20.6.2009 | 21:28
Fyrsti dagurinn - námskeiðin, súkkulaðikaka, sund og fleira
Annar hópur sumarsins mætti í gær. Rútan kom á mínútunni tvö, full af skemmtilegum og yndislegum börnum. Nokkur börn voru þegar komin, þessum sem var skutlað hingað.
Umsjónarmenn biðu hver eftir sínum hópi en börnunum er skipt í aldursskipta hópa; í Gullfiska, Hafmeyjar, Höfrunga, Kópa, Flugfiska, Sæljón og Krossfiska.
Börnin settu farangurinn inn á herbergin og fóru svo í skoðunarferð um svæðið með hópnum sínum. Allt sýnt - hvar matsalurinn er - hvers vegna bara einn má hoppa á trampólíninu í einu, það eru reyndar tvö trampólín í gangi og tímavörður passar upp á.
Eftir að börnin komu sér fyrir var haldið í kaffi. Súkkulaðikaka og ávextir sem féll sko vel í kramið! Síðan hittust allir í íþróttahúsinu. Starfsfólkið kynnti sig og einnig voru námskeiðin kynnt sem börnin geta valið um í kvikmyndagerð, leiklist, grímugerð, íþróttaævintýri, myndlist og dansi. Í tvo tíma á dag næstu dagana verða börnin á fullu í námskeiðunum og síðan verður frábær lokakvöldvaka síðasta kvöldið þar sem afraksturinn verður sýndur.
Hver hópur með umsjónarmanni sínum fór og valdi sér námskeið, einnig álegg á brauð og hvernig safa þau vilja í kvöldkaffinu. Fóru síðan á útisvæðið og léku sér. Nokkrir fóru í gönguferð um fallegt svæðið hér í kring.
Kvöldmaturinn var æði, kjöt og spagettí! Síðan var haldið í sund. Í kvöldkaffinu var boðið upp á epli, banana og appelsínur fyrir glorhungruð börnin sem þó borðuðu eins og herforingjar í kvöldmatnum, eða eiginlega ROSALEGA mikið, Sigurjónu ráðskonu til mikillar gleði.
Eftir kvöldkaffi las umsjónarmaður hvers hóps framhaldssöguna og allir sofnuðu rótt og vel.
Endilega kíkið á heimasíðuna, www.sumarbudir.is, tímabil 2 - dagur 1, til að sjá heilan helling af myndum frá fyrsta deginum.
Mikið hefur verið myndað í dag, hádegisfundirnir með umsjónarmönnum, matsalurinn í hádeginu og hárgreiðslukeppnin og svo Mörk óttans í kvöld, æsispennandi leikur ... úúúúú ... Sjaldan verið meira spennandi! Ógeðsdrykkur, draugaherbergi ... allt um það á morgun.
P.s. Einhver bilun hefur verið á netsambandi hjá okkur og gekk illa að blogga í dag, við biðjumst velvirðingar á því en hér kemur loksins fyrsta færsla tímabils 2, dags 1.
Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum þótt sólin hafi svo sem ekki sýnt sig mikið í dag.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.7.): 3
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 91194
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.