19.6.2012 | 11:00
Fjör og frábært hár
Umsjónarmennirnir tóku á móti börnunum og aðstoðuðu þau með farangurinn og sýndu þeim herbergin sín. Þegar búið var að koma öllu inn settust börnin niður, hver hópur með umsjónarmanni sínum, og síðan var sýningarrúnturinn farinn, úti sem inni.
Svo var farið í skemmtilega útileiki fram að mat. Í matinn var pastaréttur og nýbakaðar, volgar hvítlauksbollur.Namminamminammmmmmm.
Þegar umsjónarmenn voru rétt ókomnir inn í matsalinn til að sækja börn sín bjó sumarbúðastjórinn til örlítið prakkarastrik með börnunum, fékk þau til að æfa sig svolítið vegna kynningarinnar sem átti að hefjast í íþróttahúsinu kl. 13. Skríkjandi og hlæjandi gengu börnin út og umsjónarmennirnir vissu ekkert hvað kætti þau svona óvenjumikið. Leyndardómsfullur svipur barnanna ruglaði þá heilmikið í ríminu.
Svo hófst kynningin. Sumarbúðastjórinn bauð börnin innilega velkomin og sagði síðan: Ég heiti ... SVANHILDUR, öskraði salurinn og það leið næstum yfir einn umsjónarmanninn. Sumarbúðastjórinn þóttist vera steinhissa á þessu en hélt áfram: Og ég er .... ... SUMARBÚÐASTJÓRINN! æptu börnin og skellihlógu að undrun umsjónarmannanna sem ekki grunaði neitt. En prakkarastrikið féll í góðan jarðveg og mikið var hlegið, ekki síst að undrun umsjónarmannanna. Verst að það var ekki hægt að endurtaka leikinn, sum börnin sögðu: AFTUR!
Nú var komið að starfsfólkinu að kynna sig og síðan voru námskeiðin kynnt. Kvikmyndagerð var vinsælust, þá íþróttir, grímugerð og listaverkagerð. Leiklistin var sameinuð kvikmyndagerðinni enda, og Hafdís, leiklistarkennari með meiru, heldur utan um námskeiðið með Davíð kvikmyndasnillingi. Svo þurfa vissulega leikararnir að læra sitt af hverju í leiklist áður en tökur hefjast, ekki satt?
Námskeiðin fóru á fullt - það var hamast í íþróttahúsinu, börnin bjuggu til grímur og önnur listaverk og handrit kvikmyndagerðar var samið. Námskeiðin eru í tvo tíma á dag og á lokakvöldvökunni er afraksturinn sýndur. Látbragðsleikrit grímugerðar, íþróttasýning íþróttahópsins, stuttmynd kvikmyndagerðarhópsins og svo framvegis.
Þá var bara komið að kaffitímanum en ekkert var þó kaffið - bara dásamleg heimabökuð skúffukaka og melónur eins og hver gat í sig látið.
Í þessum sumarbúðum er sko hugsað fram í tímann. Næstsíðasta kvöldið verður karókókeppni, eða sérstök hæfileikakeppni sem heitir Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabakinn. Eftir kaffi hófst skráning og lagaval og fyrsta æfingin strax næsta morgun. Það lítur allt út fyrir að atriðið verði níu talsins, ef ekki tíu.
Útisvæðið var vinsælt og einnig spilaborgin, mikið flakkað á milli. Gott að geta hoppað aðeins í trampólíni og farið svo inn og púslað, leikið, lesið og annað slíkt. Körfuboltavöllurinn var vinsæll og svo var hægt að sippa, hoppa, vega, róla og hvaðeina sem börnunum datt í hug.
Svo var líka haldin stórkostleg hárgreiðslukeppni. Frábært hár! heyrðist hrópað um allar sumarbúðir.
Í kvöldmat var boðið upp á grjónagraut sem vakti sko lukku og einnig sporðrenndu börnin miklu magni af ávöxtum.
Síðan var farið út í íþróttahús þar sem haldin var ofboðslega spennandi brennókeppni milli hópa. Úrslitin urðu þau að Krossfiskar unnu.
Eftir brennókeppnina var farið í sund og það var sannarlega gott að geta látið líða úr sér í heita pottinum og gaman að synda, hoppa út í og leika sér í þessari frábæru sundlaug.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á brauð og safa og síðan var haldið til koju. Fyrsti lestur á framhaldssögu var lesinn, en hver hópur velur sér bók og umsjónarmaður les fyrir þau kvöldsöguna. Það er svo gaman að láta lesa fyrir sig og svo sofnar maður svo vært á eftir.
Frábær fyrsti dagur.
Hér er hlekkur á myndir dags 1: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T2D1.html#grid
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.