12.7.2012 | 23:53
Ævintýrabarkinn, lengsti parís í heimi og bingó!
Þetta hafa vissulega verið frekar einhæfar veðurlýsingar upp á síðkastið en enn skín blessuð sólin, veðrið búið að vera frábært í dag.
Eftir morgunverð var farið í sund og á útisvæðið þar sem sitt af hverju var brallað, og þær sem taka þátt í Ævintýrabarkanum æfðu sig, enda stutt í keppnina.
Tíminn leið hratt og þar var kominn hádegismatur, grjónagrautur og ávextir í miklu magni.
Námskeiðin voru á sínum tíma eftir hádegisfundina og það eina sem við fengum að vita var að allt gengi vel þar og væri eftir áætlun. Íþróttahópurinn skellti sér í ævintýraferð, fór að vaða í nærliggjandi á - mjög gaman.
Við ákváðum að hafa kaffitímann úti og meðlætið með öllum vökvanum sem drukkinn var og safaríku melónunum var ævintýrakaka, eða heimabökuð sandkaka.
Útisvæðið var vinsælt eftir kaffi og einnig íþróttahúsið. Spilaborg þótti líka góð þegar þurfti að kæla sig niður. Já, kæla sig niður - inni.
Myndavélin fór með á reiðnámskeiðið og teknar voru flottar myndir að vanda, sjá myndir á heimasíðunni, hlekkur neðst. Hestarnir hennar Guðrúnar reiðkennara eru svo ekkert annað en dásamlegir.
Kvöldmaturinn var heldur betur góður en eldhúsið bauð upp á glænýjan steiktan fisk með hrísgrjónum og karrísósu ... og tómatsósu fyrir þær sem vildu.
Á meðan rennslið fyrir keppnina fór fram spiluðu stelpurnar bingó.
Síðan hófst Ævintýrabarkinn! Og þvílík keppni, stelpurnar voru stórkostlegar! Dómnefndin sat og hlustaði og gaf hverju og einu atriði stig. Svo var farið að reikna og endurreikna og enn og aftur endurreikna. Stigin féllu á einstakan hátt. Tvö atriði voru í fyrsta sæti með hnífjöfn stig, tvö atriði í öðru sæti og haldið ykkur, tvö atriði með jafnmörg stig lentu í þriðja sæti! Stórmerkilegt! Og hér koma sigurvegararnir:
1. sæti: Valný Lára og Dagný Freyja sungu lagið Save and sound og Valný spilaði undir á gítar
1. sæti: Íris Ósk söng lagið Ben
2. sæti: Vigdís Elva og Solveig Þóra sungu lagið Part of me
2. sæti: Fríða Lilja söng lagið Skater boy
3. sæti: Anna Día og Rut dönsuðu við lagið Set it on fire
3. sæti: Agnes dansaði við lagið Stóð ég úti í tunglsljósi
Þess má geta að þátttakendur kvöldsins koma alls staðar að, eða frá Hafnarfirði, Siglufirði, Eskifirði, Egilsstöðum, Garðinum, Þorlákshöfn og Garðabæ.
Kvöldhressingin var á sínum stað, og eftir kvöldsaöguna var það bara draumalandið.
Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D4.html#grid
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2012 | 21:29
Vatnagleði og vöfflur með bleikum rjóma
Þar sem veðurlýsingar eru hluti af helstu fréttum héðan úr Ævintýralandi má geta þess að gærdagurinn, dagur 3, var stórkostlegur fyrir sóldýrkendur, hiti og logn, sannkölluð bongóblíða.
Þetta var öðruvísi dagur - eða sjálfur Húllumhæ-dagurinn. Eftir morgunverð fór stelpurnar á námskeiðin en þau eru vanalega eftir hádegi. Við vildum hafa skemmtunina samfellda og þótt námskeiðin séu ógurlega skemmtileg eru þau tekin alvarlega af stelpunum. Enda heil lokakvöldvaka í húfi.
Mikil leynd hvílir yfir öllu, enda eiga atriðin að koma á óvart á lokakvöldvökunni. Það er til dæmis ekkert voðalega spennandi fyrir hina (á hinum námskeiðunum) að vita um hvað bíómyndin fjallar, hvernig íþróttasýningin verður, eða leikritið/dansinn ... en við fengum að kíkja inn og taka nokkrar myndir sem sýna hluta af því sem er í gangi.
Morgunninn var fljótur að líða og allt í einu komið hádegi. Í boði voru núðlur/núðlusúpa og smurt brauð með eggjum og kæfu.
Þá var haldinn hádegisfundur með umsjónarmönnunum og þar á eftir var húllumhædagurinn settur. Litur dagsins var bleikur og reyndu stelpurnar virkilega að finna þó ekki væri nema bleika hárspennu til að setja í sig ... eða þannig.
Allar voru þær vel í stíl við þemað.
Farið var í vatnagleði þar sem stelpurnar renndu sér eftir vatnsbraut (slip and slide, upp á útlensku). Við breiddum byggingaplast á grasið, sprautuðum vatni á það og stelpurnar renndu sér, alsælar í sundfötunum. Svo var legið á handklæðunum í sólbaði, algjör sólarlandastemning.
Í kaffinu bauð eldhúsið hins bleika litar upp á nýbakaðar vöfflur með súkkulaðiglassúr og BLEIKUM rjóma. Vel var borðað af kræsingunum og rjóminn sló í gegn!
Eftir kaffi var heilmargt við að vera. Ber þar að nefna að skrítin kerling frá Borgarnesi, Jósefína Potter, mætti uppáklædd á svæðið og sagðist ætla að spá fyrir börnunum. Það vakti heilmikla kátínu ... og vangaveltur um það hver af starfsfólkinu þetta gæti verið ... Hún sagði stelpurnum að þær yrðu forsetar, kjarneðlisfræðingar eða slökkviliðskonur ... og allt þar á milli og þótti þetta vera bráðskemmtilegt atriði.
Skartgripagerðin var frábær, líka keila og zumba Wii-leikirnir, ásamt því að tattú og bandfléttur voru áfram í boði. Allar sem vilja fá fléttu og tattú.
Spennandi sápukúlukeppni var haldin á útisvæðinu og tókst Gyðu Stefaníu að sprengja eitthvað um milljón, trilljón sápukúlur á einni mínútu svo hún var krýnd sápukúlusprengimeistari Ævintýralands.
Einnig var kertagerð og fjöldi fallegra kerta var búinn til. Stelpurnar völdu sér bláskel sem vaxi var varlega hellt í og kveik komið fyrir. Þegar vaxið fór að storkna var hægt að skreyta með glimmer og fleira flottu dóti - eftir smekk hverrar og einnar.
Um kvöldmatarleytið var slegið upp pylsupartíi! Pylsur með öllu og appelsín með. Mikið, mikið borðað.
DRAUGALEIKURINN var í diskóherberginu og nokkrar hetjur voru meira en til í að sækja eina glóstiku og fljúga út með hana á ljóshraða þrátt fyrir mögulegar forynjur í myrkrinu. Sú fljótasta vann fyrir hópinn sinn. Svo komu draugarnir fram, tóku af sér grímurnar og hneigðu sig. Þetta var svona spennuleikrit með þátttöku stelpnanna. Já, og draugarnir ógurlegu voru nú bara Gummi, Davíð og Dagbjört sem fengu mikið klapp.
Nú héldu stelpurnar að dagskránni væri lokið og fóru á náttfötunum inn í matsal til að fá kvöldhressinguna. Þar beið þeirra poppkorn og safi og síðan var haldið bíókvöld fyrir þær, óvænt og ótrúlega skemmtilegt.
Síðan voru tennur burstaðar vel og vandlega, farið upp í rúm og kvöldsagan lesin. Svo var bara sofnað rótt og vel.
Myndir dagsins eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D3.html#grid
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2012 | 20:24
Föndur, forvarnarleikrit, pítsur og diskó!
Sól og blíða ríkti á öðrum degi. Rokið hafði fokið út í veður og vind. Stelpurnar sváfu einstaklega vel fyrstu nóttina og voru flestar sofnaðar áður en umsjónarmennirnir fóru af vaktinni. Sumarbúðastjórinn mætti um kl. 23 og ætlaði að aðstoða næturvörðinn en enginn þörf var á því.
Morgunmaturinn var heldur betur staðgóður, og er alltaf, enda heilt morgunverðarhlaðborð með hafragraut, kornfleksi, súrmjólk, cheeriosi, ristuðu brauði með áleggi ... hægt að velja úr eða fá sér allar tegundir.
Strax eftir morgunverð var farið út í íþróttahús, í sund eða á útisvæðið. Skráning í karókókeppnina og fyrsta æfing var einnig, en við köllum þessa skemmtilegu keppni Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann.
Um kl. hálftólf hófst leikrit úti í íþróttahúsi, forvarnaleikrit þar sem tekið var á ýmsum málum sem gott er að hamra á, eins og eineltismálum, hættum sem leynast á Internetinu, að fara ekki upp í bíl hjá ókunnugu fólki, sama þótt það sé t.d. í vandræðum með sæta hvolpa ... eða segist vera það. Leikritið var stórskemmtilegt og bráðfyndið þrátt fyrir alvarlegan undirtóninn.
Í hádeginu bauð eldhúsið dýrlega upp á skyr og einnig var nóg af ávöxtum í boði. Þá var haldið beint á námskeiðin en vanalega eru hádegisfundirnir haldnir strax eftir matinn, að þessu sinni var hann klukkan þrjú - og mikið rætt um leikritið og boðskapinn í því. Hver umsjónarmaður fundar með hópnum sínum og fundirnir auka mjög á samstöðu hópsins, svo er bara svo gaman að spjalla saman í rólegheitum. Oft eru nú samt leikir og sitt af hverju skemmtilegt sem umsjónarmanninum dettur í hug að gera - ja, eða börnunum.Í kaffinu var kryddkaka með súkkulaðikremi og melónur.
Stöðvar í boði eftir kaffi voru íþróttahúsið og Spilaborgin góða, einnig föndurstofan þar sem hægt var að mála og lita hjá Ellen. Náð var í laufblöð og stimplað með þeim.
Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt klukkan 15 og fóru með nesti með sér, og brostu hringinn þegar Siggi rútubílstjóri kom að sækja þau. Þeim fannst mjög gaman og verða send með myndavél á fimmtudaginn og það kvöld koma svo myndir á heimasíðuna.
Í kvöldmat voru PÍTSUR!!! Mjög, mjög góðar og mikið borðað.
Síðan fóru stelpurnar á dansleik - það var heilt diskótek haldið í danssalnum góða sem gengur þó alltaf undir nafninu Diskóherbergið. Mikið var dansað og þegar stelpurnar fóru fram til að kæla sig aðeins niður gátu þær fengið tattú og/eða bandfléttu í hárið. Einhverjar fóru út og fengu sér frískt loft og það var líka frábært. Eins og á öllum alvörudansleikjum fór fram limbókeppni og mikið voru stelpurnar liðugar. Sú sem vann heitir Eydís Emma og setti hún líklega heimsmet í teygjum og sveigjum.
Ávextir í kvöldhressingu og svo var haldið í háttinn. Eftir hátt og burst las umsjónarmaður hvers hóps fyrir stelpurnar sínar og þær sem ekki sofnuðu lásu áfram sjálfar þar til draumalandið tók yfir. Fram undan var heill húllumhædagur - og þemalitur BLEIKUR, hvað annað!
Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D2.html
Næsta blogg kemur eftir smástund. Tölvan komin í "lag" (uppfærslumál) en nú verða tafirnar unnar upp af fullum krafti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 12. júlí 2012
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 91094
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar