Mikil stemming og húllumhæ

KvikmyndagerðinLeiklistaræfingarFjórði dagurinn frábær var

og fagran hafð´ann blæ.

Hamagangur og hasar sko mar´

og komið að húllumhæ.

 

Þetta tímamóta-snilldarljóð var ort í tilefni þess að fjórði dagurinn í sumarbúðunum var svokallaður húllumhædagur og ríkti mikið fjör alveg frá hádegi og til háttatíma. Morgunninn var nú ekkert slæmur heldur.

 

Dagurinn hófst þó eins og venjulega á góðum morgunverði eftir að búið var að nudda stírur úr augum, bursta tennur, klæða sig og greiða hárið. 

 

Íþróttahópur í bandíVinirNámskeiðin voru haldin fyrir hádegi og þar sem líður á vikuna er undirbúningurinn alveg á milljón. Íþróttahópurinn var áfram leyndardómsfullur um atriði sitt á lokakvöldvökunni og lék sér áhyggjulaus í hinum skemmtilega og hraða leik bandí.

María fór með grímugerðar- og leiklistarhópinn sinn á útisvæðið í leiklistaræfingar og náði papparatsí-ljósmyndarinn okkar nokkrum myndum þar. Annars er undirbúningur vel á veg kominn hjá hópnum að sögn Maríu þegar okkur tókst að króa hana af.

Tökur stuttmyndarinnar Öddu Pöddu fóru fram í svefnsölum leikaranna og svo reyndar aftur eftir kvöldmat á útisvæði. Við erum viss um að hún verður algjört meistarastykki, eins og fleiri kvikmyndir sem hafa verið gerðar í Ævintýralandi í gegnum árin.

Í hádeginu bauð gúrmei-eldhúsið upp á himneskan grjónagraut og melónur voru á boðstólum líka.

FánaleikurinnKókosbolluboðhlaupFljótlega eftir hádegisverð var sjoppuferð og þvílík sæla að fá nammi á sjálfan nammidaginn.

Síðan var haldinn hádegisfundur, hver umsjónarmaður með hópnum sínum, þar sem púlsinn var tekinn á hlutunum og farið yfir dagskrá dagsins. Húllumhædagsins!

 

Veðrið lék við okkur, logn og hiti, algjört draumaveður fyrir það sem koma skyldi - eða fánaleikinn. Börnunum var skiptí tvo hópa, Martröð og Draum. Draumsliðar fengu rauða málningu í andlitið en Martraðarliðar bláa. Síðan var hlaupið og hlaupið, barist um klemmur og fána út í eitt. Eftir æsispennandi keppni sigraði lið Martraðar.

 

Þá hófst kókosbolluboðhlaup (sjá mynd ofar) þar sem tvö lið kepptu í hlauphraða og áti kókosbolla á mettíma. Ekki mátti nota hendurnar, heldur varð að beygja sig niður að borðinu sem kókosbollan var á og borða hana. Það var nokkuð flóknara en sumir héldu. Síðan klára bolluna og hlaupa til baka aftur þar sem næsti endurtók leikinn. Þetta er ekkert verri leið en hver önnur til að fá nammi ... enda tóku allir sannir kókosbolluunnendur þátt. Tounge 

 

Vöfflur og kókómaltGóðar vinkonurRétt fyrir kaffi voru allir á útisvæðinu í góðu yfirlæti og m.a. hægt að fá bandfléttur í hárið. Það er mjög vinsælt hjá stelpunum og verður fléttað þangað til allar sem vilja eru búnar að fá.

 

Vöffluilmurinn sem barst úr eldhúsinu var alla að æra þrátt fyrir nýliðið kókosbolluát og því var hlaupið hratt inn í matsal þegar komið var að kaffi. Þetta voru sérlega góðar vöfflur sem versnuðu ekkert við að fá súkkulaðiglassúr og rjóma ofan á. Einn vildi þó rabarbarasultu frekar en súkkulaði og annar vildi sykur. Reynt er að uppfylla allar óskir, maður á jú að skemmta sér í sumarbúðum. Kannski eins gott að enginn sérvitringur var á svæðinu sem hefði viljað kavíar eða sojasósu á vöfflurnar sínar. Já, vöfflurnar - flestir fengu sér tvær, þær voru svoooo góðar. Ekki var amalegt að fá kókómalt með.

SkartgripagerðSpákonubiðröðHeilmargt var í boði eftir kaffi, m.a. kom systir Jósefínu Potter (sem brá sér til Eyja), hún Gvendólína Potter, ávallt kölluð GPotter af aðdáendum - opnaði heilt spátjald (enda 17. júní-stemmning) og sagði krökkunum hvað þau væru hæfileikarík og gáfuð og gætu allt sem þau vildu. Hún hafði að orði eftir spádómana að sjaldan hefði hún hitt annan eins hóp af klárum krökkum og þarna. Börnin vissu auðvitað alveg að þetta væri meiri leikur en nokkurn tíma alvara og höfðu mjög gaman af. Að minnsta kosti myndaðist löng biðröð fyrir framan „tjaldið“ hennar en hún var snögg að þessu, ein spurning var borin upp og henni var svarað. Hviss, bang, búið, enda svo margt annað skemmtilegt á boðstólum.

Það var hægt að fá tattú og bandfléttur og nóg að gera þar, einnig inni í Framtíðinni þar sem keilukeppni fór fram, eða Wii, einnig Wii-tennis.

Wii í FramtíðinniSápukúlusprengikeppniÁ útisvæði fór fram sápukúlusprengikeppni og var hún verulega spennandi. Þar er keppt í því að vera sem fljótastur að klappa saman lófunum þannig að maður sprengdi sem flestar sápukúlur. Færustu vísindamenn okkar lágu yfir ljósmyndum, upptökum og gerðu líkön og slíkt áður en kom í ljós að sá klappsneggsti var Ísleifur Kristberg sem náði að sprengja rosalega margar sápukúlur á einni mínútu. Mikið varð hann Geir umsjónarmaður hreykinn af sínum manni!

Í matsalnum fór fram skartgripagerð, ásamt tattúsmiðjunni, en við eigum einstaklega mikið af alls kyns hráefni til að búa til hina fjölbreyttustu og flottustu skartgripi.

Dásemdareldhúsið var sko ekkert hætt þennan dag, heldur höfðu þær Sigurjóna og Fernanda staðið í ströngu við að grilla pylsur ofan í mannskapinn og upp á þær var boðið í kvöldmatnum með tómatsósu, sinnepi, steiktum og remúlaði - og auðvitað í pylsubrauði. Svo var gos með. Sumir vildu þó vatn.

Eftir matinn voru aukatökur hjá kvikmyndagerðinni, eins og áður hefur komið fram, og einnig aukaæfing fyrir Ævintýrabarkann, söngvara- og hæfileikakeppnina sem fer alveg að bresta á. Flest hin börnin léku á als oddi á útisvæðinu í góða veðrinu.

Góðir grannarLoksins hófst svo bíókvöldið. Það setur alltaf punktinn yfir i-ið á húllumhædeginum. Nammið úr sjoppuferðinni fyrr um daginn var maulað með en þau börn sem eru lítið fyrir sælgæti fengu ávexti og Svala.

Svo var það bara draumalandið á eftir og ljúft að sofna eftir vægast sagt annasaman og alveg stórskemmtilegan dag.

 

Myndir frá húllumhædeginum eru hérna:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d4.html

 


Synt, snyrt og dansað - lítið lát á fjörinu

SundKertagerðDagur þrjú var sólríkur og fagur og hófst með staðgóðum morgunverði að vanda. Hafragraut eða súrmjólk eða kornflexi með mjólk (eða súrmjólk og púðursykri) eða ristuðu brauði með osti og heimalöguðu marmelaði. Þeir sem gátu ekki valið á milli máttu prófa allt ef þeir vildu. 

Algjört logn ríkti á útisvæðinu, líka í íþróttahúsinu, sumir fóru í kertagerð og aðrir í sund. Barnanna var valið. Kertagerðin var skemmtileg. Umsjónarmaður hellir bræddu kertavaxi í bláskel, kveik er komið fyrir og síðan skreyta börnin hvert sitt kert með glimmeri, baunum eða hrísgrjónum. Snæfríður bauð upp á púl og þolfimi í íþróttahúsinu, margir lögðu leið sína í sund og sundlaugarbakkinn kom líka sterkur inn.

Hópurinn blandast mjög vel, allir eitthvað svo glaðir og virðast skemmta sér afar vel.

Núðlusúpa og smurt brauð var innlegg eldhússins inn í þennan dýrlega dag í hádeginu og svo var að vanda haldinn skemmtilegur hádegisfundur, hver hópur með sínum umsjónarmanni.

VinkonurYndislegt í sundiNámskeiðin gengu vel og okkur tókst að njósna aðeins um leyndardómsfullu námskeiðin en flest vilja börnin að allt komi á óvart á lokakvöldvökunni þegar afrakstur þeirra verður sýndur.

 

Tökur eru hafnar hjá kvikmyndagerð og fjallar myndin um börn í heimavistarskóla, fúlan húsvörð og einn draug en eins og kom fram í síðustu færslu er þetta hryllingsmynd sem heitir Adda Padda. Við hlökkum rosalega mikið til að sjá hana. 

 

Leiklist/grímugerð málaði grímurnar í dag og eru þær algjört listaverk hjá krökkunum. Mikið verður gaman að sjá sýninguna þeirra en vonandi fáum við meiri upplýsingar um hana þegar nær dregur. Það gengur ekki að draga virðulegan bloggara á svona mikilvægum upplýsingum.

Íþrótta-ævintýrahópurinn knái og hressi og liðugi og létti á fæti fór í góða gönguferð og fannst ekki amalegt að fá að vaða í ævintýralæknum/-ánni/-fljótinu, hvað sem hver og einn vill kalla vaðsvæðið.

Næst á dagskrá var kaffitíminn og átti enginn afmæli í dag, aldrei þessu vant, en afmæliskökur komast alveg upp í vana. Þess í stað var boðið upp á gómsæta sumarbúðasandköku ásamt ómældu magni af melónum.

Námskeið í umhirðu húðarNámskeið í umhirðu húðarEftir kaffi var námskeið í umhirðu húðar - fyrir bæði stráka og stelpur og talað um mikilvægi hreinlætis. Okkur grunaði að þegar farið yrði að tala um förðun, glossa, naglalökk og slíkt á seinni hluta námskeiðsins myndu strákarnir kannski hlaupa öskrandi út en ... þeim var boðið í óvissuferð eða út í íþróttahús áður en af því yrði og varð það síðarnefnda fyrir valinu.

Allar stelpurnar voru áfram og fengu heilmikla fræðslu um förðun, hversu ung húð hefur ekki gott af því að vera mikið máluð, að passa sig á gömlum snyrtivörum, hreinsa húðina vel og allt í þeim dúr. Þeim var kennt að hreins húðina og þær sem vildu prófuðu að mála sig, enda svo sem tilefni fram undan ... Í lok námskeiðsins fengu þær allar góða gjöf, eða litla snyrtibuddu og naglalakk.

TískusýningPása frá diskóÍ kvöldmat bauð draumaeldhúsið upp á steiktan fisk með hrísgrjónum og hægt að velja á milli karrísósu og súrsætrar sósu með.

 

Strax á eftir var haldin tískusýning, takk fyrir. Stelpurnar sem sýndu voru rosalega flottar! Þrír umsjónarmenn tóku í lokin Dressmann-labbið eftir tískusýningarpallinum (gólfinu í matsalnum) við mikla kátínu krakkanna.

 

Síðan var haldið ball - diskótek - dansleikur! Fyrir matinn höfðu allir skipt um föt og dönsuðu í sínu fínasta pússi.

Þrátt fyrir mikið fjör var líka gott að slaka svolítið á inn á milli og fá tattú eða bandfléttur frammi. Umsjónarmennirnir sátu með tattúpenna (já, þetta þvæst af) eða liðuga bandfléttuputta og á stuttum tíma var stór hluti barnanna kominn með tattú eða fléttu í hárið. Enginn þurfti að hafa áhyggjur að verða útundan, þeir fá tattú á morgun eða flotta bandfléttu.

DiskóstuðVinsælt tattúÞað eru færri strákar en stelpur í Ævintýralandi þetta tímabilið sem er nú ekki mikið vandamál en  strákarnir þurftu án efa að hafa sig alla við til að ná að dansa við sem flestar stelpur. Flott tónlist hljómaði og það var mikið fjör.

Þegar börnin voru búin að dansa og dansa og dansa og fá tattú og/eða bandfléttu í hárið var gott að setjast niður og fá smurt brauð og safa í kvöldkaffinu.

Haldið var í draumalandið með viðkomu í skemmtilegri bók eða góðu spjalli.

Hér má finna myndir frá þessum góða degi: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d3.html


Hvílíkur dagur - Haffi Haff og allt!

Dagbókar- og kortagerðSundDagur tvö var ekki bara skemmtilegur, heldur líka ótrúlega viðburðaríkur. Umsjónarmenn vöktu hver sinn hóp og eftir klæð, burst og greið hittust allir í matsalnum þar sem morgunverðarhlaðborðið beið.

Nóg var við að vera eftir morgunverðinn, útisvæðið opið í góða veðrinu, einhverjir drifu sig íþróttahúsið (miklir íþróttagarpar þetta tímabilið) eða sund, aðrir fóru í korta- og dagbókargerð og fyrsta karaókíæfingin var líka haldin en næstsíðasta kvöldið er Ævintýrabarkinn á dagskrá, söngvara- og hæfileikakeppnin sjálf. 

Í hádeginu var kakósúpa með tvíbökum og svo ávextir í eftirrétt. Börnin kunnu vel að meta kakósúpu sem er, í sumra huga, ekkert annað en fljótandi súkkulaði ... svona nánast. Tounge

Grímugerð og leiklistEftir mat héldu umsjónarmennirnir hádegisfund með hópunum sínum og fór þar fram mikið spjall um lífið og tilveruna, dagskrá dagsins (svona það sem átti ekki að koma á óvart) og fleira.

Ísbíllinn kom í heimsóknÞá var haldið á námskeiðin. Mikið er um að vera á kvikmyndagerðarnámskeiðinu. Handritsgerð er lokið og aðstoðaði rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir börnin við að skella saman handritinu upp úr hugmyndunum sem þau höfðu skrifað niður. (www.minervudottir.com) Okkur tókst að grafa upp að myndin á að heita Adda Padda og er ... hryllingsmynd! Sá sem heldur utan um námskeiðin er Marteinn Þórsson, eins og áður hefur komið fram, ( www.tenderlee.com) en hann (til að við montum okkur enn meira) er að gera Rokland, var einn af klippurum Hamarsins og fleira og fleira.

Íþróttahópurinn notaði tímann til að sprella sem er náttúrlega bara skemmtilegt og grímugerðar- og leiklistarhópurinn skapaði grímur af mikilli snilld. Leikrit verður sýnt á lokakvöldvökunni og stendur undirbúningur yfir.

Skömmu áður en námskeiðunum lauk mátti heyra undurljúfa tóna (að margra mati) en sjálfur ÍSBÍLLINN renndi í hlað á Kleppjárnsreykjum hringjandi og syngjandi - að sjálfsögðu með vitund og vilja sumarbúðastjórans. Mikið urðu börnin glöð og starfsfólkið líka.

 

AfmælisbarniðAllir fengu afmælisköku í kaffinu en Selfossmærin Alexandra Björg átti 13 ára afmæli og fékk auðvitað veislu og afmælispakka frá sumarbúðunum. Kakan hennar var líka flott skreytt, enda var hún afmælisbarnið! Þrátt fyrir ísátið borðuðu flestir tvær sneiðar af afmælistertu og sumir vildu líka tekex með heimalöguðu appelsínumarmelaði.

HárgreiðslukeppniEftir kaffi fór hópur barna út í íþróttahús en aðrir urðu eftir í Framtíðinni - bláa herberginu þar sem heil hárgreiðslukeppni fór fram. Bæði strákar og stelpur tóku þátt en strákarnir treystu sér frekar til að vera módel en hárgreiðslumeistarar. Greiðslurnar voru ótrúlega frumlegar og flottar og án efa mjög erfitt fyrir dómnefndina að velja. Sjá má greiðslurnar á heimasíðunni (sjá neðst hér).

1. sæti: Alexzandra sem greiddi Halldóru Veru.

2. sæti: Bryndís Ósk sem greiddi Hreiðari Henning.

3. sæti: Hulda og Sissa sem greiddu Söndru.

Frumlegasta greiðslan:  Alexandra Björg sem greiddi Grétu.

Einnig tóku þátt Björg og Hugrún Elfa sem greiddu Hörpu Lilju, Alexandra Diljá sem greiddi Elfu Maríu og Sylvía Hall sem greiddi Eyjólfi Júlíusi.

Allir fengu viðurkenningarskjöl og efstu sætin fengu verðlaun.

Haffi Haff kom, sá og sigraðiKrakkarnir fóru flestir inn á herbergin sín um sexleytið, enda alltaf gaman að „hanga“ þar og spjalla en þau voru ekki búin að vera þar lengi þegar þau voru kölluð í einu ofboði út í íþróttahús. Ekki grunaði þau hvað væri í gangi en það kom fljótlega í ljós. Landsþekkti leynigesturinn var mættur á svæðið. Það var ein heitasta stórstjarna okkar Íslendinga, sjálfur Haffi Haff.

Haffi söng nokkur lög, dansaði og fékk krakkana til að dansa og syngja með. Allir fengu eiginhandaráritun og margir létu mynda sig með honum. Þvílík gleði. 

Hefðarkokkarnir í Ævintýralandi settu enn eitt metið í vinsældum þegar börnin komu í kvöldmat, enda var pítsa í matinn, öllu heldur pítsur! Þá var nú aldeilis kátt í höllinni.

Ekki var lagst á meltuna á eftir, onei, aldeilis ekki - fljótlega eftir mat var haldið út í íþróttahús þar sem æsispennandi brennókeppni fór fram og ótrúlegt hvað krakkarnir gátu hreyft sig eftir allt átið. Hópur 1 sigraði og var Geir umsjónarmaður mjög montinn, enda voru þetta „börnin hans“.

DraugaleikurinnKvöldið var rétt að byrja þarna því sjálfur draugaleikurinn var eftir. Þar sem þetta eru eldri börn en hafa verið í sumar var leikurinn gerður mun erfiðari (múahaha) og þurftu þau að skríða í gegnum draugaleg göng og hvaðeina áður en þau náði í enda herbergisins þar sem þau þurftu að leysa þraut í einum, grænum hvelli. Hraðinn og það að láta „draugana“ ekki trufla sig var það sem allt snerist um. (Mynd af draugaherberginu hér t.h.)

Hópur 3 fór nánast á ljóshraða í gegnum þetta og voru stelpurnar tvær, fulltrúar síns hóps, eins og eldibrandar og létu ekkert trufla sig. Nú var komið að Snæfríði umsjónarmanni að finna fyrir monti þar sem þetta var hópurinn hennar.

KvöldkaffiVissulega var mikið skrækt, enda ótrúlega spennandi að taka þátt í þessu. Öll börnin fengu svo í lokin að kíkja inn í þetta myrka herbergi þar sem hávær og mjög draugaleg tónlist hljómaði, reykvél jók á stemmninguna og draugarnir settu punktinn yfir i-ið. Þau Gísli og María léku draugana og gerðu það eins og þau hefðu ekkert annað gert, algjörir snillingar.

Ávextir voru á boðstólum í kvöldkaffinu og svo var bara tími kominn til að hátta, lesa og sofna.

Frábær dagur að baki, eiginlega bara stórkostlegur!

Myndir frá deginum er að finna hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d2.html

 


Góður fyrsti dagur - vinsæl kvikmyndagerð

UnglingatímabiliðGaman að vera komin í sumóÞá er síðasta tímabil sumarsins hafið - sjálft unglingatímabilið! Rútan kom um tvöleytið og full af skemmtilegum og hressum krökkum - mörg andlitin kunnugleg, enda hafa sumir komið ár eftir ár.

Að vanda byrjuðu börnin á því að skoða svæðið með umsjónarmanni sínum eftir að hafa sett farangurinn inn á herbergi. Margt var að skoða og sjá - sundlaugin, íþróttahúsið, fótboltavöllurinn, útisvæðið, danssalurinn, Spilaborg (skrilljón spil, púsl, bækur, pool, borðtennis og fleira), myndlistarsstofan, matsalurinn og önnur salarkynni. Ýmsir könnuðust þó vel við sig síðan í fyrra, hittiðfyrra og svo framvegis og sumir voru jafnvel að koma annað sinn í sumar.

Eftir skoðunarferðina var hægt að koma sér notalega fyrir í herberginu sínu - taka upp úr töskum, setja sængur í rúmið og slíkt.

Útisvæði Matti kynnir kvikmyndagerðinaÞá var komið að kaffitímanum og var hin dásamlega sumarbúðasandkaka í boði, ásamt melónum í miklu magni.

Þá var farið út í íþróttahús til að kynna starfsfólk og hin rómuðu námskeið sem eru haldin í hverri viku. Nokkuð misjafnt er hvernig valið verður, stundum er kvikmyndagerðin vinsælust, stundum íþróttirnar, stundum listaverkagerðin ... en núna völdu flestir kvikmyndagerð og íþróttir. Fléttað verður saman grímugerð og leiklist og svo fá allir sem vilja listaverkagerð seinnipartinn. Mikil ánægja var með að hafa svona gott val en enginn valkvíði ríkti þó. Marteinn Þórsson heldur utan um kvikmyndagerðina en hann er án efa einn flottasti kvikmyndagerðarmaður landsins. María verður leiklistar- og grímugerðarsnillingurinn eins og áður og Geir sér að vanda um íþróttirnar.

Á kynningunni í þróttahúsinu völdu börnin sér líka það álegg sem þau vilja á brauðið í kvöldkaffinu og safategund. Til skiptis er boðið upp á safa og ávexti fyrir svefninn. 

Útisvæðið var vinsælt eftir kaffi, einnig Spilaborg og íþróttahúsið.

Í kvöldmat var kjöt og spagettí sem féll vel í kramið.

Kósí í heita pottinumStuð í sundiSundlaugin er alltaf opin eftir kvöldmat fyrsta daginn og fór hluti hópsins í sund og hafði það líka gott í heita pottinum. Sumir fóru í fótbolta eða voru á útisvæðinu.

Þetta er frábær hópur sem er greinilega hér til að skemmta sér, kynnast jafnöldrum sínum og njóta lífsins.

Eftir að hafa borðað ómælt magn af ávöxtum í kvöldkaffinu var bara spjallað saman út í eitt áður en haldið var í háttinn.

Myndir frá fyrsta deginum er að finna hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d1.html

 


Líflegur lokadagur í Ævintýralandi

Íþróttahópur í búningumLokatökur í kvikmyndagerðEiginlega var ótrúlegt að hugsa til þess að lokadagurinn væri runninn upp en svo var nú aldeilis raunin þegar börnin vöknuðu á degi 6. Staðgóður morgunverðurinn beið og hægt að fá sér smávegis af kornflexi, seríosi og súrmjólk, slettu af hafragraut og svo ristað brauð eða bara eitt af þessu. Til þess eru hlaðborðin að velja það besta af þeim. Ekki sást nokkurt barn blanda þessu öllu saman. Kannski hafa þau hlustað á æskuminningar afa og ömmu um hræring, ég segi ekki meira.

Námskeiðin fóru á fullt eftir morgunverðinn enda komið að lokaundirbúningi þeirra. Íþróttakrakkarnir sáust í flottum búninum úr búningasafni Ævintýralands og það vakti heilmikla forvitni hinna. Hvaða undarlegu íþróttir átti að sýna í fullum búningum? Allt átti það eftir að koma í ljós.

ListaverkPlakatPlaköt fyrir bíómyndina Tímavélina birtust upp um alla veggi sumarbúðanna og jók það heldur betur á spenninginn, enda átti greinilega að frumsýna bestu bíómynd í heimi um kvöldið, Tímavélina. Lokatökur stóðu yfir úti í garði og mátti sjá ýmsar furðuverur á stjái milli trjánna.

 

Listaverkagerðin var líka í miklum önnum, enda heilmikil listsýning fram undan og allt þurfti að vera orðið þurrt og tilbúið fyrir stóru stundina. Það þurfti að raða upp, merkja og fínisera allt í kring. Þvílík listaverk sem börnin höfðu búið til og mikil tilhlökkun ríkti fyrir sýningunni.

Í hádeginu var boðið upp á skyr og smurt brauð og tóku börnin vel til matar síns. Mikið fjör ríkti í matsalnum og spenningurinn var í hámarki.

Eftir mat var pakkað niður í töskur og svo var haldið áfram með loka-, lokaundirbúninginn á námskeiðunum. Hlutirnir fóru að taka á sig góða mynd og hægt að segja á ýmsum vígstöðvum að nú væri allt tilbúið.

RuslatínslaVið viljum hamborgaraÍ kaffinu voru skúffukaka, melónur og tekex með marmelaði. Stefán Ingi átti 11 ára afmæli og fékk sérskreytta skúffukökusneið, kort og gjöf ... og söng auðvitað.

Úti var byrjað að rigna - í fyrsta sinn í manna minnum - svona nánast, en þetta var ekki mikil rigning, ekki meiri en það að nokkrir krakkar buðu sig fram í ruslatínslu á útisvæði. Ruslatínsla fer alltaf fram á lokadegi og fá þátttakendur glaðning fyrir hjálpina. Vel var hreinsað til og slapp ekki eitt einasta gamalt, uppþornað laufblað undan haukfránum sjónum barnanna. Svo var sópað og á endanum hefði mátt borða upp úr stéttunum ef einhver hefði kært sig um að prófa ...

Spilaborg var vinsæl enda kósí að sitja þar og lesa blöð og bækur. Mikið er til af skemmtilegum bókum í Ævintýralandi og úr nægu að velja. Útisvæðið þótti of blautt fyrir prinsa og prinsessur sem kusu að kúra inni, enda gott að slaka á fyrir átök (skemmtun) kvöldsins. Sumir kusu þó að sprella í íþróttahúsinu og þótti það ekki leiðinlegt.

Hamborgari nammmmListaverkMikil gleði braust út þegar kom að kvöldverðinum, enda hátíðarmatseðill í boði ... hamborgarar, franskar og sósa. Gos með til að skola því niður. Börnin voru búin að skipta um föt og mátti sjá glitta í pell og purpura um allan matsal.

 

Fyrsta atriði kvöldsins var sýning á þeim fjölda listaverka sem höfðu orðið til alla vikuna. Börnin gengu um og skoðuðu og dáðust að verkunum. Þetta var mjög velheppnuð sýning í alla staði og fékk fimm stjörnur af fimm mögulegum.

 

Trampólínstökk í búningumStarfsmannaleikritÍþróttahópurinn dreif síðan alla út í íþróttahús eftir listaverkasýninguna og bauð upp á þrjú atriði, hvorki meira né minna. Fyrsta atriðið var limbókeppni þar sem sigurvegarinn varð Halldór Ívar en hann segist hafa gúmmí í stað beina ... Síðan var haldin æsispennandi spurningakeppni á milli hópa þar sem tvö börn frá hverjum hópi kepptu í íþróttaspurningum. Í undanúrslit komust Hafmeyjar og Höfrungar en síðarnefndi hópurinn hafði sigur í lokin. Síðasta atriði íþróttahópsins var bráðfyndið og skemmtilegt en þá stukku börnin, sum í búningum, á trampólín og þaðan á dýnu. Í lokin hoppuðu þau í gegnum húlahring - mjög flott.

Þá var komið að leikriti starfsmanna, algjörlega óundirbúnu af þeirra hálfu. Þeir áttu að leika leikritið Þyrnirós og það var heldur betur öðruvísi en í ævintýrabókunum. Rómeó var þarna í leit að Júlíu sinni og féll svona líka kylliflatur fyrir Þyrnirós. Tveir drekar komu við sögu og þeir ákváðu að gifta sig um leið og Rómeó og Þyrnirós. Mikið fjör og bráðfyndið leikrit.

Kvöldkaffið var ... uuuu borðað, eða ávextir í kílóatali, og svo var haldið á kvikmyndasýningu.

Sýning TímavélarinnarKvikmyndagerðin sýndi myndina Tímavélina en hún fjallar um hóp barna sem finnur óvænt tímavél sem sendir þau til ársins 1950 þar sem allt var í svarthvítu. Þar berjast þau við hin og þessi skrímsli, þar á meðal skinkuvampíru (já, þið lásuð rétt) en á endanum komust þau heilu og höldnu aftur heim til ársins 2010. Á meðan myndin var sýnd gæddu börnin sér á frostpinna, svona á milli hláturskastanna.

Þá var ekkert annað en að fara að sofa síðasta kvöldið, það var ekkert auðvelt að sofna eftir spennandi dag og svo var náttúrlega mikil tilhlökkun að koma heim.

Við þökkum þessum frábæra og samrýmda hópi kærlega fyrir dásamlega viku!

Myndir frá lokadeginum er að finna hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d6.html


Tíska, hestar, söngur og sund ... svo fátt eitt sé talið

DagbókargerðDagbókEftir morgunverð á degi 5 var mikið um að vera ... að vanda svo sem. Keppendur kvöldsins í Ævintýrabarkanum þurftu að æfa sig, aðrir fóru og nutu sólar á útisvæði, í íþróttahúsið eða sund og heita pottinn.

Þeir sem áttu eftir að gera kort og dagbækur gátu gert það. Spilaborgin opnaði þegar líða fór á morguninn og einnig kusu einhverjir að vera inni á herbergi. Verulega kósí og ljúfur morgunn hvort sem verið var í blíðinnu úti eða blíðunni inni.

Pasta og hvítlauksbrauð var í boði í hádeginu og svo var haldið á hádegisfundina með umsjónarmönnunum. Nú var hulunni flett ofan af dularfullu bréfunum sem höfðu borist til hvers hóps á morgnana og innihéldu mikilvæg skilaboð. Börnin fengu hvert og eitt gullpening (súkkulaði með gullbréfi utan um fyrir raunsæa blogglesendur)og skilaboð á litlum miða.

 

Kósí í heita pottinumNámskeiðin voru að vanda (nema á húllumhædegi og lokadegi) haldin á milli kl. 14 og 16. Þemað í listaverkagerðinni verður náttúran og litir. Enn er leyndarmál hvað íþróttahópurinn ætlar að gera á lokakvöldvökunni og tökur eru hafnar hjá kvikmyndagerðinni - á myndinni Tímavélin!

Á reiðnámskeiðiReiðnámskeiðsbörnin skemmtu sér konunglega í löngum og góðum reiðtúr á námskeiðinu hjá Guðrúnu Fjeldsted en þau tóku með sér gott nesti þegar þau lögðu af stað skömmu fyrir kaffi. Myndavélin var með í för eins og sjá má á heimasíðunni.

Eftir kaffi, þar sem boðið var upp á sumarbúðasandköku, afgangsvöfflur, tekex með marmelaði og svo melónur á eftir, var sitt af hverju í boði.

Íþróttahúsið sívinsæla, Spilaborg og útisvæði urðu fyrir valinu. Sólin var í smápásu en það var logn og bara yndislegt veður úti.

KaraókíæfingEinnig var haldin tískusýningaræfing, mjög skemmtileg. Börnin eru búin að velja sér búninga, hárkollur, höfuðföt og gleraugu. Fjögur börn sýna í „alvörunni“, mjög flott, hitt er í gríni og mjög fyndið.

Í kvöldmat var boðið upp á fisk og kartöflur ásamt smjöri og tómatsósu, algjört æði.

Svo var bara komið að sjálfum Ævintýrabarkanum. Átta þátttakendur stigu á svið, hver öðrum betri og var þetta hin besta skemmtun. Myndin hér til vinstri er af æfingunni um morguninn.

Úrslitin urðu þessi:

Allir þátttakendur1. sæti: Harpa Óskarsdóttir sem söng lagið I am yours (Röddin) en Harpa er þátttakandi í Röddinni hjá Siggu Beinteins og Maríu Björk.

2. sæti: Hallgrímur Hrafn Guðnason sem söng Evróvisjónlagið Satellite.

3. sæti: Halldór Ívar Stefánsson sem söng lagið Draumur um Nínu. Halldór er hér í annað skipti í sumar og kom líka í fyrra ...

(Ef einhver veltir því fyrir sér að sigurvegararnir skuli allir bera nafn sem byrjar á H skal það tekið fram að það er einskær tilviljun.) Smile

TískusýningargengiðAðrir frábærir þátttakendur voru: Alma Maureen Vinson sem söng lagið The Climb, Karítas Birna Eyþórsdóttir með lagið Hot´n Cold, Íris Míranda Bonilla söng lagið Love me tender, Signý Helga Guðbjartsdóttir söng lagið Hlið við hlið og Sigríður Eydís Gísladóttir söng lagið Stál og hnífur.

Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjöl og verðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin.

TískusýningEftir frábæra frammistöðu þessara söngvara fór tískusýningin fram og var hún alveg æðisleg, eins og æfingin gaf svo góð fyrirheit um.

 

Í kvöldkaffinu var brauð og safi á boðstólum og síðan tók draumalandið við eftir lestur.

 

Myndir frá deginum er að finna hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d5.html

 


Húllumhæ í brakandi blíðu

Gaman að vaðaHúllumhædagurinn setturFjórði dagurinn hófst með morgunverði að vanda og svo var haldið á námskeiðin - sem var ekki að vanda.

EN ... þar sem húllumhædagur var fram undan riðlaðist venjuleg dagskrá á þennan hátt. Þannig var hægt að hafa húllumhæ samfleytt frá hádegi og fram á kvöld með m.a. súkkulaðivöfflum  inn á milli ...

 

En byrjum á byrjuninni ...

 

Allt var í sómanum á námskeiðunum. Íþróttakrakkarnir skelltu sér í smágönguferð og fannst frekar skemmtilegt að geta vaðið. Mikið var skapað í myndlistinni og kvikmyndagerðin vann að Tímavélinni.

FánaleikurinnFánaleikurinnÍ hádeginu bauð eldhúsið góða upp á grjónagraut og melónur í eftirmat. Nammi, namm, en börnin vissu ekki að þetta var rétt upphafið að dýrðarmatardegi. Pítsan deginum áður var bara upphitun.

Málin voru rædd á hádegisfundunum með umsjónarmönnunum sem sagði þeim allt um dagskrá dagsins og svo var líka talað um bréfin sem hafa borist umsjónarmönnunum og mikilvægu skilaboðunum sem þar er að finna. Börnin neita að gefa nokkuð upp um efni bréfanna, segja það algjört leyndarmál. 

 

Síðan hófst sjálfur húllumhædagurinn með pomp og prakt. Starfsmenn klæddust skrautlegum og skringilegum búningum í stíl við hátíðarhöldin. Davíð var t.d. bláa kökuskrímslið en ekki mjög ógnvekjandi þó.

KókosbollukappátSápukúlusprengikeppniFánaleikurinn, sem alltaf er byrjað á, var æsispennandi. Börnin skiptust í tvö lið; Draum og Martröð.

Krakkarnir í Martröð fengu blá strik á kinnar og Draumabörnin rauð.

Svo var barist um klemmur og fána í góða stund. Leikurinn endaði á jafntefli og allir voru sáttir.

 

Kókosbollukappát fór síðan fram og vildi starfsfólkið endilega sýna börnunum hvernig ætti að fara að og hóf keppni. Líklega langaði það svona í kókosbollu og hélt að börnin sæu ekki í gegnum þetta. Hmmm.

 

Vöfflur, nammmmmSkartgripagerðÍ góða veðrinu á útisvæðinu var líka haldin sápukúlu-sprengikeppni og hún var svoooo skemmtileg. Við fengum að sjálfsögðu njósnahnött frá NASA til að fylgjast með hversu margar kúlur væru sprengdar og urðu þrír krakkar jafnir að stigum/kúlum. Það voru Halldór Ívar Höfrungur, Karítas Birna Sæljón og Magni Rúnar Höfrungur.

Einnig var vinabandagerð og hægt að fá bandfléttur og tattú. Á útisvæði var líka sippukeppni þar sem Ægir Örn Höfrungur gerði sér lítið fyrir og sigraði. Í keilukeppninni sigraði Guðmundur í Höfrungum.

Þegar kom að kaffinu voru ýmsir orðnir óþreyjufullir þar sem ilmur af vöfflum barst um allt svæðið og ærði upp sultinn. Vöfflurnar voru bornar fram með súkkulaðiglassúr og rjóma - eða sultu, bara eins og hver og einn vildi. Flestir kusu súkkulaðið, enda eru nýbakaðar vöfflur með súkkulaði og rjóma alveg einstök upplifun að smakka. Prófið bara. Tounge

Eftir kaffi var heilmargt í boði, áframhaldandi tattú og bandfléttur, og svo var skartgripagerð, andlitsmálun, keilukeppni (Wii) og fjör á útisvæðinu. 

María PotterHúllumhæMargir skelltu sér í biðröð til að hitta spákonuna ógurlegu, Maríu Potter. Hún svaraði einni spurningu frá hverju barni og var heldur betur spúkí. Falin á bak við tjöld ... og með yfirvaraskegg. Ekki voru allir vissir hver þetta væri en hún líktist óneitanlega prakkaranum Maríu umsjónarmanni. Ótrúlega gaman, sögðu krakkarnir þótt þetta væri bara grín.

Skartgripagerðin var líka mjög vinsæl og margir flottir skartgripir urðu til.

Tinna, gamall starfsmaður, kom í heimsókn og hjálpaði til við að gera bandfléttur á meðan hún rifjaði upp skemmtilegar minningar.


Börnin voru mikið úti og voru hálfdösuð eftir daginn. Það var ljúft að setjast niður í matsalnum í kvöldmatnum og snæða grillaðar pylsur með tómat, sinnepi og steiktum. Matráðskonurnar hljóta að vera vinsælustu starfsmennirnir eftir þessa frammistöðu.

Popp á bíókvöldiBíósýning var haldin um kvöldið og í hléinu, eða kvöldkaffinu, var vitanlega boðið upp á popp og Svala.

Þau voru uppgefin en alsæl börnin sem lögðust á koddann. Svo var bara lesið og lesið þar til Óli lokbrá kíkti við ...

Frábær dagur með frábærum krökkum.

 

Myndir frá degi 4 eru hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d4.html

 


Diskó á degi 3 ... og margt, margt fleira

KertagerðDagur 3 hófst með staðgóðum morgunverði og síðan var nóg við að vera. Íþróttahúsið var vinsælt, útisvæðið, sundlaugin og svo var boðið upp á kertagerð sem féll vel í kramið. Þau sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum fóru á karaókíæfingu.

Kort og kertiKertagerðin er alltaf mjög skemmtileg og vinsæl. Ellen hellti varlega vaxi í bláskel fyrir hvern og einn, settur var kveikur og síðan þegar vaxið kólnaði var hægt að skreyta það á allan máta. Það var hægt að nota glimmer, hrísgrjón eða baunir og kertin urðu ógurlega flott hjá krökkunum.

Kakósúpa með tvíbökum var í boði í hádeginu og þótti sérlega góð. Við höfum heyrt frá sumum börnum að þetta sé besta kakósúpa í heimi en seljum það svo sem ekki dýrara en við keyptum það, góð er hún þó. Ávextir í eftirmat settu síðan punktinn yfir i-ið.

Eftir matinn funduðu börnin með umsjónarmanni sínum að vanda og bar sitt af hverju á góma. Bréfin til umsjónarmanna voru rædd, eða mikilvægt innihald þeirra, og sitt af hverju sem lá börnunum á hjarta. Þessir fundir ýta hópnum vel saman, börnin fá að vita hvað er í boði þennan dag og margt, margt fleira. Það er komið inn á margt uppbyggjandi og gott á þessum fundum.

Síðan var haldið út í íþróttahús þar sem starfsmenn léku leikrit fyrir börnin. Leikritið hefur í sér sterkan forvarnaboðskap og kemur inn á svo margt hvernig hægt er að bregðast við ýmsum aðstæðum sem maður getur lent í. Viðbrögð við stríðni og hvað hópurinn getur verið sterkur þegar hann sameinast um að kæfa slíkt í fæðingu, að stela eða ekki stela og margt fleira. Það var komið inn á hættuna af því að adda hverjum sem er á MSN eða Facebook og fara upp í bíl hjá ókunnugum. Snæfríður með Song og SingÁhorfendurSama hversu oft brýnt er fyrir börnunum að t.d. fara aldrei upp í bíl hjá ókunnugum þá geta þau gleymt öllu um leið og þau heyra t.d. minnst á litla (upplogna) hvolpa sem þurfa á þeim að halda. Sterkara er talið að sjá atburðina og það varð kveikjan að þessu leikriti sem hefur verið sýnt árum saman í Ævintýralandi í ýmsum útgáfum. Þrátt fyrir alvarlegan undirtón er þetta bráðfyndið leikrit og svo sannarlega hægt að hlæja að ýmsu þar, eins og Song þegar hann fullyrti við Snæfríði að hún ætti sko að fara upp í bíl hjá öllum - alltaf. Þegar yngri börnin sjá þetta leikrit má alltaf greinilega heyra hneykslan þeirra yfir bullinu í honum Song sem hún Sing leiðréttir snarlega en Snæfríður hlustar sem betur fer alltaf á Sing.

Námskeiðin gengu mjög vel og okkur tókst að komast að því að stuttmyndin sem börnin í kvikmyndagerð eru að búa til heitir Tímavélin. Meira fengum við ekki að vita í bili en það hvílir alltaf heilmikil leynd yfir námskeiðunum þar sem allt á að koma á óvart á lokakvöldvökunni. Þótt við lofuðum að segja engum (nema blogginu) þá var lítið hægt að fá upp úr þeim en við reynum áfram. Hjá listaverkagerðinni er verið að vinna að því að ákveða þema sýningarinnar og það ætti að vera komið á hreint fyrir næstu færslu. Íþróttahópurinn hoppar svo mikið og skoppar að það er engin leið að komast að krökkunum og fá nokkuð upp úr þeim ... allt kemur í ljós síðasta kvöldið.

Hluti hópsins fór á reiðnámskeið og tók með sér nesti og nýja skó. Hinir fóru í kaffi og hesthúsuðu auðveldlega köku og tekexi með heimalöguðu marmelaði í miklu magni.

Hlaupið til pítsuNamm, pítsaÍþróttahúsið varð fyrir valinu hjá mörgum eftir kaffið, aðrir slökuðu á í Spilaborg eða skemmtu sér á útisvæðinu. Einnig var haldin æfing fyrir leyni-tískusýninguna sem verður haldin strax á eftir hæfileikakeppninni næstsíðasta kvöldið. Mikill spenningur er í gangi hjá þeim hópi stráka og stelpna sem ætla að sjá um hana og hún á að koma á óvart - og vera meira grín en alvara.

Sérlega góðan matarilm lagði úr eldhúsinu þegar börnin fóru inn í matsalinn og í ljós kom að snilldarkokkarnir okkar (Sigga Hall og Gordonía Ramsay) höfðu bakað pítsur og ekkert smávegis góðar pítsur. Börnin höfðu skipt um föt fyrir matinn og farið í sitt fínasta púss, eins og konungsveisla væri fram undan. Þótt maturinn væri við hæfi flottustu prinsa og prinsessa var það þó ekki ástæðan, heldur það að fram undan var brjálað fjör ... eða DISKÓ!!!

 

Diskó friskóVinsælt tattúÍ danssalnum (ókei, diskóherberginu) var búið að skreyta allt með seríum og diskóljósi, flott danstónlist hljómaði og reykvélin lék stórt hlutverk að vanda. Mikið var dansað upp um alla veggi og loft, svona nánast, og svo var hægt að slaka á inn á milli og fá tattú og/eða bandfléttur í hárið hjá umsjónarmönnunum. Rosalega skemmtilegt kvöld.

Ávextir voru snæddir í kvöldkaffinu og svo var það bara hátt, burst og les. Ekki leið á löngu þar til ró færðist yfir allt á Kleppjárnsreykjum.

Myndir frá deginum er að finna hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d3.html

 


Ævintýradagur 2

Nokkrir GullfiskarHoppað á útisvæðiDagur 2 var ótrúlega skemmtilegur og ævintýraríkur - alveg frá morgni og langt fram á kvöld.

Að vanda var byrjað á því að fá sér eitthvað gott í gogginn á hlaðborðinu en þar var í boði sitt af hverju; hafragrautur, súrmjólk, kornflakes, ristað brauð með áleggi, m.a. osti og heimalöguðu marmelaði.

Þegar allir voru orðnir saddir og sælir voru stöðvar opnaðar. Íþróttahús, Spilaborg og sundlaugin. Einnig var haldin fyrsta karaókíæfingin en það er vinnuheiti fyrir æfingar undir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann sem haldin er næstsíðasta kvöldið. Einnig var boðið upp á bæði korta og dagbókargerð. Þar komust færri að en vildu svo framhald verður um helgina, eða á sunnudagsmorguninn fyrir þá sem misstu af.

Núðlusúpa ásamt smurðu brauði með alls kyns góðu áleggi var í boði í hádeginu og svo héldu börnin á hádegisfundi, hver hópur með sínum umsjónarmanni. Umsjónarmaðurinn sagði hópnum sínum frá því að honum hefði borist bréf, hann hefði verið vakinn á furðulegan máta með því að bréfinu var fleygt í hann og bréfberinn var horfinn áður en umsjónarmaðurinn gat opnað augun ... Í bréfunum voru afar mikilvæg skilaboð til barnanna og ... framhald á morgun. Síðan var haldið á námskeiðin góðu.

ListaverkagerðHandritsvinna í kvikmyndagerðBörnin í listaverkagerðinni fóru strax í fullan gang undir styrkri stjórn myndlistarkennarans en í lok dvalarinnar, eða síðasta kvöldið, verður haldin myndlistarsýning með pomp og prakt. Þetta tímabilið eru börnin í eldri kantinum, eða 10-12 ára, og listaverkagerðin fellur meira í kramið hjá þeim en grímugerðin sem er alltaf mjög vinsæl hjá yngri börnunum.

Krakkarnir í kvikmyndagerð sátu sveitt við að semja handrit að stuttmyndinni sem verður gerð en það hefur komið best út að nokkrir litlir hópar vinni saman að handritum og síðan verði þau sameinuð þannig að allir fái eitthvað til málanna að leggja. Í sumar hafa orðið til þvílík snilldarhandrit og alveg stórskemmtilegar stuttmyndir úr þeim.

Íþróttahópurinn var líka í góðu stuði og margt var brallað í íþróttahúsinu sem væntanlega kemur í ljós á lokakvöldvökunni hvað verður .... Mögulega verður íþróttahópurinn tengdur danshópnum og án efa kemur eitthvað ótrúlega skemmtilegt koma út úr því.

Ljúffeng sumarbúðasandkaka var á boðstólum í kaffinu og einnig tekex með marmelaði sem er alltaf svoooo vinsælt.

Eftir kaffið var útisvæðið opið í glampandi sólskini, einnig Spilaborg og herbergin sem gott var að slaka á í og bera á sig after sun.

HárgreiðslukeppniHárgreiðslukeppniSvo var líka haldin hin vikulega hárgreiðslukeppni. Keppendur sýndu mikla hæfileika við að greiða á sem fjölbreytilegastan hátt. Svo kom að því að dómnefnd þurfti að velja og það var ekki auðvelt ...

Í fyrsta sæti varð Erla Svanlaug sem greiddi Halldóru Veru.

Í öðru sæti varð Daníela Rán sem greiddi Hrafnhildi.

Í þriðja sæti urðu tvö lið; Hera Oddný sem greiddi Magna Rúnari og Svanhildur Ósk sem greiddi Ólöfu Sigurlínu.

Frumlegasta greiðslan: Sigríður Eydís sem greiddi Rósu.

Aðrir snilldarþátttakendur (meistarar sem módel): Írena Líf, Hlédís, Guðmundur Þór, Sigurður Heiðar, Hallgrímur Hrafn, Hörður Gunnar, Níels Birkir, Bárður Árni, Eva, Alma Maureen, Alexandra, Katrín Rut, Karen, Eyjólfur Júlíus, Eydís Bára og Signý Helga

Í kvöldmat var steiktur fiskur og hrísgrjón og val um karrísósu og súrsæta sósu. Nammmm!

Fjörið var í raun rétt að hefjast ... kvöldið var nefnilega eftir.

 

Höfrungar í brennókeppniDraugaleikurinnEftir mat var haldið út í íþróttahús þar sem æsispennandi brennókeppni fór fram milli hópanna og höfðu Höfrungar sigur eftir mikið fjör.

Síðan var það sjálfur draugaleikurinn en tveir hugrakkir úr hverju liði eru sendir á harðaspretti inn í draugalegt herbergi þar sem þeir þurfa að leysa þraut í hinum enda þess. Hávær draugatónlist, dimmt herbergi með tveimur draugum í og ekki síst reykur úr reykvélinni okkar gerði þetta enn meira spennandi. Sigurvegarar í draugaleiknum voru Sæljónin knáu en þau þutu nánast á ljóshraða framhjá draugum og leystu þrautina eins og þau hefðu aldrei gert neitt annað. Í lokin fengu allir að kíkja inn og láta „hræða sig“ svolítið. María lék aðaldrauginn og Dagbjört aðstoðardraug. Þær voru sérlega hrollvekjandi í hlutverkum sínum og fengu ýmsa til að skrækja hástöfum. 

Smurt brauð með uppáhaldsáleggstegund hvers og eins, ásamt safa, var í boði í kvöldkaffinu og síðan var ekki farið að sofa. Onei.

LiðleikakeppninFyrst var nefnilega krafta- og liðleikakeppni með náttfataþema. Mikið fjör og allir fóru mun liðugri upp í rúm en ella eftir að hafa burstað tennurnar. Svo var bara lesið þangað til svefninn tók völdin.

 

Frábær dagur frá upphafi til enda. Smile

Myndir frá degi 2 er að finna hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d2.html

 


Diskósund á fyrsta degi!

Rútan komin!Á leið í gönguferðUm tvöleytið í gær fóru fyrstu börnin að tínast á Kleppjárnsreyki, enda tímabil 6 að hefjast og fljótlega birtist svo rútan með heilan helling af hressum og skemmtilegum börnum. 

Umsjónarmennirnir fóru síðan hver með sinn hóp um svæðið eftir að farangurinn var settur inn á herbergin. Sýningarrúnturinn gekk vel en mjög margir af hópnum hafa þó verið áður í Ævintýralandi og könnuðust vel við sig. Tvær stelpur voru að koma í annað skiptið í sumar!

 

Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og svo var nóg af melónum líka.

 

Pool er ekkert púlFjör í íþróttahúsinuEftir kaffið hittust allir í íþróttahúsinu þar sem kynning á starfsfólki og námskeiðum fór fram. Íþróttanámskeiðið var langvinsælast að þessu sinni og kvikmyndagerðin og listaverkagerð fylgdu fast á eftir. Þannig að það verður mikið hoppað og skoppað þessa vikuna, bæði í íþróttahúsinu og utandyra. Veðrið í Ævintýralandi hefur verið ævintýralega gott sem af er sumri og við vonum auðvitað að það haldi áfram þótt einn og einn dagur komi þar sem lognið ferðast hratt um og dropar komi úr lofti. Það er a.m.k. nóg við að vera inni þá daga sem veðrið býður ekki upp á jafnmikla útiveru og vanalega.

Börnin völdu sér líka álegg á brauðið í kvöldkaffinu og safategund en til skiptis er boðið upp á ávexti og brauð fyrir svefninn.

SundDiskósundStöðvar voru opnar eftir kaffi; útisvæðið, Spilaborg og íþróttahúsið. Ýmis leiktæki, m.a. tvö trampólín eru á útisvæði, í Spilaborg eru spil í tugatali, leikföng, bækur og blöð, einnig borðtennisborð og pool. Í íþróttahúsinu eru fjöldinn allur af skemmtilegum leiktækjum, dýnur og bara allt sem gott íþróttahús hefur upp á að bjóða.

Veðrið var mjög gott, sól og hiti, og ekki amalegt að vera úti. Flestir fóru á milli stöðva og vildu prófa sem flest og það var mikið fjör á öllum stöðum. Nokkrir skruppu í gönguferð og fannst ekki leiðinlegt að geta fleytt kerlingar ...

Í kvöldmat var kjöt og spagettí sem féll vel í kramið hjá börnunum sem borðuðu ekki bara vel - heldur mikið!

Kerlingar fleyttarSíðan var haldið í sund og ekkert venjulegt sund, heldur diskósund þar sem reykvélin fékk að blása og heilmikil stemmning ríkti. Það var dansað á bakkanum, hoppað út í laug og svamlað og svo slakað á í heita pottinum, bara eftir því hvað hvern langaði.

Tíminn leið hratt, eins og alltaf þegar það er gaman, og svo var allt í einu komið að kvöldkaffinu. Ávextir runnu vel niður og þegar allir voru háttaðir var boðið upp á kvöldsögu fyrir hvern hóp, framhaldssögu sem umsjónarmaðurinn les. Hóparnir ráða því hvort þeir vilja sögu, sumir vilja bara ná sér í bók á hinu fjölbreytta bókasafni Ævintýralands og lesa sjálfir. 

Þetta var góður fyrsti dagur og hópurinn alveg frábær!

Myndir frá deginum er að finna hérna:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d1.html


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband