Færsluflokkur: Bloggar
28.6.2011 | 19:41
Mögnuð lokakvöldvaka (og RÚV í heimsókn)
Sjötti dagur þriðja tímabils í Ævintýralandi var annasamur og alveg bráðskemmtilegur - lokatökur stuttmyndar fóru fram, börnin byrjuðu að pakka niður, skemmtileg gönguferð var farin, Ríkisútvarpið kom í heimsókn og lokakvöldvakan fór fram með tilheyrandi skemmtilegheitum.
Morgunverðurinn var fjölbreyttur að vanda; hafragrautur, cheerios, ristað brauð, súrmjólk, kornfleks ... og vel var borðað þrátt fyrir allan spenninginn.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi og loka-lokatökur fóru fram. Svanhildur sumarbúðastjóri var óvænt dregin inn í myndina og látin leika smáhlutverk, henni til mikillar skemmtunar, og líka börnunum ...
Skyr og smurt brauð a la ævintýraeldhúsið var í boði í hádeginu og var farið að pakka niður farangrinum, gott að ljúka því allra mesta til að vera fljótari á brottfarardeginum og geta slakað svolítið á þá og horfa á gamlar myndir frá kvikmyndagerð fyrri ára.
Námskeiðin voru aftur á dagskrá hjá þeim hópum sem þurftu að leggja lokahönd á allt saman. Íþróttahópur var með fullæft atriði og kvikmyndagerðin búin að setja allt í hendur klipparans svo ákveðið var að skreppa í góðan göngutúr að læknum. Það var gaman að hoppa yfir hann og þeir sem voru í stígvélum óðu og höfðu gaman að.
Útvarpsþátturinn Leynifélagið á Rás 1 kom í heimsókn og spjallað var við börn í listaverkagerð og dansi. Þættinum verður útvarpað í júlí og við munum að sjálfsögðu fylgjast með og láta vita hér og á Facebook-síðu Ævintýralands þegar að þessu kemur. Takk kærlega fyrir komuna, Leynifélag!
Í kaffinu var gómsæt skúffukaka með glassúr og einnig tekex með marmelaði, og ávextir. Eftir kaffi var sitt af hverju við að vera, mesta stuðið líklega í íþróttahúsinu eins og svo oft áður, enda mikið þar af æðislegum leiktækjum.
Um klukkan 18 var gott að fara inn á herbergin til að skipta um föt, klæða sig í sitt fínasta púss, og svo þurfti einn hópurinn að farða sig, sjálfur danshópurinn en það tilheyrði flotta, frumsamda dansinum þeirra.
Í matsal beið heldur betur æðisleg veisla eftir börnunum. Hamborgarar, franskar, sósa og gos, sem vakti heldur betur ánægju hjá þessum lystargóða hópi. Andrúmsloftið var hátíðlegt, allir svo fínir og sætir ... og fullir tilhlökkunar.
Eftir matinn var komið að því sem stefnt hafði verið að alla vikuna ... (lúðrahljómur) .... lokakvöldvökunni sjálfri!!!! (trompetsóló)
Hátíðin hófst á sýningu listaverkagerðar. Sýningin var glæsileg. Tónlist hljómaði á meðan börnin gengu á milli listaverkanna og skoðuðu gaumgæfilega, dáðust að en þorðu ekki að snerta, hópurinn hafði sett skilti þar sem á stóð: Bannað að snerta! Listafólkið bauð upp á skemmtilegt atriði, eða að teikna andlitsmynd af gestum sem vildu.
Grímugerðar- og leiklistarhóparnir sameinuðust í atriði sínu, eða atriðum, en hópnum var skipt í eldri hóp og yngri hóp. Sá yngri sýndi þrjú stutt leikrit sem voru hvert öðru fyndnara. Ögn meira drama ríkti í leikriti þeirra eldri, þetta var spúkí leikrit, svakalega spennandi og fjallaði um krakka í skóla þegar ný, skrítin stelpa kemur í bekkinn. Eitthvað fækkaði í hópnum jafnt , eða um kennara og nokkra krakka, en svo kom í ljós að nýja stelpan var ... draugur! Úúúú. Handrit leikritanna voru eftir börnin sjálf og bara mjög flott hjá þeim.
Næst steig danshópurinn á svið og sýndi rosalega töff dans sem var að mestu frumsaminn, nánast alveg, við lagið Party Rock Anthem. Þær voru allar klæddar í svart, báru bleika borða og voru málaðar, eða farðaðar, í öllum regnbogans litum. Það jók á áhrifin af þessum ofboðslega flotta dansi þeirra. Þvílíkar stjörnur.
Atriði íþróttahópsins var alveg sérlega flott, en börnin þar sýndu fimleika og ýmsa skemmtilega leiki sem áhorfendur höfðu gaman að.
Næst sýndi starfsfólkið leikritið um Mjallhvíti ... eða Mjöllu eins og einn dvergurinn kallaði hana. Það vakti nú hlátur.
Eftir ávexti í tonnatali í kvöldkaffinu var sko aldeilis ekki haldið í háttinn, heldur var sjálft lokaatriðið eftir ...
... heimsfrumsýning kvikmyndagerðarhópsins ... á stuttmyndinni Hefnd Barstofs!
Boðið var upp á frostpinna með myndinni, það vakti heilmikla lukku og smakkaðist vel. Myndin var mjög flott og spennandi, og skemmtu börnin sér vel yfir henni, bæði þau sem höfðu gert hana frá grunni, og hin börnin líka.
Þetta var stórkostleg lokakvöldvaka, bæði börn og starfsfólk voru í skýjunum!
Svo mætti Óli lokbrá í síðasta sinn hjá þessum góða hópi og það var ekki laust við heilmikla tilhlökkun að sjá foreldra, ömmur og afa, kisur og hunda, naggrísi og hamstra, já, og vinina heima.
Við þökkum kærlega fyrir frábæra samveru. Sjáumst næsta sumar!
P.s. Fleiri myndir eru á www.sumarbudir.is, tímabil 3, dagur 6. Sumar myndirnar eru nokkuð mikið dökkar ... við biðjumst velvirðinar á því, en myndavélin okkar bilaði!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2011 | 22:24
Sturtudagurinn appelsínuguli!
Fimmti dagurinn rann upp bjartur og fagur og má í raun kalla hann sund- og sturtudaginn mikla. Eða söngvara- og hæfileika-, námskeiða- og hvítlauksbollu-appelsínugula daginn.
Já, hann var allt af þessu og meira til. Einn dagur á tímabilinu er helgaður sérstökum lit og dagur fimm var appelsínugulur. Allir klæddu sig í eitthvað appelsínugult.
Strax eftir hinn staðgóða, holla, fjölbreytta og frábæra morgunverð, eða hlaðborðið sjálft, var haldið í sund. Þeir sem ekki fóru í sund ákváðu samt að fara í sturtu því að allir vildu vera fínir fyrir kvöldið og skemmtunina sem var fram undan þá.
Þátttakendur í Ævintýrabarkanum, söngvara- og hæfileikakeppninni, skruppu í eitt augnablik í sundið en drifu sig svo til Gumma að æfa, æfa og aftur æfa. Þetta skyldi verða fulllllkomið! (Sem það varð.)
Fjör ríkti líka á útisvæðinu og einnig héngu börnin í smástund inni á herbergjum, eða í hálftíma fyrir matinn, það er svo vinsælt að vera inni á herbergi annað slagið.
Hádegisverðurinn hófst klukkan 12.30 og var boðið upp á ljómandi gott pasta (al dente að sjálfsögðu) og risastórar hvítlauksbollur með, Sigurjóna eldar ekki bara eins og engill, heldur bakar hún af mikilli snilld. Hún og hitt frábæra fólkið í eldhúsinu.
Hádegisfundirnir fóru í spjall og leiki og var mikið hlegið. Hlátrasköllin ómuðu um allt hús, en fundirnir fóru svo sem fram um allt hús ...
Námskeiðin gengu afar vel og flest að komast á lokastig, of margar æfingar eru þó betri en of fáar, að mati barnanna, við erum alveg sammála því.
Í kaffinu var þessi líka góða skúffukaka og síðan ógrynnin öll af melónubátum. Reiðnámskeiðsbörnin fóru á námskeiðið sitt skömmu fyrir kaffi en fengu gómsætt nesti með sér. Myndavélin var með í för og þar má ekki bara sjá myndir frá reiðtúrnum, heldur líka þegar þau hittu fallegan heimalning.
Eftir kaffi var mikið stuð á öllum stöðvum og bar líklega hæst hopp og skopp í íþróttahúsinu þar sem fór fram tarzanleikur, kíló, ausa og hvað þetta heitir nú allt saman.
Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin að tínast inn á herbergin til að skipta um föt fyrir kvöldið.
Í kvöldmat var fiskur, hrísgrjón og karrísósa sem við köllum ævintýrasósu, einnig tómatsósa eða smjör fyrir þau börn sem það vildu.
Svo hófst Ævintýrabarkinn! Úti í íþróttahúsi. Tíu þátttakendur fluttu fjögur atriði:
Áslaug Gyða, Karín Óla, Telma Lind og Kristín sungu Justin Bieber-lagið Baby.
Petra María og Kolbrún Hulda dönsuðu breikdans.
Kolbrún Hulda og Ásta Sigrún sungu lagið Lífið er yndislegt, og Gummi spilaði undir.
Telma og Kristín sungu lagið Nína.
Dómnefndin reif bæði í hár sitt og skegg, svo erfitt var að gefa atkvæði. Svo fór að keppnin varð nánast hnífjöfn, það munaði hálfum stigum hér og hálfum þar, svo ákveðið var að veita öllum þessum frábæru, hæfileikaríku keppendum verðlaun. Frábær hópur.
Í kvöldkaffi var boðið upp á smurt brauð og safa og síðan fór þreyttur mannskapurinn beint í bólið eftir annasaman dag.
Okkar allra bestu stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Fleiri myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 3 - dagur 5.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2011 | 00:05
Velheppnað húllumhæ!
Húllumhædagurinn var haldinn með pomp og prakt eins og venjulega á laugardögum. Leikir, keppnir, skemmtun og fjör, frábær matur, bíósýning.
Það var vaknað, klætt, burstað og haldið í morgunverðinn þar sem heldur betur var tekið til matar síns. Þar sem þetta var húllumhædagur voru námskeiðin færð fyrir hádegi til að hátíðin væri samfleytt fram á kvöldið.
Leiklistin spókaði sig úti, teknar voru góðar æfingar í sólinni en í undirbúningi er leikrit fyrir lokakvöldvökuna. Dansinn var æfður af mikilli einbeitingu, sáum við þegar við kíktum við. Á öðrum vígstöðvum var sko meira en allt í sómanum. Þetta verður flott lokakvöldvaka, ekki spurning. Málað, æft, handritin fínpússuð, búningar mátaðir, upptökur og hvaðeina sem tilheyrir undirbúningnum. Nafnið á stuttmyndinni verður gefið upp síðar, enn á leyndardómsstiginu ... eins og fleira sem tengist námskeiðunum, enda á þetta allt saman að koma sem mest á óvart þótt við séum ekki kannski nógu þagmælsk á blogginu.
Í hádeginu var gómsætur grjónagrautur með kanil og melónur í eftirmat. Nammi namm.
Hádegisfundir voru haldnir en síðan var hátíðin sett. Byrjað var á fánaleiknum góða. Þeir sem vildu taka þátt söfnuðust saman, en það voru nú flestir, og skipt var í tvö lið; Draum og Martröð. Draumshópurinn fékk rauðbleik strik máluð í andlitið en Martröðin blá. Svo var bara vaðið í bardagann upp á líf og klemmur. Á endanum hafði Draumur betur eftir æsispennandi keppni!
Heilmikið var við að vera á eftir, eins og sippkeppni og sápukúlusprengikeppni ... og sigurvegari þeirra beggja var hún Kolbrún Hulda. Henni tókst að sprengja 1.254 sápukúlur á einni mínútu, eða eitthvað slíkt og klappaði svo hratt saman lófunum að annað eins hafði vart sést, einnig sippaði hún ótrúlega hratt og vel.
Bandfléttur voru settar í nokkra kolla, Spilaborg opnaði í smástund á meðan smárigning gerði vart við sig en svo var haldið áfram að leika og kríta og hafa það skemmtilegt.
Í kaffinu var boðið upp á hátíðarvöfflur, eins og alltaf á húllumhædegi, heitar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma eða sultu og rjóma, bara eins og hver og einn vildi. Flestir kusu nú súkkulaðivöfflurnar, enda minna þær á góðar bollur á bolludegi, eru alveg ótrúlega góðar!
Eftir kaffi var nú aldeilis haldið áfram með bandfléttur, svo var tenniskeppni (Wii) í einum salnum, útisvæðið var vinsælt og svo ... rúsínan í pylsuendanum ... spákonan ógurlega frá Borgarnesi, Jósefína Potter mætti á staðinn í furðulegum búningi, svo vægt sé til orða tekið, svona eins og beint út úr bíómynd um Harry Potter. Að vanda var spennan meiri fyrir því að vita "hver starfsmannanna" þetta væri en nákvæmlega það sem kerla sagði, og bárust böndin helst að Gumma sem ... uuu ... var í verslunarferð í Borgarnesi ... Spákonan var rosalega lík honum í málróm og fasi. Hún sagði nú margt skemmtilegt og fyndið ... og líka uppbyggjandi og gott. Sumir voru hálfsmeykir og fengu starfsmann með sér - vildu samt ómögulega sleppa því að fara.
Já, og ekki má gleyma skartgripagerðinni. Hún er alltaf ótrúlega vinsæl. Börnin búa til skartgrip sem þau eiga sjálf, gefa mömmu eða pabba, jafnvel kisunni sinni, eins og nýlega, við vitum að til er hamingjusöm kisa í Reykjavík með mjög flotta hálsfesti ...
Svo var bara komið að kvöldmat og bauð ævintýraeldhúsið upp á grillaðar pylsur með öllu!!!
Bíókvöld var haldið eftir matinn og í hléinu fengu börnin kvöldkaffið sitt ... popp og svala!
Þetta var frábær húllumhædagur og fleiri myndir frá honum er að finna á www.sumarbudir.is. Tímabil 3, dagur 4.
Þangað til næst - okkar allra bestu kveðjur úr stuðinu á Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2011 | 14:12
Diskó-kertagerðar-pítsu-tattú-hárgreiðslu-og-fleira-stuð
Dagur þrjú var alveg æðislegur frá upphafi til enda - það var m.a. kertagerð, forvarnaleikrit, hárgreiðslukeppni, dansleikur, tattúgerð og bandfléttur í hár ...
Að vanda hófst dagurinn á morgunverði. Í lýsingunum í gær á úrvalinu á hlaðborðingu gleymdist hreinlega að geta þess að hafragrautur er líka í boði á morgnana og hann hefur notið vinsælda hjá börnunum í gegnum tíðina, enda hollur og saðsamur. Það var notalegt að setjast við borðið hjá umsjónarmanninum sínum og hinum krökkunum í hópnum og spjalla svolítið á rólegu nótunum, góð byrjun á deginum.
Sitt af hverju var í boði fyrir börnin eftir morgunmatinn. Útisvæðið skemmtilega var vinsælt, enda margt við að vera þar. Trampólínin eru alltaf vinsæl en aðeins eitt barn hoppar þar í einu. Umsjónarmaðurinn á svæðinu tekur tímann á börnunum en til að allir sem vilja geti hoppað og skoppað upp í loftið.
Sumir fóru í sund og svo var líka kertagerð sem heil 40 börn vildu endilega taka þátt í. Kertavaxi er hellt ofan í bláskel og kveikur er settur. Síðan fá börnin kertið sitt í hendur og þá hefst skreytingin skjálf og sitt af hverju er notað til að gera kertin fín. Glimmer í nokkrum litum, hrísgrjón (ósoðin auðvitað) og baunir. Það var ekkert lát á hugmyndafluginu og mjög flott kerti urðu til.
Okkur var hleypt inn á æfinguna fyrir Ævintýrabarkann, sem var frekar mikið leyndarmál deginum áður, en Gummi snillingur heldur utan um þá keppni sem gengur undir vinnuheitinu karaókíkeppni hjá okkur. Það er hægt að gera margt annað þar en að syngja, t.d. sýna dans eða fimleika, segja brandara og fleira en flestir kjósa þó að syngja. Þá þarf að velja sér lag og æfa vel á morgnana. Við smelltum af myndum og drifum okkur svo út svo hægt væri að æfa áfram. Það litla sem við heyrðum hljómaði ótrúlega vel.
Í hádeginu gladdist hópurinn yfir ilmandi kakósúpu og tvíbökum en þetta er bara rétt að byrja hjá eldhúsinu góða, og svo voru ávextir í eftirmat.
Eftir hádegisverðarfundinn var haldið út í íþróttahús þar sem leiksýning fór fram. Leikrit um góðu-ráða-vélina Ping og Pong ... og síðan samviskuvélina Sing og Song. Þetta er forvarnaleikrit sem starfsfólkið og stærri starfsmannabörnin leika í. Mjög fyndið leikrit en samt með alvarlegum undirtón. Tekið er á einelti, vantrú á sjálfan sig og hæfileika sína, grunsamlegt fólk sem reynir að lokka börn upp í bíl með lymskulegum ráðum, hættur MSN og Facebook og fleira. Börnin voru alveg með hætturnar á hreinu og þau yngstu vöruðu aðalleikarann við því að fara með manneskjunni sem vildi sýna honum sæta hvolpa sem var bara plat. Sterk dæmi voru tekin, og í sambandi við einelti, hvað það er auðvelt í raun að taka ekki þátt í því og hvað það breytir miklu fyrir alla aðila að gera hið gagnstæða. Góð skilaboð um að vera góð hvert við annað ... og það í ótrúlega skemmtilegum búningi.
Í kaffinu var sandkaka og svo auðvitað melónur í tonnatali.
Blásið var til hárgreiðslukeppni eftir kaffi. Sjö lið tóku þátt. Það vantaði ekkert upp á hugmyndaflugið þegar hármeistararnir greiddu módelunum sínum eftir öllum kúnstarinnar reglum og allir sjö hóparnir lentu í verðlaunasæti, svo flott var þetta. Hóparnir fengu viðurkenningarskjöl og smáverðlaun sem hægt var að velja sér upp úr verðlaunakassa keppninnar. Hér koma úrslitin:
1. sæti: Þórunn Birna, María Sól (módel)
2. sæti: Heiður Ósk, Katrín (módel)
3. sæti: Kolbrún Hulda og Lana Björk, Andrea Líf (módel)
Frumlegasta: Katrín Óla, Áslaug Gyða og Kristín, Telma Lind (módel)
Krúttlegasta: Agnes og Linda, Ásta Sigrún (módel)
Ævintýralegasta: Helga Dögg, Petra María (módel)
Nettasta: Lára Lind, Sigrún Dóra (módel)
Hin börnin skoppuðu um svæðin, bæði úti og í íþróttahúsin. Veðrið lék við okkur. Smáhitaskúr eftir kaffi en stóð ekki lengi. Skömmu fyrir kvöldmat var farið inn á herbergin þar sem börnin puntuðu sig á alla enda og kanta, enda dansleikur fram undan. Við köllum það reyndar diskó ... en þetta er alvörudansleikur með ... að vísu diskókúlu, plötusnúði, flottum skreytingum og hvaðeina.
Sérlega góður matarilmur hafði truflað einbeitinguna rétt fyrir mat og þegar börnin komu prúðbúin inn í matsalinn kom í ljós að eldhúsið hafði staðið í ströngu við að búa til PÍTSUR!!! Og ekkert smá góðar pítsur. Borðað var gífurlegt magn af þessum góðu heimabökuðu flatbökum og ekki var amalegt að fá gos að eigin vali með.
Svo var haldið á diskó, afsakið ... á dansleikinn. Þvílíkt fjör sem ríkti þar og mikið var nú dansað. Á miðjum dansleik var haldin limbókeppni og hún var ótrúlega skemmtileg. Svo var mikið gott að geta andað rólega þess á milli, farið fram til að kæla sig og fá tattú og bandfléttur í hárið fyrir þá sem vildu. Strákarnir eru flestir of stuttklipptir til að fá bandfléttur og mörgum finnst það líka stelpulegt ... svo þeir kusu tattúið fram yfir. Bæði stelpur og strákar létu húðflúra sig (með húðvænum litum að sjálfsögðu). Stóru starfsmannabörnin (snúningarnir okkar, aðstoða umsjónarmennina á námskeiðum og við gæslu á öllum svæðum) hafa náð mikilli leikni í því að teikna tattú og ekki veitir af því að hafa sem flesta húðflúrmeistara á svæðinu, svo vinsælt er þetta. Einhverjir fóru líka út til að viðra sig og var hoppað af miklum krafti á trampólíninu!
Kvöldið leið hratt og allt í einu var komið að kvöldkaffi. Ávextir voru snæddir með bestu lyst og síðan var farið í að bursta tennur, hátta og hlusta á kvöldsöguna fyrir svefninn. Frábær dagur búinn, næst húllumhædagurinn góði en alla laugardaga ríkir 17. júní-stemmning. Meira um það í næstu færslu.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum og minnum á myndirnar á www.sumarbudir.is. Tímabil 3, dagur 3.
P.S. Myndirnar við færsluna eru í réttri tímaröð en eiga kannski ekki alltaf við textann næst þeim. Ef bendillinn er settur yfir þær sést myndatexti.
Villtar diskóstuðhárgreiðslutattúbandfléttukertagerðar-meðmeiru-kveðjur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2011 | 19:28
Allt farið á fullt!
Alvaran hófst fyrir alvöru á degi 2 ... eða kannski ekki, það var ekki mikil alvara í gangi svo sem, en kannski má frekar segja að fastir liðir hafa farið af stað. Námskeiðin og fleira skemmtilegt!
Börnin vöknuðu hress í bragði, burstuðu tennur, klæddu sig og fóru í matsalinn. Fyrsti morgunverðurinn í Ævintýralandi fram undan. Umsjónarmenn settust hjá hópum sínum og svo þurfti bara að velja af hlaðborðinu ... já, það er hlaðborð á morgnana. Ég legg ekki meira á ykkur! Það var hægt að fá sér súrmjólk, cheerios, kornfleks og ristað brauð með osti og marmelaði (a la Sigurjóna). Eitthvað af þessu eða smakk af öllu. Það féll í góðan jarðveg að geta valið svona, ekki bara í sumarbúðunum sjálfum, námskeiðin og afþreyinguna, heldur líka morgunmatinn.
Það var heilmargt við að vera eftir morgunmatinn, sumir fóru í íþróttahúsið, aðrir léku sér á útisvæðinu, einhverjir fóru í sund og svo fór hluti barnanna á leynilega æfingu ... en næstsíðasta kvöldið verður söngvara- og hæfileikakeppni haldin, Ævintýrabarkinn, og það veitir ekkert af því að byrja æfingar strax. Velja sér til dæmis lag til að syngja og æfa það núna næstu daga. Meira um það þegar nær dregur. Svo var farið inn á herbergin til að ganga frá sundfötum og búa sig undir hádegisverðinn sem hófst á sekúndunni 12.30 eða um það bil.
Núðlusúpa og smurt brauð með eggjum og kæfu rann vel niður í mallakútana í hádeginu og síðan var haldið á fyrsta hádegisfundinn en slíka fundi halda umsjónarmennirnir með hópum sínum daglega. Þar er staðan tekin á börnunum, spjallað og farið í skemmtilega leiki.
Námskeiðin fóru vel af stað. Listaverkagerðin hófst handa við að skapa flott listaverk, kvikmyndagerðin, eða börnin þar, fór í að semja handrit fyrir fyrirhugaða stuttmynd sem verður gerð næstu daga. Leiklist og grímugerð voru á fullu líka, það var hamast í íþróttahúsinu, en íþróttahópurinn er kraftmikill og von á flottri sýningu frá honum. Svo verður dansinn eitthvað æðislegur líka, frumsaminn að sjálfsögðu, eins og annað sem er skapað var grunni af börnunum, sem eru mjög virk og hugmyndarík.
Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt af Guðrúnu Fjeldsted sem hefur haldið utan um reiðnámskeiðin okkar í fjöldamörg ár við miklar vinsældir en hún á eina flottustu og bestu hesta í heiminum, finnst þeim börnum sem hafa farið á námskeið hjá henni. Börnin tóku með sér nesti og nýja skó en á sunnudaginn verður myndavélin með þeim í för og myndir birtast þá seinna um kvöldið eða á mánudaginn.
Í kaffinu var boðið upp á sandköku og tekex með heimalöguðu marmelaði, einnig voru ávextir í boði, en mikið, mikið er borðað af ávöxtum í Ævintýralandi. Síðan hélt fjörið áfram um víðan völl og leið tíminn hratt fram að kvöldverði en ævintýraeldhúsið bauð upp á steiktan fisk, hrísgrjón og karrísósu, tómatsósu fyrir þá sem kusu.
Fljótlega eftir matinn var haldið út í íþróttahús þar sem æsispennandi brennókeppni fór fram. Gullfiskar báru sigur út býtum - þvílíkur kraftur og baráttuandi ... og hlátur og skemmtun!
Svo kom að sérlega spennandi lið sem heitir draugaleikur ... Vegna yngri barnanna er þetta þó kallað draugaleikrit, þá verða þau ekkert hrædd. En þetta er hraða- og afrekskeppni þar sem keppt er um hver er raunbestur á þrautastund ... eða þannig. Hver hópur tilnefnir nokkra keppendursem þurfa að hlaupa brjálæðislega hratt í gegnum draugalegt herbergi, hávær, draugaleg tónlist, reykvélin mallar og dulbúnir starfsmenn reyna að tefja börnin við að leysa þraut, sækja stein ofan í vatnsfötu og sleppa síðan ofsahratt út aftur. Þvílík spenna og þvílíkir skrækir.Svo var mikið klappað þegardraugarnir komu fram, tóku af sér grímurnar og hneigðu sig. Krossfiskar báru sigur út býtum í draugaleiknum, þutu nánast með ljóshraða í gegnum herbergið og slógu öll tímamet!
Mikið stuð ríkti á meðan börnin borðuðu smurða brauðið í kvöldkaffinu og renndu því niður með safa.
Börnin sofnuðu fljótt, enda þreytt eftir viðburðaríkan dag. Ekki hafði næturvörðurinn mikið að gera ...
Myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is - Tímabil 3, Dagur 2.
Okkar allra bestu kveðjur úr öllu stuðinu á Kleppjárnsreykjum!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2011 | 20:38
Grímugerð og leiklist vinsælast!
Þriðji hópur sumarsins mætti kátur og hress á Kleppjárnsreyki skömmu fyrir kaffi í gær.
Börnin byrjuðu á því að koma farangrinum inn á herbergin og síðan var farið í vettvangsferð um svæðið, hver hópur (aldursskiptir hóparnir) með sínum umsjónarmanni.
Boðið var upp á skúffuköku og ávexti í kaffinu en börnin eiga sannarlega eftir að kynnast ævintýraeldhúsinu sem Sigurjóna snilldarkokkur stjórnar og hefur gert í mörg, mörg ár. Hún þekkir af eigin raun orðið matarást ...
Haldið var í íþróttahúsið næst þar sem börnin völdu sér námskeið til að vera á allt tímabilið í tvo tíma á dag. Síðan verður afrakstur námskeiðanna sýndur á lokakvöldvökunni.
Grímugerðin og leiklistin voru langvinsælustu námskeiðin og þar á eftir listaverkagerð. Kvikmyndagerðin, íþróttir og dansinn skiptu með sér restinni. Það ríkir mikil tilhlökkun hjá starfsfólkinu fyrir lokakvöldvökunni ... sýning hjá listaverkagerð, leikrit hjá grímugerð og leiklist, stuttmynd frá kvikmyndagerðinni, danssýning ... og íþróttasýning. Þetta verður bara æði og meira um það þegar nær dregur.
Einnig völdu börnin sér álegg á brauðið í kvöldkaffinu og einnig safategund. Farið var í skemmtilega leiki í íþróttahúsinu og á útisvæði eða í Spilaborg sem er frábær og kósí staður með milljón bókum, spilum, púslum og leikföngum, pool-borði, borðtennis, fótboltaspili og hvaðeina. Flestir kusu að vera úti í góða veðrinu.
Í kvöldmat var boðið upp á kjöt og spagettí, mjög goooootttt, og síðan fóru börnin í sund. Þar ríkti mikið fjör svo vægt sé til orða tekið. Svo var hægt að fara í heita pottinn og slaka vel á.
Flest börnin voru ótrúlega fljót að sofna eftir að hafa fengið ávexti í kvöldkaffinu, sem er til skiptis við smurða brauðið. Umsjónarmennirnir sögu hópnum sínum kvöldsögu og þegar flestir voru komnir í ró tók næturvörðurinn við.
Hóparnir eru Krossfiskar (fjólubláir), Gullfiskar (gulir), Höfrungar (appelsínugulir) og Hafmeyjar (bleikar).
Myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 3, dagur 1.
Meira blogg á morgun - þangað til: Okkar allra, allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2011 | 19:55
Dásamlegur lokadagur
Þá var bara komið að stóra deginum ... þeim allra stærsta.
Lokakvöldvakan fram undan!!!
Eftir morgunverðinn góða þennan sólríka og flotta dag númer 6 mátti sjá undarlegar verur, hálfgerðar forynjur, á útisvæðinu. Enginn ótti greip þó um sig meðal starfsfólksins, enda er það orðið öllu vant.
Þarna reyndust vera á ferð börnin í kvikmyndagerðinni en loka-lokaupptökur áttu sér stað á stuttmyndinni. Það vantaði bara útitökurnar en allar innitökur voru búnar.
Dans-, grímu- og leiklistarhópurinn æfði dansinn sinn líka og það var sannarlega kominn glæsileg mynd á þá flottu sýningu sem fram undan var um kvöldið. Handritið fínpússað, grímurnar tilbúnar, málaðar og flottar, búið að redda réttu búningunum (takk, Sigurjóna og allir hinir). Vá, hvað þetta var spennandi.
Veðrið lék svo sannarlega við okkur. Gott að liggja í sólbaði inn á milli átakanna. Í hádeginu bauð lúxuseldhúsið upp á skyr og smurt brauð sem smakkaðist mjög vel.
Eftir matinn var farið í að pakka niður! Allt gekk mjög vel og svo var æft eða gert sitt af hverju fram að kaffi þar sem skúffukaka, tekex með marmelaði og ávextir voru á boðstólum. Þau klikka ekki í ævintýraeldhúsinu.
Ljúft var um víðan völl eftir kaffi, í Spilaborg, íþróttahúsinu og á útisvæðinu. Hluti barnanna fór í ruslatínslu og fékk verðlaun fyrir. Það er svo frábært að sjá þau með poka tína upp hvert einasta ruslsnifsi sem finnst í kringum húsið okkar, fölnuð laufblöð sluppu heldur ekki, og einnig var allt sópað og gert snyrtilegt. Innan tíðar hefði mátt borða upp úr stéttunum ... en það hvarflaði svo sem ekki að neinum að prófa það. Hahaha.
Svo þurfti að gera það sem átti að gera á 17. júní - eða að sprengja sápukúlur í milljónatali. Loks í logninu góða var ákveðið að slá upp sápukúlusprengikeppni. Þetta var ótrúlega gaman. Og veðrið svooooo gott!
Börnin fóru inn á herbergin sín um sexleytið til að skipta um föt fyrir hátíðarkvöldverðinn og lokakvöldvökuna.
Svo mættu bara "ný börn" í matsalinn og í veisluna. Hamborgarar, franskar, sósa og gos var í matinn og nammi namm, hvað þetta var gott!
Þá var bara komið að því ...
Eftir gómsætan matinn var farið út í íþróttahús þar sem flotti sameinaði hópurinn úr grímugerð, dansi og leiklist sýndi magnað leikrit eftir handriti barnanna sjálfra. Leikritið fjallaði um stelpur á munaðarleysingjahæli sem þurftu heldur betur að þræla og púla fyrir mat sínum. Á endanum struku þær. Til að vinna sér inn fyrir mat ákváðu þær að dansa á torginu, notuðu grímur til að þekkjast ekki. Allt kom fyrir ekki, þær náðust ... en sirkusstjóri hafði séð til þeirra og bauð þeim starf sem þær þáðu með þökkum. Leikritinu lauk með frumsömdum dansi sem var mjöööööög glæsilegur.
Þá kom að starfsmannaleikritinu, starfsmenn og elstu starfsmannabörnin ... léku Rauðhettu og dró Davíð hlutverk sjálfrar Rauðhettu. Hann var mjög fyndinn og allir aðrir líka. Það þótti til dæmis sérlega fyndið að hafa aukapersónur á borð við afa og Spiderman í leikriti um Rauðhettu ...
Ávextirnir runnu vel niður í kvöldkaffinu og svo var komið að lokaatriði kvöldsins - stuttmyndinni sjálfri. Myndin heitir Draugahúsið og týndu krakkarnir. Hún segir frá börnum sem voru föst inni í húsi þar sem vampírur og uppvakningar bjuggu og úr varð mikill eltingarleikur. Á endanum ákváðu allir að verða vinir - af því að það er svo miklu betra! Sannarlega flott mynd og stórskemmtileg. Handritið var að sjálfsögðu eftir börnin sjálf.
Ekki var amalegt að fá frostpinna á meðan horft var á myndina - heilmikil stemning í því, óvænt þar að auki. Myndin vakti mikla lukku og börnin geta verið hreykin af bæði leikritinu, dansinum, grímunum og stuttmyndinni. Snillingar, er rétta orðið yfir þau.
Svo var bara farið að sofa - tilhlökkun var mikið að hitta alla heima; pabba, mömmu, afa, ömmu, systkini, vini, kisu, hund, hamstur, bangsa og bara allar þessar elskur heima.
Við þökkum þessum góða hópi kærlega fyrir skemmtilega viku! Sjáumst hress og kát næsta sumar.
Myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 2, dagur 6.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2011 | 18:41
Ævintýrabarkinn - allir slógu í gegn
Fimmti dagurinn var gjörsamlega æðislegur - en við bjuggumst svo sem ekki við öðru! Guli liturinn var litur dagsins (sjá mynd) og allir skörtuðu einhverju gulu.
Eftir staðgóðan morgunverð drifu mörg börnin sig í sund og öðrum lá svo á að þau fóru bara í sturtu. Allir skyldu vera tandurhreinir fyrir stóra kvöldið - eða hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann. Keppendur leyfðu sér að vera í sundi í smástund en drifu sig svo á æfingu hjá Gumma sem heldur utan um keppnina.
Eftir sund og/eða sturtu var gott að vera á útisvæðinu, enda gott veður, það var krítað, rólað og rennt, hoppað á trampólínunum sívinsælu og svo var líka hægt að hamast í íþróttahúsinu - eða jafnvel slaka á inni í herbergi skömmu fyrir mat.
Í hádeginu bauð Sigurjóna upp á pasta og hvítlauksbrauð - eða raunar risastórar hvítlauksbollur sem börnin kunnu sannarlega að meta. Hún veit hvað þessar elskur vilja, fimm barna móðirin ...
Hádegisverðarfundir voru haldnir að vanda, frekar stuttir í annan endann þar sem kvikmyndagerðarhópurinn var virkilega önnum kafinn og þurfti sinn tíma til að ljúka við myndina. Námskeiðin hafa gengið mjög vel og sumarbúðastjórinn getur varla hætt að dásama þennan góða barnahóp. Nokkur börn fóru á reiðnámskeið (sjá mynd) með nesti og nóg var að gera hjá öllum hinum líka.
Skúffukaka var í boði í kaffinu og einnig melónur sem eru sérlega vinsælar, enda mjög góðar!
Eftir kaffi var útisvæðið vinsælast enda hafði heilt logn fokið til okkar, loksins. Sitt af hverju var við að vera á útisvæði og íþróttahúsi en skömmu fyrir mat var haldið inn á herbergin til að skipta um föt.
Í kvöldmat var fiskur, hrísgrjón og karrísósa (sem er ævintýrasósa a la Sigurjóna), einnig smjör og tómatsósa, bara eins og hver og einn vildi.
Svo hófst dýrðin sjálf - eða Ævintýrabarkinn, hæfileika- og söngvarakeppnin.
Frænkurnar Gunnhildur Fríða og Linda Regína hófu kvöldið og sungu (án undirleiks) lagið Sofandi hér liggur hann. Þær lentu í 3. sæti - sungu eins og englar. Þær sungu þetta lag þegar bróðir Gunnhildar var skírður, sögðu þær okkur.
Elín Birta og Eydís Emma sýndu næst fimleikaatriði og þær eru sko liðugar!
Anna Día og Rut sungu næst lagið Ást (með Ragnheiði Gröndal) og lentu í 2. sæti. Þær sungu afar fallega.
Glóey söng frumsamið lag um ömmu sína sem lést þegar Glóey var þriggja ára. Lagið heitir Til baka í minn heim. Miklir hæfileikar hér á ferð og hún lenti í 1. sæti. Gummi lék undir á gítar.
Gyða söng síðan lagið Hvem kan sigla, sænskt lag. Mjög flott hjá henni.
Kristófer og Tómas Jökull slógu í gegn með breikdansi (Kristófer) og Parkour (fimleikar) (Tómas).
Þorvaldur Daði söng lagið Lífið er yndislegt og hann söng það yndislega!
Lilja Rut sýndi fimleika og var atriðið hennar einstaklega flott!
Þar sem öll atriðin voru einstök var ákveðið að með viðurkenningunum sem allir fá alltaf fyrir þátttöku í Ævintýrabarkanum, að gefa öllum smáverðlaun. Keppnin var svo jöfn og mjótt á munum, eins og maður segir. Það vakti mikla ánægju, enda voru þau öll sigurvegarar.
Í kvöldkaffinu var smurt brauð og safi - svo var það bara draumalandið. Fram undan stóri, stóri dagurinn ... hátíðarkvöldverður og svo lokakvöldvakan.
Myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 2 - dagur 5.
Okkar allra, allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2011 | 12:42
Fjör á fjórða degi - dansleikur og fleira
Fjórði dagur rann upp - fullur af ævintýrum eins og hinir. Það var haldin hárgreiðslukeppni, flutt leikrit, um kvöldið var dansleikur með limbóstuði og hvaðeina en ... best að byrja á byrjuninni.
Eftir að hafa vaknað, teygt, klætt og burstað var haldið í matsalinn þar sem hver hópur borðaði morgunverð með umsjónarmanni sínum. Allir virtust hafa sofið vel og voru kátir og hressir.
Hægt var að fara í sund, íþróttahús, á útisvæði og í kertagerð, og svo fóru nokkrir á æfingu ... eða þeir sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum. Eins gott að æfa vel, það styttist í stóru stundina.
Þrátt fyrir sól og hita nenntu fáir að vera úti (það var frekar miiiikið rok, sem er sjaldgæft). Kertagerðin er alltaf skemmtileg en þá hitar starfsmaður vax og því er hellt ofan í bláskel, kveikur settur og allt látið storkna svolítið. Síðan er hægt að hefjast handa við að skreyta kertið sitt eftir öllum kúnstarinnar reglum. Hugmyndaflugið á sér engin takmörk en vinsælast er glimmerið, einnig hrísgrjón (ósoðin auðvitað) og svo baunir.
Í hádeginu var kakósúpa með tvíbökum og síðan ávextir á eftir. Allir höfðu mjöööög góða lyst á súpunni.
Hádegisfundir voru stuttir að þessu sinni þar sem úrslitin í brennókeppninni brunnu á börnunum. Svo fór að Krossfiskar sigruðu. Síðan var hægt að setjast niður og slaka aðeins á í íþróttahúsinu þar sem starfsfólkið ætlaði að sýna leikrit! Og hvílíkt leikrit. Börnin klöppuðu mikið og fögnuðu vel.
Þetta er forvarnaleikrit í mjög skemmtilegum búningi. Tekið er á mörgu, eins og þeim hættum sem geta steðjað að. Börnin tóku virkan þátt og vöruðu til dæmis söguhetju leikritsins mjög við því að fara upp í bíl með ókunnugu fólki, jafnvel þótt það þættist vera með litla móðurlausa hvolpa.Börnin í salnum áttuðu sig alveg á því að þetta væri eitthvað rangt. Einelti kom fyrir í leikritinu og sýnd voru tvenns konar viðbrögð við sömu atburðum. Jákvæð og neikvæð. Þeir Ping og Pong - álfar voru rosalega ráðagóðir og fyndnir stjórnuðu góðuráða-vélinni og hjálpuðu söguhetjunni.
Svo voru það Sing og Song. Jákvæða röddin og neikvæða röddin í kollinum á Önnu. Sing peppaði hana upp þegar hún dró úr getu sinni í erfiðu stærðfræðiprófi, á meðan Song var viss um að hún gæti ekkert. Sing ráðlagði Önnu að samþykkja engan ókunnugan á MSN og feisbúkk á meðan Song hélt að það væri nú í lagi. Sem betur fer hlustaði Anna á Sing ... og börnin í salnum sem voru sko með hlutina á hreinu.
Á hádegisfundunum sem umsjónarmenn halda með hópunum sínum er líka komið inn á ýmis mál en það er án efa gott að geta horft á í skemmtilegu og líka fyndnu leikriti hvaða aðstæður geta skapast og hvernig best er að bregðast við. Áhrifaríkt að sjá hlutina.
Svo voru það bara elsku bestu námskeiðin sem ganga svoooo vel. Það er án efa æðislegt að horfa á sköpunaverk sitt/sín verða smám saman að veruleika - flotta leikritið þar sem dansað verður með grímur og hvaðeina ... og svo þessi líka spennandi bíómynd sem verið er að ljúka tökum á.
Í kaffinu var boðið upp á sandköku og melónur, einnig afgangsvöfflur og tekex með marmelaði.
Eftir kaffi var blásið til hárgreiðslukeppni. Sjö tveggja manna lið skráðu sig til leiks og dómnefndinni var heilmikill vandi á höndum þegar átti að velja sigurvegarana. Svo fór að allir lentu í verðlaunasæti sem var sannarlega ekki amalegt, fengu viðurkenningarskjal og verðlaun.
Í fyrsta sæti urðu: Eydís Emma módel og Elín Birta hármeistar. Í öðru sætinu lentu tvö lið: Auður Anna (módel) og Rut hámeistari, og Lilja Sól (módel) og Anna Día hármeistari. Í þriðja sætinu urðu Glóey módel og Lilja Rut hármeistari.
Frumlegustu greiðsluna átti Sara hármeistari sem greiddi Gyðu. Töffaðsta hárgreiðslan var á Antoni Frey en hármeistari hans var Alexander Þór. Ævintýralegasta greiðslan var á Lindu Regínu en Gunnhildur Fríða greiddi henni.
Einhverjir hoppuðu og skoppuðu úti í íþróttahúsi eða á útisvæði í góða (hvassa) veðrinu en um sexleytið var farið inn á herbergin til að punta sig þar sem diskó var fram undan ...
Ótrúlega góður og lokkandi ilmur barst úr eldhúsinu en Sigurjóna snillingur og allt hennar fólk hafði staðið í ströngu við að búa til milljón pítsur eða þar um bil - til að metta nú örugglega allan mannskapinn. Mikið voru allir glaðir að fá pítsuveislu og það var sko mikið borðað. Svo var gos með sem þótti nú heldur betur æðislegt.
Diskóið dunaði á fullu eftir matinn og það var mikið dansað! Svo var gott að komast fram annað slagið til að kæla sig og fá þá tattú eða bandfléttu í hárið inn á milli. Limbókeppni var slegið upp á miðju balli og þvílíkt fjör. Þær Gunnhildur Fríða og Eydís Emma voru limbódrottningar kvöldsins. Þvílíkt liðugar!
Kvöldið leið hratt og allt í einu var komið að háttatíma. Það var nú heldur betur notalegt að skríða undir sæng og slaka á á meðan umsjónarmaðurinn las kvöldsöguna góðu. Svo tóku Óli lokbrá og Elísa næturvörður við.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum og minnum á myndirnar á www.sumarbudir.is. Þær nýjustu: Tímabil 2, dagur 4.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2011 | 02:16
17. júní í Ævintýralandi - mikið stuð!
Þriðji dagurinn hófst með miklum spenningi, enda bæði húllumhædagur og 17. júní.
Að vanda var ráðist á morgunverðarhlaðborðið og snætt af bestu lyst þar til allir voru orðnir pakksaddir og tilbúnir fyrir daginn ... og þvílíkur dagur.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi að þessu sinni til að hátíðardagskráin gæti staðið samfleytt frá hádegi og langt fram á kvöldið. Grímudansleiklistin er á fullu í undirbúningi og hafa grímur þegar verið málaðar. Kvikmyndagerðin var í tökum og mikið fjör í gangi á námskeiðinu. Þetta verður spennumynd um dularfullt hús ... stelpa fer inn í það og hverfur. Annað úr handritinu er enn algjört leyndarmál þar til kemur að lokakvöldvökunni og stuttmyndin verður frumsýnd.
Grjónagrautur var í boði í hádeginu og melónur í eftirmat. Alveg sérlega góður grautur, sögðu börnin sem borðuðu heil ósköp af honum.
Síðan var haldinn hádegisfundur með umsjónarmönnunum og eftir hann var starfsfólkið með smásprell fyrir börnin.
Svo sló Árni í gegn með brúðuna Danna (sem er sjö ára, Danni sko). Danni hafði verið í ferðatöskunni í tvo daga og var orðinn nokkuð slæmur í bakinu að sögn. Árni fór á kostum með hinn bráðskemmtilega Danna sem segist vera frá Flórída.
----- ooo OOO ooo -----
Veðrið lék svo sem ekkert við okkur þrátt fyrir ágæta veðurspá fyrir Kleppjárnsreyki en börnin klæddu sig bara eftir veðrinu og haldið var út í fánaleikinn góða. Liðin Martröð og Draumur börðust um ... klemmur.
Martraðarliðið var auðkennt með blárri stríðsmálningu (ja, strikum) í andlitið og Draumaliðið með rauðum strikum. Eftir heilmikla baráttu, brjáluð hlaup og læti þá tókst Draumi að sigra, eða safnaði fleiri klemmum. Við færðum hátíðarhöldin inn þegar fór að rigna lárétt í hraðskreiðu logninu. Börnin komu inn rjóð í vöngum og voru sko alveg til í næsta atriðisem var hvorki meira né minna en ...
... kókosbolluboðhlaup. Hóparnir kepptu sín á milli og þurfti hver keppandi að borða kókosbolluna sína eins hratt og hann gæti með hendur fyrir aftan bak. Síðan hlaupa hratt til hópsins aftur og þá gat næsti tekið við að borða sína kókosbollu. Tíminn var tekinn og voru Krossfiskar langfljótasti hópurinn. Svo sem sá elsti og þar af leiðandi með stærstu munnana, sagði einn Gullfiskurinn en alls ekki tapsár. Þetta var bara skemmtilegt, fannst börnunum, og ekki amalegt að fá heila kókosbollu!
Þetta var ekki búið enn því nú var komið að sykurpúðagleypikeppni. Börnin eru afar hrifin af öllum keppnum og þar sem veðrið leyfði ekki sápukúlusprengikeppni þá var fundin upp alveg ný keppni sem sló aldeilis í gegn. Börnin köstuðu sykurpúðum (pínulitum og sætum) upp í loftið og gripu með munninum. Fljótustu börnin voru Rakel Sandra (Hafmeyjum), Kristófer (Krossfiskum) og Inga Birna (Gullfiskum).
Það var ekkert slugsað í eldhúsinu þótt allt þetta gengi á í matsalnum. Sigurjóna snillingur hafði bakað heilu stæðurnar af vöfflum undir köllum og hvatningarhrópum, og þrátt fyrir kókosbollur og sykurpúða var sko alveg pláss fyrir 17. júní vöfflur hjá börnunum. Sumarbúðirnar bjóða alltaf upp á vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma en auðvitað er sulta líka í boði fyrir þá sem vilja. Flestir kusu súkkulaðivöfflur, enda eru þær hreint út sagt dásamlega góðar.
Eftir vöffluátið var sitt af hverju í boði. Eins og skartgripagerð en hún var sérlega vinsæl af börnunum sem bjuggu til mjög fallega skartgripi. Það voru bandfléttur í hárið og keilukeppni (Wii) og svo ... kom ofboðslega skrítin spákona í heimsókn; Jósefína Potter frá Borgarnesi.
Búið var að segja börnunum að þau mættu spyrja spákonuna einnar spurningar, alls ekki tveggja eða fleiri. Þar sem sumarbúðastjórinn er prakkari bað hún einn strákinn að stríða spákonunni svolítið. Allt gekk vel til að byrja með. Stákurinn spurði hvað hann yrði þegar hann yrði stór. Spákonan sagði honum að hann yrði það sem hann langaði til að verða. Síðan laumaði stráksi út úr sér: Af hverju er himinninn blár? Og þá æpti spákonan á sumarbúðastjórann, og stráksi hljóp í burtu skellihlæjandi. Eydís Emma spurði hvernig hárið á henni yrði á fullorðinsárum og því var fljótsvarað: Þú þarft ekki að lita það fyrr en um fimmtugt og þú verður með slöngulokka þar til þú verður níræð!Þakka þér kærlega fyrir, sagði Eydís Emma alsæl. Þetta var svolítið skrítin spákona. Hún sagði við suma: Dragðu spil úr bunka mínum og legðu það á jörðina ... Sumum börnunum fannst þau hreinlega vera komin inn í Búkolluævintýri ... Flest börnin voru á því að þetta hefði örugglega verið Gummi umsjónarmaður ...
Í kvöldmat voru pylsur með tómatsósu, sinnepi og steiktum, algjörlega áframhaldandi hátíð og það var sko ekki allt búið enn.
Bíókvöld var haldið með pomp og prakt og í tilefni dagsins fengu allir poka með sælgæti til að maula með yfir sýningunni. Þetta var spennandi nammi sem Apríl okkar keypti þegar hún var í Ameríku núna í vor. Í hléinu var boðið upp á popp og Svala.
Þetta sló allt í gegn og engin aukalæti voru í gangi þrátt fyrir óvenjumikið sykurátið ... en þetta var nú einu sinni 17. júní. Þau voru bara elskuleg eins og alltaf, ánægð með allt sem þau fengu.
Tennurnar voru burstaðar vel og vandlega undir svefninn, kvöldsagan lesin og Elísa næturvörður tók við.
Þetta var einstaklega skemmtilegur og góður dagur.
Myndir eru komnar inn á sumarbudir.is - tímabil 2 - dagur 3.
Bestu þjóðhátíðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar