1.7.2009 | 20:22
Ævintýrabarkinn, sund, sæla og skúffukaka ...
Gærdagurinn var alveg frábær eins og hinir dagarnir hafa reyndar verið líka.
Eftir morgunverð lék sundlaugin aðalhlutverkið í veðurblíðunni og þurfti að tvískipta hópnum sem vildi fara í sund. Helmingur barnanna lék sér í íþróttahúsinu (í sama húsi) þar til kom að þeim og svo tók útisvæðið yfir hjá öllum, enda frábært að vera úti í góða veðrinu.
Sá hluti barnanna sem er á reiðnámskeiði fór í kertagerð fyrir hádegi en reiðnámskeiðsbörnin misstu af henni sl. sunnudag þegar þau riðu út í góða veðrinu.
Börnunum þótt gott að kæla sig niður inni á herbergjunum rétt fyrir hádegið, bera á sig "eftirsól", ganga frá sundfötunum og slaka á fyrir matinn.
Sumir lögðust upp í koju og lásu Syrpu en það eru ákaflega vinsælar bækur sem við eigum nokkurt magn af. Andrés Önd klikkar ekki. Í hádeginu var svo boðið upp á pasta með hvítlauksbollum, auðvitað heimabökuðum.
Hádegisfundirnir voru á sínum stað og endaði gott spjallið á því að farið var í leiki, hver hópur með sínum umsjónarmanni.
Síðan tóku námskeiðin við og keppst var við að gera sem mest því að það styttist óðum í lokakvöldvökuna þar sem afraksturinn verður sýndur.
Í kaffinu var dásamleg skúffukaka og einnig tekex með smjöri og heimalöguðu marmelaði en það síðarnefnda hefur alveg slegið í gegn. Skúffukakan auðvitað líka, hún er sígild.
Eftir kaffið var útisvæðið opið, einnig íþróttahúsið og Spilaborg. Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin sín og skiptu um föt þar sem Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin átti að fara fram um kvöldið.
Fiskur, hrísgrjón og ævintýrasósa (gómsæt karrísósa a la Kristrún) og tómatsósa fyrir þá sem vildu, var í kvöldmatinn og börnin tóku hraustlega til matar síns. Það kemur alveg fyrir að einhverjir, örfáir þó, fúlsi við fiski en þá fá þeir bara eitthvað annað gott, jafnvel hrísgrjónagraut, brauð og slíkt. Enginn píndur til að borða það sem hann vill ekki.
Svo hófst Ævintýrabarkinn og voru þátttakendur hressir í bragði þegar þeir stigu á stokk, sungu, dönsuðu eða sögðu jafnvel brandara. Þeir sem skemmtu án þess að syngja voru: Alexandra Kristín, Aníta, Camilla Hrund, Ingvar, Katítas Etna og Þórdís Ásta.
Söngvarar voru: Ágústa Eir Vigfúsdóttir, Arína Vala Þórðardóttir, Árný Eva Sigurjónsdóttir, Birta Hlín Jóhannesdóttir, Glóey Jónsdóttir, Inga Kristrún Hjartardóttir, Jóhanna Kolbrún Guðbrandsdóttir, Lilja Mist Sigurjónsdóttir, Margrét Júlía Ingimarsdóttir og Sædís Lilja Ísaksdóttir.
Í 1. sæti varð Arína Vala Þórðardóttir en hún söng lagið Dancing. Margrét Júlía Ingimarsdóttir varð í 2. sæti með lagið Þú fullkomnar mig. Í þriðja sæti urðu þær Árný Eva Sigurjónsdóttir sem söng Vögguvísu úr Dýrunum í Hálsaskógi og Jóhanna Kolbrún Guðbrandsdóttir sem söng Ég sjálf.
Óvæntur gestur mætti og tróð upp. Hann heitir Hrafn Ingi og er fjögurra ára ofurtöffari. Hann söng Vinalagið.
Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjal og þeir sem lentu í efstu þremur sætunum fengu verðlaun. Tvær stelpur fengu jafnmörg stig í þriðja sætið, eins og sést hér að ofan.
Í kvöldkaffi var smurt brauð og safi. Allir sofnuðu sáttir og glaðir eftir næstsíðasta lestur kvöldsögunnar sem umsjónarmennirnir lásu fyrir hópinn sinn, og hlökkuðu til ævintýra næsta dags, lokadagsins sjálfs. Spennandi lokakvöldvakan, hátíðarkvöldverðurinn ... pakka niður og hlakka til að koma heim á fimmtudaginn.
Myndir frá deginum eru komnar inn á www.sumarbudir.is, endilega kíkið.
Söng-, hæfileika- og stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum úr veðurblíðunni sem hér ríkir.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.