15.7.2008 | 10:48
Lokadagurinn - frábær síðasta kvöldvakan
Dagur 6 hófst með góðum morgunverði. Námskeiðin voru í gangi fyrir hádegi og lögðu börnin síðustu hönd á atriðin sín.
Kvikmyndagerðin tók upp lokaatriði myndarinnar sem var fólgið í því að hrella nokkra starfsmenn. Aldrei of illa farið með góða starfsmenn ... Sumarbúðastjórinn tók þátt í því að plata Árna út úr íþróttahúsinu, hitt starfsfólkið þar vissi ekkert af neinu. Hún hringdi í Árna og bað hann um að koma strax og tala við sig á skrifstofunni. Á leiðinni út í aðalbygginguna hlupu að honum 20 börn með vatnsblöðrur og fleygðu í hann. Árni er svo frár á fæti að aðeins tvær blöðrur hittu hann en atriðið tókst samt mjög vel. Davíð tók allt upp á kameruna. Myndin heitir Barabarabar og er voða fyndin.
Helgi Hrafn átti 11 ára afmæli í gær og fékk flotta afmælisgjöf (útvarpspúða) og afmælissöngurinn var sunginn fyrir hann. Hann fékk köku og auðvitað allir hinir afmælisgestirnir; börnin og starfsmennirnir. Margt var við að vera eftir hádegið, börnin pökkuðu m.a. öllu niður nema fínni fötunum sem þau ætluðu að klæðast um kvöldið, enda hátíð fram undan ... lokakvöldverðurinn, lokakvöldvakan ... og svo heimferðin daginn eftir. Það féll í afar góðan jarðveg að fá að horfa á nokkrar stuttmyndir sem hafa verið gerðar í Ævintýralandi í gegnum tíðina en af nógu er að taka.
Eins og venjulega á degi 6 fer ruslatínsla fram á svæðinu og hún féll ekkert niður þótt rigndi. Það þurfti a.m.k. að tína upp vatnsblöðrutætlurnar og ýmis bréfasnifsi sem höfðu fokið á svæðið. Alltaf bjóða margir sig fram í ruslatínsluna, enda er gaman að fá að velja sér eitthvað flott á eftir úr verðlaunakassanum.
Hamborgarar, franskar, sósa og salat og gos með var í kvöldmatinn og þótti heldur betur gott. Síðan var komið að lokakvöldvökunni.
Íþróttahópurinn og danshópurinn voru saman með atriði. Danshópurinn dansaði flottan dagns og svo bættist íþróttahópurinn við, kom inn á með bolta og læti. Gaman, gaman.
Grímugerðarhópurinn sýndi látbragðsleikritið Ævintýra- Gettu nú! Marglyttur kepptu við Þörunga og sigruðu Marglytturnar!
Leiklistin sýndi leikritið Búðin og þar komu við sögu norn, álfadís, rannsóknarlögga, læknir, fín frú, forvitnar stelpur og bananasali sem mætti síðan bara með appelsínu. Kvikmyndagerðarhópurinn sýndi stuttmyndina Barabarabar, eins og komið hefur fram. Atriðunum var afar vel tekið af áhorfendum sem fögnuðu ákaft og var gaman að sjá hvað börnin voru hreykin og glöð með það sem þau höfðu afrekað. Þau sömdu handritin sjálf í kvikmyndagerð, leiklist og grímugerð, skiptu með sér hlutverkum og léku svo af hjartans lyst (og list). Allir hóparnir stóðu sig frábærlega og starfsfólkið var að springa úr stolti.
Eins og alltaf á lokakvöldvökunni sýnir starfsfólkið leikrit algjörlega óundirbúið. Því er sagt rétt áður hvaða leikrit verði og svo dregur það hlutverk sín úr hatti (krukku). Að þessu sinni var leikritið Hans og Gréta sýnt. Sjálfur Harry Potter villtist þar inn en hann villist sífellt milli ævintýra, blessaður karlinn. Gummi umsjónarmaður lék prik en hlutverkin í þessum leikritum eru svolítið sérstök. Í síðustu viku lék starfsmaður t.d. jakka veiðimannsins í Rauðhettu, annar (Lóa Björk) lék nálina til að sauma saman magann á úlfinum og skrækti ógurlega í hvert skipti sem hún stakk sofandi úlfinn. Já, það vekur alltaf jafnmikla lukku hjá krökkunum að sjá starfsfólkið sleppa sér svolítið.
Í þessum skrifuðum orðum eru börnin búin að borða morgunmatinn á fardegi og bíða eftir að rútan sæki þau eða pabbi og mamma. Inni í bláa herbergi er sjónvarpið í gangi og verið að horfa á gamlar stuttmyndir sem hafa verið gerðar hér í Ævintýralandi í gegnum tíðina.
Við þökkum þessum meiriháttar barnahópi kærlega fyrir dásamlega viku og frábær kynni. Sjáumst vonandi öll að ári.
Saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:00 | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.