11.6.2008 | 17:18
Allt komið á fullt - grímugerðin vinsælust - pítsa í kvöldmat
Jæja, dagur eitt er búinn og allt hefur gengið frábærlega vel. Börnin mættu hress og kát rétt fyrir kl. tvö í gær með rútunni en þau sem komu með foreldrum voru aðeins fyrr á ferðinni. Byrjað var á því að sýna börnunum herbergin og síðan fór hver hópur með umsjónarmanni sínum í skoðunartúr um svæðið. Starfsemin er byggð þannig upp að ekkert barn er nokkru sinni eftirlitslaust, alltaf einhverjir fullorðnir með þeim.
Allir staðir eiga sér nafn. T.d. heita svefnálmurnar Draumaveröld og Draumaheimur. Ævintýrahjólið, skemmtilegt útileikfang, fékk nafnið Hamstrahjólið af börnunum. Trampólínin eru líka alltaf jafnvinsæl. Fjórir í einu fá að vera í hamstrahjólinu en einn í einu á trampólínunum.
Krakkarnir komu sér síðan fyrir í herbergjunum sínum og vinir fá alltaf að vera saman, að sjálfsögðu. Í kaffitímanum gæddu börnin sér á melónum, brauði og skúffuköku.
Eftir kaffi var allt starfsfólkið kynnt fyrir hópnum og þeir sem halda utan um námskeiðin kynntu það sem fram fer á þeim í tvo tíma á dag. Grímugerðin sló gjörsamlega í gegn og flestir völdu hana. Inga Lára, Guðmundur og Árni sjá um allt þar. Kvikmyndagerðin var næstvinsælust en þar ráða ríkjum Davíð og Sandra. Pollý er með dansnámskeiðið, létt hipp hopp. Kristín Eva sér um íþróttahópinn sem hefur risastóran völl til afnota. Hún kennir þeim ýmsar listir og leiki og æfir jafnframt með þeim flott atriði fyrir lokakvöldvökuna.
Krakkarnir búa til gifsgrímu (ein á mann) og mála hana. Á lokakvöldvökunni er sýnt látbragðsleikrit með grímurnar en börnin semja handritið sjálf og skipa í hlutverk. Í kvikmyndagerðinni er það svipað, börnin semja æsispennandi handrit og leika svo af hjartans lyst fyrir framan myndavélina. Úr verður stuttmynd sem sýnd er á lokakvöldvökunni.
Sigurjóna og guðdómlega eldhúsfólkið hafði framreitt kjötbollur með spagettí í kvöldmat. Það rann heldur betur vel niður í kátan hópinn.
Stöðvar voru opnar eftir kvöldmatinn og gátu börnin valið um sundlaugina, íþróttahúsið, útisvæði og spilaborg (púl, borðtennis, spil, tafl, föndur og fleira). Um 90% barnanna kaus sundlaugina og síðan spilaborg á eftir.
Kvöldsaga (framhaldssaga) var lesin fyrir þau börn sem vildu og ró var komin á hópinn upp úr kl. 22. Að sögn Svanhildar sumarbúðastjóra er hópurinn alveg einstakur (hehehe, hún segir þetta alltaf) og ekkert nema eintómir kátir englar í honum, en tæplega 80 börn dvelja hérna núna.
Í morgun vaknaði hópurinn glaður og glorhungraður og haldið var í matsalinn. Þar beið morgunverðarhlaðborð að vanda; kornflakes, Cheerios, súrmjólk, hafragrautur, brauð og álegg. Bara velja, krakkar mínir. Bannað að vera svangur í sumarbúðum!
Í hádeginu var boðið upp á núðlusúpu, smurt brauð og ávexti ... en í kvöld verður pítsa!!! Sumarbúðapítsurnar eru hrikalega góðar.
Í dag er veðrið svo gott að grímugerðin er úti. Algjör snilld, enda mikil áhersla lögð á útiveru. Í kvöld verða Mörk óttans og verið er að útbúa djúsí draugaatriði til að gera þetta meira krassandi.
Þeir sem taka þátt þurfa að fara í gegnum ýmsar raunir, m.a. drekka ógeðsdrykk og komast í gegnum draugahús ... Vinningshópurinn fær verðlaun. Ógeðsdrykkurinn er sagður óhugnanlegri en hann er ... og þeir krakkar sem komast í gegnum það að drekka eitt glas af t.d. súrmjólk með sinnepi ... eða bara eftir því hvað viðbjóð eldhúsliðinu dettur í hug að búa til, þykja miklar hetjur af hinum krökkunum! Það má búast við klikkuðu fjöri í kvöld.
Með færslunni eru nýjar og gamlar myndir, þar sem lítill tími hefur enn sem komið er gefist til að mynda. Svo sannarlega verður bætt úr því.
Með bestu sumarbúðakveðjum frá Kleppjárnsreykjum í góða veðrinu!
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 17:49 | Facebook
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 91196
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
hæhæ varð að kvitta þar sem maður er að fylgjast með en æði að allt gangi eins og í sögu:):) bið að heilsa þeim Símon og Gunari
Hulda Mamma Símons (IP-tala skráð) 11.6.2008 kl. 20:46
Kveðjunni verður örugglega skilað.
Svo koma fleiri myndir inn seinnipartinn á morgun. Ég sem sérleg frænka sumarbúðanna skal sjá um það!!!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 11.6.2008 kl. 21:07
Bara að láta vita að þetta er alveg frábært að geta fylgst svona með án þess að ónáða.
Takk fyrir
Kveðja frá ömmu hennar Indíönu
Sólveig Hrönn Kristinsdóttir, 11.6.2008 kl. 22:37
Hæhæ kíki hér oft á dag. Frábært að geta fylgst með eins og ein sagði án þess að ónáða.
Mamma biður að heilsa Dagbjörtu Heiðu . Stór knús frá Gabríel Huga litla bróður.
Sigrún Ásgeirsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:38
Já og ekki má gleyma að pabbi biður líka að heilsa Dagbjörtu Heiðu
Sigrún Ásg. (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 00:39
Halló allir,gaman að sjá hvað allt fer vel af stað, Innilegar kveðjur til Ágústu Hrannar frá mömmu og pabba. Það er æðislegt að geta fylgst með úr fjarlægð,
gangi ykkur vel
Helena María Jónsd. (IP-tala skráð) 12.6.2008 kl. 16:09
Sæl öll. mikið er gaman að fygjast með krökkunum. Það virðist aldeilis vera líf og fjör. Amma og afi Hrefnu senda henni bestu kveðjur.
jóhanna amma Hrefnu (IP-tala skráð) 13.6.2008 kl. 00:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.