4.7.2009 | 02:14
Frábær fyrsti dagur í Ævintýralandi
Þá er nýr hópur hressra og skemmtilegra barna kominn í sumarbúðirnar. Þau sem voru keyrð hingað komu aðeins á undan rútunni og gátu komið sér fyrir.
Svo kom rútan, full af hressum börnum sem voru greinilega spennt að koma í sumarbúðir. Umsjónarmennirnir biðu eftir þeim en starfsmenn í rútu voru búnir að "merkja" þau, skrifa nafn þeirra á límmiða í mismunandi litum en litirnir tákna hópinn sem þau verða í allt tímabilið og hjá hvaða umsjónarmanni.
Höfrungarnir eru t.d. með rauða miða og Gummi er umsjónarmaður þeirra. Hafmeyjar eru bleikar og hafa Ingu Láru osfrv.
Börnin skoðuðu svæðið í fylgd umsjónarmannsins síns og komu sér svo fyrir inni á herbergjunum.
Fyrsta daginn fer alltaf fram kynning í íþróttahúsinu og þar er starfsfólkið kynnt og einnig námskeiðin sem þau geta valið að vera á allt tímabilið í tvo tíma á dag. Afrakstur námskeiðanna er svo sýndur á lokakvöldvökunni. Námskeiðin eru í grímugerð, leiklist, listaverkagerð, kvikmyndagerð, íþróttum og dansi og eftir kynninguna settust þau með umsjónarmanninum og völdu. Einnig völdu þau sér álegg á kvöldkaffibrauðið og safategund, t.d. epla- eða appelsínusafa, þegar það er í boði til skiptis við ávexti.
Í fyrsta kaffitímanum var boðið upp á skúffuköku og ávexti sem rann ljúflega niður. skúffukökur eru náttúrlega alltaf æði, hvað þá ávextir.
Svo var það útisvæðið, Spilaborg og íþróttahúsið sem börnin gátu valið um. Það var funheitt úti og börnunum fannst frábært að geta farið inn til að kæla sig, sest og lesið Syrpu, spilað pool, borðtennis, fótboltaspil eða jafnvel bingó, nóg er af skemmtilegum spilum. Úti eru leiktæki og laða trampólínin alltaf mikið að. Aðeins eitt barn fær að hoppa í einu og er það af öryggisástæðum, einnig eru öryggisnet utan um trampólínin. Mjög mörg börn kusu að leika sér í íþróttahúsinu sem er stórt og afar skemmtilegt að leika sér í.
Í kvöldmat var kjöt og spagettí, rosalega gott.
Eftir mat var útisvæðið vinsælt og einnig Spilaborg en sundlaugin heillaði flesta að ógleymdum notalega heita pottinum. Eftir allt of stuttan tíma var komið að kvöldkaffi.
Síðan var háttað og hófst fyrsti lestur framhaldssögunnar sem hver umsjónarmaður les fyrir hópinn sinn. Alltaf gott og róandi að láta lesa fyrir sig. Börnin dauðþreytt eftir sundið sofnuðu hvert af öðru og næturvörðurinn tók við.
Á morgun hefjast ný ævintýri og margt og mikið verður um að vera. Það verður m.a. hárgreiðslukeppni eftir kaffi og æsispennandi leikurinn Mörk óttans eftir kvöldmat. Allt um það í myndum og máli á sunnudaginn. Já, og svo verður pítsa í kvöldmatinn ...nammi namm.
Fleiri myndir frá deginum má finna hér:
http://www.sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t4-d1.html
Ævintýrakveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.