4.7.2008 | 20:35
Draugahús, diskó og dúndrandi fjör
Veðrið hefur verið dásamlegt í dag og við búum okkur undir hitabylgju um helgina eins og aðrir landsmenn.
Kertagerð var m.a. á dagskrá eftir kaffi í gær og völdu sér heilmargir að fara í hana. Máluðu stein sem þau límdu sprittkerti á. Margt fleira skemmtilegt var í boði. Svo var pítsa a la Ævintýraland í kvöldmatinn og hægt að velja um þrjár tegundir; margarítu, skinku og pepperoni. Það var sko vel og vandlega raðað í sig, svo vægt sé til orða tekið.
Í gærkvöldi voru Mörk óttans, hrikalegi leikurinn sem krefst sko mikillar hæfni á ýmsum sviðum. Það þarf að svara spurningum og drekka ógeðsdrykk sem er samansettur af ýmsum viðbjóði, súrmjólk, sinnepi o.fl. sem eldhúsliðinu dettur í hug að blanda saman. Svo þarf að fara í gegnum hrikalegt, myrkt draugahús og sækja stein ofan í fötu sem er full af ísköldu hryllingsvatni. Hóparnir vinna saman sem heild og eftir harða keppni sigruðu Hafmeyjarnar, þær Aldís Ásgeirsdóttir,
Alexandra Björg Ægisdóttir, Alma Hrund Hafrúnardóttir, Birta Sóley Árnadóttir, Gréta Sigurðardóttir, Hanna Margrét Heimisdóttir, Lovísa Margrét Kristjánsdóttir, Margrét Marís Sveinbjörnsdóttir, Sædís Lilja Ísaksdóttir, Silja Sjöfn Sölvadótttir, Sunneva Þorsteins og Telma Sif Sigurjónsdóttir.
Til hamingju, hetjur!
Öllum hópunum gekk mjög vel að svara spurningunum og stóð síðasta spurningin bara í þremur af sjö hópum, samt hrikalega erfið! Draugahúsið þótti ofboðslega spennandi og hræðilegt og mikið var skrækt og hlegið.
Nú var að ljúka enn einum snilldarkvöldverðinum en það voru kjúklingar í kvöld ... með frönskum, gulum baunum, sósu og salati. Það heyrðust bara vellíðunarstunur úr matsalnum. Diskótek stendur nú yfir og þá er alltaf mikið fjör. Þeir sem nenna ekki á ball, eða vilja taka sér pásu frá fjörinu geta verið á útisvæðinu eða inni í Spilaborg þar sem boðið er upp á bandfléttur og tattú. Hægt að lesa, spila, fara í biljarð, borðtennis og hvaðeina sem hugurinn girnist. Svo er það bara kvöldkaffið, kvöldsagan og draumalandið.
Ekkert smá spennandi dagur verður svo á morgun, eða húllumhædagurinn, sem er nokkurs konar ígildi 17. júní. Námskeiðin verða í fyrramálið og svo eftir grjónagrautinn og melónurnar og þegar hádegisfundi hópanna með umsjónarmanninum er lokið verður flautað í húllumhæið. Sannkölluð hátíð verður allan daginn.
Myndir frá gærdeginum eru komnar á Netið, www.sumarbudir.is.
Sendum svo kátar hitabylgju- og fjörkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.