Lokadagarnir, takk fyrir frábæra viku!

Frumlegasta hárgreiðslanÞá er tímabili 2 lokið. Börnin fóru heim í dag og hafa án efa glaðst ógurlega yfir að hitta fólkið sitt þótt það hafi verið gaman í sumarbúðunum.

 

Strákarnir einbeittir í hárgreiðslukeppninniSunnudagurinn gekk rosalega vel. Hárgreiðslukeppni var haldin að vanda og tóku bæði stelpur og strákar þátt. Krakkarnir sýndu mikið listfengi þegar þeir breyttu venjulegu hári í sannkallað listaverk. Veitt voru verðlaun fyrir flottustu hárgreiðsluna, 1., 2. og 3. sætið og svo fyrir þá frumlegustu. Allir fengu viðurkenningarskjöl.

 

Gönguferð í góða veðrinuÝmsir völdu að fara í góða gönguferð um fallegt nágrennið, aðrir léku sér úti í góða veðrinu. Í sumarbúðunum er engin skylda að gera eitthvað, allir hafa val. Ekki eru allir í sumarbúðunum „dregnir“ í gönguferð, heldur má velja um svo margt. Þegar sólin er orðin þreytandi má líka skreppa inn og þar er sitt af hverju í boði líka. Það má velja um svo margt, fara í sund, vera á stöð, fara í göngutúr eða gera hvaðeina sem hugurinn girnist. Krakkarnir kunna vel að meta valið.

 

1. sætiFiskur var í matinn á sunnudagskvöldið og vakti heilmikla lukku hjá krökkunum og svo var grjónagrautur í eftirmat. Alltaf gott að stappa saman fisk, kartöflur og tómatsósu.

 

Svo var komið að Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum. Keppendur stigu á svið hver af öðrum og keppnin var hörð og jöfn. Eftir að dómnefnd hafði talið saman stigin kom í ljós hverjir höfðu orðið hlutskarpastir.

 

2. sætiðErna María og Rebekka Ósk Svavarsdætur urðu í fyrsta sæti en þær sungu lagið Ó, María án undirleiks.

 

Sóley Ólöf Rún Guðmarsdóttir (hetjan úr leiknum Mörk óttans fyrr í vikunni) söng lagið Ég sjálf og lenti í öðru sæti.

 

3. sætiðÓlafur Gunnar Daníelsson, Rúnar Sindri Þorsteinsson og Sigurður Þór Daníelsson sungu rapplagið Upphafið og þeirra var þriðja sætið. Ólafur og Sigurður eru tvíburar.

 

Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjöl og þrír efstu verðlaun.

 

GrímugerðarleikritiðDagur 6, mánudagur, hófst með miklum spenningi, þetta var lokadagurinn og bara rúmur sólarhringur í heimferð. Um kvöldið átti að sýna afrakstur námskeiðanna. Myndlistarsýningin var sett upp, lokaæfingar fóru fram á leikritum, bæði hjá leiklist og grímugerð. Danshópurinn og íþróttahópurinn æfðu sig, allt varð að vera fullkomið fyrir kvöldið. Davíð var ekkert nema einbeitnin þegar hann klippti spennumyndina æsilegu sem kvikmyndagerðarhópurinn hafði gert.

 

LeiklistinÞað má segja að börnin geri allt sjálf, alveg frá A-Ö. Þau semja handritin (grímugerð, leiklist, kvikmyndagerð), skipa í hlutverk, velja sér búninga og sköpunargleðin ræður ríkjum frá fyrsta degi. Ef hugmyndirnar eru illframkvæmanlegar er þeim beint í aðra átt og þá koma alltaf nýjar og flottar hugmyndir í staðinn.

 

Börn eru mikill fjársjóður hugmynda, óheft og dásamlega skapandi! Þau finna alltaf leiðir framhjá vandamálum og eru ótrúlega jákvæð og skemmtileg.

 

KertagerðEins og venjulega er ruslatínsludagur á mánudögum. Þá fara nokkrir krakkar, yfirleitt frekar margir, í kringum húsið og tína allt það rusl sem þeir finna. Síðan mega þau velja sér einhvern einn flottan hlut úr ruslatínsluverðlaunakassanum.

 

Svo var kertagerð seinnipartinn en hún hefur alltaf verið mjög vinsæl. Börnin líma sprittkerti á stein og skreyta á allan máta. 

 

DanssýninginSmám saman náði hátíðarstemmingin tökum á krökkunum þegar leið á daginn, enda búið að pakka megninu af farangrinum niður, bara ekki sparifötunum en fyrir kvöldmat var skipt um föt og farið í fínasta pússið. Hamborgaraveisla var fram undan og meira að segja gos með. Maturinn fór vel ofan í mannskapinn og þegar búið var að borða var hlaupið út í íþróttahús en þar fór lokakvöldvakan fram. Sýningarnar voru hver annarri flottari og mikið klappað og hrópað.

 

Starfsmenn léku leikritið BúkollaStarfsmenn vekja alltaf miklu lukku á lokakvöldvökunni en þá þurfa þeir að leika leikrit, algjörlega óundirbúið. Aðeins Svanhildur sumarbúðastjóri veit hvaða leikrit það er! Hún tilkynnir starfsmönnunum það og lætur þá draga miða úr hatti sem ákvarðar hvaða hlutverk hver fær. Leikritið Búkolla var leikið og krakkarnir örguðu úr hlátri yfir óundirbúnu starfsfólkinu sem reyndi þó að gera sitt besta.

 

Spilað í HafmeyjaherberginuEftir kvöldkaffi var síðan horft á spennumyndina sem kvikmyndagerðarhópurinn hafði gert. Myndin heitir Sa Vinci Code og var ótrúlega spennandi. Spenntir og glaðir krakkar lögðust til svefns síðasta kvöldið, hlustuðu á lokin á framhaldssögunum sem höfðu verið lesnar á hverju kvöldi alla vikuna. Að sögn næturvarða gekk þeim samt vel að sofna. Svo var vaknað í morgunverðarhlaðborðið og vel tekið til matar síns. Ristað brauð, Cheerios, kornflakes, súrmjólk, hafragrautur ... nammi, namm.

 

Fagurlega skreyttar grímurNú er verið að þrífa allt hátt og lágt og von er á stórum hópi kátra barna á morgun. Við minnum á að Ævintýrarútan leggur alltaf í hann frá PERLUNNI, tekur upp Skagakrakka við Hvalfjarðargöngin og börn frá Borgarnesi og börn að norðan/vestan í Borgarnesi og ekur síðan beinustu leið í sumarbúðirnar þar sem ævintýrin bíða.

 

Allar myndir á tímabili 2 eru nú komnar inn á www.sumarbudir.is. Endilega kíkið á þær. Þar eru líka gagnlegar upplýsingar.

 

Okkur langar að þakka öllum börnunum sem komu á tímabil 2 kærlega fyrir frábæra viku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband