Færsluflokkur: Bloggar

Brjóstsykur, kerti og spennandi draugaleikur

BrjóstsykursgerðDagur 2 var hreint út sagt frábær - námskeiðin hófust, og ótal margt skemmtilegt var við að vera, m.a. fór fyrsta karaókíæfingin fram, búinn var til brjóstsykur, kerti skreytt, draugar sigraðir og margt fleira.

 

 

BrjóstsykursgerðEftir að hafa sofnað eldsnemma frekar seint vaknaði hópurinn hress í bragði og dreif sig inn í matsal þar sem morgunverðarhlaðborð beið. Hafragrautur, cheerios, súrmjólk, kornfleks, ristað brauð með osti og marmelaði ... sem sagt, algjör dýrð. Hægt að smakka á öllu eða fá sér bara uppáhaldið sitt.

Margir héldu út í íþróttahús eftir morgunmatinn, einhverjir fóru í sund og svo var aukanámskeið í ... já, haldið ykkur ... brjóstsykursgerð!!! Færri komust að en vildu svo framhald verður á næstu morgna svo allir geti fengið að læra þessa göfugu og ævafornu sælgætisgerð sem allir ættu að kunna ...

Fyrsta karaókíæfingin var haldin - en það er raunar bara starfsheiti á upphafi "þrotlausra" æfinga fyrir Ævintýrabarkann, söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands sem haldin er næstsíðasta kvöldið. Það borgar sig að byrja strax að æfa.

ÍþróttanámskeiðÍ hádeginu var núðlusúpa og smurt brauð með eggjum og kæfu. Eftir matinn var farið inn á herbergi til að punta sig aðeins og njóta þess að vera til. Stóru krakkarnir njóta þess mjög að hanga inni á herbergjum inn á milli, enda gaman að spjalla og hafa það kósí. Það gefst reyndar ekki mikill tími til þess, það er svo mikið um að vera frá morgni til kvölds.

Hádegisfundir með umsjónarmönnunum voru síðan haldnir kl. 14. Þetta eru dúndurgóðir fundir, mikið spjallað, já, og hlegið. Hópurinn þjappast betur og fyrr saman og gott fyrir umsjónarmanninn að taka stöðuna á "krökkunum sínum".

KertagerðSíðan var haldið á námskeiðin og voru allir mjög virkir og hugmyndaríkir. Íþróttahópurinn skemmti sér konunglega í íþróttahúsinu og svo stefnir víst allt í hörkuspennandi mynd hjá kvikmyndagerðinni. Sumarbúðastjórinn fékk að lesa handritið ... og skalf víst úr hræðslu!

Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt skömmu fyrir kaffi og tóku með sér nesti og nýja skó, eins og vera ber. Það koma fljótlega myndir af þeim á hestbaki hingað á bloggið.

Í kaffinu bauð elskhúsið (elsku eldhúsið) upp á sandköku og ávexti. Nammi, namm.

Eftir kaffi fóru börnin í íþróttahúsið ... eða Spilaborg ... eða á útisvæði ... eða í kertagerð.  Kertagerðin er alltaf vinsæl og voru skreytt mörg stórglæsileg kerti. Bláskel, vax, kveikur og efni til að skreyta með. Það er hægt að gera mikil flottheit með þessum hráefnum.

Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum ... hakk og spagettí!

Hetja í draugaleikÞessir bráðhressu krakkar lögðust ekki á meltuna eftir matinn, heldur héldu beinustu leið út í íþróttahús þar sem æsispennandi brennókeppni fór fram. Hópur 2, fjólublái strákahópurinn hans Davíðs bar sigur úr býtum.

Þá var komið að leik sem krefst hugrekkis, þrautseigju, óttaleysis ... sem sagt, já, það var komið að draugaleiknum sem hefur þróast hjá okkur í gegnum aldirnar upp úr leiknum Mörk óttans. Enginn ógeðsdrykkur framar, nú er það bara hrikaleg spenna, hetjulund og ... hlátur. Þetta er nánast leikrit þar sem Davíð umsjónarmaður lék aðaldrauginn og honum til aðstoðar voru Unnar, Auður og Dagbjört.

Nokkrir úr hverjum hóp þurfa að leysa þrautir og hafa hraðann á þar sem fljótasti hópurinn að komast í gegnum göng, sækja stein sem er varinn af draugum, og fleira, sigrar ... já, þetta er frábær leikur og krakkarnir skemmtu sér konunglega, bæði áhorfendur og þátttakendur. Aðaldraugurinn endaði á því að elta Ingu Láru umsjónarmann um allt og stökk síðan upp á borð í matsalnum. Svo endaði leikurinn, eða leikritið, á því að draugarnir tóku niður grímurnar (ein gríman var nú geimverugríma) og hneigðu sig. Það var mikið klappað. 

Flott kerti í kertagerðinniEftir draugaleikinn og fyrir kvöldkaffi fór Inga Lára með hópinn sinn í leik sem hefur það að markmiði að vera forvörn gegn hættum á Netinu. Meira um það síðar. Á sunnudaginn fá hinir hóparnir líka að fara í svona leik.

Gómsætir ávextir voru snæddir í kvöldkaffinu og síðan var farið að spjalla inni á herbergjum, svona undir svefninn, smám saman komst ró yfir og brátt heyrðust hroturnar alla leið yfir í Reykholt ...

Smellið á hlekkinn hér fyrir neðan og ævintýri dags 2 koma í ljós:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d2_2011.html

 


Svalur fyrsti dagur

Í SpilaborgNú er unglingatímabilið hafið hjá okkur og eru langflest börnin á aldrinum 12-15 ára.

Hress hópur mætti á svæðið upp úr hádegi. Krakkarnir byrjuðu á því að koma dótinu sínu fyrir í herbergjunum, skoðuðu síðan svæðið í hópum, hver með sínum umsjónarmanni. 

SpilaborgÞá var haldið í matsalinn þar sem boðið var upp á köku og melónur. 

 

Síðan var kynning á starfsfólki og námskeiðum í íþróttahúsinu. Krakkarnir völdu sér það námskeið sem þeir vildu vera á þetta tímabilið og þar sem þetta eru svona stórir krakkar kaus enginn t.d. grímugerð sem er vinsæl hjá þeim yngri. Það skiptist nánast jafnt: kvikmyndagerð og íþróttir. :)

 

GönguhópurDagskráin á unglingatímabilinu er lengri en hinar vikurnar. Til dæmis er kvöldkaffið ekki fyrr en kl. 22.30 og svo lesa þau og spjalla frameftir á herbergjunum undir svefninn. 

 

Eftir kaffið var útisvæðið opið, Spilaborg og íþróttahúsið og sumir vildu vera inni á herbergjum.

 

Gaman að vaðaÞað var frekar kalt úti en börnin sem vildu vera úti klæddu sig bara vel. Íþróttahúsið var mjög vinsælt, enda mjög skemmtilegt og fullt af góðri afþreyingu þar. Spilaborg er frábær, þar er fullt af bókum og blöðum, spilum, borðtennis, fótboltaspili og fleira. 

Nokkrir skelltu sér í gönguferð og einhverjir lögðu meira að segja í það að vaða út í læk í kuldanum ... sannar hetjur!

Eldhúsið góða bauð upp á grjónagraut í kvöldmat og smakkaðist hann afbragðsvel. 

Strákar í sundiEftir kvöldmat var sundlaugin opin, eins og ævinlega fyrsta kvöldið. Hún er dásamleg sundlaugin hérna á Kleppjárnsreykjum og krakkarnir nutu þess vel að svamla í henni og slaka á í heita pottinum á milli.

Í kvöldkaffinu var boðið upp á ávexti.

Þetta var góður dagur og ekki verður sá næsti síðri ... en þá fer allt meira í gang, námskeiðin hefjast og þá verður nú aldeilis gaman.

Myndir frá degi 1 eru hérna:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d1_2011.html


Þyrnirósi og fleiri ævintýri

Brynjar afmælisbarnSíðasti heili dagurinn rann upp í allri sinni dýrð og eins og venjulega var byrjað á að borða morgunverð.

 

Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi og leyndin yfir þeim var síst minni en áður, spenningur ríkti að sjálfsögð, enda nokkrar frumsýningar fyrirhugaðar eftir nokkra klukkutíma. 

 

Slegist við sápukúlurÍ hádeginu fengu börnin skyr og smurt brauð og svo var farið í að pakka niður farangrinum. Því mesta alla vega. Ekki var hægt að pakka niður fínu fötunum sem átti að vera í um kvöldið, og ekki listaverkunum sem átti að sýna á sýningunni fram undan.

Íþróttahópurinn dreif sig í sund og fór í sundkýló. Á meðan setti myndlistarhópurinn upp sýninguna sína, lokaæfing leiklistarhópsins fór fram í íþróttahúsinu og kvikmyndagerðarhópurinn horfði á stuttmyndir sem hóparnir á fyrri tímabilum sumarsins höfðu gert. Já, það var nóg við að vera í hverju horni. Eldhúsið undirbjó afmælisveislu og veislukvöldverð, allt starfsfólkið skalf á beinunum yfir leikritinu sem það átti að leika óundirbúið um kvöldið en hlakkaði til að sjá atriði krakkanna ... Fuglarnir sungu og allt var í góðu lagi.

Brynjar átti afmæli og í kaffitímanum fékk hann skreytta köku með logandi afmæliskerti, einnig gjöf og kort, ásamt því að hópurinn söng afmælissönginn fyrir hann. Alltaf gaman að eiga afmæli í sumarbúðunum. Að sjálfsögðu fengu allir viðstaddir afmælisköku líka. Og tekex með heimalöguðu marmelaði. Og ávexti.

MyndlistarsýninginEftir kaffi fór fram sápukúlusprengikeppni á útisvæðinu og sérlegur dómari frá NASA (já, það þurfti háþróað gervitungl til að geta fylgst almennilega með) taldi sápukúlurnar sem sprengdar voru. Í íþróttahúsinu fór fram skotbolti og bæði sipp- og húllakeppni. Hoppað var og skoppað á trampólínunum á útisvæðinu og sumir dunduðu sér í Spilaborg, lásu, púsluðu, spiluðu eða fóru í borðtennis eða fótboltaspil. 

Húmoristar í myndlistinniBörnin mættu prúðbúin í kvöldverðinn og þar mætti þeim aldeilis veisla. Hamborgarar, franskar, sósa og gos. Þvílík sæla. Þvílíkt unaðseldhús. 

 

Stóra kvöldið hófst á myndlistarsýningu! Þemað var verðlaust efni sem hægt er að búa til listaverk úr og það heppnaðist svona líka vel hjá börnunum. Sýningin vakti mikla lukku, og ekki síður það sem stóð á auglýsingaskilti sýningarinnar: Bannað að segja oj. Miklir húmoristar þarna á ferð. Myndin hér að ofan sýnir bara lítinn hluta af flottu hlutunum sem börnin bjuggu til.

 

Leikritið Hvar er ÓmarLeiklistarhópurinn sýndi spennuleikritið Hvar er Ómar? sem fjallaði um dreng í sumarbúðum. Hann týndist og eftir mikla leit og með aðstoð lögreglu fannst hann loks. Þá var skuggalegt par í þann veginn að stinga af með hann í innkaupakerru. Ómar svaf þetta nú af sér og vaknaði ekki fyrr en lögreglan ýtti við honum. Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar Ómar kom aftur í sumarbúðirnar og börnin þar afar glöð að hitta hann. 

 

Íþróttahópurinn var ótrúlegurÍþróttahópurinn sýndi mikla körfuboltasnilldartakta ásamt alls konar fimleikastökkum og hoppi með undirspili. Þetta var mjög flott hjá þeim.

 

Starfsfólkið sýndi Mjallhvíti og tröllin átta. Það vakti heilmikla lukku og börnin skemmtu sér vel yfir vitleysunni ... en það er enginn leikur að fá ekki að vita fyrr en á allra síðustu stundu hvaða leikrit á að leika og hvaða hlutverk maður fær!

 

Ánægðir áhorfendurSíðan var skundað í matsalinn þar sem ávextir voru bornir á borð. Þá var farið inn á herbergi til að hátta sig og fara í náttfötin, já, náttfötin. Svo mættu þau á bíósýninguna, frumsýninguna á Þyrnirósa (já, -rósa) en til að fá miða áttu þau að dansa smávegis eða segja eitthvað fyndið. Með miðann í höndum var þeim hleypt inn og þar biðu þrjár hressar kjéddlíngar sem gáfu hverju og einu barni íspinna ... sem vakti heldur betur lukku.

 

StarfsmannaleikritiðMyndin var æðisleg. Hún fjallaði um fjölskyldu Þyrnirósa sem stóð í flutningum. Á leiðinni á nýja heimilið hittu þau lítinn ruglaðan risa sem varaði Þyrnirósa við ofbirtu, sagði að hann gæti þá þurft að sofa í heila öld. Fjölskyldan flutti inn, og svo fór Þyrnirósi að leita að eldhúsinu þar sem allir biðu eftir honum. Það gekk nú ekki vel. Í fyrsta herberginu sem hann opnaði voru uppvakningar. Í því næsta var Palli sem hélt að hann væri einn í heiminum. Þriðja herbergið innihélt geimveru sem vildi komast heim. Í því fjórða var risasjónvarp og þegar hann kveikti á því steinsofnaði hann og öll hans fjölskylda. Tveimur árum síðar var riddari nokkur á röltinu og hitti litla ruglaða risann sem sagði honum frá Þyrnirósa. Þeir söfnuðu liði ... og björguðu deginum.

Þetta var alveg mögnuð lokakvöldvaka hjá frábærum krökkum sem kvöddu okkur síðan undir hádegi í dag eftir sannarlega ævintýralega viku. Við þökkum þeim kærlega fyrir skemmtilega daga og vonum að þeir hafi skemmt sér jafnvel og við.

Myndir frá lokadeginum og -kvöldvökunni eru hérnahttp://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d6_2011.html


Velheppnaður Ævintýrabarki!

MyndlistinLeiklistinDagur fimm hófst með staðgóðum og fjölbreyttum morgunverði að vanda.

Svo fóru langflestir í sund, þeir sem ekki höfðu tíma fóru í sturtu (eða örsnöggt sund) og drifu sig svo á karaókíæfingu hjá Ósk ... stóra kvöldið fram undan.  Æfingin skapar meistarann og það átti heldur betur eftir að reynast rétt.

 

Veðrið var bara ágætt, en flestir vildu skoppa í íþróttahúsinu eftir sundið, og um tíma, og fóru svo á útisvæði eða í Spilaborg.

 

Eldhúsið hafði staðið í bakstri allan morguninn, eða frábæra starfsfólkið þar, og ilmurinn var lokkandi. Í hádeginu kom svo í ljós að stórar risahvítlauksbollur höfðu verið í ofninum og voru sérdeilis góðar með pastaréttinum. Tounge

 

ÍþróttirKvikmyndagerðEftir hádegisfundina með umsjónarmönnunum var haldið á námskeiðin og þvílíkt sem var gaman. Þrotlausar æfingar hjá íþróttahópnum sem skemmti sér svo vel, tökur í kvikmyndagerðinni gengu vel, æfingar í leiklistinni og fjölmörg listaverk voru sköpuð í myndlistinni. Mikið á lokakvöldvakan eftir að verða æðisleg. Hefst á myndlistarsýningu, síðan er farið í íþróttahúsið og leikritið flutt og íþróttasýningin fer fram og endað er á bíómyndinni.

 

Reiðnámskeiðsbörnin fóru á hestbak og allt gekk vel. Farið var um fallegar slóðir, sest niður og nestið borðað, síðan hittu börnin heimalning sem var ekki síður hrifin af þeim en þau af honum. Ást við fyrstu sýn.

 

Í kaffinu var sitt af hverju í boði, eins og sandkaka, vöffluafgangar og ávextir. Eftir kaffi voru  útisvæðið, íþróttahúsið og Spilaborg heitustu staðirnir.

Sæta lambiðGóðir hestarÍ íþróttahúsinu fór fram tískusýningaræfing nokkurra stelpna, en þær hættu því miður við að halda sýninguna þegar upp var staðið. Í hinum enda íþróttasalarins fór fram þolfimi sem breyttist í keppni. Þar sigruðu: Erla Svanlaug (1. sæti), Andri Freyr (2. sæti) og Bjarni Þór (3. sæti). Þau fá viðurkenningarskjöl og smáverðlaun.

Skömmu fyrir kvöldverð fóru börnin inn í herbergin sín og skiptu um föt, nú var heldur betur ástæða til, enda stórt kvöld fram undan. 

 

Eldhúsið bauð upp á fisk, hrísgrjón og karrísósu (Ævintýrasósu), einnig tómatsósu og smjör til að auka fjölbreytnin. Það rann vel niður.

 

Svo var það bara Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin:

Þátttakendur í ÆvintýrabarkanumKeppendur kvöldsins voru:

Inga Bjarney, Signy Helga, Gunnhildur Sædís Ósk og Birta Rún sem sungu Lazy Song.

Andrei Freyr dansaði undir laginu Reykjavíkurnætur

Viktoría Líf söng lagið Jar of Hearts 

Kharl Anton og Ingi Þór dönsuðu undir laginu Pinball

Samar fór í brú og var lengi ... og teiknaði fallega mynd á meðan!

Halldór Ívar söng Time Wrap

Inga Bjarney söng Tomorrow

Keppnin var í einu orði sagt STÓRKOSTLEG. Mjög jöfn og helst hefðum við viljað að allir hefðu lent í verðlaunasæti.

Halldór Ívar í 1. sætiÞegar dómnefndin var búin að telja saman stigin lágu úrslitin fyrir:

Í þriðja sæti var Inga Bjarney. Hún söng æðislega vel.

Í öðru sæti voru Kharl Anton og Ingi Þór sem dönsuðu eins og atvinnumenn.

Í fyrsta sætinu var Halldór Ívar, afar hæfileikaríkur söngvari með sviðsframkomuna á hreinu!

Börnin voru öll sigurvegarar, höfðu lagt sig mikið fram sem sýndi sig heldur betur þarna. Allir fengu viðurkenningarskjal og smáglaðning með.

Í kvöldkaffinu var smurt brauð og safi og síðan var haldið í háttinn, bæði keppendur og áhorfendur alsælir með kvöldið og frábæra skemmtun.

Myndir frá deginum eru hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d5_2011.html

 


Húllumhæ; kókosbolluboðhlaup, fánaleikur og fleira

TarsanleikurÍ dag var húllumhædagurinn mikli, en það er nokkurs konar 17-júní-hátíðisdagur og þá er alveg sérlega mikið fjör í gangi. 

 

Klappað á táknmáliEftir morgunverð var smábreyting á dagskrá - eða námskeiðin voru fyrir hádegi til að húllumhæið gæti verið samhangandi fram á kvöld. Námskeiðin gengu glimrandi vel.
 
Íþróttahópurinn fór í Tarsanleik sem er hraður, erfiður og alveg rosalega skemmtilegur.
 
 
Fram fóru smánjósnir (til að geta blaðrað frá á blogginu) á námskeiðunum sem eru svo leyndardómsfull, allt á að koma í ljós á lokakvöldvökunni, við skiljum það svo sem, en okkur tókst að fá upplýsingar, reyndar bara pínulitlar upplýsingar um stuttmyndina sem er verið að búa til en börnin eru þegar farin að velja sér búninga og undirbúa tökur.
En sumsé tvennt leyndó: pínulítill risi og Palli (sem var einn í heiminum). Þetta er afar forvitnilegt og myndin ætti að verða öðruvísi, eins og hópurinn lofaði í upphafi.
 
FánaleikurinnGrjónagrautur var snæddur í hádeginu, kanilsykur með og melónur á eftir. Börnin lærðu að klappa á táknmáli og fannst það heldur betur frábært eins og sést á mynd hér.
 
FánaleikurinnSíðan var hádegisfundurinn haldinn að vanda, hver umsjónarmaður með hópnum sínum, og mikið spjallað að vanda og farið í leiki.
 
 
Svo var farið í fánaleikinn sem er fastur liður á húllumhædeginum. Tvö lið, Martröð og Draumur, kepptu um klemmur og var spennan mikil frá upphafi til enda. Börnin fengu smá andlitsmálningu á kinnarnar til að merkja liðin, rautt fyrir Draum og blátt fyrir Martröð, ekki er gott að reyna að hafa klemmurnar af samherjanum ... Mikið hlaupið og mikið gaman. Martröð sigraði að þessu sinni.
 
 
Áfram, áframStrax á eftir hófst kókosbolluboðhlaupið þar sem keppt var á milli hópa ... stór hluti ánægjunnar var náttúrlega að fá kókosbollu en þátttakan var mjög góð og þetta var spennandi boðhlaup og hóparnir hvattir óspart.
 
KókosbolluboðhlaupStarfsfólkið (langaði líka í kókosbollu) byrjaði til að sýna hvernig þetta ætti að fara fram, konur gegn körlum, og síðarnefndi hópurinn sigraði með miklum mun. „Þeir bókstaflega önduðu að sér kókosbollunum,“ sagði ein starfskonan mæðulega.
 
 
Dýrðin var nú bara rétt að byrja. Kókosbollan var aðeins forréttur að kaffitímanum þar sem Sigurjóna og fólkið hennar hafði á meðan bakað vöfflur, búið til súkkulaðiglassúr og þeytt rjóma.
 
 
Súkkulaðivöfflur mmmmmJá, það voru heitar súkkulaðivöfflur í kaffinu - og mjólk með. Frekar mikið frábært, fannst krökkunum. Auðvitað var hægt að fá sultu líka á vöffluna sína en við höfum ekki fengið fregnir af því hvort Eldhús snilldarinnar hafi farið í berjamó, tínt ber og soðið í sultu til að hafa með vöfflunum. Við trúum þeim þó til alls ...
 
Margt var í boði eftir kaffi, eins og skartgripagerð, tenniskeppni (Wii), bandfléttur í hár, tattú, útisvæðið í frábæra veðrinu sem ríkti og svo mætti heil spákona á svæðið, já, haldið ykkur! Hún heitir Jósefína Potter og er frá Borgarnesi. Klædd í undarlegan búning og var svolítið undarleg, eiginlega frekar fyndin. Hún var jákvæð og uppbyggjandi og svaraði einni spurningu frá hverju barni sem fór til hennar. Spennan var þó öllu meiri að fá að vita hver þetta væri ... en börnin töldu að þarna hlyti að vera um starfsmann að ræða, dulbúinn starfsmann sem breytti röddinni. Böndin bárust að Siggu umsjónarmanni sem sást hvergi á svæðinu ... en hún var reyndar mjög uuu ... upptekin við eitthvað annað. „Einmitt, virkilega,“ sögðu börnin sem höfðu samt voða gaman af þessu öllu saman.
 
Ruslatínsla og sópunEldhús snilldarinnar hafði baki brotnu (eða þannig) hamast við að grilla pylsur og taka til allt tilheyrandi, eins og tómatsósu, lauk, sinnep ... hita pylsubrauð og hvaðeina, og þegar börnin komu uppgefin, ja, alla vega svöng, í matsalinn voru þau voða ánægð  með pylsurnar og borðuðu þær með bestu lyst.
 
 
Verðlaun fyrir ruslatínsluEftir kvöldmat fór hluti barnanna út til að taka til, tína rusl, sópa stéttina.
Ef einhver hélt að börnin hefðu komið í Ævintýraland til að leika sér og skapa ... úps, smágrín ... en heilmargir hörkuduglegir sjálfboðaliðar buðu sig fram til að gera allt snyrtilegt og fínt í kringum sumarbúðirnar, fengu poka til að tína ruslið í og kústa til að sópa stéttirnar með.
Og svo máttu þau að sjálfsögðu velja sér þakklætisvott úr ruslatínslu-verðlaunapokanum. Mikið varð allt fínt eftir yfirferð þeirra.
 
BíókvöldSíðan hófst bíókvöld - og var að sjálfsögðu boðið upp á popp í hléinu. Popp og Svala.
 
 
Eftir bíó var kominn háttatími og allir virtust sáttir eftir góðan og viðburðaríkan dag.
 
Við kveðjum í bili úr öllu fjörinu í sumarbúðunum!
 
 
Myndir frá deginum eru hér, ýttu á hlekkinn: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d4_2011.html


Fínt hár, fjör á dansleik og ... gómsætar pítsur

Dagbókar- og kortagerðHressir brennóstrákarDagur 3  var heldur betur viðburðaríkur og góður og úti ríkti sól og sumarylur.

Eftir morgunverðinn góða skruppu sumir i sund, aðrir léku sér á útisvæði, í Spilaborg eða fóru í dagbókar- og kortagerð. Keppendur í Ævintýrabarkanum æfðu sig og skruppu svo út í góða veðrið að æfingu lokinni. Brennó og fleiri skemmtilegheit.

 Í hádegismat var dásamlega góð kakósúpa með tvíbökum og svo ávextir í eftirmat.

 Hádegisfundirnir á eftir fóru mikið í að tala um forvarnaleikritið daginn áður og þau mikilvægu atriði sem komu fram þar, m.a. um einelti.

 Svo voru það bara elsku frábæru námskeiðin sem ganga alveg sérstaklega vel. Mikil sköpun í gangi þar.

Ævintýraeldhúsið bauð upp á sandköku og melónur í kaffitímanum. 

Eftir kaffið fór hárgreiðslukeppni í gang og fjölmargir tóku þátt. Inni í Framtíðinni (setustofunni) var greitt og túperað og skreytt á allan máta og útkoman varð alveg frábær eins og sjá má á myndunum sem teknar voru (sjá hlekk hér neðar).

Hárgreiðslukeppni í FramtíðinniFrá hárgreiðslukeppninniDómnefndin hefði virkilega þurft á greiðslu að halda eftir sitt starf, svo mjög reytti hún hár sitt yfir því að þurfa að velja úr öllum þessum flottu hárgreiðslum ... en loks komu úrslitin, en þess má geta að tvö lið höfnuðu í öðru sæti:

1. sæti: Silja Rós (hármeistari) og Emiliía Rut (módel)

2. sæti: Gunnhildur Sædís Ósk (hármeistari) Haukur Snær (módel) og Arna (hármeistari) og Bjartur Elí (módel).

3. sæti: Eydís Líf (hármeistari) og Eva Ósk (módel)

Frumlegasta: Einar Darri (hármeistari) og Signy Helga (módel)

Krúttlegasta: Klara (hármeistari) og Katla Kristín (módel)

Í verðlaun voru hárskraut, teygjur og spennur, greiður og svo fengu allir viðurkenningar.

Diskó friskóGott að kæla sig aðeins útiÞeir sem ekki tóku þátt í hárgreiðslukeppninni voru ýmist úti að skoppa eða í íþróttahúsinu.

 

Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin inn á herbergin sín, skiptu um föt og gerðu sig flott og fín fyrir kvöldið þar sem dynjandi dansleikur var fram undan ... en veislumáltíð fyrst!!!

Já, hið stórkostlega Eldhús gleðinnar setti enn eitt metið og bauð upp á PÍTSUR!!! Heimabakaðar og ógurlega góðar. Svo var gos með sem vakti ekki minni lukku.

 

Danssalurinn okkar var aðeins of lítill fyrir fjöldann svo að diskóið dansleikurinn var  haldinn í íþróttahúsinu. Kharl Anton, einn sumarbúðagestanna okkar, var DJ allt kvöldið og stóð sig meira en vel, hann var gjörsamlega frábær. Hann tók með sér græjurnar að heiman, enda mikill áhugamaður um tónlist og við fengum öll að njóta hæfileika hans. 

Diskóið dunarDJ Kharl AntonEinnig var haldin limbókeppni sem var mjög skemmtileg. Þetta var alveg frábært kvöld. Svo var hægt að fara út og kæla sig, fá bandfléttu í hárið, tattú og bara æði.

Þessi skemmtilegi dagur endaði á kvöldkaffi að vanda og voru ávextir í tonnatali snæddir.

Svo var haldið í háttinn þar sem spjallið hélt áfram um stund en að lokum sigraði svefninn.

Nýr dagur fram undan - húllumhædagur með leikjum og skemmtilegheitum á borð við kókosbolluboðhlaup og hvaðeina. Sjá í næstu færslu.

Myndir frá deginum:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d3_2011.html


Afmælisveisla, dekurhorn, brennó og spennandi draugaleikur ...

KertagerðinDagur tvö var frábærlega skemmtilegur og mikið við að vera. Hann hófst auðvitað á því að börnin vöknuðu kát og hress - umsjónarmenn vöktu hópnana sína en sum börnin voru svo sem vöknuð eða farin að rumska.

Umsjónarmennirnir settust við morgunverðarborðið með hópunum sínum og þetta var glæsilegur morgunverður - heilt hlaðborð, takk. Hægt að velja um hafragraut, súrmjólk, kornfleks, cheerios, ristað brauð með osti og heimalöguðu marmelaði, óristað brauð með mysingi, súrmjólk með mysingi ... eða bara hvað sem hvern langaði í. Hægt að velja á milli eða prófa sitt lítið af hverju.

Eftir morgunmat voru nokkrar stöðvar opnar sem hægt var að velja á milli. Íþróttahúsið frábæra, sundlaugin, kertagerð og svo var fyrsta karaókíæfingin sem er vinnuheiti á æfingum fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann, sem haldin er næstsíðasta kvöldið. Margir keppendur taka þátt að þessu sinni og allt stefnir í flotta keppni.

ForvarnarleikritiðKertagerðin er alltaf ótrúlega skemmtileg en þá hellir starfsmaður vaxi í bláskel, kveikur er settur í og svo skreyta börnin kertin sín með glimmeri, hrísgrjónum, jafnvel baunum og útkoman verður mjög skemmtileg. Minjagripur til að taka með heim.

Í hádeginu var sérdeilis góð núðlusúpa, ásamt smurðu brauði með eggjum og kæfu.

Fyrsti hádegisfundurinn var haldinn, hver hópur með sínum umsjónarmanni en þessir fundir þjappa krökkunum vel saman, farið er í leiki, spjallað saman og mikil ánægja hefur ríkt með þá.

 

DekurhornForvarnarleikrit var síðan flutt í íþróttahúsinu. Mjög skemmtilegt leikrit en með alvarlegum undirtón. Það kemur inn á ýmsar hættur sem geta steðjað að börnum og unglingum, einnig hvað einelti getur verið lúmskt og ljótt og annað í þeim dúr. Leikritið verður síðan frekara umfjöllunarefni á hádegisfundum ásamt öðru.

 

 

Bára Sif afmælisbarnSíðan voru það fyrstu námskeiðin haldin. Þá er byrjað á því að t.d. gera handrit að leikritinu og að stuttmyndinni, listaverkagerðin hefst handa við að búa til sína snilld, íþróttahópurinn byrjar að æfa sýningu sína og svo framvegis. Yfirleitt hvílir mikil leynd yfir námskeiðunum, lítið spyrst út þótt við spyrjum lymskulega. Við fengum það eina upp úr kvikmyndagerðinni að það ætti að gera eitthvað öðruvísi, hvað sem það nú þýðir. Dæs ...

Reiðnámskeiðsbörnin skelltu sér á hestbak hjá henni Guðrúnu Fjeldsteð og tóku með sér nesti. Myndavélin verður með þeim í för á sunnudaginn.

 

Í kaffinu var boðið upp á súkkulaðiköku eða skúffuköku ... eða skúffulaðiköku, eins og ónefndur starfsmaður orðaði það, og svo voru ávextir líka.

 

Guðmunda Sjöfn afmælisbarnEn þetta var enginn venjulegur kaffitími. Heil tvö afmælisbörn (12 ára), þær Bára Sif og Guðmunda Sjöfn, já, einn þriðji af tvíburunum okkar þessa vikuna, fengu kökuna sína skreytta og með kerti á, þær fengu afmælispakka og kort og svo sungu um 70 manns afmælissönginn fyrir þær. Bara æði!

 

 

Brennólið í brennókeppniSitt af hverju var í boði eftir kaffi, eins og Spilaborg, útisvæðið, íþróttahúsið og ...

... svo var smá dekurhorn opnað sem stelpurnar voru hrifnari af ein strákarnir, einhverra hluta vegna ... Þar var kennt hvernig á að búa til kornmaska til að setja á hendurnar og skola svo vel af. Hendurnar dúnmjúkar á eftir og svo var hægt að naglalakka sig á eftir. Mjög gamanog gott að kunna.

 

Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum, heldur hakk og spaghettí, nammi namm! Vel borðað af því, eða öllu heldur, mikið borðað. 

Eftir matinn var haldið á útisvæðið þar sem brennókeppni var haldin. Jafntefli varð þannig að það verður að halda úrslitaleik fljótlega.

Eldsnöggur í draugaleiknumSíðan var það hinn æsispennandi draugaleikur sem er í rauninni keppni í hraða, þolgæði, hetjuskap, hugrekki og ... já, aðallega hraða og því að geta haldið niðri í sér hlátrinum á meðan léttar þrautir eru leystar undir hrikalegri tónlist, í myrku herbergi þar sem reykvél mallar og draugar virðast vera í hverju horni. Það þarf að hlaupa góðan spöl, einn í einu sko, og tveir úr hverjum hópi, að herberginu, inn í það og út í enda þar sem fata með viðbjóðslegu vatni (ókei, kalt vatn plús smávegis af mold) er á borði, kafa ofan í hryllinginn, sækja þangað stein og hlaupa með hann til baka og afhenda starfsmanni, síðan hlaupa að upphafsreit aftur þar sem annar úr hópnum bíður eftir að hlaupa líka.

Spenntir áhorfendurÞetta þótti alveg ótrúlega skemmtilegt. Aðaldraugurinn var Davíð umsjónarmaður og honum til aðstoðar voru Maggi, Apríl og Sissa. Fljótasti hópurinn reyndist vera Sæljónin snjöllu. En hin voru líka alveg rosalega fljót.

Ávextir voru snæddir með bestu lyst í kvöldkaffinu og svo var haldið til rekkju. Börnin sofnuðu hratt og vel, enda þreytt eftir viðburðaríkan og skemmtilegan dag.

Hér fyrir neðan er hlekkur í myndir frá degi 2 en við kveðjum í bili úr öllu stuðinu hér á Kleppjárnsreykjum. Smile

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d2_2011.html

 


Tvíburatímabilið mikla!

Rútan kominGott veður á útisvæðiStór hópur af kátum krökkum mætti í Ævintýraland á sjöunda tímabil sumarsins.

Nokkur börn komu með einkabílum en flest með rútunni okkar sem leggur alltaf upp frá Perlunni.

Umsjónarmennirnir biðu spenntir eftir börnunum sínum en hóparnir verða fimm þetta tímabilið: Krossfiskar, Gullfiskar, Sæljón, Höfrungar og Hafmeyjar. Flest börnin eru á aldrinum 10-13 ára.

Að vanda byrjuðu börnin á því að koma farangrinum inn í herbergi og síðan var farið í skoðunarferð um svæðið. Mörg börnin hafa vissulega komið áður en þeim fannst bara gaman að skoða allt og rifja upp síðan í fyrra og hittiðfyrra og ... í sumum tilfellum nánast í fornöld hreinlega. Umsjónarmennirnir fóru með hópana sína í þessa skoðunarferð.

Eftir köku og melónur í kaffitímanum var haldin kynning úti í íþróttahúsi.  Þá voru kynnt þau námskeið sem eru í boði þessa vikuna, börnin velja sér námskeið sem þau verða á í tvo tíma á dag og svo er afraksturinn sýndur á magnaðri lokakvöldvöku síðasta kvöldið.

Inga Lára með hópinn sinnÍ íþróttahúsinuLangvinsælasta námskeiðið að þessu sinni er íþróttanámskeiðið. Þá eru það listaverkagerð, leiklist og kvikmyndagerð. Þau þrjú börn sem völdu grímugerð fá að gera sínar grímur þótt þau kjósi að fara í leiklist eða kvikmyndagerð sem þau völdu sér til vara. 

Núna er sannkallað tvíburatímabil hjá okkur en það komu hvorki meira né minna en þrennir tvíburar ... Ingi Þór og Magnús Anton, Alvin Hugi og Bjartur Elí, og Bára Sif og Guðmunda Sjöfn en þær eiga afmæli á morgun (fimmtudag), verða 12 ára. Allt um afmælisveisluna í næsta bloggi. Kaka fyrir alla, söngur, gjafir og kerti á kökuna fyrir afmælisbörnin. Það er alltaf gaman að eiga afmæli í Ævintýralandi! Og líka að vera afmælisgestur.

Útisvæðið var vinsælt eftir kynninguna og einnig Spilaborg sem er stútfull af skemmtilegu dóti, spilum, púslum, bókum og leikföngum, einnig er þar borðtennisborð, fótboltaspil og margt fleira. Sumum þótti notalegt að vera í smástund inni á herbergi og koma sér betur fyrir, spjalla og kynnast. Úti var ágætisveður og rigningin þorði ekki að láta sjá sig nema rétt á meðan börnin voru inni í kaffitímanum og svo í kvöldmatnum. 

Gaman í sundiGrjónagrautur var í boði í kvöldmatnum og mikið óskaplega þótti börnunum hann góður. Mikið var borðað af honum og börnin fóru södd og sæl úr matsalnum. Mikið sem þau eiga eftir að verða sæl með þetta eldhús dýrðarinnar næstu dagana ... segi nú ekki annað.

Síðan fóru flest börnin í sund en á Kleppjárnsreykjum er alveg dásamleg sundlaug. Og ekki eru heitu pottarnir síðri ... Íþróttahúsið var líka opið og Spilaborgin seinna um kvöldið.

Þröngt mega sáttir sitja í heitum pottiÍ kvöldkaffinu var boðið upp á ávexti og þeir runnu nú vel niður. Alltaf gott að fara ekki að sofa með tóman maga en börnin hreyfa sig svo mikið að það veitir sannarlega ekki af því að vera alltaf með kvöldhressingu.

Svo var bara háttað, burstað og farið í koju. Alltaf er boðið upp á kvöldsögu sem hver umsjónarmaður les fyrir hópinn sinn en hóparnir ráða því sjálfir og sumir vilja bara ná sér í góða bók í bókasafnið okkar, og lesa sjálfir undir svefninn. Við eigum fullt af góðum bókum fyrir alla aldurshópa, blöð, Syrpur og Tinnabækur.

Þemalitur/-litir þessa tímabils eru blár/og fjólublár og á sunnudaginn verða þeir litir mest áberandi.

Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum. Myndir frá degi 1 er að finna hér að neðan:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d1_2011.html

 


Mögnuð lokakvöldvaka

ÚtisvæðiLokatökur kvikmyndagerðarSjötti dagurinn rann upp, mikið rosalega hefur tíminn verið fljótur að líða ...

Skemmtilegt: Tvær stelpur í hópnum, Eydís frá Stykkishólmi og Sonja frá Reykjavík voru saman á leikskóla þegar þær voru litlar og síðan skildi leiðir. Fyrir tilviljun hittust þær á á Mæjorka árið 2007 ... og svo aftur í Ævintýralandi þar sem þær lentu saman í hópi og herbergi. Mikil ánægja með þetta.

Eftir hinn staðgóða morgunverð voru námskeiðin haldin fyrir hádegi. Nú þurfti allt að klára og fínpússa. Hulunni var svipt að hluta af bíómynd kvöldsins ... sem heitir Undarlegir atburðir og er spennu- og grínmynd. Aðgangseyrir: knús - á hvern leikara, eða samtals 20 knús sem hver og einn áhorfandi þarf að borga, okkur finnst það nú ekkert okur. 

Sérlega gott skyr var í boði í hádeginu og einnig smurt brauð. Síðan var bara farið í að pakka niður, ekkert sniðugt að geyma það fram á síðustu stundu. Brottför daginn eftir!

Alveg var yndislegt á útisvæðinu og margt við að vera þar. Poko (boltaleikur), krítun, trampólín og sitt af hverju fleira. Sólin ákvað að skreppa frá um þrjúleytið og þá var skundað í bíósalinn og horft á úrval mynda frá kvikmyndagerðarhópum fyrri tímabila.

Sýning íþróttahópsDans- og leiksýninginÍ kaffinu var gómsæt skúffukaka, einnig tekex með marmelaði og svo auðvitað ávextir!

Engin nennti að fara út í hellisteypigrenjandi rigninguna til að leika sér svo íþróttahúsið varð fyrir valinu hjá flestum, enda dásamlegt íþróttahús. Skömmu fyrir mat var farið inn á herbergin til að snyrta sig og snurfusa fyrir stóra kvöldið sem var alveg að renna upp ... en fyrst sló eldhúsið met í stórkostlegheitum ... og bauð upp á hamborgara, franskar, sósu og gos - við mikla ánægju viðstaddra.

Um klukkan 20 hófst svo lokakvöldvakan og hvílík skemmtun:

Íþróttahópurinn sýndi glæsilegt fimleikaatriði, listir á trampólíni og dýnu, stelpurnar gerðu pýramída og alls kyns fimleika, og léku flotta tónlist undir. Þær fengu heldur betur fagnaðarlæti fyrir þetta glæsilega atriði.

Dans- og leiklistarhópurinn sýndi dansleikritið Danssýningin sem fjallaði um fjórar stelpur í skóla, og þær elskuðu að dansa. Dóttir skólastjórans fékk aldrei að læra og leika sér, var bara látin þrífa. Hún sá hinar stelpurnar dansa og reyndi að gera eins. Þær sáu hana og buðust til að kenna henni. Þá kom mamman og lokaði hana niðri í kjallara. Stelpurnar fundu hana, hún gat verið með í danssýningunni og allt fór vel að lokum. Dansarnir sem voru sýndir voru ótrúlega flottir. Æðislegt atriði hjá flottum hópi. Handritið var að sjálfsögðu eftir stelpurnar í hópnum og öll útfærsla.

Bíómynd kvöldsinsÁhorfendurÞá var komið að leikriti starfsmanna, sem er óundirbúið, draga þarf miða með hlutverkinu og svo eru nokkrar mínútur til að undirbúa sig í huganum. Nú var það Hans og Gréta ... Systkinin Ellen og Davíð léku systkinin Hans og Grétu. Ellen var Hans, Davíð var Gréta. Gummi lék nornina og Hafdís pabbann ... þetta var allt saman mjög fyndið.

Í kvöldkaffi var boðið upp á ávexti og síðan frostpinna með bíómyndinni sem var næst á dagskrá.

Myndin fjallaði um hóp af stelpum sem hitta alls kyns furðuverur, drauga, hund og skrýtinn mann, enda í tímavél sem flytur þær á undarlegan stað. Furðuverurnar handsama þær en skógarhöggsmaður kom og bjargaði þeim. Frábær mynd, fyndin og spennandi, og handritið að sjálfsögðu eftir stelpurnar sjálfar. 

Auglýsing kvikmyndagerðarhópsinsSvo var það bara upp í rúm, síðasti kafli kvöldsögunnar lesinn hjá þeim hópum sem vildu sögu, heilmikið spjall og greinileg tilhlökkun að fara heim og segja frá öllum ævintýrunum.

Við þökkum þessum frábæra hópi fyrir skemmtilega og gefandi samveru og kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum. 

Myndir frá lokadeginum og lokakvöldvökunni er að finna hérna:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d6_2011.html

 


Frábær Ævintýrabarki og fleiri skemmtilegheit

Í heita pottinumÆðislegt í sundiDagur fimm hófst með hinu frábæra morgunverðarhlaðborði eftir að umsjónarmenn höfðu vakið hópa sína - allir burstað tennur og farið í fötin. 

 

 

Síðan varð stemningin rennandi blaut ... eða nánast allar stelpurnar skelltu sér í sund, heita pottinn eða bara sturtu. Sérstaklega vildu þátttakendur í Ævintýrabarkanum vera fljótir þar sem æfing var fyrir hádegi.

 

Eftir sturtu, sund og afslappelsi í pottinum varð útisvæðið fyrir valinu, veðrið var dásamlegt og mikið krítað og leikið. 

 

Haldin var sippukeppni þar sem Sunna Björk sippaði sig til sigurs og þar sem keppni var hafin vildi stelpurnar fá húllakeppni og þar var það Alexandra sem bar sigur úr býtum.

 

Á útisvæðiPógó á útisvæðiÞær voru ögn dasaðar eftir sund og sól og þótti gott að kæla sig inni á herbergjunum í smástund fyrir matinn. After sun, hárburstun og slíkt er alveg nauðsynlegt!

Í hádeginu bauð eldhúsið upp á pastarétt og hvítlauksbollur, heimabakaðar að sjálfsögðu og alveg rosalega góðar.

Á hádegisfundunum var rætt um sjálfstraust og mikilvægi þess að hafa trú á sjálfum sér - að þótt aðrir séu jafnvel illgjarnir og segi eitthvað ljótt þá þurfi ekki að taka það til sín. Galdurinn sé að trúa ekki slíku, reyna að láta það ekki hafa áhrif á sig, bara hunsa það. Stelpurnar voru innilega sammála þessu, stundum erfitt að hunsa ósanngirni frá öðrum krökkum en þær ætluðu sannarlega að reyna það í framtíðinni.

 

Leyndin yfir námskeiðunum er að verða óbærileg, okkur gengur illa að njósna um atriðin sem hóparnir ætla að sýna á lokakvöldvökunni, bíómyndina, dansinn, íþróttirnar ... en þeim mun skemmtilegra verður svo sem að sjá atriðin þegar að því kemur!

 

Rakel hestastelpaFrábærar stelpurSvo fóru reiðnámskeiðsstelpurnar með nestið sitt, í ógurlega góðu veðri og riðu um fallega staði á mögulega bestu hestum í öllum heiminum. Guðrún reiðkennari leiðbeindi þeim en hún hefur áratuga reynslu og hefur kennt börnunum okkar í mörg, mörg ár.

 

Eftir kaffi (sandkaka, vöffluafgangar og ávextir) skelltu stelpurnar sér á útisvæði, Spilaborg og í íþróttahúsið. Það síðastnefnda togar fast og allar stelpurnar voru þar um tíma við hopp og skopp.

Síðan var skroppið inn á herbergi til að snyrta sig fyrir kvöldið en heilmikil spenna ríkti þar sem Ævintýrabarkinn var fram undan.

Í kvöldmat bar eldhúsið fram fisk, hrísgrjón, karrísósu (sem er eiginlega ævintýrasósa a la Sigurjóna), einnig gátu stelpurnar fengið tómatsósu og smjör með.

 

Þá var það Ævintýrabarkinn ...söngvara- og hæfileikakeppnin,  frábær skemmtun þar sem stelpurnar sýndu frábæra takta og voru hver annarri betri.

Allir þátttakendurKeppendur kvöldsins:

Alexandra Hafþórsdóttir söng lagið See you again (Miley Cyrus)

Dagný Freyja söng lagið Jar of hearts (Christina Perri)

Kolbrún Matthíasdóttir söng lagið Grenade (Bruno Mars)

Oddný Þóra söng lagið Hot n´ cold (Katy Perry)

Sólveig Þóra söng lagið Á Sprengisandi

Valný Lára söng lagið The Climb (Miley Cyrus)

Vigdís Elva söng lagið Last Friday Night (Katy Perry)

Íris söng lagið Fireworks (Katy Perry)

Hafrún Arna söng lagið Suðurnesjamenn


Valný sigurvegariDómnefnd gaf hverjum keppenda stig og síðan var farið að reikna þau saman. Þetta reyndist hafa verið mjög jöfn keppni en ... flest stigin fékk Valný Lára sem tók sigurlagið fyrir áhorfendur sem klöppuðu vel fyrir henni.

Eftir þessa góðu keppni var sest inn í matsal og smurt brauð og safi var í boði í kvöldkaffinu.

Síðan var það bara bólið. Sleeping

Frábær dagur - æðislegt kvöld!

Myndir frá degi 5 má finna hér

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d5_2011.html#grid


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband