Færsluflokkur: Bloggar

Mörk óttans og fleiri ævintýri í Ævintýralandi

SundlauginFyrsti morguninn rann upp bjartur og fagur og umsjónarmennirnir vöktu hópana sína. Nokkrir voru reyndar vaknaðir og spjölluðu við næturvörðinn. Morgunverðarhlaðborðið beið, já, þetta er eins og á lúxushóteli ... og hægt að velja um m.a. súrmjólk, hafragraut, kornfleks, ristað brauð ... eða eitthvað af öllu.

Eftir morgunverðinn var margt í boði, eins og íþrótthúsið, útisvæðið, sund, föndur og svo var haldin fyrsta karaókíæfingin, eða æfing fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina KaraókíæfingÆvintýrabarkann, sem fer fram fljótlega. 

Í hádeginu var gómsæt núðlusúpa, ásamt smurðu brauði með eggjum, kæfu og fleira. Þetta rann niður í glorhungraðan mannskapinn eins og enginn hefði verið morgunverðurinn ...

Þá tóku námskeiðin við alveg fram að kaffi þar sem boðið var upp á sandköku, að sjálfsögðu heimabakaða, og tekex með heimalöguðu marmelaði. Ekki að spyrja að hirðkokkunum okkar í Ævintýralandi.

Sigurvegarar í hárgreiðslukeppninniEftir kaffið hófst svo hin æsispennandi vikulega hárgreiðslukeppni sem stelpurnar vilja svo miklu frekar en strákarnir taka þátt í. Það hefur líklega meira með hártískuna að gera en misrétti, ha ha ha.Snöggklipptir strákarnir höfðu sko engan áhuga en þeir skemmtu sér bara konunglega á útisvæðinu eða í Spilaborg þar sem einnig voru stelpur sem tóku ekki heldur þátt.

Úrslitin í hárgreiðslukeppninni: 1. sæti: Sigurveig - Marólína Fanney greiddi, 2. sæti: Sædís Lilja - Kristjana Ýr greiddi. 3. sæti: Ástrós Lind - Ásta Sóley greiddi. Frumlegasta hárgreiðslan: Jóhanna Kolbrún - Margrét Júlía greiddi. Krúttlegasta hárgreiðslan: Rakel Hlyns - Rakel Kristjáns greiddi.

SkottaleikurSvo eftir verðlaunaafhendinguna (allar fengu viðurkenningarskjöl) fóru hárgreiðsluprinsessurnar út eða í Spilaborg og rétt fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin sín og settu á sig aftersun, eftirsól. 

ÓgeðsdrykkurinnKvöldmaturinn vakti enga smá lukku en pítsa var í matinn, eða öllu heldur pítsur ... og fjöldinn allur af þeim.

 

Þá var það spennandi, æsilegi og frábæri leikurinn Mörk óttans sem fram fór í íþróttahúsinu, úti og inni í matsal.

Við ætlum að drekka þettaByrjað var á skemmtilegum leik, svokölluðum skottaleik þar sem allir reyndu að ná skottinu (klippur úr svörtum ruslapokum) af öllum og gæta þess í leiðinni að enginn næði þeirra eigin skotti.

Þá var það spurningakeppni. Skipt var í lið með nokkrum börnum úr hverjum hópi. Lesnar voru upp nokkrar spurningar og gefnir fjórir svarmöguleikar, A, B, C og D. Þá réttu hóparnir, allir í einu, upp spjaldið með því svari sem þeir töldu vera rétt.

Slepptu steininum og hlauptuSíðan kom að næsterfiðustu þrautinni, að drekka ógeðsdrykk. Tvö börn úr hverjum hópi höfðu boðið sig fram (Hóparnir heita Gullfiskar, Krossfiskar, Höfrungar o.s.frv.) í þetta hetjuhlutverk og nú var um að gera að standa sig. Einhverjum viðbjóði hafði eldhúsið blandað saman, súrmjólk, sinnepi og slíku sem er kannski gott eitt og sér en blandast ekki mjög vel saman. Svo af því að þetta heitir ógeðsdrykkur þá búa börnin sig undir það versta!

DraugaherbergiðÞá var það bara síðasta og erfiðasta þrautin. Enn og aftur höfðu tvö börn úr hverjum hópi boðið sig fram í hana - DRAUGAHERBERGIÐ ógurlega. Verkefni þeirra var að þjóta inn í dimmt, reykfyllt (já, við erum með reykvél) herbergi þar sem mjög svo draugaleg tónlist hljómaði, komast með hjálp Davíðs umsjónarmanns alla leið út í horn þar sem vatnsfata með slímugu vatni stóð á borði. Sækja stein í þessa fötu, afhenda hann Davíð og komast svo út frá draugunum sem hreyfðu sig draugalega þarna inni ... Það skal tekið fram að börnin sem koma þarna inn sjá eiginlega ekki draugana þar sem svo dimmt er inni í herberginu. Flassið á myndavélinni gerði allt svo bjart! :)

Grímulausir draugarGummi, elsku umsjónarmaðurinn sem spilar á gítar eins og engill, lék aðaldrauginn og sá var nú svakalegur. Í búningi og með grímu. Það skríkti í heldur betur í krökkunum og sumir öskruðu af spenningi á meðan þessi þraut var leyst. Það þurfti að gera þetta hratt til að fá stig, engin mínusstig voru fyrir að öskra. Þegar þessu var lokið komu draugarnir fram í matsalinn, en draugaherbergið er dansherbergið á daginn og er rétt við matsalinn. Þeir tóku af sér grímurnar og allir hlógu kátt. Þessi hetjubörn sögðust sko ekki hafa verið hrædd.

Útisvæði í sól og blíðuSigurvegarar í Mörkum óttans voru Krossfiskar. Hafmeyjar í öðru sæti og Gullfiskar í því þriðja.

Börnin fengu ávexti í kvöldkaffinu og sofnuðu hratt og vært eftir ævintýraríkan dag.

Svo halda bara ævintýrin áfram ... Sjá má fleiri myndir inni á heimasíðunni okkar, www.sumarbudir.is, endilega kíkið. Tímabil 3, dagur 2.

Stuð- og "drauga"kveðjur frá Kleppjárnsreykjum.


Bongóblíða í Ævintýralandi

Búnar að gera kósíNýi hópurinn kom í gær og eru þetta alveg frábær börn! Skemmtileg, kát og rosalega góð! Ég veit ... við segjum þetta alltaf en þau eru samt alveg æðisleg!

Sólin tók vel á móti hópnum og byrjuðu börnin á því að setja á sig sólarvörn. Umsjónarmennirnir tóku hver sinn hóp og fóru með um svæðið og svo komu börnin sér vel fyrir í herbergjunum sem hýsa þau næstu vikuna. 

Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og einnig ávexti. Síðan var farið út í íþróttahús.

Kynning námskeiðaNámskeiðin æðislegu voru kynnt; grímugerð, leiklist, listaverkagerð, íþróttir, dans og kvikmyndagerð. Börnin völdu sér það námskeið sem þau verða síðan á í tvo tíma á dag allan tímann ... og endar á lokakvöldvöku þar sem afraksturinn er sýndur. Flestir völdu listaverkagerð, næstflestir kvikmyndagerð og svo skiptist nokkuð jafnt á hin námskeiðin. Í fyrsta sinn í sögu sumarbúðanna féll íþróttanámskeiðið niður, enginn áhugi var fyrir því að þessu sinni ... en börnin fá reyndar mikla hreyfingu alla vikuna. 

 

SpilaborginÍ spilaborgEftir kynningu á námskeiðum og starfsfólki var útisvæðið vinsælt en Spilaborg togaði í marga, enda margt hægt að gera skemmtilegt þar ... og svo var svalandi að skreppa smástund inn til að kæla sig frá hitanum. Mjög veðursælt er á Kleppjárnsreykjum og okkur finnst eiginlega alltaf vera sól og blíða þar. Það er t.d. algjör bongóblíða hérna í dag og sólarvörnin hefur farið í lítravís.

 

SundÍ kvöldmatnum tóku kátir krakkar vel til matar síns og var kjöt og spagettí í matinn sem vkti mikla lukku. Mikið borðað eftir ævintýri dagsins.

 

SundStór hluti barnanna ákvað að skella sér í sund og heita pottinn eftir kvöldmat, enda aldeilis veðrið til þess. Spilaborgin, íþróttahúsið og útisvæðið voru líka opin - svokallaðar stöðvar sem börnunum er boðið upp á dag hvern, fyrir hádegi og eftir kaffi, og finnst þeim ÆÐISLEGT að hafa val. Þau upplifa mikið frjálsræði vegna þessa, en reyndar er mikil gæsla, á hver fimm börn er einn fullorðinn einstaklingur. Starfsfólkið sem ber ábyrgð á börnunum er á aldrinum 19 ára til 50 ára og engir sjálfboðaliðar.

 

Á útisvæðiGummi var með gítarinn á útisvæðinu, spilaði og söng fyrir börnin og frábær stemmning myndaðist þar, eins og í fjörinu í sundlauginni og íþróttahúsinu ... og ögn meiri rólegheitum í Spilaborg.

Þá var haldið til koju og umsjónarmenn byrjuðu að lesa framhaldssöguna (hver fyrir sinn hóp) sem verður lesin á hverju kvöldi allt tímabilið. Flest sofnuðu börnin fljótt og vel en nokkur af þeim eldri áttu erfiðara með að sofna því þetta var allt svo spennandi. Næturvörðurinn spjallaði við þau og smám saman sigraði svefninn ... zzzzzzz



Gaman á útisvæðinuÍ dag hófust svo ný ævintýri í brjálæðislega góða veðrinu og verður mikið um að vera ... m.a. hádegisfundur með umsjónarmönnunum (alla dagana), hárgreiðslukeppni og fleira og fleira ... Í kvöldmatinn verða heimabakaðar pítsur og eftir mat tekur æsispennandi leikurinn Mörk óttans við. Þá þarf að leysa ofurmannlegar þrautir ... spurningakeppni, ógeðsdrykkur og draugaherbergi ... úúú.

Meira á morgun. Kíkið á myndirnar á heimasíðunni, www.sumarbudir.is. Tímabil 3, dagur 1.

Hitabylgju- og stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!!!


FRÁBÆR lokakvöldvaka

Birta Hlín afmæliLokadagur tímabils 2 leið mjög hratt og var afar skemmtilegur. Námskeiðin voru fyrir hádegi og allir í óðaönn að undirbúa kvöldið, eða sjálfa lokakvöldvökuna þar sem afrakstur námskeiðanna yrði sýndur.

Hádegismaturinn var frábær, eða skyr og brauð, og mikið borðað að vanda.

Heilmargt var við að vera eftir matinn, m.a. pakkað niður fyrir brottförina sem var daginn eftir, eða í gær. 

Í kaffinu var haldið upp á afmæli Birtu Hlínar en hún átti 11 ára afmæli daginn eftir, haldið var upp á það á miðvikudeginum þar sem rútan fór með börnin fyrir hádegi á sjálfan afmælisdaginn. Allir fengu súkkulaðiköku en kökusneið Birtu var skreytt, m.a. með kerti sem hún blés á og óskaði sér í leiðinni. Enginn fékk að vita óskina en sumir halda því fram að óskirnar rætist ekki ef maður segir frá þeim. Birta fékk afmælissönginn og Gummi spilaði undir á gítarinn. Einnig fékk hún afmælisgjöf og afmæliskort, minna má það nú ekki vera þegar maður á afmæli!

Viðurkenning var veitt vegna keilukeppni sem var haldin á húllumhædeginum. Þorvaldur Daði Hilduson sigraði ... og gott betur, hann sló sumarbúðarmetið í keilu!

RuslatínslaEftir kaffið var ruslatínsla en þau börn sem buðu sig fram í hana fóru með poka um svæðið og tíndu í hann rusl og sópuðu líka. Allt varð mjög snyrtilegt og börnin fengu að sjálfsögðu að velja sér verðlaun úr ruslatínsluverðlaunakassanum sem geymir nú margan fjársjóðinn.

Glæsileg myndlistarsýningSkömmu fyrir kvöldverðinn fóru börnin inn á herbergi sín því nú skyldi skipt um föt fyrir kvöldið en allir vildu vera fínir á lokakvöldvökunni.

Stefán Þór, 7 ára, og faraóinn hansÍ kvöldmat voru hamborgarar, franskar og sósa og einnig gos með, hátíðarkvöldverður að hætti hússins. Þetta rann ljúflega niður í sísvanga mallakútana og þótti sérdeilis flottur lokakvöldverður.

Lokakvöldvakan hófst með því að listaverkagerð, hópurinn hennar Ingu Láru, hélt glæsilega myndlistarsýningu. Öll voru börnin með flottar slaufur sem þau bjuggu til úr dagblöðum og tóku þannig á móti gestum sýningarinnar. Þema hennar var sirkus! Listaverkin voru af ýmsum gerðum, öll einstaklega flott og þau voru líka afar stolt af sköpunarverkum sínum. Pappakassalistaverkin vöktu mikla lukku og börnin prófuðu að setja höfuðið í gatið sem var sérlega gert fyrir það og breyttust þá í blóm, faraó og fleira. Endilega kíkið á myndirnar á heimasíðunni, www.sumarbudir.is, til að sjá allar myndirnar.

Ásaleikurinn að hefjastÍþróttahópurinn, undir styrkri stjórn Geirs, sýndi svokallaðan Ásadans sem er mjög fjörugur og skemmtilegur leikur. Hann vakti mikla lukku og börnin voru alveg æðisleg!

 

GrímugerðarleikritiðHópurinn hennar Óskar, grímugerðarhópurinn, sýndi leikritið Ævintýraskógurinn, verulega skemmtilegt og glæsilegt leikrit. Börnin gerðu sjálf handritið, hvert og eitt þeirra bjó til eigin grímu frá grunni og þau máluðu þær í öllum litum ... og miðað við það hlutverk sem þau voru búin að ákveða. 

DanshópurinnPollý sér um danshópinn sem bjó til mjög töff dans og sýndi á kvöldvökunni við mikla hrifningu allra viðstaddra. Hópurinn uppskar klikkað klapp á eftir og sama má segja um öll hin atriðin.

 

LeiklistinLeiklistin var næst á svið en Hafdís hélt utan um leiklistarhópinn á tímabilinu. Leikritið (frumsamið auðvitað) fjallaði um fjórar stelpur sem fóru í sumarbúðir sem reyndust vera þrælabúðir. Þær þurftu að þrífa allan daginn. Þær struku og báðu hjálpsöm fiðrildi um að vísa sér veginn til Sumarbúðanna Ævintýralands en þær höfðu heyrt að þar skemmtu börn sér vel. Þær fundu sumarbúðirnar og var tekið opnum örmum þar. Sýningin endað á lagi en börnin sömdu textann við það. Snilldarleikrit.

Frábær hópurStarfsfólkið sýndi síðan leikrit eins og vaninn er á lokakvöldvökunni. Það hét Mjallhvít og tröllin 7 plús einn dvergur. Börnunum þótti það mjög fyndið og starfsfólkið skemmti sér líka konunglega.

Já, kvikmyndagerðin ... jú, þau blekktu alla illilega þegar þau þóttust of hugmyndasnauð til að geta gert mynd þar sem þau bjuggu til myndina Engin hugmynd! Reyndar stríddi tæknin þeim í hefndarskyni fyrir allt gabbið og ekki Bless, blessreyndist unnt að sýna hana fyrr en morguninn eftir. Það kom ekki að sök, öll börnin náðu að sjá hana áður en þau fóru heim og var mikið klappað fyrir henni, enda Engin hugmynd alveg bráðsmellin og skemmtileg mynd.

Svo var bara komið að því að kveðja ... Vikan leið ótrúlega hratt með þessum skemmtilegu og góðu börnum sem við þökkum kærlega fyrir samveruna! Sjáumst vonandi að ári!

Bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum ... í hitabylgjunni.


Ævintýrabarkinn, sund, góður grjónagrautur og fleira og fleira!

Fjör í sundiGærdagurinn var ævintýraríkur eins og hinir dagarnir. Karaókíkeppnin var um kvöldið og mikil tilhlökkun í gangi.

 

Heiti potturinn æðiÍ gangi voru námskeiðin að vanda, íþróttahúsið, útisvæðið, Spilaborg og sundlaugin svo eitthvað sé talið. Hluti barnanna fór á reiðnámskeið og eru komnar myndir þaðan inn á heimasíðuna, ásamt myndum frá öðru.

 

 

Í íþróttahúsinuÍ hádeginu fengu börnin gómsætan grjónagraut, þennan sem átti að vera í gær en tókst að gera í dag þar sem næg mjólk var komin á stórt "heimilið".

Á reiðnámskeiðiKvöldmaturinn var góður líka, fiskur, hrísgrjón og ævintýrasósa. Nammi, namm.

 

Um kvöldið mættu prúðbúin börnin út í íþróttahús því Ævintýrabarkinn, söng- og hæfileikakeppni Ævintýralands, fór þar fram. Eftir þrotlausar æfingar undanfarna daga stigu hetjurnar á svið og sýndu snilldartilþrif í söng. Dómnefndin átti ekki auðvelt verk fyrir höndum, eða að velja þrjú börn í efstu þrjú verðlaunasætin en það tókst að lokum. Öll fengu þau viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna.

 

ÆvintýrabarkinnÍ fyrsta sæti varð Stefanía Veiga sem söng lagið Þú fullkomnar mig.

Í öðru sæti varð Sóley Rún með lagið Orðin.

Í þriðja sæti varð Birta Hlín en hún söng lagið Hallelúja.

Eftir að Stefanía söng sigurlagið aftur fór fram frekari verðlaunaafhending, fyrir sápukúlusprengikeppnina sem Thea sigraði í, eins og kom fram í síðustu færslu. Einnig í sippukeppninni og Mörkum óttans.
Sigurvegarar í ÆvintýrabarkanumEndilega kíkið á myndirnar á heimasíðunni: www.sumarbudir.is

Í kvöld var lokakvöldvakan strax á eftir hátíðarkvöldverðinum og sýndu börnin þar afrakstur vinnunnar á námskeiðunum. Allt um það á morgun!

Stuð- og söngkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

 

 

 


Húllumhæ, vöfflur, fánaleikur og fleira ...

Faraóinn málaðurBúðarleikur eða hvaðHúllumhæ-dagurinn var mjög skemmtilegur. Byrjað var á námskeiðunum strax eftir morgunverð en vanalega eru þau eftir hádegisfundinn með umsjónarmönnunum. Það vakti athygli að "hugmyndasnauði" kvikmyndagerðarhópurinn var íklæddur búningum og með ýmsa leikmuni hjá sér en krakkarnir þar sögðust bara vera í búðaleik ... Okkur er nú farið að gruna ýmislegt. Önnur námskeið voru á fullu að vanda og allt var myndað. Lokakvöldvakan (miðvikudagskvöld) nálgast hratt og þá þarf að ljúka öllu til að sýna afraksturinn.

 

Flott grímaKörfubolti á útisvæðiÞar sem mjólkurbíllinn klikkaði var ekki hægt að vera með grjónagraut í matinn eins og átti að vera, heldur skellti Sigurjóna í pastarétt og bakaði hvítlauksbollur með. Það smakkaðist mjög vel.

Á hádegisfundinum var mikið spjallað um starfsmannaleikritið deginum áður og í því var margt sem börnin þurftu að úttala sig um, eins og einelti og slíkt. Leikritið fékk þau greinilega til umhugsunar og þá er tilganginum náð.

 

Sápukúlusprengikeppni BirtaEftir fundinn var húllumhædagurinn settur. Sól og rigning skiptust á, enda eru þetta sannarlega tilbreytingarríkar og fjölbreytilegar sumarbúðir ...  Flestir skelltu sér í fánaleikinn skemmtilega sem gekk frábærlega vel. Börnunum var skipt í tvo hópa, Draum og Martröð, þau máluð með stríðsmálningu í framan og svo var hamast. Draumur sigraði á endasprettinum eftir harða baráttu.

 

Vöfflur með súkkulaði og rjómaÍ kaffinu voru vöfflur með súkkulaði og rjóma og rann þetta gúmmulaði vel niður í mannskapinn, enda ekkert smá gott.

 

Sápukúlusprengikeppni var haldin að vanda á húllumhædegi og í fyrsta sæti varð Thea en henni tókst að sprengja 69 sápukúlur á einni mínútu.

 

Spákerlan Jósefína PotterEinnig var keilukeppni, skartgripagerð, bandfléttur, tattú, opin Spilaborg og útisvæði ... og svo kom hún skeiðandi frá Borgarnesi spákerlan ógurlega, Jósefína Potter. Að vanda var mikill spenningur fyrir henni, ekki endilega því sem hún segði, heldur því hvort þetta væri nokkuð alvörugaldrakerling. Margir giskuðu á að Inga Lára hefði klætt sig í spákonugervið en auðvitað var þetta alvörunni ... sko ...

Brostu strákur, brostuGrillaðar pylsur voru síðan í kvöldmatinn, nammi, namm!

Um kvöldið var bíókvöld þar sem börnin gæddu sér á poppi og safa í hléinu. Svo var það kvöldsagan eftir að allir voru háttaðir eða lesin spennandi bók fyrir hvern hóp. Bók sem skipt er niður á kvöldin. Börnin njóta þess vel að láta lesa fyrir sig og sofna rótt á eftir ... eða á meðan lesið er.

Fleiri myndir, dagar 4 og 5, er að finna á www.sumarbudir.is

 

 

Stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!


Undarlegar auglýsingar, kertagerð, leikrit, kjúlli og DISKÓ!

KertagerðSkrýtin auglýsingGærdagurinn var heldur betur skemmtilegur.

Eftir morgunverð var sitt af hverju í boði að vanda:

Kertagerð (hann er að mála skelina sem kertavaxið fer síðan í), íþróttahúsið (þar sem brjálaður tarsanleikur var í gangi) og karaókíæfing fyrir þá sem ætla að taka þátt í hinni virðulegu hæfileikakeppni Ævintýrabarkanum. Útisvæðið var líka opið og þar fór fram spennandi sippukeppni. Hlutskarpastar urðu: 1. sæti: Eva Rós - 2. sæti: Elvý Rut og 3. sæti: Sara Dís.

 -    ---   -   ---   -   ----   -----    -   -----    -----

Undarleg auglýsing kvikmyndagerðarUndarlegar auglýsingar, eiginlega stórlega furðulega dularfullar, hafa hangið uppi um allt í sumarbúðunum síðan í gær þar sem kvikmyndagerðarhópurinn segir að engin bíófrumsýning verði eftir 4 daga (3 núna) þar sem enginn í hópnum hafi fengið nógu góða hugmynd að kvikmynd. Hummmm. Börnin eru afar dularfull og engin leið að fá neitt upp úr þeim, þau segjast bara vera algjörlega hugmyndasnauð ... og það í fyrsta skipti í sögu sumarbúðanna sem hófu göngu sína á síðustu öld! Svona er lífið, segja þau. Einhver sagði að þetta hlyti að vera öfug markaðsherferð en hún er a.m.k. mjög öflug þar sem hún hefur vakið mikla athygli. (Myndirnar stækka ef ýtt er á þær með bendlinum.)

Ping og PongVirkilega gómsæt kakósúpa var í hádegismat og tvíbökur út í, eins og vera ber. Einnig ávextir. Síðan var haldið á hádegisfundi með umsjónarmönnunum. Eftir gott spjall og leiki var haldið út í íþróttahús þar sem hluti starfsmanna lék leikrit fyrir börnin ... forvarnaleikrit sem var bæði fyndið og fræðandi. Sing og Song með ÓskTekið var m.a. á einelti, skorti á sjálfstrausti og hvað skal til bragðs taka ef maður býr yfir erfiðu leyndarmáli. Ping og Pong eru snilldarfígúrur, eiginlega bara vél sem lumar á góðum ráðum, jamm, svona góðuráðavél. Gummi og Davíð sýndu flotta takta sem Ping og Pong þegar þeir gáfu Ósk góð ráð í leikritinu en svo léku þeir líka Sing og Song, raddirnar sem berjast í höfðinu á okkur. Þegar skrýtinn karl (Geir) kom keyrandi og bað Ósk (sem lék barn) um að hjálpa sér með sæta hvolpa sem hann var með í bílnum sagði Sing að hún ætti alls ekki og aldrei að fara upp í bílinn með ókunnugum manni. Song sagði henni að auðvitað færi maður ALLTAF upp í bíl hjá ókunnugum ... þá trylltist salurinn af hlátri, börnin voru greinilega með allt á hreinu í þessum málum en samt gott að minna á!

Kvikmyndagerðin dularfulla ...Leiklistin og búningamátunÞá var haldið á námskeiðin góðu fram að kaffi. Kvikmyndagerðarhópurinn (t.v.) fundaði stíft í bláa salnum, Framtíðinni, sumir úr hópnum voru í búningi sem er stórundarlegt miðað við auglýsingarnar frá þeim.

Leiklistin (t.h.) er búin að semja handrit og fyrsta búningamátun fór fram, enda skemmtilegra að æfa leikrit í fullum skrúða. Þetta verður örugglega stórskemmtilegt leikrit, mikið var hlegið og börnin gáfu sér varla tíma til að stilla sér upp fyrir myndatökuna.

 

Danshópurinn í önnumDanshópurinn (t.h.) semur nú dans á fullu og voru stífar æfingar í gangi þegar sérlegur hirðljósmyndari Ævintýralands átti leið um. Á lokakvöldvökunni sýna börnin afrakstur námskeiðanna og alltaf mikil tilhlökkun í gangi hjá börnunum, bæði að sýna sjálf og sjá sýningar hinna.

 

Grímurnar málaðarGrímugerðarhópurinn málaði grímurnar sínar í gær en gifsið var orðið þurrt. Grímurnar eru mótaðar á andlitum barnanna, að sjálfsögðu er plast haft á milli ...

 

 

Myndlistarhópurinn málar og málarBörnin í listaverkagerð máluðu á fyrrum pappakassa sem búið var að klippa gat á fyrir höfuðið. Einn gutti, tæplega 7 ára, ætlar að gera faraó og teiknaði hann fyrst á lítið blað ... hinum börnunum til mikillar hrifningar, enda afar vel unnið af svona ungu barni ... svo verða blóm og margt, margt fleira.

Kjúklingur og FRANSKAR nammmmÍ kaffinu var heimabökuð kaka (allar kökur eru heimabakaðar hjá okkur), tekex með heimalöguðu marmelaði og svo ávextir (ábyggilega handtíndir ...)

Eftir kaffi var Spilaborg opin (leikir, spil, bækur, borðtennis og fleira), einnig íþróttahúsið og útisvæðið. Klukkutíma fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin sín og skiptu um föt þar sem diskótek var eftir kvöldmat. Já, DISKÓTEK! Í kvöldmatinn var boðið upp á kjúkling, franskar og sósu. Börnin borðuðu sko á sig gat eins og venjulega og einn brá á leik með frönskurnar ...

Diskó friskóMikið var dansað, tjúttað og sungið á diskóinu. Alltaf er gott að geta slakað á eftir dansinn og þá var hægt að fá tattú og bandfléttur í hárið. Spilaborg var einnig opin og hægt að púsla eða annað til að róa sig aðeins niður.

 

Tattú, takkHægt var að fá stórglæsileg tattú hjá umsjónarmönnunum sem hafa margra ára þjálfun í tattúgerð og einnig var vinsælt (hjá stelpunum) að fá flotta bandfléttu í hárið. Þar er líka hægt að tala um margra ára æfingu og það var mikið fléttað ... og mikið húðflúrað. Til að allir fái þá var líka boðið upp á þetta í dag á húllumhædeginum (meira um hann á morgun). Bandfléttur í hár Bent skal á að tattúið þvæst af en bandfléttan verður til eilífðar ... hehehe, smágrín.

Gert var opinbert hverjir sigruðu í Mörkum óttans. Það voru Flugfiskar (eins og kom fram á blogginu í gær) og hér koma nöfnin á fljúgandi fiskunum: Andrea Lind, Aníta Lára, Birgitta Ösp, Díana María, Ellen, Emilía María, Harpa Lind, Hekla, Magnea Marín, Sóley Rún, Tinna Ýr og Viktoría Sól. Til hamingju, frábæru stelpur!

Kátar kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!



Hádegisfundir, kortagerð og Mörk óttans!

KortagerðVeðrið leikur við okkur í dag, sól og blíða, en í gær var skýjað og stöku skúrir.

Morgunverðarhlaðborðið var gott að vanda og gátu börnin valið á milli súrmjólkur, ristaðs brauðs, kornflakes og fleira ... eða bara fengið sitt litið af hverju. 

Geir og HöfrungarKaraókíæfing var í morgun fyrir þá sem ætla að taka þátt í hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum. Íþróttahúsið var opið, sundlaugin og útisvæðið. Einnig var föndrað og búin til glæsileg kort. Bara gaman!

Í hádeginu var boðið upp á núðlusúpu og brauð. Það rann ljúflega niður ... sannarlega lystug börn á þessu tímabili, enda er Sigurjóna alsæl með matarlystina hjá þeim. 

Eftir matinn tóku við hádegisfundir hjá hópunum. Þeir voru hver í sínu horni, jafnvel inni á herbergjum, þar sem umsjónarmaðurinn tók púlsinn á hópnum sínum og farið var Hafdís og Hafmeyjarí leiki. Pollý hvatti Flugfiskana sína til dáða varðandi kvöldið en umræðuefni hópanna var mikið til um Mörk óttans sem allir hlökkuðu til að taka þátt í. Það þurfti tvo úr hverjum hópi til að drekka ógeðsdrykk, fjóra í spurningakeppnina og tvo til að fara í Krossfiskar (hluti hópsins)draugaherbergið ógurlega. Ekki stóð á sjálfboðaliðunum í þetta svo í sumum tilfellum þurfti að draga um hverjir tækju þátt. 

 

Í kaffinu var sódakaka og ávextir og eftir kaffið var haldin Gummi og Sæljóninhárgreiðslukeppni. Snöggklipptir strákarnir tóku ekki þátt en þátttakan var þeim mun meiri hjá stelpunum því 36 stelpur skráðu sig. Á heimasíðunni sjást allar hárgreiðslurnar ... Inga Lára og GullfiskarVerðlaun voru veitt fyrir fyrstu þrjú sætin, krúttlegustu hárgreiðsluna, villtustu hárgreiðsluna og þá dúllulegustu. Sigurvegarar fengu að velja sér verðlaun úr kassa sem var fullur af einhverju flottu í hárið.

 

 

 

Ósk og KóparPítsa var í kvöldmatinn og allir borðuðu á sig gat! Svo var það bara leikurinn góði; Mörk óttans!

 

 

Pollý og FlugfiskarHaldið var út í íþróttahús þar sem æsispennandi skottaleikur fór fram fyrst. Hann er þannig að krakkanir setja á sig skott (úr svörtum ruslapoka) og eiga svo að gæta þess að enginn steli af þeim skottinu á meðan þeir reyna að ná sem flestum skottum af hinum börnunum. Hárgreiðslukeppni, sigurvegararSíðan hófst spurningakeppni og frábært að heyra hversu vel börnin voru inni í öllum málum ... Spurningarnar voru misléttar en tveir hópar gátu svarað öllum rétt. Stig þar.

 

 

Ógeðslegur ógeðsdrykkurÞá var það ógeðsdrykkurinn. Hann hefur sjaldan verið viðbjóðslegri og lyktaði meira að segja illa. Einhverjir naskir áttuðu sig á því að sinnep var líklega í drykknum og jafnvel laukur ... Fyrr um daginn voru umsjónarmenn búnir að ráðleggja krökkum úr hópnum sínum að drekka hratt og kyngja strax, ekki draga kvölina á langinn. Einni stelpunni þótti ógeðsdrykkurinn reyndar voða góður, hún reyndi a.m.k. að telja okkur trú um það, litla krúttið, og við trúðum henni auðvitað, smekkur er svo misjafn.

Draugurinn kemur í dyrnar Svo var það draugaherbergið að síðustu sem er mikil þolraun, enda heitir leikurinn Mörk óttans! Tveir úr hverjum hópi þurfa að hlaupa eins hratt og þeir geta eftir matsalnum og inn í dimmt, reykfyllt herbergi þar sem mjög svo draugaleg og ógnvekjandi tónlist hljómar. Fjórir „draugar“ eru í felum þar inni. Davíð hljóp með börnunum, einu í einu, inn í herbergið, hjálpaði þeim að finna stein neðst í fötu sem var full af slímugu ógeðsvatni og stuggaði síðan draugunum frá svo hægt væri að hlaupa ofboðslega hratt til baka líka. Þetta gekk allt að óskum og þvílíkar hetjur sem þetta voru. Nokkrir urðu meira hræddir en aðrir og þeir hlógu í lokin þegar Gummi umsjónarmaður tók af sér grímuna og brosti breitt til þeirra, hann var þá aðaldraugurinn og ekkert smá hrikalegur. 

AppelsínubrosFlugfiskarnir hennar Pollýjar sigruðu Mörk óttans en litlu munaði á stigum, enda klárir krakkar í öllum hópunum. Í kvöldkaffi var boðið upp á ávexti og melónur og svo fóru allir að sofa eftir að umsjónarmenn lásu kvöldsöguna.

 Kíkið endilega á allar myndirnar sem eru komnar inn á tímabil 2, dagur 1 og dagur 2.

www.sumarbudir.is

 

 

 

Stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

 


Fyrsti dagurinn - námskeiðin, súkkulaðikaka, sund og fleira

Börnin koma í sumarbúðirnarAnnar hópur sumarsins mætti í gær. Rútan kom á mínútunni tvö, full af skemmtilegum og yndislegum börnum. Nokkur börn voru þegar komin, þessum sem var skutlað  hingað.

 

Í íþróttahúsinuUmsjónarmenn biðu hver eftir sínum hópi  en börnunum er skipt í aldursskipta hópa; í Gullfiska, Hafmeyjar, Höfrunga, Kópa, Flugfiska, Sæljón og Krossfiska.

 

Námskeiðakynning í íþróttahúsinuBörnin settu farangurinn inn á herbergin og fóru svo í skoðunarferð um svæðið með hópnum sínum. Allt sýnt - hvar matsalurinn er - hvers vegna bara einn má hoppa á trampólíninu í einu, það eru reyndar tvö trampólín í gangi og tímavörður passar upp á.

Eftir að börnin komu sér fyrir var haldið í kaffi. Súkkulaðikaka og ávextir sem féll sko vel í kramið! Síðan hittust allir í íþróttahúsinu. Starfsfólkið kynnti sig og einnig voru námskeiðin kynnt sem börnin geta valið um í kvikmyndagerð, leiklist, grímugerð, íþróttaævintýri, myndlist og dansi. Í tvo tíma á dag næstu dagana verða börnin á fullu í námskeiðunum og síðan verður frábær lokakvöldvaka síðasta kvöldið þar sem afraksturinn verður sýndur. 

SundlauginHver hópur með umsjónarmanni sínum fór og valdi sér námskeið, einnig álegg á brauð og hvernig safa þau vilja í kvöldkaffinu. Fóru síðan á útisvæðið og léku sér. Nokkrir fóru í gönguferð um fallegt svæðið hér í kring.

Gaman í sundiKvöldmaturinn var æði, kjöt og spagettí! Síðan var haldið í sund. Í kvöldkaffinu var boðið upp á epli, banana og appelsínur fyrir glorhungruð börnin sem þó borðuðu eins og herforingjar í kvöldmatnum, eða eiginlega ROSALEGA mikið, Sigurjónu ráðskonu til mikillar gleði. 

 

Eftir kvöldkaffi las umsjónarmaður hvers hóps framhaldssöguna og allir sofnuðu rótt og vel.

GönguferðEndilega kíkið á heimasíðuna, www.sumarbudir.is, tímabil 2 - dagur 1, til að sjá heilan helling af myndum frá fyrsta deginum.

SpilaborgMikið hefur verið myndað í dag, hádegisfundirnir með umsjónarmönnum, matsalurinn í hádeginu og hárgreiðslukeppnin og svo Mörk óttans í kvöld, æsispennandi leikur ... úúúúú ... Sjaldan verið meira spennandi! Ógeðsdrykkur, draugaherbergi ... allt um það á morgun.

P.s. Einhver bilun hefur verið á netsambandi hjá okkur og gekk illa að blogga í dag, við biðjumst velvirðingar á því en hér kemur loksins fyrsta færsla tímabils 2, dags 1.

Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum þótt sólin hafi svo sem ekki sýnt sig mikið í dag. 


Lokakvöldvaka - leynigestur - 17. júní hátíðahöld

Trommað á 17. júníÁ leið út í íþróttahúsLokadagurinn, miðvikudagurinn hófst með morgunverði að vanda en svo var farið á námskeiðin í klukkutíma. Síðan var farið að pakka niður og gera allt klárt.

Skyr og smurt brauð með eggi og kæfu var í hádegismatinn og heilmikil ánægja með það. Þegar allir voru orðnir saddir og sælir gat dagskrá 17. júní hafist. Þar sem úti var grenjandi rigning ákváðum við að hafa skrúðgönguna inni sem var auðvelt þar sem þetta eru heilmikil húsakynni. Trommur og fánar í flottri skrúðgöngu ... en á meðan laumaðist sumarbúðastjórinn með leynigestinn út í íþróttahús. Skömmu seinna þrömmuðu börnin þangað og sungu á leiðinni: Hei og jibbí jei, það er kominn 17. júní ... tra la la ...

Leynigesturinn var í felum á bak við flotta sviðið sem einn starfsmaðurinn (Ellý) smíðaði og skreytti í fyrra.

Leynigesturinn Anna HlínOg sjá, Anna Hlín birtist allt í einu og var fagnað hressilega. Hún söng tvö lög, annað án undirleiks og hitt var eftir hana sjálfa, mjög flott lag sem heitir Valgerður

Eiginhandaráritun og myndatökurEftir sönginn myndaðist löng biðröð þar sem alla langaði til að fá eiginhandaráritun. Anna Hlín var einstaklega ljúf og yndisleg, fyrir utan það hve vel hún syngur. Hún fór ekki fyrr en allir voru búnir að fá eiginhandaráritun og mynd af sér með henni.

 

 

Í kaffinu var skúffukaka og einnig tekex með smjöri og heimalögðuðu marmelaði. Þegar allir voru búnir að drekka hoppaði Sigrún næturvörður um matsalinn í fínum búningi og færði börnunum sælgæti í poka. Allir fengu nammi af því að það var 17. júní!

 

KókosbolluboðhlaupNammi á 17. júníSíðan voru opnar stöðvar, íþróttahús og spilaborg. Útisvæðið datt út því að enga langaði út að leika í rigningunni á svona hátiðisdegi, stutt í lokakvöldvökuna og mikil eftirvænting ríkti.

Æðislega spennandi og gómsætt kókosbolluboðhlaup fór fram og tóku vitanlega allir þátt í því ... líka starfsfólkið sem stóð sig ekkert sérstaklega vel, nema í því að borða kókosbollu ...

 

 

HamborgaraveislaHátíðakvöldverðurinn samanstóð af hamborgurum, frönskum, sósu og gosi. Að vanda voru börnin afar ánægð með matinn og borðuðu þar til þau stóðu á blístri.

MyndlistinSvo kom að lokakvöldvökunni. Allir klæddust í sitt fínasta púss og byrjað var á myndlistarsýningunni sem haldin var í Oz.  Þema sýningarinnar var geimurinn. Verkin vöktu verðskuldaða aðdáun og myndlistarhópurinn var hreykinn af afrakstri vikunnar.

Sjá myndina hér að ofan.

 

 -       -         -

 


ÍþróttahópurinnÞá var haldið út í íþróttahús þar sem íþróttahópurinn fór á kostum. Hópurinn var með fótboltasýningu og einnig leik þar sem áhorfendur voru einnig þátttakendur. Mikil lukka með þessa flottu sýningu. Geir og hópurinn hans hér til vinstri.

 

 

Börnin hverfa - leikritSíðan kom að leiklistarhópnum. Leikritið hét Krakkarnir hverfa og var æsispennandi. Þar var bæði söngur og spenna. Börnin sungu lag við frumsaminn texta eftir þau sjálf og var ótrúlega flott. Sjá mynd til hægri.

 

DanshópurinnDanssýningin var dásamleg! Dansinn var skemmtilegur og hress, nokkurs konar 17. júní gríndans þar sem dúskar, hattar og grímur komu við sögu. Bara æðislegt! Sjá mynd til vinstri.

Kvikmyndagerðin sýndi myndina sína við mikinn fögnuð. Grínhryllingsmynd í hágæðaflokki. Ferlega fyndin og skemmtileg. Kannski verður bútur úr henni sýndur hér á blogginu ...


StarfsmannaleikritiðLokaatriðið var leikritið Geiturnar þrjár sem starfsfólkið lék, og voru ýmis viðbótarhlutverk til að allir starfsmennirnir fengju að vera með. Geiturnar voru að vísu fjórar ... svo var vindur, brú (sem þurfti tvo starfsmenn til að leika), vatn, Öskubuska, prinsinn hennar, Rjauðhétta, Hjarrjý Póttér og fleiri og fleiri ... jamm, ótrúlega ruglað leikrit!

Ávextir voru síðan í kvöldkaffinu.

 

 

 

 

Kvikmyndin aftur á fardegi

 

Í gær var vaknað beint í morgunverðarhlaðborðið á fardeginum og á meðan beðið var eftir rútunni horfðu börnin m.a. á grínhryllingsmyndina aftur og svo var mynduð flott farangursröð sem sjá má á heimasíðunni, www.sumarbudir.is, ásamt fjölda skemmtilegra mynda.

Við þökkum kærlega fyrir frábæra viku!

P.s. Í dag kom nýr barnahópur til okkar á Kleppjárnsreyki, búið er að mynda þau bak og fyrir og færsla kemur inn á morgun, laugardag, einnig myndir á heimasíðuna.

 


Ævintýrabarkinn, grettukeppni og margt, margt fleira

Notalegt í heita pottinumGærdagurinn var rosalega skemmtilegur og mikið hamast en rólegheitast líka, bara eins og hver og einn vildi. Valið sem börnin hafa í sumarbúðunum gerir það að verkum að allir eru ánægðir, enginn er píndur í gönguferð með öllum hópnum, eða í brjálaðan hasarleik, heldur er tekið tillit til þess að börn eru ólík.

Góðar vinkonur á útisvæðiDagurinn hófst á hlaðborði að vanda og gátu börnin valið um ýmislegt góðmeti í morgunverð, svo sem hafragraut, súrmjólk, ristað brauð og slíkt.  Í hádeginu var pastaréttur og heimabakaðar hvítlauksbollur með. Í kaffinu var boðið upp á sandköku og einnig melónur. Í kvöldmat var fiskur með sósu og hrísgrjónum. Sumir krakkar vilja ekki fisk og þeir örfáu sem vildu ekki fisk fengu brauð, grjónagraut og súrmjólk, voru alsælir með að vera ekki neyddir til að borða það sem var á boðstólum. Auðvitað ekki, í sumarbúðum á að skemmta sér, líka í matartímanum.

Í kertagerðFyrir hádegi var hægt að fara í sund og heita pottinn, vera á útisvæði eða í kertagerð og þeir sem tóku þátt í karaókíinu fóru á lokaæfingu hjá Gumma.

Nýlega var farin fjöruferð í Hvalfirði til að tína skeljar í kertagerðina, ekki börnin þó, heldur tveir starfsmenn. Skeljarnar voru síðan þrifnar og sótthreinsaðar vel og vandlega og eru nú hin mesta prýði þegar búið er að mála þær af börnunum og setja kertavax og kveik í þær. Líklega þarf að fara aðra ferð fljótlega þar sem kertagerðin er svo vinsæl. Sumir völdu að búa til flott kerti, fara síðan aðeins út og jafnvel skreppa í sund og heita pottinn. Eftir matinn var haldið á hádegisfundinn góða með umsjónarmanninum.

Grettukeppnin fyndnaNámskeiðin góðu tóku svo við fram að kaffi en nú er farið að síga á seinni hlutann og þurfti að leggja síðustu hönd á ýmislegt, eða a.m.k. næstsíðustu hönd ...

Eftir kaffi var spilaborg opin en þar er hægt að gera sér margt til dundurs. Óteljandi skemmtileg spil eru þar, fullt af skemmtilegum bókum sem hægt er að skoða eða lesa og fara í púl og borðtennis. Þeir sem vildu fóru á útisvæðið og svo var það ruslatínslan sem komið var inn á í síðustu færslu. Hún var reyndar degi fyrr en vanalega en allt átti að vera fínt áður en 17. júní rynni upp, þjóðhátíðardagurinn ... og lokadagurinn. Ruslatínslan stóð ekki lengi, það kom hellidemba. Þá var nú gott að fara inn í hlýjuna. Haldin var bráðfyndin grettukeppni þar sem sigurvegararnir voru eiginlega allir. Mikið hlegið. Fyrir kvöldmat fóru börnin inn á herbergin sín til að gera sig fín fyrir kvöldið en mikið stóð til, söng- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn.

Sigurvegarar í ÆvintýrabarkanumÆvintýrabarkinn gekk glimrandi vel og sýndu börnin mikla hæfileika og einnig kjark, það er ekki auðvelt að koma fram fyrir framan fjölda áhorfenda. Starfsfólkið var mjög duglegt við að sprella fyrir börnin á meðan dómnefndin slóst og reifst, afsakið, kom sér saman um vinningshafana.

Í fyrsta sæti varð Danía Rún en hún söng lag Jóhönnu Guðrúnar, Úps, ég datt ... Í öðru sæti varð Alexandra sem söng lagið Everytime we touch. Alexandra lenti í þriðja sæti í fyrra og reiknar með því að lenda í því fyrsta næsta sumar með þessu áframhaldi. Í þriðja sæti varð Inga Bjarney en hún söng lagið Nína!

Aukaverðlaun í ÆvintýrabarkanumSérleg aukaverðlaun fengu Anna Lena, Erla og Malin. Anna Lena og Erla sungu Maístjörnuna og Malín söng Bahama. Fullt af myndum frá keppninni og deginum má sjá á heimasíðunni, dagur 5.

Þetta var afar glæsilegt kvöld. Þá var það kvöldkaffið, samlokur og safi, og síðan háttatími þar sem umsjónarmaðurinn las framhaldssöguna fyrir hvern hóp. Allir sofnuðu vært og rótt.
 
Allt um ævintýri 17. júní á morgun.
 
Bestu stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 91194

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband