23.7.2009 | 00:50
Ævintýrabarkinn, lokakvöldvaka og önnur skemmtilegheit
Gærdagurinn hófst á morgunverðarhlaðborði að vanda en síðan var sitt af hverju í boði. Spilaborg var opin, íþróttahúsið, útisvæðið og sundið sem var vinsælast en nokkrir æfðu sig fyrir kvöldið, Ævintýrabarkann sjálfan.
Í hádeginu var pasta í matinn með heimabökuðu hvítlauksbrauði, algjört æði bara.
Eftir hádegisfundina með umsjónarmönnunum voru námskeiðin á dagskrá og voru börnin önnum kafin við að ljúka við æfingar, listaverk og slíkt því það styttist í lokakvöldvökuna.
Í kaffinu var gómsæt skúffukaka og einnig tekex með heimalögðuðu appelsínumarmelaði. Þeir sem eru á reiðnámskeiði fóru þangað kl. 16 og tóku með sér nesti.
Útisvæði, Spilaborg og íþróttahúsið voru vinsæl eftir kaffi. Það var glampandi sól og minni vindur en daginn áður.
Í kvöldmat var fiskur, hrísgrjón og karrísósa (ævintýrasósa a la Sigurjóna), tómatsósa fyrir þá sem hana kusu og svo var bara að drífa sig út í íþróttahús þar sem Ævintýrabarkinn fór fram.
Keppnin var stórskemmtileg en svona urðu úrslitin:
1. sæti: Hallgrímur Hrafn (Krummi) sem söng lagið Space Oddity með stæl og Gummi spilaði undir á gítarinn. (lengst til hægri)
2. sæti: Aldís Birta sem söng lagið Drífa (með Veðurguðunum). (önnur frá hægri)
3. sæti: Unnur Lilja, söng lagið All out of luck. (í miðið)
Aukaverðlaun fengu Levi (lengst til vinstri) sem söng lagið Ó María mig langar heim og Arnar sem söng lagið Pósturinn Páll og báðir sungu við undirleik Gumma.
Aðrir þátttakendur voru: Bergur Snorri, Diljá, Erla Svanlaug, Gyða, Kormákur Atli, Levi, Alexandra Diljá, Birgitta Ösp og Styrmir Hrafn. Allir fengu viðurkenningarskjöl og þrír efstu verðlaun.
Brauð og safi í kvöldkaffi og síðan sofnuðu allir vært, eins gott, annasamur dagur fram undan, lokadagurinn sjálfur.
Svo hófst nýr dagur, lokadagurinn og nóg var að gera. Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi og börnin lögðu síðustu hönd á það sem þau höfðu verið að vinna að alla vikuna. Eða næstsíðustu því aðeins meira var námskeiðast seinna um daginn.
Í hádegismat var skyr og einnig grjónagrautur sem börnin eru vitlaus í og þess vegna var ákveðið að bjóða upp á hann aftur. Einnig var smurt brauð.
Eftir hádegi byrjuðu börnin að pakka niður en að sjálfsögðu ekki fínu fötunum, þau átti sko að nota um kvöldið.
Börnin í kvikmyndagerðinni horfðu á stuttmyndir frá fyrri árum, enda myndin þeirra búin og verið var að klippa hana fyrir kvöldið. Nóg var að gera hjá hinum börnunum og svo var bara allt í einu komið kaffi.
Levi verður 9 ára á fardegi þannig að haldið var upp á það degi fyrr með því að syngja fyrir hann og svo fékk hann skreytta köku og gjöf. Afmælisgestirnir fengu að sjálfsögðu líka köku. Sungið verður fyrir Levi aftur á sjálfan afmælisdaginn.
Eftir kaffi var útisvæði, Spilaborg og íþróttahúsið opið og stór hluti barnanna fór í ruslatínslu. Þá er sópað, rusl á svæðinu tínt upp í poka og allt gert mjög fínt, allir fengu að sjálfsögðu verðlaun fyrir dugnaðinn.
Kvöldmaturinn, sjálfur lokakvöldverðurinn, samanstóð af hamborgurum, frönskum, sósu og gosi og ríkti algjör hátíðarstemmning.
Svo hófst lokakvöldvakan.
Íþróttahópurinn sýndi mikla fimi og skemmtilegheit í sýningu sinni og sýndi grímugerðin leikritið Dýraránið, mjög skemmtilegt leikrit þar sem bófar rændu gæludýrum úr gæludýrabúð. Álfadísin kom og bjargaði þeim en daginn eftir komu bófarnir aftur og að þessu sinni keyptu þeir gæludýrin, vildu ekki stela þeim.
Leiklistin sýndi leikritið Fallega veskið. Bófar stálu veski af túristum, þremur konum sem voru alveg í rusli yfir því, norn bjó til seið sem gerði alla heiðarlega og góða sem varð til þess að bófarnir skiluðu veskinu. Handritið var að sjálfsögðu samið af börnunum, eins og á öðrum námskeiðum.
Starfsfólkið sýndi leikritið Búkolla og fannst krökkunum það mjög svo fyndið.
Næst á dagskrá var sýning listaverkagerðar og kvöldvakan endaði með því að allir horfðu á stuttmynd kvikmyndagerðar, Ættarmót upp á líf og dauða, frábær mynd sem sló í gegn.
Í kvöldkaffinu voru ávextir og íspinni.
Þetta var sannarlega góð vika, frábærir krakkar sem skemmtu sér vel og mikil ánægja var að vera með. Bestu þakkir fyrir frábærar samverustundir.
Fyrirfram saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum en undir hádegi á morgun verður kveðjustundin.
Nýjar myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is, endilega kíkið.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.