22.6.2009 | 19:35
Undarlegar auglýsingar, kertagerð, leikrit, kjúlli og DISKÓ!


Eftir morgunverð var sitt af hverju í boði að vanda:
Kertagerð (hann er að mála skelina sem kertavaxið fer síðan í), íþróttahúsið (þar sem brjálaður tarsanleikur var í gangi) og karaókíæfing fyrir þá sem ætla að taka þátt í hinni virðulegu hæfileikakeppni Ævintýrabarkanum. Útisvæðið var líka opið og þar fór fram spennandi sippukeppni. Hlutskarpastar urðu: 1. sæti: Eva Rós - 2. sæti: Elvý Rut og 3. sæti: Sara Dís.
- --- - --- - ---- ----- - ----- -----
Undarlegar auglýsingar, eiginlega stórlega furðulega dularfullar, hafa hangið uppi um allt í sumarbúðunum síðan í gær þar sem kvikmyndagerðarhópurinn segir að engin bíófrumsýning verði eftir 4 daga (3 núna) þar sem enginn í hópnum hafi fengið nógu góða hugmynd að kvikmynd. Hummmm. Börnin eru afar dularfull og engin leið að fá neitt upp úr þeim, þau segjast bara vera algjörlega hugmyndasnauð ... og það í fyrsta skipti í sögu sumarbúðanna sem hófu göngu sína á síðustu öld! Svona er lífið, segja þau. Einhver sagði að þetta hlyti að vera öfug markaðsherferð en hún er a.m.k. mjög öflug þar sem hún hefur vakið mikla athygli. (Myndirnar stækka ef ýtt er á þær með bendlinum.)
Virkilega gómsæt kakósúpa var í hádegismat og tvíbökur út í, eins og vera ber. Einnig ávextir. Síðan var haldið á hádegisfundi með umsjónarmönnunum. Eftir gott spjall og leiki var haldið út í íþróttahús þar sem hluti starfsmanna lék leikrit fyrir börnin ... forvarnaleikrit sem var bæði fyndið og fræðandi.
Tekið var m.a. á einelti, skorti á sjálfstrausti og hvað skal til bragðs taka ef maður býr yfir erfiðu leyndarmáli. Ping og Pong eru snilldarfígúrur, eiginlega bara vél sem lumar á góðum ráðum, jamm, svona góðuráðavél. Gummi og Davíð sýndu flotta takta sem Ping og Pong þegar þeir gáfu Ósk góð ráð í leikritinu en svo léku þeir líka Sing og Song, raddirnar sem berjast í höfðinu á okkur. Þegar skrýtinn karl (Geir) kom keyrandi og bað Ósk (sem lék barn) um að hjálpa sér með sæta hvolpa sem hann var með í bílnum sagði Sing að hún ætti alls ekki og aldrei að fara upp í bílinn með ókunnugum manni. Song sagði henni að auðvitað færi maður ALLTAF upp í bíl hjá ókunnugum ... þá trylltist salurinn af hlátri, börnin voru greinilega með allt á hreinu í þessum málum en samt gott að minna á!
Þá var haldið á námskeiðin góðu fram að kaffi. Kvikmyndagerðarhópurinn (t.v.) fundaði stíft í bláa salnum, Framtíðinni, sumir úr hópnum voru í búningi sem er stórundarlegt miðað við auglýsingarnar frá þeim.
Leiklistin (t.h.) er búin að semja handrit og fyrsta búningamátun fór fram, enda skemmtilegra að æfa leikrit í fullum skrúða. Þetta verður örugglega stórskemmtilegt leikrit, mikið var hlegið og börnin gáfu sér varla tíma til að stilla sér upp fyrir myndatökuna.
Danshópurinn (t.h.) semur nú dans á fullu og voru stífar æfingar í gangi þegar sérlegur hirðljósmyndari Ævintýralands átti leið um. Á lokakvöldvökunni sýna börnin afrakstur námskeiðanna og alltaf mikil tilhlökkun í gangi hjá börnunum, bæði að sýna sjálf og sjá sýningar hinna.
Grímugerðarhópurinn málaði grímurnar sínar í gær en gifsið var orðið þurrt. Grímurnar eru mótaðar á andlitum barnanna, að sjálfsögðu er plast haft á milli ...
Börnin í listaverkagerð máluðu á fyrrum pappakassa sem búið var að klippa gat á fyrir höfuðið. Einn gutti, tæplega 7 ára, ætlar að gera faraó og teiknaði hann fyrst á lítið blað ... hinum börnunum til mikillar hrifningar, enda afar vel unnið af svona ungu barni ... svo verða blóm og margt, margt fleira.
Í kaffinu var heimabökuð kaka (allar kökur eru heimabakaðar hjá okkur), tekex með heimalöguðu marmelaði og svo ávextir (ábyggilega handtíndir ...)
Eftir kaffi var Spilaborg opin (leikir, spil, bækur, borðtennis og fleira), einnig íþróttahúsið og útisvæðið. Klukkutíma fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin sín og skiptu um föt þar sem diskótek var eftir kvöldmat. Já, DISKÓTEK! Í kvöldmatinn var boðið upp á kjúkling, franskar og sósu. Börnin borðuðu sko á sig gat eins og venjulega og einn brá á leik með frönskurnar ...
Mikið var dansað, tjúttað og sungið á diskóinu. Alltaf er gott að geta slakað á eftir dansinn og þá var hægt að fá tattú og bandfléttur í hárið. Spilaborg var einnig opin og hægt að púsla eða annað til að róa sig aðeins niður.
Hægt var að fá stórglæsileg tattú hjá umsjónarmönnunum sem hafa margra ára þjálfun í tattúgerð og einnig var vinsælt (hjá stelpunum) að fá flotta bandfléttu í hárið. Þar er líka hægt að tala um margra ára æfingu og það var mikið fléttað ... og mikið húðflúrað. Til að allir fái þá var líka boðið upp á þetta í dag á húllumhædeginum (meira um hann á morgun).
Bent skal á að tattúið þvæst af en bandfléttan verður til eilífðar ... hehehe, smágrín.
Gert var opinbert hverjir sigruðu í Mörkum óttans. Það voru Flugfiskar (eins og kom fram á blogginu í gær) og hér koma nöfnin á fljúgandi fiskunum: Andrea Lind, Aníta Lára, Birgitta Ösp, Díana María, Ellen, Emilía María, Harpa Lind, Hekla, Magnea Marín, Sóley Rún, Tinna Ýr og Viktoría Sól. Til hamingju, frábæru stelpur!
Kátar kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.7.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 91194
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið er gaman að geta lesið og fylgst með því sem þið eruð að gera. Greinilega frábært starf hjá ykkur! kær kveðja Ragnhildur
Ragnhildur Snæfríðar mamma (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 23:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.