27.7.2009 | 01:36
Kertagerð, sippkeppni, diskótek og margt fleira
Þetta var viðburðaríkur og skemmtilegur dagur alveg frá morgni til kvölds.
Morgunverðarhlaðborðið stóð fyrir sínu að vanda og gaf börnunum kraft í kropp fyrir annir dagsins.
Valið í morgun var um sippkeppni, kertagerð, sund og íþróttahús og svo fóru þeir söngelskustu í karaókíæfingu með Gumma. Æfingu fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann sem fram fer á þriðjudagskvöldið. Þegar leið á morguninn var hin sívinsæla Spilaborg opnuð.
Sippkeppnin var spennandi en í fyrsta sæti varð Erna Björk, í öðru þær Ólöf Björg (Lóa) og Sóley Björg sem voru hnífjafnar að stigum. Í þriðja sætinu varð Sunneva Lind.
Kakósúpa var í hádegismatinn með tvíbökum og síðan var boðið upp á ávexti.
Hádegisfundirnir voru skemmtilegir að vanda en þá tekur umsjónarmaðurinn púlsinn á líðan barnanna, þau spjalla mikið um sitt af hverju og svo er stundum farið í leiki.
Leiksýning starfsmanna fór síðan fram en þar er tekið á ýmsum málum. Góðuráðavélin Ping og Pong lék stórt hlutverk (Davíð og Inga Lára) en Gummi lék strák sem lenti í ýmsu, m.a. einelti á skólalóðinni og því að vafasamur maður (sem Geir lék) með nammi og hvolpa (svo sagði hann) vildi endilega bjóða honum upp í bílinn sinn. Þeir Sing og Song, jákvæðar hugsanir, neikvæðar hugsanir, skynsemi og óskynsemi, reyndu að hafa áhrif á Gumma og sagði Song t.d. að maður ætti ALLTAF að fara upp í bíl hjá ókunnugum. Þá hlógu nú börnin dátt, enda vissu þau betur. Allt fór vel að lokum og Gumma tókst að taka réttar ákvarðanir. Hann t.d. hafnaði því að fá Hönnu Montana sem vinkonu á MSN. Hann vildi frekar þekkja krakkana sem voru vinir hans þar en að safna fullt af ókunnugum vinum sem hann þekkti ekki neitt.
Síðan var haldið á námskeiðin. Kvikmyndagerðin var í tökum og virðist stuttmyndin hjá krökkunum ætla að verða ótrúlega spennandi. Þau voru vígaleg í búningunum. Mun meiri leynd hvílir yfir leikritinu hjá grímugerð/leiklist, hvað þá dansinum og íþróttunum. Listaverkagerðin hefur skapað ótrúleg verk og eru t.d. litlu myndirnar, málaðar á gifs, alveg rosalega flottar. Lokakvöldvakan verður æðisleg og mikil tilhlökkun og spenningur ríkir alltaf vegna hennar og að sjá afrakstur allrar vinnunnar sem lögð hefur verið í námskeiðin, hvert og eitt þeirra.
Í kaffinu var boðið upp á sandköku og melónur og þegar allir voru orðnir saddir og sælir var það Spilaborg, útisvæði og íþróttahús. Þeir sem eru á reiðnámskeiði fóru til Guðrúnar með rútunni og skemmtu sér konunglega.
Veðrið var gott í dag þótt sólin léti ekki sjá sig og börnin nutu þess að vera úti. Það var logn og rigningardroparnir féllu bara á meðan börnin voru hvor eð er inni. Sérsamningur við Sigga storm!
Börnin skiptu um föt fyrir matinn, enda diskótek strax á eftir ... en í matinn var kjúklingur, franskar, sósa og gular baunir og var hreinlega malað af vellíðan, enda er kjúklingurinn hennar Sigurjónu heimsþekktur fyrir bragðgæði, eða það hlýtur að vera.
Diskóið var stórskemmtilegt, börnin kunna sannarlega að skemmta sér og dönsuðu mikið. Svo var notalegt að fara fram til að kæla sig og geta sest í rólegheitum og fá tattú eða bandfléttu í hárið.
Brauð og safi í kvöldkaffinu, síðan kvöldsagan og þá draumalandið!
Stuð- og diskókveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Bein leið á myndir dagsins:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t7-d3.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.