26.7.2008 | 02:26
Dillandi diskó á degi 3
Í dag, föstudag, var veðrið gjörsamlega dásamlegt, sól og hiti. Þau börn sem ekki fóru á reiðnámskeið eða á karaókíæfingu í morgun skelltu sér í sund, einnig var boðið upp á gönguferð og sippukeppni á útisvæðinu ...
Námskeiðin voru að vanda eftir hádegismatinn (kakósúpu, tvíbökur og ávexti). En eftir kaffi var börnunum boðið á leiksýningu. Starfsfólkið lék skemmtilegt leikrit með alvarlegum undirtóni. Það tekur m.a. á einelti og sýnir hvað gott er að tala um hlutina, ekki byrgja þá inni. Krökkunum fannst góðuráðavélin með þau Ping og Pong innbyrðis alveg frábær og fyndin, svona á milli alvarlegri atriðanna.
Síðan var sund, karaókíæfing, útisvæði og kertagerð og klukkutíma fyrir mat fóru þau í herbergin ... stórviðburður var fram undan, eða diskótek og þau þurftu að klæða sig í flott föt, sjálfan diskógallann.
Í kvöldmat var kjúklingur, franskar, kokkteilsósa og gular baunir, heldur betur vinsælt og svo var haldið á diskóið þar sem var brjálað fjör. Reykvélin var pumpuð aðeins of mikið og brunavarnarkerfið fór í gang. Þótt við vissum ástæðuna fyrir ýlinu rýmdum við húsið á innan við einni mínútu en svo hélt fjörið áfram. Einnig var boðið upp á bandfléttur og tattú og síðan var útisvæðið opnað og einnig Spilaborg.
Það voru þreyttir diskókrakkar sem lögðust til svefns og sum sofnuðu hreinlega á meðan framahaldssögurnar voru lesnar. Umsjónarmenn buðu góða nótt og næturverðir tóku við. Þriðji dagurinn á enda runninn og svona líka skemmtilegur!
Gleymdi að geta þess í síðustu færslu að hringurinn sem börnin mynduðu á leiksvæðinu og sést á mynd þar er þannig tilkominn að þau leiddust öll frá túninu (þar sem ógeðsdrykkurinn í Mörkum óttans var drukkinn af hetju úr hverjum hópi) og svo var engin leið að hætta, búnir til hringir og dansað og leikið sér um svæðið.
Á morgun, laugardag, verður húllumhædagur og þá verður mikið fjör. Námskeiðin verða að þessu sinni fyrir hádegi. Hinn vinsæli fánaleikur (sem heitir reyndar aldrei neitt annað en hermannaleikur hjá krökkunum) skellur á strax eftir hádegismatinn (grjónagraut og melónur á eftir). Margt, margt verður í boði, enda mun ríkja 17. júní-stemmning, og meira að segja mætir virðuleg spákerling úr Borgarnesi, frú Jósefína Potter. Hún hefur mætt hvern laugardag í sumar ... og það er alveg merkilegt með börnin, þau eru ekkert rosalega spennt að vita hvað hún segir, þau langar bara að vita hver af starfsmönnunum er í þessum dularfulla búningi! Hnuss, auðvitað dettur okkur ekki í hug að plata blessuð börnin og dulbúa starfsmann ... sussumsvei!
Um kvöldið verður síðan vídjókvöld, líklega tvær myndir í boði og svo popp og safi í hléinu. Bara æði!
Myndir frá degi 3, ásamt reiðnámskeiðinu á degi 2, eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Myndirnar stækka ef klikkað er á þær.
Sólskins- og diskókveðjur frá Kleppjárnsreykjum

Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.