21.7.2009 | 12:28
Húllumhæ í roki, bíókvöld og vöfffffflur ...
Nokkuð hvasst var hjá okkur í gær en gott veður að öðru leyti.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi þar sem heilmikil dagskrá átti að hefjast eftir matinn, eða húllumhæ!
Grjónagrautur og melónur voru í hádegismatinn og mikið, mikið borðað!
Að hádegisfundum loknum var blásið til hátíðarhaldanna. Svanhildur sumarbúðastjóri með gjallarhorn og páfagaukinn Gorían (sem getur talað ef ýtt er á takka á honum) lýsti komandi hátíð sem minnir einna helst á 17. júní.
Byrjað var á fánaleiknum en þar skiptast börnin í tvö lið, Draum og Martröð. Þau eru máluð með stríðsmálningu og svo er barist um dýrmætar þvottaklemmur, brjálæðislega skemmtilegur ærslaleikur sem kemur öllum í gott stuð.
Þeir sem ekki vildu vera með fóru í Spilaborg og þar var m.a. boðið upp á bandfléttur í hár og fleira.
Í kaffinu var boðið upp á vöfflur með súkkulaði og rjóma og grétu börnin nánast af gleði yfir þeirri dýrð og borðuðu á sig gat, svona nánast.
Ekki var allt búið ... því margt var í boði eftir kaffi, m.a. tattú, bandfléttur, keilukeppni (Wii), skartgripagerð og spákonan ógurlega frá Borgarnesi, Jósefína Potter. Að vanda fannst krökkunum meira spennandi að giska á hver umsjónarmannanna væri í gervi hennar en það sem
hún sagði. Aumingja Jósefína. En voða fannst krökkunum samt spennandi að fara til hennar. Íþróttahúsið var opnað þegar allir sem vildu höfðu farið til hennar.
Í kvöldmat voru grillaðar pylsur með öllu og börnin voru ekki óánægð með það.
Eftir matinn var bíókvöld og í hléinu fengu börnin popp og Svala.
Fleiri nýjar myndir eru komnar inn á heimasíðuna, www.sumarbudir.is, en þar má finna allar upplýsingar um starfsemina.
Við viljum líka vekja athygli á að 12 laus pláss eru á unglingatímabilið um verslunarmannahelgina en þá koma 12-14 ára börn. Dagskráin er aðeins öðruvísi þá og í stíl við hærri aldur. Ótrúlega spennandi vika!
Rok- og sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.