Færsluflokkur: Bloggar
17.7.2011 | 00:36
Enginn venjulegur dagur!
Dagur 4 var enginn venjulegur dagur - heldur húllumhædagur. Þá daga breytist dagskráin svolítið - og það er engu líkara en að kominn sé 17. júní þótt nú sé miður júlí!
Stelpurnar vöknuðu eldhressar og kátar eins og venjulega, burstuðu tennur, klæddu sig og hvaðeina, eins og væri venjulegur dagur, borðuðu líka morgunmat eins og venjulega, hafragraut eða cheerios, ristað brauð eða súrmjólk með kornfleksi og púðursykri ... bara allt eins og venjulega.
Svo hófust námskeiðin ... FYRIR hádegi. Það var bara fjör og gengu æfingar mjög vel. Við hittum kvikmyndagerðarhópinn á förnum vegi í húsakynnum Ævintýralands og mynduðum, flott að ná af þeim myndum, svo mikil leynd hefur hvílt yfir bíómyndinni þeirra en við vitum þó að þetta verður ævintýramynd af betra taginu.
Alveg sérlega góður grjónagrautur var síðan í hádeginu og var mikið borðað af honum. Einnig af melónunum sem voru í eftirmat. Sigurjóna matráðskona ljómaði, alltaf gaman að gefa lystugum börnum að borða. Hún á nú eftir að ljóma enn meira ... ef við þekkjum hana rétt og matinn hennar.
Hádegisfundirnir voru voða skemmtilegir en síðan ...
... var húllumhædagurinn settur með pomp og prakt! Starfsfólkið fór í búninga og lét svolítið kjánalega en það var bara gaman. Eiginlega alveg rosalega fyndið.
Fánaleikurinn var fyrstur á þéttskipaðri dagskrá dagsins og hann var svoooo skemmtilegur. Liðin Martröð og Draumur börðust upp á líf og ... klemmur og hafði fyrrnefnda liðið sigurinn að þessu sinni.
Eftir leikinn var góð afslöppun að fara í vinabandagerð - fá bandfléttu í hárið eða jafnvel tattú!
Kaffitíminn var á réttum tíma en þetta var heldur ekkert venjulegur kaffitími. Hún Krista átti afmæli í dag, varð níu ára, og haldið var upp á það með heitum veisluvöfflum með súkkulaðiglassúr og rjóma (það er ofboðslega gott). Hún fékk afmælissöng, kort og gjöf, og einnig að velja sér fyrstu vöffluna. Einnig var kveikt á möffinskerti fyrir hana svo að hún gæti óskað sér þegar hún blés á það. Afmælisgestirnir voru sælir með að fá nýbakaðar vöfflurnar og líka starfsfólkið. Vöfflur eru algjör dýrð.
Nú, skemmtilegheitin héldu áfram eftir kaffi. Það var blásið til skartgripagerðar, meiri tattúgerðar, tenniskeppni (wii), bandfléttur voru fléttaðar eins og enginn væri morgundagurinn og í Spilaborg voru það borðtennis og Latabæjarspilið sem nutu mestra vinsælda.
Eins og á góðum 17. júní-legum hátíðum þarf eitt atriði alltaf að vera fyrir hendi, eins og sumarbúðabörnin fyrir tíu árum sögðu í skoðanakönnun um hvernig skemmtilegastu húllumhædagarnir ættu að vera. og það er spákonutjaldið! Við fundum konu úr Borgarnesi, Jósefínu Potter, sem tók að sér það verkefni að manna tjaldið. Hún mætti í dag og var hrikalega fyndin.
Stelpunum var sagt að þær mættu bara spyrja einnar spurningar ... en það gæti fokið í kellu ef þær yrðu fleiri. Það gaf nokkrum nokkrum stelpum þá frábæru hugmynd að stríða spákonunni svolítið og það gerði t.d. hún Eydís Emma og spurði tveggja spurninga, alveg viðbúin að hlaupa í burtu, sem hún gerði skrækjandi. Önnur stelpa sagðist aldeilis ætla að tilkynna spákonunni að svona stress, að leyfa ekki tvær spurningar, gæti bara valdið of háum blóðþrýstingi. Annars var þetta flott spákona, sagði eitthvað jákvætt og sniðugt við stelpurnar ... sem sögðu svo að þessi spákona væri nú svolítið lík honum Gumma umsjónarmanni. Það gat eiginlega ekki passað, sagði starfsfólkið, því hann fór til Borgarness til að kaupa ... uh, klósettpappír. Þá var nú hlegið.
Eldhús snilldarinnar hafði haft í nógu að snúast á meðan stelpurnar skemmtu sér og starfsfólk hafði kveikt upp í grillinu þar sem pylsur voru grillaðar af mikilli list ... og síðan borðaðar af mikilli lyst skömmu síðar. Pylsurnar voru borðaðar í brauði og með tómat, sinnep og lauk, eða bara því sem hverjum og einum fannst best.
Eftir mat var síðan bíókvöld og mauluðu hamingjusamar stelpurnar popp með myndinni og renndu því niður með svala. Það tókst að ljúka við bandflétturnar á meðan horft var á bíóið og það var nú aldeilis gott.
Frábær dagur og gott að komast upp í eftir öll skemmtilegheitin og hvíla sig fyrir ævintýri næsta dags.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum úr góða veðrinu.
Myndir frá húllumhædeginum eru hérna fyrir neðan, bein lína:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d4_2011.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2011 | 13:24
Kertagerð, dekurhorn og diskótek
Þriðji dagurinn var ekkert annað en frábær og margt við að vera. Stöðvar sem hægt var að velja um eftir morgunverðinn voru sund, útisvæði, Spilaborg, kertagerð og svo var haldin karaókíæfing fyrir þær sem ætla að taka þátt í Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum.
Kertagerðin er alltaf ofurvinsæl og urðu til ógurlega fallega skreytt kerti, eins og sést vonandi á myndunum frá degi 3. Bráðið vax, ásamt kveik er sett í bláskel (fullorðinn gerir það) og síðan fær barnið kertið sitt í hendur til að skreyta eftir því sem hugmyndaflugið býður.
Íþróttahúsið varð fyrir valinu hjá langflestum eftir kertagerðina og þar fór fram algjört ofursprell. Enda mikið hægt að gera skemmtilegt þar.
Í hádeginu bauð eldhúsið upp á gómsæta kakósúpu og tvíbökur, einnig ávexti á eftir. Ávextir eru mjög vinsælir í Ævintýralandi og mikið borðað af þeim.
Eftir hádegisfundinn með umsjónarmönnunum var haldið í leikhús ... en forvarnarleiksýning fór fram úti í íþróttahúsi og var mjög skemmtileg. Ping og Pong fóru á kostum og starfsfólkið sem lék stóð sig vel. Í stuttu máli þá fjallar sýningin um þær aðstæður sem geta komið upp hjá börnum, erfiðar, jafnvel hættulegar, og þeir Ping og Pong, síðar Sing og Song, gefa góð ráð (ja, nema Song, honum finnst í lagi að gera sitt af hverju en stelpurnar voru nú ekki sammála honum, heldur hinum varkára og skynsama Sing).
Ýmsar aðstæður voru leiknar og sýnt hvernig hægt er að t.d. taka ekki þátt í einelti, fara ekki upp í bíl með ókunnugum, sama hversu sætir upplognu hvolparnir í bílnum eru ... og svo framvegis. Flott sýning sem situr lengi í börnunum og er rædd fram og tilbaka á hádegisfundum á eftir.
Námskeiðin fóru síðan á fullt og gengur allt mjög vel.
Dansinn æfir og æfir og lítur allt út fyrir ægiflotta danssýningu hjá þeim á lokakvöldvökunni.
Kvikmyndagerðin skellti sér í búninga- og leikmunadeild Ævintýralands og valdi sér sitt af hverju fyrir bíómyndina sem er í smíðum hjá þeim.
Íþróttahópurinn er samansettur af liprum og liðugum snillingum og ganga æfingar (og leikir) mjög vel hjá honum líka.
Í kaffinu var boðið upp á köku, og melónur á eftir. Síðan var blásið til hárgreiðslukeppni sem langflestar stelpurnar tóku þátt í. Aðrar fóru í borðtennis og annað skemmtilegt.
Hárgreiðslurnar voru hver annarri flottari og dómnefnd reif í hár sitt af örvæntingu yfir því að þurfa að velja á milli ... en þar sem þetta er keppni þá verður víst að velja ... en auðvelt var það ekki.
Í fyrsta sæti lentu Aníta Ýr og Erla Svanlaug sem greiddu Ernu Kristínu.
Í öðru sæti lentu þær Rakel Sandra (hármeistarinn) og Vigdís Elva (módel)
Í þriðja sæti lentu tvö lið: Elva Sól sem greiddi Eydísi Emmu og Sunna Björk sem greiddi Hafrúnu Örnu.
Frumlegasta: Alexandra og Eygló Anna (módel)
Ævintýralegasta: Sonja Heiða og Valný, Dagný Freyja var módel.
Allar fengu viðurkenningu og sigurvegarnir fengu lítil verðlaun á borð við spennur, teygjur og slíkt.
Síðan, já, haldið ykkur, var dekurhorn fyrir allar skvísurnar okkar. Ellen bjó til maska úr kaffikorgi, olíu, hunangi og hrásykri. Stelpurnar mökuðu þessu á hendurnar, höfðu á í smástund og skoluðu svo vel og vandlega á eftir. Hendurnar urðu svoooo mjúkar og fallegar. Eftir þetta var boðið upp á naglalökkun sem mikil ánægja ríkti með - enda dansleikur fram undan.
Skömmu fyrir kvöldmat skiptu stelpurnar um föt og svo var haldið í matsalinn. Ilmurinn úr eldhúsinu hafði verið meira en lokkandi ... eiginlega óbærilegur, og þegar inn í salinn var komið blasti dýrðin við ... fullt af girnilegum pítsum! Svo var gos með sem vakti heldur betur lukku.
Eftir pítsuveisluna hófst svo dansleikurinn, eða diskóið, eins og við köllum það nú. Diskókúla, flott tónlist, reykvél, hressar stelpur - flott blanda að góðri kvöldstund.
Stelpurnar fóru reglulega fram til að kæla sig eftir allan dansinn og gátu þá fengið tattú og bandfléttu í hárið, að ógleymdu vatnsglasi ... og svo aftur inn að dansa. Haldin var stórskemmtileg limbókeppni sem Aþena sigraði í.
Þetta var skemmtilegur dagur og stelpurnar voru örþreyttar en sælar þegar þær borðuðu ávexti í kvöldkaffinu og fóru síðan í bólið eftir að hafa burstað tennurnar vel og vandlega.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum - úr öllu stuðinu þar!
MYNDIR: Smelltu á hlekkinn fyrir neðan og þú kemst beinustu leið á myndirnar frá degi 3:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d3_2011.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.7.2011 | 22:57
Námskeiðin og fyrsta karaókíæfingin, brennó og draugaleikur
Allar vöknuðu stelpurnar kátar og hressar að morgni annars dagsins eftir rólega nótt, að sögn Hönnu næturvarðar, og haldið var beint í hlaðborðið, já, hlaðborðið - sem stenst mögulega samanburð við hlaðborð sumra flottustu hótela heims! Á morgunverðarhlaðborði Ævintýralands er boðið upp á hafragraut, kornfleks, súrmjólk, cheerios, ristað brauð með osti og heimalöguðu marmelaði, eða óristað brauð með mysingi. Hægt að velja úr ... eða smakka á öllu.
Íþróttahúsið lokkaði og laðaði eftir morgunverðinn, einnig útisvæðið og sundlaugin. Síðan var fyrsta karaókíæfingin haldin. Þetta er reyndar vinnuheiti á æfingaferli sem hefst fyrsta morguninn og stendur til næstsíðasta kvölds þegar Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn er haldin. Gummi heldur utan um þetta af alkunnri snilld og spilar líka undir á gítar þegar hann er beðinn um það. Þessi keppni er alltaf ótrúlega flott og skemmtileg og þvílíkir hæfileikar sem koma þarna fram.
Í íþróttahúsinu fór fram hástökkskeppni sem Erla Svanlaug sigraði í. Einnig bandíkeppni þar sem stelpunum var skipt í tvö lið, rauða liðið og gula liðið. Það síðarnefnda bar sigur úr býtum.
Þrátt fyrir algjört blíðuveður fóru stelpurnar, að viðbættum þeim sem voru að koma úr sundi, í Tarsanleik í íþróttahúsinu en svo var haldið út í góða veðrið. Fyrst var sólvörnin sótt.
Það var krítað, sippað, hoppað á trampólíninu og legið í sólbaði í blíðunni og margar fóru í snú snú.
Í hádeginu var boðið upp á núðlusúpu ásamt smurðu brauði með eggjum og kæfu. Það þótti ljómandi góður hádegisverður.
Síðan var fyrsti hádegisfundurinn haldinn, hver hópur var með sínum umsjónarmanni. Á fundunum er spjallað heilmikið og einnig farið í skemmtilega leiki.
Námskeiðin gengu mjög vel, allir voru virkir og mjög hugmyndaríkir.
Flestar stelpurnar völdu að fara í kvikmyndagerð og nú er allt farið á fullt við að semja handrit, velja búninga og byrja að taka upp atriðin. Á lokakvöldvökunni sýnir hópurinn síðan stuttmynd og það er alltaf mikið tilhlökkunarefni.
Íþróttanámskeiðið er alltaf mjög ævintýralegt, mikið er hamast og leikið - en það hefst líka laumulegur undirbúningur fyrir sýninguna á lokakvöldinu. Allt er leyndarmál varðandi atriðin. Við reynum samt að njósna smávegis til að geta sett í bloggið þótt allt upplýsist nú fyrir rest.
Stelpurnar á dansnámskeiðinu semja ekki bara dans á fullu, heldur líka leikrit sem mun innihalda dansinn. Mikil gróska í gangi, ekki bara hjá dansleiklistarhópnnum, heldur þeim öllum.
Hluti stelpnanna fór á reiðnámskeið skömmu fyrir kaffi og þær tóku með sér nesti. Myndavélin okkar fer með hópnum á sunnudaginn og um kvöldið birtum við myndirnar á heimasíðunni, og hér á blogginu líka.
Í kaffinu bauð eldhúsið upp á sandköku og ávexti. Síðan héldu flestar stelpurnar út í íþróttahús og léku sér þar í villtu fjöri. Skömmu fyrir mat fóru þær inn á herbergin sín og notuðu tækifærið til að greiða sér og flétta hárið til að það flæktist ekki fyrir um kvöldið ... í brennókeppninni ógurlegu!
Kvöldmaturinn sló í gegn, en Sigurjóna og snilldarliðið hennar, bauð upp á hakk og spagettí!
Eftir æsispennandi brennókeppni (jafntefli) var ... úúúú, draugaleikrit sem hluti barnanna tók þátt í. Sem sagt: Hver hópur valdi sérlega hugrakkar stelpur til að taka þátt og svo þurftu þær hugrökku að ganga í gegnum þvílíkar kvenraunir ... hlaupa á ofsahraða inn í dimmt og draugalegt herbergi, reykvél og tónlist juku heldur betur stemmninguna, sækja stein ofan í fötu í fjarlægari enda herbergisins, fötu sem var full af viðbjóðslegu vatni (kalt vatn og smámold, usss), rétta umsjónarmanni steininn og um leið þurfa að hlaupa undan ógurlegum draugi (Gumma), hlæja ógurlega og skríkja og komast svo út við mikil fagnaðarlæti hópsins.
Við köllum þetta draugaleikrit til að yngstu börnin verði ekki hrædd. En svo skemmtilega vildi til að einmitt hópur yngstu barnanna, Gullfiskarnir, sýndi mesta hetjuskapinn og stelpurnar hlupu nánast á ljóshraða inn og út úr herberginu eftir að hafa leyst þrautina. Húrra fyrir Gullfiskum, eða Brynju og Kristu sem hlupu fyrir hönd hópsins! Hinir hóparnir voru líka eldfljótir en það er alltaf einhver fljótastur. (mynd af Gullfiskum hér fyrir neðan)
Svo kom Gummi yfirdraugur (hann var svo fyndinn) fram og hneigði sig, og einnig litlu aðstoðardraugarnir tveir, börn starfsmanna, orðin nokkuð roskin reyndar, eða á unglingsaldri.
Eftir leikinn voru ávextir snæddir af bestu lyst í kvöldkaffinu og eftir það var kominn háttatími. Viðburðaríkur dagur á enda runninn - ekki leið á löngu þar til ró var komin á mannskapinn, eða öllu heldur kvenskapinn, Heldur betur flottar stelpur!
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum og bendum á myndir frá deginum hérna:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d2_2011.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2011 | 22:33
Stelputímabilið hafið - afmælisveisla og fjör
Nýr og frábær hópur kom til okkar í dag í Ævintýraland, og að þessu sinni eingöngu stelpur.
Að vanda var byrjað á að skella farangrinum með hraði inn á herbergin og síðan var farið í skoðunarferð um svæðið. Margar stelpnanna höfðu verið áður en það er alltaf gaman að fara í hressilega gönguferð og heilsa upp á húsakynnin, útisvæðið, Spilaborg, sundlaugina og bara allt!
Tíminn leið hratt fram að kaffi ... og þetta var enginn venjulegur kaffitími - heldur heil afmælisveisla! Elva Sól varð 10 ára í dag og hún fékk afmælisköku, afmælissöng, afmæliskort, afmælisgjöf og já, svo spilaði blá terta afmælissönginn fyrir hana líka. Gummi spilaði undir á gítarinn þegar allir sungu og vel var tekið undir. Allir í afmælinu fengu að sjálfsögðu afmælisköku líka og svo voru ávextir á boðstólum. Elva Sól fékk táslusokka og snyrtiveski frá sumarbúðunum í afmælisgjöf og virtist harla sátt við það.
Eftir kaffi var haldin kynning, eins og alltaf á fyrsta degi, og kynnt voru námskeiðin sem verða í boði fyrir stelpurnar að velja úr, og starfsfólkið kynnti sig líka. Sumarbúðastjórinn byrjaði auðvitað á því að bjóða stelpurnar hjartanlega velkomnar.
Þær voru ekki lengi að hugsa sig um ... langvinsælust voru námskeið í dansi, íþróttum og kvikmyndagerð. Á morgun hefst strax vinnan við námskeiðin (í tvo tíma á dag) og afraksturinn verður sýndur á lokakvöldvökunni - það verður sko bloggað um þetta allt saman næstu vikuna.Veðrið var ljómandi gott, hlýtt og milt en rétt fyrir kvöldmat fór að rigna. Stelpurnar léku sér á útisvæði, úti í íþróttahúsi og svo inni í elsku Spilaborg sem er svo skemmtileg. Þar er mikið af spilum, púslum, bókum fyrir alla aldurshópa og leikföngum. Einnig er fótboltaspil, pool-borð, borðtennis ... ég legg ekki meira á ykkur.
Skyr var í boði í kvöldmatnum og það rann hratt og vel niður í svanga maga, saðsamt og gott.
Á fyrsta degi er alltaf farið í sund eftir kvöldmat, og það ríkti mikið fjör í lauginni, ögn rólegra var yfir afslöppuðum stelpununum í heita pottinum, enda hver nennir að hoppa og skoppa ofan í heitum potti? Þær sem ekki fóru í sund skemmtu sér í íþróttahúsinu.
Hóparnir eru þrír þessa vikuna. Krossfiskar, Gullfiskar og Hafmeyjar. Aldursskipt er í þá, stóru stelpurnar saman, millialdurinn saman og svo yngstu stelpurnar í einum hópi. Hver hópur er með sinn dásamlega umsjónarmann sem vekur á morgnana og borðar með þeim morgunverðinn, fundar með þeim í hádeginu og endar á að segja þeim kvöldsöguna fyrir svefninn, eða þeim sem það kjósa. Þótt hægt sé að leita til allra starfsmanna þá er samt voða gott að eiga eitt stykki góðan umsjónarmann.
Við erum alltaf með þemalit á hverju tímabili og ... jú, hann verður bleikur þessa vikuna!
Eftir að hafa borðað heilan helling af ávöxtum í kvöldkaffinu var haldið til koju, valin var í sameiningu kvöldsaga fyrir þá hópa sem vildu, og umsjónarmaðurinn las fyrsta hlutann fyrir hópinn sinn. Þegar ró var komin yfir tók næturvörðurinn við.
Á morgun hefjast svo ævintýrin fyrir alvöru - og það er svooo margt fram undan.
Myndir frá deginum er að finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d1_2011.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2011 | 13:08
Þrjú afmælisbörn ... og æðisleg lokakvöldvaka!
Þá var bara komið að sjötta deginum ... og hvílíkur dagur. Þreföld afmælisveisla, loka-, loka-, lokaundirbúningur á öllu og svo kom þessi líka æðislega lokakvöldvaka strax á eftir hátíðarkvöldverðinum úr ævintýraeldhúsinu.
Síðasti morgunverðurinn var þó alls ekki dapurlegur - þvert á móti. Það kjaftaði hver tuska á börnunum á meðan þau borðuðu hafragraut, cheerios, kornfleks, súrmjólk og ristað brauð, og umræðuefnin voru margvísleg, aðallega stóra kvöldið sem var fram undan.
Í mörg horn var að líta, lokatökur hjá kvikmyndagerðinni voru fyrir hádegi og ýmsar æfingar og skemmtilegheit. Tíminn leið hratt fram að hádegismat og að þessu sinni bauð eldhúsið hugumstóra upp á skyr og smurt brauð.
Börnin pökkuðu niður því allra mesta með aðstoð umsjónarmanna ef þurfti og allt gekk mjög vel. Takmarkið er alltaf að gleyma engu! Svo voru það námskeiðin og lögð lokahöndin á allt saman.
Þreföld afmælisveisla var svo haldin í kaffinu. Óðinn Jökull (Krossfiskur) átti afmæli og daginn eftir (brottfarardaginn) var afmæli Arngunnar (Gullfisks).
Svo átti hún Ósk umsjónarmaður afmæli í vikunni.
Ef þetta er ekki tilefni til veisluhalda þá vitum við ekki hvað ...
Afmælissöngurinn var sunginn fyrir afmælisbörnin og þau fengu afmæliskort og gjafir frá okkur.
ALLIR fengu afmælisköku að sjálfsögðu. Kaka afmælisbarnanna var skreytt og með kerti.
Einnig var hið vinsæla tekex með marmelaði a la Sigurjóna í boði í kaffitímanum.
Eftir kaffi voru börnin í íþróttahúsinu og Spilaborg til skiptis, enda aldeilis góðir staðir báðir en þegar leið að kvöldverðinum fóru þau inn í herbergin til að skipta um föt - oft var þörf og nú nauðsyn, enda aðalhátíðin að skella á.
Kvöldverðurinn var ögn fyrr á ferðinni en vanalega vegna langrar kvölddagskrár og hann olli sannarlega engum vonbrigðum.
Eldhús snilldarinnar bauð upp á hamborgaraveislu. Það mátti nánast sjá gleðitár á hverjum hvarmi ... hahaha, börnin voru að minnsta kosti mjög ánægð með þennan mat.
Hamborgarar, franskar, sósa og gos. Bara snilld.
Svo hófst hátíðin mikla! Byrjað var á því að fara á myndlistarsýningu og hvilík sýning! Hvert listaverkið tók við af öðru ... nú vöknaði starfsfólkinu um augu af hrifningu og það hélst allt kvöldið.
Síðan var farið út í íþróttahús og eftir smásprell frá starfsmönnum hófst sýning leiklistar- og danshópsins og vá! Hópurinn sýndi söngleikinn Leiklistar- og söngskóli herra Góðdals. Hann fjallaði um krakka í bekk hjá herra Góðdal sem kenndi alltaf dans og söng. Þau fengu nýjan kennara sem hataði dans og söng. Konan hans heitin hafði verið fræg söngkona og hann var svo sorgmæddur að hlusta á tónlist þar sem hún minnti hann svo á konuna hans. Börnin náðu hins vegar að hjálpa honum að finna gleðina á ný í gegnum sönginn. Handritið var eftir börnin og öll útfærslan. Hvílíkir snillingar! Mikið var klappað fyrir þessum skemmtilega og góða söngleik.
Íþróttahópurinn hafði undirbúið sitt atriði vandlega, eða öllu heldur sín atriði, þau voru fleiri en eitt. Þau byrjuðu á því að sýna glæsilegan dans, eiginlega tvo dansa. Þá var glæsilegt fimleikaatriði og síðast ferlega flott trampólínsýning. Vá, þau voru svo flott og fengu líka góðar viðtökur hjá áhorfendum.
Starfsfólkið og eldri starfsmannabörnin voru næst á svið og sýndu útgáfu af Öskubusku ... hrikalega fyndið leikrit en starfsfólk fékk u.þ.b. eina mínútu til að undirbúa sig eftir að hafa fengið að vita hvaða leikrit ætti að sýna og dregið hlutverk sitt á miða úr hatti. Allir lærðu að dansa niður ...
Lokaatriði kvöldsins var svo stuttmynd kvikmyndagerðarhópsins! Myndin hét Dúllerí, dúllu dúll og fjallaði um dúllur í Dúllulandi, krakka á Íslandi, prins og prinsessu og vont fólk sem bjó hinum megin í skóginum ... Áhorfendur skemmtu sér konunglega og ekki skemmdi fyrir að fá frostpinna í kvöldkaffinu, ásamt auðvitað ávöxtum.
Allir sofnuðu sáttir og glaðir og þrátt fyrir frábæra viku var heilmikil tilhlökkun í gangi að fara heim og hitta alla! Heima er alltaf best þótt það sé líka gaman að fara í sumarbúðir!
Í morgun, brottfarardaginn sjálfan, borðuðu börnin hinn gómsæta morgunverð af bestu lyst, en með öllu hinu var einnig skyr á boðstólum, ásamt smurðu brauði. Það táknaði að enginn vildi hafragraut að þessu sinni.
Börnin kláruðu að pakka niður og gleymdu ekki að taka með sér listaverkin sín og kertin sem þau gerðu á kertagerðarnámskeiðinu en engum tókst að lauma hesti með, rútubílstjórinn hefði fattað það í hvelli.
Stuttmyndin síðan í gærkvöldi var sýnd á meðan börnin biðu eftir rútunni og í stað þess að sýna fleiri myndir frá tímabilinu var haldið út í góða veðrið, já, það var sko himneskt veður.
Þegar rútan kom var kallað út í hana eftir stafrófsröð ... og byrjað á T-inu í stað þess að hafa það A eins og alltaf. Það vakti mikla lukku hjá þeim sem eru alltaf aftast í stafrófinu. Svo þurftu börnin að dansa inn í rútuna eftir öllum kúnstarinnar reglum, aðallega að dansa niður, eins og prinsinn í starfsmannaleikritinu var alveg vitlaus í leikritinu í gærkvöldi. Svo var bara veifað og vinkað þar til rútan hvarf úr augsýn.
Takk fyrir frábæra viku!
Myndir frá degi 6 eru hérna:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d6_2011.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2011 | 18:37
Ævintýrabarkinn, bingó og vinsæl Spilaborg
Dagur fimm var svooooo skemmtilegur! Námskeiðin heldur betur skemmtileg - og ekki síst leynimakkið í kringum þau, eða atriðin, slegið var upp veður-bingói og svo var Ævintýrabarkinn um kvöldið.
Morgunverður var snæddur í byrjun dags, eins og svo oft áður ... og mikið spjallað á meðan. Síðan var haldið út í sundlaug þar sem allir sem ekki fóru í sund drifu sig í sturtu, sérstaklega þau sem ætluðu á æfingu fyrir kvöldið. Gummi æfði þau á fullu, öll atriðin alveg frábær og spennan mikil, eða öllu heldur tilhlökkunin.
Börnin léku sér á útisvæði eftir sundið/sturtuna, einnig úti í íþróttahúsi og svo var Spilaborg opin en hún er mjög vinsæl. Alltaf eitthvað nýtt að finna þar. Já, og svo var sungið á æfingunni hjá Gumma, sungið og dansað.
Í hádeginu var boðið upp á pasta og risastórar heimabakaðar hvítlauksbollur með. Síðan voru hádegisfundirnir haldnir og þar var mikið spjallað. Miðar með uppbyggjandi skilaboðum voru dregnir úr umslögum og rætt um hvað það skiptir miklu máli að hafa trú á sjálfum sér.
Síðan hófust námskeiðin og var mikil sköpun í gangi. Málað á fullu í listaverkagerðinni, enda styttist óðum í myndlistarsýninguna á lokakvöldinu. Tökur eru rúmlega hafnar í kvikmyndagerð og eins og allar kvikmyndastjörnur þurfa að þola þá var nokkur bið hjá hluta hópsins á meðan annar hluti var í tökum. Æfingar ganga líka mjög vel hjá dans- og leiklistarhópnum og búumst við við söngleik frá þeim - en leyndin - þessi leynd ... íþróttahópurinn undirbjó sitt atriði sem lítur aldeilis vel út þegar við fengum að gægjast inn á æfingu.
Reiðnámskeiðsbörnin drifu sig á hestbak skömmu fyrir kaffi og tóku með sér gott nesti. Myndavélin var með í för og voru teknar heilmargar myndir af þeim þar sem þau riðu um héruð, stoppuðu til að drekka og knúsuðu hundinn. Hestarnir hennar Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara eru svo góðir og barnelskir. Ef börnin mættu myndu þau eflaust vilja taka hestinn sinn með heim ...
Sandkaka, ávextir og afgangsvöfflur voru í kaffinu.
Dagurinn var sæmilega þurr en spáð var rigningu þann næsta svo ákveðið var að hafa ruslatínslu eftir kaffið. Nokkrir sjálfboðaliðar fóru um allt, sópuðu, tíndu upp rusl á svæðinu (sem var nú ekki mikið reyndar) og fengu svo verðlaun á eftir, verðlaun að eigin vali úr ruslatínslu-verðlaunakassanum sem geymir nú margt gullið.
Svo var Spilaborgin vinsælust og einnig íþróttahúsið ... en það var orðið svolítið hvasst. Það var nú ekki nógu gott sko. Svo ákveðið var að brjóta upp dagskrána vegna veðurs ... jamm, haldið ykkur, og slegið upp bingói sem vakti heldur betur lukku. Þegar nær dró kvöldverði fóru börnin inn á herbergin og skiptu um föt fyrir skemmtunina um kvöldið. Þetta eru greinilega algjörar hefðardúllusumarbúðir ...
Í kvöldmat bauð eldhús snilldarinnar upp á fisk með hrísgrjónum og karrísósu, sem er ævintýrasósa a la Sigurjóna, einnig tómatsósu og smjör.
Þá var það bara Hæfileika- og söngvarakeppnin Ævintýrabarkinn!!! Keppendur kvöldsins voru:
Hertha Kristín og Jóhanna Huld sem sungu lagið Róbert bangsi (2. sæti)
Hólmfríður og Margrét Ólöf sungu án undirleiks og hljóðnema lagið Mér um hug og hjarta nú (1. sæti)
Einar Ýmir og Gestur sungu Fix you (Coldplay-lag)
Rakel Sara og Thelma Kristín sungu Lífið er yndislegt
Margrét Fríða söng Lazy Song
Systurnar Margrét Fríða og Rebekka Rut Hjálmarsdætur sýndu flottan dans
Elektra Ósk og Rebekka Rut Hj. sungu lagið Óskastund
Gísli Jón söng lagið Shomleh
Anna Lena söng lagið Gervihnöttur (á íslensku, úr söngvakeppninni 2010) (3. sæti)
Anna María söng lagið Traustur vinur (Gummi lék undir á gítar)
Ragnar Már söng lagið Not Afraid
Arnar söng lagið Hallelúja (bakraddir: Jóhanna Huld, Hertha Kristín og Gísli Jón)
Keppnin var frábær og erfitt að dæma. Mjög erfitt. En öll stóðu börnin sig frábærlega vel og fengu hressilegt klapp fyrir frammistöðuna. Viðurkenningarskjöl fengu allir þátttakendur og verðlaun voru veitt fyrir fyrstu þrjú sætin.
Svo var það bara kvöldkaffið, smurt brauð og safi og ekki svo löngu seinna heyrðust hrotur um alla Kleppjárnsreyki, eða þannig ...
Við kveðjum í bili ... en næsta færsla segir meðal annars frá lokakvöldvökunni sjálfri þegar leyndarmálin upplýsast hvert af öðru. Hvað heitir stuttmynd kvikmyndagerðar? Eru dans+leiklist að undirbúa söngleik? Hvers konar sýningu verður íþróttahópurinn með? Hvernig verður sýning listaverkagerðarinnar eiginlega? Verður boðið upp á djús þar? Fylgist með!
Myndir frá degi 5 er að finna hérna: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d5_2011.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2011 | 14:23
Æðislegur húllumhædagur
Ágætt veður var úti (alltaf gott inni) þegar fjórði dagurinn rann upp í sumarbúðunum.
Ekkert sólbaðsveður kannski - en allt í lagi. Nokkur tilbreyting frá fyrri sumrum þegar heilu hitametin voru sett á Kleppjárnsreykjum en þetta sparar svo sem sólarvörnina ...
Margt var við að vera að vanda - sérstaklega mikið reyndar ... en byrjum á byrjuninni:
Vel var borðað af hlaðborðinu, enda bæði gaman og gott að geta valið sér morgunverðinn, aldrei það sama - eða bara alltaf það sama ...
Í stað þess að hafa námskeiðin kl. 14-16 voru þau fyrir hádegi þar sem þetta var sjálfur húllumhædagurinn, nokkurs konar 17. júní-ígildi, og áttu hátíðarhöldin að standa samfleytt frá hádegi og fram að svefntíma, sem þau gerðu.
Námskeiðin ganga ljómandi vel. Við reyndum að forvitnast um bíómyndina sem kvikmyndagerðin er að gera en við fengum ekki einu sinni nafnið á henni, þetta er allt svo mikið leyndarmál þangað til á lokakvöldvökunni.
Við urðum þó vör við kvikmyndavél, nokkrar kanínur og svo kökuskrímslið ógurlega fyrir framan hana. Ógurlega spennandi.
Grjónagrautur með kanilsykri, ásamt heilu tonnunum af melónum saddi börnin í hádeginu og eftir hádegisfundina með umsjónarmönnunum hófst hinn eini sanni húllumhædagur!
Setningarathöfnin fór fram ... Starfsfólk var í búningum og ... sleppti svolítið fram af sér beislinu ... við heilmikinn fögnuð barnanna. En hva, þetta var nú einu sinni húllumhæ!
Byrjað var á því að fara í fánaleikinn sem er alltaf óendanlega skemmtilegur. Skipt í tvö lið, Draum og Martröð, sem fengu stríðsmálningu á kinnarnar. Barist upp á líf og ... klemmur, eins og við segjum alltaf. Fyrir mistök var Martraðarhópurinn stríðsmálaður blár og Draumurinn rauður, á að vera öfugt, eða eins og litir fána hópanna - en það gerði hreinlega ekkert til. Draumur sigraði að þessu sinni.
Vinningshafi í sippkeppninni var Thelma Kristín, sú sippaði hratt! Og í húllakeppninni var það Arngunnur Eir sem tókst að húlla með óteljandi marga húllahringi utan um sig!!!
Sápukúlusprengikeppni var á útisvæði, hægt að fá bandfléttu í hár líka og margt fleira. Í sápukúlusprengikeppninni er keppst við að klappa saman höndunum sem hraðast, og sprengja með því sápukúlur, eins margar og hægt er. Börnin sýndu mikla hæfileika og sprengdu heilu milljónirnar af kúlum en ekki dugir annað en að vera með tvær sápukúluvélar til að halda í við börnin klapphröðu. Sú sem klappaði hraðast heitir Rebekka Rut Hjálmarsd.
Svo var bara komið að kaffi. Vöffluilmurinn úr matsalnum hafði verið nánast óbærilegur og þau voru aldeilis vöfflusvöng börn sem þustu inn í kaffi. Þetta voru engar venjulegar vöfflur, heldur voru þær með súkkulaðiglassúr og rjóma - og bragðaðist eins og besta súkkulaðibolla á góðum bolludegi, svona til að lýsa þessari upplifun aðeins. Svo var auðvitað hægt að fá sultu og rjóma, eða bara sultu eða bara eins og hver og einn vildi. Flestir vildu súkkulaðivöfflur, enda eru þær ofboðslega góðar.
Hátíðin hélt áfram eftir kaffi og var heilmargt við að vera. Einhverjir léku sér úti í íþróttahúsi, aðrir fóru í Wii-tenniskeppni, skartgripagerðin var vinsæl, einnig tattúið og bandflétturnar. En það sem sló kannski mest í gegn var Jósefína Potter, spákonan frá Borgarnesi.
Sú þótti nú skrítin ... en skemmtileg. Börnin máttu spyrja einnar spurningar hvert og hún svaraði eftir bestu getu, en áhugi barnanna var reyndar nánast bara bundinn við það ... ... ... ... ... hver af starfsfólkinu væri eiginlega dulbúinn sem spákona! Hmmm! Á endanum sannfærðust þau nú bara um það að þetta hlyti að vera Jósefína frá Borgarnesi ... og nú veit einn af eldri strákunum að hann verður flugmaður þegar hann verður stór, eins og hann dreymir um, frú Potter sagði honum að hann gæti orðið það sem hann vildi! Algengasta spurningin var: Hvað verð ég þegar ég verð orðin/n stór? - já, og svo kom líka: Hvað eignast ég mörg börn?
Margir afar flottir skartgripir urðu til í skartgripagerðinni. Flott vafningshálsmen eða snúningshálsmen, glitrandi og ógurlega fallegt. Armbönd eru líka mjög vinsæl, armbönd af ýmsum gerðum.
Eldhúsið var sko ekkert hætt snilldinni þótt vöfflurnar hefðu nú átt að toppa allt... ónei, í kvöldmatnum biðu barnanna grillaðar pylsur, hvorki meira né minna - og auðvitað með tómat, sinnep og lauk! Þvílík snilld!
Svo var haldið bíókvöld eftir kvöldmatinn og var boðið upp á popp og safa í hléinu. Að sjálfsögðu.
Þetta var sannkallaður dýrðardagur og sofnuðu börnin sátt og sæl eftir öll ævintýrin.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum og sendum okkar allra bestu kveðjur!
Myndir frá degi 4 eru hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d4_2011.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2011 | 18:04
Diskó, hárgreiðslukeppni ... og pítsa!
Veðrið lék við okkur í gær þrátt fyrir stöku regndropa. Margt var á seyði að vanda, eins og kertagerð, forvarnarleikrit, hárgreiðslukeppni, diskó, limbókeppni, bandfléttur og tattú ... og svo setti Sigurjóna stúlknamet í dásamlegheitum í kvöldmatnum!
Dagurinn hófst með morgunverði af hlaðborðinu góða og síðan var sitt af hverju í boði. Sund, útisvæði, Spilaborg, karaókíæfing og svo kertagerð.
Kertagerð er alltaf í hverri viku og ógurlega vinsæl. Byrjað er á því að setja bráðið vax í kúskel sem börn velja sér, síðan kveik og þá er hægt að fara að skreyta eftir öllum kúnstarinnar reglum. Með glimmeri, hrísgrjónum, baunum og hvaðeina. Svo taka þau kertið sitt með sér heim.
Í hádeginu var kakósúpa og hún var svoooo góð. Tvíbökur með að sjálfsögðu og svo ávextir líka.
Eftir hádegisfundina með umsjónar-mönnunum var haldið út í íþróttahúsi - nú ætlaði starfsfólkið að sýna leikrit - gaman, gaman.
Þetta er forvarnarleikrit, mjög skemmtilegt og bráðfyndið en alvarlegur undirtónn.
Tekið er á hlutum eins og einelti, vantrú á sjálfan sig, hættunum þarna úti, m.a. á Facebook MSN og allt í þeim dúr. Þetta leikrit vekur alltaf umræður og heilmiklar pælingar fara í gang, rætt er um það á næstu hádegisfundum.
Námskeiðin ganga ógurlega vel.
Dans- og leiklistarhópurinn er að æfa eitthvað magnað atriði fyrir lokakvöldvökuna. Íþróttahópurinn líka en það var líka mikið leikið í íþróttasalnum, frískir krakkar þar, listaverkagerðin skapaði sem mest hún mátti, og kvikmyndagerðarhópurinn var farinn að máta búninga, takk fyrir. Allt í gangi.
Í kaffinu var kaka og svo ógrynnin öll af melónum.
Síðan var blásið til hárgreiðslukeppni. Allir fengu viðurkenningar og veitt voru verðlaun í öllum flokkum. Hér koma úrslitin:
1. sæti: Rakel Sara og Thelma Kristín
2. sæti: Hólmfríður og Margrét Ólöf
3. sæti: Birgir Steinn og Ernir
4. sæti: Margrét Fríða og Rebekka Rut
Frumlegasta: Alma Asa, Heiða Rós og Anna María
Krúttlegasta: Emilía og Anna Lena
Ævintýralegasta: Ólöf Una og Ronja Rut
Flottasta: Hafrún Dóra, Bjartey Bríet og Elísa Sjöfn
Stílaðasta: Lísa Katrín og Daría
Vandaðasta: Hertha Kristín og Jóhanna Huld
Hin börnin skoppuðu úti eða í íþróttahúsinu. Skömmu fyrir mat var haldið í herbergin því ef einhvern tíma var þörf þá var aldeilis nauðsyn núna ... að skipta um föt. Fara í sítt fínasta því nú átti að halda á ball ... dansleik - eða diskó, eins og það er kallað í Ævintýralandi.
En fyrst var það maturinn. Grunsamlega góður matarilmur hafði leikið um hvern krók og kima í sumarbúðunum og hefði getað ært óstöðugan ...
Þegar börnin mættu prúðbúin í matsalinn var hvorki meira né minna en PÍTSA í matinn - öllu heldur margar, margar pítsur! Það var ýmist malað eða rumið af vellíðan - og svo var gos með sem vakti nú heldur betur lukku líka.
Diskóið var einstaklega fjörugt og flott. Að sjálfsögðu var þar diskókúla, fleiri en ein reyndar, ljós, reykvél og dúndrandi tónlist. Svo var hægt að fara út og kæla sig, eða fara fram og kæla sig og þá fá í leiðinni tattú og/eða bandfléttur í hárið. Svo var limbókeppni og bara fjör.
Ávextir voru í kvöldkaffinu og svo var bara farið í að hátta og bursta, hlusta á kvöldsögu og svo sofa ... eftir enn einn góða daginn.
Við sendum okkar allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Myndir frá deginum eru hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d3_2011.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2011 | 21:28
Fyrsta karaókíæfingin og æsispennandi draugaleikur
Mikið var nú gott að vakna og vera í sumarbúðum! Það fannst börnunum þegar þau þustu klædd og komin á ról inn í matsal fyrsta morguninn sinn. Þeirra beið þetta fína hlaðborð með alls kyns góðmeti tengdu morgunverði, nánast allt nema egg og beikon. Þarna var hafragrautur, cheerios, kornfleks, súrmjólk & púðursykur, ristað brauð, ósristað brauð, ostur & heimalagað marmelaði. Það mátti fá sér eitthvað eitt, eða eitthvað tvennt ... eða bara smakka á öllu, bara eins og hver og einn vildi.
Síðan þustu börnin út á útisvæðið, sum fóru í sund, önnur í íþrótthúsið og svo fór leyndardómsfullur hluti barna á lokaða æfingu ... fyrir Ævintýrabarkann (vinnuheiti: karaókíæfing) en næstsíðasta kvöldið er haldin þessi stórskemmtilega söngvara- og hæfileikakeppni. Það þarf að velja sér lag sem á að syngja - eða eitthvað annað, stundum er sýndur dans og fyrir hefur komið að einhver hefur sagt brandara. Mjög gaman. Allt kemur þetta betur í ljós þegar nær dregur.
Í hádeginu gæddu börnin sér á núðlusúpu, aldeilis hressandi og góðri, og einnig smurðu brauði með eggjum og kæfu. Strax eftir matinn fóru hóparnir á hádegisfund, hver með sínum umsjónarmanni. Þetta er góðir og skemmtilegir fundir. Umsjónarmaðurinn tekur stöðuna á hópnum, mikið er spjallað og svo er líka farið í leiki.
Þá var haldið á fyrstu námskeið tímabilsins. Rétt áður mætti ung dama í sumarbúðirnar, hún hafði farið í aðgerð hjá tannlækni daginn áður og mætti daginn eftir, algjör hetja. Henni var vel tekið af þessum frábæru börnum sem hér dvelja, og ekki var verra að hitta eina vinkonu sína sem hún á hér. Þessi unga dama valdi sér námskeið í einum grænum, ekki seinna vænna, og kaus að fara á kvikmyndagerðarnámskeiðið - sem er vinsælast.
Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram á námskeiðunum. Semja þarf t.d. handrit í kvikmyndagerðinni, skipa í hlutverk, velja búninga og slíkt, og sama má segja um leiklistina sem sótti sér hugmyndir út í sólina og náttúruna, og það stefnir allt í söng- og dansleikrit en dansinn sameinaðist leiklistinni. Íþróttahópurinn er afar virkur og sama má segja um listaverkagerðina. Allt í gangi - í Ævintýralandi!
Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt skömmu fyrir kaffi og tóku með sér gómsætt nesti. Skömmu seinna fylltist matsalurinn af hungruðum börnum sem fengu heimabakaða sandköku að borða, ásamt melónum.
Sólin skein enn eftir kaffið og því var blásið til skemmtunar á vatnsrennibraut, eða slide ... brjálað fjör og mikil gleði. Þótt sólin hyrfi bak við ský var enn heitt í veðri og ekkert mál að halda áfram um sinn. Svo var farið í íþróttahúsið og Spilaborgina frábæru. Svo var farið inn á herbergi þar sem hægt var að snyrta sig fyrir matinn, ekki kannski að fara í smóking og síðkjóla, en greiðu var rennt í gegnum hárið í einhverjum herbergjum.
Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum, heldur hakk og spaghettí. Ágæt orka fyrir annasamt kvöldið ... obbossí!
Byrjað var á villtri brennókeppni sem hinu frænkna liði Krossfiskum tókst að sigra í og svo hófst ... uuuu, draugaleikurinn. Leikur sem þróaðist út úr Mörkum óttans-leiknum okkar sem var leikinn í nokkur ár við miklar vinsældir. Þessi þykir þó æsilegri ef eitthvað er. Enginn ógeðsdrykkur lengur, heldur skipar hver hópur tvo fulltrúa sem þurfa að fara í gegnum nánast almyrkvað draugaherbergi(þau yngri með huguðum umsjónarmanni) ... sækja sér stein ofan í vatnsfötu, skila steininum og hlaupa eins og fætur toguðu út. Yfirdraugurinn var Gummi, hann er rosalega fyndinn, og honum til aðstoðar voru Maggi og Apríl. Hlutverk þeirra þriggja var að trufla krakkana við að komast ofsahratt í gegn ... en ef eitthvað var, þá flýttu þau eiginlega fyrir. Fyrir yngri börnin var þetta kallað draugaleikrit, þá verða þau ekki hrædd. Svo var mikið hlegið og klappað þegar draugarnir komu fram, tóku af sér grímurnar og hneigðu sig. Allir voru fljótir í gegnum herbergið en Gullfiskarnir fljótastir. Til hamingju, Gullfiskar!
Í kvöldkaffinu voru ávextir á boðstólum. Börnin sofnuðu hratt og vel, enda þreytt eftir viðburðaríkan dag.
Nýjar myndir eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 4, dagur 2.
Okkar allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2011 | 22:37
Fjör á fyrsta degi
Ekki löngu eftir hádegi í gær ók í hlaðið á sumarbúðunum, rúta full af kátum krökkum. Þetta voru gestirnir góðu sem dvelja hjá okkur á fjórða tímabili sumarsins.
Eftir að farangri hafði verið skutlað inn í herbergin, gengið frá seinna, var haldið í skoðunarferð um svæðið, úti sem inni. Hver hópur fór með umsjónarmanninum sínum.
Fyrsti kaffitíminn var nú aldeilis góður en börnin fengu skúffuköku og ávexti. Síðan var haldið út í íþróttahús þar sem nánari kynning fór fram, meðal annars á starfsfólki og námskeiðunum góðu sem börnin eru á allt tímabilið (leiklist, dans, listaverkagerð, íþróttir og kvikmyndagerð).
Börnin sátu og hlustuðu vel á allt saman og svo völdu þau sér. Kvikmyndagerðin var vinsælust, eins og oft áður. Leiklistin og dansinn sameinast, mjög spennandi, og síðan eru listaverkagerð og íþróttahópur.
Svo völdu börnin sér hvaða álegg þau vilja á brauðið sitt í kvöldkaffinu, og einnig safann með. Til skiptis eru ávextir og brauð.
Það var frekar kalt hjá okkur en börnin létu það ekki á sig fá. Það var margt við að vera á útisvæðinu, í íþróttahúsinu og í Spilaborg (spil, púsl, bækur, leikföng, pool, fótboltaspil og fleira).
Einn gesturinn okkar, stelpa, talar bara ensku. Í ljós kom að ótrúlega mörg börn í sumarbúðunum tala ensku og tvær stelpur í hópnum hennar buðust strax til að vera túlkar ... og öll börnin ætla sko að hjálpa stelpunni að læra íslensku, hana langar svo til þess. Með svona góðri hjálp verður hún kannski orðin altalandi á íslensku á sunnudaginn, eða þar um bil.
Í kvöldmat bauð ævintýraeldhúsið upp á gómsætan grjónagraut sem rann hratt og vel niður.
Eftir matinn var síðan haldið út í sundlaug þar sem var heldur betur hoppað, synt og hamast. Inn á milli var svo slakað á í heita pottinum.
Börnin skiptast í fimm frábæra hópa; Krossfiska, Gullfiska, Sæljón, Höfrunga og Hafmeyjar. Þemalitur tímabilsins er blár og rauður, það verður litadagur á sunnudaginn og þá mæta allir í einverju rauðu eða bláu, jafnvel bláu og rauðu. Bara gaman.
Umsjónarmennirnir sögðu hver sínum hóp (þeim hópum sem vildu) kvöldsögu, fyrsta hluta, þegar allir voru komnir í koju og svo var sofnað rótt og vært ... óvenjusnemma svona miðað við fyrsta dag. Nýr og flottur dagur fram undan, fullur af ævintýrum. Allt um það í næsta bloggi!
Kærar kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Tímabil 4 - dagur 1 (og dagur 2 eftir smástund).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar