26.7.2009 | 12:25
GARG og gaman
Börnin þutu út úr óhugnanlegu herberginu þar sem draugarnir réðu ríkjum. Undarleg hljóð heyrðust, tónlistin var óbærileg og allt í myrkri. Þau öskruðu og görguðu og svo .... úps, stopp. Förum aðeins til baka og tökum allt í réttri röð.
Dagurinn hófst á frábæru morgunverðarhlaðborði sem bíður barnanna dag hvern þegar þau eru komin á ról. Þar mátti hafragrautur, súrmjólk, kornfleks, ristað brauð og fullt af áleggi, gott ef ekki leynist þarna kavíar ... (grín).
Eftir morgunverð var útisvæðið opið, sundlaugin og íþróttahúsiðog Gummi æfði karaókíþátttakendur og Guðrún bauð þeim sem vildu að koma með í gönguferð.
Í hádegismat var núðlusúpa og með henni smurt brauð með eggjum, kæfu og gúrku. Eftir matinn var daglegur hádegisfundur hvers hóps með umsjónarmanni sínum.
Námskeiðin tóku svo við og í listaverkagerð voru m.a. búin til stórkostleg listaverk, málað á striga sem gerður var úr bleyttu gifsi, eða eitthvað svoleiðis magnað. Kvikmyndagerðin hóf tökur og er handritsgerðin búin og allt farið af stað. Leiklist og grímugerð sameinuðust og í dag verða grímurnar málaðar, síðan handritið fínpússað. Dans er æfður á fullu í dansinum hjá Pollý og hoppað og skoppað í íþróttunum, mikið skemmtilegt fyrirhugað að gera á hjá öllum á lokakvöldvökunni.
Eftir kaffi var spilaborgin opin, útisvæði, íþróttahús og ... hárgreiðslukeppnin fór fram. Að þessu sinni tóku bara stelpur þátt í henni en síðast voru strákar hátt í helmingur þátttakenda. Á heimasíðunni, www.sumarbudir.is, má finna fjölda mynda frá keppninni. Verðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin, villtustu hárgreiðsluna og þá frumlegustu. Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjöl.
Pítsur voru í kvöldmatinn og hefur sjaldan farið jafnmikið magn af mat á jafnstuttum tíma og þá. Hvílíkt góðar pítsur.
Mörk óttans voru síðan haldin en það er hrikalega spennandi leikur þar sem skottaleikur, spurningakeppni, ógeðsdrykkja og draugahús koma við sögu. Tveir til fjórir aðilar úr hverjum hópi tókust á við hverja þraut fyrir hönd hópsins síns, algjörar hetjur. Eftir æsispennandi draugahúsleik tók Gummi niður draugagrímuna og hneigði sig við mikið lófaklapp.
Umsjónarmenn skáru síðan niður ávexti ofan í börnin sín og eftir kvöldkaffið var lesin framhaldssagan og síðan farið að sofa. Frábær dagur á enda runninn.
Æsispennandi drauga- og pítsukveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
P.s. Fullt af myndum á heimasíðunni, www.sumarbudir.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2009 | 00:50
Æðislegur hópur 7 - fyrsti dagur
Frábær og skemmtileg börn, sem eiga án efa eftir að skemmta sér vel næstu vikuna, mættu í Ævintýraland í dag.
Veðrið var nú bara ágætt, ögn kaldara en hefur verið hingað til en allt í lagi þegar sólin skein.
Í rútunni fengu börnin límmiða í barminn með nafni sínu á og litur miðans sagði til um í hvaða hópi börnin væru. Bleikur miði: Hafmeyjar, gulur miði: gullfiskar og svo framvegis. Svo biðu gulu, bleiku, rauðu, fjólubláu, bláu og brúnu umsjónarmennirnir eftir hópunum sínum og heilsuðu upp á börnin sín. Umsjónarmennirnir halda utan um hópinn sinn allan tímann, vekja börnin á morgnana, borða með þeim og lesa framhaldssögu fyrir þau fyrir háttinn.Þetta vekur mikla öryggiskennd hjá börnunum, þau geta reyndar leitað til allra starfsmanna en það er svo frábært að eiga einhvern einn. Hver umsjónarmaður er með um tíu börn í sínum hópi.
Í íþróttahúsinu fór fram kynning á starfsfólkinu og námskeiðunum. Þau eru á námskeiði alla vikuna, tvo tíma í senn. Listaverkagerð, kvikmyndagerð, íþróttir, grímugerð, dans. Flestir völdu kvikmyndagerð (33 börn) næst á eftir var það dansinn, svo listaverkagerð, síðan íþróttir og grímugerð. Afrakstur námskeiðanna verður sýndur á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið, leikrit, stuttmynd, listsýning, íþróttasýning, danssýning ... alltaf glæsilegar sýningar.
Það verður þó nóg við að vera öll kvöld fram að því. Leikurinn ógurlegi, Mörk óttans, með spurningakeppni, skottaleik, ógeðsdrykk og draugaherbergi ... nánar um það annað kvöld, Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn, bíókvöld, diskótek og svona.
Já, og svo spilar maturinn stórt hlutverk, hann er sérlega barn-vænn. T.d. verða heimabakaðar pítsur annað kvöld ... nammi, namm.
Börnin hafa mikið val, það er aldrei eitthvað eitt eða tvennt í boði, minnst þrennt og var útisvæðið, Spilaborgin (spil, leikir, bækur, borðtennis, pool, fótboltaspil, leikföng ofl) og frábæra íþróttahúsið opið og gátu börnin kynnst þessu öllu saman vel í dag.
Skúffukakan í kaffinu vakti mikla lukku og einnig voru ávextir í boði. Kvöldmaturinn var ógurlega góður, kjöt og spagettí sem börnin gleyptu í sig í tonnatali.
Eftir kvöldmat fóru margir í sund og heita pottinn, einnig Spilaborg, útisvæðið eða kláruðu að gera kósí í herberginu sínu og höfðu það notalegt þar.
Í kvöldkaffi voru ávextir og þegar allir voru komnir upp í rúm byrjaði umsjónarmaður að lesa fyrir hópinn sinn framhaldssögu. Það er frábært að sjá hvað sá góði siður hefur róandi og góð áhrif á börnin. Oft er auðvitað mikið stuð fyrsta kvöldið og erfitt að sofna fyrir spenningi en umsjónarmennirnir fara ekki fyrr en ró er komin á og þá taka næturverðirnir við.
Frábærar sumarbúðakveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
P.s. Fullt af nýjum myndum á heimasíðunni, www.sumarbudir.is, tímabil 7, dagur 1.
Bein leið þangað:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t7-d1.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2009 | 13:39
Skemmtilegt myndband - íþróttanámskeið á tímabili 4
Íþróttahópur tímabils 4. Inga Lára, umsjónarmaður og íþróttanámskeiðaséní, útbjó þetta myndband.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2009 | 00:50
Ævintýrabarkinn, lokakvöldvaka og önnur skemmtilegheit
Gærdagurinn hófst á morgunverðarhlaðborði að vanda en síðan var sitt af hverju í boði. Spilaborg var opin, íþróttahúsið, útisvæðið og sundið sem var vinsælast en nokkrir æfðu sig fyrir kvöldið, Ævintýrabarkann sjálfan.
Í hádeginu var pasta í matinn með heimabökuðu hvítlauksbrauði, algjört æði bara.
Eftir hádegisfundina með umsjónarmönnunum voru námskeiðin á dagskrá og voru börnin önnum kafin við að ljúka við æfingar, listaverk og slíkt því það styttist í lokakvöldvökuna.
Í kaffinu var gómsæt skúffukaka og einnig tekex með heimalögðuðu appelsínumarmelaði. Þeir sem eru á reiðnámskeiði fóru þangað kl. 16 og tóku með sér nesti.
Útisvæði, Spilaborg og íþróttahúsið voru vinsæl eftir kaffi. Það var glampandi sól og minni vindur en daginn áður.
Í kvöldmat var fiskur, hrísgrjón og karrísósa (ævintýrasósa a la Sigurjóna), tómatsósa fyrir þá sem hana kusu og svo var bara að drífa sig út í íþróttahús þar sem Ævintýrabarkinn fór fram.
Keppnin var stórskemmtileg en svona urðu úrslitin:
1. sæti: Hallgrímur Hrafn (Krummi) sem söng lagið Space Oddity með stæl og Gummi spilaði undir á gítarinn. (lengst til hægri)
2. sæti: Aldís Birta sem söng lagið Drífa (með Veðurguðunum). (önnur frá hægri)
3. sæti: Unnur Lilja, söng lagið All out of luck. (í miðið)
Aukaverðlaun fengu Levi (lengst til vinstri) sem söng lagið Ó María mig langar heim og Arnar sem söng lagið Pósturinn Páll og báðir sungu við undirleik Gumma.
Aðrir þátttakendur voru: Bergur Snorri, Diljá, Erla Svanlaug, Gyða, Kormákur Atli, Levi, Alexandra Diljá, Birgitta Ösp og Styrmir Hrafn. Allir fengu viðurkenningarskjöl og þrír efstu verðlaun.
Brauð og safi í kvöldkaffi og síðan sofnuðu allir vært, eins gott, annasamur dagur fram undan, lokadagurinn sjálfur.
Svo hófst nýr dagur, lokadagurinn og nóg var að gera. Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi og börnin lögðu síðustu hönd á það sem þau höfðu verið að vinna að alla vikuna. Eða næstsíðustu því aðeins meira var námskeiðast seinna um daginn.
Í hádegismat var skyr og einnig grjónagrautur sem börnin eru vitlaus í og þess vegna var ákveðið að bjóða upp á hann aftur. Einnig var smurt brauð.
Eftir hádegi byrjuðu börnin að pakka niður en að sjálfsögðu ekki fínu fötunum, þau átti sko að nota um kvöldið.
Börnin í kvikmyndagerðinni horfðu á stuttmyndir frá fyrri árum, enda myndin þeirra búin og verið var að klippa hana fyrir kvöldið. Nóg var að gera hjá hinum börnunum og svo var bara allt í einu komið kaffi.
Levi verður 9 ára á fardegi þannig að haldið var upp á það degi fyrr með því að syngja fyrir hann og svo fékk hann skreytta köku og gjöf. Afmælisgestirnir fengu að sjálfsögðu líka köku. Sungið verður fyrir Levi aftur á sjálfan afmælisdaginn.
Eftir kaffi var útisvæði, Spilaborg og íþróttahúsið opið og stór hluti barnanna fór í ruslatínslu. Þá er sópað, rusl á svæðinu tínt upp í poka og allt gert mjög fínt, allir fengu að sjálfsögðu verðlaun fyrir dugnaðinn.
Kvöldmaturinn, sjálfur lokakvöldverðurinn, samanstóð af hamborgurum, frönskum, sósu og gosi og ríkti algjör hátíðarstemmning.
Svo hófst lokakvöldvakan.
Íþróttahópurinn sýndi mikla fimi og skemmtilegheit í sýningu sinni og sýndi grímugerðin leikritið Dýraránið, mjög skemmtilegt leikrit þar sem bófar rændu gæludýrum úr gæludýrabúð. Álfadísin kom og bjargaði þeim en daginn eftir komu bófarnir aftur og að þessu sinni keyptu þeir gæludýrin, vildu ekki stela þeim.
Leiklistin sýndi leikritið Fallega veskið. Bófar stálu veski af túristum, þremur konum sem voru alveg í rusli yfir því, norn bjó til seið sem gerði alla heiðarlega og góða sem varð til þess að bófarnir skiluðu veskinu. Handritið var að sjálfsögðu samið af börnunum, eins og á öðrum námskeiðum.
Starfsfólkið sýndi leikritið Búkolla og fannst krökkunum það mjög svo fyndið.
Næst á dagskrá var sýning listaverkagerðar og kvöldvakan endaði með því að allir horfðu á stuttmynd kvikmyndagerðar, Ættarmót upp á líf og dauða, frábær mynd sem sló í gegn.
Í kvöldkaffinu voru ávextir og íspinni.
Þetta var sannarlega góð vika, frábærir krakkar sem skemmtu sér vel og mikil ánægja var að vera með. Bestu þakkir fyrir frábærar samverustundir.
Fyrirfram saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum en undir hádegi á morgun verður kveðjustundin.
Nýjar myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is, endilega kíkið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2009 | 12:28
Húllumhæ í roki, bíókvöld og vöfffffflur ...
Nokkuð hvasst var hjá okkur í gær en gott veður að öðru leyti.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi þar sem heilmikil dagskrá átti að hefjast eftir matinn, eða húllumhæ!
Grjónagrautur og melónur voru í hádegismatinn og mikið, mikið borðað!
Að hádegisfundum loknum var blásið til hátíðarhaldanna. Svanhildur sumarbúðastjóri með gjallarhorn og páfagaukinn Gorían (sem getur talað ef ýtt er á takka á honum) lýsti komandi hátíð sem minnir einna helst á 17. júní.
Byrjað var á fánaleiknum en þar skiptast börnin í tvö lið, Draum og Martröð. Þau eru máluð með stríðsmálningu og svo er barist um dýrmætar þvottaklemmur, brjálæðislega skemmtilegur ærslaleikur sem kemur öllum í gott stuð.
Þeir sem ekki vildu vera með fóru í Spilaborg og þar var m.a. boðið upp á bandfléttur í hár og fleira.
Í kaffinu var boðið upp á vöfflur með súkkulaði og rjóma og grétu börnin nánast af gleði yfir þeirri dýrð og borðuðu á sig gat, svona nánast.
Ekki var allt búið ... því margt var í boði eftir kaffi, m.a. tattú, bandfléttur, keilukeppni (Wii), skartgripagerð og spákonan ógurlega frá Borgarnesi, Jósefína Potter. Að vanda fannst krökkunum meira spennandi að giska á hver umsjónarmannanna væri í gervi hennar en það sem hún sagði. Aumingja Jósefína. En voða fannst krökkunum samt spennandi að fara til hennar. Íþróttahúsið var opnað þegar allir sem vildu höfðu farið til hennar.
Í kvöldmat voru grillaðar pylsur með öllu og börnin voru ekki óánægð með það.
Eftir matinn var bíókvöld og í hléinu fengu börnin popp og Svala.
Fleiri nýjar myndir eru komnar inn á heimasíðuna, www.sumarbudir.is, en þar má finna allar upplýsingar um starfsemina.
Við viljum líka vekja athygli á að 12 laus pláss eru á unglingatímabilið um verslunarmannahelgina en þá koma 12-14 ára börn. Dagskráin er aðeins öðruvísi þá og í stíl við hærri aldur. Ótrúlega spennandi vika!
Rok- og sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2009 | 23:43
Kertagerð, reiðnámskeið, sippkeppni, diskó og margt fleira!
Dagurinn hófst á morgunverðarhlaðborði að vanda, svona þegar allir voru búnir að bursta, greiða og klæða, og þegar allir voru orðnir vel saddir hófst dagskráin. Valið í morgun var um útisvæði, sippukeppni, sund, karaókíæfingu (fyrir þá sem eru skráðir í Ævintýrabarkann) og kertagerð.
Sippkeppnin var spennandi og sýndu ýmsir ótrúleg tilþrif. Í fyrsta sæti varð Eyjólfur Júlíus, í öðru sæti Karen Líf og því þriðja María Ösp.
Í kertagerð finna börnin sér góðan stein sem þau síðan mála fallega. Síðan mála þau skel sem vaxið fer í, ásamt kveik, og ... kertið tilbúið þegar búið er að líma skelina á steininn. Ótrúlega flott kertalistaverkin sem þau gerðu og þegar þau voru búin hoppuðu þau út í leik.
Sundið var frábært að vanda og útisvæðið líka ... í þessu líka góða veðri. Ég veit varla hvernig við hefðum farið að ef sólin hefði skinið líka, svo heitt var úti ...
Rosalega góð kakósúpa með tvíbökum var í hádegismatinn og svo ávextir á eftir. Allir saddir og sælir þegar haldið var á hádegisfundi.
Hirðljósmyndari Ævintýralands kíkti á hádegisfundina og þar var sitt af hverju í gangi. Kóparnir ræddu um einelti og hvernig væri hægt að hjálpa einhverjum sem lenti í slíku, sumir töluðu um málið af reynslu. Ýmis umræðuefni voru í gangi, hjá Krossfiskunum var þetta afslöppuð stund og heilmikið spjallað í rólegheitunum. Um nóg er að tala á þessum fundum og svo er líka farið í skemmtilega leiki með umsjónarmanninum sínum sem tekur stöðuna á líðan barnanna og nær vel til hvers og eins.
Skömmu fyrir kl. tvö var leikrit í boði fyrir börnin, leikrit sem er bæði fyndið og alvarlegt og fjallar m.a. um skaðleg áhrif eineltis, leyndarmál sem má ekki þegja yfir, hættulega vini á Facebook sem eru kannski ekki það sem þeir sýnast, að fara upp í bíl hjá ókunnugum og þessháttar. Hluti starfsmanna lék krakka og fleiri persónur sem komu við sögu.
Davíð, 11 ára, (leikinn af Davíð umsjónarmanni) fékk góð ráð hjá góðuráðavélinni Ping og Pong en hann upplifði einelti á skólalóðinni. Það var sýnt og einnig hvernig góðu ráðin nýttust honum og síðar vinum hans sem voru í vanda og vissu ekki hver gat hjálpað þeim. Maður á bíl kom keyrandi og bað Davíð um að hjálpa sér með sæta hvolpa sem hann átti í vandræðum með. Þá komu raddirnar Sing og Song til sögunnar. Sing sagði að maður ætti aldrei að fara upp í bíl hjá ókunnugum en Song vildi meina að hann ætti að hjálpa manninum. Sem betur fór hlustaði Davíð á Sing og fór ekki upp í bílinn.
Börnin sátu grafkyrr og hlustuðu en hlógu nú stundum yfir ruglinu í Song eða einhverju sniðugu í leikritinu sem var reyndar bráðfyndið. Þeim fannst Davíð t.d. rosalega fyndinn þegar hann sagðist eiga erfitt með skapið í sér og sýndi það með geðvonskukasti en Ping og Pong ráðlögðu honum að telja upp á tíu áður en hann gerði nokkuð sem hann sæi eftir síðar. Flott ráð sem Davíð lofaði að nýta í framtíðinni.
Þetta leikrit verður örugglega aðalumræðuefnið á hádegisfundunum á morgun. Það er a.m.k. venjan.
Svo hófust námskeiðin.
Börnin í grímugerð eru byrjuð að mála grímurnar sínar. Á morgun verður fyrsta æfing á látbragðsleikritinu sem þau sýna svo síðasta kvöldið. Mjög líklega má sjá þar drauga, sjóræningja og kanínur svo fátt eitt sé talið.
Leiklistin æfði í dag í búningum og verður þetta greinilega afar spennandi leikrit þar sem bófar og rængingjar koma við sögu. Börnin semja alfarið handrit að leikritum, kvikmynd, látbragðsleikriti með þeirri hjálp sem þau þurfa ef þau biðja um hana.
Mikið fútt var í kvikmyndagerðinni en mikil leynd hvílir yfir stuttmyndinni sem verið er að gera. Börnin þar dönsuðu hvert af öðru fyrir framan vélina og fengum við ekkert að vita í hvaða tilgangi það væri, bara eitthvað sprell, reyndu þau að sannfæra okkur um ... Eina sem við vitum er að myndin á að heita Ættarmót upp á líf og dauða! Eins og við sögðum frá í gær.
Í listaverka-gerðinni var unnið með gifs í dag. Hvert barn bleytti lítinn bút af gifsi og þegar hann hefur þornað verður hægt að mála á hann æðislegt listaverk. Þau hafa ekki setið aðgerðalaus og skapað ýmislegt annað. Sýning þeirra verður án efa fjölbreytileg og flott.
Íþróttahópurinn æfir grimmt og náðum við rétt svo að taka eina mynd áður en okkur var næstum fleygt út úr íþróttahúsinu, algjört hernaðarleyndarmál í gangi á hverjum stað greinilega.
Heimabökuð sandkaka og melónur voru í boði í kaffitímanum og rann vel niður. Ef þau vissu bara hvað verður í kaffinu á morgun .... (vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma!!!!)
Útisvæðið og íþróttahúsið voru í boði eftir kaffi og hluti barnanna fór á reiðnámskeið. Guðrún okkar Fjeldsted hefur séð um þessi námskeið fyrir okkur í nokkur ár og allt hennar starf er til fyrirmyndar. Börnin á reiðnámskeiðinu voru eitthvað smeyk við að missa af einhverju spennandi í sumarbúðunum á meðan en við pössum að hafa alltaf eitthvað sem verður síðan aftur á dagskrá svo þau geti verið með í því líka. Þau komu alsæl til baka rétt fyrir kvöldmat.
Kjúklingur, franskar, sósa og gular baunir voru í kvöldmatinn. Börnin voru MJÖG ánægð með það, ekki síður og í gær þegar pítsurnar voru. Þau voru flott klædd, enda hátíð í kvöld, eða diskótek! Boðsmiðar höfðu gengið á milli fyrr um daginn þannig að nokkrir komu paraðir á ballið, frekar skemmtilegt! Ekki er ætlast til þess að börnin hafi orku í að dansa út í eitt þannig að ef þau vildu hvíla sig frá tjúttinu bauðst þeim að fá tattú og bandfléttur í hár. Það var ekki óvinsælt ...
Svo kom kvöldkaffið og var boðið upp á safa og brauð.
Allir sofnuðu síðan sáttir og sælir og eflaust þreyttir eftir viðburðaríkan dag en ekki fyrr en þeir höfðu hlustað á kvöldsöguna góðu hjá umsjónarmanninum sínum.
Funheitar diskókveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
P.s. Fleiri myndir frá deginum eru komnar inn á www.sumarbudir.is,
bein leið hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t6-d3.html
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2009 | 12:56
Myndband frá gærdeginum; skottaleikur, ógeðsdrykkur, draugahús og fleira
Hér kemur myndbandið góða sem tekið var í gær:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.7.2009 | 12:24
Hárgreiðslukeppni, pítsa og æsispennandi Mörk óttans
Dagur 2 hófst með morgunverðarhlaðborði þar sem hægt var að velja um m.a. súrmjólk, kornflakes, hafragraut og ristað brauð eða fá sér þetta allt saman ... sumir fara nú létt með að smakka allar "sortir".
Þá voru svæðin opnuð og í boði voru útisvæði, sund, íþróttahús og Spilaborg þegar leið nær hádeginu. Einnig æfingar fyrir Ævintýrabarkann, söngvara-og hæfileikakeppnina góðu. Ekki heyrðum við betur en Life on Mars með David Bowie væri æft af einhverjum snillingnum en ... þetta kemur allt í ljós þegar Ævinýrabarkinn fer fram á þriðjudagskvöldið.
Í hádeginu var boðið upp á núðlusúpu og heimabakað brauð, bara algjört æði!
Eftir mat var komið að daglegum hádegisfundi með umsjónarmanninum en þá fer umsj.m yfir stöðuna með hópnum sínum og einnig er farið í leiki ef þau langar.
Síðan hófust námskeiðin, grímugerðin, leiklistin og þetta allt en ákaflega mikla forvitni vakti þegar auglýsingar frá kvikmyndagerð birtust um allt hús. Ættarmót upp á líf og dauða, heitir bíómyndin og verður frumsýnd á miðvikudagskvöldið ... ekkert smá forvitnilegt!
Kaffið var drukkið úti, enda veðrið ekkert smá æðislegt! Sandkaka og milljón ískaldar melónusneiðar sem hurfu allar eins og dögg fyrir sólu.
Sitt af hverju var í gangi eftir kaffið en líklega bar hæst hárgreiðslukeppnin. Keppendur voru í kringum 30 og hátt í helmingur þátttakenda var karlkyns sem ekki gerist oft. Sjá má myndir á sumarbudir.is þar sem hvert einasta módel sést með flottu greiðsluna sína.
Í kvöldmat var pítsa ... heimabökuð og gómsæt. Allir borðuðu sig pakksadda ... líka þeir sem áttu eftir að drekka ógeðsdrykkkkkkkk, úúúúú en eftir kvöldmat hófst leikurinn hroðalega spennandi: Mörk óttans þar sem hver hópur keppir gegn hinum hópunum.
Íþróttahúsið hýsti Skottaleikinn skemmtilega og spurningakeppnina en svo var farið út fyrir íþróttahúsið til að drekka ógeðsdrykk en tveir úr hverjum hópi höfðu boðist til þess. Drykkurinn þótti ekki par girnilegur, eiginlega frekar viðbjóðslegur ... hverjum finnst súrmjólk með sinnepi góð eða hvað þetta er sem þessum eldhúskerlingum dettur eiginlega í hug að malla ofan í saklaus börnin ... hahaha. (Engar ljósmyndir fylgja skottaleik eða ógeðsdrykkju ... HELDUR KVIKMYND sem kemur inn á bloggsíðuna í dag)
Svo færði hópurinn sig inn í matsal en tveir úr hverjum hópi höfðu boðist til að sigrast á hroðalegum þrautum draugaherbergisins, sem er inn af matsalnum. Áhorfendur gátu setið í venjulegum sætum sínum í matsalnum og hvatt hetjurnar úr hópnum sínum. Þetta gekk ótrúlega vel ... eitthvað hafði nú spurst út til yngstu krakkanna að Gummi, hinn elskulegi umsjónarmaður, væri dulbúinn sem aðaldraugurinn svo þau voru frekar borubrött þótt þeim þætti þetta HRYLLILEG-a gaman, eins og ein 6 ára hetja orðaði það. Jú, þetta var nú bara hann Gummi og nokkrir unglingar (starfsmannabörn) léku litlu draugaskottin.
Eftir drauga-gamanið var komið að kvöldkaffi en hver umsjónarmaður skar niður epli og appelsínur fyrir hópinn sinn,
Gullfiskastelpurnar voru í miklu stuði og nokkrar fóru í koddaslag fyrir svefninn og var mikið hlegið en umsjónarmaðurinn las síðan kvöldsöguna þegar ærslabelgirnir voru komnir í kojur og smám saman færðist ró yfir allt. (ath. myndin til hægri er af Gullfiskum, ekki Krossfiskum)
Bestu stuð- og "drauga"kveðjur frá Kleppjárnsreykjum ...
Nýjar myndir á www.sumarbudir.is, tímabil 6, dagur 2 ... og svo er myndbandið komið inn á youtube og kemur á eftir inn á bloggið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2009 | 22:36
Frábært veður og ævintýrin að hefjast
Nýr hópur kátra krakka kom í sumarbúðirnar í dag. Mikill spenningur ríkti að vanda á meðan beðið var eftir rútunni og svo ók hún í hlað á réttum tíma og börnin streymdu út. Nokkur voru þegar komin, þau sem voru keyrð á staðinn.
Á leiðinni með rútunni sagði starfsmaður þeim í hvaða hópi þau væru og skellti límmiða framan á peysuna. Gullfiskur fékk gulan miða, Hafmeyja bleikan og svo framvegis. Svo biðu umsjónarmennirnir eftir ungunum sínum og á örskömmum tíma voru hóparnir allir á sínum stað.
Börnunum var sýnt svæðið og fór hver hópur fyrir sig með umsjónarmanninum í skoðunarferð.
Svo var bara komið kaffi og börnin voru boðin velkomin í mötuneytinu með skúffuköku sem var nú ekki óvinsælt.
Eftir kaffi var haldið út í íþróttahús þar sem starfsmanna- og námskeiðakynningar fóru fram. Börnin geta valið um námskeið í ýmsu, m.a. kvikmyndagerð, íþróttum, grímugerð, leiklist, dansi og listaverkagerð.
Á morgun hefjast síðan námskeiðin og standa í tvo klukkutíma á dag allan tímann. Síðan er afrakstur þeirra sýndur á lokakvöldvöku; íþróttasýning, myndlistarsýning, stuttmynd, grímulátbragsleikrit og leiksýning. Bara spennandi. Börnin völdu líka hvaða safategund og álegg á brauð þau vildu í kvöldkaffinu en slíkt er í boði til skiptis við ávexti.
Eftir kynninguna og val á námskeiðum var val um hvað gera skyldi fram að kvöldmat ... börnin fá alltaf val og það elska þau, enginn sem segir að nú fari allir í göngutúr eða allir að föndra. Einhverjir völdu útisvæðið, aðrir íþróttahúsið og enn aðrir Spilaborg en þar er afar margt í boði; pool, borðtennis, fótboltaspil, alls kyns borðspil, púsl að ótöldum milljón bókum sem hægt er að kíkja í. Syrpurnar með Andrési önd og félögum eru líklega vinsælastar en þær eru margar til í sumarbúðunum.
Í kvöldmat buðu Sigurjóna listakokkur og hitt snilldarfólkið í eldhúsinu upp á kjöt og spagettí sem rann vel ofan í mannskapinn.
Sitt af hverju var í boði eftir kvöldmat en sundlaugin var laaaaangvinsælust og fóru flestir þangað.
Þegar komið var að háttatíma völdu börnin lýðræðislega hvaða framhaldssaga yrði lesin en umsjónarmaður hvers hóps les fyrir hópinn sinn fyrir svefninn. Ótrúlega róandi og notalegt.
Oft gengur hálfilla að sofna strax á nýjum stað en sundlaugarferðin fyrsta kvöldið hjálpar alltaf mikið til við að ná ró.
Veðrið var rosalega gott í dag, algjör bongóblíða og spáin einstaklega góð fyrir morgundaginn líka þegar ný ævintýri hefjast. Þetta er afar góður hópur en meira en helmingur barnanna hefur verið áður í Ævintýralandi.
Eldheitar sólarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum þar sem sólarvörnin mun án efa fljóta í stríðum straumum á morgun ...
P.s. Myndir frá fyrsta degi eru á heimasíðunni, www.sumarbudir.is, tímabil 6, dagur 1.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2009 | 00:12
Frábærar sýningar á lokadegi
Mikið hefur þessi vika verið fljót að líða. Lokadagurinn var í dag og brottför á morgun.
Eftir staðgóðan morgunverð voru námskeiðin haldin. Ljúka þurfti listaverkum og æfa fyrir kvöldið. Námskeiðin voru einnig á dagskrá eftir hádegismatinn (skyr og smurt brauð), ásamt lokahádegisfundum með umsjónarmönnum sem fór að mestu í að pakka niður farangri ... nema fínu fötunum auðvitað. Þau átti að nota í kvöld.
Gummi sat sveittur við að klippa stuttmynd kvikmyndagerðarhópsins og gera allt tilbúið fyrir kvöldið og á meðan sátu börnin "hans" og horfðu á gamlar, rosalega skemmtilegar myndir frá fyrri tíð. Það kunnu þau sannarlega vel að meta., enda myndirnar hver annarri skemmtilegri.
Eftir kaffið (sandkaka og melónur) fóru einhverjir út í íþróttahús og aðrir í Spilaborg og útisvæði. Flestir tóku þó þátt í ruslatínslunni en þá er næsta svæðið í kringum sumarbúðirnar hreinsað og sópað. Allir fengu verðlaun fyrir.
Veðrið var bara dásamlegt.
Eftir hátíðakvöldverðinn þar sem boðið var upp á hamborgara, franskar, sósu og gos kom að lokakvöldvökunni sjálfri sem hófst í íþróttahúsinu.
Íþróttahópurinn byrjaði lokakvöldvökuna með glæsilegum ásadansi, sem var nú bara rétt byrjunin á sýningu þeirra, og síðan sýndu leiklistar- og grímugerðarhóparnir sameinuðu GogL frábært leikrit sem heitir Meistaraþjófarnir. Það var ekkert annað en stórkostlegt.
Starfsfólkið sýndi næst leikrit um Rauðhettu, hrikalega gelgju. en mamma hennar var eilífðargelgja, amman elliær, úlfurinn geðvondur, veiðimaðurinn alltaf fullur en riffillinn edrú og bjargaði málum. Dvergarnir sjö komu reglulega inn á sviðið til að kíkja á Rauðhettu. Jamm, stórlega ruglað leikrit sem börnin skemmtu sér konunglega yfir ...Mikið hlegið.
Þá var haldið inn í matsal en inn af honum er diskóherbergið þar sem sýning listaverkagerðar var. Frábær listaverk upp um alla veggi og borð vöktu mikla hrifningu allra viðstaddra ... sem voru allir.
Börnin fengu síðan kvöldkaffið sitt, ávexti, og síðan sýndi íþróttahópurinn myndband með sjálfum sér, mjög flott.
Þvínæst var börnunum boðið upp á ís ... jamm, lokakvöldið sjálft, og síðast sýndi kvikmyndagerðin stuttmyndina Klikkaður heimur. Hún var bæði fyndin og spennandi og stóð algjörlega undir væntingum, eins og öll hin atriðin.
Umsjónarmennirnir kláruðu framhaldssögurnar fyrir hópana sína þegar börnin voru komin upp í rúm og allir voru ánægðir með kvöldið ... og hlökkuðu líka til að fara heim og segja frá öllum ævintýrunum.
Takk fyrir okkur, þið voruð frábær.
Saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
P.s. Nýjar myndir eru á www.sumarbudir.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar