10.7.2012 | 19:02
Rok en stuð á stelputímabilinu
Hvasst var á Kleppjárnsreykjum í gær þegar stelpurnar mættu í sumarbúðirnar. Stelpurnar ... já, núna er stelputímabil og ótrúlega mikið stuð í gangi.
Rútan ók í hlað um ellefuleytið en þá voru nokkrar stelpur þegar komnar. Vel var tekið á móti þeim, skipt er í hópa og fór hver hópur til síns umsjónarmanns. Þeim voru sýnd herbergin og hjálpað með farangurinn inn og svo fóru hóparnir skoppandi um allt með umsjónarmanninum. Eftir að hafa komið sér fyrir léku stelpurnar sér bæði úti og inni.
Þegar kom að hádegismat voru stelpurnar orðnar vel svangar og borðuðu af bestu lyst pasta og glóðvolgar, nýbakaðar hvítlauksbollur.
Haldið var út í íþróttahús eftir mat og þar kynnti starfsfólkið sig fyrst og síðan var sagt frá námskeiðunum. Stelpurnar völdu sér síðan það námskeið sem höfðaði mest til þeirra og þar verða þær í tvo tíma á dag og sýna svo afraksturinn á lokakvöldvökunni á föstudaginn.
Kvikmyndagerðin var langvinsælust, eins og svo oft áður. Þar á eftir komu íþróttir, þá grímugerð/ listaverkagerð og svipaður fjöldi verður á leiklistar- og dansnámskeiðinu. Vá, hvað við hlökkum til lokakvöldvökunnar. Virkilega áhugasamur og skemmtilegur stelpuhópur - þær ætla sko að gera eitthvað stórfenglegt ... sem haldið verður leyndu fyrir okkur og hinum hópunum, fram á síðustu stundu, eins og venjulega.
Námskeiðin fóru strax á fullt. Íþróttahópurinn skemmti sér í boltaleikjum og hoppaði einnig af trampólíni yfir á stóra dýnu og það var ótrúlega gaman hjá þeim. Grímugerðarhópurinn gerði grímur sem voru síðan málaðar í dag, leiklistar- og danshópurinn byrjaði að undirbúa sitt atriði og einnig kvikmyndahópurinn sem lagði drög að handriti stuttmyndarinnar sem verður gerð.
Í kaffitímanum var boðið upp á skúffuköku og mjólk með, og síðan fulllllt af melónum á eftir. Ekkert minna en dásamlegt.
Eftir kaffi var í boði að fara út í íþróttahús eða vera í Spilaborg (bækur, leikföng, spil, púsl, pool og fleira) en okkur fannst ferlega hvasst úti og hver vill skemma hárgreiðsluna ... það var sem sagt hárgreiðslukeppni haldin:
Góð þátttaka var í hárgreiðslukeppninni og hér eru úrslitin:
1. sæti: Anna Kristín, greiddi Lovísu
2. sæti: Vigdís Elva, greiddi Solveigu Þóru
3. sæti: Fanndís María, greiddi Ragnheiði Helgu
Frumlegasta greiðslan: Dagný Freyja, greiddi Valnýju Láru
Allar fengu stelpurnar viðurkenningarskjöl og eftir keppnina fóru sumar út í íþróttahús en aðrar kusu að vera í Spilaborg.
Í kvöldmatnum var boðið upp á grjónagraut sem sló nú bara í gegn og á eftir sporðrenndu stelpurnar næstum tonni af ávöxtum.
Kvölddagskráin reyndi vel á - en hún byrjaði með brennókeppni sem haldin var á milli hópa, Hafmeyjar sigruðu, en síðan var sundferð ... Slakað var á í heita pottinum á milli þess sem ærslast var í sundlauginni - algjörlega dásamlegt.
Kvöldhressing var á eftir - smurt brauð og safi, enginn sendur svangur í koju hér á bæ og stelpurnar voru mjög ánægðar með kvöldkaffið.
Umsjónarmaður hvers hóps las síðan kvöldsögu, fyrsta lestur framhaldssögu úr bók sem valin var í sameiningu og svo var sofnað frekar hratt og vel eftir virkilega annasaman og skemmtilegan dag.
Myndir frá deginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T5D1.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.