21.6.2012 | 00:11
Óvænt húllumhæ-náttfatabíópartí
Veðrið á þriðja degi var dásamlegt, sérstaklega fyrir hádegi, sól, hiti og blíða. Öðruvísi dagur rann upp, sjálfur húllumhædagurinn sem að auki átti sér sérstakan lit, gulan. Margt var við að vera, eiginlega óvenjumargt og meðal annars fengu börnin andlitsmálun - þess vegna eru svona margir með glóðarauga, bara svo það sé á hreinu. :)
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi að þessu sinni og allt gekk að óskum. Tökur eru hafnar í kvikmyndagerðinni, það fór ekkert á milli mála þegar börn í alls kyns búningum með sitt af hverju á höfðinu eða risanef ... þrömmuðu um sumarbúðirnar með tökuvélina á eftir sér og undan. Yfir öðrum námskeiðum hvílir meiri leynd, eins og kvikmyndin sé ekki nógu leyndardómsfull ...
Í hádeginu borðuðu börnin núðlur og núðlusúpu og einnig brauð með eggi og kæfu.
Strax eftir hádegisfundina hófst fánaleikurinn sem var æsispennandi. Börnunum var skipt í tvö lið, Martröð og Draum. Martraðarhópurinn fékk rauða andlitsmálningu og Draumshópurinn bláa. Eftir harða baráttu um klemmur og fána tókst Martröð að knýja fram sigur.
Eftir fánaleikinn átti að fara fram sápukúlusprengikeppni en þá fór að rigna svo börnin fóru í föndurstofuna og spilaborg og einnig var boðið upp á tattú og bandfléttur fram að kaffi.
Góður bökunarilmur var allt og alla að æra en í kaffinu voru vöfflur á boðstólum, vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma. Þar sem dagurinn var GULUR var rjóminn litaður gulur í stíl við allt hitt.
Á meðan börnin úðuðu í sig nýbökuðum vöfflunum laumaðist gestur á staðinn ... spákonan Jósefína Potter frá Borgarnesi. Hún var bráðfyndin og skemmtileg en til öryggis fengu sum börnin fullorðinsfylgd til hennar. Börnin voru öllu spenntari fyrir því að vita HVER af starfsmönnunum þóttist vera spákona ... en leyndardómurinn upplýstist þó ekki. Það tókst þó að ná mynd af kerlu þegar hún laumaðist á brott.
Heilmargt var við að vera, skartgripagerð, bandfléttur, keila og zumba wii, andlitsmálun (glóðaraugun góðu meðal annars) og sápukúlukeppnin en sólin var byrjuð að skína glatt. Eldari Mána tókst að sprengja flestar sápukúlurnar á tilsettum tíma, hátt í milljón ábyggilega ...
Í kvöldmat voru pylsur með öllu, meira að segja gos með, og svo mikið var borðað að ekki var að sjá að þau hefðu nýlega raðað í sig öllum þessum vöfflum ... Mikið voru kokkarnir glaðir.
Draugaleikurinn ógurlegi fór fram í diskóherberginu og það voru sko margar hetjur til í að sækja sér glóstikk inn í dimmt og reykfyllt (jú, við erum með reykvél) herbergið og fljúga síðan út á ljóshraða undan tveimur skrítnum draugum ...
Mikið var svo gott að fara í sund á eftir - en búið var að tilkynna að draugarnir svakalegu voru bara Gummi og Árni Páll. Þeir voru frábærir og fengu börnin aldeilis til að skríkja og hlæja.
Eftir sundið gengu börnin frá sundfötunum og háttuðu og fóru á náttfötunum inn í matsal. Þar var sko ekkert kvöldkaffi, heldur óvænt náttfatabíópartí. Stuttmyndin sem gerð var á tímabili 1 var sýnd, ásamt annarri og með þeim mauluðu börnin poppkorn og drukku safa.
Þau sofnuðu sæl og glöð eftir frábæran húllumhædag ... og kvöldsöguna.
Úrslitin í hárgreiðslukeppninni fyrsta daginn:
1. sæti: Eva Lind, greiddi Elínu Efemíu
2. sæti: Lilja Hildur, greiddi Ronju Rut
3. sæti: Berghildur, greiddi Lýdíu Hrönn
Frumlegasta hárgreiðslan: Viktor Örn, greiddi tvíburasystur sinni, Rebekku Rut
Sigurvegari keilukeppninnar: Rakel
Sigurvegarar brennókeppninnar fyrsta kvöldið: Krossfiskar
Hér er svo hlekkur á myndir af ævintýrum dagsins:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T2D3.html#grid
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.