14.7.2008 | 21:13
Kósí innidagur, hárgreiðslukeppni og velheppnaður Ævintýrabarki
Dagur fimm var viðburðaríkur og ógurlega skemmtilegur þótt hann væri mestmegnis innidagur. Fjöldi barna fór í sund fyrir hádegi og var mikið spjallað um lífsins gagn og nauðsynjar í heita pottinum eins og vera ber. Einnig var íþróttahúsið opið og Spilaborgin góða og það var mikið föndrað. Myndlistin var líka í fullum gangi. Í hádeginu var pastaréttur og heitir, nýbakaðir pítsusnúðar með. Það rann vel niður og þótti ógurlega gott. Mikil ánægja ríkir með matinn en ef vill svo til að eitthvert barnið vilji ekki það sem er á boðstólum er boðið upp á eitthvað annað, það er nefnilega bannað að fara svangur út úr matsalnum. Regla sem börnin eru afar sátt við ...
Hádegisfundirnir með umsjónarmönnunum fóru vel fram eins og alltaf og var mikið spjallað, spekúlerað, hlegið og leikið. Hafmeyjarnar hennar Maríu fóru t.d. í mjög skemmtilegan glasaleik sem hafmeyjarnar Kristborg og Ásthildur kenndu en þær lærðu hann í alþjóðlegum sumarbúðum í Bretlandi. Stelpurnar í Gullfiskum skreyttu Davíð, umsjónarmanninn sinn, rækilega en þeim fannst hann vanta teygjur í hárið Síðan fóru námskeiðin af stað og stóðu fram að kaffi.
Eftir kaffi var íþróttahúsið opið og einnig Spilaborg og svo fór fram æðisleg hárgreiðslukeppni! Úti var grenjandi rigning sem gerði ekkert annað en auka á kósíheitin.
Hárgreiðslukeppnin gekk mjög vel og var greitt og skreytt af hjartans lyst. Allir fengu verðlaunaskjöl en í fyrsta sæti urðu Erla Svanlaug og Jóhanna Sigurbjörg. Í öðru sæti þær Ísold og Þórunn Eydís og þriðja sætið hlutu Rakel Rósa og Ásthildur. Frumlegasta greiðslan: Rósmarý og Eydís Ósk Kolbeinsdóttir.
Fiskur var í kvöldmatinn og hrísgrjónagrautur í eftirmat. Eftir mat var haldið í íþróttahúsið þar sem Hæfileika- og söngvarakeppnin Ævintýrabarkinn fór fram. Fjöldi barna tók þátt og dómnefnd átti erfitt verk fyrir höndum. María og Gummi umsjónarmenn tóku létta Greease-sveiflu á meðan verið var að telja stigin og fannst börnunum það frekar fyndið.
Ekki leið á löngu þar til Árni og Þóra báðu um hljóð og kynntu svo sigurvegarana, fyrst þriðja sætið, síðan annað og þá fyrsta. Rósmarý Kristín Sigurðardóttir varð í fyrsta sæti. Hún söng lagið Nína. Í öðru sæti varð Jóhanna Kolbrún Guðbrandsdóttir og í því þriðja Ísold Hákonardóttir. Innilega til hamingju. Þær fengu verðlaun og öll börnin fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna. Þetta var afar vel heppnuð keppni og stóðu börnin sig frábærlega.
Eftir kvöldkaffið (brauð og safa) var farið í háttinn, umsjónarmenn lásu kvöldsöguna hver fyrir sinn hóp og svo var haldið beint í draumalandið.
Á morgun koma svo myndir frá lokadeginum. Hér til vinstri er mynd frá leiklistaræfingu sem fram fór í gær ...
Nýjar myndir síðan í gær eru á www.sumarbudir.is, dagur 5 og dagur 5 framhald.
Regnblautar kósíkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.