27.6.2008 | 16:58
Afmælisbarn, sigurvegarar í Mörkum óttans og diskó í kvöld!
Kristján Sólvin Róbertsson átti 10 ára afmæli í gær og fékk skreytta afmælisköku, afmælisgjöf og afmælissöng. Kristján tilheyrir hinum glæsta hópi Sæljóna. Allir hinir krakkarnir fengu auðvitað afmælisköku líka, skúffuköku með súkkulaðikremi, hans var þó skreytt og með afmæliskerti, enda var hann afmælisbarnið í salnum.
Örlitlar breytingar hafa verið gerðar á leiknum Mörk óttans sem var í gærkvöldi. Nú keppa hóparnir (Krossfiskar, Hafmeyjar, Kópar, Sæljón o.s.frv.) og skiptist hver þeirra í fjóra hluta og hver af þeim tekur þátt í einni þraut af fjórum. Drekka ógeðsdrykk, svara spurningum og fleira. Hver hópur fær stig fyrir hverja þraut og sá stórhópur sem fær flest stigin sigrar.
Höfrungar komu, sáu og sigruðu, þær Andrea Malín, Dagbjört, Guðrún, Halla, Hrefna, Hulda, María, Nína Líf, Ragnheiður Gná, Þorgerður Herdís og Þórkatla. Til hamingju, stelpur!
Draugaatriðið í leiknum var hræðilegt, myrkur inni í herberginu, afsakið, draugahúsinu, og drungaleg tónlist hljómaði.
Eins gott að Svanhildur sumarbúðastjóri hjálpaði hverjum og einum að komast í gegnum þrautina þar, sækja stein ofan í fötu fulla af einhverju ógeði ... varast hræðilega drauginn og slíkt. Þetta var einstaklega vel heppnað kvöld, mikið skrækt, skríkt og hlegið. Svo var bara kominn háttatími en fyrst kvöldkaffi. Kvöldsaga hvers hóps var lesin af umsjónarmanninum og smám saman færðist ró yfir mannskapinn.
Í hádeginu í dag var kakósúpa með tvíbökum og ávextir eins og börnin gátu í sig látið.
Í kaffinu var sandkaka og svo melónur. Mikið er lagt upp úr því að börnin borði mikið af ávöxtum, enda hollir, góðir og sívinsælir.
Námskeiðin gengu vel í dag og er æft af kappi fyrir lokakvöldvökuna á mánudagskvöldið. Þar er afraksturinn sýndur með tilþrifum. Mikil tilhlökkun og hátíðarstemmning ríkir alltaf, enda alltaf gaman að hafa að einhverju að stefna. Já, og svo er karaókíkeppni á sunnudagskvöldið, Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævíntýrabarkinn.
Í kvöld verður síðan enn ein veislumáltíðin ... eða kjúklingar og franskar með kokkteilsósu og gulum baunum.
Eftir mat verður síðan mikið um að vera ... eða diskótek, og svo auðvitað stöðvar, úti og inni, og boðið upp á tattú, bandfléttur í hár og slíkt. Davíð, tæknistjóri með meiru,spilar flotta tónlist, reykvélin er sett í gang, lítil lýsing og hægt að sleppa sér í dansinum. Svo er líka alltaf svo gott að taka sér hvíld frá diskóinu og skella sér í tattú eða spila eða fá bandfléttu eða eitthvað annað sem er í boði.
Nýjar myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Endilega kíkið. Tímabil 3, dagar 1 og 2, vonandi stutt í enn fleiri myndir. Bein leið hér:
http://sumarbudir.is/39BA23D6-B0E1-4EDF-8909-A775992F8553/FAF85B11-9973-49C2-91C1-7CFE96328909.html
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:46 | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.