Færsluflokkur: Bloggar

Námskeiðin ... og allir eitthvað svo leyndardómsfullir

TrampólínHúllumhædagurinn í gær var alveg frábær og loks eru allar myndirnar komnar inn á heimasíðuna okkar, www.sumarbudir.is.

Námskeiðin voru fyrir hádegi, eins og áður hefur komið fram og það gengur illa að njósna um t.d. efni leikritsins, fá nánari upplýsingar um kvikyndina sem kvikmyndagerðin er að gera, hvernig dansinn verður, listaverkin sem fara á sýninguna og allt það. Teknar voru myndir í gær á námkeiðunum og má sjá þær hér að neðan. Með því að setja bendilinn yfir myndirnar sést textinn. Annars skýra þær sig ágætlega sjálfar svo sem ...

KvikmyndagerðinBörnin í kvikmyndagerðinni sátu í bláa salnum og plönuðu tökustaði og annað slíkt og fóru svo út í tökur, eins og sjá má á myndunum (dagur 4).  Mikill spenningur er í sumarbúðunum vegna þessarar leyndardómsfullu myndar sem verið er að gera og allir hlakka til að sjá hana en hún verður frumsýnd annað kvöld á lokakvöldvökunni.

DanshópurinnDanshópurinn æfir á fullu núna tvo dansa, annar er svona grín- og gamandans en hinn í fúlustu alvöru, eins og ein í hópnum sagði. Mikil tilhlökkun ríkir hjá okkur að sjá dansatriðið, eins og auðvitað öll hin atriðin. Pollý er náttúrlega bara snillingur og leynd hvílir líka yfir dansatriðunum, eins og flestu öðru.

 

LeiklistinLeiklistin er með söngleik í smíðum, höldum við. Efni hans er þó algjört hernaðarleyndarmál, eins og hjá kvikmyndagerðinni. Það verður a.m.k. eitthvað sungið, enda er Gummi algjört séní með gítarinn og mun þá leika undir. Mikið verður gaman að sjá leikritið leyndardómsfulla - við fáum ekkert að vita um það, ekkert!

ÍþróttahópurinnÍþróttahópurinn, ef við þekkjum Geir rétt, mun sýna einhverjar frábærar, æðislegar listir en Geir segist vera með einstaklega efnilega íþróttakrakka í hópnum sínum. Íþróttasýningin er alltaf æði og ótrúlegt hvað börnin þar geta verið liðug ...  íþróttastjörnur framtíðarinnar.

MyndlistBörnin í myndlist, eða listasmiðjunni undir stjórn Heiðu, voru á kafi í sköpun og það er alltaf mikið tilhlökkunarefni að byrja kvöldið, eftir hátíðarkvöldverðinn, á því að fara á myndlistarsýningu. Boðið er upp á hressingu, eins og á öllum flottum myndlistarsýningum, og ýmislegt skemmtilegt og óvænt verður í boði. Stundum hafa börnin í listasmiðjunni teiknað blindandi þá sem vilja og þær myndir verða yfirleitt mjög fyndnar. Nefið út á kinn, annað augað í hárinu og allt í þeim dúr ...

FánaleikurinnFánaleikurinn góði var leikinn eftir hádegið, eins og vani er á húllumhædegi, og skipt í tvö lið, Draum og Martröð. Draumverjar fengu rauða stríðsmálningu í andlitið og Martraðarliðið bláa. Svo var bara hlaupið og hlaupið og leikið. Mjótt var á mununum allan tímann en að lokum fór svo að jafntefli varð. Allir ánægðir með það, enda hörkulið bæði.

Vöfflur með súkkulaði og rjómaÞegar fánaleikurinn var búinn var kominn kaffitími og þá voru einmitt í boði vöfflur með súkkulaði og rjóma ... eða bara súkkulaði. Vöfflurnar voru borðaðar upp til agna og svo var haldið áfram með húllumhædaginn.

Hin hrikalega spákona, Jósefína Potter, vakti mikla lukku og vildu langflestir fara til hennar og láta hana segja til um framtíðina ...  Það er auðvitað leyndarmál hvað spákonan sagði en allir voru ánægðir. Annars ríkti MIKLU meiri spenningur yfir því "hver" spákonan væri en hvað hún segði. Flestir giskuðu á að Ósk umsjónarmaður væri í dularfulla spákonubúningnum en svo sagði Þóra að Ósk hefði þurft að skreppa til Borgarness og varla platar Þóra ...

SápukúlusprengikeppninSápukúlusprengikeppni fór fram en þá þarf að keppast við að sprengja eins margar sápukúlur og hægt er með því að klappa saman lófunum. Inni í matsal fór fram skartgripagerð og einnig var hægt að fá tattú og bandfléttur. Þetta síðastnefnda þarf nokkuð oft að vera í boði á tímabilinu til að allir sem vilja fái. Hver vill ekki koma heim með tattú og bandfléttu í hárinu?

Í dag var líka nóg við að vera, m.a. ruslatínsla ... en þeir krakkar sem vilja taka poka og tína upp í hann allt rusl sem þeir finna á lóð sumarbúðanna fá flott verðlaun. Allt varð fínt á augabragði og það snarlækkaði í verðlaunakassanum. Það sést ekki lengur eitt einasta fjúkandi sölnað laufblað á sveimi ... og eftir að stéttin var sópuð hefur ekki einn steinn villst þangað. Bara allt æðislega hreint og fínt hjá okkur.

Í kvöld verður svo karaókíkeppni en nánar um þetta allt saman á morgun þegar myndirnar frá deginum í dag koma inn á heimasíðuna.

Grunsamlegir gæjar (kvikmyndagerð)Á morgun er auðvitað 17. júní og það verður brjálað að gera, skrúðganga með trommuslætti, gítarspil og fánum veifað. Leynigestur kemur svo kl. 14. Það verður kókosbollukapphlaup og margt fleira stórskemmtilegt gert fyrir börnin. Bæði er þetta þjóðhátíðardagurinn sjálfur og líka lokadagurinn þar sem allir bíða spenntir eftir kvöldinu og að sjá afrakstur námskeiðanna. Allir taka þátt! Meira að segja leikur starfsfólkið leikrit sem hefur alltaf vakið mikla lukku í gegnum árin. Hvaða leikrit Svanhildur sumarbúðastjóri velur veit nú enginn, ekki einu sinni starfsfólkið sem þarf að draga miða úr hatti til að vita hvaða hlutverk það á að leika. Það getur meira að segja lent í því að leika hjálm veiðimannsins í Rauðhettu ... eða skó Öskubusku.

Ljósmyndin hérna neðst var tekin háleynilega með skrilljónfaldri aðdráttarlinsu en verið var að taka upp útiatriði í grínhryllingsmyndinni sem frumsýnd verður annað kvöld ... þetta eru sannarlega ógurlega grunsamlegir gæjar.

 


Grín og glens frá kvikmyndagerðarhópnum

Hér er myndband sem krakkarnir í kvikmyndagerðinni bjuggu til og sýnir snilldartakta þeirra. Nú get ég ekki beðið eftir að sjá leyndardómsfullu bíómyndina, grínhryllingsmyndina, sem þau eru að búa til.

 


Húllumhæ, diskó og vöfflur með súkkulaði og rjóma

Diskóið að hefjastHárgeiðslukeppnin 1. sætiDiskótekið var æðislega skemmtilegt í gær og mikið dansað og tjúttað. Ekki var amalegt að slaka svolítið á inn á milli og fá sér tattú eða bandfléttur í hárið. Kvöldið heppnaðist mjög vel og þreyttir og sælir krúttmolarnir sofnuðu fljótt og vel. Á myndinni hægra megin má sjá stelpurnar sem lentu í fyrsta sæti í hárgreiðslukeppninni á laugardaginn. Fleiri myndir eru á heimasíðunni, www.sumarbudir.is. Tímabil 1, dagar 1, 2, 3 og 4 og svo kemur meira inn á morgun.

 

Húllumhædagurinn settur, Svanhildur og ÞóraGóð pítsaÍ dag var húllumhædagur og því voru námskeiðin fyrir hádegi, eða frá 10-12. Verið er að græja myndband til að setja á Facebook-síðu sumarbúðanna. Vonandi verður hægt að setja það inn hérna líka, best að spyrja Davíð og ef hann segir já þá birtist það hér. Húllumhædagar eru alltaf mjög skemmtilegir en þá eru leikir og fjör og einnig rólegheit og kósíheit fyrir þá sem það vilja. Skartgripanámskeið eða kertagerð og bara eitthvað fjölbreytt. Myndin vinstra megin er að tveimur pítsuaðdáendum úr hópnum. En pítsa var í matinn á laugardaginn. Kjúklingar í gær, grillaðar pylsur í kvöld. Þetta er náttúrlega bara rosaflottur matseðill fyrir sísvanga krakka. 

Frá Reykjum í Hrútafirði, eldgömul myndGummi, Davíð og PollýLjósmyndin hér til vinstri er síðan í gamla daga þegar við vorum á Reykjum í Hrútafirði og þar má sjá Davíð sem sér um kvikmyndagerðina í dag. Hann er í dökku peysunni. Davíð er fyrir miðju á myndinni til hægri með þeim Gumma (leiklist) og Pollýju (dans).Gamla ljósmyndin hangir uppi á vegg í sumarbúðunum, ásamt fleiri skemmtilegum myndum sem m.a. Sissa ljósmyndari tók. Pollý er líka "gamalt" sumarbúðabarn en hún kom á unglingatímabilið eitt árið og sigraði í hæfileikakeppninni með flottu dansatriði, ásamt vinkonu sinni. Síðan þá hefur hún bara dansað.


Grjónagrautur og ávextir voru í boði í hádeginu og MIKIÐ borðað, enda býr Sigurjóna til besta grjónagraut norðan Alpafjalla.

ReiðnámskeiðiðHádegisfundur barnanna með umsjónarmönnunum í dag fór í að ræða leiksýningu sem var í gær, en þá lék starfsfólkið forvarnaleikrit fyrir börnin. Fyndið leikrit en með alvarlegum undirtóni. Spjallað var um það hve mikilvægt það er að hugsa jákvætt og hafa trú á eigin getu. Börnin voru mjög áhugasöm og málin rædd í þaula.

Vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma voru í kaffinu og það fannst börnunum ekki leiðinlegt. Ekki starfsfólkinu heldur ...


Hluti af pítsufjallinu fyrir bökunÍ kvöld var slegið upp bíókvöldi. Svona eins og í alvörubíói á Ísland var boðið upp á hlé og þá fengu börnin popp og Svala. Bara æðislegt!

Sérleg veðursíða sumarbúðanna, www.yr.no , spáir sæmilegasta veðri á morgun, hægviðri, nokkuð svölu og smárigningu eftir hádegið.

Hérna til vinstri má sjá örlítinn hluta af pítsunum síðan á laugardaginn. Öll borð í risastóru eldhúsinu voru full af mismunandi pítsum, eins gott að ofninn bakar margar í einu.

Hér fyrir ofan til hægri er mynd frá reiðnámskeiðinu. Umhverfið sem farið er um er ótrúlega fallegt.

 

 

Bestu sumarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum. Endilega kíkið á fleiri myndir á www.sumarbudir.is.


Skotbolti, sipp og diskótek!

Gaman í sundiDagurinn í dag hófst á morgunverðarhlaðborði að vanda og þeir sem upplifðu valkvíða gerðu bara það eina rétta í stöðunni og fengu sér sitt lítið af hverju. Það er einmitt helsta regla matsalarins að allir eigi að borða sig sadda ... góð regla. Í hádeginu var boðið upp á kakósúpu, tvíbökur og ávexti og í kaffinu var kaka og melónur. Kvöldmaturinn var náttúrlega bara æðislegur, veisla að vanda, eða kjúklingur og franskar sem vakti mikla lukku. Hvernig endar þetta? Pítsa í gær, kjúklingar í dag ... 

Reiðnámskeið hófust í dag sem hluti barnanna sækir næstu daga.  Snillingurinn hún Guðrún Fjeldsted heldur utan um þau og hefur gert síðan við fluttum í Borgarfjörðinn.

Í íþróttahúsinu var skotbolti sem sló algjörlega í gegn. Einnig var haldin sippukeppni sem var æsispennandi. Sigurvegari var Ingvar, Inga í öðru sæti og Auðunn í því þriðja.

Klukkan 18 var opnað inn á herbergin svo að börnin gætu puntað sig því að nú er að hefjast diskótek! Hvorki meira né minna ... Þá verður hægt að tjútta við skemmtilega tónlist. Reykvélin verður ræst og diskóljósin auka heldur betur á stemmninguna. 

Flott karfaSkotboltiÞeir sem verða þreyttir á dansinum ... eða dansa ekki ... geta setið í góðu yfirlæti, fengið tattú og bandléttur í hár eða spilað borðtennis, púl eða púslað ... ýmislegt í boði.

 

P.s. Nýja myndakerfið okkar á heimasíðunni okkar er eitthvað stríðið við okkur í augnablikinu en viðgerð stendur yfir. Það eru þó komnar rúmlega 100 myndir frá fyrstu tveimur dögunum inn á: www.sumarbudir.is

 


Frábærir fyrstu dagar - 2009

TrampólínÞað er búið að vera svoooooo gaman bæði í gær og í dag og enginn tími til að blogga.

 

Fyrsti hópur sumarsins kom í sumarbúðirnar upp úr hádegi í gær og virtust stilltustu og bestu krakkar sem komið hafa. Okkur finnst þetta reyndar alltaf en samt ... þetta er FRÁBÆR hópur.

 

SundMikið hefur verið myndað í dag og í gær en gengur frekar hægt að koma öllum myndunum inn í kerfið en það kemur. Þær verður að sjá á www.sumarbudir.is, hinni virðulegu heimasíðu sumarbúðanna, einnig fjölmargar myndir síðan í fyrra.

 

Börnunum var sýnt svæðið við komu og allar reglur kynntar ... sérstaklega aðalreglan sem er að SKEMMTA sér og njóta þess að vera í sumarbúðum. Það var farið í sundlaugina og heita pottinn seinnipartinn og þar sannaðist þessi góða regla heldur betur ...

 

Fjórar skvísurHóparnir sem börnunum er skipt niður í heita Hafmeyjar, Krossfiskar, Sæljón, Gullfiskar og Höfrungar. Hver hópur hefur sinn umsjónarmann.

 

Börnin völdu sér námskeið fljótlega eftir komu.

Heiða sér um listaverkagerðina, Pollý um dansinn, Davíð og Ósk um kvikmyndagerðina, Guðmundur sér um leiklistina og Geir um íþróttirnar. Allt frábærir umsjónarmenn sem börnin sem hafa komið áður þekkja frá fyrri árum. Í íþróttahúsinuÞeir halda vel utan um börnin sín sem geta alltaf leitað til þeirra með alla hluti. Það eykur öryggiskennd barnanna mikið. Umsjónarmennirnir sjá um að koma börnunum í ró á kvöldin, lesa framhaldssögu fyrir þau og í gærkvöldi, fyrsta kvöldið, settu börnin met í að sofna hratt og vel. Næturvörðurinn hafði lítið að gera.

 

Í morgun, laugardag, beið morgunverðarhlaðborð; brauð, álegg, seríos, hafragrautur, kornflakes og fleira. Í hádeginu var núðlusúpa og brauð og rann ljúflega niður.

 

Mörk óttansFrá kl. 13-14 voru hádegisfundir þar sem hver hópur var með umsjónarmanni sínum og staðan tekin, farið í leiki, spjallað og annað skemmtilegt.

 

Þá hófust námskeiðin, sem standa frá kl. 14-16 alla daga. Afrakstur námskeiðanna verður síðan síðan sýndur á lokakvöldvökunni á miðvikudagskvöldið kemur.

 

Þótt það sé í raun hernaðarleyndarmál ... hefur spurst út að kvikmyndagerðin sé með hryllingsmynd í smíðum, svona gamanhryllingsmynd ... Börnin semja sjálf handritið og skipa í hlutverk. Það verður ótrúlega spennandi að sjá myndina. Svipuð leynd hvílir yfir hópnum í leiklistinni en börnin þar semja líka leikritið sitt sjálf. Mörk óttansBúningasafnið er frábært, kápur og kjólar af mömmum okkar, frakkar af pöbbum okkar og annað bráðskemmtilegt sem krakkarnir elska að klæðast. Hópur Pollýjar semur dansinn sem verður æfður og síðan sýndur og börnin hennar Heiðu eru byrjuð að skapa mögnuð listaverk en lokakvöldvakan hefst alltaf á því að boðið er til listaverkasýningar þar sem líta má verkin augum og dást að þeim. Algjörlega alvörunni listaverkasýning. Hópurinn hans Geirs mun svo sýna listir sínar í íþróttasýningunni á lokakvöldvökunni. Bara æðislegt. Snilldarkrakkar.

Í kaffinu fengu börnin m.a. brauð og sódaköku og eftir kaffið voru opnaðar stöðvar, eins og við köllum það.

ÓgeðsdrykkurHárgreiðslukeppni fór fram seinnipartinn og tók hluti stelpnanna þátt, enginn strákur að þessu sinni. Þetta var æsispennandi keppni þar sem „hvert hárið var glæsilegra“ og svo voru úrslitin kynnt.

 

Í fyrsta sæti voru Anna Kristín og Ásdís Linda. Í öðru sæti: Halldóra Vera og Erla Svalaug og í því þriðja: Inga Bjarney og Ólöf Rún. Þær fengu að velja sér verðlaun, eitthvað flott í hárið. Allar fengu stelpurnar viðurkenningarskjöl, enda glæsilegt handbragð á hverju höfði. Myndir koma fljótlega.

 

Hin börnin voru á útisvæði og þegar óvænt rigning heimsótti okkur í góða veðrið var haldið áfram að ærslast í íþróttahúsinu. Frá kl. 18-18.30 voru það herbergin en svo lokkaði ótrúlega góður matarilmurinn ...  og í matinn voru gómsætar pítsur a la Sigurjóna snilldarkokkur og hirð hennar. Það var ekki hætt að borða fyrr en allir voru pakksaddir.

Hetja í draugaherbergiÍ kvöld voru Mörk óttans, æsispennandi ævintýraleikur sem hefur aldrei áður verið svona hrikalega draugalegur, það voru algjörar hetjur sem þorðu inn í draugaherbergið. Reykvélin spúði reyk og Gummi lék draug með glæsibrag. Eins gott að Þóra og Sigurjóna hjálpuðu skríkjandi hetjunum við raunina að finna stein ofan í ógeðslegu vatni sem var í fötu ... og það eftir þennan líka hroðalega ógeðsdrykk.

 

Fleiri hetjurKrossfiskar og Sæljón sem eru strákahópar sameinuðust í keppninni og kölluðu sig Krossljón, þeir komu, sáu og sigruðu, ásamt Hafmeyjunum (stelpuhópur) en hóparnir tveir voru hnífjafnir að stigum.

 

Á morgun ... fleiri ævintýri og fleiri myndir.

 

Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum!


Dregið í getrauninni!

Jæja, þá er komið að því!

Búið er að draga í getraun Sumarbúðanna Ævintýralands 2009 og vinningshafar ERU:

 

Sumarbúðir1. verðlaun: Vikudvöl í sumarbúðunum sumarið 2009:

ELÍN MIST SIGURÐARDÓTTIR, 7 ÁRA.

 

2. verðlaun: 50% afsláttur af dvalargjaldi sumarið 2009

ANITA ÓSK HARALDSDÓTTIR, 7 ÁRA.

 

3. verðlaun: 25% afsláttur af dvalargjaldi sumarið 2009:

ÞÓRHILDUR VALA KJARTANSDÓTTIR, 12 ÁRA.

 
4. verðlaun: Vöffluveisla fyrir 5 hjá Erluís, Fákafeni 9, Reykjavík:
 
SÓLEY ARNGRÍMSDÓTTIR, 11 ÁRA.
 
 
5. verðlaun: 2.000 kr. gjafabréf hjá Erluís, Fákafeni 9, Reykjavík:
 
VIÐAR ARON JÓNSSON, 8 ÁRA.
 
 
Svo styttist bara og styttist í að sumarbúðirnar hefjist. Bara æði! Við hlökkum ótrúlega mikið til að gera allt tilbúið á Kleppjárnsreykjum (Borgarfirði).
 
Minnum á heimasíðuna www.sumarbudir.is  
Þar má finna ýmsar nytsamlegar upplýsingar, meira að segja hægt að stjórna heilum hestakór þar.
 
 
Í sundi á KleppjárnsreykjumAnnað: Í fyrrasumar var ofboðslega gott veður og þurftu börnin stundum að leita skjóls inni ... eins gott að taka með sér sólvörn. Við höldum að sumarið í ár verði jafngott og frábært og æðislegt!
 
Vegna fyrirspurna viljum við koma á framfærieingöngu fullorðið fólk á aldrinum 19-50 ára ber ábyrgð á börnunum, einn aðili á hver fimm börn, og engir sjálfboðaliðar í vinnu hjá okkur. Starfsmenn hafa fengið tilsögn hjá sálfræðingi og öðru fagfólki áður en starfsemin hefst.
 
Maturinn í sumarbúðunum er æðislegur, bara frábær. Ótrúlegt hvað börnin geta troðið sig út og samt hlaupið um allt skömmu seinna. Sigurjóna, kokkurinn okkar, er snillingur í að búa til pítsur, kjúklinga, franskar, kakósúpu, vöfflur með súkkulaði og rjóma, skúffukökur og fleira og fleira.
 
Damatík hjá grímugerðVið gerum mjög margt í sumarbúðunum, fyrir utan námskeiðin æðislegu, sund, íþróttir og alla afþreyinguna og tökum á mikilvægum hlutum, eins og t.d. einelti, þannig að börnin geti sett sig í spor þess sem verður fyrir eineltinu. Það hefur verið gert í formi leikrits sem starfsfólkið leikur fyrir börnin.
Á unglingatímabilinu er m.a. fjallað um skaðsemi fíkniefna og þrif og umhirða húðar er kennt á sérstöku námskeiði.
Sumarbúðirnar Ævintýraland eru fjölmenningarlegar og óháðar í trúmálum.
 
Meginstefnan í starfseminni er að efla einstaklingsvitund og sjálfsmynd barnanna. Kenna þeim að virða hvert annað sem einstaklinga og vinna saman sem hópur. Börnin þurfa að fylgja settum reglum og virða umhverfi sitt. Þetta frelsi innan rammans hefur hugnast þeim vel, það er t.d. hægt að velja um einhvern daginn að fara í sund, gönguferð, flugdrekagerð, skartgripagerð, fótbolta og fleira. Næsta dag er svo einhverju skipt út. Aldrei: „Jæja, krakkar, allir að koma í göngutúr núna!“ Sumarbúðastjórinn okkar var í þannig sumarbúðum þegar hún var lítil og þá byrjaði draumurinn um Ævintýraland að myndast og að börnin hefðu valfrelsi.
 
Sjáumst bráðum!

 

 


Getraunin - frestur til 15. maí

Við ákváðum að fresta því að draga í getrauninni til 15. maí nk., endilega kíkið á heimasíðuna okkar og takið þátt, frábær verðlaun, m.a. vikudvöl í sumarbúðunum.

Við ítrekum að ef panta á sérstaka viku þá borgar sig að gera það sem allra fyrst, skráning er í fullum gangi núna.

Drukkið útiSjá má allar upplýsingar á heimasíðunni um starfsemina. Hér á blogginu (aftur í tímann) má lesa allt um daglegt starf, eins og það var í fyrrasumar, góða matinn (m.a.vöfflur með súkkulaði & rjóma, heimabakaðar pítsur og annað gúmmulaði), skemmtilegu umsjónarmennina, námskeiðin æðislegu, trampólínhopp, afrekin í sundlauginni og íþróttahúsinu og fleira og fleira.

Við erum sko farin að telja dagana þangað til sumarbúðirnar byrja og allt fer á fullt á elsku Kleppjárnsreykjum. Við mætum nokkrum dögum fyrr til að gera allt klárt, dustum rykið af tækjum og tólum, setjum upp kojur og rúm og skreytum svo allt verði glæsilegt þegar fyrstu gestirnir mæta í júní. Hestarnir hennar Guðrúnar hneggja víst á fullu í hesthúsinu ... af fögnuði yfir því að fá bráðum skemmtilega og góða krakka á reiðnámskeið.

 Hér er slóðin að heimasíðunni þar sem getraunina má m.a. finna: www.sumarbudir.is

 

 


GETRAUN á sumarbudir.is

Heiti potturinn er æðiOkkur langar að minna á sumargetraunina sem er í fullum gangi á hinni „virðulegu“ heimasíðu sumarbúðanna, www.sumarbudir.is. Fullt af nytsamlegum upplýsingum kemur einng fram þar.

Hægra megin á heimasíðunni er hægt að ýta á mynd sem merkt er getrauninni, giska á rétt svör við fimm tryllingslega, ofboðslega þungum léttum spurningum, setja nafn sitt og uppl. og senda. Hægt er að vinna vikudvöl í sumarbúðunum! Opið fyrir þátttöku til 1. maí nk. 

Inga Lára með nokkrum stelpumLjósmyndir síðan í fyrra hafa ekki verið aðgengilegar undanfarið á heimasíðunni en unnið er að viðgerð. Sjá má hluta myndanna hér á blogginu. Endilega kíkið. Við reyndum að vera með rosamargar myndir við hverja færslu. Núna í sumar ætlum við að vera enn duglegri (ef það er hægt ...) að mynda og birta hér á Netinu.

Hér á myndinni til hægri má sjá Ingu Láru umsjónarmann, ásamt þremur hressum stelpum sem voru hjá okkur í fyrra. Efri myndin sýnir ekki síður hressa stráka í heita pottinum.

 


Vá, hvað tíminn líður ... það er komið vor einu sinni enn

haffi_haff.jpgNú er skráning hafin í bestu sumarbúðir á jarðríki þótt víðar væri leitað, a.m.k. að okkar mati, og gengur svona líka glimrandi vel að skrá. Smile 

Við hlökkum ótrúlega mikið til þegar sumarbúðirnar byrja núna 12. júní á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði og getum lofað sama fjörinu og í fyrra og árin þar á undan. Sama gamla og góða starfsfólkið verður og nýtt og skemmtilegt fólk líka. Einn fullorðinn á hver fimm börn. Svo verður bloggað reglulega og settar inn myndir til að ættingjar og vinir geti fylgst með skemmtilegum ævintýrunum sem börnin upplifa þessa viku sem þau dvelja hjá okkur.

Birgitta HaukdalSíðustu árin höfum við fengið af og til skemmtilega leynigesti og sérlega sumargesti. Eitt árið kíkti Birgitta Haukdal nokkrum sinnum og í fyrra mætti sjálfur Haffi Haff á unglingatímabilið um verslunarmannahelgina við miklar vinsældir. Einu sinni kom Örn Arnarson sundmaður og Páll Óskar hefur verið góður vinur okkar gegnum tíðina og mætti árlega til unglinganna og spjallaði við þá um lífið og tilveruna. Hann er frábær fyrirmynd, drekkur ekki eða reykir og hefur aldrei gert. Við vonum að leynigestur/sumargestir sumarsins hressi, kæti og bæti, eins og þeir fyrri.

Námskeiðin í myndlist, leiklist, grímugerð, dansi/söng, survivor og kvikmyndagerð verða í tvo tíma á dag og endar með því að afraksturinn verður sýndur á síðustu kvöldvökunni. Karaókíið, Mörk óttans, skartgripagerðin, húllumhæ-dagurinn, Ævintýrabarkinn og fleira og fleira ... Öll námskeið eru auðvitað innifalin í dvalargjaldinu ... nema reiðnámskeiðið sem hin frábæra og góða Guðrún Fjeldsted á Ölvaldsstöðum sér um.

Við urðum mikils heiðurs aðnjótandi nú á vordögum en Svanhildur Sif, stofnandi sumarbúðanna, var tilnefnd til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins fyrir metnaðarfullar sumarbúðir. Mikil gleði og mikill heiður. Frábært að finna að góða starfið okkar sé mikils metið.

AfmælisbarnÆvintýraland byggir starfsemi sína upp þannig að börnum er skipt niður í litla, aldursskipta hópa sem allir hafa umsjónarmann sem fylgist með hópnum sínum og heldur utan um hann allan tímann. Mikið valfrelsi er hjá börnunum, reyndar innan ákveðins ramma, og svo eru það frábæru námskeiðin og mikil afþreying fyrir alla, orkubolta sem rólegheitabörn. Sund, íþróttir, útivera, uppbyggjandi leikir, skemmtanir. Tekið er á mörgu í leikriti sem starfsfólkið sýnir vikulega þar sem börnum er kennt að varast hættur, bregðast við einelti og slíkt og í fyrra var komið inn á hvert þau geta leitað ef eitthvað þjakar sálina. Lögð er áhersla á virðingu við aðra, sanngirni og jákvæðni. Við erum óháð í trúmálum.

Maturinn er kapítuli út af fyrir sig og fá börnin að borða sem þau kunna að meta og þess er gætt að þau fái nóg af grænmeti og ávöxtum .... sem þau hakka í sig í tonnatali. Ein strangasta regla sumarbúðanna er að enginn fari svangur út úr matsalnum ... og við erum ekki að tala um að mat sé pínt neinn ... Vöfflur með súkkulaði og rjóma nefni ég sérstaklega, þær slá alltaf í gegn, enda er eins og bolludagurinn sé kominn svona um mitt sumar. Sannarlega bragðgott og starfsfólkið hlakkar líka óhemjumikið til vöffludaganna. Það er pítsuveisla vikulega, lokakvöldið er boðið upp á hamborgara, franskar, kokkteilsósu og salat sem skolað er niður með gosdrykk, kjúklingaveisla og fleira og fleira. Afmælisbörn fá alltaf veislu, köku (sjá mynd) og gjöf frá sumarbúðunum. Hin börnin fá að sjálfsögðu líka köku!

En að öðru og líklega mun nytsamlegra: BæklingarKleppjárnsreykir ættu að vera komnir á flest heimili en við ætlum að setja hérna tímabilin og aldurinn, svona fyrir þá sem hafa ekki enn fengið hann í hendur. Börnin verða í aldursskiptum hópum.

Tímabil 1: 12. júní - 18. júní 7-12 ára

Tímabil 2: 19. júní - 25. júní 7-12 ára

Tímabil 3: 26. júní - 2. júlí    8-12 ára

Tímabil 4:  3. júlí -   9. júlí    8-12 ára

Tímabil 5:  10. júlí - 16. júlí  8-12 ára

Tímabil 6:  17. júlí - 23. júlí  8-12 ára

Tímabil 7:  24. júlí - 30. júlí   10-12 ára

Tímabil 8:  31. júlí - 6. ágúst 12-14 ára

Hægt er að hringja alla virka daga frá kl. 10-20 og skrá í síma 551 9160 og 551 9170.

Ég minni á að Ævintýrarútan fer frá PERLUNNI vikulega. Flottar sumarbúðir verða að velja flottan stað fyrir komu og brottför, ekki satt?


Takkkkkkk fyrir frábæra viku

Frá myndlistarsýningunniGærdagurinn gekk frábærlega vel. Börnin pökkuðu niður flestu og héldu síðan áfram að undirbúa sig fyrir lokakvöldvökuna. Íþróttahús, spilaborg og útisvæði voru opin eftir kaffi en klukkutíma fyrir  mat var opnað inn á herbergin svo að þau gætu farið að punta sig fyrir hátíðina. Í kvöldverð voru hamborgarar, franskar, sósa og salat, ekkert smá vinsælt og síðan kom að kvölddagskránni.

 

 

Íþróttahópurinn sýndi fugladansinnByrjað var á myndlistarsýningunni og þar voru sýnd æðisleg listaverk. Síðan var farið út í íþróttahús. Þar sýndi íþróttahópurinn dans, Fugladansinn sjálfan við mikinn fögnuð áhorfenda.

 

LeiklistarhópurinnLeiklistin sýndi síðan leikritið Trönuberjasafa sem krakkarnir sömdu, skipuðu í hlutverk, æfðu og léku með glæsibrag. Leikritið fjallar um fólk  á elliheimili og það er alveg sama hvað þau biðja oft um trönuberjasafa þá fá þau bara appelsínusafa. Einn daginn ákveða þau að  strjúka og þá til Hondúras. Þau eru stoppuð í Leifsstöð því að vegabréfin þeirra eru útrunnin. Þegar  hjúkkurnar á elliheimilinu uppgötva að fólkið er horfið ákveða þær að  hringja ekki á lögguna því ein þeirra er á sakaskrá. Sú þekkir  leigumorðingja og semur við hann um að sækja fólkið. Þegar hann skilar gamla fólkinu á elliheimilið þá er hann mjög þyrstur  og biður um trönuberjasafa sem hann fær og nóg af honum. Gamla fólkið  hélt hins vegar áfram að fá appelsínusafa þar sem trönuberjasafinn er allt of dýr til að það sé verið að spreða honum í gamla fólkið ... jamm, eða þannig.

Danshópur 1Danshópur 2Næst var danssýning, eða raunar tvær sýningar, hvor annarri glæsilegri.

 

Þar á eftir sýndu starfsmenn leikritið Mjallhvít og tröllin við mikinn fögnuð. Starfsmenn vissu ekki hvað leikrit yrði leikið eða hvað hlutverk þeir þyrftu að leika og var mjög gaman að sjá þá leika af fingrum fram og bulla alveg út í eitt.

Tveir hópar voru í kvikmyndagerð þannig að gerðar voru tvær stuttmyndir. Sú fyrri heitir Sumarbúðirnar og fjallar um tvær vinkonur sem fara í sumarbúðir. Önnur skilur hina eftir útundan og fylgir eftir vinkonuhópi sem hin er ekki velkomin í. Úr verður einelti en sú sem skilin var útundan lætur þetta Starfsmennekki skemma neitt fyrir sér, heldur kynnist frábærum krökkum. Sætustu strákarnir vingast við hana og hún fer að hanga með þeim. Vinkonan og hópurinn hennar verða grænar úr öfund en býður henni og nýju vinunum að vera með í körfubolta. Myndin endar á því að allir spila saman körfubolta.
Seinni myndin heitir Sumarbústaðurinn. Hún fjallar um nokkrar 14-16 ára stelpur sem fara í leyfisleysi í sumarbústað. Þær nota plat-trix sem foreldrarnir falla fyrir og halda að þær séu bara allar hver heima hjá annarri og tékka ekki á því. Tvær þeirra eru svo kræfar að þær læðast bara út. Ein stelpan í hópnum á 25 ára kærasta sem á vín og fleira. Hann birtist með landaviðbjóð og hvetur allar til að smakka. Úr verður mikið drama, sjúkrabíll og læti, og myndin fjallar um hættur þess að drekka svona ungur og hvað þá einhvern viðbjóð.

Takk fyrir frábæra vikuÞetta bjuggu börnin alveg til sjálf og voru áhugasöm um að koma þessum boðskap til skila.

Þessi vika með unglingunum var einstaklega skemmtileg og við þökkum kærlega fyrir frábæra samveru og góða viku. Myndir frá lokakvöldvökunni o.fl. er á síðunni okkar,  www.sumarbudir.is, tímabil 8, dagur 6.

 

Hrikalega miklar saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 91194

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband