12.7.2012 | 20:24
Föndur, forvarnarleikrit, pítsur og diskó!
Sól og blíða ríkti á öðrum degi. Rokið hafði fokið út í veður og vind. Stelpurnar sváfu einstaklega vel fyrstu nóttina og voru flestar sofnaðar áður en umsjónarmennirnir fóru af vaktinni. Sumarbúðastjórinn mætti um kl. 23 og ætlaði að aðstoða næturvörðinn en enginn þörf var á því.
Morgunmaturinn var heldur betur staðgóður, og er alltaf, enda heilt morgunverðarhlaðborð með hafragraut, kornfleksi, súrmjólk, cheeriosi, ristuðu brauði með áleggi ... hægt að velja úr eða fá sér allar tegundir.
Strax eftir morgunverð var farið út í íþróttahús, í sund eða á útisvæðið. Skráning í karókókeppnina og fyrsta æfing var einnig, en við köllum þessa skemmtilegu keppni Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann.
Um kl. hálftólf hófst leikrit úti í íþróttahúsi, forvarnaleikrit þar sem tekið var á ýmsum málum sem gott er að hamra á, eins og eineltismálum, hættum sem leynast á Internetinu, að fara ekki upp í bíl hjá ókunnugu fólki, sama þótt það sé t.d. í vandræðum með sæta hvolpa ... eða segist vera það. Leikritið var stórskemmtilegt og bráðfyndið þrátt fyrir alvarlegan undirtóninn.
Í hádeginu bauð eldhúsið dýrlega upp á skyr og einnig var nóg af ávöxtum í boði. Þá var haldið beint á námskeiðin en vanalega eru hádegisfundirnir haldnir strax eftir matinn, að þessu sinni var hann klukkan þrjú - og mikið rætt um leikritið og boðskapinn í því. Hver umsjónarmaður fundar með hópnum sínum og fundirnir auka mjög á samstöðu hópsins, svo er bara svo gaman að spjalla saman í rólegheitum. Oft eru nú samt leikir og sitt af hverju skemmtilegt sem umsjónarmanninum dettur í hug að gera - ja, eða börnunum.
Í kaffinu var kryddkaka með súkkulaðikremi og melónur.
Stöðvar í boði eftir kaffi voru íþróttahúsið og Spilaborgin góða, einnig föndurstofan þar sem hægt var að mála og lita hjá Ellen. Náð var í laufblöð og stimplað með þeim.
Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt klukkan 15 og fóru með nesti með sér, og brostu hringinn þegar Siggi rútubílstjóri kom að sækja þau. Þeim fannst mjög gaman og verða send með myndavél á fimmtudaginn og það kvöld koma svo myndir á heimasíðuna.
Í kvöldmat voru PÍTSUR!!! Mjög, mjög góðar og mikið borðað.
Síðan fóru stelpurnar á dansleik - það var heilt diskótek haldið í danssalnum góða sem gengur þó alltaf undir nafninu Diskóherbergið. Mikið var dansað og þegar stelpurnar fóru fram til að kæla sig aðeins niður gátu þær fengið tattú og/eða bandfléttu í hárið. Einhverjar fóru út og fengu sér frískt loft og það var líka frábært. Eins og á öllum alvörudansleikjum fór fram limbókeppni og mikið voru stelpurnar liðugar. Sú sem vann heitir Eydís Emma og setti hún líklega heimsmet í teygjum og sveigjum.
Ávextir í kvöldhressingu og svo var haldið í háttinn. Eftir hátt og burst las umsjónarmaður hvers hóps fyrir stelpurnar sínar og þær sem ekki sofnuðu lásu áfram sjálfar þar til draumalandið tók yfir. Fram undan var heill húllumhædagur - og þemalitur BLEIKUR, hvað annað!
Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D2.html
Næsta blogg kemur eftir smástund. Tölvan komin í "lag" (uppfærslumál) en nú verða tafirnar unnar upp af fullum krafti.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.