8.7.2008 | 13:56
Æðisleg lokakvöldvaka
Lokadagurinn var mjög góður, gott veður og spennan í hámarki fyrir kvöldið. Perla Sóley átti afmæli og fékk að sjálfsögðu gjöf og afmælissöngurinn var sunginn hátt og snjallt í matsalnum.
Ruslatínsla var á svæðinu að vanda á degi 6 en þá fá þau börn sem vilja ruslapoka sem þau tína drasl sem þau finna í kringum húsið. Svo mega þau velja sér eitthvað flott úr ruslatínsluverðlaunakassanum. Ótrúlega mörg börn taka þátt á hverju tímabili, sum sópa stéttina á meðan önnur tína rusl og innan tíu, fimmtán mínútna er allt orðið snyrtilegt og flott í kringum sumarbúðirnar.
Lokakvöldvakan hófst með meiriháttar myndlistasýningu, listaverkin voru mjög flott og allt fullt af seríum sem gerði allt svo hátíðlegt.
Íþróttahópurinn hóf skemmtunina og sýndi leik sem heitir Sjúkraleikurinn. Allir í salnum tóku þátt í honum og var bilað fjör.
Rétt áður en danssýningin hófst kom eldhúsliðið stórkostlega, sem allir hafa matarást á, fram með atriði og voru skutlurnar klæddar í plastpoka, mjög kúl með sólgleraugu. Sjá mynd neðar. Danssýningin var síðan ótrúlega flott og sýndu börnin, bæði strákar og stelpur, geggjaðan dans! Önnur dansmynd neðar.
Leiklistin var með frábært leikrit sem heitir Leynipósturinn og fjallar um ruslpóstinn sem pirrar svo marga. Þau sömdu texta við lagið Pósturinn Páll og sungu eins og englar.
Hér er textinn:
Pósturinn má
Pósturinn má
koma hérna inn
Nema ef það er
bara ruslpóstur
þá tek ég hann og fleygi honum út
Allir þekkja það að fá ruslpóst
Ekki er það gaman og daginn skemmir.
En Mogginn, DV og Fréttablaðið
Það er flott
Fínt
Gerir daginn minn
Grímugerðin sló í gegn að vanda og fjallaði leikritið hennar um þrjá bindara sem skemmtu sér við að binda fjölskyldur sem voru í skógarferð að borða nestið sitt. Sem betur fer komu svo þrír góðir og leystu fjölskyldurnar. Grímurnar voru ekkert smá flottar. Einn aðalleikarinn, Finnur, varð fyrir því óláni að gríman hans brotnaði aðeins en hann setti hana samt á sig og lék frábærlega en hann var einn af þeim sem kom og bjargaði fjölskyldunum!
Kvikmyndagerðin sýndi stórmyndina Hryllingshúsið sem fjallaði um skelfilega martröð hjá einu barni. Þetta var sem betur fer bara martröð því það voru draugar og bófar í draumnum.
Starfsfólkið lék Rauðhettu og úlfinn og hlutverkin voru mjög spaugileg. Einn starfsmaður lenti í því að vera jakki veiðimannsins (sjá myndina hér til hægri), annar var kærasta úlfsins, svo var Jón spæjó sem veiðimaðurinn þolir ekki, hnífur, skæri, tvinni. Lóa Björk lék nálina sem öskraði þegar hún saumaði saman magann saman á úlfinum því hún fann svo til í hvert skipti sem hún stakk úlfinn.
Þetta var einstaklega vel heppnuð og skemmtileg kvöldvaka og dásamlegt að sjá hvað börnin skemmtu sér vel og nutu þess líka að sýna afrakstur allrar vinnunnar sem þau hafa lagt í námskeiðin undanfarna viku. Þau fóru heim í morgun hress og kát og líka full tilhlökkunar enda alltaf gaman að koma heim þótt hafi verið gaman í Ævintýralandi.
Hópurinn á tímabili 4 var alveg frábær og þökkum við kærlega fyrir góð kynni og einstaklega skemmtilega viku.
Myndir frá lokadeginum eru komnar inn á www.sumarbudir.is.
Bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.