3.7.2008 | 00:32
Frábær fyrsti dagur - myndir komnar
Stór hópur hressra barna mætti í sumarbúðirnar í dag, miðvikudag, á tveimur rútum og ný og ævintýrarík vika er hafin, tímabili 4 komið í gang. Sólin skein glatt í smástund þegar þau komu. Annars hefur verið skýjað í dag. Veðurspáin er ekkert slæm, smárigning um miðjan dag á morgun, fimmtudag, og svo kemur sól seinnipartinn og 17 stiga hiti. Á föstudaginn verður 19 stiga hiti, skýjað á köflum, annars bara sól! Opinber veðursíða sumarbúðanna er norsk og heitir www.yr.no. Þar finnum við yfirleitt sólríka veðurspá fyrir Kleppjárnsreyki.
Barnahópurinn skiptist í sjö minni hópa sem heita Flugfiskar, Gullfiskar, Hafmeyjar, Höfrungar, Kópar, Krossfiskar og Sæljón. Hver hópur hefur eigin umsjónarmann sem heldur utan um hópinn sinn alla vikuna. Stór hluti barnanna hefur verið áður í sumarbúðunum og það var heldur betur gaman að hitta þau. Auðvitað fá splunkunýir krakkar, þeir sem eru að koma í fyrsta sinn, frábærar móttökur líka. Svanhildur sumarbúðastjóri fór í sumarbúðir þegar hún var lítil (fyrir svona 100 árum) og henni fannst stelpurnar sem höfðu dvalið þar áður fá meira kammó (orð sem notað var í fornöld) móttökur. Í sumarbúðunum þarna í gamla daga kviknaði fyrst hugmyndin að sumarbúðum eins og hún vildi hafa þær og sl. tíu ár hefur verið unnið eftir skipulaginu sem hún gerði sjö ára gömul, eða svona næstum því. Henni fannst vanta val fyrir börnin, ekki bara: Jæja, nú eiga allir að koma í fjallgöngu ... eða Allir út að leika ... eða Nú skulum við lita í litabók.
Námskeið sem börnin velja sér fyrsta daginn eru í tvo tíma á dag, myndlist, grímugerð, kvikmyndagerð, íþróttir, dans og leiklist. Þau semja handrit að leikritum börnin í grímugerð, leiklist og kvikmyndagerð, skipa í hlutverk, æfa og sýna svo afraksturinn á lokakvöldvökunni, stuttmynd kemur frá kvikmyndagerðinni. Myndlistin verður með flotta myndlistarsýningu, íþróttaævintýrið sýnir flott atriði og danshópurinn sveiflast um sviðið á glæsilegan máta.
Fyrir hádegi og eftir kaffi dag hvern er heilmargt í boði, eða svokallaðar stöðvar. Hægt er t.d. að fara í sund, íþróttahúsið, gönguferð, útisvæði, Spilaborg (spila, lesa, fara í borðtennis eða biljarð), fá tattú/bandfléttur, fara í kertagerð, skartgripagerð og margt, margt fleira, misjafnt eftir dögum hvað er í boði. Alls staðar er gæsla fullorðinna aðila og ekkert barn er nokkru sinni eftirlitslaust. Börnunum finnst svo mikið frelsi í því að geta valið og gert það sem þau langar mest til að gera, jafnvel vera í smástund úti og ef heitt/kalt er í veðri þá er gott að koma inn og lesa spennandi bók, myndasögu eða slíkt. Á laugardeginum verður svo húllumhædagur og þá verður allt vitlaust af fjöri. Meira um það síðar.
Í sumarbúðunum er einstaklega góður matur. Börnunum er boðið upp á pítsu, kjúkling með frönskum, grillaðar pylsur, fisk, hamborgara með öllu, hrísgrjónagraut, kakósúpu og margt, margt fleira. Morgunverðarhlaðborð er svo á hverjum morgni og alltaf eitthvað heimabakað með kaffinu. Fyrsta daginn fengu börnin skúffuköku og melónur í kaffinu en mikið er lagt upp úr því að börnin borði mikið af ávöxtum. Sumarbúðastjórinn bauð börnin hjartanlega velkomin í kaffitímanum og svo var farið út í íþróttahús að velja sér námskeið. Síðustu árin hefur kvikmyndagerðarnámskeiðið verið langvinsælast en í allt sumar hefur grímugerðin verið langvinsælust og þannig var það nú. Íþróttaævintýri og kvikmyndagerð eru næstvinsælustu námskeiðin. Sami fjöldi er svo í myndlist, dansi og leiklist. Einhver hluti barnanna fer svo á reiðnámskeið hjá Guðrúnu Fjeldsted sem er frábær reiðkennari og er ábyggilega með sætustu og bestu hestana í öllum Borgarfirðinum. Það er eina námskeiðið sem kostar á aukalega. Hitt er allt saman innifalið.
Kjöt og spagettí var í kvöldmatinn og borðuðu börnin algjörlega á sig gat. Síðan fór helmingur barnanna í sund en hinn helmingurinn skemmti sér m.a. á útisvæði og í Spilaborg sem er þvílíkt vinsæl, enda kósí og margt í boði þar.
Eftir kvöldkaffið lögðust börnin í kojur og rúm í herbergjum sínum og umsjónarmenn hópanna lásu fyrsta lestur kvöldsögunnar. Höfrungastelpurnar vildu ekki sögu, heldur báðu Gumma, umsjónarmanninn þeirra, um að setjast frekar á stól í mitt herbergið og spila róleg lög fyrir þær á gítarinn og að sjálfsögðu varð hann við þeirri bón. Þegar ró hafði færst yfir hópinn tóku næturverðirnir við.
Teknar voru skemmtilegar myndir í dag og eru þær staðsettar á www.sumarbudir.is.
Hér er þó alveg bein leið á þær: http://www.sumarbudir.is/BCB19787-2828-4A7D-9E34-7DC73D03DFFD/Dagur%201%20.html
Kærar sumarbúðakveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið rosalega er gaman að fá svona myndir og fréttir af krökkunum. Myndirnar segja meir en þúsund orð eins og sagt er. Vonandi halda allir bara áfram að skemmta sér svona vel.
Kveðja Sólveig ( Mamma hennar Silju Sjafnar).
Sólveig (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 13:42
vá hvað það er gaman strax á fyrsta degi....æðislegt að fá svona myndir:) maður er strax farin að hlakka til að heyra allar sögurnar frá honum þegar hann kemur heim...
kv Thelma Dögg (mamma Finns Leó)
Thelma Dögg (IP-tala skráð) 3.7.2008 kl. 23:33
gaman að sjá myndir og það er greinilegt að það er mikið fjör ;-) Hlakka samt að fá prinsinn minn heim
Kv Rakel (mamma Ástþórs Andra)
Rakel (IP-tala skráð) 4.7.2008 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.