28.7.2012 | 12:52
Lokakvöldvakan ... sjaldan hlegið eins mikið
Sól, logn og blíða - veðrið var einfaldlega eins og best var á kosið í gær á lokadeginum.
Eftir morgunmat voru námskeiðin á dagskrá.
Íþróttahópurinn skellti sér í gönguferð, og það þótti ekki leiðinlegt að vaða í læknum. Mikið fjör í gangi hjá krökkunum.
Grímugerðar- og listaverkagerðarhópurinn lagði líka síðustu hönd, eða næstsíðustu, á atriðið sitt sem inniheldur einnig dans. Flott skal það vera!
Kvikmyndagerð var í lokatökum og mikil spenna ríkti fyrir lokaútkomunni en okkur virtist að þetta yrði bæði fyndin og spennandi mynd.
Í hádeginu var boðið upp á pastarétt.
Hádegisfundirnir voru á sínum stað og var talað um hvað það skiptir miklu máli að koma vel fram við aðra og mikilvægi þess að láta ekki hafa of mikil áhrif á sig.
Börnin fengu öll blað og blýant, skrifuðu nafnið sitt á blað sem síðan var látið ganga á milli hjá hverjum hópi fyrir sig og allir skrifuðu eitthvað fallegt.
Námskeiðin aftur, auðvitað ... lokakvöldvakan fram undan og mikið sem þurfti að æfa.
Í kaffinu var kryddkaka og einnig tekex með heimalöguðu marmelaði sem hvarf hratt ofan í börnin sem drukku mjólk með.
Eftir kaffi var boðið upp á námskeið í umhirðu húðar og þátttakendur voru leystir út með gjöfum.
Ellen sá um námskeiðið og þar var fjallað um mikilvægi þess að hreinsa húðina vel, borða hollt og reglulega. Mikilvægi þess að borða morgunmat og hvað það er hættulegt að ætla að reyna að grennast með því að svelta sig. Smáspjall um hvaða áhrif sólin getur haft á húðina og mikilvægi þess að nota sólarvörn. Einnig um skaðsemi áfengis og tóbaks og þá líka á húðina. Við töluðum um blessaðar bólurnar og mögulegar ástæður fyrir þeim. Hvað sé best að gera og að það sé sko alls ekki alltaf það sama sem virkar fyrir alla. Hægt var að velja um gjafir, annað hvort hreinsikrem, skrúbbmaska og andlitsvatn eða þá snyrtivörur. Glæsilegar gjafir og allir sem vildu fengu að prófa bæði hreinsikremin og snyrtivörurnar.
Einhverjir völdu að vera úti í góða veðrinu og nokkrir tóku þátt í ruslatínslu og að sópa stéttar, sem iðulega er gert á lokadegi, og fengu verðlaun fyrir.
Rétt fyrir kvöldmat var opnað inn á herbergi til að skipta um föt fyrir kvöldið. Allir vildu vera í sínu fínasta pússi. Við erum kannski ekki alveg að tala um jakkaföt og síðkjóla en það munaði ekki miklu þó.
Þá var komið að kvöldmat, hamborgara með öllu, frönskum og gosi sem þótti nú sérdeilis góður hátíðarkvöldverður.
Svo rann stóra stundin upp ... það var komið að lokakvöldvökunni sem beðið hefur verið eftir alla vikuna.
Grímugerðar- og listaverkahópurinn sýndi dans, rosa flottan og notuðu reykvélina til að gera enn meiri stemningu. Þrjár stelpur dönsuðu frumsaminn dans og hinar dönsuðu í bakgrunni með grímurnar sem þær bjuggu til. Það var líka myndlistarsýning í matsalnum, glæsileg listaverk hjá þessum flotta hópi.
Íþróttahópurinn sýndi líka mjög flottan dans og var svo með körfuboltasýningu. Flottar troðslur, algjör snilld.
Síðan var haldið sykurpúðagrillpartí úti í góða veðrinu. Nokkuð er farið að dimma á kvöldin og það gerði þetta bara enn skemmtilegra. Við kveiktum upp í einnota grillum og síðan gat hver og einn grillað sér sykurpúða.
Ávextir voru síðan í boði í matsalnum, eins og hver gat í sig látið ... og svo var glaðningur á eftir, ís (frostpinni).
Kvikmyndagerðin frumsýndi myndina Endurfundir (Reunion) en það var um bekk sem hittist aftur eftir 15 ár á frekar drungalegu skólamóti. Þrjár stelpur sem lentu í miklu einelti í skólanum ákváðu að hefna sín á bekkjarfélögunum og safna þeim saman á mótinu. Þetta var samt gert á mjög spaugilegan hátt og sjaldan hefur verið hlegið eins mikið á nokkru lokakvöldi. Þau fengu ís með myndinni.
Þetta var frábær lokadagur og börnin gátu verið meira en stolt af frammistöðunni þegar þau sýndu afrakstur námskeiðanna á lokakvöldvökunni. Sannarlega skemmtilegur og góður unglingahópur. Við þökkum kærlega fyrir einstaklega góða viku.
Þökkum líka öllum hinum hópunum fyrir sumarið ... sem leið allt of hratt.
Sjáumst sem allra flest næsta sumar.
Myndir frá lokadeginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T7D5.html#grid
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.