Húllumhæ í frábæru veðri

Fjör á útisvæðiVel var borðað í morgun af hlaðborðinu að vanda og svo var haldið á námskeiðin. Þau voru höfð fyrir hádegi að þessu sinni þar sem þetta var sjálfur húllumhædagurinn!

 

Námskeiðin gengu að óskum og spennan orðin mikil fyrir lokakvöldvökuna þar sem allur afraksturinn verður sýndur. Bæði hjá börnunum og starfsfólkinu.

 

Í hádeginu fengu börnin grjónagraut með kanilsykri og melónur á eftir. Nammi namm.

 

Á hádegisfundunum kom enn eitt dularfullt bréfið til hvers umsjónarmanns með mikilvægum skilaboðum. Umsjónarmennirnir neita að gefa nokkuð upp um efni bréfanna og börnin segja þetta vera algjört leyndarmál.

 

María málar fyrir fánaleikinnGeir málar með stríðsmálninguSíðan var húllumhæ-dagurinn settur með pomp og prakt.

Fánaleikurinn var æðislega skemmtilegur, barátta liðanna Draums og Martraðar um ... klemmur og Martröð hafði betur.

Rétt fyrir kaffi var sápukúlusprengikeppnin á útisvæðinu þar sem mikið fjör ríkti þrátt fyrir geggjaðan hita. Hægt var að fá bandfléttur í hár og hvaðeina. Sigurvegari sápukúlusprengikeppninnar var höfrungurinn Björn Breki.

 

FánaleikurinnSápukúlusprengikeppniÍ kaffinu var boðið upp á nýbakaðar vöfflur ... með súkkulaðiglassúr og rjóma, eða sultu og rjóma, bara eins og hver og einn kaus.

 

Svo hélt bara gleðin áfram. Frá Borgarnesi kom hin ógurlega spákerling Jósefína Potter sem svaraði einni spurningu á mann ... flestir höfðu nú meiri áhuga á að vita hver kerla væri en hvað hún segði og sumir héldu því fram að þetta væri bara hún Snæfríður umsjónarmaður dulbúin. Hmmmm. En þetta var samt ógurlega skemmtilegt.

Það var skartgripagerð og það var tattú, andlitsmálun, keilukeppni (Wii), bandfléttur og vinabandagerð.

Allir fundu eitthvað við hæfi sitt fram að kvöldmat þar sem var boðið upp á grillaðar pylsur með tómat, sinnepi og steiktum, bara æði.

 

SkartgripagerðEftir mat var stórskemmtilegt bíókvöld og í kvöldkaffi var náttúrlega popp og safi. Síðan var það kvöldsagan og þar á eftir draumaland. Góður og viðburðaríkur dagur á enda runninn.

Okkar allra bestu húllumhækveðjur frá Kleppjárnsreykjum úr góða veðrinu!

 

P.s. Myndir frá deginum

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t2d4.html

 

 


Diskófjör með meiru

Í kertagerðFlott kertiEftir að hafa borðað staðgóðan morgunverð af hlaðborðinu góða voru opnar stöðvar.

Íþróttahúsið, útisvæði, Spilaborg og sund. Karaókíæfingin var á sínum stað og einnig var í boði að fara í kertagerð. Hin glæsilegustu kerti voru búin til og skreytt fagurlega m.a. með glimmeri, baunum og hrísgrjónum eins og sést á myndinni hægra megin.

 

Morguninn leið hratt og allt í einu var bara kominn hádegismatur. Í matinn var núðlusúpa og smurt brauð með ýmsum áleggstegundum, m.a. eggjum og kæfu.

 

Á útisvæðiGaman að hanga í sumarbúðumStrax á eftir voru haldnir hádegisfundir þar sem dularfullu bréfin voru enn til umfjöllunar en í morgun fengu umsjónarmennirnir annað bréf sem innihélt merkileg skilaboð til barnanna. Enn er þessu öllu haldið leyndu ... og framhald verður víst á þessu laumuspili á morgun.

Fundirnir voru stuttir að þessu sinni þar sem leikrit var sýnt í íþróttahúsinu og þangað þustu börnin. Þetta var leikritið um Ping og Pong sem gáfu góð ráð úr vélinni Góðráð. Það fjallaði um einelti og Heiða fékk góð ráð við ýmsum ástæðum sem hún lenti í. Heiða fór t.d. í próf og trúði því ekki að hún gæti svarað einni einustu spurningu rétt en Ping og Pong gátu stappað í hana stálinu. Þeir voru líka mjög fyndnir.

LeiksýninginSing og Song Svo komu Sing og Song og þeir voru nú ólíkir. Song sagði Heiðu að addan endilega öllum á Facebook en Sing var sannarlega ekki á sama máli. Börnin héldu greinilega með Sing, sem betur fer. Svo kom einhver karl akandi á bíl og bað Heiðu um að hjálpa sér með pínulitla hvolpa þar sem mamma þeirra væri dáin og hann þyrfti að fara með þá til dýralæknis. Heiða var heilmikið að hugsa um að hjálpa litlu hvolpunum og fara upp í bílinn hjá manninum. Song sagði að maður ætti alltaf að fara upp í bíl með ókunnugum en Sing mótmælti harkalega, sem og börnin í salnum sem skellihlógu að bullinu í honum. Davíð lék þennan vitlausa Song en María lék Sing. Án efa verður mikið rætt um leikritið á hádegisfundunum á morgun.

 

Trampólín ÍþróttahúsSíðan tóku námskeiðin við fram að kaffi en börnin fengu sumarbúða-sandköku og melónur. Í kaffinu var líf og fjör en Þorgerður, eðalstarfsmaður í eldhúsi og söngnemi, varð tvítug í dag. Börnin sungu afmælissönginn fyrir hana og gerðu það mjög fallega. Það var látið duga að sinni en á miðvikudaginn verður einn Höfrungurinn 11 ára og þá verður slegið upp mikilli veislu. Kannski syngur Þorgerður fyrir afmælisbarn miðvikudagsins?

Þau börn sem voru skráð á reiðnámskeið fóru í dag til Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara í reiðkennslu og tóku með sér nesti, brauð, ávexti og safa. 

Eftir kaffi voru það íþróttahúsið, útisvæðið og Spilaborg og undir kvöldmat fóru þau í herbergin sín til að klæða sig upp fyrir kvöldið ... í diskógallann ... diskótek fram undan og gríðarlegt fjör. Flott tónlist, reykvél til að magna stemmninguna og fjörugir krakkar. Mögnuð blanda.

DiskófjörTattúÍ kvöldmat var steiktur fiskur, hrísgrjón og val um karrísósu eða súrsæta sósu. Nammmmm!

 

 

Síðan var haldið á ball ... dansinn dunaði og þegar börnin fóru fram til að kæla sig var boðið upp á tattú og bandfléttur. Frekar kúl.

 

 

Bandfléttur Hressir á diskótekiKvöldkaffið, brauð og safi, rann ljúflega niður og eftir kvöldsöguna var aldeilis gott að sofna eftir viðburðaríkan dag.

 

 

Okkar allra bestu diskó- og stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.

 

Myndir dagsins koma hér, tímabil 2, dagur 3:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t2d3.html  

 

 


Leyndardómsfull skilaboð á hádegisfundum

Í SpilaborgGrímugerðarnámskeiðAnnar dagurinn hófst með hlaðborði þar sem hægt var að velja um brauð og álegg, súrmjólk, kornflakes og hafragraut - bara dýrlegt að geta valið úr eða bara smakkað á öllu. Gott að vera vel saddur og með næga orku fyrir ævintýri dagsins. Börnin tóku líka vel til matar síns.

Fyrsta karaókíæfingin var haldin eftir morgunverð en það er vinnuheitið á æfingum fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann sem alltaf er haldin næstsíðasta kvöldið, sem sagt sólarhring á undan lokakvöldvökunni. Börnin sem ætla að taka þátt velja sér lög til að syngja (í karaókí ókei), semja dans, æfa brandara og annað í þeim dúr, bara gaman. Hin börnin gátu valið um að fara út í íþróttahús, vera á útisvæðinu, í Spilaborg eða fara í sund. Mikið fjör á öllum stöðvum.

DansnámskeiðHandritsvinna í kvikmyndagerðÍ hádegismat var kakósúpa með tvíbökum og ávextir á eftir.

Síðan var haldið á hádegisfund. Þá sest hver hópur niður með umsjónarmanni sínum og farið er yfir málin. Sagt frá dagskrá dagsins, farið í leiki eða spjallað um áríðandi málefni og eitt málefnið þetta hádegið var sannarlega áríðandi hjá hópunum. Umsjónarmennirnir voru vaktir um morguninn á undarlegan hátt - eða með því að bréfi var kastað í þá. Ekki sáu þeir hver bréfberinn var en umsjónarmennirnir opnuðu bréfin á fundunum og þar voru mikilvæg, leyndardómsfull skilaboð til barnanna. Einnig fylgdi með að annað bréf kæmi á morgun með framhaldsskilaboðum. Ekkert smá dularfullt.

LeiklistarnámskeiðGrímurSvo var skundað á námskeiðin. Dansinn var æfður stíft, enda er stefnt á glæsilega sýningu á lokakvöldvökunni. Sama má segja um önnur námskeið, mikil sköpun í gangi hjá öllum og bara rosalega gaman. Grímurnar eru að þorna og hægt að mála þær fljótlega eins og sjá má á myndinni hér til hægri. Og á myndinni til vinstri fer María á kostum í leiklistinni. Mikið verður spennandi að sjá hvað verið er að æfa í öllum hornum. Börnin halda öllu leyndu en við reynum samt að njósna pínulítið næstu daga til að geta bloggað um herlegheitin.

Í kaffinu var boðið upp á sandköku og tekex með heimalöguðu appelsínumarmelaði a la Sigurjóna snilldarkokkur og það var ekki síðasta snilldin þennan daginn ...

Útisvæðið, þar sem var teygjutvistað út í eitt, og iþróttasvæðið, þar sem trampólínhopp yfir á dýnu sló í gegn, voru í boði og síðast en ekki síst ... da ra ra ...

... hin vikulega og stórskemmtilega, sérdeilis frábæra hárgreiðslukeppni. Bæði strákar og stelpur tóku þátt, sumir voru módel og aðrir hárgreiðslumeistarar. Úr vöndu var að ráða fyrir dómnefndina sem loks komst að niðurstöðu og hér koma úrslitin:

Hárgreiðslukeppnin1. sæti: Írena Sól Lindudóttir og Sandra Steinunn Fawcett (módel). Sjá mynd.

2. sæti: Inga Bjarney Óladóttir, Telma Lind Bjarkadóttir og Ólöf Rún Óladóttir (módel)

3. sæti: Ragnheiður Röskva Teitsdóttir og Andrea Helga Ósk Jónasdóttir (módel)

Ævintýralegasta greiðslan: Ásdís Linda Pétursdóttir og Anna Lena Halldórsdóttir (módel)

Frumlegasta greiðslan: Anna Kristín Ægisdóttir og Karen Thelma Viðarsdóttir (módel)

Töffaðasta greiðslan: Anton Breki Snæþórsson, Gabríel Marinó Róbertsson og Halldór Ívar Stefánsson (módel)

Tíminn leið ógurlega hratt og allt í einu var bara komið að kvöldmat. Ilmurinn úr eldhúsinu var svooo lokkandi, enda voru heimabakaðar pítsur í matinn og alveg svakalega góðar!

PítsuveislaÞótt allir væru pakksaddir eftir matinn þýddi það ekki að börnin legðust á meltuna uppi í sófum, onei, haldið var út í íþróttahús og farið í brenniboltakeppni milli hópanna. Hún var æsispennandi og náðu Sæljónastelpurnar sigri og  Höfrungastrákarnir lentu í öðru sæti.

Svo var komið að mjög spennandi atriði ... sjálfum draugaleiknum. Æsispennandi hraðakeppni sem var fólgin í því að hlaupa í einum spretti frá mötuneytisdyrunum að „draugaherberginu“, komast í gegnum dimmt, reykfyllt (jamm, reykvél á staðnum) herbergið fullt af „draugum“, Draugaleikurinn fara með höndina ofan í slímugt, grútskítugt vatn og ná þar í stein sem þurfti að skila til eins starfsmanns, hlaupa síðan ofboðslega hratt í gegnum herbergið, (var ég búin að segja að hávær, draugatónlist hljómaði?) og komast á upphafsreit eftir skræki og hlátur. Þetta tókst öllum ... sumir fengu verndara með sér en aðrir vildu ekki sjá slíkt. Höfrungar voru sigurvegararnir og Sæljón lentu í öðru sæti. Þetta var svo gaman og mikið hlegið þegar aðaldraugurinn, hann Geir umsjónarmaður, tók niður grímuna. Aðstoðardraugar voru Alena, Apríl og Dagbjört.

 

Þríburarnir okkarÁvextirnir í kvöldkaffinu runnu ljúft niður og mikið var spjallað og hlegið eftir ævintýri kvöldsins. Svo var bara háttað og burstað og síðan hlustað á kvöldsöguna hjá umsjónarmanninum.

Algjörar ævintýrakveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

 

P.s. Nýjar myndir eru komnar inn, endilega kíkið:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t2d2.html 

P.s. 2: Mynd t.h.: Þríburarnir okkar. Smile


   


Krítardagurinn mikli

Rútan komin!Fríður hópur barna mætti í sumarbúðirnar eftir hádegið. Starfsmenn biðu spenntir eftir rútunni, hver umsjónarmaður eftir sínum hópi og svo mættu Hafmeyjar, Sæljón og hver hópurinn af öðrum. Á myndinni til vinstri sést María (baksvipurinn) og hluti af hópnum hennar.

Börnin byrjuðu á því að fara með farangurinn inn á herbergin og svo var farin sýningarferð um svæðið. Mörg börnin í hópnum höfðu verið áður og þekktu sig nú aldeilis en alltaf er gott að rifja upp góðar minningar ... Mikið var spjallað og síðan var farið aftur í herbergin til að koma sér vel fyrir þar, enda vikudvöl fram undan og um að gera að hafa almenniglega kósí í kringum sig.

 

TrampólínÍ kaffinu var skúffukaka sem rann ljúflega niður og ekki síður melónurnar sem boðið var upp á. 

Síðan var haldið út í íþróttahús þar sem kynning á starfsfólki og námskeiðum fór fram. Heiða kynnti listaverkagerðina, Davíð kvikmyndagerð og svo framvegis. 

ÚtisvæðiBörnin völdu sér ekki bara námskeið, heldur líka álegg á brauðið í kvöldkaffinu og safategundina sem þau vildu. Það flýtir ótrúlega fyrir að vera búin að því. Þá daga sem ekki er brauð með áleggi er boðið upp á ávexti.

Grímugerð og leiklist voru vinsælust og þar á eftir komu kvikmyndagerð, íþróttir og dansinn.

 

„Stöðvar“ voru opnar frá kaffi fram að kvöldmat: útisvæðið þar sem var krítað út í eitt, rennt og rólað og hoppað í trampólínu, Spilaborg (spil, bækur, borðtennis, pool og fullt af dóti) og íþróttahúsið sem aldeilis er hægt að hamast í.

 

Gaman að krítaÍ kvöldmat fengu börnin kjöt og spagettí, aldeilis gómsætt, enda var mikið borðað. 

SundEftir mat opnaði sundlaugin og stór hluti barnanna kaus að fara í sund, önnur voru á útisvæði eða í Spilaborg, enda eru þetta þannig sumarbúðir að börnin hafa val um það hvað þau vilja gera. Alltaf eitthvað spennandi í boði.

Í kvöldkaffinu fengu börnin ávexti. Síðan las umsjónarmaður hvers hóps framhaldssögu fyrir hópinn sinn og svo var haldið í draumalandið góða.

Heiti potturinnFjölmörg verkefni bíða morgundagsins. Allt fer á fullt. Á námskeiðunum, tvo tíma á dag, þarf m.a. að semja handrit að stuttmynd í kvikmyndagerðinni, einnig í leiklist og grímugerð, hefjast handa við að búa til grímurnar, byrja á listaverkunum í listaverkagerð, semja dans í dansnámskeiðinu og svo ótal margt fleira. Afraksturinn verður síðan sýndur á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið og þá er nú aldeilis hátíð í bæ.

ÆvintýrakrítinÁkveðið var að hafa kvikmyndagerð og íþróttir saman. Eins og flestir leikarar kannast við þá þarf oft að bíða í tökum og þá er ekki amalegt ef hluti kvikmyndaleikaranna getur sprellað í íþróttahúsinu í stað þess að sitja og bíða. Við ákváðum líka að steypa saman grímugerð og leiklist og það sló heldur betur í gegn þar sem flest börnin völdu það námskeið í stað kvikmyndagerðar sem nánast alltaf hefur verið vinsælasta námskeiðið.

Veðurspáin er ágæt fyrir morgundaginn, kannski einhverjir dropar fyrir hádegi en svo þurrt allan eftirmiðdaginn. Svona ef marka má hirðveðurspásíðu sumarbúðanna, hina norsku síðu www.yr.no.

Algjörar stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum! LoL

P.s. Myndir frá fyrsta deginum eru hérna:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t2d1.html


Frábær vika - takk fyrir okkur

Kvikmyndagerð í aksjónTíminn líður svo hratt og allt í einu var komið að lokadeginum, eða deginum sem lokakvöldvakan var, sem öll vinna námskeiðanna hafði snúist um frá byrjun. 

Eftir morgunverðarhlaðborðið góða var farið á æfingar fyrir kvöldið.

Danshópurinn æfði á fullu í íþróttahúsinu og stelpurnar í honum höfðu gert sér mjög skemmtilega búninga ... úr ruslapokum, enda hét dansinn Rusladansinn. Bara snilld.

Síðustu tökur hjá kvikmyndagerðinni fóru fram og grímugerðar- og listasmiðjuhóparnir fíniseruðu sína sköpun.

AfmælisbarniðÍ hádeginu var boðið upp á skyr og brauð og það var sko vinsælt. Eftir matinn fóru börnin í það að pakka niður þar sem brottför var daginn eftir (í dag). Eftir að hafa raðað eins flott og mögulegt var í töskurnar var loka-, loka-, lokaundirbúningur námskeiðanna.

Í kaffinu var haldið upp á níu ára afmæli Þorvaldar Mána sem fékk sérskreytta kökusneið, afmælisgjöf og svo var afmælissöngurinn sunginn. Allir fengu að sjálfsögðu köku líka ... og melónur og tekex með heimalagaða marmelaðinu hennar Sigurjónu listakokks.

 

RuslatínslaÁ síðasta heila deginum í sumarbúðunum er óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslatínslu. Þá fara börnin allt í kringum Ævintýraland og tína allt það rusl sem þau sjá, sópa stéttina og gera allt umhverfið fínt. Yfir 90% barnanna bauð sig fram, börnin þutu um allt með ruslapoka og tíndu og á örskotsstundu var orðið rosalega snyrtilegt í kringum okkur. Verðlaunakassinn fyrir ruslatínslu var tekinn fram og hvert og eitt barn mátti velja sér eitthvað úr honum fyrir dugnaðinn.

 

 

SpilaborgÞá var farið í leiki í íþróttahúsinu, Spilaborg og útisvæði, bara eftir vali hvers og eins. Í Spilaborg er heill hellingur af skemmtilegu dóti og bókum, borðtennis, pool og slíkt, leiktæki á útisvæðinu og fullt af spennandi hlutum í íþróttahúsinu.

 

Listaverka- og grímugerðRétt fyrir kvöldmat skiptu börnin um föt og héldu í matsalinn þar sem sannkölluð veislumáltíð var; hamborgarar, franskar, sósa og salat og gos með.

Þegar allir voru orðnir pakksaddir og sælir var skoðuð glæsileg myndlistasýning þar sem sköpunarverk listasmiðju og grímugerðar lá frammi.

Íþróttahópurinn var með fjöruga og spennandi brennókeppni milli stelpna og stráka - og stelpurnar unnu.

 

RusladansinnDanshópurinn sýndi síðan Rusladansinn og það mætti halda að þær hefðu æft þetta í margar vikur, þetta var svo flott hjá þeim.

 

Dvergarnir sjöSú venja hefur skapast á lokakvöldvökunni að starfsfólkið er pínt svolítið ... það þarf að leika leikrit fyrir börnin og fær ekkert að vita hvaða leikrit fyrr en á allra síðustu stundu. Það dregur miða úr hatti til að vita hvaða persónu það eigi að leika. Í þetta skiptið var leikritið Mjallhvít og dvergarnir sjö sýnt við mikla gleði barnanna. Starfsfólkið (og stálpuð starfsmannabörn) fóru svo sem létt með þetta en mikið var Davíð fyndin Mjallhvít og dvergarnir líka alveg dásamlegir. Ellen var í hlutverki talandi spegils vondu drottningarinnar og svo framvegis.

KvöldkaffiÍ kvöldkaffinu var boðið upp á ávexti og frostpinna og svo var bara komið að lokalestri kvöldsögunnar. Þessi frábæri og góði hópur sofnaði vel og svaf vært eins og önnur kvöld og sömu rólegheitin ríktu hjá næturverðinum.

 

Auglýsing kvikmyndagerðarVið þökkum kærlega fyrir frábæra og stórskemmtilega viku, sendum okkar bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum og búum okkur undir komu næsta káta hóps.

Myndir frá lokakvöldvökunni og fleira eru hér:  http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d6.html

 

P.s. Myndirnar stækka ef klikkað er á þær og enn meira ef klikkað er aftur. Smile


Dagur hinna miklu hæfileika ... og sturtuferða

Hressar stelpurHressir strákarNú verður sagt frá degi hinna miklu hæfileika ... og sturtuferða og fleiri atburða auðvitað.

 

Dagurinn hófst á hlaðborðinu góða, val um kornflakes, hafragraut, súrmjólk, ristað brauð og fullt af áleggi, m.a. osti, mysingi og heimalöguðu marmelaði sem er brjálæðislega gott. Sumir fá sér nú bara sitt lítið af hverju og líkar fjölbreytnin vel, enda getur maður bara fengið sér allt ef erfitt er að velja á milli! Ekki málið.

 Þau börn sem höfðu ekki verið á trilljón í sundlauginni skelltu sér í sturtu því stórt kvöld var fram undan, sjálf Söng- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn sem þó einskorðast ekki bara við söng ... þótt við köllum æfingaferlið alltaf karaókíæfingar, það er síðan í eldgamla daga þegar þetta var bara söngvarakeppni. Flottur hringur úr skartgripagerðinni

Okkur hafði borist njósn af því að nokkur stórkostleg atriði væru í fæðingu, m.a. dans og svo auðvitað söngurinn. En ... allir vildu vera hreinir og fínir fyrir stóra kvöldið. Hinir ögn hreinni höfðu skellt sér út í íþróttahús til að ærslast en engan langaði verulega mikið til að vera úti þar sem lognið ferðaðist hratt um og með smárigningu líka.

 

 

Góðir vinirSpilaborg var opin og einnig herbergin og útisvæðið þótt fáir notfærðu sér að leika sér þar.

Svo kom hádegismaturinn, mjög góður pastaréttur með hvítlauksbrauði, nammi, namm!

 

ReiðnámskeiðÁ hádegisfundinum kom síðasta bréfið og sum börnin sýndu okkur gullpening sem þau höfðu fengið, sum sögðu þetta vera alvörugull en önnur töldu þetta vera súkkulaðipening með gullpappír utan um. En hvað þetta þýddi allt saman fáum við eflaust ekki að vita fyrr en í sumarlok en skemmtilegt leyndarmál var þetta.

Frá kl. 14-16 voru námskeiðin, alltaf sama leyndarmálið hvað er í bígerð hjá hverjum hópi og sama hvað við reyndum að grafast fyrir um handrit grímugerðar, myndlistasýninguna, dansinn og það allt fengum við bara bros og ... grafarþögn. Hmmm. Við verðum víst að bíða fram að lokakvöldvökunni þar sem allt verður opinberað.

Ha ... hestur á trampólínu líkaEftir kaffitímann, sandköku, smáafgang af vöfflum, tekex með marmelaðinu guðdómlega og melónur á eftir, var sitt af hverju í boði, börnin dunduðu sér í borðtennis, pool-i, púsluðu, spiluðu og hvaðeina, já, og sprelluðu í íþróttahúsinu í smástund. Þá var gott að geta dottið ofan í góða bók á eftir en nokkur komu lafmóð þaðan og skelltu sér í lesturinn. Veðrið var enn ekkert til að hrópa húrra yfir og engan langaði út að þessu sinni. Dagurinn á undan hafði verið flottur útivistardagur, í húllumhæinu.

ÆvintýrabarkinnReiðnámskeiðsbörnin nutu sín heldur betur í dag og riðu um fögur héruð á flottu fákunum hennar Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara. Sjá myndir hér ofar. Þau komu „heim á lúxushótel“rétt fyrir kvöldmat, alsæl og náðu með naumindum að skipta um föt áður en kvöldmaturinn skall á í allri sinni dýrð. Fiskur, kartöflur, smjör og tómatsósa, slurrrp, bara dásamlegt!

Svo hófst sjálfur Ævintýrabarkinn - söng- og hæfileikakeppnin sem haldin er í hverri viku og er alltaf jafnspennandi og skemmtileg. Ekkert smá sem til er af vel syngjandi og dansandi börnum hér á landi ...

3. sætiÞær Álfheiður Inga, Helena Líf og Svana Björk sýndu frumsaminn dans, Kjartan Freyr sýndi breikdans, Margrét Fríða söng Nylon-lagið Sumarylur (held að það heiti það), Þorvaldur Máni dansaði, Unnur Lilja söng Casada-bad boy og Fannar Óli söng Láttu mig vera, Naglbítalagið sjálft.

2. sætiÞetta voru einstaklega flott atriði og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Dómnefndar beið heldur erfitt verk, eða að velja þrjú bestu atriðin sem fengju verðlaun. Það munaði bara örfáum stigum á þessum frábæru keppendum.

Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjöl og svo var talið niður með trommuslætti ... 

Þriðja sætið (tromm ... ): Álfheiður Inga, Helena Líf og Svana Björk - HÚRRRRA!

1. sætiAnnað sætið (tromm ...): Breikarinn ógurlegi, Kjartan Freyr - HÚRRRRA!

Fyrsta sætið (brjálað tromm ...): Unnur Lilja - HÚRRRA!

Eftir þennan velheppnaða Ævintýrabarka var haldið í kvöldkaffi, brauð og safa, og svo var farið í að hátta, bursta og hlusta á kvöldsöguna sem umsjónarmaðurinn las, hver umsjónarmaður fyrir sinn hóp.
Þetta var FRÁBÆR dagur!

Okkar allra, allra bestu stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!!!

P.s. Nýjar myndir eru komnar hér: 

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d5.html


Jón Gnarr og ísbjörninn sem hvarf ...

Hluti kvikmyndagerðarhópsinsNámskeiðin voru haldin fyrir hádegi í gær vegna þess að það var HÚLLUMHÆDAGUR, snilldardagur frá upphafi til enda með frábærri 17. júní-stemmingu.

FiðrildastelpaAllt gekk mjög vel um morguninn, börnin vinna og vinna á námskeiðunum og skapa og skapa flotta hluti, hvort sem er í grímugerð, listasmiðju, dansi eða íþróttum. Okkur tókst að njósna um hvað stuttmyndin fjallar um. Hún er um Jón Gnarr borgarstjóra sem kaupir ísbjörn af Fríðu og dýrinu en þau rífast stöðugt, Fríða og dýrið sko. Ísbirninum er rænt á leiðinni til borgarstjórans af draugum, geimverum eða skrímslum (það er ekki alveg komið á hreint). Jón Gnarr kemur með tilkynningu í sjónvarpinu þar sem hann býður þeim sem finnur ísbjörninn 50 milljónir króna ... og allir fara að leita bjarnarins, þar á meðal Súper Maríó, Diskóstrákurinn, api, sjóræningi og trúður. Þau börn úr hópnum sem ekki voru í upptökum í dag skruppu í íþróttahúsið og skemmtu sér konunglega. Það tekur á að þurfa að bíða, allar kvikmyndastjörnur kannast við það. Börnin komu öll með hugmyndir og handritið var unnið upp úr þeim. Við reynum svo að njósna betur um hin námskeiðin og hvað er í gangi þar.

Húllumhædagurinn setturÍ hádeginu bauð lúxuskokkurinn upp á æðislega góðan grjónagraut og svo voru melónur í eftirrétt. Hádegisfundur var haldinn að vanda hjá hverjum hópi og enn eitt dularfulla bréfið með mikilvægum skilaboðum barst þangað. Börnin neita að gefa nokkuð upp um efni bréfanna og segja það vera algjört leyndarmál.

FánaleikurinnHúllumhædagurinn var síðan settur með pomp og prakt eftir hádegisfundina og fyrsta atriði dagsins var ... fánaleikurinn skemmtilegi. Börnunum var skipt í tvo hópa, Draum og Martröð, sem börðust um þvottaklemmur. Draumsliðið fékk rauða stríðsmálningu á kinnarnar en Martröð bláa. Svo var barist ... Sitthvað fleira var um að vera fyrir kaffi á útisvæði og í Spilaborg.

Namm, vöfflurÍ kaffinu fengu börnin nýbakaðar vöfflur og fannst þeim síður en svo amalegt að fá súkkulaðiglassúr undir rjómann, ja, eða sultu.

 

 

S�puk�lusprengikeppniEftir kaffið var ótalmargt í gangi og hægt að fara í andlitsmálun, keilukeppni (Wii), fá bandfléttur, gera vinabönd, vera á útisvæði þar sem m.a. æsispennandi sápukúlusprengikeppni fór fram.Á myndinni hér til hægri má sjá einn þátttakandann sprengja nokkrar.

Svana Björk Steinarsdóttir (úr Hafmeyjum) gerði sér lítið fyrir og sprengdi flestar sápukúlurnar. Sérstakir dómarar fylgdust með og töldu vandlega hverja sprengda sápukúlu ...

 

Skartgripagerð

Skartgripagerðin sló í gegn, enda hver vill ekki búa til flottan hring handa mömmu eða hálsfesti handa pabba?

Jósefína Potter spákona úr Borgarnesi mætti á svæðið og svaraði einni spurningu frá hverju barni sem vildi fara til hennar. Hún var nú vinsæl, enda lítur hún út eins og töfrakonurnar í Harry Potter! Að vanda fylltust einhver börn grunsemdum og voru viss um að starfsmaður væri í gervi spákonunnar en ekkert var gefið upp um það. Eins og við færum í svona galdrabúning ...

 

BíókvöldSvo var það kvöldmaturinn og enn og aftur setti Sigurjóna skvísumet í að bjóða upp á góðan mat. Nú voru grillaðar pylsur í matinn, með tómatsósu, sinnepi, steiktum og bara öllu því sem maður býður upp á með góðum pylsum.

Eftir matinn var bíókvöld og í hléinu var að sjálfsögðu hægt að fá heimapoppað popp - hvað annað. Og safa til að skola því niður.

Þá var bara kvöldsagan/framhaldssagan hjá hverjum hópi og svo tók draumalandið við.

Bestu húllumhækveðjur frá Kleppjárnsreykjum!!!

P.s. Nýjar myndir eru komnar inn á vefsíðuna okkar, sumarbudir.is, hér er bein slóð:  http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d4.html


Enn eitt dularfulla bréfið ...

Gaman, gamanEftir vakn á þriðja degi, burst og snyrt var haldið í matsalinn þar sem hlaðborðið beið með góðri næringaráfyllingu fyrir morguninn. Síðan var heilmargt um að vera og hægt að velja um að fara í íþróttahúsið, sundlaugina, vera á útisvæði, í Spilaborg eða fara í kertagerð. Svo fóru þau börn sem taka þátt í karaókí, eða Ævintýrabarkanum, á æfingu. Það styttist óðum í hæfileikakeppna góðu.

KertagerðKertagerðin er alltaf mjög vinsæl þegar boðið er upp á hana en þá bræðir hún Heiða vax sem varlega er sett ofan í skel. Þegar vaxið fer að kólna, sem gerir nú frekar hratt, þá er hægt að skreyta með ýmsu, m.a. glimmeri. Börnin eru afar skapandi og nutu sín heldur betur vel í að gera flott kerti. 

Í hádegismat var núðlusúpa og smurt brauð með m.a. eggjum og kæfu. Börnin tóku vel til matar síns að vanda.

 

Sing og Song-leikritiðEftir matinn var það hádegisfundurinn með umsjónarmanninum. Annað dularfullt bréf barst með loforði um meira á morgun ... Hvað ætli sé í gangi?

Þá var komið að leiksýningunni um Sing og Song. Heiða og Dagbjört léku börn sem lentu í hinum ýmsu aðstæðum og sögðu Sing og Song álit sitt á því. Sing var þessi uppbyggjandi og bjartsýni en Song með eilífar úrtölur. Þegar t.d. Heiða var viss um að hún gæti ekkert tók Song algjörlega undir það ... ormurinn.

Tekið var á mörgum málum, eins og því að stela eða ekki stela, adda öllum á MSN eða feisbúkk eða bara þeim sem maður þekkir. Hafa trú á sér, ekki hugsa að maður geti ekki hlutina og ekki fara  upp í bíl með ókunnugum. Davíð lék Song og Apríl lék Sing. Leikritið vakti mikla lukku, enda bráðfyndið þótt undirtónninn sé alvarlegur.

GrímugerðReiðnámskeið var í dag og tóku reiðnámskeiðsbörnin með sér gott nesti; samloku, skúffuköku, ávexti og safa. 

Námskeiðin gengu vel og það er að koma góð mynd á það sem verður í boði á lokakvöldvökunni. Í kvikmyndagerðinni búa börnin til handrit, skipa í hlutverk, velja búninga og svo hefjast tökur.

Grímurnar í grímugerðinni eru í vinnslu en börnin mála hvert sína grímu og flytja svo látbragðsleikrit síðasta kvöldið.

ÍþróttahúsiðListasmiðjuhópurinn skapar flotta hluti sem verða sýndir á sýningunni og danshópurinn semur dans/dansa, æfir og sýnir og íþróttahópurinn æfir líka og sýnir svo snilldina.

Lokakvöldvakan er alltaf svoooo æðisleg og gaman að sjá afrakstur af vinnu námskeiðanna og sum börnin uppgötva leynda hæfileika hjá sér, það hefur aldeilis oft komið fyrir.

 

 

AfmælisbarniðÍ kaffitímanum var boðið upp á afmælisköku og melónur. Afmælisbarnið fékk vitanlega afmælissönginn, gjafir frá sumarbúðunum og flott skreytta afmæliskökusneið.

 

 

VinaböndMargt var um að vera eftir kaffið, m.a. vinabandagerð sem sló heldur betur í gegn, og tíminn leið hratt fram að kvöldmat en þar var boðið upp á steiktan fisk, hrísgrjón með karrísósu eða súrsætri sósu. Namm.

Börnin voru prúðbúin, enda stórviðburður fram undan, eða sjálft diskóið sem er alltaf ótrúlega skemmtilegt; flott tónlist, reykvél sem spúði reyk og skapaði enn meiri stemmningu.

Hressir á diskótekiDansinn dunaði og þegar þurfti að anda aðeins á milli var bara farið fram þar sem hægt að fá bandfléttur í hárið og tattú.

 

Bandflétta í hárÞegar búið var að dansa og dansa, fá bandfléttur og tattú, hlæja og spjalla var það bara háttatíminn en fyrst smáhressing, brauð og safi.

 

 

Kvöldsaga er alltaf lesin fyrir börnin undir svefninn, a.m.k. þá hópa sem vilja, og á þessu tímabili völdu allir hóparnir, líka elstu börnin (börnin eru í aldursskiptum hópum), að láta lesa fyrir sig.

TattúUmsjónarmaður hópsins les í u.þ.b. hálftíma góða framhaldssögu og það er ótrúlega kósí. Í gærkvöldi voru börnin sofnuð fyrir kl. 11 og sváfu vært til næstum því níu í morgun.Stór dagur fram undan í dag, húllumhædagurinn sjálfur, með 17. júní-stemmningu. Leikir, vöfflur með súkkulaði og rjóma, bíó ... en allt um það á morgun.

 

Frá hárgreiðslukeppni á degi 2Bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum þar sem fjörið eitt ríkir! LoL

 

Myndir frá degi 3 eru komnar inn, hér er bein leið:

 

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d3.html  

 

 


Allt komið á fullt í Ævintýralandi

Nýmætt á svæðiðKátur hópur barna kom í gær í sumarbúðirnar ... og það hefur verið svo brjálað að gera að það hefur ekki verið tími til að blogga fyrr en núna. En þá koma líka tveir dagar, takk fyrir!

Þessi annars frábæri hópur kom með rútunni eftir hádegi í gær og börnin byrjuðu á því að koma farangrinum fyrir inni í herbergi. Næst var sýningarrúntur um svæðið og svo komu allir sér vel og kósí fyrir. 

 

Gaman að vera komin í sumóFyrsti kaffitíminn var ekki amalegur, aldeilis ekki. Sigurjóna snilldarkokkur hafði bakað þessa líka æðislegu skúffuköku (nokkrar reyndar, ein hefði nú dugað skammt) og svo voru líka melónur sem runnu ljúflega niður á augabragði eins og skúffukakan.

 

Hressir strákarSvo var farið út í íþróttahús og þar fór fram kynning á starfsfólki og námskeiðum. Börnin völdu sér það námskeið (kvikmyndagerð, íþróttir, listasmiðja, leiklist, dans, grímugerð o.s.frv.) sem þau höfðu mestan áhuga á.

Á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið sýna þau svo afraksturinn, kvikmyndagerðin sýnir frumsamda stuttmynd, listasmiðjan heldur myndlistarsýningu og svo framvegis. Einnig völdu börnin sér það sem þau langaði að fá í kvöldkaffinu, eins og áleggstegund og safategund.

Hressar stelpurSvo var farið á „stöðvar“, eins og við köllum það, börnin gátu valið um að vera á útisvæðinu, í spilaborg (milljón trilljón spil, bækur, púsl, borðtennis og slíkt) og íþróttahúsið.

Kvöldmaturinn var gómsætur, kjöt og spagettí. Bara æði. 

Sundlaugin var opin eftir kvöldmat og það voru þreyttir og sælir krakkar sem lögðust til svefns fyrsta kvöldið sitt en ekki fyrr en eftir að hafa hesthúsað nokkrum kílóum (ekki á mann þó) af ávöxtum.


Miða og skoooooraÞetta er sérlega góður hópur, börnin voru svooo góð að fara að sofa þrátt fyrir spenninginn, flest sofnuðu þau strax og restin ekki svo löngu síðar. 

DAGUR 2:

Umsjónarmennirnir vöktu hver sinn hóp í morgun og svo var haldið í morgunverð. Hlaðborðið góða, ristað brauð, hafragrautur, súrmjólk og fleira sem hægt var að velja um (Hótel Ævintýraland hf) ... en börnin voru sannarlega ekki svöng þegar þau fóru út í íþróttahús, á útisvæðið, í Spilaborg, sund eða á fyrstu karaókíæfinguna. Þeim finnst svo æðislegt að geta valið sjálf hvað þau vilja gera og upplifa mikið frelsi þrátt fyrir þann góða ramma sem er utan um allt, eða mikil gæsla.  

Namm, kakósúpaEftir hádegismat, kakósúpu með tvíbökum (nammmm) og ávexti á eftir var haldinn hádegisfundur, hver hópur hittist með umsjónarmanninum sínum ... en mjög skrýtinn hlutur gerðist í morgun hjá umsjónarmönnunum ... þeir fengu allir bréf og vöknuðu við bréfakomuna án þess að sjá hver kom með það, mjög dularfullt. Bréfin innihéldu mikilvæg skilaboð til barnanna og þeim var sagt að annað bréf kæmi á morgun með framhaldi af þessum mikilvægu skilaboðum ... ef þetta er ekki dularfullt þá er ekkert dularfullt ...

SundSvo var komið að námskeiðunum. Kvikmyndagerðin var vinsælust þetta tímabilið, þar á eftir dansinn en hin námskeiðin voru líka vinsæl.

Eftir kaffi (sandkaka og tekex með heimagerðu marmelaði) var haldin hárgreiðslukeppni, útisvæðið opið, íþróttahúsið og herbergin opnuð í smástund til að hægt væri að bera á sig after sun og slíkt. Cool

Úrslit hárgreiðslukeppninnar: 1. sæti: Sandra Rún (módel), Margrét Fríða (meistarinn), 2. sæti: Svana Björk (módel), meistarar: Helena Líf og Álfheiður Inga OG Unnur Lilja (módel), meistari: Sara Bryndís. 3. sæti: Margrét Fríða (módel), meistari: Birgitta ... og Lena María (módel), meistari: Tinna. Frumlegasta: Fannar Hrafn (módel), meistari: Aron Freyr. Mest kúl: Pétur William (módel), meistari: Fannar Óli.

BorðtennisTíminn leið ógurlega hratt og allt í einu var kominn kvöldmatur og þvílík gleði þegar pítsuilmurinn barst úr matsalnum ... börnin borðuðu eins og þau gátu í sig látið af pítsum a la Sigurjóna snillingur. Heart

Brennókeppni var haldin á milli hópa eftir kvöldmat og urðu Höfrungar í fyrsta sæti, Gullfiskar í öðru. Draugaleikurinn skemmtilegiSíðan var draugaleikurinn ógurlega fyndni og skemmtilegi sem við viljum ekki gefa of mikið upp um ... 

Sigurvegarar í draugaleiknum voru Hafmeyjar og í öðru sæti voru Sæljón. Óhætt er þó að segja að mikið hafi verið skríkt og hlegið og öskrað og hlaupið.

Eftir að hafa snætt og borðað og hámað í sig ávexti í kvöldkaffinu, háttað og burstað tennur voru allir orðnir svo þreyttir eftir daginn að flestir sofnuðu um leið og þeir lögðu höfuðið á koddann.

Heiti potturinn notalegurAnnasamur og hrikalega skemmtilegur dagur í sólinni í dag. Okkur sýnist á veðurspánni (hjá hirðveðurspástofunni okkar ( www.yr.no ) að það falli einhverjir regndropar á morgun ... sem gerir bara ekkert til - en á sunnudaginn, húllumhædaginn sjálfan, verður glaðasólskin sem kemur sér vel því það verður svoooo mikið um að vera þá.

Algjörar stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum - meira fljótlega ... já, og það eru komnar myndir á myndasíðuna á http://sumarbudir.is/sumarbudir/Myndir.html


Styttist í sumarfjörið

Nú líður að því að starfsemin hefjist og við höfum sannarlega ekki legið í leti undanfarið, heldur hamast við undirbúning. Við hlökkum mikið til að byrja!  Cool

Stuð á diskótekinuÍ gær, sjálfan Evróvisjón- og kosningadaginn, héldum við námskeið í skyndihjálp og það var svoooo gaman. Þótt sama starfsfólkið komi flest aftur og aftur og slíkt námskeið sé haldið árlega veitir ekkert af því að rifja upp kunnáttuna.

Við minnum á að þeir sem ekki eru búnir að skrá sig og hyggjast koma til okkar í sumar geta gert það á Netinu:  www.sumarbudir.is

Einnig fengið allar nánari upplýsingar þar.

Myndin hér til hægri var tekin á diskóteki á þriðja tímabili í fyrra en diskó er haldið á hverju tímabili, mikið fjör öll kvöld, m.a. karaókíkeppni og fleira og fleira ...

 

Hér fyrir neðan er myndband sem sýnir hluta af því hvers vænta má í sumar ... úúúúú. Hægt er að velja um námskeið í kvikmyndagerð, leiklist, dansi, listaverkagerð, íþróttum og fleira sem sjá má á myndbandinu.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 91039

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband