28.6.2009 | 01:10
Mörk óttans og fleiri ævintýri í Ævintýralandi
Fyrsti morguninn rann upp bjartur og fagur og umsjónarmennirnir vöktu hópana sína. Nokkrir voru reyndar vaknaðir og spjölluðu við næturvörðinn. Morgunverðarhlaðborðið beið, já, þetta er eins og á lúxushóteli ... og hægt að velja um m.a. súrmjólk, hafragraut, kornfleks, ristað brauð ... eða eitthvað af öllu.
Eftir morgunverðinn var margt í boði, eins og íþrótthúsið, útisvæðið, sund, föndur og svo var haldin fyrsta karaókíæfingin, eða æfing fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann, sem fer fram fljótlega.
Í hádeginu var gómsæt núðlusúpa, ásamt smurðu brauði með eggjum, kæfu og fleira. Þetta rann niður í glorhungraðan mannskapinn eins og enginn hefði verið morgunverðurinn ...
Þá tóku námskeiðin við alveg fram að kaffi þar sem boðið var upp á sandköku, að sjálfsögðu heimabakaða, og tekex með heimalöguðu marmelaði. Ekki að spyrja að hirðkokkunum okkar í Ævintýralandi.
Eftir kaffið hófst svo hin æsispennandi vikulega hárgreiðslukeppni sem stelpurnar vilja svo miklu frekar en strákarnir taka þátt í. Það hefur líklega meira með hártískuna að gera en misrétti, ha ha ha.Snöggklipptir strákarnir höfðu sko engan áhuga en þeir skemmtu sér bara konunglega á útisvæðinu eða í Spilaborg þar sem einnig voru stelpur sem tóku ekki heldur þátt.
Úrslitin í hárgreiðslukeppninni: 1. sæti: Sigurveig - Marólína Fanney greiddi, 2. sæti: Sædís Lilja - Kristjana Ýr greiddi. 3. sæti: Ástrós Lind - Ásta Sóley greiddi. Frumlegasta hárgreiðslan: Jóhanna Kolbrún - Margrét Júlía greiddi. Krúttlegasta hárgreiðslan: Rakel Hlyns - Rakel Kristjáns greiddi.
Svo eftir verðlaunaafhendinguna (allar fengu viðurkenningarskjöl) fóru hárgreiðsluprinsessurnar út eða í Spilaborg og rétt fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin sín og settu á sig aftersun, eftirsól.
Kvöldmaturinn vakti enga smá lukku en pítsa var í matinn, eða öllu heldur pítsur ... og fjöldinn allur af þeim.
Þá var það spennandi, æsilegi og frábæri leikurinn Mörk óttans sem fram fór í íþróttahúsinu, úti og inni í matsal.
Byrjað var á skemmtilegum leik, svokölluðum skottaleik þar sem allir reyndu að ná skottinu (klippur úr svörtum ruslapokum) af öllum og gæta þess í leiðinni að enginn næði þeirra eigin skotti.
Þá var það spurningakeppni. Skipt var í lið með nokkrum börnum úr hverjum hópi. Lesnar voru upp nokkrar spurningar og gefnir fjórir svarmöguleikar, A, B, C og D. Þá réttu hóparnir, allir í einu, upp spjaldið með því svari sem þeir töldu vera rétt.
Síðan kom að næsterfiðustu þrautinni, að drekka ógeðsdrykk. Tvö börn úr hverjum hópi höfðu boðið sig fram (Hóparnir heita Gullfiskar, Krossfiskar, Höfrungar o.s.frv.) í þetta hetjuhlutverk og nú var um að gera að standa sig. Einhverjum viðbjóði hafði eldhúsið blandað saman, súrmjólk, sinnepi og slíku sem er kannski gott eitt og sér en blandast ekki mjög vel saman. Svo af því að þetta heitir ógeðsdrykkur þá búa börnin sig undir það versta!
Þá var það bara síðasta og erfiðasta þrautin. Enn og aftur höfðu tvö börn úr hverjum hópi boðið sig fram í hana - DRAUGAHERBERGIÐ ógurlega. Verkefni þeirra var að þjóta inn í dimmt, reykfyllt (já, við erum með reykvél) herbergi þar sem mjög svo draugaleg tónlist hljómaði, komast með hjálp Davíðs umsjónarmanns alla leið út í horn þar sem vatnsfata með slímugu vatni stóð á borði. Sækja stein í þessa fötu, afhenda hann Davíð og komast svo út frá draugunum sem hreyfðu sig draugalega þarna inni ... Það skal tekið fram að börnin sem koma þarna inn sjá eiginlega ekki draugana þar sem svo dimmt er inni í herberginu. Flassið á myndavélinni gerði allt svo bjart! :)
Gummi, elsku umsjónarmaðurinn sem spilar á gítar eins og engill, lék aðaldrauginn og sá var nú svakalegur. Í búningi og með grímu. Það skríkti í heldur betur í krökkunum og sumir öskruðu af spenningi á meðan þessi þraut var leyst. Það þurfti að gera þetta hratt til að fá stig, engin mínusstig voru fyrir að öskra. Þegar þessu var lokið komu draugarnir fram í matsalinn, en draugaherbergið er dansherbergið á daginn og er rétt við matsalinn. Þeir tóku af sér grímurnar og allir hlógu kátt. Þessi hetjubörn sögðust sko ekki hafa verið hrædd.
Sigurvegarar í Mörkum óttans voru Krossfiskar. Hafmeyjar í öðru sæti og Gullfiskar í því þriðja.
Börnin fengu ávexti í kvöldkaffinu og sofnuðu hratt og vært eftir ævintýraríkan dag.
Svo halda bara ævintýrin áfram ... Sjá má fleiri myndir inni á heimasíðunni okkar, www.sumarbudir.is, endilega kíkið. Tímabil 3, dagur 2.
Stuð- og "drauga"kveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.7.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 91194
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Skemmtilegar myndir frá ævintýralegum degi! Gaman að geta fylgst með. Tveir litlir peyjar urðu frekar spenntir fyrir Ævintýralandi eftir myndaskoðunina : ) Kær kveðja Hjördís mamma Margrétar Júlíu, Georg Rúnar bróðir Margrétar Júlíu og Ísak Elí systursonur heimasætunnar
Hjördís Inga Arnarsdóttir, 28.6.2009 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.