30.6.2009 | 13:42
Húllumhædagur í veðurblíðunni
Dagarnir í Ævintýralandi eru ekkert venjulegir. Dagurinn í gær hét t.d. Húllumhædagur og var stöðugt húllumhæ eftir hádegið.
Eftir morgunverð var haldið á námskeiðin en venjulega eru þau kl. 14-16 á daginn. Hirðljósmyndari Ævintýralands kíkti á námskeiðin sem voru í fullum gangi.
Listaverkagerðin, vinsælasta námskeiðið þessa vikuna, var á fullu og það eru greinilega stórkostleg listaverk í smíðum sem verða síðan sýnd á sérstakri listsýningu sem haldin er síðasta kvöldið.
Kvikmyndagerðin var á milljón í tökum en við náðum í skottið á krökkunum þar sem þau voru í biðstöðu ... Mikil bið getur fylgt kvikmyndagerð, eins og allar kvikmyndastjörnur þekkja en aldrei of löng í Ævintýralandi. Mikið verður gaman að sjá stuttmyndina þeirra. Mikil leynd hvílir yfir henni en það er bara alltaf þannig, það á að koma á óvart á lokakvöldvökunni.
Grímugerðin æfir líka stíft en nú er búið að klára og mála allar grímurnar. Börnin þar þurfa líka búninga en búningasafn Ævintýralands er stórkostlegt. Kápur, kjólar, jakkar, hárkollur og allt kyns leikmunir leynast þar, eitthvað sem mömmur okkar hafa gefið okkur og við safnað úr ýmsum áttum í gegnum árin. Grímugerð hefur sér búningasafn og leiklistin annað, einnig kvikmyndagerðin.
Leiklistin æfir af kappi fyrir leikritið sem börnin sömdu á fyrstu dögunum og búningar eru stór hluti af því, eins og allir leikarar þekkja. Allt er eins og í alvöruleikhúsi, nema kannski ekki förðun. Leynd hvílir yfir leikritinu, eins og hjá kvikmyndagerð og grímugerð en handritin hjá þessum elskum eru öll samin af börnunum, afsakið, snillingunum.
Dansinn er í góðum gír. Stelpurnar semja dansinn sjálfar með hjálp Pollýjar og þjálfa sig stíft fyrir lokakvöldið, bæta kannski við flottum sporum og hreyfingum jafnóðum. Mikil gleði og sköpun ríkir hjá stelpunum en ekkert skortir á einbeitinguna sem er sko galdurinn við allt.
Eftir grjónagraut og melónur var hádegisfundur hvers hóps með umsjónarmanni sínum og síðan var Húllumhædagurinn settur með látum, gjallarhorni og allt. Starfsfólkið klæddi sig í skrautlega búninga og sannkölluð hátíðarstemmning ríkti á svæðinu.
Byrjað var á því að fara í fánaleikinn skemmtilega. Þar áttust við liðin Draumur og Martröð. Draumverjar voru stríðsmálaðir í framan með brúnni málningu á meðan Martraðarliðið fékk gula málningu. Allir voru í það minnsta ógurlega vígalegir þegar haldið var á völlinn. Barist var um klemmur að vanda en margir þekkja þennan frábæra leik sem nýtur mikilla vinsælda hjá börnunum. En, eins og með annað hjá okkur, þá var ekki skipun um að allir tækju þátt, hér er val og það er svo gaman. Heilmargt er alltaf í boði við allra hæfi. Martrð sigraði eftir æsispennandi keppni.
Veðrið var ofboðslega gott og útisvæðið vinsælt. Boðið var upp á tattú og bandfléttur en það er gert nokkrum sinnum á tímabilinu til að allir sem vilja fái. Einnig var andlitsmálun í boði í stíl við daginn og rosalega var gaman að sjá hópinn svona einstaklega litríkan.
Svo var bara komið kaffi og mætti börnunum ilmandi vöfflulykt þegar þau komu inn í matsal. Hér er boðið upp á vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma en líka sultu fyrir þau sem vilja. Sannkallaðar ævintýravöfflur sem voru borðaðar upp til agna, enda alltaf hægt að fá meira.
Meira skemmtilegt beið eftir kaffið. Skartgripagerð, vinabandagerð, tattú, keilukeppni, bandfléttur og útisvæðið vinsæla þar sem alltaf er eitthvað um að vera. Einnig mætti spákonan leyndardómsfulla, Jósefína Potter frá Borgarnesi. Börnin spurðu hana einnar spurningar sem hún svaraði samviskusamlega. Að vanda voru það ekki orð hennar um frækna framtíð sem vöktu mesta forvitnina, heldur hver starfsmannanna þetta væri í búningnum. Giskað var á marga starfsmenn en þeir höfðu allir "fjarvistarsönnun" ... sögðu þeir. Voru að gera tattú, bandfléttur, halda utan um skartgripagerð og slíkt. Þetta var allt hið dularfyllsta mál ...
Grillaðar pylsur með öllu vöktu lukku í kvöldmatnum og síðan var bíókvöld þar sem í hléinu var boðið upp á poppkorn og Svala.
Einstaklega heitar kveðjur úr bongóblíðunni og fjörinu í Borgarfirðinum.
Nýjar myndir af ævintýrum dagsins eru komnar inn á heimasíðuna, tímabil 3, dagur 4. www.sumarbudir.is
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábær síða og frábært að geta fylgst svona vel með, langar bara að koma sjálf og vera með
Er ég nokkuð of gömul til þess
Bestu kveðjur. Steinunn
Steinunn (mamma Arnórs Egils) (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 18:06
Já sammála... frábært að geta fylgst með því sem er í gangi. Þið eruð að standa ykkur mjög vel.
Bið kærlega að heilsa stelpunni minni :) kær kveðja María
María Una (mamma Kristínar Unu) (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.