26.7.2008 | 16:54
Húllumhæ I - myndir frá námskeiðum og vinabandagerð
Frábærar myndir eru komnar inn, m.a. síðan í gærkvöldi en þá voru krakkarnir að gera vinabönd á náttfötunum inni á herbergjum.
Þetta sló reyndar öllu meira í gegn hjá stelpunum, held samt að þeir hafi ekki búið til óvinabönd ...
Dagurinn í dag, húllumhædagurinn, hófst á námskeiðunum og fór sumarbúðastjórinn um allt og tók myndir af hópunum.
Grímugerðarhópurinn byrjaði að mála grímurnar sínar í morgun og þær eru rosalega flottar.
Hugmyndaflugið hjá börnunum er stórkostlegt og sannir listamenn þarna á ferð.
Börn búa yfir svo mikilli sköpunargleði og þau hafa sannarlega blómstrað núna undanfarið og sýnt hvað í þeim býr. Einbeitingin leynir sér ekki í svip þeirra, eins og sést á myndunum. Gríman hægra megin er mjög frumleg og gaman að vita hvaða hlutverk skapari hennar mun leika í leikritinu. Það kemur allt í ljós á mánudagskvöldið.
Kvikmyndagerðin er búin að semja handrit að stuttmyndinni og tökur eru hafnar.
Okkur heyrðist, þótt laumulega væri farið með handritið, enda algjört leyndarmál, að það kæmu þar m.a. rassálfar fram.
Þau eru búin að velja sér búninga og eru frekar vígaleg í þeim eins og sjá má á myndinni hérna hægra megin. Stuttmyndir Ævintýralands eru hver annarri flottari og skemmtilegri og bera sköpunargáfu krakkanna sterk merki. Kannski tekst okkur einhvern daginn að skella þeim inn á bloggið svo aðrir fái notið þeirra. Hver veit!
Grímugerð og leiklist sameinuðust í einu leikriti og eru búin að leggja síðustu hönd á handrit leikritsins, búið er að skipa í hlutverk og velja búninga og fyrstu æfingar hefjast á morgun, sunnudag.
Íþróttahópurinn er að búa til mjög flott atriði sem verður sýnt á lokakvöldvökunni og ríkir mikill spenningur í hópnum. Dansinn dunar hjá danshópnum og verður sýningin þeirra án efa stórkostleg. Mynd af íþróttahópnum er vitanlega tekin í markinu og danshópurinn tók sér smáhlé frá æfingum og stillti sér upp í dansstúdíóinu! Með því að setja bendilinn á myndirnar sést myndatextinn.
Myndlistarhópurinn vann í dag með náttúruleg efni og verður æsispennandi að sjá hvað kemur út úr því, betur sést á myndunum hvað um er að ræða. Haldin verður myndlistarsýning í upphafi lokakvöldvökunnar.
Eftir hádegismatinn (Grjónagraut og melónur í eftirmat) var húllumhædagurinn settur. Myndir frá honum koma í kvöld. En kókosbolluboðhlaupið verður fyrst á dagskrá og síðan fánaleikurinn fjörugi.
Í kaffinu glöddust mörg hjörtu ósegjanlega mikið þegar ilmandi vöfflulykt tók á móti þeim í matsalnum. Jú, jú, nýbakaðar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma biðu þeirra í himinháum stöflum. Vöfflurnar hennar Sigurjónu glatt þúsundir barna í sumarbúðunum í gegnum árin. Ef maður hefur einu sinni smakkað vöfflur með súkkulaði og rjóma er erfitt að snúa til baka ... eða þannig. Þetta er svona sambland af bolludeginum og jólunum ... ja, eða bara ólýsanlegt.
Veðrið er frábært, sól og hiti ... en svolítið rok. Við vonum að það fari að lægja núna seinnipartinn en ef ekki þá fá börnin bara að ráða ... ef þau vilja vera inni þá flytjum við dagskrána þangað og verður margt í boði, m.a. skartgripagerð, spákonutjald, tattú, bandfléttur, Spilaborg og sitt af hverju. Það er líka leiðinlegt ef allt fýkur út um allt.
Fyrstu myndir frá degi 4 eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Myndir af námskeiðunum síðan í morgun og frá vinabandagerðinni í gærkvöldi. Myndirnar á blogginu stækka ef klikkað er á þær með músinni og einnig á heimasíðunni.
Sólskins-hita-og rok-kveðjur frá Kleppjárnsreykjum
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 16:57 | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.