta talan.

Plakat frá kvikmyndagerðVinningshafar:
Bingó: Ísabella Ronja, Natalía Sif og Sonja Heiða
Draugaleikur: Krossfiskar
Sippkeppni: Þórunn
Húllakeppni: Krista

Dagskráin í dag, heimfarardag:Pakka eftir morgunmat, horfa aftur á myndina, leikir í íþróttahúsinu, kakósúpa í hádegismat og svo bara út í rútuna sem leggur af stað klukkan 13.00 og er áætlaður komutími í Perluna klukkan 14.45.
 
 
 
Við þökkum kærlega fyrir frábæra og bráðskemmtilega stelpuviku. 

 


Ævintýrabarkinn, lengsti parís í heimi og bingó!

Yndislegt í sundiLengsti parís í heimi í vinnsluÞetta hafa vissulega verið frekar einhæfar veðurlýsingar upp á síðkastið en enn skín blessuð sólin, veðrið búið að vera frábært í dag.

Eftir morgunverð var farið í sund og á útisvæðið þar sem sitt af hverju var brallað, og þær sem taka þátt í Ævintýrabarkanum æfðu sig, enda stutt í keppnina.

Tíminn leið hratt og þar var kominn hádegismatur, grjónagrautur og ávextir í miklu magni.

Námskeiðin voru á sínum tíma eftir hádegisfundina og það eina sem við fengum að vita var að allt gengi vel þar og væri eftir áætlun. Íþróttahópurinn skellti sér í ævintýraferð, fór að vaða í nærliggjandi á - mjög gaman.

 

Við ákváðum að hafa kaffitímann úti og meðlætið með öllum vökvanum sem drukkinn var og safaríku melónunum var ævintýrakaka, eða heimabökuð sandkaka.

 

Ævintýraferð íþróttahópsinsFrá reiðnámskeiðinuÚtisvæðið var vinsælt eftir kaffi og einnig íþróttahúsið. Spilaborg þótti líka góð þegar þurfti að kæla sig niður. Já, kæla sig niður - inni.

 

 

Myndavélin fór með á reiðnámskeiðið og teknar voru flottar myndir að vanda, sjá myndir á heimasíðunni, hlekkur neðst. Hestarnir hennar Guðrúnar reiðkennara eru svo ekkert annað en dásamlegir.



Kvöldmaturinn var heldur betur góður en eldhúsið bauð upp á glænýjan steiktan fisk með hrísgrjónum og karrísósu ... og tómatsósu fyrir þær sem vildu.

 

BingóÁ meðan rennslið fyrir keppnina fór fram spiluðu stelpurnar bingó.

Síðan hófst Ævintýrabarkinn! Og þvílík keppni, stelpurnar voru stórkostlegar! Dómnefndin sat og hlustaði og gaf hverju og einu atriði stig. Svo var farið að reikna og endurreikna og enn og aftur endurreikna. Stigin féllu á einstakan hátt. Tvö atriði voru í fyrsta sæti með hnífjöfn stig, tvö atriði í öðru sæti og haldið ykkur, tvö atriði með jafnmörg stig lentu í þriðja sæti! Stórmerkilegt! Og hér koma sigurvegararnir:

 

 

 

Sigurvegarar í Ævintýrabarkanum1. sæti: Valný Lára og Dagný Freyja sungu lagið Save and sound og Valný spilaði undir á gítar
1. sæti: Íris Ósk söng lagið Ben

2. sæti: Vigdís Elva og Solveig Þóra sungu lagið Part of me
2. sæti: Fríða Lilja söng lagið Skater boy

3. sæti: Anna Día og Rut dönsuðu við lagið Set it on fire
3. sæti: Agnes dansaði við lagið Stóð ég úti í tunglsljósi

 

Jú, þetta er lengsti parís í heimiÞess má geta að þátttakendur kvöldsins koma alls staðar að, eða frá Hafnarfirði, Siglufirði, Eskifirði, Egilsstöðum, Garðinum, Þorlákshöfn og Garðabæ.


Kvöldhressingin var á sínum stað, og eftir kvöldsaöguna var það bara draumalandið.
Sleeping

Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D4.html#grid


Vatnagleði og vöfflur með bleikum rjóma

Leiklist og dansÞar sem veðurlýsingar eru hluti af helstu fréttum héðan úr Ævintýralandi má geta þess að gærdagurinn, dagur 3, var stórkostlegur fyrir sóldýrkendur, hiti og logn, sannkölluð bongóblíða.

Tökur í kvikmyndagerðinniÞetta var öðruvísi dagur - eða sjálfur Húllumhæ-dagurinn. Eftir morgunverð fór stelpurnar á námskeiðin en þau eru vanalega eftir hádegi. Við vildum hafa skemmtunina samfellda og þótt námskeiðin séu ógurlega skemmtileg eru þau tekin alvarlega af stelpunum. Enda heil lokakvöldvaka í húfi.

 

Mikil leynd hvílir yfir öllu, enda eiga atriðin að koma á óvart á lokakvöldvökunni. Það er til dæmis ekkert voðalega spennandi fyrir hina (á hinum námskeiðunum) að vita um hvað bíómyndin fjallar, hvernig íþróttasýningin verður, eða leikritið/dansinn ... en við fengum að kíkja inn og taka nokkrar myndir sem sýna hluta af því sem er í gangi.

 

Tvær íþróttastelpurMorgunninn var fljótur að líða og allt í einu komið hádegi. Í boði voru núðlur/núðlusúpa og smurt brauð með eggjum og kæfu. 

 

Frá setningarhátíð húllumhædagsinsÞá var haldinn hádegisfundur með umsjónarmönnunum og þar á eftir var húllumhædagurinn settur. Litur dagsins var bleikur og reyndu stelpurnar virkilega að finna þó ekki væri nema bleika hárspennu til að setja í sig ... eða þannig. Tounge Allar voru þær vel í stíl við þemað. 

 

Farið var í vatnagleði þar sem stelpurnar renndu sér eftir vatnsbraut (slip and slide, upp á útlensku). Við breiddum byggingaplast á grasið, sprautuðum vatni á það og stelpurnar renndu sér, alsælar í sundfötunum. Svo var legið á handklæðunum í sólbaði, algjör sólarlandastemning.

 

VatnagleðiÍ kaffinu bauð eldhúsið hins bleika litar upp á nýbakaðar vöfflur með súkkulaðiglassúr og BLEIKUM rjóma. Vel var borðað af kræsingunum og rjóminn sló í gegn!

 

 

Jósefína Potter ... Eftir kaffi var heilmargt við að vera. Ber þar að nefna að skrítin kerling frá Borgarnesi, Jósefína Potter, mætti uppáklædd á svæðið og sagðist ætla að spá fyrir börnunum. Það vakti heilmikla kátínu ... og vangaveltur um það hver af starfsfólkinu þetta gæti verið ... Hún sagði stelpurnum að þær yrðu forsetar, kjarneðlisfræðingar eða slökkviliðskonur ... og allt þar á milli og þótti þetta vera bráðskemmtilegt atriði.

 

SkartgripagerðSkartgripagerðin var frábær, líka keila og zumba Wii-leikirnir, ásamt því að tattú og bandfléttur voru áfram í boði. Allar sem vilja fá fléttu og tattú. Cool

 

Spennandi sápukúlukeppni var haldin á útisvæðinu og tókst Gyðu Stefaníu að sprengja eitthvað um milljón, trilljón sápukúlur á einni mínútu svo hún var „krýnd“  sápukúlusprengimeistari Ævintýralands.

 

KertagerðEinnig var kertagerð og fjöldi fallegra kerta var búinn til. Stelpurnar völdu sér bláskel sem vaxi var varlega hellt í og kveik komið fyrir. Þegar vaxið fór að storkna var hægt að skreyta með glimmer og fleira flottu dóti - eftir smekk hverrar og einnar.

Um kvöldmatarleytið var slegið upp pylsupartíi! Pylsur með öllu og appelsín með. Mikið, mikið borðað.

 

 

Vöffllur með bleikum rjómaDRAUGALEIKURINN var í diskóherberginu og nokkrar hetjur voru meira en til í að sækja eina glóstiku og fljúga út með hana á ljóshraða þrátt fyrir mögulegar forynjur í myrkrinu. Sú fljótasta vann fyrir hópinn sinn. Svo komu „draugarnir“ fram, tóku af sér grímurnar og hneigðu sig. Þetta var svona spennuleikrit með þátttöku stelpnanna. Já, og draugarnir ógurlegu voru nú bara Gummi, Davíð og Dagbjört sem fengu mikið klapp.

Nú héldu stelpurnar að dagskránni væri lokið og fóru á náttfötunum inn í matsal til að fá kvöldhressinguna. Þar beið þeirra poppkorn og safi og síðan var haldið bíókvöld fyrir þær, óvænt og ótrúlega skemmtilegt.

 Síðan voru tennur burstaðar vel og vandlega, farið upp í rúm og kvöldsagan lesin. Svo var bara sofnað rótt og vel.

Myndir dagsins eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D3.html#grid


Föndur, forvarnarleikrit, pítsur og diskó!

Ping og Pong í forvarnaleikritinuSól og blíða ríkti á öðrum degi. Rokið hafði fokið út í veður og vind. Stelpurnar sváfu einstaklega vel fyrstu nóttina og voru flestar sofnaðar áður en umsjónarmennirnir fóru af vaktinni. Sumarbúðastjórinn mætti um kl. 23 og ætlaði að aðstoða næturvörðinn en enginn þörf var á því. Smile

Morgunmaturinn var heldur betur staðgóður, og er alltaf, enda heilt morgunverðarhlaðborð með hafragraut, kornfleksi, súrmjólk, cheeriosi, ristuðu brauði með áleggi ... hægt að velja úr eða fá sér allar tegundir.

 FöndurstofaStrax eftir morgunverð var farið út í íþróttahús, í sund eða á útisvæðið. Skráning í karókókeppnina og fyrsta æfing var einnig, en við köllum þessa skemmtilegu keppni Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann. 

Um kl. hálftólf hófst leikrit úti í íþróttahúsi, forvarnaleikrit þar sem tekið var á ýmsum málum sem gott er að hamra á, eins og eineltismálum, hættum sem leynast á Internetinu, að fara ekki upp í bíl hjá ókunnugu fólki, sama þótt það sé t.d. í vandræðum með sæta hvolpa ... eða segist vera það. Leikritið var stórskemmtilegt og bráðfyndið þrátt fyrir alvarlegan undirtóninn.

Í hádeginu bauð eldhúsið dýrlega upp á skyr og einnig var nóg af ávöxtum í boði. Þá var haldið beint á námskeiðin en vanalega eru hádegisfundirnir haldnir strax eftir matinn, að þessu sinni var hann klukkan þrjú - og mikið rætt um leikritið og boðskapinn í því. Hver umsjónarmaður fundar með hópnum sínum og fundirnir auka mjög á samstöðu hópsins, svo er bara svo gaman að spjalla saman í rólegheitum. Oft eru nú samt leikir og sitt af hverju skemmtilegt sem umsjónarmanninum dettur í hug að gera - ja, eða börnunum.

Diskó Í kaffinu var kryddkaka með súkkulaðikremi og melónur.

Stöðvar í boði eftir kaffi voru íþróttahúsið og Spilaborgin góða, einnig föndurstofan þar sem hægt var að mála og lita hjá Ellen. Náð var í laufblöð og stimplað með þeim. 

Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt klukkan 15 og fóru með nesti með sér, og brostu hringinn þegar Siggi rútubílstjóri kom að sækja þau. Þeim fannst mjög gaman og verða send með myndavél á fimmtudaginn og það kvöld koma svo myndir á heimasíðuna.

Í kvöldmat voru PÍTSUR!!! Mjög, mjög góðar og mikið borðað. 

TattúgerðSíðan fóru stelpurnar á dansleik - það var heilt diskótek haldið í danssalnum góða sem gengur þó alltaf undir nafninu Diskóherbergið. Mikið var dansað og þegar stelpurnar fóru fram til að kæla sig aðeins niður gátu þær fengið tattú og/eða bandfléttu í hárið. Einhverjar fóru út og fengu sér frískt loft og það var líka frábært. Eins og á öllum alvörudansleikjum fór fram limbókeppni og mikið voru stelpurnar liðugar. Sú sem vann heitir Eydís Emma og setti hún líklega heimsmet í teygjum og sveigjum.

BandfléttugerðÁvextir í kvöldhressingu og svo var haldið í háttinn. Eftir hátt og burst las umsjónarmaður hvers hóps fyrir stelpurnar sínar og þær sem ekki sofnuðu lásu áfram sjálfar þar til draumalandið tók yfir. Fram undan var heill húllumhædagur - og þemalitur BLEIKUR, hvað annað!

Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D2.html

 

Næsta blogg kemur eftir smástund. Tölvan komin í "lag" (uppfærslumál) en nú verða tafirnar unnar upp af fullum krafti. Blush


Rok en stuð á stelputímabilinu

Rútan nýkominHvasst var á Kleppjárnsreykjum í gær þegar stelpurnar mættu í sumarbúðirnar. Stelpurnar ... já, núna er stelputímabil og ótrúlega mikið stuð í gangi. 

Rútan ók í hlað um ellefuleytið en þá voru nokkrar stelpur þegar komnar. Vel var tekið á móti þeim, skipt er í hópa og fór hver hópur til síns umsjónarmanns. Þeim voru sýnd herbergin og hjálpað með farangurinn inn og svo fóru hóparnir skoppandi um allt með umsjónarmanninum. Eftir að hafa komið sér fyrir léku stelpurnar sér bæði úti og inni.

Þegar kom að hádegismat voru stelpurnar orðnar vel svangar og borðuðu af bestu lyst pasta og glóðvolgar, nýbakaðar hvítlauksbollur.

ÍþróttanámskeiðiðHaldið var út í íþróttahús eftir mat og þar kynnti starfsfólkið sig fyrst og síðan var sagt frá námskeiðunum. Stelpurnar völdu sér síðan það námskeið sem höfðaði mest til þeirra og þar verða þær í tvo tíma á dag og sýna svo afraksturinn á lokakvöldvökunni á föstudaginn.

 

GrímugerðinKvikmyndagerðin var langvinsælust, eins og svo oft áður. Þar á eftir komu íþróttir, þá grímugerð/ listaverkagerð og svipaður fjöldi verður á leiklistar- og dansnámskeiðinu. Vá, hvað við hlökkum til lokakvöldvökunnar. Virkilega áhugasamur og skemmtilegur stelpuhópur - þær ætla sko að gera eitthvað stórfenglegt ... sem haldið verður leyndu fyrir okkur og hinum hópunum, fram á síðustu stundu, eins og venjulega. Smile

Námskeiðin fóru strax á fullt. Íþróttahópurinn skemmti sér í boltaleikjum og hoppaði einnig af trampólíni yfir á stóra dýnu og það var ótrúlega gaman hjá þeim. Grímugerðarhópurinn gerði grímur sem voru síðan málaðar í dag, leiklistar- og danshópurinn byrjaði að undirbúa sitt atriði og einnig kvikmyndahópurinn sem lagði drög að handriti stuttmyndarinnar sem verður gerð.

Hluti kvikmyndagerðarhópsinsÍ kaffitímanum var boðið upp á skúffuköku og mjólk með, og síðan fulllllt af melónum á eftir. Ekkert minna en dásamlegt.

Eftir kaffi var í boði að fara út í íþróttahús eða vera í Spilaborg (bækur, leikföng, spil, púsl, pool og fleira) en okkur fannst ferlega hvasst úti og hver vill skemma hárgreiðsluna ... það var sem sagt hárgreiðslukeppni haldin:

Góð þátttaka var í hárgreiðslukeppninni og hér eru úrslitin:

Hópur hárgreiðslusnillinga og módela1. sæti: Anna Kristín, greiddi Lovísu

2. sæti: Vigdís Elva, greiddi Solveigu Þóru

3. sæti: Fanndís María, greiddi Ragnheiði Helgu

Frumlegasta greiðslanDagný Freyja, greiddi Valnýju Láru

Allar fengu stelpurnar viðurkenningarskjöl og eftir keppnina fóru sumar út í íþróttahús en aðrar kusu að vera í Spilaborg.

Í kvöldmatnum var boðið upp á grjónagraut
sem sló nú bara í gegn og á eftir sporðrenndu stelpurnar næstum tonni af ávöxtum.

Skreytt í tilefni komu hópsinsKvölddagskráin reyndi vel á - en hún byrjaði með brennókeppni sem haldin var á milli hópa, Hafmeyjar sigruðu, en síðan var sundferð ... Slakað var á í heita pottinum á milli þess sem ærslast var í sundlauginni - algjörlega dásamlegt.

Kvöldhressing var á eftir - smurt brauð og safi, enginn sendur svangur í koju hér á bæ og stelpurnar voru mjög ánægðar með kvöldkaffið.

Umsjónarmaður hvers hóps las síðan kvöldsögu, fyrsta lestur framhaldssögu úr bók sem valin var í sameiningu og svo var sofnað frekar hratt og vel eftir virkilega annasaman og skemmtilegan dag.

Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D1.html

 


Konunglegar kisur og örlagaríkur froskakoss

ElíasMaría og FreyjaÍ dag var kannski ekki mikið sólskin hjá okkur en hlýtt í veðri og logn, það rigndi í nótt en ekkert í dag.

Eftir morgunverðinn góða var haldið á námskeiðin, síðustu tökur í kvikmyndagerð fóru fram og íþróttahópurinn snjalli skellti sér í sund, allir þar búnir að æfa þvílíkt mikið og börnin voru tilbúin fyrir kvöldið. Grímugerðarhópurinn æfði í íþróttahúsinu og danshópurinn æfði dans.

Í hádeginu var boðið upp á pastarétt og vel var tekið til matar síns - eins og venjulega. :)

Hádegisfundirnir voru á sínum stað og í dag var talað um hvað það skiptir miklu máli að koma vel fram við aðra og að láta ekki hafa of mikil áhrif á sig. Börnin drógu miða með jákvæðum staðhæfingum og málin voru rædd fram og til baka.

Og jú, námskeiðin voru aftur eftir hádegi, enda bara nokkrir klukkutímar í lokakvöldvökuna.

 

AfmælisbarniðÍ kaffitímanum var afmæliskaka í boði fyrir börnin, ásamt mjólk, skúffukaka með súkkulaðikremi og afmælisbarnið, Ragnheiður Sunna, fékk afmælissönginn, afmælisgjöf frá sumarbúðunum og afmælisskeytta kökusneið.

Já, og svo voru að sjálfsögðu mjög svo afmælislegar melónur á boðstólum, sem runnu líka mjög vel niður.

 

 

KassabílarallíEftir kaffi var kassabílarallíið haldið. Miklar æfingar voru dagana á undan. Silverstone hvað! Þau sem lentu í fyrsta sæti, voru sem sagt langfljótust, voru Elísabet Lára, Lilja Kolbrún, Nökkvi og Silvía Hlökk

 

Þar á eftir var ruslatínsla, sem alltaf er daginn fyrir heimför. Börnin sem tóku þátt voru dugleg að tína rusl og steina og einnig sópuðu þau vel og vandlega. Að sjálfsögðu fengu þau verðlaun sem þau völdu sér sjálf úr ruslatínsluverðlaunakassanum.

 

Og það var sópað Í kvöldmat bauð eldhús dýrðarinnar upp á hamborgara með öllu, franskar og gos. Algjör sæla. Duglega fólkið í eldhúsinu flýtti sér að ganga frá öllu eftir matinn því að allir, bókstaflega allir í sumarbúðunum vilja ekki missa af lokakvöldvökunni. Börnin hefðu án efa viljað hjálpa til við fráganginn en það er ekki pláss fyrir allan þann fjölda í eldhúsinu þótt stórt sé svo þau fóru bara í skemmtilegan stórfiskaleik á meðan.

 

En loks rann stóra stundin upp - sjálf lokakvöldvakan.

 
Litli Óli í skógi var á sínum stað hjá starfsfólkinu
og börnin höfðu mjög gaman af.

Íþróttasýning á lokakvöldvökuÍþróttahópurinn var því næst með sýningu þar sem handahlaup og trampólínstökk voru í aðalhlutverki.

Grímugerðarhópurinn sýndi látbragðsleikrit um prinsessuna sem átti fullt af dyrum, kú, kanínu, kisur og eina síamstvíburakisu. Einn daginn rændi risaeðla (sem býr í dimmum skógi) kisunum og síamstvíburakisunum. Ein kisan slapp og gat sagt frá.
Hin dýrin fóru að leita og fengu hjálp frá álfi sem bjó í töfratré. Hann breytti risaeðlunni í frosk. Prinsessan kyssti froskinn sem breyttist í prins. Allir dönsuðu af gleði og lifðu svo hamingjusöm til æviloka.

GrímugerðarleikritiðDansinn var rosaflottur og heppnaðist sérlega vel.

Starfsfólkið sýndi Búkollu sem er á gelgjunni þrátt fyrir að mjólka vel. Litla skessan var líka á gelgjunni þannig að þeim líkaði bara ágætlega hvorri við aðra en stóra skessan þoldi ekki gelgjur og var að hugsa um að skila Búkollu áður en sonur karls og kerlingar kom og bjargaði henni ...

Ávextir eins og hver gat í sig látið í matsalnum og svo glaðningur á eftir, ís (frostpinni) sem vakti mikla lukku.

Stuttmyndin sýndÞá var komið að stuttmyndinni sem var alveg frábær. Hún heitir Leitin að konunglegu kisunum. Fjallaði um Prins og Caties Everten (ekki prinsessu) sem búa saman og eiga fullt af kisum. Dreki einn er mjög veikur og það eina sem getur læknað hann eru kisuhár. Draugar, djöfull og morðingi eru send af stað til að ræna kisunum sem tekst. Spiderman (sem Anthony, 4 ára starfsmannabarn, leikur) kom svo og bjargaði kisunum og allir dönsuðu af gleði þegar kisurnar voru sloppnar úr prísundinni. Skemmtileg mynd með frábærum leikurum. :)

KvöldhressinginÞegar börnin voru háttuð og komin upp í rúm fengu þau afhenta viðurkenningu frá umsjónarmanni sínum og einnig kom í ljós hver staðan var í plúsakeppninni.

Þau voru fljót að sofna og heilmikil tilhlökkun í gangi að hitta fólkið sitt næsta dag.

 

Dagskráin á heimfarardaginn verður þannig
Pakka niður eftir morgunmat og horfa síðan aftur á stuttmyndina. Þá er hægt að leika sér bæði úti og inni, bara eftir vali hvers og eins. Borða svo gómsæta kakósúpu með tvíbökum í hádeginu ... og þá er eiginlega bara komið að brottför - rútan leggur af stað kl. 13 og áætlaður komutími í Perluna er kl. 14.45.

Við þökkum kærlega fyrir frábæra og ævintýraríka viku!

Hér eru myndir frá deginum > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D5.html#grid


Glimmerkerti, glæsifákar ... og Ævintýrabarkinn

Fjör í sundiLjúft í heita pottinumVeðrið í gær var dásamlegt, og þótt rigningu hafi verið spáð kom ekki dropi úr lofti.

 

------ ---0--- -----

 

Eftir morgunverð drifu börnin sig í sund, síðan í kertagerð og á útisvæði en keppendur kvöldsins fóru á æfingu eftir stutta sundferð. Það var svo mikill spenningur - og svo mikilvægt í þeirra huga að geta gert sitt allra besta.

 

Kertagerðin var mjög vinsæl - en börnin byrja á því að velja sér bláskel sem Ellen hellti síðan vaxi í og kveik var komið fyrir í því. Þegar vaxið var farið að storkna, gott að blása svolítið á það, þá var hægt að fara að skreyta eftir smekk, með glimmeri og fleira skrauti að hætti hússins. Sjá mynd hér aðeins neðar, til vinstri.

 

Útisvæðið var fjölsótt að vanda en hitinn það mikill úti að börnunum fannst gott að fara inn á herbergin skömmu fyrir hádegi til að kæla sig niður.

 

KertagerðinÍ hádeginu bauð eldhúsið upp á hrísgrjónagraut og síðan mikið, mikið, mikið af ávöxtum. Vel var borðað að vanda. 

Síðan var haldinn hádegisfundur og eftir hann voru námskeiðin haldin, aðeins rúmur sólarhringur í lokakvöldvökuna svo það þurfti að halda vel á spöðunum, æfa og æfa íþróttir, taka upp bíómynd, byrja að skipuleggja myndlistar-, dans- og grímugerðarsýningarnar. Mikið að gera á stóru heimili ...

Ævintýrakaka var í boði í kaffitímanum og einnig tekex með heimagerðu appelsínumarmelaði.

 

Tökur í kvikmyndagerðinniÍþróttahúsið var vinsælt eftir kaffi, einnig Spilaborg og útisvæðið þar sem mikið var æft fyrir kassabílarallíið sem sólarhringur var í.

 

Myndavélin fór með á reiðnámskeiðið og eins og sjá má á myndunum á heimasíðunni (sjá hlekk neðst á síðunni) var gaman fyrir knapana knáu að ríða um fallegar slóðir á þessum fallegu og barngóðu glæsifákum.

 

ReiðnámskeiðÍ kvöldmat bauð eldhús stórfengleikans upp á glænýjan steiktan fisk með hrísgrjónum og karrísósu ... eða tómatsósu. Og börnin voru mjög sæl með þennan góða kvöldverð - og sum þáðu hrísgrjónagraut frá því í hádeginu í eftirmat.

 

Þátttakendur í hæfileikakeppninni tóku eina æfingu í viðbót, lokarennslið, generalprufuna, lokaæfingu ... en hin börnin fóru í útileiki á meðan.

 

Ævintýrabarkinn þátttakendurÞá kom loks að Ævintýrabarkanum - söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands. Atriðin þóttu öll mjög jöfn að gæðum og reyndi nokkuð á samlagningarkunnáttu yfirmanns dómnefndar. :) Þátttakendur uppskáru mikil fagnaðarlæti og greinilegt var að börnin kunnu að meta þessa góðu skemmtun. Tvö söngatriði fengu jafnmörg atkvæði í annað sætið. Öll börnin sem tóku þátt fengu viðurkenningarskjöl. Hér koma úrslitin, eða efstu þrjú sætin:

1. sæti: Jóhanna Huld söng lagið Betri tíð
2. sæti: Sema söng lagið Hallelujah
2. sæti: Cindy Natica söng lagið Bleeding love
3. sæti: Filippía Þóra söng lagið Til útlanda (frumsaminn texti við Euphoria)

Kvöldhressingin var brauð og safi og síðan var það draumalandið góða. 

Myndir frá deginum eru hérna > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D4.html

 


Rjómavöfflur og rosafjör!

Frá námskeiðunumDagurinn í dag var aðeins öðruvísi að því leytinu að námskeiðin voru haldin fyrir hádegi. Það var nú frekar sniðugt því að rigningunni þóknaðst einmitt að koma fyrir hádegi. Bara frábært og kom sér vel fyrir okkur!

Vel gekk á námskeiðunum, efni stuttmyndarinnar hjá börnunum í kvikmyndagerð er leyndarmál eins og svo oft en við komumst að því að hluti barnanna í leiklist og grímugerð er að semja og æfa dans sem á að sýna á lokakvöldvökunni á föstudagskvöldið.

Í hádeginu var boðið upp á núðlur og núðlusúpu, brauð með eggi og kæfu og það bragðaðist svona líka vel. Tilhlökkun ríkti, enda alveg að koma að hátíðinni. Fyrst var þó hádegisfundurinn haldinn, hver hópur með sínum umsjónarmanni.

Húllumhædagurinn setturEftir fundinn var HÚLLUMHÆDAGURINN settur með pompi og prakt. Litir dagsins: Rauður og blár.

Börnin byrjuðu á því að fara í fánaleikinn. Skipt var í tvo hópa, Martröð og Draum. Martraðarbörnin fengu rauða málningu í andlitið og Draumshópurinn bláa. Alveg í stíl við litaþema dagsins. Leikurinn var mjög spennandi en enginn sigurvegari ... það varð nefnilega jafntefli.

Á útisvæðinu var margt við að vera og einnig inni. Haldin var sápukúlusprengikeppni og þátttakan mjög góð þar og svo var hægt að fá bandfléttur í hár og tattú. Við bjóðum upp á flétturnar og tattúið nógu oft til að allir sem vilja fái. 

Útisvæðið er svo skemmtilegtHátíðarvöfflurnar voru bakaðar og alveg fullt af þeim. Rjóminn átti að vera rauður og blár. Allt í lagi með bláa rjómann, hann varð blár - en sá rauði ... hann varð bleikur. En alveg jafngóður og frábær ofan á súkkulaðiglassúrinn sem þakti flestar vöfflurnar. Sumir vildu nú bara sultu, aðrir sykur og það var ekkert mál. Börnin fengu eins mikið af vöfflum og þau gátu í sig látið en einhverjar áhyggjur ríktu í upphafi um að það yrði bara EIN vaffla á mann. Flestir voru þó orðnir pakksaddir eftir tvær. Liturinn í rjómanum er að sjálfsögðu góður, ekkert eiturdrasl. :)

Hafdís Alda afmælisbarnHún Hafdís Alda átti afmæli í dag, varð átta ára, hún fékk afmælispakka og allir sungu afmælissönginn fyrir hana. Það er alltaf mjög gaman að eiga afmæli í sumarbúðunum.

Svo komu góðir gestir, tvíburarnir Úlfur og Ísak, sem munu verða sumarbúðabörn í framtíðinni og settust við borðið hjá Sæljónum. Þeir lærðu katong-klappið skemmtilega sem er þannig að barið er í borð sjö sinnum, höndum klappað saman sjö sinnum, barið í borð þrisvar og klappað þrisvar, síðan barið einu í borðið og klappað einu sinni, annarri hendi lyft upp og hrópað HEI! Svo kemur dauðaþögn.

Eftir kaffi mætti skrítin kerling úr Borgarnesi, Jósefína Potter spákona. Hún þóttist vita hvað börnin yrðu þegar þau yrðu stór og þau voru mjög ánægð með svörin, enda hver vill ekki verða flugkona/flugmaður, lögga, læknir, forseti, kjarneðlisfræðingur eða strætóbílstjóri? Við vitum reyndar ekkert hvað kerla sagði en börnin voru annars mjög forvitin um hana, voru einhvern veginn viss um að einhver starfsmaðurinn hefði farið í búninginn ... 

Andlitsmálun, skartgripagerð, keila og zumba (wii), ásamt áframhaldandi tattúi og bandfléttum í hár var einnig í boði og það var sérlega mikið stuð í gangi.

Þessi hópur er einskaklega VIRKUR, börnin eru mjög dugleg að taka þátt í öllu og finnst allt svo skemmtilegt. Íþróttahúsið opnaði klukkan 18 og var opið ásamt útisvæðinu og svo hálftíma síðar fóru börnin inn á herbergin til að slaka svolítið á fyrir komandi kvöld ... en heill draugaleikur var fram undan. Úúúúú.

Eldhús stórkostleikans bauð upp á pylsur með öllu og gos - og ekki að sjá að börnin hefðu borðað svona mikið magn af vöfflum ekki svo löngu áður ... en kokkarnir njóta þess að gefa þessum lystugu börnum að borða.

Eftir draugaleikinn kom Kokkurinn í heimsóknDRAUGALEIKURINN var haldinn í Diskóherberginu og þaðan er hægt að fara inn í Bíósalinn og svo endar maður í matsalnum en leikurinn gengur út á það að hlaupa frá forstofu matsalarins og þaðan inn í diskó. Við dyrnar inn í bíóherbergið er svo tjald og þar á að sækja eina glóstiku og fljúga hreinlega með hana út á ljóshraða, inn í matsalinn og rétta starfsmanni og svo er annar starfsmaður sem tekur tímann. Þetta er eins og boðhlaup og hópurinn sem er fljótastur vinnur og allir í þeim hópi fá viðurkennignu og verðlaun. Hafmeyjar sigruðu en það munaði litlu hjá öllum hópunum. Dularfull hljóð heyrðust sem gerðu þetta allt mjög svo draugalegt. Tónlist, myrkur (en vasaljós og smáaðstoð) og reykvélin bættu um betur.

Eftir að „draugarnir“ (Atli, Árni Páll og Teddó (sonur Rögnu næturvarðar)) tóku af sér grímurnar og hneigðu sig mætti Kokkurinn (Árni Páll) á svæðið. Kokkurinn fullyrti með frönskum hreim að Jói Fel væri brúða sem hann stjórnar og lætur hann fá allar uppskriftirnar.

Rautt og blátt þema alls staðar, líka í rjómanumEftir leik á útisvæðinu í smástund var hoppað í náttfötin og inn í matsal, ekki til að fá venjulega kvöldkaffið sitt, ávexti eða smurt brauð, heldur voru sýndar tvær stuttmyndir úr safni Ævintýralands og með myndunum mauluðu börnin poppkorn og drukku safa. Yndislegur endir á frábærum degi. Svona náttfatabíópartíendir.

Þau voru fljót að sofna eftir kvöldsöguna.

Vinningshafar dagsins
:

Sápukúlusprengikeppni: Maciej Marek
Keila: Ísleifur Jón
Draugaleikur: Hafmeyjar

Myndir frá húllumhædeginum eru hérhttp://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D3.html#grid


Diskó, tattú, pítsur og leikrit

Gaman í sundiNóttin gekk vel og börnin sváfu eins og steinar, þau voru mjög góð að sofna í gærkvöldi. Sólin skein glatt þegar börnin vöknuðu og veðrið var dásamlegt fram að kaffi.

Eftir mjög svo staðgóðan morgunverð, hlaðborð með góðmeti á borð við hafragraut, kornfleks, súrmjólk, seríos og ristað brauð með áleggi var haldið út í góða veðrið, í sund og á útisvæðið. Þau sem ætla að taka þátt í Ævintýrabakanum fóru á fyrstu æfingu, en söngvara- og hæfileikakeppnin verður haldin á fimmtudagskvöldið. Eins gott að byrja strax að æfa. :)

Ping og Pong í leikritinuSvo var íþróttahúsið opnað og þangað lá straumurinn. Eftir hálftímaleik eða svo hófst leiksýning þar sem starfsfólkið og elstu starfsmannabörnin léku. Þetta var magnað forvarnaleikrit um þær hættur sem geta mætt okkur. Börnin hlógu mikið, enda fyndið leikrit þótt undirtónninn væri vissulega alvarlegur. Eineltismál voru að vanda tekin fyrir og til dæmis hvernig hægt er að bregðast við ef við verðum vitni að einelti. Barnið sem varð fyrir einelti fékk góð ráð frá Ping og Pong sem eru nokkurs konar góðuráðavél og svo voru þarna frændur þeirra, Sing og Song en sá síðarnefndi kann sannarlega ekki að gefa ráð. Sem betur fer hafði Sing vit fyrir honum og líka börnin í salnum.

Pítsur voru í kvöldmatinnEftir leiksýningu fóru börnin inn á herbergin til að ganga frá sunddótinu, sum völdu að slaka á þar fram að mat en önnur hlupu aftur út í sólina og krítuðu og léku sér fram að mat.

Eldhús fullkomnunarinnar
bauð upp á skyr og síðan safaríka ávexti. Allir borðuðu vel og fóru svo á hádegisfund, hver hópur með sínum umsjónarmanni. Á hádegisfundinum voru meðal annars umræður um leiksýninguna og öll börnin eru mjög fróð um það að það eigi ekki að fara upp í bíl með ókunnugum. Hver umsjónarmaður tekur svo púlsinn á börnunum í sínum hópi, vill fá að vita hvernig þau sváfu og hvort þeim líði vel og svo er farið í leiki sem eru uppbyggjandi og sjálfstyrkjandi, þessir fundir eru einstaklega vel heppnaðir og eru á dagskrá daglega.

Námskeiðin hófust klukkan 14. Þrjú námskeið sameinuðust að ósk barnanna, eða grímugerð, listaverkagerð og leiklist og verður þá heldur öflugur hópur sem á eflaust eftir að gera eitthvað magnað á lokakvöldvökunni sem við hlökkum svo til alla vikuna.

Og diskótek var haldið um kvöldiðÍ kaffinu var sungið fyrir Ósk umsjónarmann sem átti afmæli í dag, „var kornung í dag,“ eins og sungið var (26 ára). Börnin fengu dásamlega kryddköku með glassúr og ábyggilega tonn af melónum.

Veðrið var mjög gott eftir kaffi og börnin hoppuðu grunlaus á trampólínunum, krítuðu á stéttina, róluðu, fóru í keilu og fleira en eftir tæpan hálftíma kom þessi líka svakalega rigning. Þá var nú gott að geta flúið skrækjandi í íþróttahúsið eða í Spilaborg. 

Hluti hópsins var sóttur á reiðnámskeið og tóku með sér gott nesti. Þau létu mjög vel af sér eftir námskeiðið og taka myndavélina okkar með á fimmtudaginn.

Bandfléttur í hár líkaUpp úr klukkan hálfsjö barst svo ótrúlega góður matarilmur um allt hús og uppsveitir Borgarfjarðar að börnin stoppuðu í miðri hreyfingu. „Hvað er þetta?“ hvísluðu þau. „Ég held að verið sé að baka pítsur,“ sagði einn umsjónarmaðurinn. Og viti menn, þetta var ekki draumur, heldur voru pítsur í matinn. Og ekkert smágóðar.

Börnin höfðu þó haft orku til að skipta um föt fyrir mat, ekki bara af því að það var veislumatur, heldur vegna þess að var diskótek eftir matinn!!!

Og það var svo gaman að dansa - og þegar börnin fóru út til að anda að sér frísku lofti og kæla sig niður var boðið upp á tattú og bandfléttur í hár.

 

Maður tekur tattúgerð alvarlegaÁvextir voru í boði í kvöldkaffinu og eftir hátt & burst var framhaldssagan lesin. Þeim sem ekki sofnuðu alveg strax fannst gott að lesa svolítið, enda mikið til af bókum, blöðum og Andrésarsyrpum í Ævintýralandi.


Á morgun verður sjálfur Húllumhædagurinn og þá höfum við m.a. þemalit. Þeir verða reyndar tveir á morgun, blár og rauður. Meira að segja rjóminn með vöfflunum verður litaður, helmingur rauður og helmingur blár - en meira um það og hátíðisdaginn mikla á morgun.

Myndir frá deginum er að finna hérna > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D2.html#grid


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband