8.7.2009 | 01:05
Ævintýrabarkinn og fleira fjör
Mikið var um að vera í dag að vanda.
Eftir morgunverð var val um sund, íþróttahús og útisvæði og svo var æfing fyrir Ævintýrabarkann, söngvara- og hæfileikakeppnina sem var haldin í kvöld.
Veðrið var frábært þótt sólin skini ekki stöðugt, heldur sýndi sig bara af og til.
Um helmingur þátttakenda æfði lögin sem þeir ætluðu að syngja en hinn helmingurinn æfði aðra og ekki síðri hæfileika.
Tíminn leið hratt og allt í einu var kominn hádegismatur. Í dag var pasta og heimabakað hvítlauksbrauð með. Mjög, mjög gott.
Eftir mat var komið að hádegisfundunum og síðan námskeiðunum. Skömmu fyrir kaffi fór hópur á reiðnámskeið og fékk með sér gott nesti. Þau voru komin aftur fyrir kvöldmat.
Í kaffinu var skúffukaka og tekex með heimalöguðu marmelaði.
Eftir kaffi var útisvæði opið, íþróttahúsið og Spilaborg. Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin inn á herbergin sín og skiptu um föt - allir vildu vera fínir á Ævintýrabarkanum.
Í kvöldmatinn var fiskur, hrísgrjón og ævintýrasósa a la Sigurjóna (ógurlega góð karrísósa) og einnig tómatsósa fyrir þá sem vildu það heldur.
Ævintýrabarkinn var frábær skemmtun. Börnin sungu eða sýndu önnur flott atriði. Þegar dómnefnd hafði borið saman bækur sínar voru úrslitin þessi:
1. sæti: Magnús Anton Magnússon og Esra Elí Newman sem sýndu rosalega flott fimleikaatriði.
2. sæti: Kharl Anton Leigh sem tók Michael Jackson-dans
3. sæti: Bjargey Birgisdóttir og Diljá Sól Jörundardóttir sem sungu Maístjörnuna. Og Sigfinnur.
Aðrir þátttakendur í Ævintýrabarkanum:
Erla Svanlaug, Hrafnhildur, Ísabella Gná, Kristinn Hallur, Margrét Erla, Silja, Sólborg, Steinunn, Þórhildur Elísabet og Þorvaldur Máni.
Þeir sem lentu í fyrstu þremur sætunum fengu verðlaun og allir fengu viðurkenningarskjöl.
Í kvöldkaffinu var smurt brauð og safi. Afhentar voru viðurkenningar fyrir Mörk óttans, sápukúlusprengikeppnina, keilukeppnina og fleira.
Síðan var það bara kvöldsagan og draumalandið þar á eftir. Á morgun er lokadagurinn og hann er alltaf svolítið mikið öðruvísi en hinir dagarnir. Spennan í hámarki fyrir kvöldið, lokakvöldvökuna þar sem börnin sýna það sem þau hafa stefnt að alla vikuna á námskeiðunum, afraksturinn.
Fleiri nýjar myndir eru á heimasíðunni:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t4-d5.html
Bestu kveðjur úr góða veðrinu og góða skapinu á Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2009 | 21:57
Húllumhæ, vöfflur, afmælisbarn ... og Jósefína Potter
Í dag var húllumhædagurinn haldinn hátíðlegur þannig að dagskráin var aðeins frábrugðin venjulegum degi. Eftir að börnin vöknuðu, klæddu sig og borðuðu morgunverð af hlaðborðinu girnilega og góða var haldið á námskeiðin. Samfelld hátíðardagskrá var nefnilega fram undan eftir hádegið, og þá voru kaffitími og kvöldmatur talinn með ...enda hátíð þar líka eins og lesa má um hér aðeins neðar.
Hádegisfundir voru haldnir eftir æðislegan grjónagraut í hádegismatinn, plús melónur, og síðan var hátíðin sett af Svanhildi sumarbúðastjóra. Starfsfólkið var allt frekar furðulegt til fara, með skrýtna hatta, undarleg eyru og slíkt, bara fjör sem gerði stemmninguna enn meiri.
Að vanda hófst húllumhæið á fánaleiknum frábæra. Þar kepptu liðin Draumur og Martröð um að ná sem flestum þvottaklemmum af andstæðingnum og eftir mikinn hamagang sigraði Draumur, 10-2, flott afmælisgjöf fyrir einn Draumverjann, Jóhönnu Ósk, sem átti 12 ára afmæli í dag. Veðrið var algjörlega himneskt og nokkrir strákar rifu sig úr að ofan, hitinn var að fara með þá, sögðu þeir.
Einnig fór sápukúlusprengikeppni fram og boðið var upp á bandfléttur og tattú sem var sannarlega vinsælt. Það þarf að vera nokkuð oft með bandfléttur og tattú til að allir geti fengið á tímabilinu.
Flestar sápukúlur sprengdi Telma S. Í öðru sæti varð Sigfinnur og því þriðja Birta. Það er ekki auðvelt að sprengja svona margar sápukúlur á stuttum tíma eins og þau gerðu, æðislega flott hjá þeim.
Í kaffinu hélt hátíðin aldeilis áfram en þá var boðið upp á nýbakaðar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma.
Sumir fengu sér kannski bara súkkulaði, aðrir vildu sultu ... þetta var bara eins og hver og einn vildi. En flestir vildu súkkulaði og rjóma á vöffluna sína.
Afmælisbarnið var heiðrað sérstaklega, fékk skreytta vöfflu og afmælispakka. Sérleg afmælisterta, blá að lit, spilaði afmælissönginn fyrir hana og á eftir söng allur salurinn; börnin og starfsfólkið. Það er aldrei leiðinlegt að eiga afmæli í Ævintýralandi. Til hamingju, Jóhanna Ósk hafmeyja, með 12 ára afmælið.
Svo hélt gleðin áfram þegar allir voru úttroðnir af vöfflunum gómsætu. Flesta langaði að heimsækja spákonuna spennandi, Jósefínu Potter frá Borgarnesi, mjög svo dularfulla kerlu sem segir eitthvað fallegt þótt hún sé ... ja, furðuleg. Börnin reyndu mikið að giska á það hver starfsmannanna þetta væri en auðvitað var þetta alvöru sko ... en þetta er aðalspennan við spákerluna, skiptir litlu hvað hún segir ... bara, hver ætli þetta sé? pæla þau.
Í matsalnum dunduðu nokkur börn sér við að búa til ægifagra skartgripi, önnur (aðallega strákarnir, hmmm, mjög skrýtið) voru í spennandi keilukeppni (tölvuleikur), enn önnur fengu tattú, bandfléttur, andlitsmálun eða fóru í vinabandagerð. Svo var útisvæðið vinsælt líka. Guðmundur Jökull sigraði með glæsibrag í keilukeppninni.
Grillaðar pylsur voru í kvöldmatinn og vöktu mikla lukku. Algjör hátíð sem endaði á bíókvöldi eftir kvöldmat. Í hléinu var boðið upp á popp og svala. ÆÐI!
Svo voru kvöldsögurnar lesnar fyrir hópana og allir sofnuðu rótt eftir viðburðaríkan dag.
Fleiri nýjar myndir eru inni á www.sumarbudir.is
Bein leið inn á dag 4:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t4-d4.html
Eldhressar húllumhækveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2009 | 00:42
Kertagerð, leikrit, kjúlli í matinn og stanslaust fjör á diskói
Eftir staðgóðan morgunverð var í boði að fara í sund, íþróttahúsið og útisvæðið.
Flestir kusu að fara í sund og íþróttahús en útisvæðið var líka vinsælt. Morguninn leið hratt og rétt fyrir hádegisverð var kósí að slaka af í herbergjunum í smástund.
Kakósúpa var í boði í hádeginu, með tvíbökum að sjálfsögðu, og svo voru ávextir í eftirrétt.
Þá hófust hádegisfundirnir, hver hópur með umsjónarmanni þar sem farið var yfir stöðu og líðan.
Þaðan var hlaupið út í íþróttahús þar sem starfsmenn fluttu leikrit fyrir börnin. Skemmtilegt leikrit með alvarlegum undirtóni þó. Þetta var forvarnaleikrit sem er leikið á hverju tímabili. Meðal annars tekið fyrir einelti og erfið leyndarmál. Þeir Ping og Pong (góðuráðavél) lumuðu á ýmsum góðum ráðum fyrir stelpu sem upplifði einelti á skólalóðinni og hún fór eftir þeim með góðum árangri. Krökkunum fannst þetta æðislegt leikrit og verður án efa mikið talað um það á næsta hádegisfundi.
Þá hófust námskeiðin. Grímugerð og leiklist sameinuðust og heita nú G og L ... eða gogl. Þau eru að búa til grímur, ýmist heilar eða hálfar. Þau sem ekki vilja gera grímur útbúa auglýsingar fyrir lokakvöldvökuna. Leikritið þeirra heitir Meistaraþjófarnir. Meira fengum við ekki að vita, enda alltaf mikið leyndarmál hvað verið er að gera.
Íþróttahópurinn er stór og æfir grimmt fyrir sýninguna á miðvikudagskvöldið, þau eru að gera smá myndband sem verður sett hingað inn þegar það verður tilbúið.
Listaverkagerðin gerði mörg mjög flott listaverk í gær og í dag hafa þau verið að skreyta gáminn, eins og sjá má á myndinni.
Kvikmyndagerðin pukrast að vanda. Er að búa til grínspennumynd. Þegar við reyndum að forvitnast aðeins stóðu tökur yfir og Arndís í hlutverki konu í hvítum kjól. Hún var á harðahlaupum, eins og hún væri að flýja eitthvað ... úúúú, spennandi.
Í kaffinu var heimabökuð sandkaka og melónur.
Eftir kaffi tók ýmislegt við, íþróttahús og útisvæði og svo var boðið upp á kertagerð esm er alltaf vinsæl.
Þar mála börnin stein eða skel og er vax og kveikur sett í skelina en sprittkerti límt á steininn. Mikil listaverk verða til eins og sjá má á myndunum og í öllum regnbogans litum.
Rétt fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin og skiptu um föt ... diskó fram undan, eða eftir kvöldmat. Allir voru því fínir í matsalnum þegar enn ein veislumáltíðin var snædd. Kjúklingar, franskar, sósa og maísbaunir. Börnin eru einstaklega ánægð með matseðilinn.
Svo hófst ballið og það var hrikalega gaman að dansa og tjútta. Hægt var að slaka á inn á milli dansa með því að fara fram og fá bandfléttur í hárið eða tattú og svo var útisvæðið opið líka.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á smurt brauð og safa.
Úrslit í Mörkum óttans síðan í gærkvöldi:
1. sæti: Höfrungar
2. sæti Sæljón
3. sæti Kópar
Inn á sumarbudir.is eru komnar nýjar myndir, bein leið:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t4-d3.html
Eldhressar diskó- og stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2009 | 02:13
Mörk óttans, hárgreiðslukeppni, pítsa í matinn og fleira og fleira
Hér hefur verið afar gott veður í allan dag, sól og blíða til skiptis við skýjað og blíðu. Hitinn eflaust í kringum 20 stig. Við gleymdum hreinlega að kíkja á hirðveðursíðuna okkar fyrr en nú um miðnætti: http://www.yr.no/place/Iceland/Borgarfjardarsysla/Kleppj%C3%A1rnsreykir/hour_by_hour.html
Dagurinn hófst á morgunverðarhlaðborði að vanda, ristað brauð, álegg, súrmjólk, hafragrautur, kornfleks, og tóku börnin vel til matar síns.
Stöðvarnar sem hægt var að velja um í morgun voru: íþróttahús, útisvæði, sund, föndur og svo var fyrsta karókíæfingin haldin. Næstsíðasta kvöldið verður nefnilega Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin skemmtilega. Börnin völdu sér lag til að syngja eða eitthvað annað til að gera. Svo var bara æft.
Í hádeginu var núðlusúpa og smurt brauð með eggjum, kæfu og fleira. Eftir matinn tóku svo námskeiðin við, íþróttir, grímugerð, listaverkagerð, kvikmyndagerð ... handritsgerð er langt komin, búin hjá einhverjum og nú er það bara æfing í búningum, tökur hjá kvikmyndagerð og það allt. Ó, hvað það verður spennandi að sjá afraksturinn á miðvikudagskvöldið.
Í kaffinu var sandkaka og tekex með heimalöguðu marmelaði.
Þá hófst hárgreiðslukeppnin. Fjöldi barna tók þátt í henni að vanda, m.a. tveir strákar. Það er sjaldgæft, þeim finnst flestum þetta vera svo stelpulegt eitthvað. Ekki þessum sem stóðu stelpunum ekkert að baki í töff greiðslu.
Í fyrsta sæti í hárgreiðslukeppninni voru Bjargey og Diljá (módelið). Í öðru sæti: Rakel Sif og Katítas (módelið), í þriðja sæti: Alexandra Gná og Ísabella Gná (módelið). Fríkaðasta greiðslan: Rebekka Rut og Sólborg (módel). Frumlegasta: Friðrika Hanna og Katrín (módel). Krúttlegasta: Viðar Aron og Dagur (módel). Þessi fengu smá verðlaun en allir þátttökuviðurkenningar.
Aðrir sem tóku þátt voru: Emilía María, Erla Svanlaug, Eydís Angel, Eydís Ósk, Fanney Ágústa, Heiðdís Dögg, Hrafnhildur E, Jófríður, Margrét Erla, Miriam Sif, Ólöf Adda, Regína Ósk, Sandra Rún, Silja, Sólrún Bára, Tara Sól, Telma S og Þórhildur Elísabet.
Útisvæðið var opið, einnig Spilaborg og undir kvöldmat fóru flestir inn á herbergi til að bera á sig "eftirsól" og svoleiðis.
Litlir mallakútar voru orðnir svangir þegar komið var að kvöldmat en í matinn voru PÍTSUR! Bara gleði yfir því. Enda eru pítsurnar hennar Sigurjónu, hirðmatreiðslukonu Ævintýralands, frægar um allan heim fyrir bragðgæði.
Svo var komið að Mörkum óttans, ævintýraleiknum ógurlega en æsispennandi. Farið var "rólega" af stað, eða byrjað á fjörugum skottaleik í íþróttahúsinu þar sem skott úr svörtum plastpokum var komið fyrir á börnunum og þau áttu síðan að reyna að ná þeim af hinum og gæta þess í leiðinni að enginn næði skotti þeirra.
Þá var það spurningakeppnin ... hvort eru 52 eða 100 vikur í árinu? Þau fóru létt með þetta, líka hve margir dagar væru í júnímánuði ... Þeim tókst að svara flestu rétt og litlu Kóparnir, yngstu stelpunar, voru t.d. með öll svörin rétt. Eins og sumar spurningarnar voru nú erfiðar.
Næst var komið að ógeðsdrykknum ... eldhúskvikindin höfðu mallað saman einhverju ógeði sem er kannski gott eitt og sér en ekki sérlega girnilegt þegar það er komið í einn kokteil sem kallast ógeðsdrykkur. Súrmjólk, sinnep, majones, krydd og fleira ... oj bjakk.
Tvær hetjur úr hverjum hópi, sem höfðu boðið sig fram í þetta hryllilega hlutverk, tóku sér stöðu og þegar búið var að telja niður þá höfðu þau mínútu til að klára hálft glas af þessum hryllingi. Flestum tókst það og fengu þá stig fyrir hópinn sinn.
Síðasta þrautin var ógurleg ... eða að hlaupa (með styrkri aðstoð Heiðu umsjónarmanns) inn í dimmt, reykfyllt (með reykvél) herbergi þar sem draugaleg tónlist hljómaði og fjórir draugar halda til. Einn aðaldraugur og þrír smádraugar ... það þarf sækja stein ofan í viðbjóðslegt vatn í fötu, rétta Heiðu steininn, hlaupa síðan hratt út og sleppa naumlega frá draugunum.
Áður en þrautin hófst fengu litlu Kóparnir að skoða herbergið og hitta draugana (grímulausa). Engin tónlist hljómaði, ljósin voru kveikt og þetta var allt ósköp meinlaust. Kóparnir voru beðnir um að steinþegja um þetta við hin börnin til að eyðileggja ekki spennuna. Öðrum börnum, sem töldu sig of hrædd til að þora að fylgjast með, var boðið að skreppa inn í Framtíð, bláa herbergið, og gera eitthvað annað skemmtilegt með umsjónarmanni, ef þeir væru of hræddir. Örfáir þáðu það. Hinir urðu bara enn spenntari.
Og svo hófst draugaherbergisþrautin. Tvær hetjur úr hverjum hópi hlupu hver á eftir annarri og komu skrækjandi af spenningi út eftir að hafa fundið steininn.
Einn keppandinn, ótrúlega hugrökk stelpa, sagði við drauginn: Sæll Gummi minn, þú hér? og draugurinn varð steinhissa. Svo hljóp hún hlæjandi út.
Eftir að keppendurnir voru búnir fengu hinir krakkarnir sem vildu að prófa draugaherbergið, hver hópur í einu með umsjónarmanni sínum. Mikið skrækt, mikið hlegið.
Svo komu draugarnir fram og tóku af sér grímurnar. Jú, Gummi var víst aðaldraugurinn og litlu draugarnir voru starfsmannabörn á unglingsaldri.
Síðast af öllu fengu þau sem voru of hrædd til að þora að vera í matsalnum að koma inn og heilsa upp á Gumma og hina draugana, máta grímurnar og hræða starfsfólkið. Það þótti þeim gaman, skrækjandi starfsfólk er bara fyndið.
Ávextir voru þvínæst bornir á borð, epli og appelsínur, sem umsjónarmenn hvers hóps skáru ofan í börnin sín. Mjög heimilislegt. Stemmningin var orðin mjög róleg en samt mikið spjallað um ævintýri kvöldsins. Svo var bara háttað og farið í bólið og síðan hlustað á kvöldsöguna þar til svefninn sigraði. Allir þreyttir, enda mikið búið að hamast, bæði inni og úti.
Nýjar myndir eru komnar inn á heimasíðuna, www.sumarbudir.is, bein leið hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t4-d2.html
Funheitar og æsispennandi kveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2009 | 02:14
Frábær fyrsti dagur í Ævintýralandi
Þá er nýr hópur hressra og skemmtilegra barna kominn í sumarbúðirnar. Þau sem voru keyrð hingað komu aðeins á undan rútunni og gátu komið sér fyrir.
Svo kom rútan, full af hressum börnum sem voru greinilega spennt að koma í sumarbúðir. Umsjónarmennirnir biðu eftir þeim en starfsmenn í rútu voru búnir að "merkja" þau, skrifa nafn þeirra á límmiða í mismunandi litum en litirnir tákna hópinn sem þau verða í allt tímabilið og hjá hvaða umsjónarmanni.
Höfrungarnir eru t.d. með rauða miða og Gummi er umsjónarmaður þeirra. Hafmeyjar eru bleikar og hafa Ingu Láru osfrv.
Börnin skoðuðu svæðið í fylgd umsjónarmannsins síns og komu sér svo fyrir inni á herbergjunum.
Fyrsta daginn fer alltaf fram kynning í íþróttahúsinu og þar er starfsfólkið kynnt og einnig námskeiðin sem þau geta valið að vera á allt tímabilið í tvo tíma á dag. Afrakstur námskeiðanna er svo sýndur á lokakvöldvökunni. Námskeiðin eru í grímugerð, leiklist, listaverkagerð, kvikmyndagerð, íþróttum og dansi og eftir kynninguna settust þau með umsjónarmanninum og völdu. Einnig völdu þau sér álegg á kvöldkaffibrauðið og safategund, t.d. epla- eða appelsínusafa, þegar það er í boði til skiptis við ávexti.
Í fyrsta kaffitímanum var boðið upp á skúffuköku og ávexti sem rann ljúflega niður. skúffukökur eru náttúrlega alltaf æði, hvað þá ávextir.
Svo var það útisvæðið, Spilaborg og íþróttahúsið sem börnin gátu valið um. Það var funheitt úti og börnunum fannst frábært að geta farið inn til að kæla sig, sest og lesið Syrpu, spilað pool, borðtennis, fótboltaspil eða jafnvel bingó, nóg er af skemmtilegum spilum. Úti eru leiktæki og laða trampólínin alltaf mikið að. Aðeins eitt barn fær að hoppa í einu og er það af öryggisástæðum, einnig eru öryggisnet utan um trampólínin. Mjög mörg börn kusu að leika sér í íþróttahúsinu sem er stórt og afar skemmtilegt að leika sér í.
Í kvöldmat var kjöt og spagettí, rosalega gott.
Eftir mat var útisvæðið vinsælt og einnig Spilaborg en sundlaugin heillaði flesta að ógleymdum notalega heita pottinum. Eftir allt of stuttan tíma var komið að kvöldkaffi.
Síðan var háttað og hófst fyrsti lestur framhaldssögunnar sem hver umsjónarmaður les fyrir hópinn sinn. Alltaf gott og róandi að láta lesa fyrir sig. Börnin dauðþreytt eftir sundið sofnuðu hvert af öðru og næturvörðurinn tók við.
Á morgun hefjast ný ævintýri og margt og mikið verður um að vera. Það verður m.a. hárgreiðslukeppni eftir kaffi og æsispennandi leikurinn Mörk óttans eftir kvöldmat. Allt um það í myndum og máli á sunnudaginn. Já, og svo verður pítsa í kvöldmatinn ...nammi namm.
Fleiri myndir frá deginum má finna hér:
http://www.sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t4-d1.html
Ævintýrakveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2009 | 23:11
Frábær lokadagur tímabils 3
Lokadagurinn leið ótrúlega hratt. Hann hófst að vanda á því að skella sér í morgunverðarhlaðborðið. Hafragrautur, ristað brauð, álegg, súrmjólk, seríós og kornfleks. Bara æði.
Þá voru það námskeiðin, þau haldin fyrir hádegi eins og á húllumhædeginum, og í þetta sinn voru engar myndatökur leyfðar. Verið var að leggja lokalokalokahöndina á allt því sjálf lokakvöldvakan var fram undan. Bara spennandi og leyndardómsfullt allt saman.
Í hádeginu var skyr og smurt brauð og þar á eftir síðasti hádegisfundurinn með umsjónarmönnunum en tímanum að mestu varið í pakka niður farangrinum. Sumir skruppu síðan í sturtu, aðrir í íþróttahúsið, útisvæðið eða léku sér í Spilaborg.
Í kaffinu var heimabökuð sandkaka og safaríkar melónur með.
Eftir kaffi var óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslatínslu og verðlaun í boði fyrir þá sem tóku þátt í að snyrta til í kringum húsið, sópa og tína upp rusl. Fjöldi bauð sig fram að vanda og innan tíðar var allt orðið ótrúlega snyrtilegt á svæðinu. Fjársjóðskassinn með ruslatínsluverðlaununum er alltaf skemmtilegur og frábært að fá að velja sér eitthvað flott úr honum.
Í kvöldmat voru hamborgarar, franskar, sósa og gos með. Vakti heldur betur lukku. Allir voru komnir í fínni fötin því stutt var í að hátíðin hæfist. Lokakvöldvakan þar sem afrakstur námskeiðanna yrði sýndur.
Fyrst var myndlistarsýningin og hún var stórglæsileg. Að þessu sinni var sýnd stuttmynd með krökkunum í listaverkagerð og má sjá myndina í færslunni hér á undan þessarri. Listaverkin sem börnin höfðu skapað voru fjölbreytt og mjög flott.
Grímugerðin sýndi spennandi látbragðsleikrit um fjölskyldu sem fór í dýragarð en þegar þangað var komið voru öll dýrin horfin. Trúðurinn var vitni að því þegar dýrin voru numin á brott og gat fengið fjölskylduna til að hjálpa sér að frelsa þau. Æðislegt leikrit og grímurnar vel gerðar og flottar. Börnin sömdu sjálf handritið og skipuðu í hlutverk og sama má segja um leiklist og kvikmyndagerð.
Leiklistin sýndi skemmtilegt ævintýraleikrit um börn sem höfðu lagt mikið á sig við að komast í skólaferðalag. Þau höfðu selt WC-pappír og fleira í fjáröflunarskyni. Þegar þau mættu að morgni ferðadagsins var kominn afleysingakennari sem þeim leist ekkert á. Hann byrjaði á því að vísa þeim í aðra átt en hann fór sjálfur, eða inn í skóginn. Þrír frábærir álfar hjálpuðu börnunum og í ljós kom að þessi svokallaði kennari var vondur seiðkarl. Allt endaði vel og allir urðu vinir.
Svo tók dansinn við en hann var hreint stórkostlegur. Stelpurnar stóðu sig rosalega vel og mikið var fagnað þegar þær voru búnar að sýna dansinn sem var saminn af þeim á námskeiðinu.
Lokakvöldvakan gekk mjög vel, það var eins og börnin hefðu æft sig mánuðum saman, svo frábær voru þau.
Þá tók starfsfólkið við að vanda og sýndi eitthvert hálfruglað en mjög fyndið leikrit þar sem hlutverkin voru frekar skrýtin. Dagbjört, dóttir Sigurjónu matráðskonu, dró úr hatti miða þar sem kom í ljós að hún átti að leika skó Öskubusku ... allt í þessum dúr.
Eftir kvöldkaffi og ísglaðning (ávexti og frostpinna) sýndi kvikmyndagerðin grín-drauga-hryllingsmyndina Rauða húsið sem var bæði fyndin og spennandi.
Svo var bara komið að því að hlusta á síðasta lestur framhaldssögunnar og fara svo að sofa. Allir voru mjög spenntir að fara heim morguninn eftir þrátt fyrir að það hefði verið gaman í sumarbúðunum. Okkur fannst vikan líða allt of hratt, börnin rétt nýkomin þá fara þau aftur.
Innilegar saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Fleiri myndir frá lokadeginum eru á www.sumarbudir.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2009 | 08:58
Mynd frá listaverkagerðinni
Hér er myndband um listaverkagerð Ævintýralands. Blogg um lokadaginn kemur seinna í dag. Njótið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.7.2009 | 20:22
Ævintýrabarkinn, sund, sæla og skúffukaka ...
Gærdagurinn var alveg frábær eins og hinir dagarnir hafa reyndar verið líka.
Eftir morgunverð lék sundlaugin aðalhlutverkið í veðurblíðunni og þurfti að tvískipta hópnum sem vildi fara í sund. Helmingur barnanna lék sér í íþróttahúsinu (í sama húsi) þar til kom að þeim og svo tók útisvæðið yfir hjá öllum, enda frábært að vera úti í góða veðrinu.
Sá hluti barnanna sem er á reiðnámskeiði fór í kertagerð fyrir hádegi en reiðnámskeiðsbörnin misstu af henni sl. sunnudag þegar þau riðu út í góða veðrinu.
Börnunum þótt gott að kæla sig niður inni á herbergjunum rétt fyrir hádegið, bera á sig "eftirsól", ganga frá sundfötunum og slaka á fyrir matinn.
Sumir lögðust upp í koju og lásu Syrpu en það eru ákaflega vinsælar bækur sem við eigum nokkurt magn af. Andrés Önd klikkar ekki. Í hádeginu var svo boðið upp á pasta með hvítlauksbollum, auðvitað heimabökuðum.
Hádegisfundirnir voru á sínum stað og endaði gott spjallið á því að farið var í leiki, hver hópur með sínum umsjónarmanni.
Síðan tóku námskeiðin við og keppst var við að gera sem mest því að það styttist óðum í lokakvöldvökuna þar sem afraksturinn verður sýndur.
Í kaffinu var dásamleg skúffukaka og einnig tekex með smjöri og heimalöguðu marmelaði en það síðarnefnda hefur alveg slegið í gegn. Skúffukakan auðvitað líka, hún er sígild.
Eftir kaffið var útisvæðið opið, einnig íþróttahúsið og Spilaborg. Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin sín og skiptu um föt þar sem Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin átti að fara fram um kvöldið.
Fiskur, hrísgrjón og ævintýrasósa (gómsæt karrísósa a la Kristrún) og tómatsósa fyrir þá sem vildu, var í kvöldmatinn og börnin tóku hraustlega til matar síns. Það kemur alveg fyrir að einhverjir, örfáir þó, fúlsi við fiski en þá fá þeir bara eitthvað annað gott, jafnvel hrísgrjónagraut, brauð og slíkt. Enginn píndur til að borða það sem hann vill ekki.
Svo hófst Ævintýrabarkinn og voru þátttakendur hressir í bragði þegar þeir stigu á stokk, sungu, dönsuðu eða sögðu jafnvel brandara. Þeir sem skemmtu án þess að syngja voru: Alexandra Kristín, Aníta, Camilla Hrund, Ingvar, Katítas Etna og Þórdís Ásta.
Söngvarar voru: Ágústa Eir Vigfúsdóttir, Arína Vala Þórðardóttir, Árný Eva Sigurjónsdóttir, Birta Hlín Jóhannesdóttir, Glóey Jónsdóttir, Inga Kristrún Hjartardóttir, Jóhanna Kolbrún Guðbrandsdóttir, Lilja Mist Sigurjónsdóttir, Margrét Júlía Ingimarsdóttir og Sædís Lilja Ísaksdóttir.
Í 1. sæti varð Arína Vala Þórðardóttir en hún söng lagið Dancing. Margrét Júlía Ingimarsdóttir varð í 2. sæti með lagið Þú fullkomnar mig. Í þriðja sæti urðu þær Árný Eva Sigurjónsdóttir sem söng Vögguvísu úr Dýrunum í Hálsaskógi og Jóhanna Kolbrún Guðbrandsdóttir sem söng Ég sjálf.
Óvæntur gestur mætti og tróð upp. Hann heitir Hrafn Ingi og er fjögurra ára ofurtöffari. Hann söng Vinalagið.
Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjal og þeir sem lentu í efstu þremur sætunum fengu verðlaun. Tvær stelpur fengu jafnmörg stig í þriðja sætið, eins og sést hér að ofan.
Í kvöldkaffi var smurt brauð og safi. Allir sofnuðu sáttir og glaðir eftir næstsíðasta lestur kvöldsögunnar sem umsjónarmennirnir lásu fyrir hópinn sinn, og hlökkuðu til ævintýra næsta dags, lokadagsins sjálfs. Spennandi lokakvöldvakan, hátíðarkvöldverðurinn ... pakka niður og hlakka til að koma heim á fimmtudaginn.
Myndir frá deginum eru komnar inn á www.sumarbudir.is, endilega kíkið.
Söng-, hæfileika- og stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum úr veðurblíðunni sem hér ríkir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.6.2009 | 13:42
Húllumhædagur í veðurblíðunni
Dagarnir í Ævintýralandi eru ekkert venjulegir. Dagurinn í gær hét t.d. Húllumhædagur og var stöðugt húllumhæ eftir hádegið.
Eftir morgunverð var haldið á námskeiðin en venjulega eru þau kl. 14-16 á daginn. Hirðljósmyndari Ævintýralands kíkti á námskeiðin sem voru í fullum gangi.
Listaverkagerðin, vinsælasta námskeiðið þessa vikuna, var á fullu og það eru greinilega stórkostleg listaverk í smíðum sem verða síðan sýnd á sérstakri listsýningu sem haldin er síðasta kvöldið.
Kvikmyndagerðin var á milljón í tökum en við náðum í skottið á krökkunum þar sem þau voru í biðstöðu ... Mikil bið getur fylgt kvikmyndagerð, eins og allar kvikmyndastjörnur þekkja en aldrei of löng í Ævintýralandi. Mikið verður gaman að sjá stuttmyndina þeirra. Mikil leynd hvílir yfir henni en það er bara alltaf þannig, það á að koma á óvart á lokakvöldvökunni.
Grímugerðin æfir líka stíft en nú er búið að klára og mála allar grímurnar. Börnin þar þurfa líka búninga en búningasafn Ævintýralands er stórkostlegt. Kápur, kjólar, jakkar, hárkollur og allt kyns leikmunir leynast þar, eitthvað sem mömmur okkar hafa gefið okkur og við safnað úr ýmsum áttum í gegnum árin. Grímugerð hefur sér búningasafn og leiklistin annað, einnig kvikmyndagerðin.
Leiklistin æfir af kappi fyrir leikritið sem börnin sömdu á fyrstu dögunum og búningar eru stór hluti af því, eins og allir leikarar þekkja. Allt er eins og í alvöruleikhúsi, nema kannski ekki förðun. Leynd hvílir yfir leikritinu, eins og hjá kvikmyndagerð og grímugerð en handritin hjá þessum elskum eru öll samin af börnunum, afsakið, snillingunum.
Dansinn er í góðum gír. Stelpurnar semja dansinn sjálfar með hjálp Pollýjar og þjálfa sig stíft fyrir lokakvöldið, bæta kannski við flottum sporum og hreyfingum jafnóðum. Mikil gleði og sköpun ríkir hjá stelpunum en ekkert skortir á einbeitinguna sem er sko galdurinn við allt.
Eftir grjónagraut og melónur var hádegisfundur hvers hóps með umsjónarmanni sínum og síðan var Húllumhædagurinn settur með látum, gjallarhorni og allt. Starfsfólkið klæddi sig í skrautlega búninga og sannkölluð hátíðarstemmning ríkti á svæðinu.
Byrjað var á því að fara í fánaleikinn skemmtilega. Þar áttust við liðin Draumur og Martröð. Draumverjar voru stríðsmálaðir í framan með brúnni málningu á meðan Martraðarliðið fékk gula málningu. Allir voru í það minnsta ógurlega vígalegir þegar haldið var á völlinn. Barist var um klemmur að vanda en margir þekkja þennan frábæra leik sem nýtur mikilla vinsælda hjá börnunum. En, eins og með annað hjá okkur, þá var ekki skipun um að allir tækju þátt, hér er val og það er svo gaman. Heilmargt er alltaf í boði við allra hæfi. Martrð sigraði eftir æsispennandi keppni.
Veðrið var ofboðslega gott og útisvæðið vinsælt. Boðið var upp á tattú og bandfléttur en það er gert nokkrum sinnum á tímabilinu til að allir sem vilja fái. Einnig var andlitsmálun í boði í stíl við daginn og rosalega var gaman að sjá hópinn svona einstaklega litríkan.
Svo var bara komið kaffi og mætti börnunum ilmandi vöfflulykt þegar þau komu inn í matsal. Hér er boðið upp á vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma en líka sultu fyrir þau sem vilja. Sannkallaðar ævintýravöfflur sem voru borðaðar upp til agna, enda alltaf hægt að fá meira.
Meira skemmtilegt beið eftir kaffið. Skartgripagerð, vinabandagerð, tattú, keilukeppni, bandfléttur og útisvæðið vinsæla þar sem alltaf er eitthvað um að vera. Einnig mætti spákonan leyndardómsfulla, Jósefína Potter frá Borgarnesi. Börnin spurðu hana einnar spurningar sem hún svaraði samviskusamlega. Að vanda voru það ekki orð hennar um frækna framtíð sem vöktu mesta forvitnina, heldur hver starfsmannanna þetta væri í búningnum. Giskað var á marga starfsmenn en þeir höfðu allir "fjarvistarsönnun" ... sögðu þeir. Voru að gera tattú, bandfléttur, halda utan um skartgripagerð og slíkt. Þetta var allt hið dularfyllsta mál ...
Grillaðar pylsur með öllu vöktu lukku í kvöldmatnum og síðan var bíókvöld þar sem í hléinu var boðið upp á poppkorn og Svala.
Einstaklega heitar kveðjur úr bongóblíðunni og fjörinu í Borgarfirðinum.
Nýjar myndir af ævintýrum dagsins eru komnar inn á heimasíðuna, tímabil 3, dagur 4. www.sumarbudir.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.6.2009 | 18:54
Molluhiti, leikrit, diskó og frábær kvöldverður
Útisvæðið var opið og þar fór m.a. fram spennandi sippkeppni. Einnig var hægt að velja um að fara í sundlaugina og íþróttahúsið og karaókíæfing var haldin fyrir þá sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum annað kvöld.
Sigurvegarar sippkeppninnar:
1. sæti Ástrós Lind
2. sæti Arína Vala
3. sæti Birgitta Ösp
Í hádeginu var boðið upp á gómsæta kakósúpu með tvíbökum og ávextir voru í eftirrétt.
Eftir matinn var hádegisfundur að vanda en svo hófst leikrit sem starfsfólkið sá um. Forvarnaleikrit alveg ógurlega fyndið og skemmtilegt þótt undirtónninn sé alvarlegur.
Pollý (dans) lék stelpu sem var útilokuð frá hinum börnunum á skólalóðinni og lögð í einelti. Hún var ráðalaus og leið mjög illa. Hún var svo heppin að rekast á góðuráðavélina Ping og Pong í gönguferð og þeir félagar (vélin) gáfu henni frábær ráð sem virkuðu svona líka vel og voru sýnd.
Sing og Song (sömu leikarar, Davíð og Gummi), voru mjög sniðugir en þeir léku "raddir" í höfði Pollýjar og ráðlögðu henni, annar var voða vitlaus en hinn var rödd skynseminnar. Þegar ókunnur maður á bíl bað Pollýju um að koma upp í bílinn til sín til að hjálpa honum með sæta hvolpa sagði önnur röddin að maður ætti alltaf að fara upp í bíl með ókunnugum en sú skynsama, sem Pollý hlustaði sem betur fer á, sagði henni að það ætti aldrei að gera, aldrei. Krökkunum fannst vitlausa röddin hrikalega fyndin þannig að þau eru greinilega vel upplýst í sambandi við þessa hluti.
Þá voru það bara elsku námskeiðin en nú er t.d. búið að mála grímurnar í grímugerðinni, semja handritið í kvikmyndagerð og leiklist (og ákveða grímugerðarsýninguna) og semja dans sem verið er að æfa á fullu. Mikið verður gaman á lokakvöldvökunni að sjá þessa ungu snillinga sýna hvað í þeim býr.
Í kaffinu voru sandkaka og melónur og síðan var aldeilis nóg við að vera: Reiðnámskeið, kertagerð, íþróttahús, Spilaborg og útisvæðið. Í kertagerðinni geta börnin valið um að mála skel eða stein en í skelina fer kertavax og kveikur. Á steininn fer sprittkerti. Það verður gaman að koma heim með þessi listaverk og sýna fjölskyldunni.
Svo var náttúrlega enn ein stórmáltíðin um kvöldið, eða kjúklingar, franskar, sósa og maísbaunir. Börnin borðuðu ekki, þau skófluðu í sig matnum. Hirðmatreiðslufólki okkar finnst alltaf jafngaman að heyra fagnaðarhljóðin í þeim þegar þau sjá hvað er í matinn. Svo er ekki verra að það má alltaf fá meira ... og meira. Stóra reglan í matsalnum er sú að allir verði saddir. Ef barn borðar ekki það sem er á boðstólum fær það eitthvað annað, enginn píndur til að borða það sem honum finnst ekki gott, auðvitað ekki, þetta eru sumarbúðir og öllum á að líða vel, líka í matsalnum.
Eftir mat var komið að DISKÓTEKI. Salurinn sem virkaði vel sem draugaherbergi var nú allur skreyttur, tónlist hljómaði, reykvélin var ræst og ljósin deyfð og dansað var og tjúttað. Þegar börnunum lá við örmögnun var hægt að fara fram og fá bandfléttu í hárið eða tattú. Sem betur fer kom smá rigning í gærkvöldi sem þýddi að hægt var að kæla sig almennilega.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á brauð og safa. Einnig fóru fram verðlaunaafhendingar og viðurkenningar voru afhentar.
Sigurvegararnir í Mörkum óttans, Krossfiskarnir, fengu viðurkenningar og verðlaun.
Í Krossfiskum eru hinar knáu: Ágústa Eir, Alma Maggey, Arína Vala, Birta Hlín, Brynhildur Júlía, Gígja, Karítas Etna, Kristjana Ýr og Sædís Lilja.
Fjöldi mynda er kominn á heimasíðuna, sumarbudir.is, en til að komast beint inn á myndir gærdagsins, kertagerð, forvarnaleikrit, diskó og fleira, þá er hægt að ýta á hlekkinn f. neðan:
http://www.sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t3-d3.html
Sendum hitabylgju- og stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar