Sumarbúðirnar Ævintýraland leggja niður starfsemi


Kæru sumarbúðavinir.

sumarbu_ir_3_sapukulur.jpgSumarbúðirnar Ævintýraland munu leggja niður niður starfsemi sína að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði vegna erfiðleika í rekstri.
 
Eftir 15 farsæl og skemmtileg ár í starfi er komið að því að við stöndum ekki lengur undir lánum og öðrum kostnaði.
 
Við viljum þakka innilega öllum þeim þúsundum barna sem hafa komið til okkar í gegnum árin, skemmt sér með okkur og gefið til baka ómælda gleði.
 
Við viljum líka þakka okkar frábæra starfsfólki fyrir dugnað og áfallalausa starfsemi öll árin.
 
Það er einlæg von okkar að hugsjón okkar um leik og starf fyrir börn, þar sem þeirra val er haft að leiðarljósi, geti fundið annan farveg. Að trú þeirra á sjálf sig fái að dafna, sköpunargleði þeirra fái að leika lausum hala og gleðin og hamingjan sem alltaf ríkti í Ævintýralandi haldi áfram annars staðar. 
 
Við kveðjum með söknuði þetta frábæra starf og vonum að einhvern daginn verði hægt að byggja það upp að nýju.
 

Kær kveðja,

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Lokakvöldvakan ... sjaldan hlegið eins mikið

Myndlist-ast og dansað í góða veðrinuSól, logn og blíða - veðrið var einfaldlega eins og best var á kosið í gær á lokadeginum.

 

Eftir morgunmat voru námskeiðin á dagskrá.

 

Íþróttahópurinn fór í gönguferðÍþróttahópurinn skellti sér í gönguferð, og það þótti ekki leiðinlegt að vaða í læknum. Mikið fjör í gangi hjá krökkunum.

Grímugerðar- og listaverkagerðarhópurinn lagði líka síðustu hönd, eða næstsíðustu, á atriðið sitt sem inniheldur einnig dans. Flott skal það vera!

 

Kvikmyndagerð var í lokatökum og mikil spenna ríkti fyrir lokaútkomunni en okkur virtist að þetta yrði bæði fyndin og spennandi mynd.


Lokatökur í kvikmyndagerðÍ hádeginu var boðið upp á pastarétt.



Hádegisfundirnir voru á sínum stað
og var talað um hvað það skiptir miklu máli að koma vel fram við aðra og mikilvægi þess að láta ekki hafa of mikil áhrif á sig.

Umhirða húðarBörnin fengu öll blað og blýant, skrifuðu nafnið sitt á blað sem síðan var látið ganga á milli hjá hverjum hópi fyrir sig og allir skrifuðu eitthvað fallegt.

Námskeiðin aftur, auðvitað ... lokakvöldvakan fram undan og mikið sem þurfti að æfa.


Í kaffinu var kryddkaka og einnig tekex með heimalöguðu marmelaði sem hvarf hratt ofan í börnin sem drukku mjólk með.

Námskeið í hreinlæti og umhirðu húðarEftir kaffi var boðið upp á námskeið í umhirðu húðar og þátttakendur voru leystir út með gjöfum.

Ellen sá um námskeiðið og þar var fjallað um mikilvægi þess að hreinsa húðina vel, borða hollt og reglulega. Mikilvægi þess að borða morgunmat og hvað það er hættulegt að ætla að reyna að grennast með því að svelta sig. Smáspjall um hvaða áhrif sólin getur haft á húðina og mikilvægi þess að nota sólarvörn. Einnig um skaðsemi áfengis og tóbaks og þá líka á húðina. Við töluðum um blessaðar bólurnar og mögulegar ástæður fyrir þeim. Hvað sé best að gera og að það sé sko alls ekki alltaf það sama sem virkar fyrir alla. Hægt var að velja um gjafir, annað hvort hreinsikrem, skrúbbmaska og andlitsvatn eða þá snyrtivörur. Glæsilegar gjafir og allir sem vildu fengu að prófa bæði hreinsikremin og snyrtivörurnar.

Hamborgari og franskar nammmmEinhverjir völdu að vera úti í góða veðrinu og nokkrir tóku þátt í ruslatínslu og að sópa stéttar, sem iðulega er gert á lokadegi, og fengu verðlaun fyrir.

Rétt fyrir kvöldmat var opnað inn á herbergi til að skipta um föt fyrir kvöldið. Allir vildu vera í sínu fínasta pússi. Við erum kannski ekki alveg að tala um jakkaföt og síðkjóla en það munaði ekki miklu þó.

Þá var komið að kvöldmat, hamborgara með öllu, frönskum og gosi sem þótti nú sérdeilis góður hátíðarkvöldverður.

Svo rann stóra stundin upp ... það var komið að lokakvöldvökunni sem beðið hefur verið eftir alla vikuna.

Grímugerð sýndi dansGrímugerðar- og listaverkahópurinn sýndi dans, rosa flottan og notuðu reykvélina til að gera enn meiri stemningu. Þrjár stelpur dönsuðu frumsaminn dans og hinar dönsuðu í bakgrunni með grímurnar sem þær bjuggu til. Það var líka myndlistarsýning í matsalnum, glæsileg listaverk hjá þessum flotta hópi.

 

ÍþróttasýninginÍþróttahópurinn sýndi líka mjög flottan dans og var svo með körfuboltasýningu. Flottar troðslur, algjör snilld.


Síðan var haldið sykurpúðagrillpartí úti í góða veðrinu. Nokkuð er farið að dimma á kvöldin og það gerði þetta bara enn skemmtilegra. Við kveiktum upp í einnota grillum og síðan gat hver og einn grillað sér sykurpúða.

Sykurpúðar grillaðirÁvextir voru síðan í boði í matsalnum, eins og hver gat í sig látið ... og svo var glaðningur á eftir, ís (frostpinni).

Kvikmyndagerðin frumsýndi myndina Endurfundir (Reunion) en það var um bekk sem hittist aftur eftir 15 ár á frekar drungalegu skólamóti. Þrjár stelpur sem lentu í miklu einelti í skólanum ákváðu að hefna sín á bekkjarfélögunum og safna þeim saman á mótinu. Þetta var samt gert á mjög spaugilegan hátt og sjaldan hefur verið hlegið eins mikið á nokkru lokakvöldi. Þau fengu ís með myndinni.

Úr bíómyndinniÞetta var frábær lokadagur og börnin gátu verið meira en stolt af frammistöðunni þegar þau sýndu afrakstur námskeiðanna á lokakvöldvökunni. Sannarlega skemmtilegur og góður unglingahópur. Við þökkum kærlega fyrir einstaklega góða viku.

Þökkum líka öllum hinum hópunum fyrir sumarið ... sem leið allt of hratt.

Sjáumst sem allra flest næsta sumar. InLove

Myndir frá lokadeginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T7D5.html#grid


Endalaust gaman, ísbíll og allt!

Korta- og dagbókargerðGærdagurinn var endalaust skemmtilegur og veðrið lék við okkur.

Spilað í SpilaborgBörnin höfðu margt fyrir stafni eftir morgunverð, það var sund, fjör í íþróttahúsinu, spilaborg, einnig var kertagerð, korta- og dagbókargerð og þeir sem ekki fóru í stund skelltu sér í sturtu. Góður morgunn.

Eldhús dásamlegheitanna bauð upp á grjónagraut og síðan ávexti.

Námskeiðin voru á dagskrá eftir hádegisfundinn og allt að gerast þar, undirbúningurinn á fullu fyrir lokakvöldið.

Kryddkaka í kaffinu og mjólk með.

ReiðnámskeiðEftir kaffi fóru flestir út í íþróttahús, aðrir spiluðu og léku í spilaborg og svo fór hluti á reiðnámskeið og tók myndavélina með, eins og sést hér til vinstri, og enn betur á heimasíðunni, sjá hlekk neðst.

 

BrjóstsykurgerðSvo var brjóstsykurgerð sem sló heldur betur í gegn og ísbíllinn kom ekki löngu síðar.



Keppendur í Ævintýrabarkanum
skiptu um föt fyrir mat en steiktur fiskur með karrísósu, eða tómatsósu, var í kvöldmatinn.

 

 

Þá kom að því ... eða Ævintýrabarkanum. Atriðin voru frábær og uppskáru mikið lof og klapp áheyrenda. Hér eru úrslitin:



ÆvintýrabarkinnKharl Anton var í 1. sæti með geggjað dansatriði við dubstep-lagið Louder
Signy Helga var líka í 1. sæti með jafnmörg stig :) Hún söng lagið Jar of hearts með Christinu Perri

Í 2. sæti voru líka tveir með jafnmörg stig.
Halldór Ívar söng lagið Mad world með Gary Jules
Esther Helga söng lagið Marry you með Bruno Mars

Flottar grímurÍ 3. sæti var svo Alexandra Diljá en hún söng lagið Skyscrapers með Demi Lovato

Svo var það bara kvöldkaffi og beint í háttinn
Sleeping

 

Hér eru myndir frá deginum > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T7D4.html


Allir í skýjunum, frábær leynigestur - frábær dagur

Seinnipartinn skein sólinVeðurfréttir Ævintýralands: Kalt um morguninn en hlýnaði seinnipartinn. Sólin lét sjá sig í smástund en um sexleytið kom algjört úrhelli, mesta rigning sem við höfum upplifað á Kleppjárnsreykjum. Bara gaman. Myndin var tekin um kaffileytið þegar sólin skein.

Í gær var öðruvísi dagur, eða húllumhædagurinn. Kvöldið áður dró hver og einn miða með nafni félaga í sama hópi og varð þar með leynivinur hans. Ekki leið á löngu þar til myndir og sendingar fóru að fljúga á milli og örugglega einhver hrós hér og þar.

Börnin voru vakin korteri fyrr en venjulega þar sem þau þurftu að flýta sér í morgunmat. Um leið og þau voru búin að fleygja sér yfir hlaðborðið sem innihélt hafragraut, kornflakes, súrmjólk, ristað brauð, cheerios mætti leynigesturinn.

Hann var enginn annar en snillingurinn Jónsi, kenndur við svört föt og Evróvisjón.
Hann spjallaði heillengi við börnin, var með gítarinn og sprellaði milli þess sem hann ræddi við þau um mikilvæg mál. Hann talaði um hvernig það er að vera unglingur og hvernig heilinn er tengdur aðeins öðruvísi á unglingsárunum. Þá er áhættusæknin mun meiri og því er mikilvægt að vera búinn að hugsa um margt sem máli skiptir. Hvernig ætla ég að vera? Vil ég vera í handbolta, vil ég mennta mig, vil ég vera reykingamaður, vil ég lifa heilsusamlega, vil ég vera hamingjusamur? Við sjálf erum það mikilvægasta sem við eigum og enginn getur stjórnað lífi okkar nema við sjálf. Við þurfum að bera ábyrgð á því að segja til dæmis nei við fíkniefnum og vera tilbúinn að standa með okkur sjálfum þegar að því kemur.
Hann talaði líka um hættuna sem skapast við hraðakstur og mikilvægi þess að taka ábyrgð á því sem við gerum.
Jónsi var leynigesturinn í árJónsi kom líka dásamlega góðum skilaboðum til barnanna um það hvað skiptir máli að eiga góð tengsl við þá sem standa manni næst. Ekki að gleyma sér í töffaraskapnum og þora að segja við til dæmis foreldra sína að manni þyki vænt um þau. Börnin eru það dýrmætasta sem foreldrarnir eiga og allir voru sammála um að nöldur geti nú oft bara verið umhyggjusemi og hræðsla þeirra eldri við að eitthvað komi fyrir börnin. Hann tók gott dæmi sem hljóðaði svona: Þú ert að fara með geimskutlu til Mars og getur þegið ráð hjá annaðhvort einum hópi jafnaldra sem aldrei hefur farið til Mars eða frá hópi eldri og reyndari geimskutlufara. Hvorn velur þú?
Hann talaði um mikilvægi þess að mennta sig og læra eins mikið og maður getur! Við eigum að rækta hugann alveg eins og íþróttakappar rækta líkamann.
Hann bað unglingana vinsamlegast um að muna tvennt:
1. Læra mikið!
2. Nota tannþráð! Vitið þið hvað það kostar að fara til tannlæknis ;)

Það vill enginn þurfa að skella inn statusnum Kominn með gervitennur, allt stellið! á Facebook aðeins 23 ára.
Hann endaði á að gefa krökkunum eiginhandaráritun og þeir sem vildu fengu mynd af sér með honum. Endalaust stuð og allir í skýjunum með heimsókn Jónsa.
Eftir þessa góðu heimsókn var svo sjoppuferðin en hennar hefur líka verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Flest keyptu sér snakk, gos og nammi fyrir bíókvöldið í kvöld.

Hressir strákar í kvikmyndagerðÍ hádegismat voru núðlur/núðlusúpa og pítsa síðan í gær, ekki leiðinlegt það.

Herbergin voru svo opnuð eftir matinn þar til námskeiðin byrjuðu. Herbergin eru mjög vinsæl og sumir vilja helst bara hanga þar en eins Jónsi benti á kemur enginn í sumarbúðir til að hanga inn á herbergi. Gæti samt spilað inn í að nammið er geymt á herbergjunum ;)

Námskeiðin voru frá 14-16 en þar er heilmikil vinna í gangi og mikil leynd ríkir yfir lokasýningum. Við vitum þó að grímugerð/myndlist verður aukalega með dansatriði. Mjög töff sýning í vændum.

KókosbolluboðhlaupKókósbolluboðhlaupi var skellt á rétt fyrir kaffi og þátttaka var mjög góð. Starfsfólkið fórnaði sér og sýndi hvernig ætti að fara að þessu og börnin lærðu hratt. Í kaffinu voru vöfflur með súkkulaði á sínum stað og rjóma og sultu og já, öllu sem á að vera á vöfflum.
Eftir kaffi mætti spákonan á svæðið. Mest var þetta uppbyggileg og skemmtileg upplifun, þau komu öll út með bros á vör og sátt við spjallið.



SkartgripagerðinSkartgripagerð, tattú, bandfléttur, keila og zumba Wii sló allt í gegn ásamt andlitsmálun. Bandfléttur í hárið voru líka á sínum stað. Einhverjir skelltu sér í sund og aðrir í íþróttahúsið.
Rétt fyrir kvöldmat fóru börnin inn á herbergi til að slaka aðeins á og safna kröftum fyrir kvöldið. Pylsur með öllu og appelsínusvali sló í gegn og var mikið borðað.



DraugaleikurinnDRAUGALEIKURINN fór fram í diskóherberginu og það voru margar hetjur sem voru til í að sækja eina glóstiku og fljúga síðan út með hana á ljóshraða.

Draugarnir voru sérlega spúkí enda stórir krakkar núna :) Draugarnir (starfsmenn í búningum , frekar augljóst svo sem) hlupu svo fram og ekki vildi betur til en að tveir þeirra skullu saman á hlaupunum og salurinn sprakk úr hlátri.

Draugarnir ógurlegu voru Gummi, Árni Páll og Davíð sem hneigðu sig fyrir börnunum um leið og þeir tóku niður grímurnar.



VöfflurÞetta var ekki enn búið því í matsalnum var ekkert kvöldkaffi heldur var börnunum boðið inn í bíósal og þar sáu þau mynd úr safni Ævintýralands. Þeim var boðið upp á popp og þau tóku með sér drykki og sælgæti úr sjoppuferðinni.

Þau voru fljót að sofna, alveg uppgefin, þessi duglegu börn. Flottur hópur!

Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T7D3.html#grid


Diskó og önnur dásamlegheit

MyndlistinEkki alveg besta veðrið í gær, svolítið kalt en sólin kíkti aðeins við seinnipartinn Cool

Eftir morgunmat voru námskeiðin
haldin. Það gekk ljómandi vel og við vitum að kvikmyndin er komin á skrið, búið að gera handrit og tökur eru hafnar.

HópefliÍ hádegismatinn var skyr og svo kíktu börnin aðeins inn á herbergin sín, einhverjir vildu þó vera úti. Síðan var stuttur hádegisfundur og svo aftur sjálfstyrkjandi hópefli. Börnunum var skipt í tvennt og fóru í allskonar sjálfstyrkjandi leiklistarleiki.



Hóparnir skiptust sem sagt á að fara í hópeflið og íþróttahúsið eða Spilaborgin. Einhverjir vildu líka föndra í föndurstofunni en þar var hægt að mála, lita og gera dagbækur.

Borðtennis í SpilaborgÍ kaffinu var kryddkaka með súkkalaðikremi/glassúr og heilmikil ánægja með það. 

Eftir kaffi fóru börnin í íþróttahús eða voru á útisvæði en þar eru trampólínin vinsælust. Einnig var æfing fyrir hæfileikakeppnina sem verður á fimmtudaginn.

Spilað í SpilaborgReiðnámskeiðsbörnin voru sótt klukkan 15.30 og fóru með nesti með sér. Þau verða send með myndavél á fimmtudaginn og þá um kvöldið koma myndir á heimasíðuna.

 

Kokkarnir í sumarbúðunum settu heimsmet í vinsældum þegar pítsur voru í boði fyrir börnin. Þau mættu uppstríluð í matinn, enda átti diskótek að hefjast strax á eftir og enginn tími til að snurfusa sig almennilega milli matar og diskós ... 

Diskóið var svo skemmtilegtDiskóið var æðislegt og enginn annar en Kharl Anton DJ sá um að snúa skífunum. Hann tók með sér geggjaðar græjur og var í bol sem blikkaði í takt við tónlistina. Limbókeppni var haldin, eins og á öllum góðum diskótekum - úrslit síðar.

 

Bandfléttur í hárBoðið var upp á bandfléttur í hár og tattú þegar börnin fóru fram og fengu sér frískt loft. Einnig varð að opna útisvæðið, svo rosalega mikið var dansa.

Kvöldhressingin var í formi ávaxta og svo var haldið í koju. Fram undan var húllumhædagurinn og von á sérlegum leynigesti. Meira um hann og húllumhædaginn í næstu færslu.

 

Myndir frá degi 2 eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T7D2.html


Hópefli, heitur pottur og flott hár ...

Hópur 7 kemurVeðrið tók ekkert svoooo illa á móti börnunum sem mættu í gærmorgun en það hafði alveg mátt vera betra, það var frekar kalt bara ... Rútan kom í hlað um kl. 11.30 en þá voru nokkur börn þegar komin.

Að vanda tóku umsjónarmennirnir á móti þeim en skipt er í aldursskipta hópa sem hver hefur sinn umsjónarmann. Hópurinn er eldri, eða 12-15 ára, og sérlega hress og skemmtilegur. Alltaf koma einhverjir einir en það finnast um leið vinir og vinkonur. Farangurinn var settur inn á herbergin og síðan var farið í sýningarferð um svæðið, úti sem inni, og fundað aðeins með umsjónarmanninum.

Í hádegismat var boðið upp á pasta og nýbakaðar, glóðvolgar hvítlauksbollur. Nammm!


Kynning í íþróttahúsinu hófst í kjölfarið
, starfsfólk kynnti sig og síðan námskeiðin.

Tvær úr kvikmyndagerð í handritsgerðFlest öll börnin völdu íþróttir og þar á eftir kvikmyndagerð. Listaverka/grímugerð var í þriðja sæti. Örfá börn völdu leiklist sem féll niður og varanámskeiðið hjá þeim var kvikmyndagerð eða grímugerð og allir voru sáttir.

Síðan var haldið á námskeiðin sem standa í tvo tíma á degi hverjum. Afraksturinn er svo sýndur á lokakvöldvökunni.

GrímugerðinSkúffukaka og melónur voru í boði í kaffitímanum.

Á fimmtudagskvöldið verður karaókíkeppnin, eða Hæfileika- og söngvarakeppnin Ævintýrabarkinn og nokkrir skráðu sig í keppnina og byrjuðu að æfa.

 

Fáir nenntu að vera úti vegna kulda - en veðurspáin er hagstæð næstu dagana svo það gæti breyst. Íþróttahúsið varð því fyrir valinu hjá mörgum, enda æðislegt, og svo kusu einhverjir að vera í kósíheitunum í Spilaborg; lesa, púsla, fara í borðtennis og annað dásamlegt.

Frá hárgreiðslukeppninniHárgreiðslukeppnin var líka haldin og hér eru úrslitin:
1. sæti: Hafrún Lind, greiddi Bríeti
2. sæti: Eygló, greiddi Aniku Elsý
3. sæti: Alexandra Diljá, greiddi Esther Helgu
Frumlegasta greiðslan: Gunnhildur Sædís Ósk, greiddi Signýju Helgu
Sniðugasta greiðslan: Heiða Ósk, greiddi Melkorku Ýr
Ævintýralegasta greiðslan: Sólveig Erla, greiddi Þuríði Ósk

Grjónagrautur var í boði í kvöldmatnum og einnig var borðað mikið af ávöxtum.

HópefliÁstbjörg Rut (Adda) leikkona var með hópefli og sjálfstyrkingu eftir kvöldmat. Börnunum var skipt í tvo hópa og hvor hópur um sig var í einn og hálfan tíma í senn. Þau voru sum nokkuð hikandi í fyrstu en fannst þetta svo hin allra besta skemmtun. Aðstoðarmaður hennar var Bjarki tómstundafulltrúi. Seinnihlutinn fer fram í dag og síðan hittist allur hópurinn saman í íþróttahúsinu. Þetta er gjörsamlega frábært, bæði skemmtilegt og hrikalega hollt upp á sjálfstraust og slíkt. Ekki veitir manni af á þessum aldri ... 

 

 

Fjör í heita pottinumHinn hópurinn fór í sund, heita pottinn, í Spilaborg eða var á útisvæði og svo var skipt.

Boðið var upp á brauð og safa sem kvöldhressingu og svo var farið í koju ... sum ákváðu að lesa aðeins fyrir svefinn og önnur hlustuðu á sögu, framhaldssögu. Þau voru þreytt eftr daginn en virtust mjög ánægð. 

Myndir frá deginum > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T7D1.html  


Furðuhótel, tvíburaafmæli og taumlaus gleði

Lokatökur í kvikmyndagerðEkki var mikið útiveður í gær, svona eins og hefur ríkt hjá okkur þar sem af er sumri, það rigndi en kannski ekkert sérstaklega mikið. Það var svo mikið við að vera annarsstaðar að fæstir hugsuðu mikið út í veðurfar ...

 

Þegar búið var að fá sér morgunverð af hlaðborðinu fóru námskeiðin í gang, ekki veitti af, heil lokakvöldvaka fram undan. Mikið var æft og planað. Síðustu tökur kvikmyndahópsins, myndlistar- og grímugerðarhópurinn byrjaði að setja upp sýningu og aðrir æfðu sig út í eitt.

 

Svo var eitthvað kíkt í íþróttahúsið og í Spilaborg.

 

Bára Sif afmælisbarnLjómandi góður pastaréttur var í boði í hádeginu og síðan var haldið á hádegisfund, hver hópur með sínum umsjónarmanni. Börnin fengu blað þar sem þau skrifuðu nafnið sitt á og síðan var blaðið látið ganga þar sem aðrir í hópnum skrifuðu eitthvað jákvætt og fallegt um viðkomandi. Mjög hollt og gott fyrir hjartað. Heart

 

Ekki veitti af að blása til námskeiða aftur eftir hádegið, börnin vildu ekki hafa atriðin sín góð, heldur fullkomin ... svo það var æft og æft og lokahnútar hnýttir víða um völl.

 

Guðmunda Sjöfn afmælisbarnÍ kaffinu var haldin afmælisveisla, allir fengu köku en tvíburasysturnar Bára Sif og Guðmunda Sjöfn eiga afmæli í dag, verða 13 ára, en haldið var upp á það í gær með pompi og prakt. Afmæliskökur þeirra voru skreyttar sérstaklega, þær fengu afmæliskort og -pakka frá sumarbúðunum og sunginn var afmælissöngurinn. Gummi spilaði á gítarinn og vel var tekið undir. Alltaf gaman að eiga afmæli í Ævintýralandi. Börnin voru mjög sátt við að fá afmælisveislu og kakan smakkaðist mjög vel, skúffukaka og mjólk með. Einnig var boðið upp á tekex með heimalöguðu marmelaði.

 

Bingó og bókalesturHaldið var bingó eftir kaffi og einnig farið í Spilaborg og íþróttahúsið. Börnin geta valið og þau fara á milli stöðva eins og þau vilja. Það er aldrei eitthvað eitt eða tvennt í boði, það á að vera hægt að velja um að gera eitthvað skemmtilegt.

 

Ekki var veður fyrir ruslatínslu (sjálfboðaliðar sem sópa og tína upp rusl og fá svo verðlaun) og heldur ekki kassabílarallí.

 

Sýningin var æðislegÞegar leið að kvöldmat skiptu börnin um föt, jú, hátíðin að ganga í garð og sérlegur hátíðakvöldverður fram undan - og síðan lokakvöldvakan þar sem allur afraksturinn kæmi nú í ljós. Allt iðaði af spenningi.

Veislueldhús Ævintýralands bauð upp á hamborgara með öllu, franskar og gos og sælustunurnar heyrðust alla leið í Reykholt.

Kvölddagskráin hófst á því að farið var inn á setustofu (sem heitir Framtíðin) þar sem Gummi var með gítarinn og mikið sprellað og sungið. Á meðan gerði grímugerð/myndlist allt klárt fyrir sýninguna.

SýningargestirSýningin var hreint afbragð og listaverkin einstaklega flott. Grímurnar voru ekki notaðar í látbragðsleikrit eins og oft áður, heldur voru börnin með grímurnar á sér og í búningum og stilltu sér upp og voru eins og myndastyttur. Sérlega glæsilegur gjörningur sem vakti mikla hrifningu gesta á sýningunni.

 

Þegar búið var skoða listaverkin var haldið út í íþróttahús.

Þvílík íþróttasýningÍþróttahópurinn hefur greinilega ekki setið auðum höndum síðustu dagana, þvílík atriði, þvílík leikni. Þau stukku, hoppuðu og sýningin þeirra var stórkostleg í einu orði sagt. Miklir íþróttagarpar hér á ferð.

 

Starfsfólkið sýndi síðan óundirbúið leikrit, dró hlutverk sitt úr hatti og þurfti svo að sýna getu sína. Leikritið Þyrnirós var sýnt og það var sko ekkert venjulegt. Mikið var hlegið og starfsfólkið skemmti sér ekki síður vel en börnin.

 

 

Starfsmannaleikritið að hefjastBoðið var upp á ávexti sem kvöldhressingu og einnig frostpinna og svo var það stuttmyndin sem kvikmyndahópurinn átti allan heiður af. Samdi handrit, valdi búninga og lék ...

Myndin fjallaði um furðulegt hótel í Borgarfirði. Tvíburasystur hafa verið fastar þar í 46 daga. Hundur kemur þeim til bjargar, talar við þær og hringir eftir hjálp. Fyrst koma túristar, síðan eftirlitsmenn og bjarga þeim. Ýmsar kynjaverur komu fram í myndinni sem var algjörlega frábær. Þessi börn, þessi börn. 

 

Úr bíómyndinniSíðan var farið í matsalinn aftur og börnunum afhentar ýmsar viðurkenningar.
Vinningshafar í bingóinu: 1. vinningur: Eygló. 2. vinningur: Erla og Oddný. 3. vinningur: Aldís og Hrafnkatla. Krossfiskar unnu draugaleikinn.

Laugardagur: Pakka eftir morgunmat, horfa aftur á stuttmyndina, leikir í íþróttahúsinu, kakósúpa í hádegismat og svo bara út í rútuna sem leggur af stað klukkan 13, áætlaður komutími í Perluna klukkan 14.45.

 

 

Myndir dagsins eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T6D5.html

TAKK FYRIR FRÁBÆRA VIKU. LoLHeart

 


Hestar og dúndrandi hæfileikar :)

Myndlist og grímugerðDagurinn í gær var alveg frábær ... úti rigndi en það gerði nú ekki mikið til.

 

Eftir morgunmat var farið í sund, eða sturtu, Spilaborg var opin og haldin var karaókóæfing.

 

Rigningin heillaði ekkert sérstaklega, enda svo sem nóg að gera inni.

 

Í hádeginu var boðið upp á grjónagraut og svo voru ávextir líka í boði, eins og svo oft.

 

Kvikmyndagerð fundar og planarNámskeiðin gengu afar vel og hádegisfundurinn líka sem var á undan. Mikið spjallað á fundinum og mikið skapað á námskeiðunum. :)

 

Ævintýrakaka var snædd í kaffinu, heimabökuð sandkaka, og einnig tekex með appelsínumarmelaði.

 

Reiðnámskeiðsbörnin skemmtu sér vel með hestunum og tóku ekki bara nesti með sér, heldur líka myndavélina.

Frá reiðnámskeiðinuEftir kaffi fóru flestir út í íþróttahús en nokkur börn vildu vera í spilaborg og hin fóru á reiðnámskeið ásamt myndavélinni.


Fljótlega eftir kaffi hætti að rigna og mörg börn stukku út að hoppa, róla og fleira ...

Gaman á hestbakiKvöldmaturinn var heldur betur góður; glænýr steiktur fiskur með hrísgrjónum og karrísósu, sum börnin sýndu byltingarkennda framkomu ... og vildu frekar tómatsósu. :)



Síðan kom að flotta Ævintýrabarkanum
, söngvara- og hæfileikakeppninni sjálfri. Mikið var búið að æfa fyrr um daginn og dagana á undan. Dómnefndin lenti í stökustu vandræðum, þetta voru svo fín atriði en samlagningin talaði sínu máli og hér eru úrslitin: 

1. sæti: Inga Bjarney söng lagið Someone like you m/Adele

2. sæti:  Rakel Sandra söng Rolling in the deep m/Adele (texti úr áramótaskaupi).

3. sæti: Oddný Þóra söng lagið Aftur heim með vinum Sjonna

 

Glaðir sigurvegarar í ÆvintýrabarkanumÞær fengu viðurkenningarskjal og verðlaun. Frá vinstri á myndinni: Inga Bjarney, Rakel Sandra, Davíð Þór og Oddný Þóra.

Davíð Þór sýndi spilagaldur á meðan atkvæðin voru talin og fékk auðvitað líka viðurkenningu og smá verðlaun fyrir.

Eftir kvöldhressingu, smurt brauð og safa, var haldið til koju og hlustað á framhaldssöguna á meðan augnlokin þyngdust smám saman ... zzzZZZ 

 

 

Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T6D4.html


Ha, bíddu ... fjólublár rjómi!

Frá íþróttanámskeiðinuLoksins kom rigning eftir nánast endalausa sól í sumar. Gott fyrir gróðurinn. Það rigndi aðeins í gærmorgun, stytti upp í hádeginu og svo fengum við rigningu aftur.

Þetta var öðruvísi dagur á annan hátt líka, sjálfur húllumhædagurinn þar sem þemalitirnir voru blár og fjólublár.

GrímugerðEftir morgunverð voru námskeiðin á dagskrá. Allt of mikil leynd hvílir yfir þeim og sama hvað við reyndum að njósna þá þögðu börnin bara og hlógu. Þetta kemur víst allt í ljós á föstudagskvöldið, við verðum að bíða.

Núðlur og núðlusúpa í matinn í hádeginu og einnig smurt brauð með eggi og kæfu.

Á hádegisfundinum drógu börnin, hvert í sínum hópi, miða með nafni eins úr hópnum og þar með var kominn leynivinur. Þá er hægt að gera eitthvað skemmtilegt, gleðja viðkomandi á ýmsan hátt sem er svo gaman.

FánaleikurinnSíðan hófst fánaleikurinn. Skipt var í tvö hörkulið, Martröð og Draum. Martraðarbörnin fengu rauða andlitsmálningu og Draumsbörnin bláa. Eftir mikla baráttu og hlaup fór svo að Draumur vann leikinn. Það fór að rigna en það skipti börnin ekki nokkru máli.

Sápukúlusprengikeppni var frestað þar til síðar en þess í stað fóru börnin í íþróttahúsið til að klára brennókeppnina sem hófst tveimur dögum áður. Yngsti hópurinn, Gullfiskar, fóru með sigur af hólmi.

KókosbolluboðhlaupRétt fyrir kaffi, á meðan eldhús dýrðarinnar bakaði vöfflur af miklum móð, útbjó súkkulaðiglassúr og þeytti rjóma, var skellt á einu stykki af kókosbolluboðhlaupi. Starfsfólkið fórnaði sér og hóf keppnina til að sýna hvernig ætti að fara að ... Sömu lið og í fánaleiknum „boðhlupu“ og borðuðu kókosbollur af krafti á miklum hraða. Draumur sigraði aftur.

Í eftirmat, á eftir kókosbollunni sem hver og einn fékk, voru vöfflurnar ... og þar sem þemalitirnir voru fjólublár og blár var rjóminn náttúrlega litlaður með þeim litum, svona góðum og hreinum litum, auðvitað. Sumum þótti þetta reyndar skrítinn rjómi en hann bragðaðist þó alveg eins og hann átti að gera. 

Jósefína Potter af BorgarnesiMikið fjör ríkti eftir kaffi. Hún Jósefína Potter af Borgarnesi hefur mætt á alla húllumhædagana okkar og situr í spátjaldinu sínu. Flest börnin vildu fara til hennar og heyra um bjarta framtíð ... eða jafnvel reyna að sjá hvaða andlit var á bak við slæðurnar ... kannski einhver starfsmaður? Hmmm. 

Hann Delphin ákvað að stríða Jósefínu svolítið, hann spurði hana tveggja spurninga í stað einnar, hafði frétt að það fyki í kerlu ef það gerðist. Það reyndist sannarlega rétt. Jósefína var með gjallarhorn og setti sírenuna í því í gang svo stráksi þaut í burtu ... skellihlæjandi. 

Boðið var upp á skartgripagerð, tattú, bandfléttur, keilu og zumba wii, að ógleymdri andlitsmálun og var ég búin að segja bandfléttur?

KraftakeppninBörnin hafa ósegjanlega gaman af því að taka þátt í keppnum af ýmsum toga ... og skömmu fyrir kvöldmat var haldin þreföld keppni í íþróttahúsinu. Kraftakeppni (2 l gosflaska með vatni í höndum sem haldið var beint út ... hver gat lengst) og sigurvegari var Omar Anwar frá Akranesi. Sippukeppni ... húllakeppni, sami sigurvegarinn, Karen Sif. Hún Erla Svanlaug rústaði svo keilukeppninni.

Pylsur með öllu voru í kvöldmatinn og gos með, sem sló algjörlega í gegn og mikið, mikið var borðað.

 

Börnin fylgjast með kókosbolluboðhlaupinuÞá hófst DRAUGALEIKURINN og var haldinn í diskóherberginu. Nokkrar hetjur voru meira en til í að sækja eitt stykki glóstiku inn í dimmt og draugalegt herbergið og fljúga síðan út á ljóshraða. Sá fljótasti vann fyrir hópinn sinn, Krossfiskana. Þar á eftir voru Gullfiskar og á hælunum á þeim voru Hafmeyjarnar.
Draugarnir „ógurlegu“ (aðallega fyndnu) voru Gummi, Árni Páll og Davíð sem hneigðu sig fyrir börnunum um leið og þeir tóku niður grímurnar.

 

 

Kósí bíókvöldÞessi skemmtilegi dagur endaði ekki á venjulegri kvöldhressingu, heldur var börnunum boðið í bíó, og sáu gamlar og góðar sumarbúðamyndir. Búið var að poppa, að sjálfsögðu, og svo var einnig safi með til að skola niður poppinu. Einstaklega kósí.

Það voru síðan fljót að sofna, alveg uppgefin þessi duglegu börn.

Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T6D3.html


Pítsur, leikrit, dagbókargerð og diskótek

Flott dagbókVeðrið í gær var dásamlegt, steikjandi hiti og glampandi sól.

Eftir að börnin vöknuðu héldu þau inn í matsal og fengu sér morgunverð af hlaðborðinu. Þar var í boði súrmjólk, kornfleks, cheerios, ristað brauð og alls kyns álegg og einnig hafragrautur. Hægt að fá sér eitthvað eitt eða tvennt ... eða smakka á öllu, þetta er jú hlaðborð.

Myndlist og grímugerð Síðan var haldin karaókíæfing fyrir þau sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum, sum börnin fóru í sund, önnur léku sér á útisvæði og í boði var einnig kortagerð og dagbókargerð í föndurstofunni. Sérlega flott kort voru búin til og dagbækurnar voru líka algjört æði.

Skömmu fyrir hádegi fóru öll börnin í íþróttahúsið en þar var flutt forvarnaleikrit þar sem starfsfólk (og eldri starfsmannabörn) léku hlutverkin. Þetta er margþætt leikrit og margar persónur í því. Góðuráðavélin Ping og Pong hjálpaði t.d. barni sem varð fyrir einelti og gaf sérlega góð ráð, lærdómsríkt líka fyrir börn sem verða vitni að slíka að vita hvernig gott er að bregðast við. :) Svo voru það Sing og Song, sá fyrri með hlutina á hreinu en hinn sannarlega ekki. Mikið var hlegið t.d. þegar Song sagði að auðvitað væri allt í lagi með að fara upp í bíl hjá ókunnugum ... Börnin greinilega alveg með þetta á hreinu. Frábær sýning sem hvetur sannarlega til umhugsunar.

Í hádeginu bauð eldhúsið góða upp á skyr og svo voru borðuð ósköpin öll af safaríkum ávöxtum sem var ekki verra í þessum villta hita.

Kvikmyndagerð Þá voru haldnir hádegisfundir, hver hópur með sínum umsjónarmanni. Þessir fundir eru á dagskrá daglega og þar er tekinn púlsinn á líðan barnanna, ýmis umræðuefni tekin fyrir, farið í uppbyggjandi leiki og annað slíkt. Leikritið rétt fyrir mat var umræðuefni hjá hópunum, boðskapurinn hafði greinilega náð vel í gegn.

Síðan hófust námskeiðin. Listafólkið málaði grímur eða hélt áfram með listaverkin sem byrjað var á deginum áður og veltir fyrir sér hvort eigi að semja látbragðsleikrit og sýna eða gera eitthvað annað skemmtilegt, eins og gjörning ...

 

Kvikmyndagerðarhópurinn er búinn að semja handritið að bíómyndinni og tökur hófust í dag. Íþróttahópurinn er virkilega duglegur og æfir grimmt fyrir sýningu á lokakvöldvökunni, grunar okkur, en mikil leynd hvílir alltaf yfir þeim atriðum sem verða á dagskrá lokakvöldið. 

SpilaborgÍ kaffitímanum var kryddkaka með súkkulaðikremi ... og svo auðvitað ávextir. Þetta eru jú sumarbúðir hinna mörgu ávaxta ... eða þannig.

Föndurstofan var vinsæl eftir kaffi, einnig íþróttahúsið, spilaborg og útisvæðið þar sem kassabílarnir leika stórt hlutverk og búið er að blása til kassabílarallís á föstudaginn. Í föndurstofunni var lögð síðasta hönd á kort og dagbækur sem byrjað var á í morgun en ekki náðu allir að klára sitt þá.

 

Pítsa í kvöldmatinnReiðnámskeiðsbörnin voru sótt um miðjan dag og tóku með sér nesti og góða skapið. Þau hlökkuðu mikið til en Guðrún reiðkennari kom í eigin persónu á rútunni til að sækja þau. Þau taka myndavél með sér á fimmtudaginn og um kvöldið koma myndir frá námskeiðinu á heimasíðuna (sumarbudir.is)

 

Dásamlegheitin voru nánast rétt að hefjast ... fram undan var pítsuveisla og síðan diskó á eftir. Pítsurnar vöktu mikla lukku og voru einstaklega góðar, mikið, mikið borðað.

Dynjandi diskóPrúðbúin börnin héldu síðan á ball, dansleikinn stóra sem gengur reyndar bara undir nafninu diskó. Og eins og á öllum alvörudansleikjum var boðið upp á limbókeppni, og þegar börnin fóru fram til að kæla sig gátu þau fengið bandfléttur og tattú. Það var líka gott að fara á útisvæðið þótt heitt væri í veðri.

Þá var ekkert eftir annað en að fá kvöldhressinguna ... eða ávexti. Börnin voru lúin eftir daginn og bara notalegt að skríða í koju.

 


Myndir frá deginum
eru hér >
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T6D2.html


Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband