28.7.2009 | 00:25
Húllumhæ, rok, pylsur og bíókvöld
Húllumhædagur var haldinn hátíðlegur í dag en hann er alla mánudaga í Ævintýralandi.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi að þessu sinni og eftir hrikalega góðan grjónagraut í hádeginu og síðan hádegisfundina var haldið út í íþróttahús þar sem húllumhædagurinn var settur. Yfirleitt er það gert utandyra en það var svo mikið rok að þessu sinni og bara meira kósí að vera þar.
Verulega skemmtilegt kókosbolluboðhlaup fór fram og sýndu börnin ótrúlega snilli við að borða kókosbollu ... með hendurnar fyrir aftan bak.
Síðan var fánaleikurinn æðislegi, frábæri, skemmtilegi og þau börn sem vildu taka þátt í honum voru máluð í framan með stríðsmálningu, liðið Draumur fékk rauða málningu en Martröð gula. Á meðan um 50 börn börðust um þvottaklemmur léku hin börnin sér í íþróttahúsinu og fengu líka bandfléttur ef vildu. Jafntefli varð í fánaleiknum, bæði liðin jafngóð.
Í kaffinu voru heitar VÖFFLUR með súkkulaðiglassúr og rjóma en þau börn sem vildu sultu fengu hana að sjálfsögðu. Mikið, mikið var borðað af vöfflum, bæði eru þær svoooo góðar og svo voru allir svangir eftir hamaganginn og skemmtunina.
Eftir kaffið var skartgripagerð og armbandsgerð í matsalnum, keilukeppni (Wii) í bláa herberginu sem kallast Framtíðin og boðið var upp á andlitsmálun, tattú og bandfléttur.
Algjör 17. júní-hátíð. Rúsínan í pylsuendanum var spákonan ógurlega, Jósefína Potter frá Borgarnesi. Hún sagði þeim eflaust eitthvað spennandi en þó algjört leyndarmál. Það var þó ekki aðalmálið hvað hún sagði, heldur hver þetta eiginlega væri ... hvaða starfsmaður hefði farið í galdrabúning og þóst vera spákerling frá Borgarnesi.
Talandi um pylsuenda ... það voru grillaðar pylsur í kvöldmatinn og ekkert smá góðar!
Síðan tók við bíókvöld þar sem boðið var upp á popp og safa í hléinu. Frábær dagur!
Allir voru þreyttir en sælir þegar kvöldsagan var lesin og sumir gátu ekki haldið sér vakandi yfir henni, heldur steinsofnuðu næstum um leið og þeir lögðust í bólið. Á morgun bíða ný ævintýri og annað kvöld verður t.d. karaókíkeppnin, eða Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn.
Frábærar húllumhækveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Nýjar myndir á heimasíðunni: www.sumarbudir.is.
Bein leið á dag 4: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t7-d4.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.