29.7.2009 | 23:49
Magnaður lokadagur - myndirnar komnar
Ef dagurinn í gær var góður þá var þessi helmingi betri - eða kannski öðruvísi. Mikil hátíðastemmning ríkti, enda lokadagur og spenna fyrir lokakvöldvökunni fram undan.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi að þessu sinni en ekki fyrr en eftir staðgóðan morgunverð; kornfleks, seríós, súrmjólk, ristað brauð og álegg eða hafragraut eða bara sitt lítið af hverju.
Eftir námskeiðin fóru hóparnir að pakka niður farangri sínum og sum börnin skruppu í sturtu.
Í hádeginu var skyr og smurt brauð og eftir matinn var enn og aftur farið á námskeiðin til að leggja síðustu hönd á allt saman.
Í kaffinu var skúffukaka og einnig melónur og þar sem Harpa Dís verður 12 ára á morgun fékk hún skreytta kökusneið, gjöf, kort og afmælissönginn. Frekar erfitt að halda upp á afmælið hennar á fardegi.
Eftir kaffi var reiðnámskeiðsbörnunum boðið upp á korta- og dagbókargerð sem þau misstu af í gær. Spilaborg var opin, einnig íþróttahúsið og svo útisvæðið á meðan hin vikulega ruslatínsla fór fram. Sjálfboðaliðar fara um svæðið vopnaðir ruslapokum og sópum og fá svo að velja sér skemmtileg verðlaun fyrir. Ótrúlega vinsælt!
Fyrir hátíðarkvöldverðinn skiptu börnin um föt og voru ótrúlega ánægð með að hamborgara, sósu, franskar og gos.
Kvöldvakan hófst með sýningu listaverkagerðarhópsins og var hún glæsileg að vanda.
Þar á eftir var farið út í íþróttahús þar sem íþróttahópurinn stóð fyrir skemmtilegum leik sem heitir Körfukóngur. Allir reyndu að hitta bolta í körfuna og kóngurinn sem hitti oftast er nú eiginlega drottning og heitir Silja Katrín. Allur hópurinn tók sko þátt.
Danshópurinn sýndi frábæran dans og var eins og stelpurnar hefðu æft í margar vikur ... þær voru ótrúlegar. Við tókum þetta upp og einnig Ævintýrabarkann og mun þetta koma á bloggið sem allra fyrst.
Starfsfólkið sýndi frekar ruglað leikrit sem skemmti börnunum afar vel. Það heitir Hans og Gréta en samt villtust inn í það persónur úr öðrum leikritum, m.a. Öskubuska á flótta undan prinsinum. Yngri stjúpsystir Öskubusku varð skotin í Hans, bróður Grétu, sem flækti málin mikið.
Í grímugerð þessa vikuna voru sex börn en þeim tókst þó að búa til frábært látbragðsleikrit sem fjallaði um tvær eldri konur, góðar vinkonur sem hittust eftir margra ára aðskilnað. Bófar komu og rændu þeim, misheppnuð ofurhetja reyndi að bjarga þeim en tókst ekki. Ræningjarnir bundu þær og vöktu yfir þeim en eftir sólarhring sigraði svefninn þá og ofurhetjunni tókst að bjarga konunum. Þær þökkuðu ofurhetjunni og dásömuðu hetjuskapinn og fóru svo. Þá stóðu ræningjarnir upp og ofurhetjan borgaði þeim fullt af peningum, hann vildi að fólk fengi trú á sér aftur, ekki hafði gengið nógu vel hjá honum undanfarið. Frábært leikrit en handritið var að sjálfsögðu skrifað af börnunum sjálfum.
Bíómynd kvöldsins, Stóra spurningamerkið, var alveg frábær. Hún stóð í heilar 30 mínútur, líklega lengsta mynd sem nokkur hópur hefur gert. Hún fjallar um hund sem er stolið og FBI rannsakar málið. Margar stórkostlegar persónur í myndinni, börnin stóðu sig mjög vel.
Eftir þessa æðislegu kvöldstund var boðið upp á ávexti í kvöldkaffinu og allir fengu svo íspinna. Síðasti hluti kvöldsögunnar var síðan lesinn fyrir hópana og svo tók draumalandið við.
Körfudrottningin.
Fyrirfram heilmiklar saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum en í fyrramálið kveðjur þessi hressi og skemmtilegi hópur okkur.
Kíkið eftir nýjum myndum á www.sumarbudir.is, tímabil 7, dagur 6.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.