22.6.2008 | 00:58
Góður húllumhædagur, Draumur vs Martröð og nýjar myndir!
Alla helgina hefur ríkt sannkölluð veðurblíða og heilu lítrarnir af sólvörn notaðir á börnin. Eftir annasaman dag í gær (föstudag) var kjúklingurinn heldur betur vinsæll og líka frönskurnar.
Á föstudagskvöldi var haldið diskó fyrir þau börn sem það vildu og ríkti mikið stuð í græjunum hjá Davíð. Þeir sem kusu meiri rólegheit gátu fengið bandfléttur eða tattú. Sumarbúðirnar eiga líka gott bókasafn og var gaman að sjá tvær stelpur taka sér hvor sína bók um
Lúlla mjólkurpóst og ætluðu báðar að lesa um Lúlla fyrir svefninn og jafnvel reyna að klára fyrir þriðjudag þegar dvölinni lýkur. Ein sagðist ætla að reyna að finna Lúllabækurnar í bókasafninu fyrst þær væru svona hrikalega fyndnar. Sú fyrsta heitir Liðið hans Lúlla og er alveg bráðfyndin.
Í morgun, laugardag, voru námskeiðin fyrir hádegi en það er vegna þess að húllumhæ-dagurinn skall á um tvöleytið, strax eftir hádegisfundi hvers hóps með umsjónarmanni sínum. Á fundinum er staðan tekin, stundum farið í leiki og alltaf spjallað saman. Einn lítill gutti vissi af húllumhædeginum og hélt að þann dag færi fram húlahringjakeppni. Hann virtist hálffeginn þegar það var leiðrétt.
Allir umsjónarmennirnir voru uppáklæddir í flotta búninga kl. 14 og Svanhildur sumarbúðastjóri kom út með gjallarhornið og setti fánaleikinn með stæl. Börn harðneita reyndar að kalla þetta annað en hermannaleikinn. Tvö lið að keppa um klemmur ... hvað getur það heitið annað en stríð? Hmmmm ... Rauða liðið heitir Draumur og krakkarnir þar innanborðs fengu rauðar rákir á kinnarnar með andlitsmálningu, bláa liðið heitir Martröð og fékk bláar rendur. Þau voru ansi vígaleg. Þeir sem vildu meiri rólegheit sátu í sólinni og fengu bandfléttu eða tattú, krítuðu á stéttina og sitthvað fleira.
Það rignir bókstaflega aldrei í Borgarfirðinum, að sögn Arnars, frábærs starfsmanns sem er héðan úr sveitinni, en í lokin á fánaleiknum kom reyndar hellidemba í smástund. Algjör tilviljun, að sögn Arnars. Krakkarnir þustu inn, sumir áttu fótum fjör að launa og nokkrir fóru í bingó fram að kaffi. Vinningshafarnir í rigningarbingóinu heita Viktoría Líf og Elín Inga. Bingóstjóri var Salomé.
Í kaffinu voru vöfflurnar góðu, þessar með súkkulaðikremi og rjóma. Tveir guttar spurðu hvort það væri nokkuð bara ein vaffla á mann, hvort það væri ekki hægt að fá tvær eða þrjár. Sigurjóna hélt það nú, það væri regla í matsalnum að enginn mætti fara þaðan svangur.
Eftir kaffi fóru sumir í skartgripagerð, bæði strákar og stelpur, öll ætluðu að gera flottan skartgrip handa mömmu. Nokkrir æfðu sig fyrir karaókíkeppnina en 17 keppendur eru skráðir. Rosalega margir kusu síðan að fara til spákonunnar, Nauthóls-eitthvað ..., og vakti hún mikla lukku. Flestir voru reyndar bara uppteknir af því að vita HVER hún væri og var giskað á ýmsa umsjónarmenn. Heheheheh
Eftir velheppnað vídeókvöld sofnuðu allir rótt eftir annasaman dag.
Í kvöld, sunnudagskvöld, verður karaókíkeppnin, eða Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn, eins og hún heitir réttu nafni.
Nýjar myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is, dagur 3 og dagur 3 framhald. Dagur 4, húllumhædagurinn kemur svo inn í dag, sunnudag. Við erum alltaf degi á eftir með myndirnar.
Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.