29.6.2009 | 18:54
Molluhiti, leikrit, diskó og frábær kvöldverður
Útisvæðið var opið og þar fór m.a. fram spennandi sippkeppni. Einnig var hægt að velja um að fara í sundlaugina og íþróttahúsið og karaókíæfing var haldin fyrir þá sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum annað kvöld.
Sigurvegarar sippkeppninnar:
1. sæti Ástrós Lind
2. sæti Arína Vala
3. sæti Birgitta Ösp
Í hádeginu var boðið upp á gómsæta kakósúpu með tvíbökum og ávextir voru í eftirrétt.
Eftir matinn var hádegisfundur að vanda en svo hófst leikrit sem starfsfólkið sá um. Forvarnaleikrit alveg ógurlega fyndið og skemmtilegt þótt undirtónninn sé alvarlegur.
Pollý (dans) lék stelpu sem var útilokuð frá hinum börnunum á skólalóðinni og lögð í einelti. Hún var ráðalaus og leið mjög illa. Hún var svo heppin að rekast á góðuráðavélina Ping og Pong í gönguferð og þeir félagar (vélin) gáfu henni frábær ráð sem virkuðu svona líka vel og voru sýnd.
Sing og Song (sömu leikarar, Davíð og Gummi), voru mjög sniðugir en þeir léku "raddir" í höfði Pollýjar og ráðlögðu henni, annar var voða vitlaus en hinn var rödd skynseminnar. Þegar ókunnur maður á bíl bað Pollýju um að koma upp í bílinn til sín til að hjálpa honum með sæta hvolpa sagði önnur röddin að maður ætti alltaf að fara upp í bíl með ókunnugum en sú skynsama, sem Pollý hlustaði sem betur fer á, sagði henni að það ætti aldrei að gera, aldrei. Krökkunum fannst vitlausa röddin hrikalega fyndin þannig að þau eru greinilega vel upplýst í sambandi við þessa hluti.
Þá voru það bara elsku námskeiðin en nú er t.d. búið að mála grímurnar í grímugerðinni, semja handritið í kvikmyndagerð og leiklist (og ákveða grímugerðarsýninguna) og semja dans sem verið er að æfa á fullu. Mikið verður gaman á lokakvöldvökunni að sjá þessa ungu snillinga sýna hvað í þeim býr.
Í kaffinu voru sandkaka og melónur og síðan var aldeilis nóg við að vera: Reiðnámskeið, kertagerð, íþróttahús, Spilaborg og útisvæðið. Í kertagerðinni geta börnin valið um að mála skel eða stein en í skelina fer kertavax og kveikur. Á steininn fer sprittkerti. Það verður gaman að koma heim með þessi listaverk og sýna fjölskyldunni.
Svo var náttúrlega enn ein stórmáltíðin um kvöldið, eða kjúklingar, franskar, sósa og maísbaunir. Börnin borðuðu ekki, þau skófluðu í sig matnum. Hirðmatreiðslufólki okkar finnst alltaf jafngaman að heyra fagnaðarhljóðin í þeim þegar þau sjá hvað er í matinn. Svo er ekki verra að það má alltaf fá meira ... og meira. Stóra reglan í matsalnum er sú að allir verði saddir. Ef barn borðar ekki það sem er á boðstólum fær það eitthvað annað, enginn píndur til að borða það sem honum finnst ekki gott, auðvitað ekki, þetta eru sumarbúðir og öllum á að líða vel, líka í matsalnum.
Eftir mat var komið að DISKÓTEKI. Salurinn sem virkaði vel sem draugaherbergi var nú allur skreyttur, tónlist hljómaði, reykvélin var ræst og ljósin deyfð og dansað var og tjúttað. Þegar börnunum lá við örmögnun var hægt að fara fram og fá bandfléttu í hárið eða tattú. Sem betur fer kom smá rigning í gærkvöldi sem þýddi að hægt var að kæla sig almennilega.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á brauð og safa. Einnig fóru fram verðlaunaafhendingar og viðurkenningar voru afhentar.
Sigurvegararnir í Mörkum óttans, Krossfiskarnir, fengu viðurkenningar og verðlaun.
Í Krossfiskum eru hinar knáu: Ágústa Eir, Alma Maggey, Arína Vala, Birta Hlín, Brynhildur Júlía, Gígja, Karítas Etna, Kristjana Ýr og Sædís Lilja.
Fjöldi mynda er kominn á heimasíðuna, sumarbudir.is, en til að komast beint inn á myndir gærdagsins, kertagerð, forvarnaleikrit, diskó og fleira, þá er hægt að ýta á hlekkinn f. neðan:
http://www.sumarbudir.is/sumarbudir/2009-t3-d3.html
Sendum hitabylgju- og stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.