20.7.2010 | 11:51
Tvöföld afmælisveisla og mögnuð lokakvöldvaka
Þá rann lokadagurinn upp - dagurinn mikili þar sem afrakstur vinnunnar alla vikuna skyldi sýndur og mikill spenningur ríkti.
Fyrst var borðaður morgunverður af hlaðborðinu, hafragrautur, súrmjólk, kornflakes, ristað brauð ... allt þetta eða bara eitt.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi, enda þurfti að leggja lokahönd á ýmislegt, raða upp myndlistarsýningunni og klára að æfa leikrit og dans. Kvikmyndagerðin var búin með sitt og börnin fóru á útisvæðið eða í sund og hin slógust fljótlega í hópinn. Á veggjum mátti sjá auglýsingar um væntanlega kvikmyndasýningu og mikil stemmning var í gangi fyrir lokakvöldvökunni.
Eldhúsið bauð upp á skyr og smurt brauð í hádeginu.
Eftir matinn var farið í að pakka niður farangrinum og svo hófst loka-, lokaundirbúningur fyrir kvöldið hjá þeim sem áttu eftir að hnýta allra síðustu endana. Eftir pökkun var líka seinni hluti reiðnámskeiðs í gangi þannig að ekki var æft eftir hádegið.
Þegar börnin komu í kaffi var búið að breyta matsalnum, borðin sett saman og búið að skreyta. Tvöfalt afmæli var í dag en Ragnar (Höfrungur) og Rut (Gullfiskur) áttu bæði níu ára afmæli. Þau sátu við sérstakt afmælisborð þar sem blá terta spilaði fyrir þau afmælissönginn ... og svo sungu allir auðvitað líka, sumarbúðastjórinn kom með kort og gjafir fyrir afmælisbörnin sem fengu sérskreyttar afmæliskökusneiðar. Ekki amalegt að lenda í tvöföldu afmæli og fá afmælisköku á þessum mesta hátíðisdegi vikunnar, lokadeginum. Afmælisbörnin urðu hálffeimin í fyrstu en ekki leið á löngu þar til þau voru farin að brosa hringinn. Það er alltaf gaman að eiga afmæli í Ævintýralandi og ekki amalegt heldur að vera afmælisgestur.
Síðan hófst ruslatínslan og þau börn sem vilja taka þátt fá poka og fara svo umhverfis sumarbúðirnar og tína allt það rusl sem þau finna, ekki eitt einasta fölnað laufblað sleppur undan haukfránum sjónum þeirra. Sum sópuðu stéttina og innan skamms var umhverfið orðið hreint og fínt. Allir sem tóku þátt fengu smáglaðning. Sjá mynd hér ofar. Með því að setja bendilinn yfir myndirnar má sjá myndatexta.
Spilaborg var líka vinsæl þennan steikjandi hlýja eftirmiðdag þar sem börnunum þótti gott að sleppa smástund inn úr sólinni - en flestir léku sér þó á útisvæðinu.
Skömmu fyrir kvöldmat fóru allir inn í herbergin sín til að skipta um föt og vildu vera í sínu fínasta pússi fyrir kvöldið.
Sannkallaður hátíðarmatseðill var í boði ... eða hamborgarar, franskar og sósa og gos til að renna því niður. Mikil gleði yfir matseðlinum og mikið borðað.
Myndlistarsýningin var fyrst á lista kvöldsins og bar hún nafnið Geimævintýri. Þar voru sýnd mjög flott listaverk af öllum gerðum, listaverk sem sýndu mikla sköpunargleði, vonandi að ljósmyndirnar sýni, þó ekki væri nema lítið brot af því, hvað þetta var glæsilegt hjá þeim.
Grímugerð og leiklist sýndu Ævintýrasirkusinn, spennandi leikrit sem fjallar um stuld á tígrisdýri úr sirkusi og allt fer í steik. Löggan bjargar málunum og finnur dýrið. Í lokin dansa allir fagnaðardans og þar blandaðist danshópurinn inn í og varð úr þetta líka flotta dansatriði. Mjög skemmtilegt leikrit sem börnin sömdu sjálf handritið að, völdu sér búninga, bjuggu til grímur og sýndu svo. Bara stórkostlegt!!!
Þá var komið að Búkollu, leikriti starfsmannanna ... en þeir leika algjörlega óundirbúið, vita ekkert hvaða leikrit á að leika eða hvert hlutverk þeirra á að vera. María var hin lata og svefnsjúka Búkolla og fórst það vel úr hendi. Mikið var hlegið, enda var þetta frekar ólíkt Búkollu sem allir þekkja.
Síðasta atriði lokakvöldvökunnar var kvikmyndin Hvar ertu?. Hún fjallar um börn sem hverfa á dularfullan hátt og lítill tveggja ára gutti sem er í heimsókn í sumarbúðunum hverfur líka. Ólíklegasta manneskjan er sökudólgurinn, eða sjálfur sumarbúðastjórinn sem stjórnar þessum ránum. Henni finnst nú ekkert óeðlilegt (sko í myndinni) að stela börnum, sko sumir safna frímerkjum, hún börnum! Þegar henni er sagt að þetta sé ólöglegt gargar hún bara og hleypur í burtu en sleppur ekki, heldur fer í fangelsi ásamt glæpagengi sínu. Já, handritið var unnið upp úr hugmyndum allra barnanna í kvikmyndagerðinni og úr varð þessi líka rosalega fyndna og skemmtilega bíómynd!
Lokakvöldkaffið var ljúft en þá var ekki bara boðið upp á ávexti, heldur líka frostpinna.
Það voru ánægð börn sem lögðust á koddann sinn um kvöldið - þetta hafði verið skemmtilegt kvöld og fínasta vika full af ævintýrum.
Myndirnar frá síðasta deginum er að finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t5d6.html
Bestu þakkir fyrir stórkostlega viku og saknaðarkveðjur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2010 | 18:56
Busl, skvettur og snilldarsöngur
Í hádeginu var boðið upp á pasta og hvítlauksbrauð og síðan var haldið á hádegisfundina.
Loksins kom eitthvað út úr þessum dularfullu bréfum sem hafa borist til umsjónarmannanna með mikilvægum skilaboðum til barnanna. Þau þegja samt sem fastast við okkur og ekki eru umsjónarmennirnir skárri. Við fengum þó að sjá gullpening sem hvert og eitt barn hafði fengið og sum börnin sögðu að þetta væri ekta gull, önnur að þetta væri súkkulaði með gylltum pappír utan um. Súkkulaði eða gull - það er stóra spurningin.
Námskeiðin voru þar á eftir og gengur öll vinna þar afar vel, eiginlega bara ofboðslega vel svo hætt var fyrr en vanalega til að fara að leika sér á vatnsrennibraut sem Geir snillingur bjó til úr plasti. Mikil sæla og hamingja hjá börnunum. Auðvitað var farið í vatnsslag líka, hvað annað?
Fyrrihluti reiðnámskeiðs fór fram í dag fyrir reiðnámskeiðsbörnin sem komu alsæl til baka rétt fyrir kvöldmat. Þau náðu að skipta um föt fyrir hátíðina um kvöldið - Ævintýrabarkann.
Í kaffinu, sem var drukkið úti í góða veðrinu, var boðið upp á sumarbúða-sandköku, afgangsvöfflur og fleira.
Í kvöldmat var fiskur, kartöflur, smjör og tómatsósa og urðu heilu listaverkin til þegar börnin stöppuðu þessu saman.
Svo var haldið út í íþróttahús! Prúðbúin börnin settust og ekki leið á löngu þar til fyrsta atriðið hófst en þátttakendur í Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum þessa vikuna voru:
Jóhanna Katrín sem söng án undispils Sunnan við sæinn breiða.
Sólrún, Soffía og Hafrún sungu Meistari Jakob á frönsku og Sólrún spilaði á gítar.
Sólrún var með annað atriði, hún spilaði Óðinn til gleðinnar á gítar (úr Níundu sinfóníu Beethovens).
Kolla (Kolbrún) söng Dídí lagið (Benedikt búálfur).
Oddný og Svava sungu Bahama.
Margrét Júlía söng Þú fullkomnar mig (Sálin)
Elísabet Alla og Anna Día sungu Is it true (Jóhanna Guðrún).
Tinna söng lagið Ég sjálf (Birgitta Haukdal).
Kolla, Fríða Lilja, Rakel Sandra, Signý Helga, Jóhanna Katrín og Inga María sýndu dans.
Margrét Júlía, Ásdís Birta, Þórey Gréta, Sólbrá Birta og Heiða Ósk sungu og dönsuðu - Tik Tak Skinka.
Þetta voru allt alveg æðisleg atriði og dómnefndin klofnaði án efa mörgum sinnum þegar hún reyndi að dæma hver atriðanna yrðu í fyrstu þremur sætunum ... Svo kom dómnefndin fram, úfin og tætt eftir erfiðið, og urðu fjögur atriði í fyrstu þremur sætunum:
Í þriðja sæti: Sólrún, Soffía og Hafrún með Meistara Jakob á frönsku.
Í öðru sæti: Jóhanna Katrín með Sunnan við sæinn breiða OG Kolla sem söng Dídí lagið en þær urðu hnífjarnar að stigum.
Í fyrsta sæti: Margrét Júlía með Þú fullkomnar mig.
Öll börnin fengu viðurkenningarskjöl og efstu sætin smáverðlaun.
Kvöldinu lauk með kvöldkaffi þar sem boðið var upp á smurt brauð og safa.
Þá var það bara háttatími, kvöldsaga og draumalandið. Spennandi dagur fram undan, sjálf lokakvöldvakan alveg að bresta á þar sem leikrit, dansar, listaverk og bíómynd verða á dagskránni. Allt um það á morgun.
Myndir frá deginum má finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t5d5.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2010 | 21:04
Fjör á húllumhædegi
Dagur 4 í sumarbúðunum er alltaf húllumhædagur. Þá breytist venjuleg dagskrá þannig að námskeiðin eru haldin fyrir hádegi til að húllumhæið sé samfleytt frá hádegi til kvölds. Þannig að strax eftir morgunverðinn var haldið á námskeiðin.
---------- = O = -----------
Tökur eru hafnar hjá kvikmyndagerðinni og þeir sem þurftu að bíða eftir að kæmi að þeim gátu leikið sér í Spilaborg eða í íþróttahúsinu, einnig grímugerðarbörnin sem luku sínum æfingum nokkuð snemma. Lognið hreyfðist hratt um morguninn og börnin kusu frekar að vera inni, enda svo sem mikill útivistardagur fram undan. Bíómyndin fjallar um dularfullt barnshvarf í sumarbúðum en ekki hvað ... útkoman úr mörgum handritum sem var blandað saman þannig að allir höfðu sitt til málanna að leggja. og leikritið í grímugerð kemur inn á aðra eins spennu líka þótt erfiðara hafi verið að fá upp úr börnunum þar um hvað þeirra leikrit fjallar.
Grjónagrautur var í matinn í hádeginu og melónur í eftirmat. Bara æði og mikið borðað.
Eftir hádegisfundina var húllumhædagurinn settur með pomp og prakt og var starfsfólkið uppáklætt í ýmsa skemmtilega búninga. Farið var í fánaleikinn fjöruga og það var mikið stuð.
Börnunum skipt í tvo hluta, eða tvö lið ... Draum og Martröð. Liðsmenn Draums fengu gular rendur á kinnar og liðsmenn Martraðar svartar.
Stríðsmáluð börnin þutu um grundir og móa til að ná klemmum af andstæðingnum og vinna þannig fánann. Eftir gríðarlega harða baráttu sigraði Draumur.
Þá var haldið á útisvæðið þar sem m.a. vinabandagerð fór fram. Heiða snillingur kenndi galdurinn við að gera glæsileg vinabönd. Sjá mynd aðeins neðar.
Svo var bara allt í einu kominn kaffitími. Meðlætið var ekki af verri endanum, heldur nýbakaðar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma. Svo var auðvitað hægt að fá sultu líka en langflestir vildu glassúrinn.
Eftir kaffi var nóg við að vera. Það var hægt að fá tattú, andlitsmálun, fara í keilukeppni, sippkeppni, fá bandfléttur og fleira. Einnig kusu margir að vera á útisvæðinu.
Skartgripagerð fer alltaf fram eftir kaffi og voru búnir til ótrúlega flottir skartgripir; hálsmen, armbönd og slíkt. Sumir bjuggu til nafnið sitt þar sem til eru allir stafirnir í perlunum sem þræddar eru upp á band.
Mörg barnanna ákváðu að prófa þessa skrýtnu spákerlingu sem var klædd eins og beint upp úr Harry Potter-mynd og engin leið að sjá hvernig hún liti út. Hún svaraði einni spurningu frá hverju barni sem fór til hennar. Nú veit ein dama að norðan að hún verður bóndi, eins og hún hefur alltaf þráð ... Hún sagðist samt alveg vita að þetta væri leikur. :) Flestir starfsmenn sumarbúðanna sem ekki voru á svæðunum lágu undir grun um að hafa leikið spákonuna. Meira að segja sú sem hér ritar en það þykir alltaf langmest spennandi að vita það. Auðvitað er þetta samt hún Jósefína Potter frá Borgarnesi ...
Sigurvegari keilukeppninnar var Hafmeyjan Sólbrá Birta og sigurvegarinn í sippi var önnur Hafmeyja, Heiðdís Dögg. Þessar Hafmeyjar sópa til sín hverjum verðlaununum á fætur öðrum.
Eldhúsfólkið hafði aldeilis ekki setið aðgerðalaust á meðan börnin léku sér, heldur grillað býsnin öll af pylsum sem börnin borðuðu svo með bestu lyst í kvöldmatnum og í brauði með tómat, sinnep og steiktum auðvitað.
Um kvöldið var síðan bíósýning og kvöldkaffið vel við hæfi í héinu, eða poppkorn og Svali.
Kvöldsagan var lesin þegar allir voru komnir upp í rúm og innan tíðar hvíldi ró yfir öllu á Kleppjárnsreykjum.
Mikill fjöldi mynda var tekinn að vanda og má finna hlekkinn að þeim hér fyrir neðan:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t5d4.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2010 | 13:32
Kertagerð, diskóstuð og allt þar á milli
Margt ótrúlega skemmtilegt gerðist á degi 3. Það var leiksýning og það var diskó, pítsur í kvöldmatinn, kertagerð um morguninn og meira að segja var hægt að fá tattú! Þessi góði dagur hófst að vanda á morgunverði.
Morgunninn leið við ýmis skemmtilegheit á borð við leiki í íþróttahúsinu, á útisvæðinu og Spilaborg. Það var líka hægt að fara í sund í góða veðrinu, fara í kertagerð og svo var æfing fyrir Ævintýrabarkann. Kertagerðin var mjög skemmtileg en þar velja börnin sér bláskel sem umsjónarmaður hellir vaxi í. Settur er kveikur í það og þegar vaxið er farið að storkna er hægt að skreyta það á ýmsan hátt. M.a. með baunum, hrísgrjónum (ekki soðnum) og glimmeri. Límdur er lítill steinn undir skelina svo hún geti staðið og verið flott skraut í herberginu heima.
Í hádeginu var kakósúpa og tvíbökur. Mikið sem öllum fannst hún góð. Síðan var haldið á hádegisfundina góðu, hver hópur með umsjónarmanninum sínum. Málin voru rædd, púlsinn tekinn á líðan barnanna að vanda og spjallað um þessi dularfullu bréf til barnanna sem umsjónarmennirnir fá hvern morgun.
Þá var haldið í íþróttahúsið þar sem leiksýning fór fram. Sýningin skiptist í tvo hluta. Fyrst voru það Ping og Pong sem létu Góðráð, snjalla vél, gefa Heiðu góð ráð við því sem angraði hana. Komið var m.a. inn á einelti og að hafa trú á sjálfum sér. Það nær mjög vel til barnanna að sjá þetta svona í leikriti, mun betur en að tala bara um það. Þau fylgdust líka andaktug með og þar sem leikritið er líka bráðfyndið var heilmikið hlegið.
Seinni hlutinn sagði frá þeim Sing og Song og hvernig þeim finnst að Heiða ætti að taka á sumum málum. Þegar t.d. karlinn kom á bílnum og reyndi að fá Heiðu til að koma upp í og hjálpa sér með litla hvolpa sagði Song að maður ætti sko alltaf að fara upp í bíl með ókunnugum en Sing neitaði því og sagði að maðurinn ætti að biðja fjölskyldu sína um að hjálpa sér, ekki ókunnuga stelpu. Börnin voru greinilega vel uppfrædd því þau ætluðu að missa sig úr hlátri yfir bullinu í þessum vitlausa Song sem fór á kostum í ruglinu. Leikritið og innihald þess verður líka rætt á næsta hádegisfundi. Það hefur virkað mjög vel að sýna börnunum aðstæður sem geta komið upp og vonandi að sem mest síist inn. Það var líka komið inn á margt fleira.
Eftir leikritið var haldið á námskeiðin og þar var allt á fullu. Grímurnar eru orðnar þurrar og því var hægt að byrja að mála þær. Kvikmyndagerðin er að komast í fullan gang og okkur sýndist að tökur væru við það að hefjast. Að minnsta kosti var mikil búningamátun í gangi. Börnin vilja halda sem mestu leyndu því að útkoman á að koma á óvart á lokakvöldvökunni - þegar afraksturinn verður sýndur. Við höldum samt áfram að reyna að veiða eitthvað upp úr þeim.
Í kaffinu var boðið upp á köku og einnig tekex með heimalagaða marmelaðinu góða, og ávexti sem runnu vel niður.
Þá voru það bara stöðvarnar eftir kaffi og börnin léku sér úti og inni. Þau sem voru úti voru vökvuð reglulega vegna hitans og drukku mikið vatn.
Ilmurinn úr matsalnum var ómótstæðilegur þegar leið að kvöldverði en í matinn voru pítsur! Enginn var ósáttur við þann góða kvöldmat, enda eru pítsurnar hennar Sigurjónu landsfrægar.
----------------- - O - ---------------
Skömmu fyrir matinn skiptu börnin um föt því haldið skyldi á diskótek um kvöldið. Flott tónlist var sett á fóninn, reykvélin fór í gang og svo var tjúttað út í eitt. Davíð sá um tónlistina og fékk góðar tillögur um lagaval frá börnunum líka. Þetta var mikið fjör.
Diskóið var ekki það eina sem var í boði, heldur var hægt að hvíla sig frammi, ná aðeins andanum eftir dansinn og fá tattú á handlegginn og/eða bandfléttur í hárið. Það var ótrúlega vinsælt og heilu listaverkin mátti sjá á handleggjum barnanna. Flétturnar voru mjög flottar en bandfléttur í öllum regnbogans litum hafa nú aldrei þótt annað en flott skraut.
Einn lítill krúttmoli var ekki alveg sáttur við reykvélina í danssalnum (diskóherberginu) í fyrstu en þegar honum var sýnt hvernig hún virkaði og að hún væri alveg hættulaus þá dreif hann sig í dansinn með hinum. Alltaf gott að fara varlega og fá skýringar á hlutunum!
Ávextir voru síðan snæddir af mikilli lyst í kvöldkaffinu og svo var farið beint í háttinn. Notalegt að sofna eftir öll ævintýri dagsins eftir að umsjónarmaðurinn las hina skemmtilegu framhaldssögu, sumir sofnuðu meira að segja á meðan á lestrinum stóð.
Já, þetta var aldeilis góður dagur.
Myndir frá degi 3 eru komnar inn en einhverjum erfiðleikum er þó bundið að hlaða þeim niður (dánlóda þeim) - vonandi bara í bili en fólki er innilega velkomið að ná sér í myndir af börnum sínum í leik og starfi hjá okkur. Þetta lagast vonandi fljótlega.
Myndirnar eru hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t5d3.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.7.2010 | 18:28
Ævintýradagur númer tvö
Dagur 2 rann upp sólbjartur og sólfagur í glampandi sólskini ... já, það var sko sól í gær og er enn.
Umsjónarmenn vöktu börnin um níuleytið, sum voru nú reyndar farin að rumska sjálf, og eftir að hafa klætt sig og burstað tennur var haldið í morgunverð - eða til hlaðborðs! Þar var hægt að velja um sitt lítið af hverju:
Kornflakes, súrmjólk, hafragraut og ristað brauð með t.d. osti og heimalöguðu marmelaði Sigurjónu matráðskonu sem er ein vinsælasta manneskjan á svæðinu eins og mun koma í ljós næstu dagana ...
Síðan voru opnaðar stöðvar, útisvæðið og sundlaugin og einnig fór fyrsta karaókíæfingin fram en þar æfa sig þeir þátttakendur sem hafa skráð sig í Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann. Sú keppni fer fram næstsíðasta kvöldið og er ótrúlega skemmtileg. Börnin velja sér lag til að syngja, eða þau dansa, breika, segja brandara og jafnvel teikna í beinni, eins og gerðist eitt tímabilið við mikla lukku. Skömmu fyrir hádegismat fóru börnin inn á herbergi til að bæta á sig sólarvörn, ekki veitti af.
Í hádeginu var núðlusúpa og smurt brauð, m.a. með kæfu og eggjum og síðan var haldið á hádegisfund.
Umsjónarmenn funda alltaf í hádeginu með börnum sínum og þeir höfðu sannarlega fréttir að færa. Þeir voru vaktir um morguninn með því að bréfi var fleygt í andlitið á þeim og svo ... hviss, bang, hvarf bréfberinn dularfulli. Þetta hefur gerst á öllum tímabilunum í sumar en okkur hefur ekki tekist að fá upp úr börnunum hvað er í gangi, eina sem við vitum er að einhver mikilvæg skilaboð eru í þeim og loforð um meira daginn eftir. Skyldi okkur takast að veiða leyndarmálið upp úr þessum hópi?
Síðan var haldið á námskeiðin. Já, kvikmyndagerðin er fjölmennust og einnig grímugerð og leiklist sem eru saman. Mun dansnámskeiðið jafnvel tengjast þeim tveimur þar sem snillingurinn Snæfríður umsjónarmaður vinnur að gerð dans sem hæfir leikritinu. Listaverkagerðin rokkar hjá Heiðu en hún er einmitt myndlistarkennari og hefur unnið í mörg ár fyrir Ævintýraland, eins og flestir starfsmennirnir. Íþróttirnar verða tengdar við kvikmyndagerðina þannig að þegar tökur hefjast þurfi leikararnir ekki að sitja og bíða endalaust eftir að komi að þeim, heldur er farið á fullt í íþróttum, úti sem inni. Bara snilld.
Tíminn leið hratt á námskeiðunum og allt í einu var komið kaffi og bauð eldhúsið upp á hina sívinsælu sumarbúða-sandköku, ásamt melónum í miklu magni.
Eftir kaffi hófst hárgreiðslu-keppnin og að þessu sinni tóku bara stelpur þátt í henni. Þátttakendur voru allir æðislegir og dómnefndin átti í mesta basli með að velja flottustu greiðslurnar.
Í fyrsta sæti varð Margrét Júlía sem greiddi Ásdísi Birtu.
Í öðru sæti varð Fríða Lilja sem greiddi Iðunni Klöru.
Í þriðja sæti varð Elísabet Alla sem greiddi Önnu Díu.
Frumlegasta hárgreiðslan þótti vera greiðsla Heiðu Óskar en hún greiddi Sólbrá Birtu.
Aðrir þátttakendur voru Heiðdís Dögg, Helena, Inga María, Jóhanna Katrín, Kolla, Mirjam Sif, Signý Helga og Tinna Björk.
Allar fengu þær viðurkenningarskjöl og smáverðlaun voru veitt fyrir efstu sætin og frumlegustu greiðsluna.
Útisvæðið var líka opið og íþróttahúsið svo börnin gætu kælt sig INNI, já, ég legg ekki meira á ykkur ... það er sko hægt að verða þreyttur á sólinni, líka á ÍSlandi. Sumarbúðastjórinn, hún Svanhildur Sif, tók sér pásu frá skrifstofuamstrinu og fór í körfubolta í smástund með nokkrum krökkum. Þar hitti hún átta ára körfuboltadrottningu, Hafrúnu, sem virtist vera á heimavelli þarna. Jafnaldra hennar, Sólrún Pauline, fylgdi fast á eftir og var kölluð körfuboltaprinsessan. Ekki háar í loftinu, svona miðað við 2,11 m körfuboltakappa, en hittu samt ótrúlega oft í körfuna þarna lengst, lengst uppi sem fullorðið fólk getur sumt varla.
Eftir að hafa borið á sig eftirsól inni á herbergjum þusti hópurinn í matsalinn þar sem í boði var steiktur fiskur og hrísgrjón og svo val á milli karrísósu, súrsætrar sósu og tómatsósu. Sú síðastnefnda kom nokkuð sterk inn.
Síðan hófst kvölddagskráin. Hún byrjaði úti í íþróttahúsi á æsispennandi brennókeppni á milli hópanna. Hafmeyjarnar sigruðu eftir harða og ótrúlega skemmtilega keppni.
Þá var það draugaleikurinn ... úúúú. Börnin vita fullvel að þetta er leikur og eru ekkert hrædd, bara spennt. Ef einhver börn vilja ekki taka þátt í leiknum er þeim boðið inn í Framtíðina (bláa herbergið) og þar geta þau lesið og spjallað, bara eins og þau vilja.
Tvö börn úr hverjum hópi eru valin af hinum börnunum til að vera fulltrúar síns hóps og þurfa að búa yfir miklum hraða ásamt auðvitað smádassi af hugrekki. Eitt barn í einu hleypur frá dyrunum í matsalnum eftir gangi og inn í draugalegt herbergi þar sem draugaleg tónlist hljómar og reykvél gerir sitt til að magna stemmninguna. Það er að sjálfsögðu frekar skuggsýnt inni í herberginu, bara kveikt á nokkrum seríum.
Í enda herbergisins er að finna fötu með köldu vatni og steini á botninum. Barnið þarf að ná í steininn og rétta umsjónarmanninum, eða þeim starfsmanni sem fylgir, og hlaupa síðan á ofsahraða út og sömu leið. Aðaldraugurinn var leikinn af Davíð umsjónarmanni og þær Dagbjört og Erla starfsmannabörn léku litlu draugana (og fannst það ekki leiðinlegt). Það var mikið skríkt og hlegið og auðvitað gargað. Hinar hugumstóru Hafmeyjar lönduðu öðrum sigri sínum sama kvöldið, enda eru svo sem hafmeyjar hugrakkar í ævintýrunum. Allir fengu að kíkja inn í draugaherbergið í lokin og fannst það æðislegt. Draugamyndavélin okkar neitaði að nota flassið og því eru myndirnar nokkuð draugalegar. Að sjálfsögðu.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á safa og smurt brauð en börnin völdu sér uppáhaldsáleggið sitt og -safategundina fyrsta daginn þegar kynning á námskeiðunum og starfsfólki fór fram.
Svo var bara komið að háttatíma og kvöldsögu eftir ævintýraríkan dag, já og sólríkan ... þar sem var farið í stórfiskaleik og allt!
Myndamálin eru komin í lag, jesssss. Kíkið endilega á myndirnar, sjá hlekk hér að neðan: Tímabil 5, dagur 1 og dagur 2:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/Myndir.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2010 | 09:19
Frá Frakklandi og Noregi ... en EKKERT frá Hafnarfirði!
Hópur stórskemmtilegra krakka kom í Ævintýraland í gær. Fyrst komu þau sem voru keyrð til okkar og svo kom rútan. Við vöxum aldrei upp úr því að vera ógurlega spennt á komudögum barnanna, enda kannski spenningurinn í þeim svo smitandi.
Börnin byrjuðu á því að skella farangrinum inn á herbergin og fóru svo í sýningarrúnt með umsjónarmanninum en hver hópur hefur sinn eigin góða og skemmtilega umsjónarmann allt tímabilið.
Eftir að hafa skoðað sumarbúðirnar frá kjallara til rjáfurs (svona nánast) og allt útisvæðið líka (eða landareign okkar, eins og einn strákurinn orðaði það) var hægt að fara að koma sér notalega fyrir inni á herbergjum. Sum börnin taka bangsa með sér í sumarbúðirnar eða jafnvel ljósmynd (foreldrar, afar, ömmur, gæludýr) sem hægt er að stilla upp og finnst það setja heimilsbrag á allt.
Boðið var upp á skúffuköku í kaffinu og melónur á eftir. Þetta rann ljúflega niður og mikið var spjallað. Hóparnir náðu vel saman.
Á eftir var haldið í flotta íþróttahúsið þar sem fór fram kynning á starfsfólki og námskeiðum. Það kom mikið á óvart hversu mörg börn völdu að fara í kvikmyndagerð ... grín. Yfirleitt er þetta vinsælasta námskeiðið og var það sannarlega þetta tímabilið líka. Fleiri námskeið eru í boði í sumarbúðunum; listaverkagerð, leiklist, grímugerð, dans, söngur, íþróttir. Stundum eru einhver námskeið sameinuð (eins og leiklist og grímugerð eða grímugerð og myndlist ...) og það er líka mjög gaman.
Börnin eru á þessum námskeiðum í tvo tíma á dag, yfirleitt frá kl. 14-16, nema á húllumhædeginum þegar þau eru færð fyrir hádegi. Þau búa til listaverk, semja og æfa dans, gera handrit að stuttmynd sem er tekin upp og fleira og fleira og afraksturinn er sýndur á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið.
Fram að kvöldmat voru börnin á útisvæði, Spilaborg og íþróttahúsi. Þau fóru eiginlega bara inn í Spilaborg eða íþrótthús til að kæla sig ... já, svo köllum við okkur ÍS-land! Úti var steikjandi hiti og mikil sól, sannkallað Kleppjárnsreykjaveður eins og það gerist best.
Í kvöldmatinn var kjöt og spagettí og það rann ekki bara vel, heldur hratt ofan í mannskapinn.
Síðan var sund í boði og það þótti nú ekki leiðinlegt að svamla í yndislegri útilaug í góða veðrinu og setjast í heitan pott inn á milli. Algjörar lúxussumarbúðir ... og mjög alþjóðlegar líka. Svona nánast. Nú er t.d. þrjú börn frá Frakklandi, þau eru íslensk en búsett ytra, og tala stundum frönsku sín á milli. Þau eru sjö og níu ára og mjög dugleg. Við erum líka með stelpu sem er búsett í Noregi og myndi án efa tala norsku fyrir okkur ef við bæðum hana um það.
Hér eru líka börn frá ýmsum stöðum af landinu, eins og Vestmannaeyjum, Siglufirði, Hvammstanga, Bifröst, Borgarnesi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Vogum, Grindavík, svo fátt eitt sé talið og svo eru Reykvíkingar í meirihluta eins og alltaf, enda er höfuðborgin okkar stærst. Að þessu sinni er ekkert barn frá Hafnarfirði sem er sérlega einkennilegt ... en þeim mun fleiri á næsta tímabili.
Algjörlega óvænt hittust hérna pennavinkonur sem höfðu kynnst á Facebook og einhverra hluta vegna vissu þær ekki hvor af annarri í Ævintýralandi. Önnur býr á Siglufirði og hin í Reykjavík.
Eftir kvöldsundið borðuðu börnin ávexti í tonnatali og fóru svo í bólið. Umsjónarmenn lásu byrjunina á framhaldssögu fyrir hópinn sinn en kvöldlestur er frábært svefnmeðal. Yfirleitt er lesið lengi fyrsta kvöldið þar sem erfiðast er að sofna þá fyrir spenningi.
Þetta er frábær hópur góðra og skemmtilegra barna og við hlökkum einstaklega mikið til að verja vikunni með þeim.
P.s. Þegar Síminn hefur lokið viðgerð hjá sér ætti okkur að takast að setja inn myndir frá fyrsta deginum og einnig síðasta degi tímabilsins á undan! Sérlega fúl bilun ...
P.s. 2: VIÐBÓT - VIÐBÓT: Tókst að setja nokkrar myndir í bloggfærsluna en myndir dagsins birtast vonandi innan tíðar á heimasíðunni, sumarbudir.is. Viðgerð stendur sem sagt enn yfir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.7.2010 | 16:06
Jafnasta keppnin í sögu Ævintýralands!
Dagur fimm hófst með góðum morgunverði þar sem börnin borðuðu með umsjónarmanninum sínum.
Margir fóru í sturtu eða sund eftir morgunmat og aðrir í íþróttahúsið. Þátttakendur í Ævintýrabarkanum æfðu á fullu þar sem keppnin var um kvöldið. Spilaborg var opin, einnig herbergin. Á útisvæðinu lét blessuð sólin sjá sig rétt fyrir matinn.
Pasta og heimabakað hvítlauksbrauð var í boði í hádeginu og svo var farið á hádegisfund. Umsjónarmönnum bárust lokabréfin og hulunni var létt af allri leyndinni (höldum við sem fáum ekkert að vita). Ýmsir sýndu okkur gullpening sem þeir höfðu fengið (allir fengu sko), svona súkkulaði með gullbréfi utan um. Bara gleði með það. Öll börnin voru með miða þar sem á voru rituð skilaboð til þeirra en enginn sýndi miðann sinn.
Námskeiðin voru á dagskrá milli kl. 14 og 16 og allt er í sómanum þar. Seinni hluti reiðnámskeiðsins fór líka fram í dag eftir hin námskeiðin og mættu hestabörnin alsæl til baka rétt fyrir kvöldmat og náðu að skipta um föt fyrir Ævintýrabarkann.
Í kaffinu var sumarbúðasandkaka, rest af vöfflum síðan í gær fyrir þá sem vildu og svo tekex með heimalöguðu marmelaði.
Eftir kaffi var nóg við að vera og voru börnin á útisvæði, íþróttahúsi og Spilaborg við ýmsa skemmtilega iðju. Eftir kl. 18 var opnað inn á herbergin svo hægt væri að taka sig til fyrir kvöldið. Allir vildu vera fínir.
Í kvöldmat var boðið upp á fisk og kartöflur með smjöri og tómatsósu.
Svo hófst Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn!!!
Aníta H., Karítas Etna, Arína Vala og Stefanía Veiga úr Hafmeyjunum sýndu dans og fimleikaatriði sem var mjög flott!
Gabríel Andri Höfrungur söng This is my live (Evróvisjónlag) og stóð sig mjög vel.
Rakel Sandra Gullfiskur söng Tik Tok Skinka, mjög flott hjá henni.
Ólavía Guðrún úr Gullfiskunum söng Hlið við hlið (Friðrik Dór) og hafnaði í 3. sæti.
Arína Vala Hafmeyja söng Satelite (Evróvisjónlag) og lenti í 2. sæti.
Stefanía Veiga Hafmeyja söng lagið Líf (Hildur Vala, Sálin) og hafnaði í 1. sæti.
Aldrei í tólf ára sögu Ævintýralands hefur verið svona mjótt á munum. Aðeins hálfu stigi munaði á efstu tveimur sætunum og skildu þetta hálft til eitt stig keppendur að.
Þau börn sem komust ekki í stigasæti fengu samt verðlaun, smá aukaverðlaun með viðurkenningarskjalinu sem allir þátttakendur fá alltaf - þetta var einstaklega flott og jöfn keppni.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á brauð og safa. Svo framhaldssagan og draumalandið. Mikill spenningur kominn í mannskapinn, lokadagur fram undan með lokakvöldvökunni sjálfri sem allt á námskeiðunum hefur miðast við og verið stefnt á.
Okkar allra bestu söng- og danskveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
P.s. Vinningshafar frá húllumhædeginum:
Keilukeppnin: Rakel Sandra. Sippkeppnin: Arína Vala.
P.s. II: Það gekk bæði hægt og illa að hlaða inn myndum gærdagsins en loksins þó ... og þær eru hérna: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d5s.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2010 | 00:43
Flótti Þyrnirósar og fleiri ævintýri
Að vanda hófst dagurinn á góðum morgunverði og þar sem þetta var öðruvísi dagur þá voru námskeiðin haldin fyrir hádegi.
Ævintýra- og íþróttahópurinn fór í skemmtilega gönguferð og fannst heldur betur gaman að vaða svolítið í ævintýravatninu. Hópurinn er ekki alveg kominn með á hreint hvað á að gera á lokakvöldvökunni en börnin æfa ýmis hopp og stökk undir styrkri stjórn Geirs.
Kvikmyndagerðin er að búa til myndina Flóttinn en hún fjallar um Þyrnirós sem vaknaði áður en prinsinn kom og flýtti sér að flýja þar sem hún vildi ekki giftast prinsinum, heldur einhverjum öðrum. Tökur eru hafnar og mátti sjá skrautlegan hóp barna í búningum um útisvæðið. Spiderman, geimveru og fleiri verur.
Grímugerðarleikritið mun fjalla um sjóræningja, kisu og svo kanínur - ekki enn komið nafn á það en án efa ekki langt í það.
Danshópurinn æfir sleitulaust og dansinn sem verður sýndur hefur heldur ekki enn hlotið nafn. Allt kemur í ljós innan tíðar.
Í hádeginu var grjónagrautur og melónur í eftirrétt. Mikið borðað.
Síðan hófst hádegisfundurinn og enn eitt dularfulla bréfið var lesið fyrir börnin. Ekki var bréfunum fleygt í hausinn á umsjónarmönnunum til að vekja þá að þessu sinni, heldur fengu þeir kort sem sýndi þeim hvar bréfin leyndust. Efni bréfanna er leyndarmál, við fáum ekkert að vita.
Eftir fundinn var húlluhædagurinn formlega settur. Starfsfólkið var í búningum og stemmningin ótrúlega skemmtileg.
Blásið var til fánaleiksins góða en þar keppa tvö lið um fána og klemmur, þvílík spenna og mikið var hlaupið um allar koppagrundir. Þau börn sem vildu vera með fengu stríðsmálningu í andlitið, liðsmenn Draums fengu rauða og liðsmenn Martraðar bláa. Martröð sigraði að þessu sinni en eftir þvílíka baráttu ...
Útisvæðið var opið og einnig Spilaborg og nóg við að vera þar að vanda.
Svo var haldið í matsalinn en eitthvað hafði lyktarskynið sagt börnunum að von væri á góðu og jú, heldur betur! Það voru heitar vöfflur með SÚKKULAÐIGLASSÚR og rjóma eða sultu og rjóma ... eða bara sykri, barnanna var valið. Vöfflur með súkkulaði voru vinsælastar, enda eru þær ótrúlega góðar.
Eftir kaffi ríkti mikið fjör og heilmargt var í boði. Það var hægt að fara í skartgripagerð og búa til eitthvað glæsilegt á borð við hring, hálsmen, armband og slíkt. Einnig var tattúsmiðja, keilukeppni (Wii), bandfléttur í hárið og andlitsmálning og á útisvæði var m.a. sápukúlusprengikeppni, ógurlega spennandi. Eygló Anna (Höfrungur) sprengdi flestar sápukúlurnar að mati gervihnattar NASA sem dældi út úr sér þeim upplýsingum um að hún hefði náð 108 kúlum á einni mínútu. Geri aðrir betur!
Já, og svo var heil spákona inni í diskó- og draugaherberginu og hún vakti heilmikla lukku, enda bæði fyndin og dularfull. Hún kemur frá Borgarnesi og lítur út eins og hún hafi hoppað út úr Harry Potter-mynd. Hún heitir líka Jósefína Potter sem gæti bent til skyldleika. Svo hvarf hún bara eins og jörðin hefði gleypt hana. Einhverjir sögðu að þetta hefði bara verið hún Snæfríður en aðrir giskuðu á Ellen þangað til þeir sáu hana í skartgripagerðinni.
Tíminn stóð sko ekki í stað, heldur leið hratt og allt í einu var komið að kvöldmat ... grilluðum pylsum með tómat, sinnep og steiktum og því öllu og þá var nú kátt í höllinni.
Hátíðin var sannarlega ekki búin, heldur var blásið til bíósýningar þar sem í hléinu var boðið upp á popp og safa.
Eftir lestur framhaldssögunnar var gott að sofna eftir viðburðaríkan og skemmtilegan dag.
Bestu húllumhækveðjur héðan frá Kleppjárnsreykjum!
Og hér eru nokkrar myndir frá deginum:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d4.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.7.2010 | 00:12
Óvæntar lummur og diskóstuð
Dagurinn var viðburðaríkur og fullur af ævintýrum á meðan rigningin skemmti sér alein úti. Það var kertagerð og það var leikrit og diskótek, óvæntar lummur og fleira og fleira ... en tökum þetta í réttri röð.
Eftir morgunverðinn voru í boði: íþróttahúsið, Spilaborg, sund og kertagerð og einnig var karaókíæfing fyrir þátttakendur þar. Kertagerðin var algjört æði, heitt vax sem umsjónarmaður setti í bláskel, eina fyrir hvert barn sem setti síðan kveik í það og skreytti á ýmsan máta. Mjög flott kerti urðu til og svo að þau geti staðið sem flott skraut þegar heim verður komið voru límdir steinar neðan á þau.
Í hádegismatinn var kakósúpa með tvíbökum og ávextir í eftirmat. Ótrúlega gott og það var ekki vel borðað ... heldur MIKIÐ! Það er nú ekkert nýtt.
Á hádegisfundunum kom enn eitt dularfulla bréfið frá Jóni Sigurði, ég misritaði það óvart sem Jóni Sigurðar í annarri færslu.
Síðan var þotið á milli rigningardropanna beint í íþróttahúsið þar sem leiksýning fór fram og að þessu sinni voru börnin áhorfendur. Þau Ping og Pong gáfu góð ráð með hjálp vélarinnar Góðráð en Snæfríður var í vandræðum og þurfti hjálp. Hana vantaði ráð um það hvernig hún gæti tekist á við einelti sem hún varð fyrir. Hún fékk þessi líka fínu ráð. (myndir úr leikritinu hér að ofan)
Svo tóku Sing og Song við en þau eru vægast mjög ólík og tókust virkilega mikið á varðandi aðstæður sem Snæfríður lenti í. Song ráðlagði henni t.d. að adda öllum á Facebook eða MSN en Sing var ekki sammála. Þegar ókunnur maður reyndi að lokka Snæfríði upp í bílinn sinn með því að þykjast þurfa hjálp með nýfædda, móðurlausa hvolpa sagði Sing að hún ætti að ráðleggja manninum að leita til einhvers í eigin fjölskyldu, ekki ókunnrar stelpu. Song var mjög hneykslaður og sagði að krakkar ættu alltaf að fara upp í bíl með ókunnugum. Þá sprakk salurinn úr hlátri og allir voru algjörlega ósammála Song. Davíð lék hinn ruglaða Song og María Sing, Snæfríður lék Snæfríði.
Eftir leiksýninguna var spjall og nokkur börn sögðust hafa lent í einelti og ætluðu að prófa góðu ráðin frá vélinni, t.d. láta sem maður sjái ekki krakkana sem stríða og tala bara við hina. Börnunum fannst rétt að skipta sér af því ef þau yrðu vör við að einhver yrði fyrir einelti til að reyna að stoppa það og bjóða barninu sem lendir í þessu að vera með í leik. Börnin ákváðu að galdurinn væri að standa betur saman!
Reiðnámskeiðs-börnin fóru eftir hin námskeiðin til Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara og fóru á hestbak. Þau fengu gott nesti með, samloku, ávexti og safa.
Útisvæðið (já, það var hætt að rigna) var opið og einnig Spilaborg.
Í kaffinu bauð dásamlega eldhúsliðið upp á heitar lummur með sykri, ásamt sumarbúða-sandkökunni og ávöxtum. Ef þessi börn væru kettlingar hefðu þau sennilega malað af ánægju.
Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin inn á herbergin og skiptu um föt fyrir dansiballið, eða diskóið, sem átti að vera eftir mat.
Í matinn voru pítsur og alveg svakalega góðar. Nú heyrðist malið greinilega ... hahaha
Svo hófst fjörugt diskóið en Davíð sat við græjurnar og spilaði hvert flotta lagið á fætur öðru.
Reykvélin hafði nóg að gera við að auka á stemminguna og diskóljósin líka.
Fleira var í boði þannig að það var gaman að fara á milli. Þannig að þegar búið var að dansa af sér skóna var frekar snjallt að bregða sér fram og fá tattú eða bandfléttur í hár ... eða bæði.
Ávextir voru í boði í kvöldkaffinu og síðan var það bara draumalandið eftir framhaldssöguna góðu. Þau eru alltaf flest sofnuð áður en umsjónarmaðurinn fer af vaktinni og þau sem enn vaka lesa bók þangað til þreytan segir til sín eftir smástund.
Allra bestu stuð- og diskókveðjur frá Kleppjárnsreykum.
P.s. Myndir dagsins:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d3.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2010 | 18:39
Stórstjarna á unglingatímabilinu!
Okkur langar að vekja athygli á unglingatímabilinu magnaða sem verður um verslunarmannahelgina að vanda og er ætlað 12-14 ára krökkum.
Þetta er alltaf ótrúlega, frábærlega skemmtilegt tímabil sem mikið er lagt í, ekki síður en hjá yngri börnunum, en er samt öðruvísi á ýmsan hátt þar sem um eldri börn er að ræða. Kvölddagskráin er t.d. lengri, svo er kókosbollukapphlaup, grillaðir sykurpúðar og fleira.
Í gegnum tíðina höfum við m.a. fengið skemmtilega, landsfræga leynigesti sem hafa heldur betur fallið í kramið hjá börnunum. Má þar nefna sjálfan Pál Óskar, uppáhald þjóðarinnar, sem kom tvö eða þrjú ár í röð til okkar, spjallaði við unglingana um allt milli himins og jarðar, ekki síst skaðsemi tóbaks og annarra vímuefna.
Haffi Haff hefur líka komið og þá var dansað uppi á borðum, svo mikið fjör ríkti, Anna Hlín, Idol-söngkona, mætti í fyrra og söng nokkur lög við mikinn fögnuð. Eitt árið kom Örn Arnarson sundmaður og Ellý, sem var í Q4U hefur um margra ára skeið verið okkur innanhandar með Ævintýrabarkann (hæfileika- og söngvarakeppnina) og margt fleira. Seinni árin höfum við lagt meira upp úr
Mjög fræg stjarna hefur samþykkt að koma í ár sem leynigestur og við getum varla beðið ...
Námskeiðin góðu verða auðvitað á sínum stað.
Í ár mun Marteinn Þórsson kvikmyndagerðarmaður (Rokland o.fl.) halda utan um kvikmyndagerðina og einnig Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur. Ekki amalegt að hafa rithöfund til aðstoðar við handritsgerð og einn besta kvikmyndagerðarmann landsins til að kenna á þessu námskeiði.
Mjög vinsælt hefur verið námskeiðið í umhirðu húðar sem endar alltaf á tískusýningu.
Á þessum tíma er farið að dimma svolítið á kvöldin og það er alveg dýrlegt að vera úti að kvöldi til og grilla sykurpúða.
Ísbíllinn kíkir líka í heimsókn. Bara æði.
Tímabilið stendur frá 28. júlí - 3. ágúst nk. og skráning er í s. 435-1172 eða á www.sumarbudir.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar