Dularfullu bréfin, flott hár og skríkt yfir „draugum“

Heiti potturinnSundDagur tvö hófst með morgunverði af hlaðborði þar sem boðið var upp á súrmjólk, kornflakes, ristað brauð með osti og marmelaði og hafragraut. Sumir völdu sér eitthvað eitt uppáhalds og aðrir vildu smakka allt en allir urðu vel saddir, sem var eins gott því heilmargt var fram undan. Eins gott að hafa næga orku til að takast á við ævintýri dagsins.

Steikjandi sól og hiti var úti og þær stöðvar sem voru opnar voru útisvæðið, sundlaugin og íþróttahúsið. Fyrsta karaókíæfingin fór líka fram en næstsíðasta kvöldið er haldin hæfileikakeppni sem kallast Ævintýrabarkinn og er sungið, dansað, sagðir brandarar og hvaðeina. Þau börn sem skráðu sig völdu sér lag til að syngja eða annað og svo var ráðist í fyrstu æfinguna.

Hluti barnanna var á útisvæði, aðrir þustu í sund og heita pottinn og einnig í íþróttahúsið  ... nánast til að kæla sig frá hitamollunni úti.

Í hádeginu var núðlusúpa og smurt brauð með eggjum og kæfu.

Hress hópurListaverk gerðStrax á eftir hófst hádegisfundur hvers hóps með umsjónarmanninum sínum. Sitt af hverju er tekið fyrir á þessum fundum, tekinn púlsinn á líðaninni, sagt frá dagskrá dagsins og farið í leiki. Fundirnir þjappa hópunum mjög vel saman. Umsjónarmennirnir höfðu undarlegar fréttir að færa. Þeir höfðu verið vaktir á mjög svo undarlegan máta um morguninn, bréfi var fleygt í andlitið á þeim og þegar þeir opnuðu augun var bréfberinn horfinn. Í bréfunum voru mikilvæg skilaboð til barnanna og að framhald kæmi næsta dag. Fram að þessu hefur verið mjög erfitt að fá að vita nokkuð um innihald bréfanna sem voru skrifuð af einhverjum Jóni Sigurðar sem sagði að skilaboðin skiptu máli fyrir alla ... allt lífið. Börnin vildu lítið segja okkur þannig að þetta helst líklega sem leyndardómur sumarsins fyrir alla aðra en börnin og umsjónarmennina, já og bréfritarann. Hmmm! Og þá var haldið á námskeiðin.

Kvikmyndagerðarhópurinn semur nú handrit á fullu fyrir stuttmyndina og svo þarf að finna búninga í búningasafninu. Tökur hefjast fljótlega. Stuttmyndin verður svo sýnd á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið.

GrímugerðÍ bandíDanshópurinn æfði í dansherberginu en hann mun sýna einhverja frábæra snilld á sömu sýningu. Þessi hópur er alltaf mjög vinsæll af stelpunum sem finnst greinilega þónokkuð miklu skemmtilegra að dansa en strákunum. 

Leiklistar- og grímugerðarnámskeiðin voru sameinuð en það hefur sannarlega slegið í gegn hjá okkur í sumar. Þá gera börnin grímur og ýmis listaverk og sýna svo kannski látbragðsleikrit eftir eigin handriti. Grímurnar eru þá gerðar eftir efni leikritsins. Það kemur fljótlega í ljós hvað þau kjósa að gera.

Íþróttaævintýri-hópurinn var svo á fullu við að gera skemmtilega og ævintýraríka hluti!

Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og melónur.

Síðan voru stöðvar opnar. Útisvæði, íþróttahús og innan dyra fór fram hárgreiðslukeppni. Hárgreiðslukeppnin er alltaf mjög vinsæl og þykir vera stór hluti af samkvæmislífi Ævintýralands! Að vanda voru stelpurnar hrifnari af henni en tveir strákar tóku þó þátt.

Hárgreiðslukeppnin að hefjastTveir keppendurAllir þátttakendur fá viðurkenningarskjöl en dómnefndar beið erfitt hlutverk ... að velja þrjár bestu hárgreiðslurnar og þá frumlegustu en smá verðlaun eru veitt fyrir. Það tókst loksins, sjúkkitt! Myndir frá keppninni og af öllum flottu greiðslunum eru á heimasíðunni, sumarbudir.is, sjá neðar.

Í fyrsta sæti varð Magdalena og módel hennar var Þórunn Birna.

Í öðru sæti varð Erla Svanlaug með módelið Hrafnkötlu Líf.

Í þriðja sæti varð Elín Birta og módel hennar var Katrín.

Frumlegasta greiðslan var eftir Söru Sif en módel hennar var Snæfríður Ebba.

Þetta var afar skemmtilegt síðdegi og mikið verið úti þrátt fyrir eina og eina hárgreiðslukeppni í smástund ... og mikið fór af sólaráburði, eftirsól (after sun) og slíku.

Í kvöldmat var steiktur fiskur með hrísgrjónum og hægt að velja á milli súrsætrar sósu og karrísósu. Þeir sem gátu ekki valið á milli fengu sér bara smávegis af hvorri.

DraugaleikurinnSíðan hófst kvölddagskráin ... á æsispennandi brennókeppni milli hópa sem var haldin í íþróttahúsinu og lauk með sigri Höfrunga.

Þá var það draugaleikurinn ... úúúú ... og ríkti mikill spenningur. Búið var að velja tvo úr hverjum hópi til að takast á við „eldraunina“ og hljóp einn í einu inn í sérlega dularfullt og hrollvekjandi herbergi þar sem hávær og draugaleg tónlist hljómaði. Ekki gerði reykvélin þetta neitt auðveldara og hvað þá „draugarnir“sem reyndu að tefja börnin frá ætlunarverkinu sem var að hlaupa inn í enda herbergisins, fara með aðra höndina ofan í kalt og draugalegt vatn í fötu og sækja þangað stein til að rétta umsjónarmanninum (sem fylgdi með til verndar) Svo þurfti að hlaupa á einum spretti út aftur. Tíminn skipti öllu máli.

Höfrungahópurinn, sem er skipaður bæði stelpum og strákum, sigraði aftur en átti í mjög harðri keppni við hina hópana. Síðan máttu öll börnin prófa að fara inn í þetta sannkallaða hryllingsherbergi og mikið var skríkt. Það kom svo í ljós að aðaldraugurinn var hann Geir umsjónarmaður og hún Dagbjört, dóttir hennar Sigurjónu matráðskonu, var aðstoðardraugurinn. Þetta var frábær leikur!

Í kvöldkaffinu var boðið upp á brauð og safa. Síðan var háttað, burstað og hlustað á framhaldssöguna fyrir svefninn. Hvað skyldi nú bíða barnanna næsta dag? Það kemur í ljós í næstu bloggfærslu. Tounge

Bestu „drauga-“, hárgreiðslu- og sólarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.

P.s. Nýjustu myndirnar eru hérna:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d2.html

 


Fyrsti dagur í rjómablíðu

Rútan komin!TrampólínUm tvöleytið í dag valhoppuðu nokkrir hressir umsjónarmenn út í blíðuna og hófu spennta bið eftir rútunni.

Veðrið var ekki bara gott, heldur frábært, fuglarnir sungu, flugurnar suðuðu, bökunarilmur barst úr eldhúsinu og blandaðist ilminum af nýslegnu grasinu ... allt var eins og best var á kosið í upphafi nýs tímabils. Bara stemmning.

Loks kom rútan með þessi líka hressu börn innanborðs. Byrjað var á því að taka farangurinn út úr og síðan heyrðist: „Höfrungar, hvar eruð þið?“ og hluti barnanna fór til umsjónarmannsins síns ... og þannig gekk þetta þangað til allir voru komnir á réttan stað. Börnunum er skipt í aldursskipta hópa sem hver hefur sinn umsjónarmann alla vikuna. Ekki amalegt að „eiga sér“ heila manneskju sem hægt er að leita til með stórt og smátt þótt allir séu auðvitað boðnir og búnir að hjálpa.

Sumir fóru í fótboltaHænuslagur í lauginniFarangrinum var komið fyrir inni í herbergi í einum hvelli án þess að taka upp úr töskum eða neitt þar sem fram undan var skoðunarferð um svæðið, hver hópur með sínum umsjónarmanni. Eftir það var hægt að koma sér almennilega fyrir og svo var bara komið að fyrsta kaffitímanum.

Skúffukaka, melónur og safi ... allt þetta rann ljúflega niður og eftir það þusti hópurinn út í íþróttahús þar sem námskeiðin voru kynnt - og einnig starfsfólkið. Í næstu færslu verður meira um námskeiðin í kvikmyndagerð, íþróttum, myndlist, dansi, grímugerð og því öllu saman. Svo völdu börnin sér líka álegg á brauðið í „kvöldköffum“ vikunnar, einnig safategund en það er í boði til skiptis við ávexti. Alveg nauðsynlegt að fara ekki svangur í bólið. Sama hversu vel er borðað í kvöldmatartímanum er alltaf hægt að bæta við sig einhverju meira í kvöldkaffinu.

Nokkrar stöðvar voru opnaðar eftir þetta ... útisvæðið með leiktækjum, trampólíni, krítarstétt og svona, Spilaborgin með milljón spilunum, bókum, púslum, borðtennis, billjard o.fl. og svo stóra, flotta íþróttahúsið þar sem fjöldi leiktækja, dýna og annarra skemmtilegheita stóðu til boða. Valkvíði? Nei, nei, það var bara farið á milli og allt prófað eftir bestu getu. Heil vika fram undan svo sem. Smile

Svo kom bara kvöldmaturinn, kjöt og spagettí og borðað af hinni bestu lyst.

Æðislegt í sundiNotalegt í heita pottinumSundlaugin var í boði eftir kvöldmat og hluti barnanna nýtti sér að synda og stinga sér og slaka svo á í heita pottinum inn á milli. Mjög notalegt. Hin voru á útisvæðinu eða í Spilaborg.

Ávextir í kvöldkaffinu, svo háttað og burstað og síðan lásu umsjónarmennirnir fyrsta hluta kvöldsögunnar, hver fyrir sinn hóp. Ekki leið á löngu þar til flestir voru sofnaðir og hinir ekki svo löngu seinna.

 

Frábær og skemmtilegur hópur sem við hlökkum til að verja vikunni með og aldeilis nóg er af ævintýrunum fram undan.

Veðurspáin okkar á morgun: 16 stiga hiti, sól hluta dags, engin rigning. (www.yr.no)

 

Í SpilaborgÞangað til næst ... okkar allra, allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

 

 

P.s. Hirðljósmyndari Ævintýralands var nokkuð duglegur við iðju sína og hér má sjá afraksturinn frá honum:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d1.html

 

 

 


Ævintýra-lokakvöldvakan

Á leið í gönguferðVaða, vaðaSjötti og síðasti heili dagurinn rann upp og var að sjálfsögðu skínandi bjartur og fagur. Eftir morgunverðinn var haldið á námskeiðin, enda bara nokkrir klukkutímar í lokakvöldvökuna. Danshópurinn æfði úti í íþróttahúsi þar sem sýningin fer fram. Tíminn leið hratt í öllum önnunum en allt gekk afar vel. Spenningurinn var hreinlega áþreifanlegur.

Í hádeginu var boðið upp á skyr og smurt brauð og svo var farið að pakka niður.

Þá var farið í enn meiri undirbúning fyrir lokakvöldvökuna en hluti barnanna skellti sér í gönguferð þar sem hægt var að vaða og það var ótrúlega gaman. Sjá myndir efst.

RuslatínslaÍ kaffinu var það sumarbúðasandkaka, melónur og tekex með heimalagaða marmelaðinu góða.

Í hverri viku fer fram ruslatínsla á síðasta deginum og þau börn sem bjóða sig fram fá ruslapoka sem þau tína í Hamborgari og franskarog svo er líka sópað. Innan skamms er umhverfið orðið hreint, eins og það hafi verið ryksugað og börnin fá alltaf smá þakklætisvott fyrir, litla gjöf að eigin vali úr verðlaunakassanum.

Útisvæðið var opið eftir kaffi, Spilaborgin og íþróttahúsið. Alls staðar mikið fjör.

 

Hátíðarstemmingin byrjaði svo fyrir alvöru rétt fyrir kvöldmat þegar allir fóru og skiptu um föt fyrir kvöldið. Síðan var haldið í matsalinn þar sem hátíðarkvöldverðurinn beið; hamborgarar, franskar, sósa og gos. Eldhúsfólkið var ekki beint á óvinsældalistanum ...

 

Bíbí bjargar málunumKvöldvakan hófst á listaverkasýningu og sami hópurinn og skapaði listaverkin gerði einnig grímur og sýndi látbragðsleikritið Bíbí bjargar málunum ... svona Grísirnir þrír í ævintýraútgáfu.

ListaverkagerðÍ stað úlfsins voru norn og tvö ljón sem reyndu að ræna grísunum því þau langaði svo í beikon ... Bíbí (fuglinn) kom og bjargaði málunum og í stað þess að nornin og ljónin gæddu sér á beikoni bjuggu Bíbí og grísirnir til djöflatertu úr norninni og ljónunum og borðuðu með bestu lyst. Snæfríður (ekki starfsmaðurinn) var sögumaður. Handritsgerðin var alfarið í höndum barnanna í hópnum ... enginn skortur á hugmyndaflugi þar.

 

Danshópurinn Danshópurinn sýndi æðislegan dans sem heitir Leyndarmálið og vakti mikla hrifningu og strax þar á eftir sýndi starfsfólkið, ásamt eldri starfsmannabörnunum, leikritið um Hans og Grétu.

Gréta, Hans og pirrandi tréðMaría lék nornina ógurlegu, Apríl var flott sem kústur nornarinnar og ekki var Dagbjört síðri sem kærasta kústsins. Alena lék fjársjóðinn ... mikið stuð og mikið hlegið. Starfsfólkið fær ekkert að vita fyrirfram um leikritið eða hlutverkið sem það á að leika, allt algjörlega óundirbúið og þess vegna enn fyndnara. Myndin er af Grétu, Hans og ógurlega pirrandi tré.

Kvikmyndagerðin sýndi gaman- og hryllingsstuttmyndina Hryllingsskógarferðin sem fjallar um átta systur, ömmuna, mömmuna, úlfinn sem hélt að hann væri hæna, ofvirka rottu og djöfla sem ræna öllum sem koma í skóginn. Amman endaði á því að redda málunum með miklum glæsibrag, enda óhrædd við djöflana og bjargaði öllum þeim sem þeir voru búnir að ræna sér til matar ... úúú.

Ayglýsing fyrir kvikmyndagerðinaMögnuð lokakvöldvaka! Í kvöldkaffinu voru ávextir og einnig frostpinni. Síðan lokalestur framhaldssögunnar hjá hverjum hópi og farið að sofa síðustu sumarbúðanóttina í bili. Gaman í sumarbúðum en líka gaman að koma heim. Heart

Bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum með þakklæti fyrir frábæra viku.

Hér eru svo myndirnar:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t3d6.html

 


Gullpeningar og glæstir „barkar“

Gaman inni á herbergiGaman inni á herbergiDagur fimm rann upp ... bara ótrúlegt hvað tíminn hefur verið fljótur að líða. Bæði börn og starfsfólk skilja ekkert í þessu.

Eftir morgunverð af hlaðborðinu góða var farið í íþróttahúsið, útisvæðið, á karaókíæfingu (hæfileikakeppnin að skella á) og svo drifu sig margir út í sundlaug til að fara í sturtu. Spilaborgin var opnuð og einhverjir voru líka inni í herbergjum að leika og spjalla.

Í hádeginu var boðið upp á pasta og hvítlauksbrauð og mikið borðað að vanda. Strax á eftir voru hádegisfundirnir með umsjónarmönnunum. Leyndinni var létt af furðubréfunum sem umsjónarmennirnir höfðu fengið undanfarna morgna. Börnin fengu gullpening, ég legg ekki meira á ykkur. Við heyrðum því reyndar fleygt að þetta hefði verið súkkulaðipeningur með gullpappír utan um en það var a.m.k. mikil ánægja með gullið ...

ReiðnámskeiðStaðið á hestiNámskeiðin voru í gangi milli kl. 14 og 16 og allt í sómanum þar að vanda, mikill undirbúningur fyrir stóra kvöldið, sjálfa lokakvöldvökuna.

 

Í kaffinu var sumarbúðasandkaka, tekex með marmelaði, melónur og restin af vöfflunum.

 

Reiðnámskeiðsbörnin fóru til hestanna sinna skömmu fyrir kaffi með nesti og nýja skó og þegar þau komu til baka rétt fyrir kvöldmat skiptu þau um föt, eins og hin börnin þar sem Ævintýrabarkinn var fram undan.

 

Spilaborg var opin seinnipartinn og útisvæðið, einnig voru börnin inni á herbergjum, þau sem vildu, það er alltaf voða sport líka.

HæfileikakeppninTjúttaðÍ kvöldmat var ofboðslega góður fiskur með kartöflum, smjöri og tómatsósu og ótrúlega gaman að stappa í flott listaverk sem brögðuðust svoooo vel.

 

 

Svo var það bara Ævintýrabarkinn sjálfur, fyrstu myndirnar þaðan hér fyrir ofan:

Mikil stemmning ríkti í íþróttahúsinu, áhorfendur voru spenntir og keppendur líklega enn spenntari. Atriðin voru hvert öðru glæsilegra og mikið lagt í þau. Miklar stjörnur hér á ferð, bæði söngvarar, dansarar, hoppaígegnumgjörð-, boltahaldararmeðnefinu- og klappasamanmeðannarri-snillingar.

Kharl AntonGuðmundur og DavíðKharl Anton sem sýndi trylltan Michel Jackson-dans með miklum tilþrifum og við mikinn fögnuð áhorfenda. Hann dansaði sig í fyrsta sætið.

Erla Svanlaug söng og dansaði frumsaminn dans, ásamt Önnu Helgu, Katrínu og Sólbrá Birtu sem einnig sungu bakraddir. Hún tók lagið Tip Top skinka og annað sætið varð þeirra.

Elísa Líf söng lagið Apricot Stone og dansarar með henni voru Fanndís og Ragnheiður Helga en þær tóku þriðja sætið.

Aðrir keppendur sýndu líka mikla snilld:

Davíð Þór hélt á bolta með nefinu og Guðmundur Jökull klappaði með annarri hönd.

Kristbjörn Elías og Pétur Lárus sýndu stórkostlegt sirkusatriði, hoppuðu í gegnum húllahring á mörgum hæðarstigum.

Sungið og dansaðAllir þátttakendurHugrún Ósk söng lagið Satelite og dansarar með henni voru Ásdís María og Helga Dögg.

Ragnheiður Dóra söng Playing with fire og dansarar voru Kristín Sesselja og Harpa.

Öll börnin fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna og fyrir efstu þrjú sætin voru veitt verðlaun.

 

Þá var það bara hjartans besta kvöldkaffið, brauð og safi, framhaldssagan góða og síðan draumalandið.

 

Apríkósusteinninn sunginnSíðasti heili dagurinn fram undan, lokakvöldvakan, hátíðarkvöldverður, stutt í heimferð ... bara allur pakkinn.

 

Við sendum okkar allra bestu Ævintýrabarkakveðjur frá Kleppjárnsreykjum.

 

P.s. Myndir frá degi 5: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t3d5.html


Húllumhæ með vöfflupásu

GrímurDagur fjögur var svolítið öðruvísi en hinir dagarnir. Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi ... og ástæðan? Jú, húllumhædagurinn sem stóð frá hádegi til kvölds með vöfflupásu og svona ...

Þrír hressir strákarAllt gekk vel á námskeiðunum, enda allir vel vakandi og saddir og sælir eftir morgunverðinn. Það var skapað í hverju horni, málað, leikið, myndað, dansað, hoppað og skoppað ... Hlaupandi hettur í ýmsum litum með körfur voru úti um allt og kvikmyndavél á hælum þeirra og fleiri flottra leikara. Þetta verður áhugaverð stuttmynd, við hlökkum heldur betur til lokakvöldvökunnar þegar við fáum að sjá myndina og hinar sýningarnar. Grímugerðarhópurinn er enn mjög dularfullur um látbragðsleikritið en í vinnustofunni sáum við þó fjölda æðislegra listaverka. Okkur hefur sem betur fer náðarsamlegast verið leyft að kíkja á dansæfingarnar. Svo var allt í einu komið hádegi!

Sérlega góður grjónagrautur með kanilsykri var í matinn og var borðaður með allra bestu lyst. Enn eitt fljúgandi bréfið barst til umsjónarmannanna um morguninn sem báru skilaboðin áfram á hádegisfundunum til barnanna sem neita enn að gefa nokkuð upp. Hrmpf ...

Tilþrif í fánaleikÞá var haldið á útisvæðið þar sem sumarbúðastjórinn setti húllumhædaginn. Hún var með gjallarhorn og páfagaukurinn Gorían hermdi eftir nánast öllu sem sagði við mikla lukku. 

Að vanda var byrjað á fánaleiknum þar sem liðin Martröð og Draumur börðust út um víðan völl um fánana. Á endanum sigraði Martröð eftir harða keppni. Síðan var slakað á í sólskininu því örstutt var í kaffitímann.

SkartgripagerðIlmurinn úr eldhúsinu var ótrúlega lokkandi, enda kom í ljós að snillingarnir þar á bæ höfðu ráðist í vöfflubakstur á meðan fánaleikurinn stóð yfir, þeytt rjóma, tekið til sultu og slegið í súkkulaðiglassúr. Að borða vöfflur með glassúr og rjóma er eins og bolludagurinn endurborinn. Eiginlega bara betra. Svo var hægt að fá sultu líka á vöfflurnar.

AndlitsmálunEftir kaffi var haldið áfram þar sem frá var horfið, eða með húllumhædaginn. Margt var í boði, m.a. spákonan Jósefína Potter frá Borgarnesi sem var í glæsilegum spákonubúningi. Ýmsir þóttust þekkja þarna starfsmann og fannst miklu skemmtilegra að geta upp á því hver spákonan væri en hvað hún segði. Hún var þó mjög skemmtileg en ákaflega dularfull. Svo hvarf hún bara sporlaust. Kannski hefur hún flogið á kústi til Borgarness ... eða ekki. Var þetta kannski Geir?

Skartgripagerð var í boði, tattú, andlitsmálun, keilukeppni (Wii), bandfléttur, sápukúlusprengikeppni og vinabandagerð. Sumt úti, annað inni. Sá sem sprengdi allra flestar sápukúlurnar var Bjarni Þór í Sæljónum. Dómarinn var mjög smámunasamur og engin sápukúla fór fram hjá honum. Í keilukeppninni varð Sólbrá Birta í Hafmeyjunum hlutskörpust.

Popp á bíókvöldiÍ kvöldmatinn voru grillaðar pylsur með öllu og það fannst engum leiðinlegt, eiginlega bara frekar æðislegt.

Síðan var haldið bíókvöld og í stað ávaxta eða brauðs var kvöldkaffið poppkorn og safi sem var sérlega viðeigandi.

Eftir þennan viðburðaríka dag sofnuðu börnin vært eftir að hafa hlustað á kvöldsöguna. 

Körfubolti og slökun á rennibrautVeðurspáin fyrir dag 5 er ekki amaleg. Fimmtán stiga hiti um hádegisbil, skýjað með köflum og síðan dropar um kvöldið ef marka má hirðveðurspá sumarbúðanna: http://www.yr.no/place/Iceland/Vesturland/Kleppj%C3%A1rnsreykir/

Grillpylsu- og húllumhækveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

P.s. Myndir dagsins: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t3d4.html


Dúndrandi diskó á pítsudegi

RennibrautMargt ótrúlega skemmtilegt gerðist á þriðja degi, eins og óvænt leikrit í íþróttahúsinu og haldið ykkur ... alvörudiskótek um kvöldið, og váts, hvað maturinn var góður ... og veðrið æðislegt! 

Vel var tekið til matar síns í matsalnum um morguninn, sumir fengu sér bara eitthvað eitt uppáhalds af hlaðborðinu, aðrir prófuðu allt og það má alveg. Enginn setti þó hafragraut ofan á ristað brauð eða út í súrmjólkina, það hefði samt verið frekar fyndið.

 

SundMargt var í boði eftir morgunverðinn, stöðvar opnar og um margt að velja, íþróttahúsið, útisvæðið í steikjandi hita, Spilaborg og sund ... en íþróttahúsinu var þó fljótlega lokað því flestir vildu vera úti í sólinni. Þátttakendur í Ævintýrabarkanum fóru á æfingu og einhverjir völdu að fara í hina skemmtilegu kertagerð.

KertagerðÍ kertagerðinni eru notaðar bláskeljar undir kertavaxið sem umsjónarmaður bræðir og hellir varlega í skelina sem hvert barn fær og kveikur settur í. Þegar vaxið er farið að storkna skreyta börnin kertin sín m.a. með hrísgrjónum, baunum og glimmeri. Sumarbúðastjórinn og háæruverðug systir hennar fara alltaf á hverju ári, jafnvel tvisvar á ári, í Hvalfjörðinn þar sem heilu bláskeljahreiðrin bíða eftir að vera tínd ... eða þannig. Svo eru skeljarnar þvegnar vel og vandlega og henta svona líka vel í kertagerðina. Bara æði.

ListaverkagerðFyrra stúlknamet dagsins setti ráðskonan í hádegisverðinum en þá bauð hún upp á mjög svo góða kakósúpu með tvíbökum og síðan voru ávextir á eftir.

Umsjónarmennirnir sögðu svo börnunum á hádegisfundunum frá þessum undarlegu aðferðum sem hafa verið notaðar til að vekja þá. Bréfi fleygt í andlitið og svo hlaupið út. Og ekkert smá mikilvæg skilaboð þar til barnanna með loforði um framhaldi næsta dag.

 ----------     -----------       ----------     ---------

Eftir hádegisfundina var farið út í íþróttahús en þar var börnunum boðið upp á spennandi, fyndið og lærdómsríkt leikrit um Ping og Pong annars vegar og hins vegar Sing og Song.

Þau Ping og Pong gáfu börnum (sem starfsfólk lék) góð ráð úr vélinni Góðráð og var sérstaklega tekið á einelti. Dæmi voru sýnd hvernig misjöfn viðbrögð geta breytt erfiðum aðstæðum, og þá til góðs. Börnin horfðu spennt á, enda spennandi að sjá vél sem gat talað og gefið svona líka góð ráð.

LeiksýninginSing, Song og HeiðaSing og Song voru algjörlega ósammála um alla hluti, eins og þegar Heiða var óörugg í sambandi við ýmsa hluti, trúði ekki að hún gæti nokkuð í prófinu sem Song tók undir en Sing ekki. Song ráðlagði henni eindregið að adda öllum á Facebook og MSN en Sing varaði hana við því og börnin í salnum voru greinilega algjörlega sammála Sing. Þegar Heiða hitti ókunnugan mann sem bað hana um aðstoð með hvolpa. Mamma hvolpanna væri dáin og hann ætlaði með litlu krúttin til dýralæknis til að fá hjálp með þá. Sing sagði Heiðu að segja bara við manninn að hann ætti að biðja einhvern úr eigin fjölskyldu að hjálpa sér, ekki ókunnugt barn ... en þessi ruglaði Song sagði Heiðu að maður ætti alltaf að fara upp í bíl með ókunnugum. Þá sprakk salurinn úr hlátri - börnin vissu greinilega að svoleiðis gerði maður aldrei. Davíð lék Song en María lék Sing. Heiða lék Heiðu.

Málar grímuGrænhetta og GulhettaVel gekk á námskeiðunum. Í kvikmyndagerðinni standa tökur yfir en myndin fjallar um átta systur sem heita Rauðhetta, Bláhetta, Boxhetta, Grænhetta, Fjólubláhetta, Hvíthetta, Svarthetta og Gulhetta. Úlfurinn í myndinni er svolítið ruglaður en hann heldur að hann sé hæna. Amman er nokkuð venjuleg en ýmis skrímsli og undarlegar verur koma við sögu.

Ekki að spyrja að hugmyndafluginu hjá börnunum sem sáu alfarið um handritsgerðina.

 

 

Snæfríður og danshópurinnDiskóið á fulluDansinn gengur glimrandi vel og hjá grímugerðar- og myndlistarhópnum er látbragðsleikrit í vinnslu og ekkert gefið upp að svo stöddu. Þessi börn geta verið svo dularfull þegar þau vilja það við hafa. Allt á að koma í ljós á lokakvöldvökunni.

 

Í kaffinu var sumarbúðasandkaka og tekex með heimalöguðu marmelaði. Skömmu fyrir kaffi fóru reiðnámskeiðsbörnin til Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara sem heldur námskeiðin og tóku með sér nesti.

 

Bandfléttur í hárDansað og dansaðSólin sem hafði skinið skært allan daginn hvíldi sig aðeins eftir kaffið og þá var ekki jafn rosalega heitt á útisvæðinu. Þar var hluti barnanna að leik, einnig í íþróttahúsinu og í Spilaborg. Skömmu fyrir kvöldmat fóru allir í herbergin sín og skiptu um föt ... fóru í diskógallann, takk fyrir.

 

 ----------     ----------     ----------     ----------     --O--     ----------    

 

 

Í kvöldmatinn var pítsa! Ekki bara ein, heldur fjölmargar, ein hefði nú dugað skammt ofan í fjölda svangra barna sem vita kannski fátt betra en pítsu! 

TattúSvo dunaði dansinn fram eftir kvöldi. Flott tónlist, reykvél og fjörugir krakkar = brjálað stuð.

Meira að segja hinir mestu dansarar þurfa stundum að taka sér pásu og þá var ekki amalegt að fá tattú eða bandfléttur í hár sem var í boði frammi.

Eftir ávaxtahressingu í kvöldkaffinu var það bólið og kvöldsagan góða sem hver umsjónarmaður las fyrir hópinn sinn. Svo bara draumalandið. Halo

Stuð- og diskókveðjur frá Kleppjárnsreykjum ... með dassi af tattúi og bandfléttum!

P.s. Myndir dagsins:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t3d3.html


Rauð-, Blá- eða Gulhetta?

Á útisvæðiFjör í íþróttahúsinuAnnar dagurinn var hreint ævintýri frá upphafi til enda og má þar nefna hárgreiðslukeppni, draugaleik, undarlega vakningu á umsjónarmönnum, Blá-, Rauð- eða Gulhettu, gott veður og hvaðeina en byrjum á byrjuninni, morgunverðarhlaðborðingu sjálfu. Þar var ævintýralegt úrval; súrmjólk, kornflakes, ristað brauð með osti/marmelaði o.fl., hafragrautur ... eiginlega allt nema egg og beikon en stundum harðsoðin egg ofan á brauð ...

Stöðvarnar voru opnaðar strax eftir morgunmat, íþróttahúsið, útisvæðið, Spilaborg og sund. Einnig var fyrsta karaókíæfingin, eða æfing fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann. Margir eru skráðir þátttakendur og munu sýna ýmsa aðra hæfileika en söng.

Hádegisfundur HöfrungaGaman inni á herbergiNúðlusúpa og smurt brauð með m.a. kæfu og harðsoðnum eggjum var í hádeginu og börnin tóku vel til matar síns.

Hádegisfundir voru haldnir hjá hópununum eftir matinn en þar eru ýmis mál tekin fyrir, spjallað, tekinn púlsinn á líðan barnanna og farið í leiki.

Umsjónarmennirnir höfðu heldur betur fréttir að færa en um morguninn voru þeir vaktir á furðulegan hátt. Bréfi var fleygt í andlitið á þeim og þegar þeir opnuðu augun var viðkomandi bréfberi horfinn. Verulega dularfullt. Í bréfunum voru mikilvæg skilaboð til barnanna og því bætt við að annað bréf kæmi morguninn eftir með framhaldi.

Og svo voru það námskeiðin.

KvikmyndagerðinGrímugerðinÍ kvikmyndagerðinni var mikið rætt um handrit að stuttmyndinni sem gerð verður og það eina sem við fengum upp úr hópnum var að mikið hefði verið talað um Rauðhettu, Bláhettu og Gulhettu. Fleiri upplýsingar fengum við hreinlega ekki. Sum börnin voru komin í búninga og tökur voru hafnar. Þeir sem ekki voru nákvæmlega í þeim tökum fóru í Spilaborg og skemmtu sér þar, mun betra en að sitja og hanga, eins og margar kvikmyndastjörnur kannast vel við. (mynd t.h. hér að ofan)

Grímur voru gerðar í stórum stíl og þegar þær hafa þornað verða þær málaðar og teygja sett á þær til að þær haldist á sínum stað. Vinna við handrit látbragðsleikritsins er gerð meðfram grímunum, enda eru þær gerðar í stíl við innihald leikritsins.

Hluti danshópsinsSigurhárgreiðslanDanshópurinn æfði líka af mikilli einbeitni og gleði, enda hvað er skemmtilegra en að dansa? Það verður ógurlega spennandi að sjá atriðið þeirra á lokakvöldvökunni.

 

Í kaffinu var boðið upp á köku og melónur.

 

Svo hófst hin vinsæla hárgreiðslukeppni þar sem bæði strákar og stelpur tóku þátt. Svo margir vildu greiða að það þurfti að finna starfsmenn í hlutverk módela, a.m.k. einn ...

Í fyrsta sæti varð Erla Svanlaug en módel hennar var Katrín. Annað sætið hreppti Þóra en hún greiddi Anítu. Í þriðja sæti urðu Hugrún Ósk og Andri Már en þau greiddu Ásdísi Maríu. Frumlegustu greiðsluna átti Kristín Sesselja en módel hennar var Ragnheiður Dóra.

Aðrir þátttakendur, bæði módel og hárgreiðslufólk: Brynja Gná, Selma, Elísa Líf, Harpa, Grethe María, Kristín Helga, Anna Helga, Helga Dögg, Ragnheiður Anna, Sólbrá Birta, Ásta Valgerður, Laufey Erla, Sigfús Andri og Pétur Lárus.

Skemmtileg hárgreiðslukeppni1. sætiðAllir fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna og fyrir efstu þrjú sætin og frumlegustu greiðsluna voru veitt smáverðlaun. 

Útisvæðið var líka opið og íþróttahúsið og svo fórum börnin inn í herbergi í smástund fyrir kvöldmatinn til að slaka á og bera á sig eftirsól ... eða after sun. Veðrið leikur þvílíkt við okkur. Cool

Í kvöldmatinn var steiktur fiskur með hrísgrjónum og hægt að velja um karrísósu eða súrsæta sósu með. Afar góður fiskur sem féll í kramið hjá börnunum. 

Kvöldið hófst á brennókeppni milli hópa, í íþróttahúsinu. Sigurvegarar voru Höfrungar, í öðru sæti Gullfiskar og Sæljón og í því þriðja voru Hafmeyjar. Spennandi og jöfn keppni.

DraugaleikurinnDraugaleikurinnSvo var það draugaleikurinn ... úúúúú. Hann var æsispennandi. Tvö börn úr hverjum hópi eru valin til að keppa fyrir hönd hóps síns og þurfa að komast í gegnum erfiða þraut ... eða að hlaupa hratt nokkurn spöl að draugaherberginu og fara síðan inn í það (líka hratt) þrátt fyrir draugalega tónlist, reyk (reykvél sko) og ógurlega drauga sem reyna að tefja barnið (eitt barn í einu) við að hlaupa í gegnum herbergið í nánast myrkri, finna fötu með "slímugu" vatni og ná í stein á botninum til að rétta starfsmanni. Með yngri börnunum fer alltaf hugrakkur starfsmaður í gegnum þetta. Hraðinn skiptir ógurlega miklu máli og í þetta skiptið voru Hafmeyjar langfljótastar, þær fóru nánast á ljóshraða ... Gullfiskar voru næstfljótastir og Höfrungar í þriðja sætinu. Geir umsjónarmaður lék aðaldrauginn og elstu starfsmannabörnin aukadraugana ... Leiknum lauk með því að Davíð umsjónarmaður hljóp "ofsahræddur" fram í matsal undan drauga-Geir sem tók síðan niður grímuna. Öll börnin fengu þó áður að kíkja inn í draugaherbergið og láta "hræða" sig svolítið. Algjört stuð.

Kósí að lesaMikið var spjallað og hlegið í kvöldkaffinu yfir smurða brauðinu og safanum eftir þennan skemmtilega draugaleik.

Svo var bara háttað og síðan sofnað rótt eftir lestur framhaldssögunnar góðu og ævintýraríkan dag.

 

Sólbrúnar stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.

P.s. Myndir frá deginum eru hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/T3D2.html


Dúndurfjör á fyrsta degi

Heiða með hluta af hópnum sínumUm tvöleytið í gær kom full rúta af hressum og kátum krökkum í sumarbúðirnar, einhverjir komu með einkabíl líka um svipað leyti. Umsjónarmenn hvers hóps söfnuðu til sín ungunum sínum þegar allir voru komnir. Hóparnir heita t.d. Sæljón, Hafmeyjar, Höfrungar og allt í þeim dúr og það er sko ekki amalegt að eiga sinn eigin umsjónarmann allt tímabilið - sem vekur mann á morgnana, borðar morgunmatinn með manni, heldur skemmtilega hádegisfundi með hópnum, les kvöldsöguna o.s.frv.

Skúffukaka, nammByrjað var á því að koma farangrinum inn á herbergin og síðan hélt hver umsjónarmaður með hópinn sinn um svæðið, sýndi allt bæði úti og inni og eftir það var hægt að fara að koma sér kósí fyrir.

Skúffukakan í kaffinu sló auðvitað í gegn ásamt melónunum sem runnu hratt niður eins og melóna er siður. 

Þá kom að því að allir hlupu út í íþróttahús því nú skyldi kynna starfsfólk og námskeiðin sem í boði verða alla vikuna í tvo tíma á dag. Afraksturinn verður síðan sýndur á lokakvöldvökunni. Einnig völdu börnin sér álegg og safategund fyrir kvöldkaffitímana en ýmist er boðið upp á ávexti eða brauð þá. Þá er hægt að ganga að uppáhaldinu sínu. Tounge

Vinsælasta námskeiðið var, eins og oft áður, kvikmyndagerðin og þar á eftir dansinn. Þar sem sérlega vel hefur komið út að prófa að sameina grímugerð og listaverkagerð gerðum við það. Sá hópurmun því bæði gera listaverk fyrir sýninguna á lokakvöldinu og einnig grímur og sýna látbragðsleikrit. Það námskeið var líka ótrúlega vinsælt.

Gleraugu Snæfríðar voru prófuðBilljardSnæfríður, frábær stelpa sem var líka hjá okkur í fyrra, mætti með sérstök gleraugu með sér sem hún leyfði hinum börnunum að prófa. Snæfríður sér mjög illa þótt fæstir myndu trúa því, svo dugleg er hún að taka þátt í öllu. Gleraugun sem börnin prófuðu sýndu þeim heiminn eins og Snæfríður sér hann, eða í algjörri móðu. Alltaf gott að setja sig í spor annarra til að skilja betur hlutina.  Smile

Eftir góða stund í íþróttahúsinu voru stöðvar opnar: Útisvæðið, Spilaborg og íþróttahúsið. Á útisvæðinu eru ýmis leiktæki, m.a. tvö trampólín. Fjöldi skemmtilegra tækja er einnig að finna í íþróttahúsinu, dýnur og rimla og í Spilaborg ... úps, hvar á ég að byrja ... spil af nánast öllum gerðum, púsl, bækur, billjarð, borðtennis og fleira og fleira. Börnin fóru á milli stöðva og vildu prófa allt. Bara gaman eða öllu heldur, dúndrandi fjör!

Í kvöldmat bauð æðislega eldhúsið okkar upp á kjöt og spagettí sem var borðað af bestu lyst.

Vinir í sundiVinsæli heiti potturinnSíðan var sundlaugin opin og var svamlað í henni og setið í heita pottinum fram eftir kvöldi. Þeir sem vildu fóru í sund, hinum var boðið upp á aðrar stöðvar.

 

 

Ávextir voru í boði í kvöldkaffinu og þegar allir voru komnir upp í rúm settist umsjónarmaður hvers hóps niður og las kvöldsöguna. Spennandi og skemmtilega framhaldssögu. Fyrsta kvöldið er alltaf lesið lengi þar sem lesturinn er sem besta svefnmeðal ... sumum finnst erfitt að sofna á nýjum stað. Að lokum sofnuðu allir og næturvörðurinn tók við.

Innilegar sund-, heitapotts-, skúffuköku- og kvöldsögukveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

P.s. Myndir frá fyrsta deginum eru hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t3d1.html


Mikið hlegið á frábæru lokakvöldi

ÆvintýralandFlottar grímurLokadagurinn rann upp bjartur og fagur og allir hlökkuðu brjálæðislega til kvöldsins en að vanda var byrjað á því að vakna, bursta tennur, hlæja, klæða sig, fara í morgunmat og borða vel af hlaðborðinu.

 

Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi þar sem þetta var dagur hinna miklu æfinga og næstsíðasta höndin lögð á sitt af hverju og sú síðasta á sumt. Danshópurinn flotti æfði í íþróttahúsinu þar sem sýningin átti að fara fram, enda dugði ekkert minna en heilt risastórt íþróttahús fyrir skvísurnar. Í hverju skoti voru spenntir krakkar við undirbúning.

 

Í hádegismat var skyr og einnig smurt brauð og svo var farið í að pakka niður, enda heimferðin næsta dag.

 

GönguferðHjálparhellan GeirÞá voru það bara námskeiðin aftur, svona loka-, loka-, lokaundirbúningur sem gekk frábærlega vel. Allra síðustu breytingar voru gerðar og allt fínpússað.

 

 

Hluti barnanna fór síðan í góða gönguferð og hafði mikla ánægju af því að fá að vaða, þvílík sæla. Sumir vildu ekki vökna í fæturna (sjá mynd til hægri) á meðan aðrir fóru hreinlega á bólakaf (sjá fleiri myndir á heimasíðu). Svo var hægt að liggja í vatninu og sóla sig. Veðrið lék alveg við okkur.

 

AfmælisbarniðÍ kaffitímanum var haldið upp á 11 ára afmæli Stefáns Inga. Allir fengu afmælistertusneið, afmælisbarnið fékk skreytta sneið með kerti á, afmælispakka og afmæliskort og svo sungu allir afmælissönginn. Alltaf rosagaman að eiga afmæli í sumarbúðunum. Svo voru líka melónur á boðstólum og tekex með appelsínumarmelaðinu góða a la Sigurjóna.

Eftir kaffi fór hluti hópsins í ruslatínslu - þátttakan var góð og á eftir sást varla laufblað sem ekki var fast við tré allt í kringum sumarbúðirnar svo fínt varð allt og vel sópað. Allir sem höfðu tekið þátt fengu að velja sér litla gjöf, smá þakklætisvott frá sumarbúðunum úr sérstökum ruslatínslu-verðlaunakassa.

Útisvæðið var mjög vinsælt, enda veðrið til að hrópa ferfalt húrra yfir og einhver hluti hópsins fór í íþróttahúsið.

Skömmu fyrir kvöldmat héldu börnin til salarkynna (herbergja) sinna og skiptu um föt fyrir kvöldið, allir vildu vera í sínu fínasta pússi þegar hátíðarkvöldverðurinn var snæddur ... fyrir hátíðarkvöldvökuna sem hafði verið stefnt að frá degi eitt ...

HátíðarkvöldverðurinnÁnægjan yfir kvöldverðinum var mikil, enda ekki amalegt að fá hamborgara, franskar, sósu og gos til að skola dýrðinni niður.

Kvölddagskráin hófst með skotbolta íþróttahópsins sem kom blóðinu aldeilis á hreyfingu hjá börnunum.

DanssýninginSíðan sýndi danshópurinn flottan dans. Stelpurnar máttu sannarlega vera hreyknar af frammistöðunni. Þær voru svo yndislegar að endurtaka dansinn fyrir starfsfólk eldhússins sem missti af atriðinu þeirra vegna yfirgengilegs dugnaðar við að gera allt hreint og fínt eftir veislumatinn.

 

ÆvintýrasirkusinnHið sameinaða námskeið grímugerð og leiklist flutti  leikrit sem heitir Ævintýrasirkusinn. Það fjallar um fjórar stelpur sem þrá heitast af öllu að verða frægar dansstjörnur. Þær sjá auglýsingu þar sem auglýst er eftir dönsurum í sirkus og sækja um. Allt er í uppnámi í sirkusinum því einu ljóninu hafði verið rænt þaðan. Sirkusstjórinn segir að það verði enginn sirkus meira nema ljónið finnist. Stelpurnar eru svo klárar að þær finna ljónið að lokum og fá vinnuna! Leikritið uppskar mikið lófatak og fagnaðarlæti, enda stórskemmtilegt.

Öskubuska og prinsinnStarfsfólkið sýndi síðan eitt af sínum „skrítnu“ leikritum. Það fær ekki að vita hvaða leikrit verður á dagskrá fyrr en á síðustu stundu og dregur miða úr hatti til að fá að vita hvaða hlutverk það eigi að leika. Það finnst börnunum alltaf ótrúlega fyndið. Núna var það Öskubuska. María lék prinsinn og Geir Öskubusku, Ellen vondu stjúpuna og Davíð og Heiða dætur hennar. Svo voru fuglar, mýs, kisa, grasker, hirðsveinn ... Þetta var hrikalega fyndið og tárin í augum sumra barnanna (og matráðskonunnar) stöfuðu af hlátri, ekki vonbrigðum með  leiklistarhæfileika starfsmannanna. Hahaha.

KvikmyndagerðarsýninginLokaatriðið var sýning stuttmyndarinnar Þú getur skráð þig inn en þú getur ekki skráð þig út! Hún fjallar um dularfullt hvarf hótelgesta sem hafa skráð sig á hættulegt hótel. Mjög spennandi og skemmtileg mynd. Börnin sömdu handritið, skipuðu í hlutverk, fundu búninga og léku svo eins og þau hefðu ekki gert neitt annað. Sama má segja um leiklistar- og grímugerðarhópinn.

Ævintýrasirkusinn auglýsingÁvextir voru borðaðir í síðasta kvöldkaffitíma þessa tímabils og einnig frostpinni. Svo var bara farið í háttinn og allir hlökkuðu til að koma heim eftir skemmtilegan tíma í sumarbúðunum.

Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega viku og sendum okkar allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

Myndir frá lokakvöldvökunni og öðrum atburðum dagsins eru hérna: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t2d6.html

 

 


Hvílíkir hæfileikar!

Notalegt í heita pottinumGaman í sundlauginniEftir morgunmatinn góða var farið í sund eða sturtu - þetta var nefnilega sannkallaður baðmorgunn.

 

Börnin sem tóku þátt í Ævintýrabarkanum, hæfileikakeppninni, hentust á æfingu þar sem dýrðin var um kvöldið. Íþróttahúsið skemmtilega lokkar og laðar þannig að einhverjir fóru síðan þangað á meðan aðrir nutu sólarsælunnar á útisvæði. Skömmu fyrir hádegismat var haldið til herbergja og sólarvörn borin á sig og svo var hlaupið út í sólina.

 

Í hádegismatinn var pasta með hvítlauksbrauði og það vakti aldeilis lukku, eins og allt sem eldhúskrúttin töfra fram handa börnunum.

 

ReiðnámskeiðHvíld fyrir börn og hestaLeyndarmálið um dularfullu bréfin upplýstist á hádegisfundunum en þrátt fyrir það fengum við ekkert að vita. Sum börnin sýndu okkur gullpening sem þau höfðu fengið og líklega leyndist súkkulaði inni í gyllta bréfinu. Nammi namm.

Námskeiðin gengu frábærlega og sífellt styttist í stóru stundina, lokakvöldvökuna.

 

Í kaffinu var sumarbúðasandkaka, tekex með smjöri og/eða heimatilbúnu marmelaði. Skömmu fyrir kaffi fóru reiðnámskeiðsbörnin á hestbak og riðu um fallegar slóðir á góðu barnahestunum hennar Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara. Þau fengu nesti með sér og áðu á skemmtilegum stað þar sem þau gátu legið úti í náttúrunni og hvílt sig eins og hestarnir. Börnin komu alsæl rétt fyrir kövlmat og náðu að skipta um föt fyrir Ævintýrabarkann.

Styttist í ÆvintýrabarkannÁsta Júlía sýndi listaverkÍ nógu var að snúast í Ævintýralandi á meðan. Þátttakendur kvöldsins fóru með Heiðu til að setja allt upp fyrir kvöldið og fóru í síðasta rennslið. Hin börnin vörðu síðdeginu á útisvæðinu og komu inn til að kæla sig í elsku Spilaborg sem er afar vinsæl hjá börnunum. Gott að flakka á milli.

Í kvöldmat var fiskur, kartöflur, smjör og tómatsósa og það var heldur betur stappað við sum borðin (ekki niður fótum) og borðað með bestu lyst og af list ...

Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn var stórkostleg. Þvílíkir hæfileikar og mjög mjótt á munum hjá þessum frábæru krökkum.

Þátttakendur kvöldsins:

3. sætið2. sætiðÁslaug Gyða, Inga Bjarney, Ólöf Rún, Telma Lind og Viktoría Líf sungu lagið Ást (Ragnheiður Gröndal) og dönsuðu sig í 3. sætið. Vel æft og mjög flott atriði.

Ásta Júlía og Una voru mjög frumlegar og á meðan önnur þeirra sýndi listaverk teiknaði hin eitt á staðnum og tónlist hljómaði undir.

Óðinn Benediktsson dansaði/breikaði.

Aldís Birta söng The Climb (Miley Cyrus).

Anna Lena söng Satellite (Lena).

Halldór Ívar söng Draumur um Nínu (Stebbi og Eyfi) og lenti í 2. sæti.

Hópurinn syngur með DagnýjuDagný sigraði ÆvintýrabarkannDagný Freyja söng Is it true (Jóhanna Guðrún) og hafnaði í 1. sæti. Sigurinn kom Dagnýju Skagaskvísu heilmikið á óvart en eins og sönnum stjörnum ber að gera þá endurflutti hún lagið með stæl. Hún bauð öllum hópnum að koma á sviðið til sín og syngja með sér. „Þetta var alveg yndislegt,“ sagði sumarbúðastjórinn.

Allir fengu viðurkenningarskjöl og efstu þrjú sætin verðlaun.

Svo var það bara kvöldkaffið, brauð og safi, síðan hátt, burst og kvöldsagan góða; næstsíðasti lestur. Lokadagurinn og lokakvöldvakan fram undan ...

Sérlega miklar hæfileikakveðjur frá Kleppjárnsreykjum eftir dúndrandi stuðdag.

Myndir frá deginum hérna

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t2d5.html

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 91039

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband