21.7.2012 | 12:24
Furðuhótel, tvíburaafmæli og taumlaus gleði
Ekki var mikið útiveður í gær, svona eins og hefur ríkt hjá okkur þar sem af er sumri, það rigndi en kannski ekkert sérstaklega mikið. Það var svo mikið við að vera annarsstaðar að fæstir hugsuðu mikið út í veðurfar ...
Þegar búið var að fá sér morgunverð af hlaðborðinu fóru námskeiðin í gang, ekki veitti af, heil lokakvöldvaka fram undan. Mikið var æft og planað. Síðustu tökur kvikmyndahópsins, myndlistar- og grímugerðarhópurinn byrjaði að setja upp sýningu og aðrir æfðu sig út í eitt.
Svo var eitthvað kíkt í íþróttahúsið og í Spilaborg.
Ljómandi góður pastaréttur var í boði í hádeginu og síðan var haldið á hádegisfund, hver hópur með sínum umsjónarmanni. Börnin fengu blað þar sem þau skrifuðu nafnið sitt á og síðan var blaðið látið ganga þar sem aðrir í hópnum skrifuðu eitthvað jákvætt og fallegt um viðkomandi. Mjög hollt og gott fyrir hjartað.
Ekki veitti af að blása til námskeiða aftur eftir hádegið, börnin vildu ekki hafa atriðin sín góð, heldur fullkomin ... svo það var æft og æft og lokahnútar hnýttir víða um völl.
Í kaffinu var haldin afmælisveisla, allir fengu köku en tvíburasysturnar Bára Sif og Guðmunda Sjöfn eiga afmæli í dag, verða 13 ára, en haldið var upp á það í gær með pompi og prakt. Afmæliskökur þeirra voru skreyttar sérstaklega, þær fengu afmæliskort og -pakka frá sumarbúðunum og sunginn var afmælissöngurinn. Gummi spilaði á gítarinn og vel var tekið undir. Alltaf gaman að eiga afmæli í Ævintýralandi. Börnin voru mjög sátt við að fá afmælisveislu og kakan smakkaðist mjög vel, skúffukaka og mjólk með. Einnig var boðið upp á tekex með heimalöguðu marmelaði.
Haldið var bingó eftir kaffi og einnig farið í Spilaborg og íþróttahúsið. Börnin geta valið og þau fara á milli stöðva eins og þau vilja. Það er aldrei eitthvað eitt eða tvennt í boði, það á að vera hægt að velja um að gera eitthvað skemmtilegt.
Ekki var veður fyrir ruslatínslu (sjálfboðaliðar sem sópa og tína upp rusl og fá svo verðlaun) og heldur ekki kassabílarallí.
Þegar leið að kvöldmat skiptu börnin um föt, jú, hátíðin að ganga í garð og sérlegur hátíðakvöldverður fram undan - og síðan lokakvöldvakan þar sem allur afraksturinn kæmi nú í ljós. Allt iðaði af spenningi.
Veislueldhús Ævintýralands bauð upp á hamborgara með öllu, franskar og gos og sælustunurnar heyrðust alla leið í Reykholt.
Kvölddagskráin hófst á því að farið var inn á setustofu (sem heitir Framtíðin) þar sem Gummi var með gítarinn og mikið sprellað og sungið. Á meðan gerði grímugerð/myndlist allt klárt fyrir sýninguna.
Sýningin var hreint afbragð og listaverkin einstaklega flott. Grímurnar voru ekki notaðar í látbragðsleikrit eins og oft áður, heldur voru börnin með grímurnar á sér og í búningum og stilltu sér upp og voru eins og myndastyttur. Sérlega glæsilegur gjörningur sem vakti mikla hrifningu gesta á sýningunni.
Þegar búið var skoða listaverkin var haldið út í íþróttahús.
Íþróttahópurinn hefur greinilega ekki setið auðum höndum síðustu dagana, þvílík atriði, þvílík leikni. Þau stukku, hoppuðu og sýningin þeirra var stórkostleg í einu orði sagt. Miklir íþróttagarpar hér á ferð.
Starfsfólkið sýndi síðan óundirbúið leikrit, dró hlutverk sitt úr hatti og þurfti svo að sýna getu sína. Leikritið Þyrnirós var sýnt og það var sko ekkert venjulegt. Mikið var hlegið og starfsfólkið skemmti sér ekki síður vel en börnin.
Boðið var upp á ávexti sem kvöldhressingu og einnig frostpinna og svo var það stuttmyndin sem kvikmyndahópurinn átti allan heiður af. Samdi handrit, valdi búninga og lék ...
Myndin fjallaði um furðulegt hótel í Borgarfirði. Tvíburasystur hafa verið fastar þar í 46 daga. Hundur kemur þeim til bjargar, talar við þær og hringir eftir hjálp. Fyrst koma túristar, síðan eftirlitsmenn og bjarga þeim. Ýmsar kynjaverur komu fram í myndinni sem var algjörlega frábær. Þessi börn, þessi börn.
Síðan var farið í matsalinn aftur og börnunum afhentar ýmsar viðurkenningar.
Vinningshafar í bingóinu: 1. vinningur: Eygló. 2. vinningur: Erla og Oddný. 3. vinningur: Aldís og Hrafnkatla. Krossfiskar unnu draugaleikinn.
Laugardagur: Pakka eftir morgunmat, horfa aftur á stuttmyndina, leikir í íþróttahúsinu, kakósúpa í hádegismat og svo bara út í rútuna sem leggur af stað klukkan 13, áætlaður komutími í Perluna klukkan 14.45.
Myndir dagsins eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T6D5.html
TAKK FYRIR FRÁBÆRA VIKU.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.