13.6.2008 | 21:33
Vídjókvöld, dularfull spákerla og vinsælasti morgunmaturinn!
Nú sitja börnin róleg og horfa á mynd, reyndar tvær í boði, fyrir eldri og svo yngri. Dagurinn hefur verið virkilega annasamur. Húllumhæið var fjörugt, stóð yfir allan eftirmiðdaginn og eins gott að kaffið (vöfflurnar) voru inn á milli. Eftir kaffið var m.a. spákonuheimsókn í boði, eins og alltaf á húllumhædegi. Hún vekur hrikalega lukku, ekki þó bara fyrir það sem hún segir, heldur er svo spennandi að giska upp á því hver hún er.
Þegar síðuskrifari mætti í Ævintýraland um kl. 16.30 með töskuna sína og myndavél kom spurning frá einu barninu: Ert þú spákonan? Ég harðneitaði því, fussaði og sveiaði, og máli mínu til sönnunnar benti ég þeim á að ég stæði hjá þeim en væri ekki inni í spákonuherberginu þar sem spákonan var við iðju sína. Iss, þetta er bara hann Gummi umsjónarmaður að þykjast vera spákerling, sagði annað barn. Nei, þetta var Thelma! sagði það þriðja. Aðalspenningurinn var að fletta ofan af kerlu ... og allir starfsmenn liggja undir grun.
Sandra Ýr, dóttir Önnu aðstoðarráðskonu kom inn í eldhús mjög spennt. Ég var hjá spákonunni og hún sagði að þú og pabbi elskuðuð mig rosalega mikið og að ég myndi fara til Suður Ameríku þegar ég yrði stór.
Myndir af spákonunni koma á morgun og verða settar á bloggið. Davíð tæknitröll á nefnilega frí í kvöld og því verða bara "gamlar" 2008-myndir síðan fyrr í dag og gær og fyrradag með í færslunni.
Krakkarnir eru meira og minna flestir með flottar bandfléttur í hárinu og glæsileg tattú, sum meira að segja úr "gulli", á handleggjunum. Setið var úti við bandfléttu- og tattúgerð og leikið í körfubolta og fleira. Það ríkti líka ógurlega kósí stemmning í spilaborg í dag en sum börnin flúðu úr sólinni, þeim var heitt og þau þreytt á sólinni í bili og fannst svalandi að geta sest niður í smástund og lesið Andrésblöð, púslað eða teflt.
Grilluðu pylsurnar runnu vel niður í kvöld og matráðsfólkið, frábæra og stórkostlega, stóð í röð og setti tómatsósu, hráan lauk, steiktan lauk, sinnep og remúlaði ... allt eftir smekk hvers og eins. Ógurlega vinsæll matur.
Ég spurði sumarbúðastjórann hver væri vinsælasti morgunverðurinn af hlaðborðinu. Fyrsta morguninn er eldaður hafragrautur til að athuga hverjir vilja slíkt, ef enginn sýnir áhuga þá er hann ekki eldaður aftur. Ristaða brauðið er mjög vinsælt. Börnin fá sér stundum Cherios, svo næsta morgun kannski súrmjólk, þá kornflakes en alltaf ristað brauð með. Þessa vikuna er eldaður hafragrautur, svona fjögur til fimm börn vilja hann á hverjum morgni þetta tímabilið. Þessi barnahópur borðar allt og það finnst Sigurjónu matráðskonu alveg æðislegt! Spennandi að vita hvað þau segja um fiskinn annað kvöld ...
Með sumarbúðakveðju úr sveitinni!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.