19.7.2009 | 23:43
Kertagerð, reiðnámskeið, sippkeppni, diskó og margt fleira!
Dagurinn hófst á morgunverðarhlaðborði að vanda, svona þegar allir voru búnir að bursta, greiða og klæða, og þegar allir voru orðnir vel saddir hófst dagskráin. Valið í morgun var um útisvæði, sippukeppni, sund, karaókíæfingu (fyrir þá sem eru skráðir í Ævintýrabarkann) og kertagerð.
Sippkeppnin var spennandi og sýndu ýmsir ótrúleg tilþrif. Í fyrsta sæti varð Eyjólfur Júlíus, í öðru sæti Karen Líf og því þriðja María Ösp.
Í kertagerð finna börnin sér góðan stein sem þau síðan mála fallega. Síðan mála þau skel sem vaxið fer í, ásamt kveik, og ... kertið tilbúið þegar búið er að líma skelina á steininn. Ótrúlega flott kertalistaverkin sem þau gerðu og þegar þau voru búin hoppuðu þau út í leik.
Sundið var frábært að vanda og útisvæðið líka ... í þessu líka góða veðri. Ég veit varla hvernig við hefðum farið að ef sólin hefði skinið líka, svo heitt var úti ...
Rosalega góð kakósúpa með tvíbökum var í hádegismatinn og svo ávextir á eftir. Allir saddir og sælir þegar haldið var á hádegisfundi.
Hirðljósmyndari Ævintýralands kíkti á hádegisfundina og þar var sitt af hverju í gangi. Kóparnir ræddu um einelti og hvernig væri hægt að hjálpa einhverjum sem lenti í slíku, sumir töluðu um málið af reynslu. Ýmis umræðuefni voru í gangi, hjá Krossfiskunum var þetta afslöppuð stund og heilmikið spjallað í rólegheitunum. Um nóg er að tala á þessum fundum og svo er líka farið í skemmtilega leiki með umsjónarmanninum sínum sem tekur stöðuna á líðan barnanna og nær vel til hvers og eins.
Skömmu fyrir kl. tvö var leikrit í boði fyrir börnin, leikrit sem er bæði fyndið og alvarlegt og fjallar m.a. um skaðleg áhrif eineltis, leyndarmál sem má ekki þegja yfir, hættulega vini á Facebook sem eru kannski ekki það sem þeir sýnast, að fara upp í bíl hjá ókunnugum og þessháttar. Hluti starfsmanna lék krakka og fleiri persónur sem komu við sögu.
Davíð, 11 ára, (leikinn af Davíð umsjónarmanni) fékk góð ráð hjá góðuráðavélinni Ping og Pong en hann upplifði einelti á skólalóðinni. Það var sýnt og einnig hvernig góðu ráðin nýttust honum og síðar vinum hans sem voru í vanda og vissu ekki hver gat hjálpað þeim. Maður á bíl kom keyrandi og bað Davíð um að hjálpa sér með sæta hvolpa sem hann átti í vandræðum með. Þá komu raddirnar Sing og Song til sögunnar. Sing sagði að maður ætti aldrei að fara upp í bíl hjá ókunnugum en Song vildi meina að hann ætti að hjálpa manninum. Sem betur fór hlustaði Davíð á Sing og fór ekki upp í bílinn.
Börnin sátu grafkyrr og hlustuðu en hlógu nú stundum yfir ruglinu í Song eða einhverju sniðugu í leikritinu sem var reyndar bráðfyndið. Þeim fannst Davíð t.d. rosalega fyndinn þegar hann sagðist eiga erfitt með skapið í sér og sýndi það með geðvonskukasti en Ping og Pong ráðlögðu honum að telja upp á tíu áður en hann gerði nokkuð sem hann sæi eftir síðar. Flott ráð sem Davíð lofaði að nýta í framtíðinni.
Þetta leikrit verður örugglega aðalumræðuefnið á hádegisfundunum á morgun. Það er a.m.k. venjan.
Svo hófust námskeiðin.
Börnin í grímugerð eru byrjuð að mála grímurnar sínar. Á morgun verður fyrsta æfing á látbragðsleikritinu sem þau sýna svo síðasta kvöldið. Mjög líklega má sjá þar drauga, sjóræningja og kanínur svo fátt eitt sé talið.
Leiklistin æfði í dag í búningum og verður þetta greinilega afar spennandi leikrit þar sem bófar og rængingjar koma við sögu. Börnin semja alfarið handrit að leikritum, kvikmynd, látbragðsleikriti með þeirri hjálp sem þau þurfa ef þau biðja um hana.
Mikið fútt var í kvikmyndagerðinni en mikil leynd hvílir yfir stuttmyndinni sem verið er að gera. Börnin þar dönsuðu hvert af öðru fyrir framan vélina og fengum við ekkert að vita í hvaða tilgangi það væri, bara eitthvað sprell, reyndu þau að sannfæra okkur um ... Eina sem við vitum er að myndin á að heita Ættarmót upp á líf og dauða! Eins og við sögðum frá í gær.
Í listaverka-gerðinni var unnið með gifs í dag. Hvert barn bleytti lítinn bút af gifsi og þegar hann hefur þornað verður hægt að mála á hann æðislegt listaverk. Þau hafa ekki setið aðgerðalaus og skapað ýmislegt annað. Sýning þeirra verður án efa fjölbreytileg og flott.
Íþróttahópurinn æfir grimmt og náðum við rétt svo að taka eina mynd áður en okkur var næstum fleygt út úr íþróttahúsinu, algjört hernaðarleyndarmál í gangi á hverjum stað greinilega.
Heimabökuð sandkaka og melónur voru í boði í kaffitímanum og rann vel niður. Ef þau vissu bara hvað verður í kaffinu á morgun .... (vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma!!!!)
Útisvæðið og íþróttahúsið voru í boði eftir kaffi og hluti barnanna fór á reiðnámskeið. Guðrún okkar Fjeldsted hefur séð um þessi námskeið fyrir okkur í nokkur ár og allt hennar starf er til fyrirmyndar. Börnin á reiðnámskeiðinu voru eitthvað smeyk við að missa af einhverju spennandi í sumarbúðunum á meðan en við pössum að hafa alltaf eitthvað sem verður síðan aftur á dagskrá svo þau geti verið með í því líka. Þau komu alsæl til baka rétt fyrir kvöldmat.
Kjúklingur, franskar, sósa og gular baunir voru í kvöldmatinn. Börnin voru MJÖG ánægð með það, ekki síður og í gær þegar pítsurnar voru. Þau voru flott klædd, enda hátíð í kvöld, eða diskótek! Boðsmiðar höfðu gengið á milli fyrr um daginn þannig að nokkrir komu paraðir á ballið, frekar skemmtilegt! Ekki er ætlast til þess að börnin hafi orku í að dansa út í eitt þannig að ef þau vildu hvíla sig frá tjúttinu bauðst þeim að fá tattú og bandfléttur í hár. Það var ekki óvinsælt ...
Svo kom kvöldkaffið og var boðið upp á safa og brauð.
Allir sofnuðu síðan sáttir og sælir og eflaust þreyttir eftir viðburðaríkan dag en ekki fyrr en þeir höfðu hlustað á kvöldsöguna góðu hjá umsjónarmanninum sínum.
Funheitar diskókveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
P.s. Fleiri myndir frá deginum eru komnar inn á www.sumarbudir.is,
bein leið hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t6-d3.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.