Færsluflokkur: Bloggar
22.6.2008 | 15:17
Fjör og annríki og nýjar myndir!
Enn skín sólin glatt eins og vera ber í sumarbúðum.Lítill tími er þó til að liggja í sólbaði, kannski er það líka svona meira fullorðins ...
Nýjar myndir voru að koma inn á www.sumarbudir.is og má þar finna ýmsa atburði gærdagsins undir: Tímabil 2, dagur 4.
Í morgun var val um góða gönguferð í sólinni, sund, útisvæði og já, svo var karaókíæfing því að senn líður að Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum sem verður haldin í kvöld. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin en allir fá viðurkenningarskjöl. Það þarf heilmikinn kjark til að syngja og skemmta fyrir framan stóran hóp.
Í hádeginu borðuðu börnin pastaskrúfur og nýbakaða pítsasnúða og í kvöld verður fiskur.
Á síðasta tímabili kveinaði einn strákurinn: Æ, er fiskur í matinn? Hann var örugglega þrisvar í viku í skólamötuneytinu mínu og ég er sko alveg búinn að fá nóg! Hann fékk reyndar hrísgrjónagraut og brauð það kvöldið og var alsæll með það, enda stranglega bannað að fara svangur út úr matsalnum. Fiskurinn rann þó ljúflega niður hjá langsamlega flestum sem stöppuðu hann með kartöflum og tómatsósu sem er svo rosalega gott!
Hárgreiðslukeppni verður eftir kaffi í dag og alveg einstakt hvað hægt er að gera flottar hárgreiðslur. Bæði stelpur og strákar taka þátt. Strákarnir er margir svo stutthærðir að það var bara hægt að búa til drög að hanakambi á suma þeirra, samt rosaflott. Auðveldara er að gera flottar greiðslur hjá stelpunum.
Hér í færslunni má sjá ýmsar myndir frá húllumhædeginum, skartgripagerð, fánaleiknum, sápukúlusprengikeppni og vöffluáti.
Myndirnar stækka heilmikið ef ýtt er á þær og enn meira ef ýtt er aftur. Ef bendillinn er settur yfir myndirnar kemur myndatexti. En látum þetta duga að sinni. Á morgun kemur í ljós hverjir sigruðu í Ævintýrabarkanum og fleira og fleira.
Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.6.2008 | 00:58
Góður húllumhædagur, Draumur vs Martröð og nýjar myndir!
Alla helgina hefur ríkt sannkölluð veðurblíða og heilu lítrarnir af sólvörn notaðir á börnin. Eftir annasaman dag í gær (föstudag) var kjúklingurinn heldur betur vinsæll og líka frönskurnar.
Á föstudagskvöldi var haldið diskó fyrir þau börn sem það vildu og ríkti mikið stuð í græjunum hjá Davíð. Þeir sem kusu meiri rólegheit gátu fengið bandfléttur eða tattú. Sumarbúðirnar eiga líka gott bókasafn og var gaman að sjá tvær stelpur taka sér hvor sína bók um
Lúlla mjólkurpóst og ætluðu báðar að lesa um Lúlla fyrir svefninn og jafnvel reyna að klára fyrir þriðjudag þegar dvölinni lýkur. Ein sagðist ætla að reyna að finna Lúllabækurnar í bókasafninu fyrst þær væru svona hrikalega fyndnar. Sú fyrsta heitir Liðið hans Lúlla og er alveg bráðfyndin.
Í morgun, laugardag, voru námskeiðin fyrir hádegi en það er vegna þess að húllumhæ-dagurinn skall á um tvöleytið, strax eftir hádegisfundi hvers hóps með umsjónarmanni sínum. Á fundinum er staðan tekin, stundum farið í leiki og alltaf spjallað saman. Einn lítill gutti vissi af húllumhædeginum og hélt að þann dag færi fram húlahringjakeppni. Hann virtist hálffeginn þegar það var leiðrétt.
Allir umsjónarmennirnir voru uppáklæddir í flotta búninga kl. 14 og Svanhildur sumarbúðastjóri kom út með gjallarhornið og setti fánaleikinn með stæl. Börn harðneita reyndar að kalla þetta annað en hermannaleikinn. Tvö lið að keppa um klemmur ... hvað getur það heitið annað en stríð? Hmmmm ... Rauða liðið heitir Draumur og krakkarnir þar innanborðs fengu rauðar rákir á kinnarnar með andlitsmálningu, bláa liðið heitir Martröð og fékk bláar rendur. Þau voru ansi vígaleg. Þeir sem vildu meiri rólegheit sátu í sólinni og fengu bandfléttu eða tattú, krítuðu á stéttina og sitthvað fleira.
Það rignir bókstaflega aldrei í Borgarfirðinum, að sögn Arnars, frábærs starfsmanns sem er héðan úr sveitinni, en í lokin á fánaleiknum kom reyndar hellidemba í smástund. Algjör tilviljun, að sögn Arnars. Krakkarnir þustu inn, sumir áttu fótum fjör að launa og nokkrir fóru í bingó fram að kaffi. Vinningshafarnir í rigningarbingóinu heita Viktoría Líf og Elín Inga. Bingóstjóri var Salomé.
Í kaffinu voru vöfflurnar góðu, þessar með súkkulaðikremi og rjóma. Tveir guttar spurðu hvort það væri nokkuð bara ein vaffla á mann, hvort það væri ekki hægt að fá tvær eða þrjár. Sigurjóna hélt það nú, það væri regla í matsalnum að enginn mætti fara þaðan svangur.
Eftir kaffi fóru sumir í skartgripagerð, bæði strákar og stelpur, öll ætluðu að gera flottan skartgrip handa mömmu. Nokkrir æfðu sig fyrir karaókíkeppnina en 17 keppendur eru skráðir. Rosalega margir kusu síðan að fara til spákonunnar, Nauthóls-eitthvað ..., og vakti hún mikla lukku. Flestir voru reyndar bara uppteknir af því að vita HVER hún væri og var giskað á ýmsa umsjónarmenn. Heheheheh
Eftir velheppnað vídeókvöld sofnuðu allir rótt eftir annasaman dag.
Í kvöld, sunnudagskvöld, verður karaókíkeppnin, eða Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn, eins og hún heitir réttu nafni.
Nýjar myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is, dagur 3 og dagur 3 framhald. Dagur 4, húllumhædagurinn kemur svo inn í dag, sunnudag. Við erum alltaf degi á eftir með myndirnar.
Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2008 | 12:08
Mörk óttans, karaókí og frábær matur
Alltaf sama sólin og blíðan í sumarbúðunum og er veðurspáin frábær út allt tímabil 2. Í gær átti María Rós 8 ára afmæli og við óskuðum henni að sjálfsögðu innilega til hamingju með daginn, hún fékk afmælisköku, afmælisgjöf og afmælissöng! Alltaf gaman að eiga afmæli í sumarbúðunum. María Rós er í Kópunum en yngsti hópurinn ber það nafn. Svo eru Krossfiskar, Hafmeyjar, Höfrungar og fleira og fleira.
Bætti inn mynd af sjálfu afmælisbarninu en núna um eittleytið í dag bættust við fleiri myndir inn á heimasíðuna, www.sumarbudir.is. María Rós var heldur betur ánægð með daginn. Hún fékk kertaljós á kökuna sína og svo kom Svanhildur sumarbúðastjóri með glæsilega gjöf handa henni, eins og sjá má á myndinni. Rakel, til hægri á myndinni, er nú að koma í annað sinn í sumar, hún var líka á síðasta tímabili.
Námskeiðin fóru vel af stað; leiklist, grímugerð, íþróttaævintýri, dans og kvikmyndagerð. Fæstir völdu sér myndlist að þessu sinni en samt féll hún ekki niður, hún er í gangi á morgnana og kjósa ótrúlega mörg börn að skreppa inn á myndlistarstofu og mála svolítið. Skapandi og skemmtilegir krakkar, segir sumarbúðastjórinn.
Karaókíæfingar, úps afsakið ... æfingar fyrir Söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands, sjálfan Ævintýrabarkann, eru hafnar og verða a.m.k. 11 keppendur/atriði. Án efa má búast við mikilli snilld að vanda og góðri keppni.
Mörk óttans voru haldin eftir kvöldmat í gær og þetta var svo æsispennandi keppni að annað eins hefur varla sést. Sóley Ólöf Rún Guðmarsdóttir keppti í tveimur atriðum fyrir hönd hópsins síns og stóð sig frábærlega, sérstaklega í draugahúsinu þótt henni þættu draugarnir úúúúú hræðilegir. Hinar stelpurnar í vinningsliðinu heita Viktoría Lovísa Frostadóttir og Guðrún Sólveig Sigríðardóttir.
Annars stóðu allir krakkarnir sig MJÖG vel. Þetta var bara spurning um mesta hraðann í gegnum þrautirnar hræðilegu. Drekka ógeðsdrykkinn, sækja stein ofan í fötu sem var full af skrýtnu, slímugu vatni og var staðsett í draugahúsinu og sitthvað fleira.
Þetta er stórskemmtilegur hópur, kátir og lífsglaðir krakkar sem eru búnir að kynnast vel á þessum þremur dögum. Ekki koma öll börnin með einhverjum öðrum, heldur eignast nýja vini, sem passað er upp á að gerist, og er gaman að sjá hvað myndast sterk og góð vinátta á einni viku, vinátta sem heldur jafnvel eftir að dvölinni lýkur.
Pollý, sem vinnur sem umsjónarmaður í sumarbúðunum, er komin á þrítugsaldurinn en hún er gamalt sumarbúðabarn, kom á unglingatímabil um verslunarmannahelgi þegar við vorum að Reykjum í Hrútafirði, eigum sko margar góðar minningar þaðan. Pollý kom ein og eignaðist frábærar vinkonur sem líka komu einar.
Svo er það maturinn ... nammmm! Í gær var pítsudagur og var aldeilis borðað mikið, enda er Sigurjóna matráðskona algjör snillingur í pítsugerð. Í kvöld fá börnin síðan kjúkling, franskar, kokkteilsósu og gular baunir. Núna í hádeginu verður kakósúpa og tvíbökur, einnig ávextir eins og börnin geta í sig látið. Morgunverðarhlaðborðið er alltaf vinsælt en þar er hægt að velja um Cheerios, hafragraut, súrmjólk, ristað brauð, álegg, kornflakes ... og fá sér jafnvel smakk af þessu öllu saman. Það þarf að borða vel á morgnana þar sem degirnir eru einstaklega annasamir. Mikil útivera og mikil hreyfing = mikill matur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.6.2008 | 22:09
Fyrsti dagur á tímabili 2 - óvænt afmælisveisla
Nú er tímabil 2 hafið og allt gengur æðislega vel. Börnin fengu óvænta veislu í kaffitímanum en Katla Marín á 7 ára afmæli í dag. Allir fengu skúffuköku en skúffukakan hennar Kötlu Marínar var skreytt með afmæliskerti og smartís. Hún fékk líka flotta afmælisgjöf frá sumarbúðunum. Einnig var boðið upp á melónubita í kaffinu sem runnu hratt og vel niður ... í tonnatali.
Umsjónarmenn fóru um svæðið fyrir kaffi með hópa sína og sýndu þeim allt saman; íþróttahúsið, sundlaugina, spilaborg, borðtennisborðin, billjarðborðin og flotta útisvæðið fyrir framan húsið. Þá var börnunum hjálpað til við að koma sér vel fyrir. Síðan var hægt að velja um að fara í sund, spilaborg eða útisvæði fram að kvöldmat en í matinn var kjöt og spagettí, heldur betur vinsælt. Þau voru orðin glorhungruð eftir mikla hreyfingu og útiveru seinnipartinn. Enda eru þetta skemmtilegustu sumarbúðir í öllum heiminum, að okkar mati, og nóg við að vera fyrir hressa krakka. Frábær hópur, segir sumarbúðastjórinn.
Eftir kvöldmat var fundur úti í íþróttahúsi þar sem starfsmennirnir kynntu sig og námskeiðin sem í boði eru í tvo tíma á dag og hefjast eftir hádegi á morgun: Leiklist, íþróttir, kvikmyndagerð, myndlist, dans/söngur, ævintýranámskeið og grímugerð. Börnin völdu sér það námskeið sem þeim leist best á. Á síðasta tímabili kusu um 40 börn grímugerðina en næstvinsælust var kvikmyndagerðin sem yfirleitt er þó vinsælust. Stór hópur fer líka í íþróttirnar og þetta hefur oftast skipst nokkuð jafnt á milli námskeiða. Síðasta kvöldið sýna börnin síðan afrakstur námskeiðanna. Allir taka þátt, allir eru með og allir gera sitt allra besta. Allir hafa svo skemmtilegt val, eins og kertagerð, skartgripagerð og slíkt sem er ákaflega vinsælt.
Svanhildur sumarbúðastjóri kynnti agakerfið, 1,2,3 töfrar sem farið er eftir í sumarbúðunum og svo stóru, miklu og frábæru regluna sem verður að fara eftir ... eða að ALLIR EIGA AÐ SKEMMTA SÉR KONUNGLEGA í sumarbúðunum, líklega ansi hörð regla ... hehehe, en börnin eru hæstánægð með hana og hlýða henni vel!
Í kvöldkaffinu fá börnin ávexti og síðan lesa umsjónarmennirnir 1. hluta kvöldsögunnar og koma sínum börnum í ró. Eftir það taka næturverðir við og passa upp á að allt sé í himnalagi.
Nú er Davíð að koma myndum inn á www.sumarbudir.is, restina frá lokakvöldvökunni á síðasta tímabilinu og myndir sem teknar voru í dag. Síðast tók talsverðan tíma að hlaða þeim inn en vonandi gengur það hraðar í kvöld.
------ ---------- ---------- --------
Ég minni á að foreldrar geta sent tölvupóst á sumarbudir@sumarbudir.is til að spyrjast fyrir um börn sín og skila kveðju. Öllum bréfum verður svarað samdægurs.
Sólin hefur skinið skært í allan dag og gerir á morgun og hinn líka, samkvæmt norsku veðursíðunni www.yr.no. Hægt er að setja inn Kleppjárnsreykir og birtist þá veðurútlit næstu daga.
Sólskinskveðjur frá sumarbúðunum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2008 | 18:12
Fjörugur fardagur - villtur sólardans - lokakvöldvakan í gær
Börnin vöknuðu spennt og kát í morgun og fengu sér morgunverð. Nokkur voru hálflystarlaus af spenningi yfir því að hitta fjölskylduna aftur. Þau voru búin að pakka niður að mestu í gær og lögðu svo lokahönd á það í morgun með góðri hjálp umsjónarmanna sinna. Óskilamunir voru boðnir upp að vanda og við þriðja hamarshögg (eða þannig) komust þeir í hendur réttmætra eigenda. Fötin eru vel merkt af foreldrunum og því yfirleitt auðvelt að koma öllu til skila.
Töskurnar settar út um tíuleytið. Í eitt hornið fóru töskur rútufarþeganna og í annað farangur þeirra barna sem voru sótt. Inni í stóra sjónvarpsherberginu sátu svo krakkarnir og horfðu á skemmtilega mynd fram að brottför.
Allt í einu kom hellidemba og nú voru góð ráð dýr. Ekki mátti rigna á allan farangurinn sem beið. Nokkrum starfsmönnum kom það snjallræði í hug að dansa villtan sólardans, svona anti-regndans og viti menn, það hætti að rigna. Næsta demba kom ekki fyrr en allur farangur var kominn inn í rútur og foreldrabílana.
Mikið var veifað þegar rútan ók úr hlaði. Yndislegur hópur farinn og von á öðrum, örugglega ekki síðri, á miðvikudaginn. Rútínan þessa viku var aðeins öðruvísi en venjulega vegna 17. júní. Hún hófst á þriðjudegi en hingað til og héðan í frá verða miðvikudagarnir alltaf dagar eitt og heimförin er á þriðjudögum.
Lokakvöldvakan var æðisleg! Grímugerðarhópurinn fjölmenni hafði samið leikrit og sýndi það við mikil fagnaðarlæti hinna barnanna og starfsmanna. Íþróttahópurinn sýndi frábært atriði og kvikmyndahópurinn frumsýndi bíómyndina Fjólubláa leynifélagið og yfirnáttúrulegi töfrasteinninn.
Þetta var einstaklega vel heppnuð kvöldvaka og dásamlegt að sjá hvað börnin voru hreykin af frammistöðu sinni. Öll komu þau fram með eitthvað og öll brilleruðu þau algjörlega.
Mörg börn, ekki bara í kvikmyndagerðarhópnum, lýstu yfir löngun sinni til að eignast bíómyndina. Það er hægt, við getum fjölfaldað hana og sent hvert á land sem er. Það þarf bara að senda okkur tölvupóst, sumarbudir@sumarbudir.is, eða hringja í síma 435-1172. Hún kostar 1.500 krónur og rennur allur ágóði af henni í að byggja upp kvikmyndagerðina.
Myndir frá degi 6 eru komnar inn á www.sumarbudir.is en ekki allar frá lokakvöldvökunni. Elskan hann Davíð kemur þeim inn á miðvikudaginn en þá hefst tímabil 2.
000 === -O- === 000
Við höfum verið hvött til að setja hagnýtar upplýsingar um sumarbúðirnar, skráningu, tímabil, laus pláss og slíkt á bloggsíðuna. Hér koma þær og meira er líka að finna á heimasíðunni:
3. tímabil: 25. júní 1. júlí (8-12 ára) Nokkur pláss laus
4. tímabil: 2. júlí 8. júlí (8-12 ára) Biðlisti
5. tímabil: 9. júlí 15. júlí (8-12 ára) Nokkur pláss laus
6. tímabil: 16. júlí 22. júlí (8-12 ára) Nokkur pláss laus
7. tímabil: 23. júlí 29. júlí (10-12 ára) Biðlisti
8. tímabil: 30. júlí 5. ágúst (12-14 ára) Biðlisti
Aldursskipt er í hópa.
Hægt er að hringja í síma 435 1172 kl. 13-16 virka daga eða senda okkur tölvupóst á sumarbudir@sumarbudir.is.
Foreldrar sem eiga börn í sumarbúðunum geta hringt kl. 10.30-11.30 á morgnana en geta líka sent tölvupóst, spurt um börnin og sent þeim kveðju. Öllum bréfum verður svarað samdægurs.
Þangað til á miðvikudaginn ...
Kærar sumarbúðakveðjur úr sveitasælunni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar börnin vöknuðu í morgun vissu þau að þetta væri síðasti heili dagurinn. Heimferð á morgun kl. 11 og komið í Perluna rétt fyrir kl. 12.30. Mikil tilhlökkun ríkir, enda alltaf svo yndislegt að koma heim þótt gaman hafi verið í sumarbúðunum.
Í hádeginu var jarðarberjaskyr/hvítt skyr og smurt brauð með eggjum. Það rann ljúflega og vel niður eins og allt annað.
--------- ---------- ---------- -------- -------- ------
Stundum koma nokkur afmælisbörn, hafa kannski fengið dvölina í afmælisgjöf en núna var bara einn strákur sem átti afmæli, varð 10 ára í dag. Hann fékk köku og gjafir og var alsæll. Allir sungu afmælissönginn fyrir hann. Þau verða alla vega tvö næsta tímabil.
Æfingar fyrir lokakvöldvökuna hafa verið á fullu og inn á milli var pakkað niður, öllu nema fínu fötunum. Hátíðarkvöldverðurinn stendur nú yfir. Kveikt er á kertum og allir eru í sínu fínasta pússi. Hamborgaraveisla a la Ævintýraland.
Í gær var haldin glæsileg hárgreiðslukeppni. Tveggja manna hópar kepptu, bæði strákar og stelpur, hér er mynd af sigurvegurunum tveimur. Allir fengu viðurkenningarskjöl og fyrstu þrjú sætin og frumlegasta hárgreiðslan fengu smá verðlaun. Sjá má fleiri myndir á www.sumarbudir.is.
----- ----- ------ ------ ------ ----- ------ ------
Starfsmenn léku leikrit í gær fyrir börnin og mátti heyra nál detta á meðan það var sýnt, stundum var eitthvað fyndið í leikritinu og þá var nú hlegið. Tekið var á eineltismálum og hvernig hægt er að rjúfa vítahring. Einnig var farið inn á það hvern best er að tala við/leita til ef eitthvað liggur þungt á huga barnsins. Verst er að þegja. Góðu-ráða-vélin með þau Ping
og Pong innbyrðis vakti mikla lukku, enda Ping og Pong rosalega fyndin og líka afar ráðagóð.
Eftir kaffi í dag var ruslatínslutími. Mjög margir krakkar buðu sig fram, fengu plastpoka og fóru svo hringinn í kringum húsið og tíndu rusl, aðallega gömul laufblöð og bréfarusl. Eftir það fengu þau að velja sér eitthvað flott úr ruslatínsluverðlaunakassanum. Þau voru ótrúlega fljót að gera allt snyrtilegt í kringum sumarbúðirnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.6.2008 | 11:26
Nýjar myndir
Myndirnar eru komnar inn fyrir daga 4 og 5 á www.sumarbudir.is. Jibbbbbí!!!! Mikið að gera, verið að leggja síðustu hönd á atriðin fyrir lokakvöldvökuna ... blogga seinna. Sumarkveðjur úr sveitinni. P.s. Engin sól í dag, bara hlýtt og gott veður!
P.s. Leiðrétting, sólin fór sko að skína seinnipartinn!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2008 | 22:12
Frábærir hæfileikakrakkar - úrslit í keppninni
Nú var að ljúka Söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands. Guðbjörg og Telma komu öllum í stuð með Evróvisjónlaginu okkar This is my life. Þar á eftir söng Hrefna Sigfúsdóttir Baby one more time. Unnur söng þá Írafárslagið vinsæla Fingur en það hefur líklega verið tekið í hverri einustu Ævintýralandskeppni síðan það kom út, vikulegir fingur! Erla og Salomé sungu lagið Ég sjálf, annað Birgittulag en Birgitta Haukdal er sérlegur vinur sumarbúðanna, hefur mætt sem leynigestur til okkar nokkrum sinnum, þessi elska. Síðan söng Suzanna lagið Skater Boy, Þórdís Todda söng Ryksugan á fullu og Fléttufiskar, söngflokkur 9 yngismeyja, tók lagið Bahama (Fléttufiskar: Hefna, Alda Karen, Kolbrá Sól, Ásdís Sig, Harpa Lind, Fanney Björg, Hildur Björk og Guðrún María).
Á meðan stigin voru talinn réði dómnefndin ógurlega ráðum sínum, reifst og skammaðist ábyggilega af því að allir keppendur voru svo góðir. Loksins voru úrslit ráðin.
Í fyrsta sæti var Unnur Lilja Þórðardóttir, Þórdís Todda í öðru sætinu og þriðja sætið fór til Hrefnu Sigfúsdóttur.
Strákarnir voru að þessu sinni spenntari fyrir hæfileikakeppninni en að syngja og og sló Jóhannes í gegn með grínatriði a la Jón Gnarr. Alexander og Jón Orri léku misheppnaðar löggur (sem duttu í sífellu) við mikinn fögnuð viðstaddra, Karitas, Alexandra og Stefanía sýndu frumsaminn fimleikadans og Tinna Dröfn gerði ótrúlegustu hljóð. Hún kynnti atriðið sitt svona: "Ég ætla að skemmta ykkur með hæfileikum!" Og hvílíkir hæfileikar, hún gat látið heyrast skrýtið hljóð með eyrunum og svo leikið eftir fuglshljóði, mjög flott. Gunnar er liðugasti krakki sem hefur komið í Ævintýraland, hann tók sig ábyggilega úr liði þegar hann hlykkjaðist utan um sjálfan sig. Krummi sagði frábæra brandara ... Fimleikadansatriðið hlaut síðan mestu náðina fyrir augum dómnefndarinnar.
Mörgum fannst fiskurinn mjög góður í kvöld og flestir borðuðu hann með góðri lyst ... aðrir þáðu með enn betri lyst grjónagraut þannig að allir fóru saddir út úr matsalnum. Annað kvöld, lokakvöldið verður geggjuð hamborgaraveisla; hamborgarar, franskar, sósa, salat, gos og tilhlökkunarfjör! Lokakvöldvakan sem allt hefur miðast við ... Davíð er að klippa kvikmyndina, stuttmyndina sem sýnd verður annað kvöld. Þess vegna blogga ég úr annarri tölvu en vanalega og get ekki sett inn myndir strax. Tók mynd af hverjum einasta keppanda og svo hópmyndir. Myndirnar sem teknar voru í dag ættu allar að vera komnar inn í kvöld, til öryggis segi ég Á MORGUN, sunnudag. P.s. Ég hljóp aðeins á mig í síðustu bloggfærslu og sagði Ellýju ætla að sjá um Söngvara- og karaókíkeppnina ... það rétta er að þessi sem hélt utan um hana, þjálfaði krakkana og kynnti dagskrána heitir Guðmundur. Ellý hefur reyndar mjög oft komið og verið með keppnina og hún á nú reyndar heilmikið í keppni kvöldsins ... hún bjó til flotta sviðið umhverfis keppendur! Sem sést þegar myndirnar koma. Best að reka á eftir Davíð!!!
Fullt af myndum á www.sumarbudir.is
Bloggar | Breytt 15.6.2008 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2008 | 13:11
Bara stutt ...
Allt gengur frábærlega vel. Nú halda umsjónarmennirnir hádegisfundi með hópnum sínum hver í sínu horninu. Síðan verða námskeiðin frá kl. 2-4. Einnig er verið að undirbúa á milljón karaókíkeppnina sem verður í kvöld en aðalþjálfarinn, hún Ellý í X-Factor, heldur utan um hana. Krakkarnir elska Ellýju, enda er hún frábær og skemmtileg.
Þrátt fyrir gífurlega notkun á sólvörn í gær hafa nokkrir krakkar þurft að fá Galdrakremið í dag og reyndar í gærkvöldi líka. Það er verulega gott græðikrem frá Móu (notað á Landspítalanum), og hefur gengið undir Galdrakrems-nafninu frá upphafi. Hádegisverðurinn var pasta með tómatsósu og nýbakaðir pítsusnúðar. Vel, ég meina MIKIÐ, borðað eins og venjulega. Davíð setur inn nýjar myndir í dag á www.sumarbudir.is og vonandi tekur það ekki jafnlangan tíma og síðast að hlaða þeim inn. Þangað til seinna í dag ... sólskins- og blíðukveðjur úr sveitinni.
Bloggar | Breytt 15.6.2008 kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.6.2008 | 21:33
Vídjókvöld, dularfull spákerla og vinsælasti morgunmaturinn!
Nú sitja börnin róleg og horfa á mynd, reyndar tvær í boði, fyrir eldri og svo yngri. Dagurinn hefur verið virkilega annasamur. Húllumhæið var fjörugt, stóð yfir allan eftirmiðdaginn og eins gott að kaffið (vöfflurnar) voru inn á milli. Eftir kaffið var m.a. spákonuheimsókn í boði, eins og alltaf á húllumhædegi. Hún vekur hrikalega lukku, ekki þó bara fyrir það sem hún segir, heldur er svo spennandi að giska upp á því hver hún er.
Þegar síðuskrifari mætti í Ævintýraland um kl. 16.30 með töskuna sína og myndavél kom spurning frá einu barninu: Ert þú spákonan? Ég harðneitaði því, fussaði og sveiaði, og máli mínu til sönnunnar benti ég þeim á að ég stæði hjá þeim en væri ekki inni í spákonuherberginu þar sem spákonan var við iðju sína. Iss, þetta er bara hann Gummi umsjónarmaður að þykjast vera spákerling, sagði annað barn. Nei, þetta var Thelma! sagði það þriðja. Aðalspenningurinn var að fletta ofan af kerlu ... og allir starfsmenn liggja undir grun.
Sandra Ýr, dóttir Önnu aðstoðarráðskonu kom inn í eldhús mjög spennt. Ég var hjá spákonunni og hún sagði að þú og pabbi elskuðuð mig rosalega mikið og að ég myndi fara til Suður Ameríku þegar ég yrði stór.
Myndir af spákonunni koma á morgun og verða settar á bloggið. Davíð tæknitröll á nefnilega frí í kvöld og því verða bara "gamlar" 2008-myndir síðan fyrr í dag og gær og fyrradag með í færslunni.
Krakkarnir eru meira og minna flestir með flottar bandfléttur í hárinu og glæsileg tattú, sum meira að segja úr "gulli", á handleggjunum. Setið var úti við bandfléttu- og tattúgerð og leikið í körfubolta og fleira. Það ríkti líka ógurlega kósí stemmning í spilaborg í dag en sum börnin flúðu úr sólinni, þeim var heitt og þau þreytt á sólinni í bili og fannst svalandi að geta sest niður í smástund og lesið Andrésblöð, púslað eða teflt.
Grilluðu pylsurnar runnu vel niður í kvöld og matráðsfólkið, frábæra og stórkostlega, stóð í röð og setti tómatsósu, hráan lauk, steiktan lauk, sinnep og remúlaði ... allt eftir smekk hvers og eins. Ógurlega vinsæll matur.
Ég spurði sumarbúðastjórann hver væri vinsælasti morgunverðurinn af hlaðborðinu. Fyrsta morguninn er eldaður hafragrautur til að athuga hverjir vilja slíkt, ef enginn sýnir áhuga þá er hann ekki eldaður aftur. Ristaða brauðið er mjög vinsælt. Börnin fá sér stundum Cherios, svo næsta morgun kannski súrmjólk, þá kornflakes en alltaf ristað brauð með. Þessa vikuna er eldaður hafragrautur, svona fjögur til fimm börn vilja hann á hverjum morgni þetta tímabilið. Þessi barnahópur borðar allt og það finnst Sigurjónu matráðskonu alveg æðislegt! Spennandi að vita hvað þau segja um fiskinn annað kvöld ...
Með sumarbúðakveðju úr sveitinni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar