29.7.2009 | 16:12
Æðislegur dagur sem lauk með Ævintýrabarkanum
Gærdagurinn var gjörsamlega æðislegur og sitt af hverju óvænt og skemmtilegt gerðist, þ.á.m. glæsileg tískusýning sem hafði ekki verið plönuð, ekki að spyrja að þessum kláru krökkum sem vex ekkert í augum.
Að vanda hófst dagurinn með því að börnin vöknuðu ... klæddu sig, burstuðu tennur og svona. Hlaðborðið beið þeirra að vanda og allir borðuðu sig metta, fengu sér eitthvað eitt eða smökkuðu af öllum "sortum".
Útisvæðið átti að vera opið en þar sem veðrið var svo "fúlt", eins og börnin orðuðu það, var Spilaborg opnuð fljótlega.
Einnig var í boði að fara í sund, á karaókíæfingu eða í íþrótthúsið þar sem þolfimi var og sló gjörsamlega í gegn og einnig var haldin spennandi húllakeppni.
Mikið var við að vera á öllum vígstöðum í gær, boðið var m.a. upp á dagbókargerð við miklar vinsældir og einnig kortagerð sem vakti ekki minni lukku.
Tinna Björk sigraði húllakeppnina með miklum yfirburðum (11,05 mín.) og í öðru sæti varð Svanhvít Birta (7,05). Nína Þöll var í þriðja sæti (3,17 mín.). Snillingar!
Í hádeginu var boðið upp á pasta og heimabakað hvítlauksbrauð við miklar vinsældir barnanna. Síðan voru hádegisfundirnir haldnir með umsjónarmönnunum. Bara snilld að hafa þessa fundi, finnst börnunum, sem hafa gaman af því að rabba saman um allt milli himins og jarðar í rólegheitunum. Ja, eða fara í skemmtilega leiki. Fer bara eftir stemmningunni.
Við kíktum á námskeiðin og njósnuðum svolítið en yfirleitt er ekki auðvelt að fá upp úr hópunum hvað er í gangi, allt svo mikið leyndarmál sem á ekki að opinberast fyrr en á lokakvöldvökunni.
Ekki er alveg komið á hreint hvort stuttmynd kvikmyndagerðar á að heita Stóra spurningamerkið eða Stóra spurningin, kemur í ljós í kvöld. Grímugerðarleikritið heitir Kolruglaðir endurfundir. Íþróttahópurinn ætlar að standa fyrir leikjum á lokakvöldvökunni, leikjum sem allir geta tekið þátt í. Danshópurinn verður með heimasaminn Free Style poppdans ... vá, hvað við hlökkum til í kvöld.
Í kvöldmat var steiktur fiskur með hrísgrjónum, karrísósu (sem er ævintýrasósa a la Sigurjóna) og svo fengu þeir tómatsósu sem vildu. Nammi, namm.
Já, þær Hildur og Melkorka voru hnífjarnar í þriðja sætinu. Fyrir fyrstu þrjú sætin voru veitt verðlaun en allir fengu viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.
Sérstök aukaverðlaun í hæfileikakeppninni fékk Máni Emeric fyrir brúðuleikhús! Hrafn Ingi, 4 ára, sem kom í heimsókn til ömmu (Þóru) í sumarbúðirnar, tróð upp og söng Vinalagið. Hann fékk smá aukaverðlaun fyrir að þora ... Við dáðumst þvílíkt að öllum þátttakendum einmitt fyrir það, kjarkinn að standa fyrir framan stóran áhorfendahóp og syngja! Áhorfendur stóðu sig líka vel og fögnuðu innilega hverjum keppanda sem gerði þetta eflaust léttbærara.
Aðrir keppendur voru: Berglind María, Danía Rún, Erla Svanlaug, Helena Björk, Olga Katrín, Nína Þöll, Ragna Sól, Salomé, Steinunn Margrét, Suzanna Soffia og Tinna Björk. Þær stóðu sig alveg einstaklega vel.
Skemmtiatriði, hressandi hopp og skopp í hléinu og smá uppákoma starfsmanna var einnig í gangi og það ríkti sannarlega líf og fjör eins og sjá má á myndunum á www.sumarbudir.is, tímabil 7, dagur 5.
Í kvöldkaffi var smurt brauð og safi. Næstsíðasti kvöldlesturinn fór fram og eru sumar framhaldssögurnar örugglega orðnar frekar spennandi eða fyndnar eða bara skemmtilegar en allir sofnuðu hratt og vel. Ekki miklar annir hjá næturvörðunum frekar en vanalega.
Stórfenglegar hæfileikakveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Bein leið á milljón myndir gærdagsins: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t7-d5.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.