2.7.2009 | 23:11
Frábær lokadagur tímabils 3
Lokadagurinn leið ótrúlega hratt. Hann hófst að vanda á því að skella sér í morgunverðarhlaðborðið. Hafragrautur, ristað brauð, álegg, súrmjólk, seríós og kornfleks. Bara æði.
Þá voru það námskeiðin, þau haldin fyrir hádegi eins og á húllumhædeginum, og í þetta sinn voru engar myndatökur leyfðar. Verið var að leggja lokalokalokahöndina á allt því sjálf lokakvöldvakan var fram undan. Bara spennandi og leyndardómsfullt allt saman.
Í hádeginu var skyr og smurt brauð og þar á eftir síðasti hádegisfundurinn með umsjónarmönnunum en tímanum að mestu varið í pakka niður farangrinum. Sumir skruppu síðan í sturtu, aðrir í íþróttahúsið, útisvæðið eða léku sér í Spilaborg.
Í kaffinu var heimabökuð sandkaka og safaríkar melónur með.
Eftir kaffi var óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslatínslu og verðlaun í boði fyrir þá sem tóku þátt í að snyrta til í kringum húsið, sópa og tína upp rusl. Fjöldi bauð sig fram að vanda og innan tíðar var allt orðið ótrúlega snyrtilegt á svæðinu. Fjársjóðskassinn með ruslatínsluverðlaununum er alltaf skemmtilegur og frábært að fá að velja sér eitthvað flott úr honum.
Í kvöldmat voru hamborgarar, franskar, sósa og gos með. Vakti heldur betur lukku. Allir voru komnir í fínni fötin því stutt var í að hátíðin hæfist. Lokakvöldvakan þar sem afrakstur námskeiðanna yrði sýndur.
Fyrst var myndlistarsýningin og hún var stórglæsileg. Að þessu sinni var sýnd stuttmynd með krökkunum í listaverkagerð og má sjá myndina í færslunni hér á undan þessarri. Listaverkin sem börnin höfðu skapað voru fjölbreytt og mjög flott.
Grímugerðin sýndi spennandi látbragðsleikrit um fjölskyldu sem fór í dýragarð en þegar þangað var komið voru öll dýrin horfin. Trúðurinn var vitni að því þegar dýrin voru numin á brott og gat fengið fjölskylduna til að hjálpa sér að frelsa þau. Æðislegt leikrit og grímurnar vel gerðar og flottar. Börnin sömdu sjálf handritið og skipuðu í hlutverk og sama má segja um leiklist og kvikmyndagerð.
Leiklistin sýndi skemmtilegt ævintýraleikrit um börn sem höfðu lagt mikið á sig við að komast í skólaferðalag. Þau höfðu selt WC-pappír og fleira í fjáröflunarskyni. Þegar þau mættu að morgni ferðadagsins var kominn afleysingakennari sem þeim leist ekkert á. Hann byrjaði á því að vísa þeim í aðra átt en hann fór sjálfur, eða inn í skóginn. Þrír frábærir álfar hjálpuðu börnunum og í ljós kom að þessi svokallaði kennari var vondur seiðkarl. Allt endaði vel og allir urðu vinir.
Svo tók dansinn við en hann var hreint stórkostlegur. Stelpurnar stóðu sig rosalega vel og mikið var fagnað þegar þær voru búnar að sýna dansinn sem var saminn af þeim á námskeiðinu.
Lokakvöldvakan gekk mjög vel, það var eins og börnin hefðu æft sig mánuðum saman, svo frábær voru þau.
Þá tók starfsfólkið við að vanda og sýndi eitthvert hálfruglað en mjög fyndið leikrit þar sem hlutverkin voru frekar skrýtin. Dagbjört, dóttir Sigurjónu matráðskonu, dró úr hatti miða þar sem kom í ljós að hún átti að leika skó Öskubusku ... allt í þessum dúr.
Eftir kvöldkaffi og ísglaðning (ávexti og frostpinna) sýndi kvikmyndagerðin grín-drauga-hryllingsmyndina Rauða húsið sem var bæði fyndin og spennandi.
Svo var bara komið að því að hlusta á síðasta lestur framhaldssögunnar og fara svo að sofa. Allir voru mjög spenntir að fara heim morguninn eftir þrátt fyrir að það hefði verið gaman í sumarbúðunum. Okkur fannst vikan líða allt of hratt, börnin rétt nýkomin þá fara þau aftur.
Innilegar saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Fleiri myndir frá lokadeginum eru á www.sumarbudir.is.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk kærlega fyrir drenginn minn, það var virkilega sæll drengur sem að kom heim eftir vikudvöl hjá ykkur..... Reyndar ekki alsæll..... Því hann langaði að vera lengur Sagði að þetta hefði verið alveg geggjað og sjaldan skemmt sér jafn vel
Enn og aftur takk fyrir hann, held að það sé deginum ljósara að þessi verður í áskrift næstu árin
Bestu kveðjur úr mosó
Steinunn (mamma Arnórs Egils) (IP-tala skráð) 7.7.2009 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.